Enn og aftur hrekjast andstæðingar aðildar út í horn

ESBHin þverpólitíska Evrópunefnd forsætisráðherra skilaði af sér í dag myndarlegri skýrslu um Evrópumálin. Össur Skarphéðinsson og ég á lokasprettinum, sátum í nefndinni fyrir Samfylkinguna. Það er alltaf gaman að sitja í svona þverpólitískum nefndum en það er ekki langt síðan ég sat í svokallaðri vændisnefnd dómsmálaráðherra. Þótt þessar nefndir klofni að lokum í afstöðu sinni þá er vinnan í þeim hins vegar gefandi og iðulega skemmtileg.

Ég vona að þessi Evrópuskýrsla hleypi einhverjum krafti í Evrópuumræðan og leiðrétti eitthvað af síendurteknum rangfærslum sem iðulega heyrast í þessari umræðu.

En það er frekar leiðinlegt, að þrátt fyrir að skýrslan sé vönduð og upplýsandi, eru sumir, og meira að segja sumir þeirra sem sátu í þessari nefnd s.s. Ragnar Arnalds, enn í
skotgröfunum þar sem keyrt er á sömu klisjunum sem æ ofan í æ hafa verið hraktar.

Síbreytilegur málflutningur andstæðinga
Mér finnst annars andstæðingar aðildar hrekjast æ meira út í horn í sínum málflutningi. Fyrst héldu menn því fram að hér myndi allt fyllast af spænskum togurum við aðild Íslands að ESB. En þeim var þá bent á þá staðreynd að kvótaúthlutun ESB byggist á grundvallareglunni um veiðireynslu og þar sem útlendingar hafa enga veiðireynslu í íslenskri lögsögu myndu Íslendingar fá allan kvóta í íslenskri lögsögu.

Þá breyttist málflutningurinn í þá veru að erlend stórfyrirtæki myndu kaupa upp öll íslensku sjávarútvegsfyrirtækin við aðild og flytja arðinn af Íslandsmiðum milliliðalaust úr landi. En þá fengu þeir vitneskju um að samkvæmt mörgum dómum Evrópudómstólsins (s.s. Kerrmálið nr. 287/81 og Jaderowmálið nr. C-216/87) er hægt að gera kröfu um að sjávarútvegsfyrirtæki sem fá kvóta í íslenskri lögssögu hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við það svæði sem reiðir sig á veiðarnar.

En þá breytist málflutningur andstæðinga aðildar aftur. Nú hét það að hinar hagstæðu reglur ESB hljóti einfaldlega að breytast í framtíðinni! En við endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB var hins vegar ákveðið að það skyldi ekki vera hróflað reglunni um veiðireynsluna og hafa fjölmargir evrópskir stjórnmálamenn og embættismenn staðfest að hún er hornsteinn sjávarútvegsstefnu ESB.

Að lokum vil ég draga fram þrjú atriði sem lúta að sjávarútvegsstefnu ESB og skýrslan staðfestir:

1. Sjávarútvegsstefna ESB byggist á nýlegri veiðireynslu. Og þar sem það eru einungis Íslendingar sem hafa veiðireynslu í íslenskri lögsögu munu einungis Íslendingar fá kvóta í íslenskri lögsögu.

2. Eftir að aðild hefur orðið að veruleika er hægt að gera kröfu um að útgerðarfyrirtæki hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við það landsvæði sem reiðir sig á veiðarnar. Þessi regla er því íslensku landsbyggðinni mjög hagstætt.

3. Aðildarríki ESB sjá sjálf um eftirlitið í sinni lögsögu. Verði Ísland aðili munu því Íslendingar sjá um og framkvæma eftirlitið í íslenskri lögsögu.


mbl.is Ragnar Arnalds: Hugmyndir um yfirráð Íslendinga ótryggar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ágúst Ólafur,

Mér finnst þú efnilegur stjórnmálamaður og veit að þú ert vel menntaður. En þú ert greinilega ungur.  Mér finnst þú óvirða skoðanir þeirra sem vilja ekki aðild að Evrópusambandinu líkt þeir séu bara heimskir og illa gefnir sbr. fyrirsögnina sem þú notar á pistilinn.

Ég er hræddur við aðild að Evrópusambandinu vegna þess sjálfstæðisafsals sem ég tel það fela í sér. Í margar aldir óskuðu íslendingar þess að vera sjálfstæðir og fengu það 1944. Síðan eru liðin 62 ár og land og þjóð hefur dafnað það vel á þessum tíma að öllu atlæti að ég sé ekki ástæða til að gerast aftur nýlenduveldi erlends ríkis sem í þessu sambandi væri stjórn Evrópusambandsins í Brussel. Ég tel engan mun á að vera á forræði dana eða Evrópusambandsins.

Öll rök um efnahagslegan ávinning eru ósannfærandi vegna þess að við erum orðin leiðandi þjóð í Evrópu í velmegun og ríkidæmi skv. flestum stöðlum. Við myndum þurfa að greiða skatta til ESB til þeirra ríkja sem standa okkur efnahagslega að baki.

Þau vandamál sem við eigum við að eiga í sambandi við verð á matvælum og ýmsu öðru eru að mestu heimatilbúinn ofurtollamál vegna landbúnaðar sem ekki hefur verið tekist á við. Við þurfum ekki á aðstoð þunglamalegs ESB batterís til að segja okkur til í þessu efni eða að framkvæma fyrir okkur aumingjana tollalagabreytingu.

Aðild eða ekki aðild að ESB verður á endanum byggð á tilfinningalegum rökum sem verða ekki einfalt reiknisdæmi þegar þar að kemur. Ég kýs að halda sjálfstæði þessarar eyþjóðar og finn ekki til meiri samkenndar með tyrkjum og grikkjum (sem eru nú ekki sérstakir vinir) fremur en Afríkuþjóðum, sem við hefðum gott af að vingast við og hjálpa frekar en ESB löndum. Þeir þurfa meira á okkar hjálp að halda.

Ég skil þá sem vilja ESB aðild en er bara ekki sammála, þú mátt virða skoðanir okkar hinna án þess að gera lítið úr gildum ástæðum fyrir því eins ég tel mig (og fleiri) hafa.

Ég held að þú eigir eftir að eiga ágætan frama í pólitíkinni þrátt fyrir þetta! 

Haukur Nikulásson, 13.3.2007 kl. 20:51

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hún er gjörsamlega óskiljanleg þessi sjúklega ESB þráhyggja ykkar þarna í Samfylkingunni og minnir á "selja land/grafa bein" heilkennið, eins og því er lýst í Atómstöðinni. 

Jóhannes Ragnarsson, 13.3.2007 kl. 22:59

3 identicon

Sammála þér Haukur.  

Það sem mér finnst reyndar mest freistandi varðandi inngönguna í ESB er að þá úthýsum við stórum hluta löggjafavaldsins til Brussel og verðum því minna háð íslenskum stjórnmálamönnum, sem upp til hópa viðhalda mörgum af þessum heimatilbúnu vandamálum sem þú minnist á Haukur, í þágu illskiljanlegrar afdalamennsku og sérhagsmunagæslu í þágu fárra útvaldra.  

Ef innganga í ESB myndi spara okkur eins og 50% í ríkisumsvifum hér á Klakanum væri ég verulega spenntur.    En þegar að er gáð, þá er það ekki reyndin hjá þeim sem hafa gengið inn, þannig að það er óraunhæf draumsýn.  Reynslan sýnir að báknið heldur áfram að bólgna bæði heimafyrir og í Brussel.  Svo má benda á að Alþingi Íslendinga er þegar orðin hálfgerð afgreiðslustofnun fyrir lög frá ES.   Þau lög eru reyndar yfirleitt mun vandaðri heldur en innlend smíð af sama tagi.

Umræða er hins vegar af hinu góða, en hún verður að vera vönduð og ekki keyrð í offorsi rétt fyrir kosningar.   Það er skylda stjórnvalda að gera rækilega úttekt á málinu, búa til einskonar viðskiptaáætlun og framreiða skiljanlegar upplýsingar um alla  kosti og galla inngöngu, þannig að þjóðin skilji málið til hlítar áður en hún verður knúin um afstöðu til þess - engar mikilvægar spurningar má skilja eftir ósvarað.     Slíkt hefur ekki verið gert og því ætti innganga í ESB alls ekki að vera kosningamál nú; það væri óábyrg stjórnmálamennska. 

Sigurður J. (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 23:13

4 identicon

Ekki get ég skilið óvirðingu í orðum Ágústar. Andstæðingar ESB hafa aftur á móti óvirt umræðuna sjálfa með frösum eins og "skrifræðisbákn" "nýlenda" osfr ásamt frekar lélegum útúrsnúningum eins og Ágúst bendir hér á.

Það var myljandi andstaða við ees á sínum tíma en ef ekki nyti hans þá værum við væntanlegai hvorki leiðandi í ríkidæmi né velmegun.

En alltaf hreifir hann við mér hinn alvörugefni og tilfinningaþrungni tónn um sjálfstæðismissin og fer ég alltaf að hugsa um Bjart í Sumarhúsum. Frelsi er huglægt mat.

Við skulum ekki gera ráð fyrir því að við fáum sérsamninga í alþjóðasamfélaginu fyrir að vera litlir og krúttaralegir á eyju langt í burtu. Gerum ráð fyrir því að það breytist. Ég veit ekki hvort við eigum að sækja um esb aðild eða ekki en það er alveg klárt að þetta er eitt af stóru málunum og á að vera á dagskrá.  

Aron Þorf. (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 23:29

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hvenær í sögunni hafa stórveldi farið einhverjum silkihönskum um smáríki? Ég skil ekki það traust sem sumir vilja bera til Evrópusambandsins. Það sem ég nefndi ekki í fyrri Aths. var líka að ég óttast að ESB verði Evrópuútgáfa af Bandaríkjunum með álíka Evrópuútgáfu af George W. Bush í forsæti. Mér finnst ástæða til að ríki verði aftur frekar minni en stærri. Minni ríki, minni ógn.

Það er nokkuð ljóst að ESB er ekki kosningamál núna. Flestir eru sammála um það. En þetta er líklegt kosningamál fyrir þarnæstu kosningar. 

Haukur Nikulásson, 14.3.2007 kl. 00:23

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég gleymdi að nefna að við getum tekið upp góða lagabálka frá ESB ef okkur sýnist svo, án þess að ganga í ESB. Við eigum líka kost á að taka upp góða lagabálka frá hvaða þjóð sem er. Ég held að það sé ekki höfundarréttarlög í gangi varðandi lagasetningar.

Haukur Nikulásson, 14.3.2007 kl. 00:26

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

"Ég vona að þessi Evrópuskýrsla hleypi einhverjum krafti í Evrópuumræðan og leiðrétti eitthvað af síendurteknum rangfærslum sem iðulega heyrast í þessari umræðu."

Þú meinar rangfærslum eins og t.d. þessari sem var leiðrétt hér um árið:

"Nú þegar þarf Ísland að taka yfir um 80% af öllum lögum og reglum ESB vegna EES-samningsins án þess að hafa nokkur áhrif á ákvarðanatökuna. ... Andstaðan gegn aðild Íslands að ESB byggir oft á vanþekkingu eins og hér hefur verið sýnt fram á." (Ágúst Ólafur Ágústsson Morgunblaðið 21. júlí 2003)

Vorið 2005 var sýnt fram á af skrifstofu EFTA í Brussel að þessi tala væri einungis 6,5% og jafnvel minni. Fyrir vikið hefur þú mér vitanlega ekki minnzt á hin frægu 80% síðan ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.3.2007 kl. 02:16

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Góðir punktar hjá þér Hjörtur. Ég leit líka á tengilinn þinn.

Ógeðfelldi þátturinn í þessu máli er að rök meðmælenda ESB aðildar eru næstum eingöngu á græðgislegum peningalegum nótum. Því miður er ég ekki í hópi þeirra sem fæst keyptur fyrir einhverjar krónur og því síður Evrur. Sum okkar geta tekið ákvörðun byggða á öðru.

Bjartsýni manna um að við höfum áhrif á "regluverkið" er óraunhæf að mínu mati. Hversu mikil áhrif haldið þið að ein minnsta þjóðin hafi í hópi 27 ríkja sem næstum öll eru stærri?

Þær röksemdir Eiríks Bergmanns og fleiri að íslendingar hafi nú þegar misst sjálfstæði virka líka öfugt á mann. Það má ekki gleyma því að allt tal um að koma Íslandi undir yfirráð annarra þjóða er landráðatal hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Það er ekkert að því að gera tvíhliða samninga líkt og Sviss og mér finnst það ljótur leikur að halda því fram að það sé svo svakalega erfitt að betra sé bara að ganga í ESB. Þvílíkar röksemdir!

Það verður mjög erfitt fyrir ESB meðmælendur að sannfæra mig um að rétt sé að gerast aðili að ESB, en ég leyfi mér að hlusta á rökin fyrir því og taka þátt í umræðunni um það. 

Haukur Nikulásson, 14.3.2007 kl. 07:36

9 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Úr skýrslunni:

"Umræða um tölfræði varðandi framkvæmd EES-samningsins skilar hins vegar litlu að mati sérfræðinga utanríkisráðuneytis og tölfræðin segir okkur ekkert um það hvernig framkvæmd EES-samningsins gangi eða um áhrif löggjafar ESB hérlendis. Mikilvægara sé að skoða innihald og mikilvægi viðkomandi gerða, því í þessum tölfræðilega samanburði vigtar tilskipun á fjármálamarkaði, sem getur haft mikil áhrif á rekstrarskilyrði banka, jafnmikið og t.d. reglugerð um afnám aðgerða gegn svínapest sem hefur lítil áhrif hérlendis"

Þar liggur munurinn í þessum 6,5% og 80% tölum, því það að telja til öll tímabundin ákvæði sem eru sett innan ESB eins og t.d. mánaðarlegar verðtillögur á mjólkurdufti og segja að það sé sambærilegt við t.d alla vinnumálalöggjöf ESB sem við höfum þurft að taka upp í gegnum EES samstarfið er mjög óábyrg nálgun. Þess vegna er mjög hæpið að væna aðra um rangfærslur þegar kemur að þessari tölfræði, sérstaklega með rangfærslu eins og 6,5% tölunni.

Anstæðingar aðildar ættu aðeins að huga að hversu mikið við erum að taka þátt í samstarfinu nú, því sem aðilar af innri markaðar ESB erum við aðilar af stærstum hluta evrópusamstarfsins. Þessvegna er umræða um reglusetningarbákn og skrifræði eitthvað sem hefði átt að fara fram fyrir aðild okkar að EES, en er full seint í dag - enda hafa tilskipanir ESB reynst okkur mjög vel.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.3.2007 kl. 08:06

10 identicon

Ja tetta er lifleg umraeda og tad er mjog gott fyrir okkur sem erum andvig adild Islands ad Evropusambandinu. Tvi oflugri rokraeda tvi betur stondum vid ad vigi. Grein Agustar er lysandi fyrir tennan Evropukor, tar sem oll grein hans fer i ad hartogast um tad ad Islensku fiskimidin seu adalatridid i tessu mali. Fyrir mer er tad alls ekki adalmalid, to tad med odru slaemu hafi vissulega tidingu i malinu i heild. Ekki treysti eg skrifraedinu i Evropusambandinu til tess ad leida tau mal farsaellega fyrir okkur Islendinga, to svo vid her buum vid ovinsaelt og orettlatt kotakerfi. Ta veit eg fyrir vist ad sjavarutvegsstefna Evropusambandsins er handonyt og allir teir sjomenn og utvegsmenn sem undir tvi vinna eru hundoanaegdir og bandbrjalaedir ad turfa ad vinna undir misvitrum tilskipunum og tungglammalegu regluveldinu.  Sjomenn og utvegsmenn i adildarlondum ESB haeda og spotta kerfid sem mest teir meiga og bera enga virdingu fyrir regluverkinu og sameinast um ad fara a allan hatt i kringum arfavitlaust og andlitslaust kerfid. Og hver er arangurinn af ofstjornuninni og regluverki skriffinnana. Ju samfara gridarlegri soun fjarmuna ta eru fiskimidin  a naer ollum fiskimidum ESB landanna nu rjukandi rustir. Og hver eru ta urraedin, ju samkvaemt tilskipun nr. BEQ-09875674-9 er enn ein andlitslaus neydarnefnd skriffinnana skipud til starfa.

Ja einhver benti a ad teir, tad er SF aetti ad gera tetta ad kosningamali. Verdi teim ad godu tvi eg held alveg tverofugt ad tetta innantoma Evropusambands raus sumra leidtoga SF hafi einmitt faelt fjolda manns fra studningi vid SF. Sidasta skodanakonnun sem eg sa var tannig ad 2/3 hlutar tjodarinnar voru andvigir adildarumsokn fra okkur Islendingum. Ef SF i orvaentingu sinni, yfir sifellt fallandi gengi gerir tetta nu ad alvoru kosningamali og umraedan faeri ad alvoru i gang ta held eg ad andstaedingum ESB adildar myndi enn fjolga. Tegar grannt er skodad sest alltaf betur og betur ad Evropusambandsadild er eins og "Nyju fotin keisarans"

Tad er tvi hormulegt til tess ad hugsa ad nu i upphafi 21 aldarinnar skuli Islenskir jafnadarmenn ekki getad fundid ser verdugri hugssjona grundvoll en dasama tetta handonyta Evropusamband. Tad er ekki furda to keraldid leki !

Lifi frjalst og fullvalda Island.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 09:28

11 identicon

Samfylkingin þarf að keyra á ESB umræðuna og gera kosti ESB skýrari í huga almennings. Ég ásamt fleiri vinum mínum sem hafa kynnt sér kosti inngöngunar styðjum inngönguna eindreigið. Samfylkingin þarf nefnilega að finna sitt mál.

Ágúst Þór (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 13:29

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Raggi, ég hef ekkert að fela, ekkert að græða þannig að ég er ekki í þeim hópi sem þú lýsir.

Matur, bílar, lán og íbúðir geta lækkað án inngöngu í ESB. Við þurfum ekki aðild að ESB til þess. ESB lækkar ekki þessa hluti með tilskipunum.  ESB tryggir okkur ekki samkeppni upp á Íslandi, það gerum við sjálf.

Til þess að lækka matarverð þarf að fella niður verndartolla og vörugjöld og hætta niðurgreiðslum til landbúnaðar. Þetta er hægt að gera án afskipta ESB. Ótrúlegur fjöldi manna heldur því fram að við getum ekki gert þetta án afskipta ESB. Það þykir mér dapur aumingjastimpill íslendinga á sjálfa sig. 

Haukur Nikulásson, 14.3.2007 kl. 19:34

13 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þarna ertu kominn að mikilvægum punkti Haukur; Við getum gert þetta allt sjálf. Samfylkingin lagði til einmitt það sem þú segir, að fella niður verndartolla og vörugjöld, og ríkistjórnarflokkarnir urðu öskureiðir og réðust að Samfylkingunni fyrir að vera leggja til óraunhæfar og óábyrgar tillögur. Íhalds-ríkistjórnin kom með sínar tillögur í staðinn um hvernig skyldi lækka matarverð, og nú þegar þær tillögur hafa gengið í gegn erum við með sama vöruverð og fyrir ári síðan, áður en 8% verðbólga síðastliðins árs gekk í gegn. Dugleysi stjórnvalda er slíkt að ég trúi því að besta leiðin til að breyta landbúnaðarkerfinu hér á íslandi er að fá það sem tilskipun frá ESB, og lækka þar styrki til landbúnaðarins um helming og afnema alla tolla og vörugjöld.

Við fengum frjálsan markað í gegnum tilskipun frá ESB útaf EES samningnum, og ég er viss um að hefði það ekki gerst þá væri ísland enn í tveggja stafa verðbólgutölum og með minni hagvöxt en við myndum sætta okkur við í dag. Það er alveg ljóst að ef Sjálstæðisflokknum hefði verið falið það hlutverk að innleiða frjálsan markað á íslandi, þá hefði það endað með svo miklum málamiðlunum og klíkuskap að hér værum við enn með litla banka, engan Baug og engan Björgólf.

Þrátt fyrir að við getum gert marg án inngöngu í ESB, þá er bara spurning hvort það sé eitthað betra. ESB innganga er leið sem flest Evrópuríkin hafa farið til að leysa mörg þau vandamál sem við erum að glíma við í dag - og þessvegna er ég skotinn í ESB leiðinni. Við erum nú aðilar að veigamestu verkefnum Evrópusambandsins, og þeir þættir sem við eigum eftir að taka þátt í í Evrópusamstarfinu eru allir okkur til hagsbóta - sérstaklega að fá sterkan stöðugan gjaldmiðil eins og atvinnulífið á Íslandi er að biðja um.

Evrópusambandið er samstarf fullvalda þjóða og tilvist þess byggir á því að vera öllum til hagsbóta. Það þjónar ekki hagsmunum neins að níðast á aðildarlöndunum, það er ekki í eðli samstarfsins að kúga aðildarríki enda geta þau gengið úr sambandinu ef það yrði gert. Við erum nú þegar aðilar að samstarfinu, þetta er bara spurning um að ganga alla leið.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 15.3.2007 kl. 09:36

14 identicon

Gunnlaugur - Bara svo þú getir skrifað með Íslenskum stöfum - Hægri smelltu á yfir klukkunni - veldu "toolbars" (efst) - hakaðu við Language bar. klikkaðu síðan á táknið sem birtist og veldu Icelandic.

en þetta tal að smáþjóðir verða kúgaðar, við höfum hingað til verið fullfær um það að okra á okkur sjálf. Hörfum á aðra frændþjóð okkar sem við eigum ansi líkt með, fengum sjálfstæði um sama leiti, eyþjóðir í atlantshafi, voru hjálenda stórveldis og margt fleira. Þeirra hagöxtu og sjálfstæði hafa ekkert minkað við langvarandi aðild að ESB, írskan gaeliskan er að vaxa sem tungumál. Okkar sjálfstæði fer nefnilega alveg eftir okkur sjálfum ekki neinum útlendingum, eins og í sjálfstæðu fólki þegar Bjartur greyið loks sá pening var þegar hann eigði von í selja fé til útlanda og þegar sú leið lokaðist þá tók seyran aftur við. Málið með ESB aðilidini er að hafa þessa viðskiptaleið alltaf opna.

Og Haukur, þín kynslóð 68 kynslóðin er sú kynslóð sem hefur fengið allt upp í hendurnar og borgað minnst fyrir það sjálf. náms og húsnæðislánin ykkar brunnu upp á verðbólgubáli og nú sitjið þið á eignum á uppsprengdu verði. Þannig þið hafið kannski efni á að borga aðeins meira. En við sem erum hluti af X og Y kynslóðinni höfum þurft að borga allt sjálf, verðtryggt. við eins og þið viljum njóta ávaxta vinnu okkar og að það sé ekki okrað á okkur.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 09:53

15 Smámynd: Haukur Nikulásson

Magnús Bjarnason, síðasta málsgreinin þín er bæði dómgreindarlaus della og særir mann. Ég er nefnilega og nákvæmlega með allra fyrstu mönnum sem greiði öll mín lán verðtryggð að fullu. Ég var nefnilega í hópi þeirra fyrstu sem tóku fyrstu verðtryggðu húsnæðislánin árið 1977 eða 78.

Með þessu notar þú ósmekklega og ósanna staðhæfingu til að gera lítið úr málflutningi mínum.

Haukur Nikulásson, 15.3.2007 kl. 13:43

16 identicon

Já þetta var kannski særandi hálfsannleikur, ég biðst velvirðingar að hafa sært þig. Sannleikurinn er að í verðbólgu ástandi er ríkisvaldið að seilast í vasa almennings með mjög svo óeðlilegum hætti. Svo lengi sem höfum örmynt þá er þessi leið opinn. Það er nefnilega vont að geta ekki treyst leikreglunum, að þeir sem eru ofar í göggunarröðinni geti aukið kostnað þinn án þess að þú getir rönd við reist. Slíkt fyrirkomulag á íslandi gerir mig að evrópusinna. ég treysti nefnilega því kerfi sem um 400 milljónir aðrir þurfa einnig að treysta frekar en því kerfi sem 300.000 naglbítar þurfa að búa við.

En og aftur biðst velvirðingar að hafa sært þig með óviðeigandi athugasemd.

Magnus Bjarnason (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 15:31

17 Smámynd: Haukur Nikulásson

Afsökunin er tekin til greina. Þetta hafði kannski átt við hefði ég verið eldri og í raun tilheyrt '68 kynslóðinni (ég er fæddur 1955).

'68 kynslóðin lenti reyndar í verulegum vandræðum um 1983 vegna þess að laun hættu að fylgja lánskjaravísitölu og á þeim tíma töpuðu margir eignum sínum.

Þeir sem upplifðu kosti fjárhagslegs skilningsleysis á verðbólgutímunum voru t.d. mínir foreldrar. Þau bera samt enga sök í sjálfu sér, almennt var ekki sami fjármálaskilningur og nú er.  Þau gátu ekki annað frekar en aðrir sem keyptu húsnæði á lánum á þessum tíma. Þetta fólk tapaði á móti í sparnaði (sem rýrnaði) og lífeyrissjóðum sem ekki borga einnþá vitræn eftirlaun til þessa fólks.

Stjórnvöld þessa tíma vissu nákvæmlega ekkert hvað átti að gera fyrr en með verðtryggingum 1977 eða 8.

Á minni ævi hefur íslenska krónan aldrei staðið betur í jafnmörg ár og hún gerir nú. Þá fyrst verður hún í alvöru ónýtur gjaldmiðill? Hún er vissulega örmynt, en gagnast okkur enn. 

Þú getur ekki notað fjölda íbúa sem mælikvarða eða ávísun á að þú munir njóta meira réttlætis. Spurðu sjálfan þig hvort þú hefðir viljað vera gyðingur í Póllandi á stríðsárunum. Þjóðverjar voru voldugasta þjóð Evrópu fljótlega eftir fyrra stríð. Það hindraði ekki að þar kæmi upp leiðtogi sem leiddi þá út í seinni heimsstyrjöldina. Íbúafjöldinn hafði engin áhrif á það hvort stjórnun var góð eða slæm. Slæmir stjórnendur ráða jafnvel við mikinn íbúafjölda sem lítinn sbr. Bush og ákvarðanir hans um stríðsreksturinn í Írak.

Ég vona að þú sjáir fljótlega ljósið í þessu Magnús. 

Haukur Nikulásson, 15.3.2007 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband