Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2004

Vinnutilhögun unglækna

Nýverið tók ég upp á Alþingi málefni unglækna. Beindi ég spurningum til heilbrigðisráðherra um hvort hann teldi núverandi vinnutilhögun unglækna forsvaranlega og hvort hann væri tilbúinn að beita sér fyrir úrbótum í þessu máli. Nú er vonandi að það komist einhver hreyfing á málið. Hér á eftir má finna umræðuna af minni hálfu og svör ráðherrans.
Ágúst Ólafur: ,,Frú forseti. Vinnutilhögun lækna í starfsnámi eða svokallaðra unglækna hefur lengi verið deilumál hér á landi. Félag unglækna hefur lengi bent á að núverandi tilhögun vinnu unglækna nær ekki nokkurri átt. Unglæknar telja að jafnvel sé verið að brjóta á þeim lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Þessi lög eiga m.a. að tryggja eðlilega hvíld viðkomandi launþega.
Hins vegar hefur verið bent á að kjarasamningar lækna undanþiggja lækna frá ýmsum ákvæðum sem má finna í lögunum, svo sem frítökurétti. Sé hins vegar vikið frá lögbundnum lágmarksréttindum er alveg ljóst að lög eru brotin. Kjarasamningar geta ekki breytt lögbundnum lágmarksréttindum. Nú er Félag unglækna að huga að því hvort það muni fara í málssókn vegna þessa. Samkvæmt skýrslu starfshóps um vinnutíma Landspítalans frá 5. mars sl. sem var send Jóhannesi Gunnarssyni lækningaforstjóra, og ég hef undir höndum, kemur fram að m.a. á geð-, gjörgæslu- og svæfingardeildum séu sólarhringsvaktir hjá kandidötum og læknum án sérfræðileyfis. Vaktir á viðkomandi deildum hjá þessum viðkomandi einstaklingum standast ekki ákvæði laga um lágmarkshvíld.
Of mikil vinna lækna og þar á meðal unglækna er engum til góða. Þessir einstaklingar vinna afar mikla vinnu þar sem líf og heilsa eru iðulega undir. Að undanskilja unglækna frá eðlilegum hvíldartíma, hvað þá án nokkurra réttinda á móti, er ekki rétt að gera. Breytingar á vöktum unglækna voru byrjaðar í haust með því að unglæknar fengu frí frá dagvinnu fyrir og eftir vakt. Þá mætti fólk í vinnuna kl. 16 og vann til kl. 8 morguninn eftir. Samkvæmt forsvarsmönnum unglækna gat yfirstjórn spítalans hins vegar ekki sætt sig við það og skipaði því sviðsstjórum að breyta aftur yfir í gamla kerfið þar sem unglæknir vinnur í rúman sólarhring þegar hann er á vakt. Í núverandi kerfi getur því unglæknir þurft að vera á sólarhringsvakt og síðan þurft að vinna næsta dag á eftir á venjulegu dagvinnukaupi. Hver maður sér að þetta fyrirkomulag nær ekki nokkurri átt. Hér er því bæði verið að brjóta á réttindum unglækna og sömuleiðis er það ekki nokkrum manni í hag að hafa örþreyttan lækni á vakt þar sem ákvarðanir hans geta varðað líf og dauða.
Ég spyr þess vegna hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji vinnutilhögun svokallaðra unglækna forsvaranlega og einnig vil ég fá að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir breytingum á vinnutilhögun unglækna, t.d. með frítökurétti, álagi eða breyttum vöktum handa unglæknum."

Heilbrigðisráðherra: ,,Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur beint til mín fyrirspurn um vinnutilhögun unglækna. Sem kunnugt er hefur það viðgengist víða um lönd að unglæknar, þ.e. læknar í starfsþjálfun, hafa áður og fyrrum gengið langan vinnudag svo að úr hófi hefur verið, bæði hérlendis og erlendis. Á þessum þáttum hefur markvisst verið tekið og má í því sambandi minna á að læknar í starfsnámi hafa verið felldir undir vinnutímaákvæði Evrópusambandsins, enda hafa fyrstu tilskipanir þaðan reynst óframkvæmanlegar fyrir mörg lönd. Munu þau ákvæði vera í endurskoðun.
Á Íslandi hefur þessi vandi helst snúið að stóru sjúkrahúsunum, Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hef ég fyrir nokkru beint þeim tilmælum til sjúkrahúsanna að vinna ákveðið að bættu skipulagi vinnutíma unglækna þannig að hann falli að öllum gildandi ákvæðum og verði jafnframt fjölskylduvænn. Sjúkrahúsin hafa tekið á þessum málum og hefur þeim tekist að koma þeim í betra horf á öllum stærstu sviðum spítalanna þó að oft hafi reynst erfitt að samræma vinnutíma og vaktatilhögun á öllum deildum. Einnig hefur á sumum deildum verið það lítið vinnuálag á næturnar að unglæknar hafa frekar kosið að halda gildandi fyrirkomulagi óbreyttu í stað þess að hafa vaktir styttri en að sama skapi þéttar.
Ég hef fylgst vel með ástandi þessara mála, tel að þau hafi á undanförnum árum lagast verulega hvað vinnuálag lækna í starfsnámi snertir. Verður það að teljast í langflestum tilvikum fyllilega forsvaranlegt þó að vissulega geti verið undantekning þar á."
Ágúst Ólafur: ,,Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Mér fannst ég skynja skilning hjá hæstv. heilbrigðisráðherra á þessu vandamáli en hins vegar fannst mér einnig skorta tilfinnanlega vilja til að ganga alla leið og laga þetta. Það má vel vera að þetta hafi batnað hægt og rólega á sumum deildum en vandamáli af þessu tagi verðum við að kippa í liðinn sem fyrst. Mér finnst aðkoma hæstv. heilbrigðisráðherra nauðsynleg. Ég tel að hann eigi að beita sér fyrir beinum breytingum hvað þetta varðar, ég tala ekki um ef lög eru brotin. Ef lög um hvíldartíma eru brotin er það auðvitað háalvarlegt. Eins og fram kom í máli mínu er Félag unglækna að huga að dómsmáli vegna þessa máls og það er búið að draga það félag ansi lengi á úrbótum með þeim svörum að málið sé að fara að batna. Hins vegar gerist lítið í þeim efnum.
Ég tel það einnig á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra ef spítalinn er hreinlega undirmannaður, ef kerfið býður upp á það að viðkomandi læknir, unglæknir í þessu tilviki, vinni í of langan tíma. Þá er eitthvað að. Ég tel enn fremur á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra sé öryggið á spítalanum, bæði gagnvart starfsmönnum og sjúklingum. Það er á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra að við höfum ekki örþreytta lækna til að sinna þeim verkum sem þeim ber að sinna. Svo tel ég einnig að kjör starfsmannanna séu á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra ásamt þeim réttindum sem þeir hafa. Ef verið er að brjóta einhver ákveðin réttindi á unglæknum eða ekki komið til móts við eðlilegar kröfur af þeirra hálfu tel ég að ráðherrann þurfi að beita sér af meiri krafti en ég gat lesið vilja um í svari hans. Ég vona að hann fari í gang, hafi samband við yfirstjórn spítalans og að þetta mál verði leyst farsællega því hér er, eins og oft þegar heilbrigðismál eru til umræðu, ansi mikið í húfi."
Heilbrigðisráðherra: ,,Virðulegi forseti. Já, ég tek undir það að hér er mikið í húfi eins og ávallt þar sem heilbrigðiskerfið er að verki og heilbrigðisstarfsmenn koma nálægt.
Ég endurtek það sem kom fram í svari mínu að það er nokkuð liðið síðan ég beindi skriflegum tilmælum til spítalanna um að fara yfir þessi mál og laga þau að þeim reglum sem fyrir hendi eru. Að sjálfsögðu munum við fylgjast með því áfram hvernig framkvæmdin verður á því. Ég hef í rauninni ekki mikið meira um það að segja annað en það að ég hef áhuga á að þessi mál séu í sem bestu lagi og að allt öryggi sé tryggt í þeim.
Það má bæta því við í lokin að það er ekki alveg rétt sem Jóhannes Kristjánsson hefur eftir mér á samkomum að ég ætli að bíða með að semja við unglæknana þangað til þeir verða gamlir. Það eru ýkjur. Ég hef einsett mér að fylgjast með þessum málum."

Heimilisofbeldi-þingmál

Ég hef nú lagt fram þingsályktun á Alþingi um að setja lagaákvæði um heimilisofbeldi.

Heimilisofbeldi er eitt algengasta mannréttindabrot í heiminum en hvergi er minnst á heimilisofbeldi í íslenskri löggjöf og það er hvergi skilgreint. Það má því segja að heimilisofbeldi séu týndur brotaflokkur í kerfinu. Nú er dæmt eftir mjög mörgum ólíkum lagaákvæðum fyrir heimilisofbeldi sem þó eru ekki fullnægjandi að því varðar heimilisofbeldi.

Í heimilisofbeldismálum er helst dæmt eftir ákvæðunum hegningarlaga um líkamsárásir sem leggja áherslu á líkamlega áverka og aðferðina við brotið. Áhöld eru því um hvort að þessi ákvæði ein og sér taki nægilega á heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi getur verið af ýmsu tagi, þ.e andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem oft nær yfir langan tíma, er jafnvel án sýnilegra áverka og gerist innan veggja heimilisins. Þetta markar að nokkru leyti sérstöðu þessara brota.

Í dómaframkvæmd fer refsing vegna líkamsmeiðinga einnig fyrst og fremst eftir þeirri aðferð sem beitt er og þeim áverkum sem þolandi hlýtur. Hins vegar getur verið um að ræða mjög alvarlegt heimilisofbeldi án mikilla líkamlegra afleiðinga og án hættulegra aðferða og þá getur legið talsvert lægri refsing fyrir heimilisofbeldi samkvæmt núgildandi lagaákvæðum.

Flutningsmenn vilja lagaákvæði sem skilgreini heimilisofbeldi í hegningarlögum þannig að þau nái yfir slík brot með heildstæðum og fullnægjandi hætti. Þannig verður íslenskt réttarkerfi betur í stakk búið að taka á þessum brotum.
Hægt er nálgast málið í heild sinni hér.

Sitjum við borðið



Ég fékk það góða tækifæri að heimsækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrir allstuttu. Það var mikil og góð reynsla. Þarna fékk maður að fylgjast með umræðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem Kofi Annan stjórnaði um konur og frið. Þetta voru afar áhugaverðar umræður enda umræðurefni gríðarlega áhugavert.
Allsherjarþingið sjálft var einnig spennandi vettvangur en það er eitthvað heillandi við stofnun þar sem allar þjóðir heims eiga sína fulltrúa. Við sem vorum þarna í New York nýttum tækifærið og fylgdust með einni vinnunefnd sem hafði m.a. til umræðu tillögu Kosta Ríka á að banna botnvörpuveiðar. Þetta er að sjálfsögðu mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga en Tómas Heiðar lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu kynnti málstað Íslendinga afar vel.

Glæsileg frammistaða Tómasar Heiðars
Í þessari umræðu sá maður vel hvað góður undirbúningur hefur mikið að segja. Tómas Heiðar leiddi alla umræðuna í þessari nefnd og fékk oftar en ekki nefndina til að vera sammála sér. Þarna voru öflugar þjóðir á borð við Ástralía, Nýja-Sjáland og jafnvel Noregur ekki að fullu leyti sammála okkur. Fulltrúar Bandaríkjanna og Japans voru ekki margorðir á þeim fundum sem ég fyldist með en lögðu þó eitt og eitt orð í belg. Kínverjarnir virtust einnig vera stuttorðir.

Þarna sást vel að það skipti ekki öllu máli að Ísland væri algjört smáríki miðað við aðrar þjóðir þarna. Það var hlustað á okkar fulltrúa og hann fékk nefndina til gera hitt og þetta. Að lokum tókst Tómasi Heiðari að koma í veg fyrir að tillaga Kosta Ríka yrði samþykkt þannig að íslenskum hagsmunum var borgið.

Aðalatriðið er að fá sitja við borðið
Þessi atburðarás sem maður fékk smáinnsýn í leiddi hugann minn að umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Iðulega heyrist í þeirri umræðu að það verður ekkert hlustað á Íslendinga þar sem við erum svo fá og smá.
Fundirnir í New York staðfestu þó það sem ég hef lengi haldið fram að það skiptir ekki öllu frá hvaða landi þú kemur heldur skiptir máli hvað þú segir. Ef þú situr við borðið og ert undirbúinn þá er hægt að ná þínu fram. Aðalatriðið er að fá að sitja við borðið og þá er hlustað á þig.

Í Evrópumálunum fáum við hins vegar ekki að sitja við borðið. Beinar ákvarðarnir sem varða íslenska hagsmuni og íslenskt samfélag eru því teknar í Brussel án þess að nokkur aðili frá Íslandi hefur nokkuð um það að segja. Það er ekki gott fyrir sjálfstæða og fullvalda þjóð.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 144253

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband