Þinglok og þrír kvenkyns forsætisráðherrar

SvenskaflaggÍ dag verður færslan hér á blogginu bara stutt enda mikið að gera niðri á þingi þennan daginn. Hefðbundin óvissa og kaos eru ríkjandi um þinglokin enda ætlast ráðherrarnir til að við afgreiðum marga tugi lagafrumvarpa á síðustu klukkutímum þingsins. Er ekki kominn tími til að breyta þessu vinnulagi?

Annars er ástæða til að vekja athygli á að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, verður einn af heiðursgestum á landsfundi sænsku kratanna þegar Mona Sahlin tekur við formennsku í flokknum á morgun. Þarna verður einnig formaður dönsku jafnaðarmannanna, Helle Thorning Schmidt.

Þetta er stórglæsilegt þríeyki og það er vonandi að við sjáum þessar þrjár konur innan tíðar sem forsætisráðherrar sinna landa. Það væru heilmikil tímamót.


Hræðsluáróður íhaldsins heldur ekki vatni

svefnÞað vakti eftirtekt mína hvað forsætisráðherra okkar, Geir Haarde, var úrillur og pirraður í eldhúsdagsumræðunni sem var í gærkvöldi. Hann var í eilífri vörn og engin framtíðarsýn birtist í máli hans. Reyndar hef ég ekki orðið var við vott af framtíðarsýn eða ferskar hugmyndir hjá þessari ríkisstjórn mjög lengi en þetta er að verða ein þreyttasta ríkisstjórn Íslandssögunnar.

Í málflutningi Geirs bar auðvitað hvað hæst hefðbundinn hræðsluáróður um að enginn annar en Sjálfstæðismenn geti stjórnað landinu. Auðvitað nær þessi málflutningur ekki nokkurri átt. Ég veit ekki betur en þar sem jafnaðarmenn hafa stjórnað hafi það gengið bara nokkuð vel.

Mýmörg dæmi þess eru erlendis frá en erlendir jafnaðarmenn lenda einnig í þessari taktík íhaldsmanna. En við þurfum ekki að fara út fyrir landsteinana til að sjá að jafnaðarmenn eru mjög færir við stjórnun.

Jafnaðarmenn stjórnuðu höfuðborginni í 12 ár við góðan orðstír. Fjármál borgarinnar voru tekin föstum tökum, leikskólinn var byggður upp nánast frá grunni, kynbundinn launamunur minnkaði um helming og öll þjónusta og umhverfi borgarinnar tók stakkaskiptum. Í öðrum sveitarfélögum þar sem jafnaðarmenn hafa ráðið ríkjum s.s. í Hafnarfirði, Árborg og Akranesi er svipaða sögu að segja frá.

En ef við lítum á afrekaskrá þessarar ríkisstjórnar blasir önnur mynd við. Almenningur þarf að súpa seyðið af nýjum verðbólguskatti sem rýrir lífskjör fólks um tugmilljarða króna, menntakerfið býr enn við fjársvelti, þriðji hver eldri borgara þarf að lifa undir fátæktarmörkum, 4.300 börn eru fátæk í samfélaginu, kynbundinn launamunur hjá ríkinu hefur ekkert breyst á valdatímanum og nú síðast í dag var matsfyrirtækið Fitch Ratings að lækka lánshæfismat ríkissjóðs.

Ég held að Geir og félagar ættu aðeins að líta í eigin barm þegar kemur að stjórnun.


mbl.is Fitch lækkar lánshæfismat ríkissjóðs Íslands í A+/AA+
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuskapandi fyrir lögfræðinga?

stjornarskraÍ gærkvöldi funduðum við lengi og vel um auðlindarákvæðið í stjórnarskrárnefndinni. Í nokkur skipti þurfti að fresta fundum á Alþingi þar sem fundurinn dróst á langinn. Það var mjög fróðlegt að sitja þennan fund og ljóst er að ýmsir efnislegir gallar eru málinu fyrir utan auðvitað þau sérkennilegu vinnubrögð sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa sýnt í þessu máli. Málsmetandi lögfræðingur sem kom fyrir nefndina í gærkvöldi sagði að það eina sem væri hugsanlega jákvætt við þetta frumvarp væri að það skapaði lögfræðingum atvinnu.

Þessi ummæli undirstrika vel þá óvissu sem ríkir um þetta frumvarp þeirra Geirs og Jóns. Auðvitað er það skelfilegt að eiga að fara að samþykkja stjórnarskrárfrumvarp sem sérfræðingar botna ekkert í. En vonandi er möguleiki á að bæta frumvarpið með einhverjum hætti því mér sýnist að allir stjórnmálaflokkarnir séu sammála um að tryggja beri eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum.
En það er að sjálfsögðu ekki sama hvernig það er gert.


Enn og aftur hrekjast andstæðingar aðildar út í horn

ESBHin þverpólitíska Evrópunefnd forsætisráðherra skilaði af sér í dag myndarlegri skýrslu um Evrópumálin. Össur Skarphéðinsson og ég á lokasprettinum, sátum í nefndinni fyrir Samfylkinguna. Það er alltaf gaman að sitja í svona þverpólitískum nefndum en það er ekki langt síðan ég sat í svokallaðri vændisnefnd dómsmálaráðherra. Þótt þessar nefndir klofni að lokum í afstöðu sinni þá er vinnan í þeim hins vegar gefandi og iðulega skemmtileg.

Ég vona að þessi Evrópuskýrsla hleypi einhverjum krafti í Evrópuumræðan og leiðrétti eitthvað af síendurteknum rangfærslum sem iðulega heyrast í þessari umræðu.

En það er frekar leiðinlegt, að þrátt fyrir að skýrslan sé vönduð og upplýsandi, eru sumir, og meira að segja sumir þeirra sem sátu í þessari nefnd s.s. Ragnar Arnalds, enn í
skotgröfunum þar sem keyrt er á sömu klisjunum sem æ ofan í æ hafa verið hraktar.

Síbreytilegur málflutningur andstæðinga
Mér finnst annars andstæðingar aðildar hrekjast æ meira út í horn í sínum málflutningi. Fyrst héldu menn því fram að hér myndi allt fyllast af spænskum togurum við aðild Íslands að ESB. En þeim var þá bent á þá staðreynd að kvótaúthlutun ESB byggist á grundvallareglunni um veiðireynslu og þar sem útlendingar hafa enga veiðireynslu í íslenskri lögsögu myndu Íslendingar fá allan kvóta í íslenskri lögsögu.

Þá breyttist málflutningurinn í þá veru að erlend stórfyrirtæki myndu kaupa upp öll íslensku sjávarútvegsfyrirtækin við aðild og flytja arðinn af Íslandsmiðum milliliðalaust úr landi. En þá fengu þeir vitneskju um að samkvæmt mörgum dómum Evrópudómstólsins (s.s. Kerrmálið nr. 287/81 og Jaderowmálið nr. C-216/87) er hægt að gera kröfu um að sjávarútvegsfyrirtæki sem fá kvóta í íslenskri lögssögu hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við það svæði sem reiðir sig á veiðarnar.

En þá breytist málflutningur andstæðinga aðildar aftur. Nú hét það að hinar hagstæðu reglur ESB hljóti einfaldlega að breytast í framtíðinni! En við endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB var hins vegar ákveðið að það skyldi ekki vera hróflað reglunni um veiðireynsluna og hafa fjölmargir evrópskir stjórnmálamenn og embættismenn staðfest að hún er hornsteinn sjávarútvegsstefnu ESB.

Að lokum vil ég draga fram þrjú atriði sem lúta að sjávarútvegsstefnu ESB og skýrslan staðfestir:

1. Sjávarútvegsstefna ESB byggist á nýlegri veiðireynslu. Og þar sem það eru einungis Íslendingar sem hafa veiðireynslu í íslenskri lögsögu munu einungis Íslendingar fá kvóta í íslenskri lögsögu.

2. Eftir að aðild hefur orðið að veruleika er hægt að gera kröfu um að útgerðarfyrirtæki hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við það landsvæði sem reiðir sig á veiðarnar. Þessi regla er því íslensku landsbyggðinni mjög hagstætt.

3. Aðildarríki ESB sjá sjálf um eftirlitið í sinni lögsögu. Verði Ísland aðili munu því Íslendingar sjá um og framkvæma eftirlitið í íslenskri lögsögu.


mbl.is Ragnar Arnalds: Hugmyndir um yfirráð Íslendinga ótryggar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu vera líffæragjafi? Notum ökuskírteinin.

liffæragjöfVissir þú að á Íslandi eru líffæragjafir fátíðari en annars staðar á Norðurlöndunum? Vissir þú að hér á landi fara helmingi fleiri einstaklingar árlega á biðlista eftir líffærum en þeir sem fá líffæri? Og vissir þú að á Vesturlöndum deyja nú fleiri sjúklingar sem bíða líffæragjafar en þeir sem fá líffæri? Vegna þessara staðreynda hef ég nú lagt fram þingmál sem lýtur að því að gera upp upplýsingar um vilja til líffæragjafa sem aðgengilegastar. Og sú leið sem ég hef valið er að sá vilji komi fram í ökuskírteinum einstaklinga.

Það er vandfundin betri leið en að notast við upplýsingar á ökuskírteini viðkomandi og er það t.d. gert í Bandaríkjunum. Skráning þessara upplýsinga á ökuskírteinum er einnig heppileg þar sem það eru oft látnir ökumenn sem koma til greina sem líffæragjafar.

Með því að áskilja slíka skráningu á ökuskírteini þarf fólk að ákveða hvort það kærir sig um að gefa líffæri. Hér á landi hafna ættingjar líffæragjöf ættmenna sinna í um 40% tilvika en á Spáni er þetta hlutfall helmingi lægra. Það er því ástæða að auðvelda upplýsingargjöf viðkomandi einstaklings hvort hann kæri sig um að gefa líffæri sín eða ekki.

Það er mjög mikilvægt að fjölga íslenskum líffæragjöfum en hver líffæragjöf getur bjargað allt að sex mannslífum. Fram til ársins 1991 gátu Íslendingar einungis þegið líffæri frá öðrum þjóðum en ekki lagt þau til sjálfir skv. lögum.

Nú er bara vonandi að þetta mál fljúgi í gegnum þingið og af hverju ekki? Það er ætlast til að þingið afgreiði eitt stykki stjórnarskrárfrumvarp á 4 dögum.


Star Trek og Samfylkingin

star trekUm helgina fór ég á sýninguna Tækni og vit 2007. Þetta var afar fróðleg sýning tækni- og þekkingariðnaðarins og það var ekki laust við að maður hafi farið í svona nettan framtíðarfíling í anda Star Trek. En burtséð frá því fengu sýningargestir að líta augum á atvinnulíf framtíðarinnar. Ég er sannfærður um að vaxtasprotar þjóðarinnar liggi í þessum geira og þess vegna er nauðsynlegt að það séu til staðar stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem átti sig á því.

Við í Samfylkingunni þreytumst seint á að benda á að tillögur Samfylkingarinnar röðuðu sér í efstu þrjú sætin á Sprotaþingi sem var haldið fyrir nokkrum vikum. En á þessu Sprotaþingi áttu allir stjórnmálaflokkarnir að leggja fram þrjár tillögur og síðan kusu ráðstefnugestir, sem voru starfsfólk og frumkvöðlar hjá hátæknifyrirtækjum, um tillögurnar.

Þarna fékkst staðfesting á því að það er fullkominn samhljómur milli Samfylkingarinnar og atvinnulífsins hvað þetta varðar. Samfylkingin hefur sýnt með þessari áherslu sinni að hún sé tilbúin að veðja á þekkingariðnaðinn. Ég er mjög stoltur af flokknum mínum að hafa gert það.


Dottinn í fertugsaldurinn

afmæliJæja, nú er það byrjað. Hnignunin er hafin. Fertugsaldurinn er orðinn að veruleika. Um daginn þóttist konan sjá grátt hár í vöngum mínum. Auðvitað var það helbert kjaftæði. En annars er mér nokkuð sama um gráu hárin svo fremur sem ég haldi einhverjum hárum. Dagurinn í dag er óneitanlega tímamót fyrir mig þótt þetta hafi verið óumflýjanlegt og í raun fyrirsjáanlegt, svona síðustu dagana allavega.

Ég er annars ekki sérstaklega upptekinn af aldri mínum eða í raun aldri nokkurs annars. Ég hef þó verið nokkuð hugsi yfir þessu undanfarna daga.

Þegar ég hef talað við eldri og reyndari menn þá eru þeir yfirleitt á einu máli um að í eina skiptið sem þeir upplifðu sig sem gamla hafi verið þegar þeir urðu þrítugir. Ætli það sé ekki einhver sannleikur í því? Það kemur vonandi í ljós.


Vantar einhvern stimpil frá Alþingi?

stimpillÓttalega verð ég stundum hissa á þessu vinnulagi á þinginu. Nú er minna en vika eftir af því og fjöldinn allur af þingmálum er óafgreiddur. Og það sem meira er að ráðherrarnir eru víst ennþá að koma að málum sem ekki enn hefur verið mælt fyrir í 1. umræðu og öll vinnan í nefndinni með hagsmunaaðilum er eftir. Á þessum árstíma fá hagsmunaaðilar iðulega 1-3 daga til að bregðast við frumvörpum sem munu e.t.v. hafa mikil áhrif á viðkomandi stétt eða svið.

Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Og þetta er 100% sök ráðherranna. Þeir sitja svo lengi með frumvörpin sín upp í ráðuneyti og svo ætlast þeir til að þjóðþingið stimpli herlegheitin á nokkrum dögum.

Ég nefni tvö dæmi. Í gær var í fyrsta sinn mælt fyrir 20 milljarða kr. sauðfjársamningi sem síðan á eftir að fara í vinnu í viðkomandi þingnefnd o.s.frv. Ætlast er til að þetta verði orðið að lögum innan viku. Sama gerði sami ráðherra fyrir 3 árum þegar 30 milljarða kr. mjólkursamningur fékk nákvæmlega viku afgreiðslutíma í þinginu rétt fyrir þinglok vorið 2004.

En ráðherrarnir vita að þeir komast upp með þessi vinnubrögð því þeirra eigið lið, stjórnarþingmennirnir sem ekki eru ráðherrar, láta þá komst upp með það ár eftir ár.


Er þessum mönnum ekkert heilagt?

skjaldamerkiÁ stjórnarskrá lýðveldisins að verða að pólitísku bitbeini milli stjórnarflokkanna? Gátu menn ekki gert þetta með betri hætti en raun ber vitni? Hefur stjórnarsáttmálinn ekki legið fyrir í 4 ár? Mér hefur alltaf fundist stjórnarskráin vera heilagt plagg sem ber að virða og meðhöndla af mikilli varúð. Að sjálfsögðu á að breyta henni í samræmi við eðlilegar kröfur nútímans. En mér finnst að stjórnarmeirihlutinn hafi sýnt ótrúlegan subbuskap með þessum næturfundum sínum til að bjarga stjórnarsamstarfinu.

Iðulega hafa komið upp dæmi þess að stjórnarflokkarnir hafa virt aðvaranir um hugsanleg stjórnarskrábrot að vettugi. Niðurstaðan er sú að það er talsvert algengara að dómstólar komist að því að stjórnarskráin sé brotin hér á landi heldur en á hinum Norðurlöndunum. Þetta er að mínu mati enn eitt dæmið um að sumir menn hafi verið of lengi við völd, Sjálfstæðisflokkurinn stöðugt í 16 ár og Framsóknarflokkurinn stöðugt í 36 ár, að 4 árum undanskildum.


mbl.is Össur: Stjórnarskráin pólitískt bitbein stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin lætur verkin tala í jafnréttismálum

jafnrettisvogJafnréttismál verða að vera kosningamál í vor. Samfylkingin mun leggja sitt af mörkum til að svo megi verða. Á þessu kjörtímabili hefur Samfylkingin reglulega tekið jafnréttismál upp á þingi og bent á nauðsynlegar aðgerðir en einnig gagnrýnt ítrekuð brot ríkisstjórnarflokkanna á jafnréttislögunum í tengslum við stöðuveitingum. Til að undirstrika mikilvægi málaflokksins vill Samfylkingin að jafnréttismálin verði sett undir forsætisráðuneytið svo þau verið höfð til hliðsjónar í öllum málaflokkum.

Minnkuðum kynbundinn launamun um helming 
Samfylkingin hefur barist gegn launleynd sem viðheldur kynbundnum launamun. Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur tókst að minnka kynbundinn launamun um helming í Reykjavík. Á sama tíma tókst ríkisstjórninni hins vegar ekki að minnka kynbundinn launamun um krónu.

Við höfum lagt til breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni með Katrínu Júlíusdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar. Við mótmæltum harkalega skerðingu ríkisstjórnarinnar á valfrelsi kvenna varðandi fæðingar þegar MFS-einingunni (meðganga, fæðing, sængurlega) var lokað í vetur.

Samhljómur milli Samfylkingarinnar og kvennahreyfinganna 
Þá er fullkominn samhljómur milli Samfylkingarinnar og hina fjölmörgu kvennahreyfinga í landinu þegar kemur að kynbundnu ofbeldi og höfum við lagt til á þingi að sett verði sérstakt lagaákvæði um heimilisofbeldi.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem státar af konu sem formanni og það skiptir máli. Þrír fyrstu þingflokksformenn Samfylkingarinnar voru konur. Nánast helmingur allra kvenna sem var kosinn á þing í síðustu kosningum komu úr einum flokki, Samfylkingunni. Á sama tíma var kynjahlutfallið Sjálfstæðisflokksins var 18 - 4 í síðustu kosningum, körlum í vil.

Samfylkingin ætlar að halda áfram að berjast fyrir jafnrétti og í vor ætlum við saman að ná fram þeim sögulega árangri að gera konu að forsætisráðherra í fyrsta skipti.

Jafnrétti kynjanna er sameiginlegt úrlausnarefni karla og kvenna. Við þurfum aðgerðir í jafnréttismálum. Og þær aðgerðir mun Samfylkingin framkvæma. Samfylkingin meinar það sem hún segir þegar kemur að jafnréttismálum. Og það er vert að minnast þess á alþjóðlega baráttudegi kvenna.


Mikilvægustu fundir stjórnmálamannsins

althingiMikilvægustu fundir hvers stjórnmálamanns eru þingflokksfundir. En hvernig fara slíkir fundir fram? Til að byrja með er rétt að upplýsa að þingflokksfundir eru haldnir tvisvar í viku hjá öllum flokkum. Og allir flokkarnir halda fundi sína á sama tíma og er gert ráð fyrir þeim í dagskrá þingsins. Fyrri fundurinn er kl. 13:30 á mánudögum og stendur til kl. 15:00. Og seinni fundurinn er á miðvikudögum kl. 16 og er til kl. 18:00. Til dæmis er þingflokksfundir í dag.

Að sjálfsögðu halda þingflokkar oftar fundi ef þörf krefur. Það er sérstaklega áberandi þegar þinglok nálgast en þá þurfa þingflokkar að geta tekið ákvarðanir hratt.

Taktíkin og pólitíkin rædd
Á þingflokksfundum er taktíkin á þinginu og pólitíkinni rædd. Stjórnarflokkarnir fara yfir frumvörpin frá ráðherrunum eftir að ríkisstjórnin hefur farið yfir hvert frumvarp fyrir sig sérstaklega og afgreitt. Stundum stoppa frumvörp ráðherranna í þingflokkum stjórnarflokkanna og stundum hafa einstakir stjórnarþingmenn einhverja fyrirvara á þeim.

Góðra vina hópur
En við í stjórnarandstöðunni gerum þetta aðeins öðruvísi enda spyr okkur enginn álits fyrirfram um stjórnarfrumvörpin. Við erum meira að meta hugsanleg tilefni til að taka upp einhver sérstök mál á þinginu sem brenna á þjóðinni hverju sinni. Einnig ræðum við þau þingmál sem eru til umræðu í þinginu og í nefndum og síðan okkar eigin þingmál. Þá erum við nokkuð dugleg að fá gesti á fund þingflokksins en þannig fáum við betri mynd af viðkomandi máli.

Annars er stemmningin á þingflokksfundum alltaf góð og það er gott að starfa þar í náinni samvinnu samherja og félaga. 


Heilsubælið í Gervahverfi

FramsóknarkindinÓttalega eru ríkisstjórnarflokkarnir að koma illa út þessari deilu sín á milli um auðlindamálin. Eins og venja er fyrir kosningar hefur stjórnarandstöðuflokkunum fjölgað um einn. Framsóknarflokkurinn, sem hefur verið í ríkisstjórn stöðugt síðan árið 1971 að 4 árum undanskildum, er kominn í stjórnarandstöðugírinn og hluti af þeirri vegferð er að pikka fight við Sjálfstæðisflokkinn.

Stjórnarslit!
Núna er það sjálfur stjórnarsáttmálinn sem er í húfi og hafa stór orð um afsögn ráðherra og stjórnarslit fallið. Auðvitað mun hvorugt gerast enda eru þessir flokkar límdir saman á mjöðmunum.

Framsóknarráðherrar hafa lýst digurbarkalega yfir óánægju sinni með framgöngu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og hótað stjórnarslitum. En þegar á hólminn er komið gerist lítið á Framsóknarbænum eins og venjulega enda eru þeir ekki vanir að standa við stóru orðin.

En Framsókn barðist ekki nóg...
Sjálfstæðismennirnir benda hins vegar á að Framsóknarmenn hafi ekki barist nægjanlega mikið fyrir þessu máli í stjórnarskrárnefndinni og þess vegna eigi nú kannski ekkert að uppfylla þennan hluta stjórnarsáttmálans sem lýtur að því að ,,ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá."xd

Lýðskrum í dag en stefna í gær
Og nú hefur þingmaður Sjálfstæðisflokksins komið sér í umræðuna og sagt að svona breytingar á stjórnarskránni væru nú bara lýðskrum. Bíddu nú við, er þetta sami þingmaður og sami flokkur sem lét setja þessi sömu orð í stjórnarsáttmálann og samþykkti? Var það ekki lýðskrum á þeim tíma? Hvað hefur eiginlega breyst?

Þessi vitleysisgangur á ríkisstjórnarheimilinu sýnir vel að þessi ríkisstjórn þarf einfaldlega frí enda ástandið farið að minna allverulega á Heilsubælið í Gervahverfinu. En það sem meira er, þjóðin þarf frí frá ríkisstjórninni.


Lobbýhópar skora

kjosaNú eru einungis rúmir 2 mánuðir eftir af kjörtímabilinu og það hefur ýmislegt drifið á daga mína sem þingmaður. En það var eitt sem vakti eftirtekt mína fljótlega eftir að ég settist á þing. Það voru áhrif hagsmunahópa eða svokallaðra lobbýhópa. Við þekkjum öll lobbýhópana sem við sjáum í bandarísku sjónvarpsþáttum en ég hefði aldrei trúað því að slíkir hópar þrifust raunverulega á Íslandi, hvað þá að þeir gætu hreyft við málum.

Fyrsta sumarið mitt sem þingmaður byrjuðu tölvupóstarnir að flæða til mín með alls kyns erindi. Á þeim tíma kom fljótlega í ljós að einn ákveðinn hópur var meira áberandi en aðrir hópar. Þetta voru ekki útgerðarmenn eða bændur. Ekki heldur verkalýðshreyfingin eða kvenréttindasamtök. Það voru rjúpnaskyttur. Mjög reiðar rjúpnaskyttur. Þær áttu ekki orð yfir fyrirhuguðu veiðibanni á rjúpum og helltust yfir mann formælingarnar fyrir þessa stórhættulegu og ólýðræðislegu og jafnvel óíslenskulegu ákvörðun sem ég kom reyndar ekki nálægt.

Svona hélt þetta áfram allt haustið þar til að nokkrir þingmenn úr nokkrum ónefndum flokkum guggnuðu og birtust með þingmál, rjúpnaskyttum í hag. En allt kom fyrir ekki og rjúpurnar sluppu þessi jól. Nú er auðvitað búið að afnema þetta veiðibann.

Aðrir lobbýhópar eru meira hefðbundnir, og þeir, ykkur að segja, ná sínu fram. Aðrir hópar sem hafa ekki eins sterka málsvara verða því undir í kapphlaupinu um skattfé almennings.

Áhrif lobbýhópa munu án efa aukast í íslenskri pólitík á næstu misserum.


Allir eins og Framsókn?

BROSKARLFormaður Framsóknarflokksins hefur undanfarið verið að ráðleggja kjósendum að varast eftirlíkingar. Ein spurning, vill einhver stjórnmálaflokkur verða eins og Framsókn?

What happens in Vegas, stays in Vegas

Althingishus"What happens in Vegas, stays in Vegas". Þessi frasi varð mér minnistæður þegar ég kom heim úr svokallaðri þingveislu í gærkvöldi en þrátt fyrir flensuskít lét ég mig hafa það og mætti. Þetta var fínt kvöld og með betri þingveislum sem ég hef farið í. Þingveislan er í raun árshátíð þingmanna þar sem forseti Íslands og frú eru heiðursgestir. Einkenni þessarar veislu er auðvitað að fólk má einungis tala í bundnu máli, og menn nýttu sér það óspart. Reyndar er þetta yfirleitt sama liðið sem fer upp aftur og aftur.

Flestar vísurnar voru nokkuð fyndar og margar voru með mjög svo eitruðum broddi. Mitt borð kom nokkuð vel út en Ellert, Kata Júl, Anna Stína og Gunna Ö. fóru öll með beittar vísur sem slógu í gegn. Eftir að þingmenn höfðu ort nægju sína voru síðan flutt nokkur tónlistaratriði sem unun var að fylgjast með.

En svo stigu þingmenn dans og það er, skal ég segja ykkur, sjón sem ég gleymi ekki í náinni framtíð.


Að rata heim

EU og KA svarthvitFjölskyldan á Framnesveginum á 2 ketti. En þrátt fyrir að við eigum þessa tvo ketti þá er ég með ofnæmi fyrir þeim. Ég var reyndar talsmaður þess að fá þessi blessuðu dýr og því læt ég mig hafa það að taka eina pillu á dag. Þegar yngri dóttirin fæddist fyrir tæpum 2 árum voru uppi vangaveltur hvort hún hefði erft ofnæmisgen pabba síns. Og vegna þess ákváðum við þá að koma köttunum fyrir í pössun og fengu amman og afinn á Seltjarnarnesinu þann heiður að hýsa læðurnar.

Þetta er kannski ekki virði frásagnar nema einum sólarhringi síðar birtist annar kötturinn allt í einu heima. Hann hafði sem sagt labbað yfir allt Seltjarnarnesið og í gegnum allan Vesturbæinn og loks fundið lítið gult hús við Framnesveginn sem hann kannaðist við.

Þetta vakti auðvitað mikla furðu og jafnvel aðdáun á heimilinu. En kettirnir þurftu að vera í pössun í nokkra daga og voru því settir aftur í pössun og nú hjá hinni ömmunni og hinum afanum sem reyndar búa einnig á Nesinu. En læðan, Lína, endurtók leikinn og gekk heim, augljóslega mjög ósátt við þetta nýja fyrirkomulag.

Eftir þetta var nú ekki hægt að setja þær aftur í útlegð. Enda kom síðar í ljós að yngri dóttirin var ekki með ofnæmi og því lifa kettirnir núna góðu lífi á Framnesveginum og heimilisfaðirinn heldur áfram að taka eina pillu á dag.


Flensan og skoðanakannanir

samfylkingasólEr ekki bara einhver flensa í gangi hjá þjóðinni? Jákvæðu fréttirnar í þessari skoðanakönnun eru auðvitað að ríkisstjórnin er fallin. En það er alveg ljóst að við í Samfylkingunni ætlum okkur meira í kosningunum en það sem þessi könnun sýnir. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga árið 2003 toppuðum við í janúar og nú ætlum við að toppa þann 12. maí. En það vekur eftirtekt hversu margir eru óákveðnir í þessum könnunum sem er verið að birta þessar vikurnar.

Ég er annars bjartsýnn fyrir okkar hönd enda er hugmyndafræðin um frjálslynda jafnaðarmennsku okkar tromp. Með hækkandi sól og betri heilsu landans mun almenningur án efa fylkjast á bak við Samfylkinguna.


mbl.is VG með meira fylgi en Samfylking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt að ég væri að deyja í morgun

spítaliÉg hef sjaldan séð eftir neinu jafnmikið og inflúensusprautunni sem mér bauðst í haust. Eins og gamla fólkinu er þingmönnum boðið árlega bólusetning gegn flensu og ég hef alltaf þegið hana, nema núna. Í þetta sinn var bólusetningin í miðju prófkjöri og því taldi ég mig ekki hafa tíma til að fá hana. Mikil mistök.

Í morgun hélt ég að væri að deyja. Konan er annars dugleg að dekra við mig og heldur stöðugu streymi af tei til mín. Stelpunum á Framnesveginum finnst þetta hins vegar vera eitthvert sport hjá pabbanum og segjast líka vilja vera veikar.

Það sem þessi litlu skinn vita ekki. 


Staksteinar

steinarÞað er nú ekki oft sem við í Samfylkingunni getum fagnað skrifum Staksteina Morgunblaðsins. En við getum þó gert það í þetta sinn. Mér finnst það hreint út sagt ágætt að þessi munur sem er á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í matvælamálinu komi fram. En auðvitað eru snertifletir á milli flokkana t.d. í mennta-, velferðar- og umhverfismálum. En á öðrum sviðum getur verið talsverður munur. Matvæla- og landbúnaðarmálin eru eitt af þeim.

Þetta eru tveir mismunandi flokkar eftir allt saman. En það er kannski eitthvað sem ekki er hægt að segja um ríkisstjórnarflokkana sem keppast við að benda á að þeir séu í raun sami flokkurinn með sömu skoðunina á öllum málum.


Evrópa víða á dagskrá

ThjodminjaÉg vek athygli á þessum fyrirlestrum sem ungir fræðimenn flytja á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og hefjast núna klukkan 13:00 í dag í Þjóðminjasafninu.

Ég hefði sjálfur gjarnan viljað komast en þarna munu meðal annars vera flutt erindi með yfirskriftirnar: "Þjóðarstolt eða samrunaþrá? Almenningsálit á Íslandi og Evrópusambandsaðild" og "Undirliggjandi hugmyndir í íslenskum hafréttarmálum og neikvæðri afstöðu ráðamanna til sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins"  

Dagskráin nefnist "Dagur ungra fræðimanna" og munu alls 6 ungir fræðimenn kynna niðustöður rannsókna sinna á Evrópummálum.

Ástæða þess að ég missi af þessari áhugaverðu dagskrá er sú að ég er að fara annan mikilvægan fund sem tengist þessum málaflokki, nánar tiltekið í Evrópunefndinni sem forsætisráðherra skipaði árið 2004.

Þar er ég annar fulltrúi Samfylkingarinnar en hinn er Össur Skarphéðinsson. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er formaður nefndarinnar.

Skipunarbréf nefndarinnar skilgreinir hlutverk hennar svona:

Helstu hlutverk nefndarinnar eru m.a. að kanna framkvæmd EES-samningsins, hvort og þá hvers konar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu, hvað aðild myndi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið og hverjir væru kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland. Auk þess sem skilgreind verði staða Íslands miðað við hina nýsamþykktu stjórnarskrá ESB. Þá verði á vettvangi nefndarinnar rædd þau álitaefni önnur að því er tengsl Íslands og Evrópusambandsins varða og nefndin telur til þess fallin að skýra stöðu Íslands sérstaklega í þessu samhengi.

Eins og sést þá hittir viðfangsefnið vel á umræðurnar eins og þær hafa verið á Íslandi  undanfarin misseri um Evruna o.fl. og ég á von á því að nefndin skili af sér fljótlega. Það verður spennandi að sjá hvort að niðurstöðurnar endurspegli þá breytingu sem er að verða í samfélaginu og atvinnulífinu á afstöðunni til Evrópusamstarfsins og sem ég hef skynjað svo sterkt undanfarið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband