Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2005

Listi yfir stuðningsfólk

Hér til hægri má finna lista yfir það fólk sem hefur ákveðið að styðja mig í kjörinu til varaformanns Samfylkingarinnar. Fjölmargir einstaklingar um allt land leggja sitt af mörkum í komandi kosningum og fyrir það er ég afar þakklátur.

Mikil vonbrigði



Ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns allsherjarnefndar Aþingis, í Fréttablaðinu í morgun eru gríðarleg vonbrigði. Af orðum hans má ráða að frumvarp um afnám fyrningarfresta í kynferðisafbrotum gegn börnum muni annaðhvort vera svæft í allsherjarnefnd eða svæft í ráðuneytinu. Þingmenn munu því ekki fá tækifæri til að greiða atkvæði um frumvarpið, sem lagt var fram í haust öðru sinni.
Umsagnir legið fyrir í ár
Umsagnir hagsmuna- og fagaðila hafa legið hjá allsherjarnefndinni í meira en ár og því er þetta ekki spurning um að allsherjarnefndin hafi ekki fengið nægan tíma til að skoða málið. Málið er í eðli sínu einfalt, sé pólitískur vilji fyrir breytingum. Frumvarpið snýst um pólitískt hagsmunamat, þ.e. hvort að kynferðisbrot gegn börnum skuli flokka með alvarlegustu afbrotum og vera ófyrnanleg. Nú þegar hefur löggjafinn ákveðið að sum afbrot skuli vera ófyrnanleg, s.s. mannrán, ítrekuð rán, manndráp, landráð o.fl. Með því að afnema fyrningarfresti í kynferðisafbrotum gegn börnum væri Alþingi að segja að þessi afbrot séu í flokki þeirra alvarlegustu í okkar samfélagi sem þau tvímælalaust eru að mínu mati.
14. 000 undirskriftir til stuðnings frumvarpinu
Þverfaglegur og þverpólitískur þrýstingur allra ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna er fyrir því að þetta frumvarp verði samþykkt. Meira en 14.000 manns hafa skrifað undir áskorun þess efni á www.blattafram.is en það er einsdæmi að lagafrumvarp fái slíkan stuðning. Vilji almennings til breytinga er til staðar. Ekki er þó öll von úti enn. Enn er möguleiki að meirihluti geti myndast í allsherjarnefnd fyrir því að koma málinu úr nefndinni. Það væri óskandi að það tækist en hér eru gríðarlega mikilir hagsmunir í húfi fyrir börn þessa lands.

Gjaldfrjáls leikskóli - Tímamót

Gjaldfrjáls leikskóli yrði gríðalega mikil kjarabót fyrir fjölskyldur í landinu ásamt því að vera mikilvægt jafnréttismál. Þetta hefur Reykjavíkurlistinn áttað sig á.
Lagði fram fyrirspurnir um gjaldfrjálsa leikskóla á Alþingi
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, á mikið hrós skilið fyrir þá fyrirætlun að gera leikskólann gjaldfrjálsan. Ég hef ítrekað lagt fram fyrirspurnir um gjaldfrjálsa leikskóla á Alþingi og hef ég beint fyrirspurnum bæði til menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra. Það er skemmst frá því að segja að menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, tók dræmt í fyrirspurn mína um gjaldfrjálsan leikskóla á þingi þann 14. apríl 2004. Þar sagði ráðherrann m.a. ,,að það eru engar efnahagslegar forsendur fyrir því að gera leikskólann gjaldfrjálsan”.
Þetta svar ráðherrans sýnir vel hug Sjálfstæðismanna til gjaldfrjáls leikskóla en þessi sami ráðherra og hans flokkur telja þó vera góðar efnahagslegar forsendur fyrir því að styrkja landbúnað um meira en 10 milljarða króna á ári eða byggja sendiráð fyrir milljarða króna. Reyndar hefur þessi viljaskortur Sjálfstæðismanna á gjaldfrjálsum leikskóla verið staðfestur á ný af hálfu Geirs H. Haarde, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, en hann sá þessari hugmynd Reykjavíkurlistans allt til foráttu. Síðan hefur hver Sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum í sveitastjórnum gert það sama og komið fram með ýmsar hugmyndir sem myndu tefja þessa miklu kjarabót um mörg ár eða áratugi.

Þann 26. janúar síðastliðinn beindi ég síðan fyrirspurn til Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra um gjaldfrjálsan leikskóla. Ráðherrann gat hins vegar ekki svarað þeirri einföldu spurningu hvort hann væri tilbúinn að beita sér fyrir flutningi á tekjustofnum ríkisins til sveitarfélaganna svo að gjaldfrjáls leikskóli gæti orðið að veruleika. Það mátti skilja ráðherrann þannig að gjaldfrjáls leikskóli næðist aðeins fram ef leikskólinn yrði gerður að hluta af skyldunámi.
Gjaldfrjáls leikskóli jafnréttismál
Leikskólinn hefur nú þegar verið skilgreindur sem fyrsta skólastigið og það er réttlætismál að gera hann gjaldfrjálsan.
Gjaldfrjáls leikskóli er einnig mikið jafnréttismál. Vegna kynbundins launamunar getur sú staða komið upp að mæður neyðast af fjárhagsástæðum til að yfirgefa vinnumarkað gegn vilja sínum séu börnin t.d. fleiri en eitt á leikskólaaldri. Þessi staðreynd hefur síðan aftur neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði og því myndast vítahringur. Þennan vítahring verður að rjúfa.
Það er hins vegar ekki langt síðan að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna vildi leysa dagvistunarvandann með því að greiða foreldrum fyrir að vera heima með börnum sínum en það myndi grafa hratt undan atvinnuþátttöku kvenna vegna kynbundins launamunar sem er staðreynd í okkar samfélagi.
Hundruð þúsunda króna í skólagjöld
Með þeim 20 þúsund börnum sem eru núna í leikskólum landsins eru borguð há skólagjöld, allt að 30 þúsund krónur á mánuði. Skólagjöld fyrir eitt barn geta því numið nokkur hundruð þúsundum króna á hverju ári. Einn mánuður í leikskóla kostar litlu minna en eitt ár í Háskóla Íslands.
Fjölskyldur leikskólabarna eru hins vegar oft á tíðum sá hópur sem hefur hvað þrengstu fjárráð. Hér er oft um að ræða ungt fólk sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og er ýmist í námi eða að hefja þátttöku á vinnumarkaðinum.
Skólagjöld leikskólabarna sem foreldrar greiða núna eru um 2,4 milljarðar króna á ári. Með gjaldfrjálsum leikskóla yrði kostnaðurinn þó hærri, m.a. vegna þess að þá þyrfti að tryggja öllum börnum pláss. Sé hins vegar litið til tveggja ára barna og eldri eru 90% þeirra nú þegar með leikskólapláss.
Forgangsröðun í þágu fjölskyldunnar
Til samanburðar má minnast á að nýsamþykktur skattapakki ríkisstjórnarinnar mun kosta 40 milljarða króna. samanlagt á næstu þremur árum. Þetta er því spurning um forgangsröðun en ekki skort á fjármunum.
Gjaldfrjáls leikskóli getur því vel orðið að veruleika sé vilji fyrir því. Slíkur vilji er fyrir hendi hjá Reykjavíkurlistanum og slíkur vilji er fyrir hendi hjá Samfylkingunni.

Góðar viðtökur við varaformannsframboði

Tilkynning um framboð mitt til varaformanns Samfylkingarinnar hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð. Mikill skilningur og stuðningur virðist vera meðal flokksmanna á nauðsyn þess að ný kynslóð eignist fulltrúa í forystusveit Samfylkingarinnar. Auðvitað er mikið verk framundan, en aðalatriðið að vinna þessa vinnu þannig að allir sem taka þátt í henni geti litið stoltir tilbaka.
Áhugaverður fundur Læknafélagsins
Morgunblaðið fjallar í dag um formannafund Læknafélags Íslands sem haldinn var fyrir helgi. Þar kynnti ég þingmál mitt um auglýsingar heilbrigðisstétta. Málið fékk jákvæð viðbrögð og fannst mörgum ótækt að almenningur þurfi að treysta á orðróm og umtal þegar kemur að vali á heilbrigðisþjónustu. Annars er hægt að lesa um frétt Morgunblaðsins hér.
Sömuleiðis má finna þingmálið í heild sinni hér til vinstri undir liðnum Þingstörf.

Framboð til varaformanns Samfylkingarinnar

Ég hef nú boðið mig fram til embættis varaformanns Samfylkingarinnar sem kosið verður í á landsfundi flokksins sem haldinn verður 20.-22. maí næstkomandi.
Helstu áherslur
Ég tel rétt að ný kynslóð eignist fulltrúa í forystusveit Samfylkingarinnar, flokks þar sem hagsmunir fjölskyldufólks eru í öndvegi. Rúmur helmingur Íslendinga er undir 35 ára aldri og það er mikilvægt fyrir Samfylkinguna að a.m.k. einn einstaklingur á þeim aldri sé þar í fremstu röð. Einnig er æskilegt að þar sé að finna fulltrúa þeirrar kynslóðar sem hefur starfað allan sinn pólitíska feril innan Samfylkingarinnar.

Hlutverk varaformanns er ekki hvað síst að halda utan um innra starf í flokknum. Ég vil efla innra starf Samfylkingarinnar, meðal annars með því að styrkja starf aðildarfélaga með sérstökum starfsmanni í þeirra þágu og með því að tryggja að flokkurinn verði með öfluga skrifstofu í öllum kjördæmum.

Á undanförnum árum hef ég tekið virkan þátt í innra starfi Samfylkingarinnar og hef þannig kynnst af eigin raun hversu mikilvægt það er fyrir vöxt og viðgang flokksins. Meðal annars hef ég leitt fjölmarga fundi og ráðstefnur á vegum heilbrigðishóps flokksins og stuðlað að stofnun samtakanna Jafnaðarmenn í atvinnurekstri. Þá má nefna að virkum undirfélögum Ungra jafnaðarmanna fjölgaði úr 3 í 11 um allt land meðan ég var formaður samtakanna.

Lykilatriði í því að innra starfið í Samfylkingunni standi í blóma er að þar sé jafnræðis og jafnréttis hvarvetna gætt – hvort sem um er að ræða milli kynja, aldurshópa eða landshluta.

Mikilvægasta verkefni flokksins þessi misserin er að undirbúa næstu sveitarstjórnarkosningar af kostgæfni. Góður kosningasigur um allt land 2006 er mikilvægur áfangi á leið til sigurs í næstu alþingiskosningum sem svo aftur tryggir að Samfylkingin verði í forystu næstu ríkisstjórnar.

10.000 undirskriftir hafa safnast

Á fréttavef Morgunblaðsins er nú greint frá því að rúmlega 10.000 undirskriftir hafi safnast til stuðnings frumvarpi mínu um afnám fyrningarfresta vegna kynferðisbrota á börnum. Þessar undirtektir almennings verða að teljast mjög góðar og óskandi er að þessi mikli þrýstingur almennings hafi áhrif á framgang málsins á Alþingi.
Frumvarpið nýtur að auki stuðnings allra ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna í Reykjavík, en hreyfingarnar héldu vel sóttan fund í gærkvöld um frumvarpið. Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar, þær Svava og Sigríður Björnsdætur, voru á fundinum en þær hafa á undanförnu ári opnað umræðu um kynferðisbrot gegn börnum og hrikalegar afleiðingar þeirra. Er ástæða til að benda fólki á að kynna sér gott starf Blátt áfram, en upplýsingar er m.a. að finna á vefsíðu samtakanna.Ætlunin er að aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar afhendi Bjarna Benediktssyni, formanni Allsherjarnefndar, undirskriftirnar á næsta fundi nefndarinnar.
Enn er hægt að skrá sig á undirskriftalista á vefsíðu samtakanna Blátt áfram, www. blattafram.is.

Sameiginlegur fundur ungliðahreyfinganna

Sérstakur fundur ungliðahreyfinganna um afnám fyrningarfresta á kynferðisbrotum gegn börnum
Í kvöld halda allar ungliðahreyfingarnar í Reykjavík opinn fund um frumvarp mitt um afnám fyrningarfresta á kynferðisbrotum gegn börnum. Það er óneitanlega mjög sérstakt að allar ungliðahreyfingar skuli standa saman að fundi sem þessum með það fyrir augum að beina kastljósinu að einu tilteknu máli og er ég þeim afar þakklátur fyrir þennan stuðning. Vonandi hefur samstaða ungliðahreyfinganna áhrif á framvindu málsins en þessi vinnubrögð ungliðahreyfinganna verða að teljast þeim mjög til framdráttar. Ljóst er að málefni, frekar en flokkadrættir hafa ráðið för sem er vitaskuld mjög af hinu góða.
Ég hef nú lagt frumvarpið öðru sinni, en í fyrra var málið ekki afgreitt úr Allsherjarnefnd og þingmönnum því ekki gefið færi á að taka afstöðu til málsins. Óskandi er að frumvarpið komist úr nefndinni í ár þannig að þingmenn geti kosið um málið.
Á fundinum í kvöld mun ég reifa efnisatriði frumvarpsins, en í því er lagt til að fyrningarfrestir vegna kynferðisbrota gegn börnum verði afnumdir. Helstu rök fyrir því eru þau, eins og við höfum því miður ítrekað heyrt í fréttum, að kynferðisbrotamenn hafa verið sýknaðir af kynferðisbrotum gegn börnum jafnvel þó sekt þeirra sé sönnuð sakir þess að brotin hafa verið talin fyrnd. Staðreyndin er sú að þessi brot komast oft ekki upp fyrr en löngu eftir að þau eru framin, ólíkt mörgum öðrum afbrotum og á þessari aðstöðu hagnast gerandi brotanna. Börn eru sérlega viðkvæmur hópur og refsivernd þeirra er að mínu mati ekki nægilega sterk þegar sú er raunin að mun erfiðara er að ná fram sektardómum í brotum gegn þeim, vegna fyrningarregla. Hafa verður í huga að nú þegar eru til afbrot sem eru ófyrnanleg og því er það einfaldlega pólitískt mat hvort menn telji að kynferðisbrot gegn börnum teljist til þeirra brota sem ekki fyrnast. Fyrir mitt leyti er augljóst að svo eigi að vera. Nú þegar má nefna að manndráp, ítrekuð rán og landráð eru í flokki ófyrnanlegra brota.
Á fundinum munu þær Svava og Sigríður Björnsdætur, stofnendur Blátt áfram, einnig taka til máls sem og Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum. Þess ber að geta að á vefsíðu Blátt áfram (www. blattafram.is) er hægt að skrá sig á undirskriftalista til stuðnings frumvarpinu.
Fundurinn hefst kl. 20: 00 á Sólon og er öllum opinn.

Texasstrákurinn þarfnast pólitískra afskipta

Mál Íslendingsins Arons Pálma Ágústssonar sem hlaut 10 ára fangelsisdóm í Texas fyrir minni háttar afbrot sem hann framdi þegar hann var 11 ára gamall hefur vakið hér á landi bæði reiði og undrun.

Fyrir rúmu ári tók ég mál Arons Pálma upp á Alþingi og beindi þeirri spurningu til þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, hvort hann væri tilbúinn til að beita sér með beinum hætti fyrir lausn þessa sorglega máls, t.d. með því að hafa samband við stjórnvöld í Texas eða Washington til að umræddur Íslendingur gæti lokið afplánun sinni hér á landi. Ég lagði mikla áherslu á að aðkoman yrði að vera pólitísk eðlis en ekki eingöngu á vettvangi embættismanna.

Í umræðunni á þinginu á þeim tíma tók Halldór vel í þá umleitan og sagðist ætla að beita sér í málinu. Nú er liðið rúmt ár og ekkert bólar á drengnum heim þrátt fyrir einhverjar tilraunir íslenskra stjórnvalda í þá átt.
Tók málið upp á Alþingi
Nú er hins vegar nýr húsbóndi tekinn við í utanríkisráðuneytinu. Davíð Oddsson hefur sagt í fjölmiðlum að hann telji að ráðuneytið hafi gert allt sem það getur gert í þessu máli.

Það má vel vera að leiðir embættismannana í ráðuneytinu séu fullreyndar en hins vegar hafa hinar pólitísku leiðir ekki verið fullreyndar. Á sínum tíma var það mat þeirra sem hafa komið nálægt málinu að það bæri að grípa til annarra leiða en þeirra sem embættismenn gætu beitt. Ein þeirra væri aðkoma stjórnmálamanna að málinu.

Það verður að viðurkennast að sum milliríkjamál leysast ekki fyrr en þau komast á borð stjórnmálamanna. Í svona málum getur aðkoma stjórnmálamanna skipt sköpum.
Er á pólitískum vettvangi
Við höfum fordæmi í máli Sophiu Hansen þar sem stjórnmálamenn reyndu að beita sér gagnvart þarlendum stjórnvöldum, þótt það hafi því miður ekki dugað til í því tilviki. Einnig er rétt að hafa í huga að mál umrædds einstaklings hefur verið til umfjöllunar skrifstofu ríkisstjóra Texas og þar af leiðandi á pólitískum vettvangi. Það eitt eykur líkurnar á að afskipti utanríkisráðherra geti hreyft við málinu.

Ég vona því að núverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, beiti sér í málinu en sætti sig ekki við fullreyndar tilraunir embættismanna. Aðalatriðið er að hér er um að ræða íslenskan ríkisborgara sem hefur verið beittur miklum órétti og því eigum við að beita öllum okkar leiðum til að koma honum til hjálpar.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband