Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Að óttast ekki eigin þjóð

Kosningin í Hafnarfirði er mikill sigur fyrir lýðræðið. Þátttakan staðfestir að það er hárrétt aðferðarfræði hjá Samfylkingunni að gera íbúum kleift að kjósa með beinum hætti um mikilvæg málefni. Samfylkingin hefur beitt sér fyrir auknu beinu lýðræði og ég er sannfærður um að kosningar af þessu tagi eru framtíðarmúsík í íslenskum stjórnmálum.

Ég held að fólk kunni að meta þessa nálgun og að það er bjargföst trú mín að stórar samfélagslegar spurningar eigi að leggja í dóm kjósenda. Kosningin í Hafnarfirði fellur tvímælalaust þar undir. Þar tókust á tvö andstæð sjónarmið og mér hefur virst sem að kosningabaráttan hafi verið heiðarleg og málefnaleg. Gríðarlega mikil kosningaþátttaka sýnir ennfremur að þetta er málefni sem bæjarbúar hafa miklar skoðanir á og vilja hafa áhrif á það hver niðurstaðan verður. Lýðræðið fékk hér einfaldlega að hafa sinn gang.

Ingibjörg Sólrún fór þessa leið sem borgarstjóri þegar hún beitti sér fyrir því að borgarbúar gætu kosið um framtíð flugvallarins. Þingmenn Samfylkingarinnar með Jóhönnu Sigurðardóttur í fararbroddi hafa ár eftir ár lagt fram þingmál um rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslna. Okkar fulltrúar í stjórnarskrárnefnd, Össur Skarphéðinsson og Kristrún Heimisdóttur, hafa jafnframt lagt mikla áherslu á að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá  en við litlar undirtektir stjórnarflokkanna.

Okkar fólk í Árborg hefur verið frumkvöðlar í íbúaþingum hér á landi sem fjölmörg önnur sveitarfélög hafa síðan tekið upp. Og nú síðast var það hreinn meirihluti Samfylkingarfólks í Hafnarfirði sem ákvað að fara þá leið að leyfa íbúum bæjarins að ákveða hvort leyfa skyldi stækkun álversins í Staumsvík.

Samfylkingin óttast ekki að færa völdin til kjósenda. Við treystum lýðræðinu. 


mbl.is Fleiri andvígir álveri en fylgjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er búið að gerast undanfarin ár?

myndavelÉg verð að viðurkenna að hugmyndir Björns Bjarnasonar um 240 manna launað heimavarnarlið slá mig ekki vel. Ég hef oft vakið máls á því að við þurfum að velta því fyrir okkur á hvaða leið erum við eiginlega. Í vetur stofnaði Björn Bjarnason greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Þessi greiningardeild á m.a. að rannsaka glæpi áður en þeir eru framdir með svokölluðu áhættumati og forvarnarvinnu en í meðförum þingsins fengust ekki upplýsingar hvernig þessi vinna ætti að vera unnin. Í frumvarpinu voru síðan boðar auknar heimildir til lögreglu til að sinna þessari vinnu.

Á aðeins þremur árum hefur dómsmálaráðherra þrefaldað fjölda sérsveitarmanna og aukið fjárframlög til Ríkislögreglustjóra um meira en 30%.

Það er ekki heldur svo langt síðan þessi sami ráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi sem hefði heimilað símhleranir án dómsúrskurðar sem hefði án efa brotið gróflega á mörgum meginreglum persónuréttinda og mannréttinda. En þessum sömu stjórnvöldum tókst hins vegar að heimila að afhending á svokölluðum IP-tölu úr tölvum gæti verið án dómsúrskurðar en IP-tala er notuð til að tilgreina staðsetningu tölvu. Áður fyrr þurfti dómsúrskurð til að fá þessar upplýsingar.stori brodir

Og er fólk búið að gleyma Falun Gong og aðgerðum stjórnvalda í því máli? Eða símhlerunum stjórnvalda á pólitískum andstæðingum á tímum kalda stríðsins?

Það er því rík ástæða til að vera á varðbergi. Við skulum ekki gleyma því að skerðing á persónuréttindum er iðulega réttlætt með fögrum orðum. Frelsið fer sjaldnast í einu vetfangi heldur skerðist það hægt og rólega. Þessar aðgerðir eru ætíð stuttar með tilvísun í almannahagsmuni og hugsanlega hættu. Við megum því alls ekki verða blind á réttlætingarnar, því þær eru alltaf settar í fallegan búning.


Hversu mörg börn hafa ekki farið til tannlæknis? Svarið er hér.

börnHversu mörg börn hafa ekki farið til tannlæknis? Þetta er mjög áhugaverð spurning að mínu mati og á vel við núna þegar heilmikil umræða er í gangi um tannheilsu íslenskra barna. Í fyrra var ég með fyrirspurn á Alþingi um hversu mörg börn höfðu ekki farið til tannlæknis á ákveðnu árabili. Svörin voru mjög áhugaverð.

Þar kom í ljós að 8.500 börn á aldrinum 3-17 ára höfðu ekki farið til tannlæknis í 3 ár.

Einnig kom í ljós að um 2.000 börn á aldrinum 6-17 höfðu ekki farið til tannlæknis í 5 ár.

Þá höfðu um 800 börn á aldrinum 9-17 ekki farið til tannlæknis í 7 ár. Þetta er langur tími án þess að hafa farið til tannlæknis.

Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessum tölum en ein af þeim hlýtur að vera efnahagur fjölskyldunnar. Ljóst er að hið opinbera greiðir aðeins hluta af þeim kostnaði sem fjölskyldur verða fyrir þegar barn fer til tannlæknis. Við verðum því að gera það ódýrara fyrir fjölskyldur að fara með börn sín til tannlæknis.


Hvar er allt gamla fólkið á Íslandi?

Eldri borgararMikið eru þetta nú jákvæðar fréttir. Einn hæsti meðalaldur í heimi og sá hæsti þegar kemur að körlum. En hvar er allt gamla fólkið? Ég hef það á tilfinningunni að maður sjái mun meira af öldruðu fólki erlendis en hér á landi. Þegar meðalaldurinn hér er um og yfir 80 ár ætti sýnileiki þessa þjóðfélagshóps að vera talsvert meiri en hann er nú.

Ég geri mér grein fyrir því að veðrið spilar án efa einhverja rullu hér en erlendis sér maður oft eldra fólkið sitjandi í hugglegum almenningsgörðum, teflandi, spjallandi, spilandi eða einfaldlega horfandi á mannlífið. Ég geri mér einnig grein fyrir því að hlutfall eldri borgara er lægra hér á landi en víðast hvar annars staðar í Evrópu. En samt. Mér finnst þetta vera eitthvað óeðlilegt.

Ætli sú staðreynd að stofnanavist meðal eldri borgara er mun meiri hér á landi en t.d. á hinum Norðurlöndum eigi sinn þátt í þessu? Eflaust.

Það er án efa mikil þörf að hugsa þessi mál alveg upp á nýtt og hætta að nálgast öldrun sem sjúkdóm. Sömuleiðis er lykilatriði að gera fólki kleift að vera hvað lengst heima hjá sér. Það er bæði betra fyrir viðkomandi og ódýrara fyrir samfélagið. Slíkt er hægt t.d. með öflugri heimahjúkrun en þegar ég sat í heilbrigðisnefnd Alþingis fengum við þær upplýsingar að heimahjúkrun er talsvert meiri á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi.

Þessu (ásamt veðrinu) þarf því að breyta.


Hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir

peningarAf hverju er íslenskur almenningur sífellt tilbúinn að greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi? Af hverju er ríkisstjórnin að samþykkja aukna tolla á matvæli á sama tíma og hún þykist vera að reyna að ná matvælaverði niður? Þetta sýnir auðvitað vel að lækkun matvælaverðs hefur aldrei verið mjög ofarlega á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

Í nýlegri skýrslu OECD kemur í ljós að búvöruverð hér á landi er um þrefalt heimsmarkaðsverð og að framleiðslustyrkir til landbúnaðar eru um tvöfald hærri á Íslandi en eru að jafnaði í aðildarríkjum OECD.

Sérstaða Samfylkingarinnar í neytendamálum
Það vita allir að tollarnir eru stóra málið þegar kemur að því að lækka matvælaverðið hér á landi. Samfylkingin er hins vegar eini stjórnmálaflokkurinn í landinu sem vill afnema innflutningshöft. Við höfum viljað fella niður helming allra tolla innan árs og síðan fella niður afganginn í samráði við hagsmunasamtök bænda og neytenda.

Samfylkingin er líka eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur viljað fella niður öll vörugjöld af öllum matvælum. Og Samfylkingin er sömuleiðis eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur viljað að samkeppnislög gildi um landbúnaðinn.

Við viljum einfaldlega nýtt kerfi í landbúnaðarmálum, kerfi sem er bæði í hag bænda og neytenda.

Nýtt kerfi
Bændasamtökin hafa sjálf sagt að bóndinn sé jafnvel bara að fá um 40% af útsöluverði vöru sinnar í núverandi kerfi. Þetta er einn besti vitnisburðurinn um að kerfið sé slæmt. Sitjandi ríkisstjórn er nefnilega ekki einungis fjandsamleg neytendum heldur einnig bændum. Samfylkingin vill einmitt auka hlutdeild bóndans í útsöluverðinu. Samfylkingin vill tímabundna aðlögunarsamning við bændur og breyta stuðningnum við landbúnaðinn m.a. til að gera bændum kleift að aðlagast aukinni samkeppni vegna innflutnings.

Það er fróðlegt að rifja upp að þegar ríkisstjórnin felldi niður tollavernd á gúrkum, tómötum og paprikum, gerðist í rauninni þrennt sem kom mörgum úrtölumönnum á óvart.

Í fyrsta lagi lækkaði auðvitað verðið á þessum grænmetistegundum til neytenda.

Í öðru lagi lækkaði verðið á öðrum grænmetistegundum og ávöxtum sem ekki urðu fyrir sömu breytingu á tollunum m.a. vegna samkeppninnar.

Og í þriðja lagi seldist meira af íslenska grænmetinu sem þó naut ekki lengur tollverndar.

Hagur bænda og neytenda batnaði og það er kjarni málsins.  


,,...barnið getur kært það sem eftir er..."

Í Sunnudagskastljósinu var viðtal við Baugalín (Linda Drake) sem beitt var kynferðislegu ofbeldi þegar hún var barn. Viðtalið var mjög sláandi og hefur þá án efa snert taug hjá öllum þeim sem á horfðu. Þolendur kynferðislegs ofbeldis sýna ótrúlegt hugrekki með því að koma fram með sögu sína fyrir alþjóð og það er þeim að þakka að umræðan um þessi mál er talsvert opnari en áður. Það er einnig þeim að þakka að við höfum í sameiningu náð mikilvægum áföngum í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi í okkar samfélagi.

Í ljósi hins gríðarlega mikilvægs áfanga sem náðist í þinginu á lokadegi þingsins um að afnema fyrningarfresti í kynferðisafbrotum gegn börnum langar mig að draga eitt fram sem Baugalín sagði í lok viðtalsins.

Hún sagði: "…um leið er gífurlegur fælingarmáttur í því gagnvart gerendum sem eru að hugsa svona,  þeir kannski síður gera það sem þeir hugsa ef þeir vita að barnið getur kært það sem eftir er." "…það er svo mikil vernd í þeim lögum fyrir börn."

Þetta er auðvitað hluti af kjarna málsins og því var þessi lagabreyting um afnám fyrningarfrests svo ótrúlega mikilvæg. Það er hins vegar ekki hægt að láta afnám fyrningarfresta í kynferðisafbrotum gegn börnum gilda fyrir brot sem eru nú þegar fyrnt. Þó er mikilvægt að hafa í huga að nýju fyrningarreglurnar gilda í þeim brotum þar sem fyrningarfresturinn er ekki nú þegar hafinn. Þ.e.a.s. ef þolandinn er nú undir 14 ára aldri eða brotin eru enn að viðgangast.


Síðasta þingmálið mitt á kjörtímabilinu

börnÁ þessu kjörtímabili hef ég lagt fram á Alþingi fjöldann allan af þingmálum. Allt frá aukinni vernd heimildarmanna fjölmiðla, líffæragjöfum, samfélagsþjónustuóháðum rannsóknarnefndum, heimilisofbeldi og til auglýsinga heilbrigðisstétta svo eitthvað sé nefnt. En síðasta þingmálið sem ég lagði fram á þessu fyrsta kjörtímabili mínu var um lögfestingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Noregur hefur nú þegar lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en annars eru aðildarríki samningsins, s.s. Ísland, einungis skuldbundin Barnasáttmálanum samkvæmt þjóðarrétti en ekki að landsrétti. Því þarf að lögfesta alþjóðalega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. barnsattmali

Að mínu mati á slíkur grundvallarsáttmáli að vera lögfestur hér á landi með sama hætti og Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögfestur hér á landi. Við það fengið Barnasáttmálinn aukið vægi þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins yrðu að taka mið af honum sem sett lög.

Laga ýmislegt í íslenskum lögum
Einnig er lagt til í þingmálinu að íslensk löggjöf verði aðlöguð betur að Barnasáttmálanum. Tryggja þarf betur friðhelgi einkalífs barna og sjálfsákvörðunarrétt þeirra í lögum s.s. í barnalögum, barnaverndarlögum og lögum um réttindi sjúklinga. Ákvæði barnasáttmálans geta sömuleiðis kallað á endurskoðun á hegningarlögum. Samkvæmt Barnasáttmálanum ber að aðskilja unga fanga frá fullorðnum föngum en hér á landi er það ekki gert.

Tryggja þarf í lög að rætt sé við yngri börn en nú er gert í umgengis- og barnaverndarmálum og að börn hafi samkvæmt grunnskólalögum ríkari rétt til að láta í ljós skoðanir sínar. Sömuleiðis þarf réttur barns til að þekkja foreldra sína að vera fyrir hendi og skoða hvort það eigi við ættleidd börn og í sæðisgjöfum. Huga þarf sérstaklega að stöðu barna sem glíma við langvarandi veikindi, fötlun, geðsjúkdóm, fátækt og barna nýbúa í íslenskum lögum.

Mér finnst þetta annars vera jákvætt mál og það er vonandi að það fari eins fyrir þessu síðasta þingmáli mínu og fór fyrsta þingmáli mínu sem var um afnám fyrningarfresta í kynferðisafbrotum gegn börnum.


Frelsið er yndislegt - ég geri það sem ég vil

Í gær skrifaði ég pistil um frelsið. Hann var í lengra lagi og biðst ég afsökunar á því. En þegar ég settist niður þá komu einfaldlega svo mörg dæmi upp í hugann þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur annaðhvort reynt að hefta frelsið með beinum hætti eða látið hjá líða að auka það þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn 16 ár (og í raun verið í ríkisstjórn framan af síðustu öld).

Nokkrar athugasemdir hafa borist í athugasemdakerfið og sumir eru ósáttir en enginn þeirra hrekur þessa 19 punkta sem ég rakti með efnislegum hætti. Enda sjá lesendur að þessi 19 dæmi eru staðreyndir sem ég dreg fram en ekki einhverjar pólitískar og gildishlaðnar ályktanir stjórnarandstöðuþingmanns. 

Sannleikanum verður hver sárreiðastur.


Hverjir gæta frelsisins?

stóri bróðirMér finnst það alltaf jafnfyndið þegar Sjálstæðismönnum verður tíðrætt um frelsið, sérstaklega rétt fyrir kosningar. Mér finnst það fyndið því mér finnst það vera gríðarleg öfugmæli að álíta Sjálfstæðisflokkinn vera málsvara frelsisins.

Tökum nokkur dæmi til útskýringar.

1. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, lagði fram frumvarp sem hefði heimilað símhleranir án dómsúrskurðar sem hefði gróflega brotið á friðhelgi einkalífsins og önnur mannréttindaákvæði.

2. Sjálfstæðismenn lögðu fram og samþykktu mjög afturhaldsöm útlendingalög sem skertu frelsi til muna. Má þar nefna 24 ára regluna, 66 ára regluna og hina öfugu sönnunarbyrði sem þar er við lýði.

3. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins beitti öllum tiltækum leiðum til að hindra komu Falun Gong til landsins. Settar voru upp fangabúðir í Njarðvík, fólk flokkað niður í Leifstöð á grundvelli kynþáttar og stuðst var við svarta lista frá kínversku leyniþjónustunni.

4. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú heimilað að hægt sé að krefjast IP-tölu úr tölvum án dómsúrskurðar.

5. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins Björn Bjarnason, skerti rétt borgara til að fá gjafsókn einmitt í þeim málum sem snúa að ríkinu s.s. í mannréttindamálum, læknamistökum, umhverfismálum o.s.frv.auga

6. Sjálfstæðismenn börðust hatramlega fyrir einum mest íþyngjandi fjölmiðlalögum sem hefðu þekkst í Vestrænum heimi. Lögleiða átti m.a. skerðingu á prentfrelsi.

7. Sjálfstæðismenn á þingi styðja opinbera neyslustýringu. Þeir kusu beinlínis gegn tillögum Samfylkingarinnar um afnema vörugjöld af öllum matvælum, líka af hinum meintu óhollum vörum, með þeim rökum að það þyrfti að stýra neyslu fólksins í gegnum skattlagningu.

8. Ríkisútgjöldin hafa aukist um tæpa 160 milljarða króna frá árinu 1995. Ríkissjóður er því 73% dýrari í rekstri nú en árið 1995. Ekki hefur þjónustan batnað um 73% á sama tíma.

9. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa réttlætt á þingi skilyrðislausa lífsýnatöku atvinnurekaenda úr starfsfólki (sbr. http://www.althingi.is/altext/130/04/l01133301.sgml)

10. Sjálfstæðismenn sjá afnám launaleyndar allt til foráttu en hvað er launaleynd? Launaleynd er þegar atvinnurekandi getur bannað viðkomandi að segja öðrum frá laununum sínum. Þannig að afnám launaleyndar er því frelsi, frelsi til að tjá sig sem Sjálfstæðismenn vilja hefta.

11. Eftir tæplega tveggja áratuga setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn búum við enn við einkasölu ríkisins á áfengi.

12. Enn er ríkisfjölmiðillinn á auglýsingamarkaði sem þrengir mikið að einkaframtakinu á þessum markaði og hindrar innkomu nýrra aðila á markaðinn. Röksemdir fyrir tilvist ríkisfjölmiðils eiga ekki við tilvist ríkisfjölmiðils á auglýsingamarkaði. Sjálfstæðismenn hafa ítrekað sagt að þeir vilji hafa ríkisfjölmiðilinn á auglýsingamarkaðinum.

13. Hið aukna frjálsræði í viðskiptalífinu einskorðast nánast eingöngu við þau svið sem EES-samningurinn tekur til. Þ.e.a.s. íslensk stjórnvöld hafa ,,neyðst” til að opna landið og auka frjálsræði í málaflokkum EES. Slíkt hefur ekki gerst á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur ekki til.

14. Frelsi hefur lítið sem ekkert aukist í landbúnaðarkerfinu í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Fyrir viku samþykktu Sjálfstæðisþingmenn 20 milljarða kr. sauðfjársamning og fyrir 3 árum samþykktu þeir 30 milljarða kr. mjólkursamning. Samfylkingin var eini flokkurinn á þingi sem lagði til að samkeppnislög myndu gilda um landbúnaðarkerfið og Samfylkingin er eini flokkurinn á þingi sem hefur sagst vilja fella niður innflutningshöft og tolla.

15. Frelsi hefur lítið sem ekkert aukist í sjávarútvegskerfinu í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og enn eru höft á erlendum fjárfestingum o.s.frv.

16. Skattbyrði, þ.e.a.s. sá hluti af tekjunum þínum sem þú greiðir í skatta, hefur aukist hjá öllum tekjuhópum nema hjá þeim sem eru í topp 10% tekjuskalans.

17. Árið áður en þessi ríkisstjórn tók við völdum 1995 voru skatttekjur hins opinbera  32% af landsframleiðslu en voru í fyrra orðnar um 41%. Þessi aukning er sú mesta af öllum OECD ríkjunum. Íslensk stjórnvöld undir forystu Sjálfstæðisflokksins eru því þau stjórnvöld sem hafa aukið skattbyrðina mest.

18. Árið 1990 sem er árið áður en Sjálfstæðisflokkurinn tók við fjármálaráðuneytinu, var skatthlutfall hins opinbera á Íslandi um 3% undir meðaltalinu í OECD. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn var tekinn við ríkisbúskapnum og farinn að sýna sitt rétta andlit kom önnur staða upp. Í stað þess að vera undir meðaltalinu í OECD um rúm 3% þegar kemur að skattpíningu var Ísland komið yfir meðaltalið um tæp 3%. Viðsnúningurinn varð alger. Og ríkisstjórn aukinnar skattbyrði varð að veruleika. Það er umhugsunarvert að hér sé við völd ríkisstjórn sem sættir sig einfaldlega við það að taka æ stærri hlut af kökunni, sem í þokkabót er mun stærri en kakan var.
TAXES
19. Að lokum langar mig að nefna af gefnu tilefni að það voru einnig þingmenn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem voru á móti lögleiðingu bjórsins. Sjálfstæðismenn eru því ekkert lausir við þá sögu frekar en aðrir flokkar.

En hvað gera jafnaðarmenn?
Að endingu langar mig að nefna nokkur dæmi um verk jafnaðarmanna þegar kemur að frelsinu því þegar Ísland hefur stokkið í frjálsræðisátt hafa jafnaðarmenn átt frumkvæðið að því.

Nefnum fyrsta dæmið. Viðreisnin en þar léku jafnaðarmenn, með Gylfa Þ. Gíslason viðskiptaráðherra í fararbroddi, lykilhlutverk. Viðreisnin jók viðskiptafrelsi til muna og kom Íslandi í 20. öldina.

Annað dæmið er þegar gjaldeyrisviðskipti voru gerð frjáls en það var gert á tíma síðustu vinstri stjórnar.

Þriðja dæmið var þegar EES-samningurinn var gerður en þar voru jafnaðarmenn potturinn og pannan í bæði aðdragandanum og í viðræðunum sjálfum. Sjálfstæðismenn voru til að byrja með á móti EES-samningnum. alt8-uflokksrósin

Þetta eru þrjú góð dæmi sem sýna vilja jafnaðarmanna til að auka frelsi fólks og fyrirtækja. Þetta eru einnig þrjú góð dæmi sem stórjuku frelsi og frjálsræði í íslensku samfélagi. Mörg önnur minni dæmi má nefna s.s. frjáls opnunartími veitingastaða sem var ákveðinn í borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar.

Jöfn og frjáls
En við jafnaðarmenn tölum ekki einungis um frelsi fjármagnsins heldur einnig frelsi fólksins og frelsi frá fátækt. Fátækur maður er ekki frjáls. En eftir valdatíma þessarar ríkisstjórnar má finna 4.300 börn og 10.000 eldri borgara sem lifa undir fátæktarmörkum. Það er því mikið verk að vinna fyrir frjálslynda jafnaðarmenn og ykkur sem eru jöfn og frjáls.


Lögreglustjóra svarað

vændiÞað hefur verið tekist á um það undanfarin ár hvaða leiðir skuli fara í löggjöf um vændi. Ég hef viljað fara sænsku leiðina þar sem sala á vændi er refsilaus en kaupin eru gerð refsiverð. Í Blaðinu í dag er lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, inntur eftir viðbrögðum við þessum skoðunum mínum sem birtust í sama blaði í gær.

Það getur vel verið að lögreglustjórinn sé ósammála mér og öllum kvennahreyfingum landsins um sænsku leiðina og sé hlynntur því að kaup á vændi séu refsilaus. Það er hins vegar afar sérkennileg yfirlýsing af hálfu lögreglustjórans að leiðin sem farin var í vændismálunum hafi ekki verið slæm þar sem breytingar hafi verið gerðar á misneytingarákvæðinu og refsiþyngingarákvæðum!

Bíddu nú við. Þarna er um algerlega ótengd mál að ræða. Hvað kemur gagnrýni á þá leið sem var farin í vændismálunum þeim breytingum við sem gerðar voru á misneytingarákvæðinu og refsiþyngingarákvæðunum? Nákvæmlega ekki neitt.

Það sem ég gagnrýndi
Ég var í áðurnefndu Blaðsviðtali ekki að gagnrýna önnur atriði þessa frumvarps en þau sem snúa að vændismálunum. Gagnrýni mín beindist alls ekki að breytingunum á misneytingarákvæðinu eða refsiþyngingarákvæðunum. Þvert á móti hef ég ítrekað fagnað þeim réttarbótum sem fólust í frumvarpinu en hins vegar sagt að sú leið sem var farin í vændismálunum, um að hafa bæði kaupin og söluna refsilausa, hafi verið slæm. Lögreglustjórinn ákveður hins vegar að svara því ekki efnislega heldur dregur fram óskyldar breytingar sem allir eru sammála um að hafi verið jákvæðar.

Lögreglumennirnir sögðu þetta víst
Varðandi hitt atriðið sem lögreglustjórinn kemur inn á í Blaðinu í dag og lýtur að frásögn minni um að þeir lögreglumenn sem hafi komið fram fyrir vændisnefndina hafi sagt að ef sala á vændi og kaupin væru bæði refsilaus þá myndi það gera lögreglunni erfiðara fyrir að hafa upp á milligönguaðilum..

Það er ósköp einfalt að fara yfir þetta fyrir lögreglustjórann. Ég sat í þessari þverpólitísku nefnd á vegum dómsmálaráðherra um vændismálin sem skilaði skýrslu fyrir ári síðan og lögreglumenninir sem komu fyrir nefndina héldu þessu fram. Áhyggjur þeirra eru mjög lógískar að mínu mati. Ef bæði seljandinn og kaupandinn eru refsilausir þá vantar allan hvata til að starfa með lögreglunni við að finna og saksækja milligönguaðilann. Slíkur hvati væri hins vegar til staðar ef kaupin væru gerð refsiverð í samræmi við sænsku leiðina.

Bara ekki í útlöndum
Að lokum langar mig að nefna misjöfn viðbrögð sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu. Það er ekki svo langt síðan að ákveðinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók vel í erindi um að opinberum starfsmönnum verði bannað kaupa sér kynlíf þegar þeir eru á ferð erlendis. Þingmaðurinn virðist hinsvegar vera tilbúinn að sætta sig við að sömu einstaklingar geti keypt sér kynlíf hér á landi.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.


Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband