Bloggfærslur mánaðarins, september 2005

Aukum vægi einkareksturs í heilbrigðisþjónustu

Þrátt fyrir að rúmlega fjórðungur fjárlaga ríkisins sé varið til heilbrigðismála hafa heilbrigðismál ekki verið áberandi málaflokkur í íslenskri pólitík. Stjórnmálaflokkarnir virðast hafa veigrað sér við að móta skýra stefnu í þessum þýðingarmikla máli. Það kom því sér vel þegar flokksmenn Samfylkingarinnar ákváðu á landsfundi flokksins í október 2003 að Samfylkingin tæki forustu í mótun nýrrar heilbrigðistefnu landsmanna. Settar voru fram ákveðnar forsendur fyrir endurbótum á heilbrigðiskerfinu þar sem markmið jafnaðarstefnunnar um jöfnuð og sanngirni stóð óhaggað áfram.

Undirritaður leiddi framkvæmdarhóp verkefnisins og voru haldnir á þriðja tug opinna funda og ráðstefna víða um land um þetta brýna málefni. Afrakstur vinnunar var myndarleg skýrsla sem skilað var á landsfund Samfylkingarinnar síðastliðið vor. Skemmst er frá því að segja að skýrslan var samþykkt lítið breytt sem stefna flokksins í heilbrigðismálum.
Einkarekstur en ekki einkavæðing
Niðurstaða stefnumörkunarinnar var í 10 liðum. Þar var m.a. mælt með að aukið yrði vægi einkareksturs, sjálfeignarstofnana, útboða og þjónustusamninga í heilbrigðisþjónustu þar sem markmið jafnaðarstefnunarinnar væru tryggð. Samfylkingin telur því að skoða eigi breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni með opnum en gagnrýnum huga. Flokkurinn er þó tryggur sínum hugsjónum um að heilbrigðisþjónusta beri að vera greidd af sameiginlegum sjóðum allra landsmanna og að aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé óháður efnahag.

Með einkarekstri er átt við að einkaaðilar, félagasamtök, starfsfólk og fleiri reki umrædda þjónustu en hið opinbera sjái áfram um fjármögnun rekstursins og að greiða fyrir þjónustuna. Ekki er verið að mæla fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem einstaklingar eða einkatryggingar eru látnar greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna.
Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru meðal þeirra fjölmörgu aðila sem bent hafa á nauðsyn þess að hafa ólík rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni.
Markmiðið skiptir máli en ekki leiðin
Markmiðið með auknum einkarekstri eða reksturs sjálfseignarstofnana í heilbrigðisþjónustu er að betri þjónusta fáist fyrir sömu eða minni fjármuni. Það er því markmiðið og árangur þjónustunnar sem skiptir máli en ekki leiðin að því. Tryggingaverndin og greiðsluþátttakan er pólitísk ákvörðun en ekki þjónustuformið.

Einkarekstur getur verið öflugt tæki gegn biðlistum og aukið valkosti, frumkvæði, hagkvæmni og starfsánægju í heilbrigðiskerfinu, bæði hjá starfsfólki og sjúklingum. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu má nú finna víða hérlendis og gengur slíkt rekstrarform vel á sviði öldrunarþjónustu, í sérfræðilækningum, lyfsölu, vaktþjónustu, sjúkraþjálfun og tannlækningum. Auka má þó vægi einkareksturs víða t.d. í heilsugæslu, heimaþjónustu, endurhæfingu, rannsóknum, öldrunarþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og í margvíslegri stoðþjónustu heilbrigðisstofnana s.s. í mötuneytum, ræstingum o.s.frv.

Víða, m.a. á Norðurlöndunum, eru notaðir þjónustusamningar sem eru byggðir á kostnaðargreiningu þarfarinnar t.d. með DRG-kostnaðargreiningu.
Gæta þarf að ýmsu
Einkarekstur og þjónustusamninga um heilbrigðisþjónustu þarf að undirbúa vel og þarf hið opinbera að hafa markmið, skilgreiningar, ábyrgð og skilyrði skýr áður en tekið er upp slíkt fyrirkomulag. Tryggja þarf að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni, hvort sem leitað er til opinberra stofnanna eða einkaaðila. Sömuleiðis þarf að tryggja að ekki sé hægt að kaupa sér fram fyrir röðina og biðlistana. Efla þarf eftirlit í heilbrigðiskerfinu en slíkt eftirlit þarf einnig að taka til opinbers reksturs í heilbrigðisþjónustu. Samkeppnin og ríkt eftirlit þarf að tryggja gæði þjónustunnar og þyrfti opinber aðili að koma að mati á þörfinni fyrir viðkomandi þjónustu.

Með auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu þarf sömuleiðis ætíð að tryggja aðgang nemanda í heilbrigðisvísindum að þeirri starfsemi sem þar fer fram. Huga þarf einnig að rekstri ríkisins í heilbrigðisþjónustu sem er samhliða rekstri félagasamtaka og einstaklinga sem einnig veita svipaða heilbrigðisþjónustu. Hægt væri hugsa sé að opinberir aðilar léti einkaaðilum algjörlega eftir viss svið heilbrigðisþjónustu þar sem tryggt væri að þjónustan væri bæði hagkvæmari og betri í höndum viðkomandi einkaaðila.
Eftir að þjónusta í glasafrjóvgunum fór í einkarekstur hefur ánægjan með þjónustuna aukist og biðlistar minnkað til muna. Þó virðist vanta enn meira opinbert fjármagn í þessa mikilvægu þjónustu og ég tel að hið opinbera eigi að koma þar inn sem fyrst. Þörfin hefur verið vanmetin og þarf hið opinbera að taka mið af því.
Skipta upp heilbrigðis- og tryggingamálaráðneyti
Hér á landi er ríkisvaldið yfirleitt bæði seljandi og kaupandi heilbrigðisþjónustunnar en það þarf ekki að vera svo. Fjármögnun þjónustunnar á að vera á hendi hins opinbera en rekstur getur verið á vegum einkaaðila, s.s. heilbrigðisstarfsfólks eða félagasamtaka. Þannig verður hið opinbera öflugur kaupandi þjónustu og um leið verjandi sinna umbjóðenda sem þjónustunnar njóta. Til að þetta megi vera mætti skipta heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í tvö ráðuneyti.

Annað ráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, sæi um veitingu heilbrigðisþjónustu með rekstri þeirra heilbrigðisstofnana þar sem t.d. eru ekki forsendur fyrir að aðrir reki. Hitt ráðuneytið, tryggingamálaráðuneytið, hefði almannatryggingar, málefni Tryggingarstofnunar ríkisins og jafnvel félagsmál á sinni könnu. Þetta ráðuneyti sæi um að kaupa fyrir landsmenn þá heilbrigðisþjónustu sem þarf af opinberum eða einkareknum heilbrigðisstofnunum og greiða út bætur og sjúkratryggingar. Eftirlitshlutverk þessa nýja tryggingamálaráðuneytis, eða breytts félagsmálaráðneytis, sem kaupanda þjónustunnar þyrfti að efla til muna.

Við slíkt fyrirkomulag er rekstrarumhverfi heilbrigðisþjónustu fært nær lögmálum markaðarins án þess að færa kostnaðinn á sjúklinginn þar sem hið opinbera borgar áfram fyrir þjónustuna. Þetta hvetur til sparnaðar og hagkvæmni en girt er fyrir að sjúklingum væri neitað um þjónustu, þar sem greitt er fyrir alla meðferð af opinberu fé.

Við erum ein skuldugasta þjóð í heimi

Hún er lífseig þjóðsagan um að allt sé í besta lagi í íslenskum efnahagsmálum. Það er ekki síst stjórnarflokkarnir sem viðhalda þessari mýtu um Stöðugleikann með stóru S-i. Ef hins vegar nokkrir mælikvarðar eru skoðaðir sést að íslenskt efnahagslíf glímir við ýmis konar vanda.
Forsendur kjarasamninga að bresta?
Í þessari viku voru kynntar háar verðbólgutölur upp á tæp 5%. Sérfræðingar telja að þessi aukna verðbólga megi ekki síst rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Verðbólgan mælist núna tvöfalt hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Þessi verðbólga leiðir til þess að forsendur kjarasamninga bresta með tilheyrandi óstöðugleika. Á síðustu 10 árum hefur verðbólgan hins vegar hækkað mest í október og er því engin sérstök ástæða til bjartsýni. Það er ekki stöðugleiki þegar verðbólgan fer upp með þessum hætti.
Gengi íslensku krónunnar hefur verið í rússíbanaferð í mörg ár og því miður borið merki um allt annað en stöðugleika. Allt að 40% sveifla upp og niður er ekki stöðugleiki og það vita íslensk fyrirtæki sem blæða vegna þessa. Þessar miklu gengissveiflur má rekja til aðgerðaleysis íslenskra stjórnvalda. Seðlabankinn neyðist til að bregðast við óstjórninni í ríkisfjármálunum með vaxtahækkunum sem leiða til gengishækkunar.
Seðlabankinn skrifaði í apríl síðastliðnum eða fyrir um hálfu ári eftirfarandi: ,,Vaxandi ójafnvægis hefur gætt í þjóðarbúskapnum undanfarið ár og birtist það í örum vexti eftirspurnar, aukinni verðbólgu, háu eignaverði og vaxandi viðskiptahalla sem nær hámarki í ár." Eins og oft áður þá hlustaði ríkisstjórnin ekki á slík aðvörunarorð.
Hver fjögurra manna fjölskylda skuldar 12 milljónir króna
Skuldir heimilanna og fyrirtækja eru í sögulegu hámarki. Skuldirnar eru mun hærri hér en í nágrannalöndunum. Íslensk heimili skulda núna um 970 milljarða króna við lánakerfið eða sem nemur allri árlegri landsframleiðslu. Til samanburðar kostar allt heilbrigðiskerfið minna en einn tíunda þessar upphæðar.
Hvert einasta mannsbarn á Íslandi skuldar því um 3 milljónir kr. Eða hver fjögurra manna fjölskylda 12 milljónir kr. Skuldir heimilanna voru rúmlega helmingi lægri fyrir 7 árum, eða um 440 milljarðar kr. Árið 1980 voru skuldir heimilanna 20% af ráðstöfunartekjum, en í árslok 2003 var þetta hlutfall komið upp í 180% og hefur því nífaldast á tímabilinu.
Íslensk fyrirtæki eru einnig mjög skuldsett og skulda um 1.800 milljarða kr. og hafa skuldirnar meira en meira tvöfaldast á síðustu 5 árum. Alþjóðlegur samanburður sýnir að skuldir íslenskra fyrirtækja eru með þeim hæstu sem þekkjast meðal þróaðra ríkja heims. Verðmæti eigna að baki skuldum er ekki alltaf raunverulegt og getur lækkað hratt en skuldirnar standa þá eftir.
Ein skuldugasta þjóð í heimi
Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru um 2.500 milljarða kr. og Ísland er orðið eitt skuldugasta ríki heims. Til að setja þessar tölur í samhengi má nefna að þetta nemur þrefaldri landsframleiðslu.
Greiðslubyrði af erlendum lánum hefur aukist gífurlega mikið. Greiðslur til útlanda í vexti og afborgarnir af erlendum lánum kosta rúmar 6 krónur af hverjum 10 krónum sem þjóðin aflar í útflutningstekjur. Vaxtahækkanir erlendis hafa gífurlega áhrif í okkar hagkerfi og kosta mjög mikið.
Tölurnar eru ótrúlegar og endurspegla ekki þá glansmynd sem dregin er upp af stjórnvöldum. Um 60% af útflutningstekjum okkar fara í afborganir og vexti af erlendum lánum. Hækkun um 1%-stig á erlendum vöxtum leiðir til um 25 milljarða króna hækkunar á vaxtagreiðslum. Fyrir þá upphæð mætti t.d. reka nánast öll verkefni menntamálaráðuneytisins. Kostnaðurinn við erlendu lánin er orðinn ótrúlegur.
Skuldatölur í hámarki
Í Financial Times hefur Ísland verið sérstaklega nefnt sem dæmi um land þar sem erlend lán banka til þess að fjármagna lántökur heimila draga úr lánshæfi á alþjóðlegum mörkuðum. Í blaðinu kemur einnig fram að hækkandi skuldir heimilanna séu einn þeirra þátta, sem hægja á hagvexti.
Allar ofangreindar skuldatölur eru í sögulegu hámarki. Skuldir heimila og fyrirtækja hafa aldrei verið hærri og hafa aldrei hækkað jafn ört. Það er því ríkt tilefni til að hafa áhyggjur. Þótt hér sé um að ræða skuldir heimila og fyrirtækja, en ekki opinberra aðila geta stjórnvöld ekki litið framhjá þeim. Ríkisvaldinu ber skylda til þess að stuðla að heilbrigðu efnahagskerfinu. Of mikil skuldsetning lýsir ekki heilbrigðu hagkerfi.
Ábyrgð ríkisstjórnarinnar
Nú getur sá tími runnið upp að fólk skuldar meira en sem nemur verðmæti fasteignar þeirra en við þekkjum mýmörg dæmi slíks varðandi bifreiðakaup. Of miklar skuldir hafa sundrað mörgum heimilum og mörg sorgarsagan hefur orðið vegna of mikilla skulda. Stjórnmálamönnum ber að vara við óæskilegri þróun. Það hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki gert. Hún hefur gert hið þveröfuga. Ríkisstjórnin spreðar símapeningunum hægri vinstri fram í tímann og lofar miklum skattalækkunum og ýtir með því undir væntingar og skuldasöfnun.
Ríkisstjórnin gerir lítið úr varnaðarorðum óháðra aðila og hefur haldið væntingum í samfélaginu uppi með fagurgala, oflofi og sjálfshóli. Sömuleiðis stendur ríkisstjórnin fyrir aukinni þenslu og hefur hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu aldrei verið eins hátt.
Peningamálstefna Seðlabankans virðist hafa lítil áhrif. Nú er verðbólga á uppleið, þenslan er mikil og litlar eða engar mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum. Stefna stjórnvalda ýtir því undir aukna neyslu og hvetur almenning til að verja æ stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í vaxtagreiðslur vegna neyslu líðandi stundar.
Spurningin um stöðugleikann
Það er ekki stöðugleiki að búa við allt að 40% sveiflu í gengi íslensku krónunnar. Það er ekki stöðugleiki hafa 5% verðbólgu. Það sýnir ekki stöðugleika þegar skuldir heimilanna og fyrirtækjanna tvöfaldast á 5-7 árum. Það er ekki stöðugleiki að vera ein skuldugasta þjóð í heiminum. Né er það stöðugleiki þegar um 1%-stiga hækkun á erlendum vöxtum leiðir til um 25 milljarða króna hækkunar á vaxtagreiðslum.
Það endurspeglar ekki stöðugleika þegar árangurslaus fjárnám einstaklinga eru 17.000 talsins á einungis fjórum árum. Það er ekki heldur stöðugleiki að hafa að meðaltali 20 milljarða króna sveiflu í afgangi ríkissjóðs og um 30 milljarða króna sveiflu í ríkisútgjöldunum frá því sem boðað er í fjárlagafrumvörpum. Það er ekki stöðugleiki að eiga nánast heimsmet í viðskiptahalla.
Það er ekki stöðugleiki þegar bilið á milli stétta í landinu margfaldast á örfáum árum. Og það er ekki stöðugleiki þegar ríkisstjórnin stendur fyrir gegndarlausri þenslu og ábyrgðarlausri fjármálastjórn ár eftir ár.

Á ferð og flugi í sumar

Það er stundum sagt að sumarhlé þingmanna sé alltof langt en það er tæpir fimm mánuðir. Það er vel hægt að taka undir þá gagnrýni og hef ég oft talað fyrir því á Alþingi að þessu þurfi að breyta. Það er mun skynsamlegra að stytta sumarhlé og jólahlé Alþingis og vinna þá frekar í styttri en lengri lotum. En breytingar í þessa átt hafa ekki átt upp á pallborðið hjá þeim sem ráða meirihluta þingsins.
Fundur í Neskaupstað
Á þessum langa tíma hef ég reynt að nota tímann vel og m.a. farið í nokkrar ferðir út á land. Fyrr í sumar heimsóttum við Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ásamt þingmönnum kjördæmisins, Kristjáni L. Möller og Einari Má Sigurðarsyni, nokkra staði í Norðausturkjördæmi. Við heimsóttum fyrirtæki og stofnanir í Reyðarfirði, Eskifirði og Norðfirði. Síðan héldum við vel heppnaðan fund með flokksfólki í Neskaupstað þar sem málin voru rædd.
Farið um Vesturland
Ég fór sömuleiðis í mjög áhugaverða ferð á vegum heilbrigðis- og tryggingarnefndar Alþingis um Vesturland og Vesturfirði í sumar. Nefndin var í þeim erindagjörðum að skoða heilbrigðisstofnanir á svæðinu en óneitanlega gefur það manni oft aðra og betri innsýn að heimsækja fólk heldur en að heyra í þeim símleiðis eða í gegnum tölvupóstinn.

Byrjað var að heimsækja Akranes en þar heimsóttum sjúkrahúsið og heilsugæsluna. Það er ljóst að mjög faglega er staðið að allri vinnu á SHA og geta höfuðborgarbúar og aðrir búist við góðri þjónustu þar leiti þeir þangað. Svo heimsóttum við heilsugæsluna í Borgarnesi þar sem starfsfólkið bar sig vel þrátt fyrir hriplek húsakynni. Svo var stefnan tekin á St. Franciskusspítala á Stykkishólmi og fengum við góða og ítarlega kynningu þar. Saga þessa spítala er stórmerkileg og ber húsnæðis þess merki.
Vestfirðir heimsóttir
Á Stykkishólmi var gist en daginn eftir var lagt af stað fyrir klukkan sjö og var stefnan tekin á Brjánslæk. Við sigldum yfir Breiðafjörðinn í talsverðu roki og öldugangi. Eftir tæpa tvo tíma náðum við landi í Brjánslæk og keyrðum til Patreksfjarðar. Á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar mátti skynja mikla fagmennsku hjá starfsfólki. Þá var haldið til Þingeyrar og á hina vinalegu heilsugæslustöð sem þar er. Að því loknu fórum við til Bolungarvíkur og ræddum við starfsfólkið þar sem augljóslega leggur mikinn metnað í starf sitt. Að síðustu var farið á Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar sem er þungavigtarstofnun í íslensku heilbrigðiskerfi.

Á öllum þessum stöðum var tekið mjög vel á móti okkur. Sum staðar var fólk mjög bjartsýnt en annars staðar mátti skynja erfiðleika. Það er ljóst að á fámennari stöðum úti á landi er starfsfólk í heilbrigðiskerfinu oft að vinna kraftaverk við erfiðar aðstæður.
Ný jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar
Í síðustu viku voru jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar opnuð en af því tilefni fórum við Ingibjörg Sólrún ásamt þingmönnum kjördæmisins austur. Við nýttum tækifærið og héldum fund á Stöðvarfirði og á Seyðisfirði. Sömuleiðis heimsóttum við nokkra vinnustaði og ræddum við heimafólk.

Mikill uppgangur er í Fjarðabyggð vegna álversframkvæmdanna en hljóðið er þyngra hjá fólkinu sem býri í fjörðunum fyrir sunnan Fjarðabyggð og má þar nefna Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík. Ljóst er að hin svokölluðu jaðarsvæði á landsbyggðinni eiga við margs konar vanda að etja.
Líf og fjör á Stokkseyri
Þingflokkurinn allur heimsótti síðan Stokkseyri í sumar og kom það skemmtilega á óvart það mikla úrval af afþreyingu og menningu sem þar er að finna. Óhætt er að mæla með góðum fjölskyldubíltúr á Stokkseyri þar sem allt er til staðar fyrir fjölskylduna.
Eyjar og Hólmavík heimsótt
Ég fór einnig nokkrar aðrar ferðir út á land og má þar nefna skemmtilega ferð á Hólmavík. Hólmavík er skemmtilegur bær og vakti galdrasafnið sérstaka lukku. Sömuleiðis fór ég til Vestmannaeyja og í Borgarfjörðinn þar sem dvalist var í góðum félagsskap.
Það er því ljóst að hið langa sumarhlé þingsins hefur veitt mér kærkomið tækifæri til þess að ferðast um landið þar sem ég hef fengið að komast í kynni við hina ýmsu flokksfélaga.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband