Bloggfærslur mánaðarins, maí 2005

Þakkir fyrir stuðninginn

Ég vil þakka flokksmönnum Samfylkingarinnar kærlega fyrir stuðninginn í varaformannskjöri Samfylkingarinnar. Ég tel að flokksfólk hafi sýnt ákveðna djörfung og þor með því að velja ungan mann í embætti varaformanns.
Nú er fyrir mestu að við snúum bökum saman og stöndum saman að því að tryggja góðan sigur í næstu sveitarstjórnarkosningum á næsta ári sem er mikilvægur áfangi í að tryggja sigur okkar allra í alþingiskosningum ári síðar.

Landsfundurinn nálgast



Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn næstu helgi. Mikil spenna er í kringum landsfundinn vegna formannskjörsins og verður andrúmsloftið í Egilshöll í Grafarvogi kl. 12 á laugardaginn án efa rafmagnað þegar úrslitin verða tilkynnt. Tæpum klukkutíma síðar hefst síðan kosningin til varaformanns. Kosningin til varaformanns tekur einungis um eina klukkstund og er kl. 13-14. Það skiptir því máli að fólk átti sig á þesssum tímasetningum á landsfundinum.
Margs konar málefnastarf verður einnig á landsfundinum og munu málefnahópar taka til starfa laugardagsmorguninn kl. 9. Það er ástæða til að hvetja alla flokksmenn að taka þátt í að móta framtíðarstefnu flokksins. Landsfundir Samfylkingarinnar eru einungis haldnir annað hvert ár og því er hér á ferðinni gott tækifæri fyrir flokksmenn að láta að sér kveða í starfi flokksins. Frekari dagskrá má finna hér á samfylking.is.

Svik stjórnarmeirihlutans

Ríkisstjórnarflokkarnir sviku samkomulag sem náðist á milli þingflokkana síðastliðinn mánudag um þinglok. Í því samkomulagi var ákveðið hvaða mál átti að taka út til að liðka fyrir þinglokum og var Rúv-frumvarpið og Vatnalagafrumvarpið meðal þeirra sem voru tekin út. Hins vegar var ekki samið að fyrningarfrumvarpið yrði tekið út og var það sett á dagskrá á mánudaginn. Það komst síðan ekki til umræðu þann daginn vegna umræðu í öðrum málum og átti því að vera til umræðu á miðvikudaginn eða síðasta dag þinghaldsins.

Leikrit stjórnarflokkana
Síðan kom í ljós seint á þriðjudagskvöldinu þegar dagskrá miðvikudagsins lá fyrir að frumvarpið um afnám fyrningfresti í kynferðisafbrotum gegn börnum var ekki á dagskránni. Ég og fleiri í stjórnarandstöðunni mótmæltum þessu kröftuglega en allt kom fyrir ekki. Ég er sannfærður að við höfum orðið vitni að leikriti stjórnarflokkana þar sem aldrei stóð til að afgreiða þetta mál í þingsalnum. Meirihluti allsherjarnefndar, sem svæði málið í fyrra í nefndinni, var mjög tregur til að afgreiða málið frá sér en eftir mikinn þrýsting frá samfélaginu og þar á meðal 15.000 undirskriftum Blátt áfram systra og frá öllum ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkana náðist málið úr nefndinni með breytingartillögum frá stjórnarmeirihlutanum.

Forseti Alþingis ákveður dagskrána í samráði við vilja þingflokka stjórnarflokkanna og því er ljóst að ákvörðunin að setja fyrningarmálið ekki á dagskrá kemur frá þeim. Stjórnarflokkarnir ákváðu að líta þetta mál með flokkspólitískum gleraugum og þeir virðast ekki hafa getað hugsað sér að samþykkja mál sem lagt er fram af stjórnarandstöðuþingmanni. Þetta er ömurlegt viðhorf og enn dapurlegra þegar hafðir eru í huga þeir hagsmunir sem eru í húfi í þessu máli.

Vel heppnuð ferð til Seyðisfjarðar

Fyrir stuttu fór ég til Seyðisfjarðar á aðalfund kjördæmarráðs Norðausturkjördæmis. Gríðarlega vel var mætt á fundinn og skartaði Seyðisfjörður sínu fegursta. Byggða- og atvinnumál voru rædd frá ýmsum sjónarhólum og spunnust góðar umræður á fundinum.
Innra starf Samfylkingarinnar bar einnig á góma en það er ljóst að mikill vilji er í kjördæminu fyrir öflugu flokksstarfi. Til að það megi takast svo vel sé er grundvallaratriði að flokkurinn styðji slíkt starf með áþreifanlegum hætti. Slíkur stuðningur þarf bæði að birtast sem fjárhagslegur stuðningur og félagslegur.
Öflugt innra starf skilar sér margfalt tilbaka
Gríðarlega mikilvægt er að flokkurinn átti sig á því að öflugt innra starf um allt land skilar sér margfalt tilbaka. Slíku starfi má líkja við menntakerfið þar sem hver króna í er fjárfesting sem skilar sér tilbaka á skömmum tíma. Framundan eru mikilvægir tímar fyrir flokkinn. Það þarf að undirbúa sveitarstjórnarkosningarnar vel og árið þar á eftir verða Alþingiskosningar.

Allt innra starf flokksins þarf að taka mið af þeim verkefnum sem framundan eru og mæta þörfum og vilja flokksmanna um allt land. Fólkið í flokknum er auðlind hans og flokkurinn verður að nýta auðlindir sínar vel.


Fimmtudagsfríin færð

Í dag er uppstigningadagur og því frí víðast hvar í samfélaginu. Sumardagurinn fyrsti og uppstigningadagur eru báðir frídagar sem ætíð bera upp á fimmtudögum. Oft kemur upp sú umræða um hvort komi til greina að færa umrædda frídaga yfir aðra vikudaga t.d. föstudaga. Núverandi tilhögun skapar ýmis konar óhagræði í atvinnulífi og slítur í sundur vinnuviku. Sömuleiðis kemur þetta fyrirkomulag í veg fyrir að almenningur geti notið frídaganna eins og vel og unnt væri í ljósi þess að þeir eru í miðri viku.

Séu frídagarnir fluttir næðist meiri samfella í vinnuvikunni og aukin hagkvæmni á vinnustöðum. Framleiðni og afköst ættu að aukast ásamt hagræði og skilvirkni í atvinnulífinu. Launþegar gætu einnig nýtt umrædda frídaga mun betur þar sem þeir væru þá hluti af helgarfríi. Breytt fyrirkomulag gæti því ýtt undir ferðalög, tómstundir og afþreyingu almennings ásamt því að auðga samverustundir fjölskyldunnar. Í raun má segja að hagsmunir launþega, atvinnulífs og fjölskyldna fari saman að þessu leyti.
Þrátt fyrir að sumardagurinn fyrsti og uppstigningadagur yrðu ekki lengur frídagar myndu dagarnir sem slíkir halda sínu gildi eftir sem áður. Í raun gæti breytt fyrirkomulag ýtt undir frekari hátíðarhöld, helgihald og afþreyingu á þessum dögum. Þess í stað yrði frí næsta dag á eftir sem jafnframt yrði samliggjandi við helgarfrí. Sumardagurinn fyrsti og uppstigningadagur hefðu því enn ríkt gildi fyrir almenning sem gæti notið þeirra eftir sem áður ef föstudagurinn eftir umrædda daga yrði gerður að frídegi, en ekki t.d. mánudagur þar á eftir. Flutningur frídaga má finna víða m.a. í Bretlandi, Ástralíu, Kanada og Hong Kong ásamt hjá opinberum starfsmönnum í Bandaríkjunum.

Margs konar röksemdir eru að baki fríi á sumardegi fyrsta og uppstigningadags. Annars vegar búa að baki sögulegar ástæður, og hins vegar trúarlegar. Í lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, kemur fram í 1. mgr. 6. gr. að frídagar séu helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní og enn fremur aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá kl. 13. Í 2. mgr. laganna er lögfest að frá og með árinu 1983 skuli fyrsti mánudagur í ágúst vera frídagur sem í daglegu tali er kallaður frídagur verslunarmanna. Heimilt er að víkja frá ákvæðum laganna með samningum, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/1971. Sérstök lög gilda um frídag sjómanna, lög nr. 20/1987, en skv. 1. mgr. 1. gr. þeirra skal fyrsti sunnudagur í júnímánuði hverjum vera almennur frídagur sjómanna. Það er tímabært að skoða hvort skynsamlegt sé að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi sem nú er við lýði.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 144253

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband