Bloggfærslur mánaðarins, október 2002

Nauðsynleg endurnýjun Alþingis

Töluverð umræða hefur verið undanfarið um aldursskiptingu Alþingis og um nauðsyn á endurnýjun í stjórnmálaflokkunum. Í því sambandi hefur verið talað um Hrafnistuþing og að hippakynslóðin einoki löggjafarvaldið.

Þótt aldur þingmanna segi ekki allt um þá er eðlilegt að gera þá kröfu að flestir aldurshópar, hvað þá heilu kynslóðirnar, eigi fulltrúa á þingi. Um 60% af íslensku þjóðinni er undir fertugu en aðeins um 6% þingmanna eru undir þeim aldri. Um 80% af þingmönnum er á aldrinum 45-59. Það má því segja að þingmenn þjóðarinnar séu flestir af sömu kynslóðinni. Á hinum Norðurlöndum er að finna tvítuga þingmenn og ráðherra undir þrítugu. Á Alþingi er yngsti þingmaðurinn hins vegar að nálgast fertugt. Á danska þinginu eru hins vegar rúmlega 20% þingmanna undir 35 ára.
Endurspeglar ekki þjóðina
Aldursskiptingin á Alþingi er óæskileg þar sem hún endurspeglar ekki þjóðarina. Aldursskiptingin er einnig óheppileg þar sem hún birtist oft í sinnuleysi þingsins gagnvart málum sem varða einkum ungt fólk eins og í mennta-, húsnæðis- og skattamálum. Vitaskuld er það ekki svo að hinir eldri beini sjónum sínum einvörðungu að fólki á sama aldri en það verður ekki framhjá því litið að það er ekki til að auka líkurnar á því að málefni ungs fólks séu ofarlega á baugi ef enginn þingmaður er undir 36 aldri á Alþingi. Sama á við um málefni eldri borgara en nú er einungis einn þingmaður yfir 66 ára aldri.

Menntamál eru málefni sem gripið er til á hátíðarstundum en málefnalega umræðu um menntun, skóla og leiðir til að bæta íslenskt menntakerfi vantar. Til að menntakerfið verði öflugt þurfum við öfluga málsvara menntunar á Alþingi. Það þarf að setja menntamál í algjöran forgang enda hafa Íslendingar dregist verulega aftur úr öðrum vestrænum þjóðum í menntamálum, m.a. vegna áhugaleysis þingmanna.

Húsnæðismál eru mikið vandamál hjá mörgum, ekki síst yngra fólk sem er að koma sér upp sínu fyrsta húsnæði. Ástandið á leigumarkaði er erfitt, leiga er dýr og leigumarkaðurinn er ótryggur. Þetta veit ungt fólk. Sumir þingmenn virðast hins vegar ekki vera með þetta á hreinu samanber ummæli Páls Péturssonar félagsmálaráðherra um hið lága leiguverð sem enginn kannaðist við. Formaður Ungra framsóknarmanna sá sig meira að segja knúinn til að leiðrétta félagsmálaráðherrann.
Rödd nýrrar kynslóðar
Hin gleymda kynslóð hefur alist upp við allt annað samfélag en kynslóð foreldra sinna. Heimurinn hefur gjörbreyst undanfarin 15 ár. Viðhorf yngri kynslóða er oft töluvert öðruvísi en skoðanir eldri kynslóða. Ýmsir málaflokkar haldast því frekar í hendur við aldur en flokkadrætti og er hægt að nefna viðhorf yngri kjósenda til réttinda samkynhneigðra, aðskilnað ríkis og kirkju, áherslu á menntamál og frumkvöðlastarfsemi, og landið sem eins kjördæmis.

Þegar litið er til nágrannalanda okkar sést berlega að staðan á Íslandi er óeðlileg. Við búum við einsleitt þing en það getur ekki verið af hinu góða. Á danska þinginu eru til að mynda 40% þingmanna undir 45 ára aldri en hérlendis er talan 14%. Alþingi verður að vera í takti við þjóðina. Það vantar því nauðsynlega rödd nýrrar kynslóðar á Alþingi.

Fall forsætisráðherrans

Sú staðreynd að rekja megi hinar gæfuríku breytingar á íslensku samfélagi undanfarinn áratug til EES-samningsins en ekki til aðgerða forsætisráðherra mun ekki verða honum að falli, heldur sú staðreynd að Davíð Oddsson skynjar ekki lengur umhverfi sitt rétt. Stjórnmálamaður sem ekki les rétt í aðstæður missir um síðir stuðning fólksins. Slíkt varð leiðtogum eins og Margret Thatcher og Helmut Kohl að falli.
Sjaldan hefur forsætisráðherra orðið jafnber að því að skynja ekki þjóðarsálina og þegar heimsókn Kínaforseta stóð yfir síðastliðið sumar. Þá sagðist Davíð að hann skynjaði enga óánægju meðal þjóðarinnar. Óhætt er að segja að hátterni íslenskra stjórnvalda í garð mótmælenda hafi uppskorið einlæga reiði almennings. Einnig má nefna nýleg ummæli forsætisráðherrans þar sem hann afgreiddi starf Mæðrastyrksnefndar með þeim orðum að það væri alltaf til fólk sem hlypi til eftir ókeypis mat og fatnaði.

Beiting valds

Ekkert ærir forsætisráðherra jafnmikið og Evrópuumræðan skelfilega. Forsætisráðherra segist ekki verða hlynntur aðild fyrr en hann "sé orðinn galinn" og að Evrópusambandið sé "eitt ólýðræðilegasta skrifstofubákn sem hefur verið fundið upp". Þeir sem mæla með upptöku á Evrunni tali síðan af "yfirgripsmikilli vanþekkingu".
Forsætisráðherra hefur nú verið lengur við völd en nokkur annar forsætisráðherra hér á landi. Það er þekkt að vald spillir og að mikið vald gjörspilli en verst fer þó líklega á því að vera með valdið of lengi í hendi sér. Davíð Oddsson er farinn að beita valdinu með öðrum hætti en ætlast er til af honum.
Örlög andstæðinganna

Allir muna eftir örlögum prests sem vann sér það til saka að skrifa óheppilega smásögu að mati forsætisráðherra og missti starfið. Þjóðhagsstofnun var ósammála Davíð í efnahagsmálum og var fyrir vikið lögð niður. Samtök iðnaðarins framkvæmdu skoðanakönnun um afstöðu þjóðarinnar til ESB en uppskáru í kjölfarið hótun frá forsætisráðherra um að skrúfað yrði fyrir opinbera tekjuleið þeirra.
Efast var um læsi yfir hundrað háskólaprófessora þegar þeir dirfðust að vera ósammála forsætisráðherra í fiskveiðistjórnunarmálum. Eftir minnisblaðsdóminn í öryrkjamálinu kom orðsending úr forsætisráðuneytinu um að dagskrá ríkisstjórnarfunda ætti ekki lengur að vera opinber.
Enn fleiri hafa fengið að heyra það frá forsætisráðherranum og má þar nefna Biskup Íslands, Hæstarétt, Samkeppnisstofnun, fréttastofu Ríkisútvarpsins, einstaka rithöfund, Norðurljós, Orca-hópinn, Kaupþing og Baug. Þegar dæmin eru skoðuð saman sést svo ekki verður um villst að um mynstur er að ræða. Það er kominn tími til breytinga.

Kosningamiðstöð opnar

Næstkomandi föstudagskvöld, 25. október, mun ég opna kosningamiðstöð mína vegna prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík þann 9. nóvember nk. Af því tilefni langar mig til að bjóða lesendum að kíkja við kl. 20:30 og þiggja léttar en drjúgar veitingar. Kosningamiðstöðin er til húsa í Pósthússstræti 7, á 3. hæð, sem er nánar tiltekið fyrir ofan veitingastaðinn Apótekið og við hliðina á Hótel Borg.

Sóknarfæri Samfylkingar blasa við

Evrópukosning Samfylkingar stendur nú yfir. Flokksmenn Samfylkingarinnar fá með henni tækifæri til að kjósa um stefnu flokksins í máli sem hlýtur að teljast ein stærsta pólitíska spurning samtímans. Mikilvægt er að flokksmenn taki þátt í kosningunni og sýni það að þeir kunni að meta þá lýðræðislegu leið sem boðið er upp á. Flokksmenn fá með beinum hætti að móta stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálunum.
Lýðræðislegt starf Samfylkingarinnar og stefna flokksins vinnur stöðugt á meðal þjóðarinnar. Flokkurinn mælist nú stærri en í langan tíma í skoðanakönnunum og er stöðugt að styrkja sig, öfugt við það sem margir hafa spáð.
Næststærsti flokkurinn
Samfylkingin er nú næststærsti flokkur landsins og er næstum því jafnstór og Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn til samans. Ljóst er að Samfylkingin er verulega að styrkja sig í sessi. Þrátt fyrir ungan aldur sýndi flokkurinn það í sveitastjórnarkosningunum og sannaði þvert ofan í hrakspár andstæðinga að Samfylkingin er sterkur flokkur og raunar eina alvöru mótstöðuaflið við Sjálfstæðisflokkinn.
Sveitarstjórnakosningarnar bera vitni um sterka stöðu og þær minna jafnframt á það það eru niðurstöður kosninga sem skipta máli en ekki tölur skoðanakannana. Vinstri hreyfingin grænt framboð hafði þannig um langan tíma mælst með mun meira fylgi en kjörkassarnir skiluðu í sveitarstjórnarkosningunum.
Nýtum prófkjörin til endurnýjunar
Kosningaveturinn verður án efa spennandi og það verður án efa tekist harkalega á í vetur. Nái Samfylkingin að halda rétt á spilunum í vetur ætti niðurstaða kosninganna í vor að geta orðið félagshyggjufólki að skapi. Í Reykjavík höfnuðu borgarbúar í vor innsta valdahring Sjálfstæðisflokksins með afdráttarlausum hætti.
Nú eru framundan prófkjör um allt land hjá Samfylkingunni. Það er óskandi að Samfylkingin nýti þau tækifæri sem felast í slíkum kosningum og gangi í gegnum nauðsynlega endurnýjun sem gerir góðan flokk betri.

Síbreytilegur rökstuðningur andstæðinga ESB

Málflutningur andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu, s.s. sjávarútvegsráðherra og formanns Vinstri grænna, hefur stundum verið með ólíkindum hvað varðar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Fyrst fullyrtu þeir að með aðild Íslands að ESB myndi íslensk landhelgi fyllast af spænskum og portúgölskum togurum. Þessu héldu þeir lengi fram eða þar til það loksins síaðist inn að heildarkvóta ESB er skipt eftir veiðireynslu og þar sem útlendingar hafa enga veiðireynslu í íslenskri lögsögu fengju þeir engan kvóta hér.

Þá breytist málflutningur sjávarútvegsráðherra og fleiri og fór rökstuðningurinn að fjalla um að útlendingar hefðu hér veiðireynslu þar sem þeir hefðu í fyrndinni veitt við Íslandsstrendur. Þeir hættu þó fljótlega að nota þetta sem röksemd gegn aðild að ESB eftir að búið var að benda þeim á að 25-30 ár gömul veiðireynsla er ekki notuð heldur sú veiðireynsla sem er til staðar þegar viðkomandi aðildarsamningur er gerður. Þegar Spánn gekk í ESB 1986 þá hafnaði ESB því að notuð yrði veiðireynsla Spánverja á 8. áratugnum sem varð til fyrir útfærslu landhelgi ríkjanna í ESB. Þegar Norðmenn voru að semja við ESB um inngöngu árin 1992-1994 þá var miðað við veiðireynslu áranna 1989-1993.

Allt á að fara á versta veg
Þegar þetta var orðið ljóst fóru andstæðingar aðildar að tala um að reglur og lög Evrópusambandsins myndu breytast á versta veg um leið og Ísland gengi inn í sambandið. Reglan um veiðireynslu átti að verða afnumin og allt myndi snúast um 180 gráður. Þetta héldu þeir fram þrátt fyrir að yfirmaður sjávarútvegsmála ESB, yfirmaður endurskoðunar á sjávarútvegsstefnu ESB og þáverandi sjávarútvegsráðherrar Dana og Breta hafa staðfest að reglan um veiðireynslu sé ekki að fara að breytast þar sem um væri að ræða hornsteinn sjávarútvegsstefnunarinnar. Sömuleiðis fengist aldrei samþykki allra aðildaríkjanna um slíka róttæka breytingu.

Síðasta útspil andstæðinga aðildar Íslands að ESB er að tala um flökkustofnanna og um hve Evrópusambandið er erfitt í samningaviðræðum. Þeir gleyma þó því að veiðiréttur flökkustofna fer einnig eftir veiðireynslu og sé hún til staðar þá eigum við rétt á veiðum á þessum stofnum. Það má einnig benda á að Íslendingar myndu samt sem áður þurfa að semja um nýtingu á þessum stofnum hvort sem þeir væru hluti af ESB eða ekki. Það er þó ljóst að þjóðir í miklu samstarfi á mjög mörgum sviðum eins og í Evrópusambandinu eru líklegar til að taka meira tillit til hvers annars heldur en til þjóða sem eru fyrir utan slíkt náið samstarf. Það að ESB sé hart í horn að taka í samningaviðræðum við önnur ríki, eins og Ísland, sýnir einungis að ESB gætir vel hagsmuna sinna aðildarríkja. Það hlýtur að vera eitthvað sem við myndum vilja ef við göngum í ESB.

Opinn fundur fimmtudagskvöldið

Það er því ljóst að málflutningur andstæðinga aðildar Íslands að ESB vegna sjávarútvegsmála er ekki sterkur og snýst að stórum hluta um að vekja þjóðerniskenndan ótta við hið óþekkta. Það er talað í sleggjudómum og minnst á þorskastríðin og að auðlindin hverfi úr höndum þjóðarinnar og þar fram eftir götunum. En þegar betur er gáð þá sést í gegnum um svona málflutning og dæmir hann fyrst og fremst sig sjálfur.
Fimmtudagskvöldið 17. október kl. 20 verður haldinn opinn borgarafundur um Evrópumál í Bíóborginni. Þetta er síðasti fundur Samfylkingarinnar um þessi mikilvægu mál og er mikilvægt að sem flestir mæti. Þar verður m.a. rætt um sjávarútvegsmálin og mun m.a formaður Heimssýnar takast á við þau. Það eru allir velkomnir og eru góðar líkur að fundurinn verði líflegur og skemmtilegur enda er verið að fjalla um eina stærstu pólitísku spurningu samtímans.

Mikilvægir tímar í íslenskri pólitík



Hér að neðan má sjá hluta viðtals við Ágúst Ólaf Ágústsson sem birtist í nýútgefnu blaði Ungra jafnaðarmanna, Pólitík.


Ungir jafnaðarmenn hafa frá stofnun sinni lagt mikla áherslu á Evrópumálin og eru eina stjórnmálahreyfingin sem er með aðild Íslands að ESB á stefnuskrá. Hefur þú mikinn áhuga á Evrópumálunum?
"Evrópumálin hafa alltaf verið mér mjög hugleikin og ég er sannfærður um að Íslendingar eiga heima í Evrópusambandinu. Ég held að ungt fólk sé einhverra hluta vegna ákveðnara í Evrópumálunum og vissara í sinni sök. Kannski er það vegna þess að mín kynslóð hefur í auknum mæli farið út í nám, lítur ekki á það sem fyrirstöðu heldur tækifæri á starfa á erlendri grundu og hefur ferðast mikið og á þar af leiðandi góð tengsl við erlenda vini. Þessi kynslóð lætur síður glepjast af þjóðrembulegum hræðsluáróðri", segir Ágúst Ólafur.

Ágúst Ólafur hefur tekið virkan þátt í Evrópuumræðunni innan Samfylkingarinnar
og er annar höfunda skýrslunnar um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í
Evrópuúttekt Samfylkingarinnar. Hvernig lítur þú á þessi mál? "Ég hef kynnt
sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins á kynningarfundum Samfylkingarinnar víða um
land. Það verða oft mjög líflegar umræður á fundunum, enda eru skiptar skoðanir
um sjávarútvegsstefnu ESB. Ég er þó algjörlega sannfærður um að
sjávarútvegstefna ESB sé okkur hagstæð, enda tryggir hún okkur allan kvóta í
íslenskri landhelgi vegna reglunnar um veiðireynslu. Forræði Íslendinga yfir
fiskimiðunum er tryggt þótt við færum inn í ESB", segir Ágúst Ólafur og segir
það einfaldlega rangt að sjávarútvegsstefna sambandsins sé Íslendingum hindrun í
átt til aðildar. Eftir Ágúst Ólaf liggur einnig skýrsla um hugsanlega aðild að
Evrópusambandinu þar sem farið er yfir efnahags-, sjávarútvegs-, landbúnaðar-,
fullveldismálin og af hverju EES-samingurinn heldur ekki lengur. "Þannig að ég
hef kynnt mér Evrópumálin vel en því meira sem ég geri af því, því sannfærðari
verð ég um gildi aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Með upptöku á
sameiginlegri mynt ESB minnkar að auki viðskiptakostnaður og lækkar einnig
vexti, gengiskostnað og verðbólgu og stóreykur viðskipti milli Íslands og ESB.
Þá er eftir að taka inn lækkun á matvælaverði en nú borga Íslendingar hæsta
matvælaverð í heimi. Aðild að ESB hefur því bein áhrif á budduna", segir Ágúst
Ólafur. Hvaða önnur málefni eru Ungum jafnaðarmönnum hugleikin? "Menntamálin,
enda eðlilegt að ungt fólk hafi sterka skoðanir á menntustefnu þjóðarinnar og
hvernig þeim fjármunum er varið sem fara til menntamála. Við teljum að setja
þurfi menntamál í algjöran forgang, enda lítum við á kostnað í menntun sem
hagkvæma fjárfestingu. Eftir nánast stöðuga stjórn Sjálfstæðisflokksins á
menntamálaráðuneytinu í tvo áratugi hefur menntakerfið verið í hnignun. Við
verjum ennþá töluverðu minna fé í menntamál heldur en nágrannaþjóðir okkar.
Háskólastigið býr við fjársvelti og gríðarlegan húsnæðisskort. Og það sem Ungir
jafnaðarmenn geta illa sætt sig við er sú staðreynd að landbúnaðurinn fær meira
fjármagn beint og óbeint frá ríkinu heldur en það sem allir framhaldsskólar
landsins og Háskóli Íslands fá samanlagt. Þetta er röng forgangsröðun", segir
hann. Ágúst Ólafur segir hugsanleg upptaka skólagjalda einnig mikið áhyggjuefni.
"Við færumst stöðugt nær skólagjaldaumhverfi, það virðist markmið
Sjálfstæðisflokksins. Nú þegar hefur Samband ungra sjálfstæðismanna ályktað svo
að það eigi að taka upp skólagjöld og einkavæða framhaldsskóla og leikskóla.
Ungir jafnarmenn hafna algjörlega skólagjöldum og telja aðgangur að
menntakerfinu sem og velferðarkerfinu eigi að vera fyrir alla og undir engum
kringumstæðum takmarkaður af efnahag. " Þú ert að læra bæði lögfræði og hagfræði
í Háskólanum. Hvernig fer það saman? "Það fer mjög vel saman en báðar þessar
greinar eru mjög skemmtilegar og snerta mikið hið daglega líf. Lögfræði og
hagfræði eru greinar sem flestir áhugamenn um stjórnmál ættu að hafa gaman af. Á
mörgum sviðum fara greinarnar saman, enda kallar viðskiptalífið æ meira á
þekkingu bæði í lögum og í viðskiptafræði. Ég stefni að ljúka þessu bæði næsta
vor."

Ágúst Ólafur er enn sem komið er yngstur allra frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar. Hann gefur kost á sér í Reykjavík og hefur sagst stefna á þingsæti. Er rúm fyrir 25 ára mann á Alþingi?
,,Ég held að það sé nauðsynlegt að Samfylkingin, og reyndar allir stjórnmálaflokkar, yngi upp hjá sér. Í Noregi er yngsti þingmaðurinn fæddur 1982 og í Danmörku er yngsti þingmaðurinn fæddur árið 1979. Á Alþingi er yngsti þingmaðurinn hins vegar að nálgast fertugt. 60% af íslensku þjóðinni er undir fertugu en aðeins 6% þingmanna er á þeim aldri. Það er því ljóst að Alþingi endurspeglar ekki íslensku þjóðina hvað þetta varðar", segir hann.
Hvernig sérðu fyrir þér komandi kosningavetur?
"Nú fara í hönd mikilvægir tímar í íslenskri pólitík", segir Ágúst Ólafur. "Davíð Oddsson hefur verið of lengi við völd. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir eru í auknum mæli farin að óttast Davíð og það eitt segir sitt um ástandið. Það er því kominn tími til breytinga", segir hann.
"Afturhaldið og forsjárhyggja Vinstri grænna er einnig eitthvað sem mér hugnast ekki. Með fullyrðingu formanns Framsóknarflokksins um að hann gerði tilkall til forsætisráðuneytisins undirstrikaði formaðurinn sjálfur þá óeðlilegu oddastöðu sem sá flokkur hefur iðulega í íslenskri pólitík. Framsóknarflokkurinn er 15% flokkur. Hvaða rétt hefur formaður Framsóknarflokksins á því að gera tilkall til forsætisráðuneytisins? Það er ólýðræðislegt að 15% flokkur ráði landinu", segir Ágúst Ólafur.
"Samfylkingin er því nauðsynlegt forystuafl í samfélaginu sem er með réttláta stefnu þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi. Einstaklingarnir og fyrirtæki eiga að fá að njóta sín á sama tíma og öflugt velferðar- og menntakerfi blómstrar", segir formaðurinn að lokum.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband