Bloggfærslur mánaðarins, mars 2003

Auknar álögur ríkisstjórnarinnar á einstaklinga

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, svarar 3. mars grein minni í Morgunblaðinu frá 27. febrúar um stöðu skattamála eftir 12 ára stjórnartíð forsætisráðherra. Grein Birgis er um margt einkennileg.
Í tíð Davíðs Oddssonar hefur tekjuskattbyrði einstaklinga aukist og ekki eru efasemdir hjá neinum um það. Birgir telur hins vegar að það sé fullnægjandi skýring að tekjur hafa aukist og því sé aukin skattbyrði í góðu lagi. Því er ég ósammála. Hina auknu skattbyrði má fyrst og fremst rekja til þeirrar aðgerðar ríkisstjórnarinnar að rjúfa vísitölubindingu persónuafsláttar sem var áður en Davíð Oddsson komst til valda.
Ríkið fær stærri sneið af kökunni en áður
Það sem er þó mikilvægast í þessu sambandi er að ríkisvaldið tekur nú stærri sneið af kökunni en áður. Þetta þýðir að ríkið tekur meira af hverjum 100.000 krónum sem verða til í þjóðfélaginu árið 2001 en það gerði árið 1995. Sú staðreynd stendur óhögguð.
Skattbyrði er lykilhugtak en það er sá hluti tekna sem er greiddur í skatt. Skattbyrði einstaklinga hefur aukist hvernig sem litið er á það þrátt fyrir lækkun á prósentuhlutfalli tekjuskattsins.
Því til sönnunar að prósentubreytingar á skatthlutfalli segi alls ekki alla söguna staðfestu kollegar Birgis hjá Samtökum atvinnulífsins í 4. tbl. fréttablaðs síns árið 2001 að þrátt fyrir talsverða lækkun á tekjuskattshlutfalli hjá fyrirtækjum á síðasta áratugi hafi raunvirði tekjuskatt lögaðila farið hækkandi á þeim áratug vegna aðgerða ríksstjórnarinnar.
Önnur sláandi staðreynd stendur óhögguð. Samneyslan, sem er neysla hins opinberra sem hlutfall af landsframleiðslu, hefur aukist um rúm 13% frá 1995 til 2001. Með öðrum orðum hefur báknið aukist um rúm 13% í tíð núverandi ríkisstjórnar og því mótmælir Birgir ekki.
Afrekin eru ekki glæsileg gagnvart barnafólki
Birgi Ármannssyni finnst það vera í góðu lagi að láglaunafólk og lífeyrisþegar með laun og bætur undir 90.000 krónum á mánuði greiði um 1 milljarð króna í tekjuskatt og útsvar sem það gerði ekki fyrir tíma Davíðs Oddssonar. En það er ekki í góðu lagi og sýnir vel mismunandi hugmyndafræði frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Við mælum ekki bót skattlagningu á þá sem minnst mega sín í samfélaginu eins og Sjálfstæðismenn gera.
Birgir er sannfærður um að barnabætur hafi ekki verið skertar vegna aukinna útgjalda ríkisins til þeirra frá árinu 1999. Barnabætur eru nú um 36.000 kr. á ári en á sambærilegu verðlagi í janúar 2003 voru þær hins vegar um 40.000 krónur þegar núverandi ríkisstjórn tók við árið 1995. Árið 1988 voru barnabætur 46.000 kr. á sama verðlagi. Á þessu sést að barnabætur voru skertar frá því sem var og hér tala tölurnar sínu rétta máli.
Barnabætur hafa verið skertar um rúma 10 milljarða króna í tíð núverandi ríkisstjórnar með því að láta viðmiðunarfjárhæðir ekki fylgja verðlagsþróun og vegna tekjutengingar á barnabótum. Fólk fékk hærri barnabætur árið 1995 en það fær árið 2002 og fleiri fengu þær. Nú fá aðeins 11,3% foreldra óskertar barnabætur og liðlega 3% hjóna.
Eftir standa afrek ríkisstjórnar forsætisráðherrans eftir 12 ára setu að meiri skattbyrði er á einstaklingum, engar tekjuskattslækkanir urðu að raunvirði á fyrirtæki allan 10. áratuginn, báknið er stærra en nokkurn tíma áður, áður óþekkt skattheimta er lögð á láglaunafólk og bótaþega, barnabætur eru lægri, tryggingargjöld eru hærri, stórauknir skattar voru lagðir á áfengi og tóbak, loforð um 900 milljóna króna lækkun stimipilgjalda var svikið, þjónustugjöld stórjukust, síaukinn lyfjakostnaður heimilanna liggur fyrir og eitt hæsta matvælaverð heims. Þetta er reynslan af meira en áratugavaldatíð forsætisráðherrans.

Sjávarútvegi er betur borgið innan ESB

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, skrifar grein um ástæður þess af hverju Ísland ætti ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu í DV fyrir stuttu. Það hefur verið afar forvitnilegt að fylgjast með málflutningi andstæðinga aðildar að ESB undanfarin misseri.
Síbreytilegur málflutningur andstæðinga aðildar
Fyrst héldu menn því fram að hér myndi allt fyllast af spænskum togurum við aðild Íslands að ESB. En þeim var þá bent á þá staðreynd að kvótaúthlutun ESB byggist á grundvallareglunni um veiðireynslu og þar sem útlendingar hafa enga veiðireynslu í íslenskri lögssögu myndu Íslendingar fá allan kvóta í íslenskri lögssögu.
Þá breyttist málflutningurinn í þá veru að erlend stórfyrirtæki myndu kaupa upp öll íslensku sjávarútvegsfyrirtækin við aðild og flytja arðinn af Íslandsmiðum milliliðalaust úr landi og má sjá áhyggjur af slíku í grein Friðriks. En þá fengu þeir vitneskju um að samkvæmt mörgum dómum Evrópudómstólsins (s.s. Kerrmálið nr. 287/81 og Jaderowmálið nr. C-216/87) er hægt að gera kröfu um að sjávarútvegsfyrirtæki sem fá kvóta í íslenskri lögssögu hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við Ísland.
Þetta þýðir að hægt er að binda kvóta við skip sem hafa efnahagsleg tengsl við viðkomandi svæði sem er háð fiskiveiðunum og krefjast að daglegur rekstur og starfsemi skips sé á Íslandi og að hagnaður veiðanna fari í gegnum íslenskt efnahagslíf. Bretar, Danir og fleiri þjóðir hafa gripið til slíkra leiða og hefur sjávarútvegsráðherra Breta staðfest í samtali við Ríkissjónvarpið að það hafi reynst vel.
Við inngöngu Íslands í ESB er því hægt að gera frekari kröfur en nú er um að hagnaður af veiðum fari í gegnum íslenskt efnahagslíf. Eins og staðan er nú er ekkert sem hindrar að verðmæti af Íslandsmiðum fari beint úr landi. Aðild Íslands að ESB kæmi því landsbyggðinni beinlínis mjög til góða.
Veiðireynsla mun ráða
En þá breytist málflutningur andstæðinga aðildar aftur. Nú hét það að hinar hagstæðu reglur ESB hljóti einfaldlega að breytast í framtíðinni og hefur Friðrik áhyggjur að slíkt gerist. Við endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB var hins vegar ákveðið að það skyldi ekki vera hróflað reglunni um hlutfallslegan stöðugleika sem er um veiðireynsluna enda er hún hornsteinn sjávarútvegsstefnu ESB.
Sjávarútvegsráðherrar Dana og Breta ásamt yfirmanni sjávarútvegsmála ESB, Dr. Franz Fischler, hafa staðfest að það standi ekki til að breyta reglunni um veiðireynsluna. Það þýðir ekki hræða fólk með því að segja í sífellu að allt muni breytast á versta veg þegar Íslendingar eru loks komnir í sambandið.
Deilistofnana er vel gætt
Þrátt fyrir að mikilvægustu nytjastofnar Íslands séu staðbundnir talar Friðrik mikið um deilistofna og undrar sig á samningshörku ESB þegar kemur að samningum við Íslendinga. Það hljóta þó að teljast vera mikil meðmæli með ESB hversu harðir þeir eru í samningum við þriðja ríki eins og Ísland. Ef Ísland væri aðili að ESB myndum við vilja að þeir væru harðir í horn að taka í samningaviðræðum við þjóðir utan sambandsins. Í þessu sambandi er einnig rétt að minnast þess að reglan um veiðireynslu á einnig við um deilistofna.
Nú þurfum við að reyna að semja við aðrar þjóðir um nýtingu á deilistofnum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það má færa gild rök fyrir því að þjóðir sem vinna eins náið saman og í Evrópusambandinu eru líklegri til að taka meira tillit til hvers annars en þjóðir sem taka ekki þátt í slíku samstarfi.
Mikill ávinningur sjávarútvegsfyrirtækja
Miklir hagsmunir eru fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ef af aðild Íslands verður. Tollar falla niður og er Friðrik sammála að það skiptir miklu máli. Mikilvægur sjávarútvegsmarkaður í Austur-Evrópu opnast við aðild og miklir veiðimöguleikar þar sem ESB hefur samið um veiðiheimildir við strendur 27 ríkja utan ESB.
Miklir möguleikar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á fjárfestingarfé myndu opnast og samkeppnisstaða þeirra stórbatna. Íslendingar eru á heimsmælikvarða í sjávarútvegi og á því hinn landlægi ótti við erlent fjármagn hvað síst við um sjávarútveginn. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga að sjálfsögðu rétt á því að hafa val um erlent hlutafé rétt eins og önnur fyrirtæki í landinu en ekki einungis erlent lánsfé eins og staðan er nú.
Ekki góð hagsmunagæsla
Með inngöngu í ESB munu Íslendingar fá tækifæri til að móta hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu og tryggja þannig hagsmuni íslenskra fyrirtækja sem selja langstærsta hluta afurða sinna á Evrópumarkaði. Það er minnimáttarkennd að telja að við verðum áhrifalaus innan ESB. Ríki sem einbeita sér að tilteknum málum hafa mikil áhrif og er Lúxemburg dæmi um það. Sá sem situr við borðið á fundi og hefur eitthvað að segja hefur áhrif. Það gildir um ESB eins og alls staðar í samskiptum manna.
Önnur jákvæð áhrif aðildar eru að viðskipti og erlendar fjárfestingar aukast þar sem viðskiptakostnaður lækkar og viðskiptahindranir hverfa. Evran stuðlar að mun lægri vöxtum, dregur úr mismunandi hagsveiflum og eykur langþráðan gengisstöðugleika.
Það er leitt að hagsmunagæslumenn íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eins og Friðrik J. Arngrímsson skuli skella skollaeyrum við miklum ávinningi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við aðild Íslands að ESB með hræðsluáróðri og haldlitlum rökum.

Sjálfstæðisflokkur-flokkur skattahækkana

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, lýsti mikilli ánægju með þær skattalækkanir sem hann taldi Davíð Oddsson hafa staðið fyrir í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Þetta er mikill misskilningur.
Báknið hefur stækkað
Það er margt þjóðsagnarkennt um meintar skattalækkanir á áratugi Davíðs Oddssonar. Þegar málin eru skoðuð kemur margt forvitnilegt í ljós. Heildarskatttekjur ríkisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá 1995 til 2001, hafa hækkað úr 25,3% í 29,4% sem er um 16% hækkun. Þetta þýðir að af hverjum 100.000 krónum sem verða til í þjóðfélaginu tók ríkið áður 25.000 krónur í skatt, en tekur nú um 29.000 krónur.
Þessi skattahækkun samsvarar því að hver Íslendingur borgar rúmlega 110.000 krónum meira á ári til ríkisins. Það gerir 440.000 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Samneyslan, þ.e. neysla opinberra aðila, var 20,8% af landsframleiðslunni árið 1995 en 23,6% árið 2001. Báknið hefur því aldrei verið stærra.
Skattbyrðin hefur aukist
Eins og hefur komið fram, t.d. í fréttaskýringum DV, hefur skattbyrði einstaklinga aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar en ekki minnkað, m.a. vegna þess að persónuafslátturinn hefur ekki fylgt launa- og verðlagsþróun eins og hann gerði áður en Davíð Oddsson komst til valda. Skattleysismörk væru nú um 7.000 krónum hærri á mánuði ef þau hefðu fylgt launabreytingum frá 1995. Þessi aukna skattbyrði er ekki vegna sveitarfélaganna þar sem meginskýringin á auknum hlut útsvars í heildarskattbyrðinni er vegna verkefna sem ríkisstjórnin flutti til sveitarfélaganna eins og grunnskólana.
Skattbyrðin hefur aukist enn meira ef litið er til skerðinga ríkisstjórnarinnar á vaxta- og barnabótum. Barnabætur hafa lækkað um 10 milljarða króna í tíð núverandi ríkisstjórnar miðað við það fyrirkomulag sem var áður. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 2001 greiddi láglaunafólk og lífeyrisþegar með laun og bætur undir 90 þúsund krónum á mánuði um 1 milljarð króna í tekjuskatt og útsvar. Þessi hópur greiddi ekki tekjuskatt og útsvar fyrir tíma Davíðs Oddssonar.
Lækkun á prósentutölu segir ekki alla söguna. Tekjuskattar á fyrirtæki er nú 18% en lækkaði ekki í raun á síðasta áratug. Þar sem tekjuskattur fyrirtækja er greiddur eftir á var skatthlutfallið lagað að minnkandi verðbólgu og skattstofninn breikkaður með afnámi frádráttarheimilda. Í 4. tbl. fréttabréfs Samtaka atvinnulífisins árið 2001 segir að ,,þegar tekið er tillit til þessara atriða kemur í ljós að engin skattalækkun átti sér stað heldur sýna þessar tölur þvert á móti að raunvirði tekjuskatts lögaðila fór heldur hækkandi á síðasta áratug."
Ríkisstjórnin hækkar og hækkar skatta
Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar við lokaafgreiðslu fjárlaga 2003 voru 3,8 milljarða króna sem m.a. birtust í um 1,8 milljaða króna hækkun á tryggingargjaldi sem kemur verst niður á þeim fyrirtækjum sem byggja afkomu sína á mannauði og hækkun á stimpilgjaldi um 900 milljón króna, en ríkisstjórnin hafði lýst því yfr að stimpilgjaldið ætti að lækka. Núverandi ríkisstjórn hækkaði sömuleiðis skatta á áfengi og tóbaki um 1,1 milljarð króna.
Fyrir utan aukna skattbyrði og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar urðu margs konar hækkanir á þjónustu- og komugjöldum, stóraukin þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og skólagjöld sem þekktust varla fyrir tíð núverandi ríkisstjórnar.
Ein af meginskýringum á hinu geysiháa matvælaverði á Íslandi er þáttur hins opinbera en matvæli er einn stærsti útgjaldaliður einstaklinga ásamt sköttum og húsnæði. Stjórnvöld viðhalda t.d. tollakerfi sem kostar íslenska neytendur um 3-4 milljarða króna árlega skv. nýlegri grein í Vísbendingu. Þetta samsvarar um 40.000-50.000 kr. á hvert heimili í landinu. Á tímabilinu 1990 til 2001 hefur matvælaverð hækkað langmest á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd skv. upplýsingum frá forsætisráðuneytinu.
Þeirra tími er liðinn
Málflutningur Sjálfstæðismanna í efnahagsmálum er því ekki á rökum reistur og byggist fyrst og fremst á hræðsluáróðri. Miðað við hvernig efnahagsástandið var áður en Íslendingar gerðu EES-samninginn árið 1994 og fengu aukið frjálsræði og opnara hagkerfi er vel hægt að fullyrða að allar ríkisstjórnir fyrir þann tíma hafi verið á rangri braut í efnahagsmálum, bæði hægri og vinstri stjórnir. Nú er umhverfið einfaldlega allt annað.
Samfylkingin er frjálslyndur stjórnmálaflokkur sem berst m.a. fyrir því að lækka skatta á einstaklinga og auka frelsi atvinnulífs frá afskiptum stjórnmálamanna. Þegar minna en þrír mánuðir eru til kosninga og það hallar mikið á Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum boðar forsætisráðherra skattalækkanir sem hann er búinn hafa 12 ár til að framkvæma. Reynsla undanfarinna 12 ára sýnir þó hver er hinn raunverulegi flokkur skattahækkana.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 144252

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband