Hvað höfum við gert?

Samfylkingin hefur nú verið í ríkisstjórn í liðlega eitt ár. Árið hefur verið viðburðaríkt og þrátt fyrir að efnahagsástand sé nokkuð erfitt hefur mörg jákvæð mál náð fram að ganga þetta fyrsta starfsár ríkisstjórnarinnar. Eftir stendur vitaskuld að margt er eftir og auðvitað verða efnahagsmálin í forgrunni á komandi mánuðum.

Ég ætla að leyfa mér að birta hér stutta samantekt  (sem einnig birtist í 24 stundum) á þeim fjölmörgu verkefnum sem nú þegar hafa komið til framkvæmda eða ákveðið hefur verið að ráðast í. Að sama skapi er ástæða til að geta þess að neðangreindur listi er engan veginn tæmandi, eðli málsins samkvæmt.

• Bætt stuðningskerfi fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra

• 17% hækkun á fjárframlögum til menntunar og rannsókna milli ára

• Þreföldun á fjármagni í heimahjúkrun á þremur árum

• Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur íbúðahúsnæðis

• Fyrsta aðgerðaráætlunin fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt

• Skattleysismörk verða hækkuð um 20.000 kr á kjörtímabilinu ofan á verðlagshækkanir

• Skerðing bóta vegna tekna maka afnumin

• Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna séreignasparnaðar afnumin

• Lífeyrisgreiðslur hækkaðar um 9 milljarða króna á heilu ári og jafngildir það u.þ.b. 17% hækkun lífeyris, miðað við síðasta ár

• Hækkun greiðslna til lífeyrisþega sem hafa hvað verst kjör um 24.000 kr. á mánuði

•  Afnám tekjutengingar vegna launatekna þeirra sem eru 70 ára og eldri og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað í 100.000 kr.

• 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega

• Aldurstengd örorkuuppbót hækkuð

• 60% aukning á fjármagni til Samkeppniseftirlitsins á 2 árum

• 50% aukning á fjármagni til Fjármálaeftirlitsins milli ára

• 25% aukning á fjármagni til Umboðsmanns Alþingis milli ára

• Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggð á fjárlögum

• Tæplega helmings aukning á fjármagni til samgöngumála milli ára

• Ný jafnréttislög sett og aðgerðir gegn kynbundnum launamun hafnar

• Ný orkulög sett þar sem opinbert eignahald er tryggt á auðlindunum

• Vinna hafin við rammáætlun um umhverfisvernd og öllum umsóknum um ný rannsóknarleyfi vísað frá á meðan

• Skerðingarmörk barnabóta hækkuð um 50%

• Hámark húsaleigubóta hækkað um 50%

• Eignaskerðingarmörk vaxtabóta hækkuð um 35%

• 24 ára reglan þurrkuð út úr útlendingalögunum

• Íbúðalán Íbúðalánasjóðs miðast nú við markaðsvirði en ekki brunabótamat

• Stóraukið frumkvæði á alþjóðavettvangi og aukið fjármagn í þróunarmál

• Trúfélögum heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra

• Einhleypum konum heimilað að fara í tæknifrjóvgun

• Fyrstu innheimtulögin sett

• Stjórnarráðinu og þingskaparlögunum breytt með róttækum hætti

Eins og má sjá á þessari upptalningu hefur ríkisstjórnin nú þegar komið fjölmörgum málum til leiða. Það er hins vegar augljóst að málefni eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna eru í forgangi hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Fjárfestingar í innviðum samfélagsins s.s. í samgöngu- og menntamálum hafa verið tryggðar ásamt í nauðsynlegum eftirlitsstofnunum. Þá hafa jafnréttismál verið sett á oddinn ásamt hagsmunamálum neytenda en það var löngu tímabært.

Verk hinnar frjálslyndu umbótastjórnar tala sínu máli.


Hvað gerði viðskiptanefnd Alþingis í vetur?

Margt á sér stað innan nefnda Alþingis sem fær ekki mikla athygli í samfélaginu. Í þessari grein langar mig því að fara yfir verk viðskiptanefndar Alþingis frá því í vetur.

Fyrstu innheimtulögin
Nú hafa verið sett í fyrsta sinn innheimtulög. Lögin fjalla m.a. um góða innheimtuhætti, skyldu innheimtufyrirtækja til að senda innheimtuviðvörun og reglugerðarheimild um að hægt verði að setja hámark á innheimtukostnað. Rauði þráður laganna er sá að skuldarar verði ekki fyrir óeðlilegum kostnaði í innheimtuaðgerðum.

Viðskiptanefndin fjallaði einnig um reglur um takmarkanir á álagningu uppgreiðslugjalda og er nú óheimilt að innheimta svonefndan FIT-kostnað sem er kostnaður vegna óheimils yfirdráttar nema slík gjaldtaka eigi sér stoð í samningi. Slíkur kostnaður skal vera hóflegur og endurspegla raunverulegan kostnað vegna yfirdráttarins.

Samkeppnislögum breytt
Þá voru gerðar breytingar á samkeppnislögum þannig að nú geta fyrirtæki í samrunahugleiðingum sent inn svokallaða styttri tilkynningu til samkeppniseftirlitsins. Veltumörkin gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru að sameinast voru einnig hækkuð en þó setti viðskiptanefndin sérstakan varnagla í lögin sem heimilar samkeppniseftirlitinu að fjalla um samruna sem eru undir hinum almennum veltumörkum.

Samkeppniseftirlitið mun sömuleiðis nú geta ógilt samruna áður en hann kemst til framkvæmda, en ekki eftir að samruni hefur átt sér stað eins og var í þágildandi lögum. Við afgreiðslu málsins innan viðskiptanefndar um málið var bætt við mati á lögmæti samruna um nú skuli vera tekið tillit til tækni- og efnahagsframfara að því tilskildu að þær séu neytendum til hagsbóta og hindri ekki samkeppni.

Staða sparisjóða styrkt
Eftir umfjöllun viðskiptanefndar var sparisjóðum einnig veitt heimild til að kaupa bankaútibú án þess að þurfa að hlutafélagavæða sig fyrst sem hafði verið skilyrði samkvæmt þágildandi lagaákvæði. Með þessu styrktum við m.a. sparisjóði í þeirri mynd sem þeir eru.

Sérstök löggjöf um sérvarin skuldabréf fékk sérstaka flýtimeðferð í  gegnum þingið enda lá á slíkri löggjöf í ljósi ástandsins á mörkuðunum í vetur. Nú þegar hafa fjármálafyrirtæki nýtt sér þau lög.
Þá voru heildarlög um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda voru samþykkt en gömlu fyrningarlögin voru orðin meira en hundrað ára gömul. Og frumvarp er varðar uppgjör innlends hlutafjár sem er skráð í erlendri mynt varð sömuleiðis að lögum í vetur.

Aukin persónuvernd
Talsverð vinna fór í að fjalla um breytingar á lögum um vátryggingarstarfsemi hjá viðskiptanefnd þingsins. Þar tókust á sjónarmið persónuverndar og hagsmunir tryggingarfélaganna. Breytingarnar lutu m.a. að því að nú þarf vátryggingartaki að staðfesta hann hafi hlotið samþykki foreldra sinna eða systkina á því að hann megi gefa upplýsingar um að þau hafi verið haldin tilteknum sjúkdómi sem spurt er um. Slíkt samþykki var ekki áskilið í eldri lögum. Vátryggingafélaga er sömuleiðis óheimilt að hagnýta sér upplýsingar úr erfðarannsókn burtséð frá því hvort þær eru vátryggingartaka í hag eður ei. 

Ný heildarlög um verðbréfaviðskipti og kauphallir
Ný heildarlög um verðbréfaviðskipti og kauphallir voru afgreidd þegar hin svokallaða MiFID-tilskipun var innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin er gríðarlega mikilvæg enda tryggir hún íslenskum fjármálafyrirtækjum sama umhverfi og evrópsk fjármálafyrirtæki búa við.

Af öðrum málum sem viðskiptanefnd Alþingis fjallaði um má nefna aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, breytingar á lögum um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum og hækkun fjárframlaga sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til Fjármálaeftirlitsins sem var 52% á milli ára svo eitthvað sé nefnt. Þá var viðskiptanefndin ein af fáum þingnefndum sem afgreiddi frá sér mál frá þingmanni en það mál laut að samkeppnisstöðu milli opinberra aðila og einkaaðila.

Viðskiptanefnd Alþingis kom því að mörgum málum í vetur en nefndin var sú þingnefnd sem fékk næstflest stjórnarfrumvörp inn á sitt borð. En öll þessi mál áttu það sameiginlegt að styrkja stöðu neytenda, efla fjármálamarkaðinn og hlúa að heilbrigðu atvinnuumhverfi.


Um breytt útlendingalög

Útlendingamálin hafa stundum verið umdeild hér á landi og voru t.d. talsverðar deilur um breytingar á útlendingalögum á síðasta kjörtímabili. Eitt af síðustu verkum þingsins í vor var hins vegar að samþykkja mikilvægar breytingar á útlendingalögunum.

Í fyrsta lagi heyrir hin svokallaða 24 ára regla sögunni til. Þannig að nú hefur 24 ára aldursmarkið verið fellt úr skilgreiningu ákvæðisins á nánasta aðstandanda sem á rétt á dvalarleyfi. Verður að telja það til tíðinda enda óvenjuumdeild lagaregla þegar hún var sett.

Ofbeldi í samböndum
Í öðru lagi eru sett inn þau nýmæli að unnt verður að taka tillit til þess þegar ákvörðun er tekin um endurnýjun dvalarleyfis hvort að erlendur aðili eða barn hans hafi mátt búa við ofbeldi af hálfu innlends maka.

Miðar þessi breyting að því að fólk sem skilur vegna ofbeldis lendi ekki í því að þurfa að yfirgefa landið þrátt fyrir að forsendur leyfisins hafi brostið vegna slita á hjúskap eða sambúð. Það sjónarmið sem býr að baki þessari breytingu er að ekki skuli þvinga erlent fólk til að vera áfram í ofbeldisfullri sambúð. Það er því sérstakt fagnaðarefni að allsherjarnefnd Alþingis hafi lagt til að slíkt ákvæði yrði sett í löggjöfina.

Staða námsmanna bætt
Í þriðja lagi fá námsmenn aukið svigrúm þegar kemur að fyrstu endurnýjun dvalarleyfis en við mat á viðunandi námsárangri verður nú miðað við að útlendingur hafi a.m.k. lokið 50% af fullu námi í stað 75%. Er þannig komið til móts við þá erlendu nema sem kunna af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með að fóta sig í náminu á fyrstu mánuðunum við nýjar aðstæður.

Í fjórða lagi er tekið tillit til ungmenna sem koma hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir 18 ára aldur. Við 18 ára aldur standa þau frammi fyrir því að þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu þar sem ungmennið telst þá ekki lengur barn í skilningi laga. Hins vegar eru sanngirnisrök fyrir því að heimila erlendu ungmenni sem dvelur hér á landi að sýna fram á framfærslu með aðstoð foreldris. Því mun fólk nú getað endurnýjað dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, enda þótt þau teljist ekki til nánustu aðstandenda eftir að 18 ára aldursmarki er náð.

Stoð í baráttunni gegn heimilisofbeldi og mansali
Í fimmta lagi voru sett þau nýmæli að útlendingur fær ekki útgefið dvalarleyfi á grundvelli aðstandaleyfis ef fyrir liggur að væntanlegur maki hans hefur fengið dóm fyrir t.d. kynferðisbrot eða líkamsmeiðingar.

Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að vera stoð í baráttunni gegn mansali og heimilisofbeldi. Reynslan hefur sýnt að í sumum tilvikum verða útlendingar, sem hingað koma, t.d. sem makar, að þolendum ofbeldis og misnotkunar á heimili.

Þessu tengt verður stjórnvaldi einnig heimilt að óska eftir umsögn lögreglu til að afla upplýsinga um sakaferil gestgjafa þegar metið er hvort viðkomandi fái vegabréfsáritun. Sem dæmi um upplýsingar sem hér hafa þýðingu eru upplýsingar um dæmda refsingu í ofbeldis- eða kynferðisbrotamálum, kærur til lögreglu fyrir heimilisofbeldi, nálgunarbann o.fl. Ljóst er að fleiri upplýsingar kunna að hafa þýðingu en einungis upplýsingar um dæmda refsingu sem fram koma á sakavottorði. Útlendingastofnun getur einnig búið yfir upplýsingum úr eigin tölvukerfi sem hafa þýðingu við afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritun, t.d. þar sem gestgjafi hefur átt erlendan maka og hjúskap hefur verið slitið vegna ofbeldis í garð makans.

Á hinn bóginn er ljóst að slík synjun getur í einstökum tilvikum verið mjög íþyngjandi í samanburði við þá hættu sem er á ferðum og því er heimild til að meta hvert tilvik fyrir sig.

Tillit tekið til bótagreiðslna
Í sjötta lagi verður nú hægt við endurnýjun dvalarleyfis að taka tillit til þess að hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð og útlendingur því tímabundið þegið fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu laganna að það séu aðeins þeir útlendingar sem fengið hafa búsetuleyfi sem hér geta dvalist án tryggrar framfærslu.

Leyfið á nafn útlendingsins
Í sjöunda lagi er einnig vert að minnast á frumvarp frá Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, sem varð einnig að lögum á síðustu dögum þingsins, en það er um atvinnuréttindi útlendinga. Í því frumvarpi er tekið skýrt fram að atvinnuleyfi útlendings er nú gefið út á nafn útlendingsins eftir að hann er kominn til landsins og er útlendingurinn handhafi leyfisins.

Lögunum hefur því nú verið breytt frá þeirri reglu að atvinnurekandi sæki um og fái útgefið atvinnuleyfi þar sem atvinnuleyfi er nú gefið út á nafn útlendings. Þannig er atvinnurekandinn ekki eiginlegur umsækjandi um leyfið eins og verið hefur. Þessa breyting verður að telja mikilvæga réttarbót.

Það er því ljóst að nýtt þing hefur gert fjölmargar jákvæðar breytingar á útlendingalögum. Samstaða dómsmálaráðherra og þingmanna allsherjarnefndar var mikil og hafði sú samvinna grundvallarþýðingu um að þessar breytingar gætu orðið að lögum.


Hvað hefur ríkisstjórnin gert í velferðarmálum?

Mér finnst fólk ekki vera sanngjarnt þegar það segir að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafi ekki gert sitt í velferðarmálum á þessu tæpa ári síðan ríkisstjórnin tók við völdum. Auðvitað veit ég að margt er enn ógert en ef við lítum yfir nokkra mikilvæga áfanga sem hafa verið teknir í velferðarmálum þá sést áþreifanlegur árangur.

1. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa hækkað um 7,4% á þessu ári eða um 9.400 krónur til þeirra sem aðeins fá óskertar greiðslur úr almannatryggingum. Þessu til viðbótar verður öllum öldruðum, sem ekki njóta a.m.k. 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði nú þegar, tryggð sérstök kjarabót sem jafngildir 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði á mánuði. Þessi greiðsla kemur sérstaklega vel þeim sem í dag njóta einungis slíkra bóta. Þegar tekið hefur verið tillit til þess að fjárhæðin skerðir aðrar bætur jafngildir þessi fjárhæð ríflega 15.000 krónum fyrir skatta sem kemur til viðbótar þeim 9.400 krónum sem 7,4% hækkun lífeyrisgreiðslna skilar til þessa hóps sem býr við verst kjörin, samtals ríflega 24.400 krónur fyrir skatta á mánuði.

2. Skerðing bóta vegna tekna maka var að fullu afnumin 1. apríl. Sem dæmi má nefna ellilífeyrisþega sem hefur 1.000.000 króna í lífeyrissjóðstekjur og maki hans hefur 6.000.000 króna í atvinnutekjur. Bætur ellilífeyrisþegans munu í júlí verða um 54.000 krónum hærri á mánuði en þær voru í desember. Alls munu um 5.800 lífeyrisþegar uppskera hærri bætur við þessa breytingu, þ.e. um 3.900 öryrkjar og um 1.900 ellilífeyrisþegar.

3. Búið er að setja 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur á ári til að draga úr of- og vangreiðslum tekjutengdra bóta. Um 90% ellilífeyrisþega og um 95% örorkulífeyrisþega hafa fjármagnstekjur undir þessum mörkum. Ef horft er til reynslu undanfarinna ára má reikna með að 7–8.000 lífeyrisþegar komist hjá skerðingum vegna þessara aðgerða.

4. Vasapeningar til tekjulausra vistmanna hafa hækkað um tæplega 30%.

5. Skerðingarhlutfall ellilífeyris hefur verið lækkað úr 30% í 25%

6. Þá mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 67–70 ára verða hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí . Þetta þýðir að ellilífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 1.200.000 krónum á ári án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra í stað 327.000 króna áður. Sem dæmi um áhrif þessarar breytingar á bætur ellilífeyrisþega má nefna að lífeyrisgreiðslur til einhleyps ellilífeyrisþega, sem hefur 1.200.000 krónur í árslaun af atvinnu, munu hækka um liðlega 46.000 krónur á mánuði frá desember 2007.

7. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga hefur verið að fullu afnumin.

8. Hinn 1. júlí mun einnig verða sett 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega. Sem dæmi má nefna að ef örorkulífeyrisþegi og maki hans hafa hvor um sig 1.000.000 króna í lífeyrissjóðstekjur á ári hækka bætur örorkulífeyrisþegans um tæplega 7.000 krónur á mánuði frá febrúar með hækkun bóta og síðan aftur um tæplega 10.000 krónur í júlí vegna áhrifa frítekjumarksins, alls um 17.000 krónur á mánuði ef miðað er við desember síðastliðinn. Ef um er að ræða örorkulífeyrisþega, sem býr einn og er með 1.000.000 króna á ári í lífeyrissjóðstekjur, hækka bætur hans um tæplega 23.500 krónur á mánuði milli mánaðanna desember 2007 og júlí 2008. Um helmingur allra örorkulífeyrisþega eða um 7.000 manns mun njóta frítekjumarksins í formi hærri bóta frá Tryggingastofnun.

9. Hinn 1. júlí mun aldurstengd örorkuuppbót einnig hækka. Þannig mun einstaklingur sem metinn var til örorku 24 ára gamall fá 100% uppbót eftir breytinguna í stað 85% nú. Alls munu um 12.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar njóta hækkunarinnar.

10. Um næstu áramót verður afnumin hin ósanngjarna skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar. 

11. Sérstök nefnd er að móta tillögur um lágmarksframfærsluviðmið í almannatryggingarkerfinu og á að skila eigi síðar en 1. júlí.

12. Um áramótin tóku gildi ný lög sem fela í sér mikilvægar breytingar á greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Helstu breytingar eru um tekjutengdar greiðslur til foreldra sem hafa verið á vinnumarkaði áður en barn þeirra greindist langveikt eða alvarlega fatlað. Greiðslurnar nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldra yfir tiltekið viðmiðunartímabil, en þetta fyrirkomulag er sambærilegt greiðslum í fæðingarorlofi. Talið er að foreldrar um 200 barna muni nú nýta sér þessar greiðslur árlega í stað færri en 10 á síðasta ári.

13. Þá hefur verið ákveðið að hækka skattleysismörkin um 20.000 krónur á kjörtímabilinu fyrir utan verðlagshækkanir .

14. Komugjöld á heilsugæslu fyrir börn hafa verið afnumin.

15. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50%.

16. Hámark húsaleigubóta verða hækkað um 50%.

17. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35%.

18. Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur.

19.  Ný jafnréttislög hafa verið sett.

20.  Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt.

Og við erum bara búin að vera tæpt ár í ríkisstjórn...


mbl.is Eldri borgarar fá uppbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina landið sem hefur afnumið fyrningarfresti í kynferðisbrotum gegn börnum

Kynferðisbrot gegn börnum eru þjóðarmein sem krefjast fullrar athygli allra í samfélaginu. Við eigum aldrei að sætta okkur við slík brot sem rústa lífi fjölmargra einstaklinga. Þess vegna skiptir svo miklu máli að löggjöfin í landinu um þessi brot séu með fullnægjandi hætti. Eins og margir muna þá tókst okkur eftir talsverða baráttu að afnema fyrningarfresti í alvarlegustu kynferðisbrotum gegn börnum. Ég held að við séum eina þjóðin í heimi sem hefur tekið þetta mikilvæga skref en ég hef yfirlit yfir fyrningarreglur fjölmargra þjóða.

Mjög margir tóku þátt í baráttunni fyrir afnámi fyrningarfresta í kynferðisafbrotum gegn börnum en það er skemmst frá því að minnast að Samtökin Blátt áfram söfnuðu 23.000 undirskriftum til stuðnings á frumvarpi mínu sem var um afnám slíkrar fyrningar. Sá skýri vilji almennings sem birtist á sínum tíma skipti sköpum í baráttunni að koma málefninu í gegnum þingið.

Samkvæmt gömlu lögunum var fyrningarfresturinn í kynferðisbrotum gegn börnum frá 5 árum upp í 15 ár og byrjaði fresturinn að líða þegar þolandinn var orðinn 14 ára. Því voru öll kynferðisafbrot gegn börnum fyrnd þegar þolandinn hafði náð 29 ára aldri.

En eftir breytinguna sem við náðum í gegn í fyrra eru alvarlegustu kynferðisbrotin gegn börnum nú orðin ófyrnanleg og fyrningarfresturinn í öðrum kynferðisbrotum gegn börnum hefur verið lengdur.

Því miður er ekki hægt að hafa slíka löggjöf afturvirka gagnvart brotum sem eru nú þegar fyrnt. Þó er mikilvægt að hafa í huga að nýju fyrningarreglurnar gilda í þeim brotum sem voru framin fyrir gildistöku nýju laganna ef fyrningarfresturinn var ekki þegar hafinn. Þ.e.a.s. ef þolandinn var undir 14 ára aldri við samþykkt nýju laganna í mars 2007 eða brotin voru enn að viðgangast á þeim tíma.


mbl.is Grunaður um kynferðisbrot gagnvart 5 börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sem betur fer ræður Framsókn ekki lengur

Það er mikið fagnaðarefni að hjartalæknar eru nú aftur komnir á samning við Tryggingarstofnun. En þegar hjartalæknar fóru út af samningi á síðasta kjörtímabili gerðum við í Samfylkingunni mikinn ágreining út af málinu eins og má sjá hér og ennfremur hér.

Við töldum að með þessu væri þáverandi heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, að feta mjög hættulega leið að tvöföldu heilbrigðiskerfi sem Samfylkingin gæti aldrei sætt sig við. Þetta nýja kerfi sem Framsóknarflokkurinn innleiddi hvað varðar þjónustu hjartalækna bauð hættunni heim á mismunun á grundvelli efnahags, jók óhagræði og tvíverknað og kostnað fyrir sjúklinga. Þessi leið skapaði einnig hættulegt fordæmi fyrir aðrar heilbrigðisstéttir sem gætu séð einhver tækifæri í að vera samningslaus. Þetta var því vont kerfi fyrir alla aðila enda harðlega gagnrýnt af fjölmörgum aðilum.

Og þegar þáverandi heilbrigðisráðherra var spurður um framtíð þessa fyrirkomulags svaraði hún á þann veg: „Er þetta kerfi komið til að vera? Já, ég tel að það sé komið til að vera um einhvern tíma.“

En sem betur fer réð þessi stefna Framsóknarflokksins ekki lengur þar sem nú hefur heilbrigðisráðherra nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, leyst þetta mál með farsælum hætti þar sem tryggt er að hjartalæknar komi aftur á samning. Jafnræði hefur því verið tryggt á nýjan leik enda er það rauði þráðurinn í heilbrigðisstefnu þessarar ríkisstjórnar.


Af hverju inn í ESB?

Það er þekkt staðreynd að stjórnarflokkarnir hafa ólíka stefnu um aðild Íslands að Evrópusambandinu enda eru þetta tveir ólíkir flokkar. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ætlar hins vegar ekki að skila auðu í Evrópumálunum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur því sett á laggirnar nefnd um þróun Evrópumála. Þessa nefnd leiðum við Illugi Gunnarsson en í nefndinni sitja einnig fulltrúar stjórnmálaflokka, ASÍ, BSRB, SA og Viðskiptaráðs Íslands.

Verkefni Evrópuvaktarinnar
Markmið nefndarinnar er í fyrsta lagi að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar frá mars 2007 um aukna hagsmunagæslu tengdri Evrópustarfi. Í öðru lagi á hún að framkvæma nánari athugun á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu, á grunni niðurstaðna Evrópunefndar. Í þriðja lagi mun nefndin fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga.

Samfylkingin hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslendinga er betur borgið innan ESB frekar en utan. Að mínu mati er það að sama skapi engin tilviljun að nánast allir þjóðir Evrópu eru annaðhvort aðilar að ESB eða hafa sótt um aðild.

Kostir aðildar
Í stuttu máli mætti segja að helstu kostirnir við aðild eru aukin áhrif, lægra matvælaverð, aukinn stöðugleiki, lægri vextir, sanngjarnara landbúnaðarkerfi, auknar erlendar fjárfestingar, minni gengisáhætta og gengissveiflur, lægri skólagjöld erlendis, minni viðskiptakostnaður og bætt félagsleg réttindi. Ekki má gleyma að Íslendingar eru evrópsk þjóð sem á heima í samfélagi annarra Evrópuþjóða.

Nú þurfum við að taka yfir stóran hluta af lykillöggjöf ESB án þess að hafa neitt um löggjöfina að segja. Um daginn var okkur í viðskiptanefnd Alþingis sagt af embættismönnum að við gætum ekki breytt frumvarpi sem var til meðferðar hjá nefndinni nema hugsanlega heiti laganna. Ekki er þetta beysið fyrir eina elstu lýðræðisþjóð í heimi.

Og varðandi meint áhrifaleysi Íslendinga innan ESB sýnir reynslan að smáríkjum hefur vegnað vel innan ESB. Í þessu sambandi minni ég á að þingmenn Evrópuþingsins skipa sér í hópa eftir stjórnmálaskoðunum en ekki eftir þjóðerni. Þessi staðreynd hefur allnokkra þýðingu.

New York og Nebraska
Efnahagslegir kostir aðildar ættu einnig að vera ljósir. ESB er stærsta viðskiptablokk í heimi og um 70% af utanríkisviðskiptum Íslands eru við ríki ESB og EES.

Fróðlegt er að hagþróun þeirra ríkja ESB sem bjuggu við ólíkari hagsveiflu en þá sem mátti finna hjá meginþorra ESB-ríkjanna hefur ekki farið úr böndunum við upptöku evrunnar. Vitaskuld hafa hagsveiflur verið mismunandi á milli svæða þótt þau hafi notað sama gjaldmiðil. Hagsveiflan er ekki heldur sú sama í New York og Nebraska sem þó nota bæði dollarinn. Það er ekki einu sinni sama hagsveiflan í Reykjavík og Raufarhöfn.

En hafi fólk hins vegar áhyggjur af sjálfstæði þjóðarinnar við það að vera aðilar að ESB þá varpa ég fram þeirri spurningu hvort fólk telji að Danir, Frakkar eða Írar séu ekki sjálfstæðar þjóðir en þessar þjóðir hafa verið heillengi í ESB?

Hvað með sjávarútveginn?
Margir nefna sjávarútvegsstefnu sem röksemd gegn aðild. Í því sambandi verður að hafa þá grundvallarstaðreynd í huga að sjávarútvegsstefna ESB byggist á veiðireynslu og þar sem ekkert ríkja ESB hefur veitt svo neinu munar í íslenskri landhelgi undanfarna tvo áratugi hafa ríki Evrópusambandsins engan rétt til að veiða í íslenskri lögsögu. Skilyrði um veiðireynslu er Íslendingum sannarlega ekki óhagstætt.

Um fjárfestingar útlendinga má hins vegar velta því fyrir sér hvort það sé svo slæmt að fá erlent fjármagn inn í íslenskan sjávarútveg þegar unnt er að tryggja, samkvæmt niðurstöðum Evrópudómstólsins, að fyrirtækin hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við það svæði sem reiðir sig á veiðarnar. Sumir telja það betra að fá erlent fjármagn í formi hlutafjár í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki heldur en erlent lánsfé.

Breytum stjórnarskránni
Það er grundvallarafstaða Samfylkingarinnar að Ísland eigi að sýna metnað í samskiptum við önnur ríki. Í því felst meðal annars að taka fullan þátt í Evrópusamstarfinu. En óháð hugsanlegri aðild að ESB þá er hins vegar tímabært að huga að breytingu á stjórnarskránni hvað varðar valdaframsal.

Enn er staðan sú í íslenskum stjórnmálum að ekki er samstaða um aðild að Evrópusambandsaðild en ég hef þá trú að þetta kunni að breytast, fyrr en síðar. Mikilvægast af öllu er þó sú staðreynd að það verður íslenska þjóðin sem mun hafa síðasta orðið þegar kemur hugsanlegri aðild Íslands að ESB.


Of vægir dómar en þó jákvæð þróun

Nýfallinn héraðsdómur fyrir nauðgun á barnapíu er merki um að nauðungardómar séu að þyngjast eilítið. Slíkt er fagnaðarefni í sjálfu sér þótt flestum finnist dómar fyrir kynferðisbrot enn vera allt of lágir. Dómar fyrir kynferðisbrot hafa í gegnum tíðina verið of vægir á Íslandi en það að nauðgunardómar séu að þyngjast hægt og bítandi er jákvæð þróun.

Löggjafinn hefur sent þau skilaboð til dómstólana að nauðgun er mjög alvarlegur glæpur, svo alvarlegur að hann getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Dómstólum ber að virða þann vilja löggjafarvaldsins. Auðvitað veit ég að þungir dómar eru ekki einhver allsherjarlausn en dómarnir þurfa að vera sanngjarnir og réttlátir.

Að mínu mati þarf ekki einungis að vera samræmi á milli dóma fyrir sömu brot heldur þarf einnig að vera eitthvert samræmi á þyngd dóma milli brotaflokka. Slíkt samræmi er ekki fyrir hendi. Nægir að líta til hinna þungu fíkniefnadóma annars vegar og hins vegar á dómana fyrir kynferðisbrot. Þessi dómaframkvæmd er ekki í samræmi við réttlætiskennd almennings.

Undanfarin ár höfum við tekið mörg jákvæð skref í þessum málaflokki. Skilgreiningin á nauðgun hefur m.a. verið víkkuð út þannig að nú er ofbeldi eða hótun ekki lengur skilyrði fyrir því að hægt sé að telja verknaðinn vera nauðgun. Þá telst það nú vera nauðgun að þröngva vilja sínum gagnvart rænulausum einstaklingi.

Í umræddum héraðsdómi er sérstaklega talað um að brotið hafi verið gegn sjálfsákvörðunarrétti, athafnafrelsi og friðhelgi stúlkunnar sem verður að teljast vera frekar ný og jákvæð nálgun hjá íslenskum dómstóli. Við eigum að líta á nauðganir sem mjög alvarleg brot á kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins.

Þessi mál snúast hins vegar ekki einungis um lög og dóma. Það þarf einnig að fjölga þeim málum sem fara í gegnum kerfið og tryggja fræðslu og skilvirkan stuðning við þolendur kynferðislegs ofbeldis. Að mínu mati er þessi málaflokkur miklu mikilvægari en margt annað.


Listi yfir nokkur verk ríkisstjórnarinnar

Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hverju ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á tæpu ári hefur áorkað eða ákveðið að gera. Neðangreindur listi ætti að gefa einhverja hugmynd um það en auðvitað er svona listi ekki tæmandi og enn er margt ógert.  

1.    Skattleysismörkin hækkuð um 20.000 krónur fyrir utan verðlagshækkanir

2.    Skerðing tryggingabóta vegna tekna maka afnumin

3.    Afnám 24 ára reglunnar í útlendingalögunum

4.    Afnám komugjalda á heilsugæslu fyrir börn

5.    Skerðingarmörk barnabóta hækkuð um 50%

6.    Hámark húsaleigubóta hækkað um 50%

7.    Eignaskerðingarmörk vaxtabóta hækkuð um 35%

8.    Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur

9.    Stórbætt kerfi fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra

10.  Breytt tekjuviðmið í fæðingarorlofslögunum

11.  Ný jafnréttislög sett

12.  Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt

13.  Húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti fyrir 35 ára og yngri

14.  Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga að fullu afnumin.

15.  Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67-70 ára hækkað í 100 þúsund krónur á mánuði

16.  Dregið verður úr of- og vangreiðslum tryggingabóta

17.  Vasapeningar vistmanna á stofnunum hækkaðir um 30%

18.   Ellilífeyrisþegar verði tryggt að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði

19.  Aðgerðir sem skila öryrkjum sambærilegum ávinningi verða undirbúnar í tengslum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu.

20.  Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignasparnaðar afnumin

21.   Námslánakerfið verður yfirfarið með aukið jafnræði að markmiði

22.  Skattar á fyrirtæki lækkaðir

23.  Atvinnuleysisbætur verða tryggðar hækkun

24.  Framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu aukin

25.  Þreföldun á fjármagni í heimahjúkrun á þremur árum

26.  Skoðað hvort lágmarksframfærsluviðmið verði sett í almannatryggingarkerfið

27.  50% aukning á fjármagni í Fjármálaeftirlitið á milli ára

28.  60% aukning á fjármagni í Samkeppniseftirlitið á 2 árum

29.  25% aukning á fjármagni í Umboðsmann Alþingis á milli ára

30.  Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggð á fjárlögum

31.  Aðgerðir gegn kynbundnum launamun boðaðar

32.  Ýtt undir nýja atvinnulífið m.a. með umhverfisvænum en orkufrekum iðnaði

33.  Hafin vinna við rammaætlun um umhverfisvernd

34.  Tæplega helmingsaukning á fjármagni til samgöngumála milli ára

35.  40 milljarða króna afgangur af ríkissjóði af fyrstu fjárlögunum sem Samfylkingin á aðild að.


Góðar undirstöður í fjármálalífinu

Það skiptir íslenskt hagkerfi miklu máli að íslensku bönkunum farnist vel. En nú er ljóst að blikur eru á lofti í fjármálalífi þjóðarinnar. Ég hef áður ritað á þessum vettvangi að ég telji að Íslendingar hafi eignast nýjan undirstöðuatvinnugrein sem er fjármálageirinn. Framlag fjármálageirans til verðmætasköpunarinnar í samfélaginu er núna meira en samanlagt framlag sjávarútvegs, landbúnaðar og álframleiðslu.

Þess vegna er hið síhækkandi skuldatryggingarálag á íslensku bankana áhyggjuefni en það svarar til þess að vextir hafi verið hækkaðir allverulega á íslenska atvinnustarfsemi.

Fimm Landspítalar fyrir hagnaðinn
En í þessu umróti alþjóðlegs samdráttar megum við ekki gleyma því að undirstöðurnar eru tryggar. Íslensku bankarnir eru vel reknir en hagnaður þeirra fjögurra stærstu var í fyrra um 155 milljarðar króna. Þessi fjárhæð er fimmfaldur árlegur rekstrarkostnaður Landspítalans.

Heildareignir bankanna voru í árslok um 12.000 milljarðar króna sem er um tíföld landsframleiðslan. Eignir bankanna eru meira en 20 sinnum hærri en það sem íslenska ríkið veltir. Þessar tölur sýnar vel styrkleika íslenska bankakerfisins.

Íslenskt hagkerfi er einnig á traustum grunni. Ísland er sjötta ríkasta þjóð í heimi. Við erum með eitt besta lífeyrissjóðskerfi í heimi. Ríkissjóður er gott sem skuldlaus og afgangur á ríkissjóði í fyrra var um 80 milljarðar. Samkvæmt fjárlögum ársins í ár á afgangurinn að vera 40 milljarðar. Við höfum aldrei áður séð slíkar tölur í ríkisfjármálum þjóðarinnar.

Lækkun skatta
Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru hins vegar mjög meðvituð um að staðan getur verið viðkvæm. Nýlegir kjarasamningar voru þó afar jákvæð skref í átt að meiri stöðugleika og jöfnuði í samfélaginu. Aðgerðir stjórnarflokkanna í tengslum við kjarasamningana eru mikilvæg aðgerð í efnahagsmálum og á að stuðla að meiri bjartsýni á fjármálamarkaðinum.

Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar felast m.a. í því að lækka skatta á fyrirtæki, afnema stimpilgjöld fyrir fyrstu kaupendur og koma á fót sérstöku húsnæðissparnaðarkerfi fyrir ungt fólk. Endurskoðun á vörugjöldum og tollum er einnig mikilvægt skref til að auka verslunarfrelsi. Viðskiptanefnd þingsins er sömuleiðis nýbúin að afgreiða frá sér frumvarp um sérvarin skuldabréf sem mæta vel þörfum viðskiptalífsins.

Gerum Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð
Þá hefur ríkisstjórnin gefið út að hún muni stuðla að bættri upplýsingagjöf og betri ímynd íslenska hagkerfisins á erlendri grund. Slík vinna skilaði talsverðum árangri síðast þegar það var gert. 

Ég tel rétt að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks einhendi sér í gerð tillagna að Ísland verði að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Markmiðið á að vera að gera Ísland samkeppnishæfasta samfélagi í heimi en á því hagnast bæði fólk og fyrirtæki.


Hvað fela aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sér?

Það er ástæða til að fagna undirritun á kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekkert eins mikilvægt fyrir almenning í landinu og einmitt stöðugleiki og lág verðbólga. Þessir kjarasamningar munu vonandi eiga sinn þátt í endurheimta jafnvægi og jöfnuð hér á landi. Einn af forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar sagði nýlega: „Aldrei hafa lægstu laun verið hækkuð jafnmikið“.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga eru sömuleiðis afar mikilvægar þótt þær standi í mínum huga sem sjálfstæðar pólitískar aðgerðir sem auka lífskjör í landinu til muna. Þessar aðgerðir gagnast öllum landsmönnum en þó miðast þær fyrst og fremst að fólki með meðaltekjur í landinu, barnafólki og ungum einstaklingum.

Hækkun skattleysismarka og stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur
Ríkisstjórnin mun verja um 20.000 milljónum kr. í þessar aðgerðir og því sambandi hafa nokkur atriði meginþýðingu.

Fyrst ber að nefna að skattleysismörkin verða hækkuð um 20.000 krónur fyrir utan verðlagshækkanir. Þetta er eitt þýðingarmesta atriðið. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50% sem mun hafa mikil áhrif til góðs fyrir fjölskyldufólk í landinu. Hámark húsaleigubóta verður hækkað um 50%.

Stimpilgjöld verða afnumin fyrir fyrstu kaupendur sem mun hafa mikið að segja, enda eru þessi gjöld fyrstu kaupendum oft þungur baggi. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35% og námslánakerfið verður yfirfarið með aukið jafnræði að markmiði.
 
Lágmarksframfærsluviðmið sett
Lengi hefur verið kallað ef því að sett verði  lágmarksviðmið í framfærslu í almannatryggingarkerfinu og nú verður hafist handa við þá vinnu. Þá verður komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti fyrir 35 ára og yngri til að hvetja til sparnaðar hjá fyrstu kaupendum.

Þá verða skattar á fyrirtæki lækkaðir, atvinnuleysisbætur verða tryggðar hækkun og framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu aukin.

Lækkað verðlag
Að mínu viti snýst kjarabarátta ekki einungis um að hækka laun. Ekki er síður mikilvægt að bæta kjör almennings með því að hafa jákvæð áhrif á verðlag og það er mínu viti afar mikilvægt að stjórnvöld hafi þessa hlið kjarabaráttunnar einnig að markmiði.

Nú er kastljósinu beint að vöruverði í landinu og verða vörugjöld og tollar sérstaklega skoðuð í því sambandi. 

Einnig eldri borgarar og öryrkjar
Fyrir jól kynnti ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks umfangsmiklar kjarabætur fyrir eldri borgara og öryrkja. Þá var m.a. ákveðið að afnema skerðingu bóta vegna tekna maka, hækka frítekjumark og draga úr of- og vangreiðslum bóta.

Almannahagsmunir eru í öndvegi hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Sú staðreynd að tveir sterkir flokkar hafi tekið saman höndum hefur leitt af sér möguleika til þess að taka stóra málaflokka, sem oft á tíðum eru taldir þungir, til endurskoðunar. 


Okurbúllan Ísland

Enn á ný fáum við fréttir að Ísland er okurbúlla. Nýjar upplýsingar frá Hagstofu Íslands sýna samanburð á landsframleiðslu og verðlagi í ríkjum Evrópu. Ísland er í sjötta sæti hvað varðar landsframleiðslu en er með hæsta verðlagið.

Svona samanburður á verðlagi annars vegar og landsframleiðslu hins vegar er talinn geta gefið ágætar vísbendingar um lífskjörin. Í þessum samanburði kemur Ísland ekki sérlega vel út, miðað við nágrannalöndin, og þetta staðfestir að verðlagið hér á landi er óþarflega hátt.

Ég hef ítrekað talað fyrir því að eitt stærsta baráttumál almennings í þessu landi er lægra verðlag. Neytendamálin eru fyrst núna, hjá þessari ríkisstjórn, að nálgast þann sess sem þau eiga skilið. Hér þurfa almannahagsmunir að ríkja og sérhagsmunir að víkja.


mbl.is Matur og drykkur 64% dýrari en í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu mörg börn fara ekki til tannlæknis?

Auðvitað er það alvarlegt ef börn fara ekki til tannlæknis. Og auðvitað er það svolítið sérkennilegt að munnurinn sé undanskilinn hinu opinbera heilbrigðiskerfi þegar kemur að fullorðnu fólki. Fyrir nokkru lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi um hversu mörg börn fara ekki til tannlæknis. Þetta var mjög áhugaverð spurning að mínu mati og á vel við núna þegar heilmikil umræða er í gangi um tannheilsu íslenskra barna.

Svörin voru mjög áhugaverð.

Þar kom m.a. í ljós að 8.500 börn á aldrinum 3-17 ára höfðu ekki farið til tannlæknis í 3 ár.

Einnig kom í ljós að um 2.000 börn á aldrinum 6-17 höfðu ekki farið til tannlæknis í 5 ár.

Þá höfðu um 800 börn á aldrinum 9-17 ekki farið til tannlæknis í 7 ár. Þetta er langur tími án þess að hafa farið til tannlæknis.

Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessum tölum en ein af þeim hlýtur að vera efnahagur fjölskyldunnar. Ljóst er að hið opinbera greiðir aðeins hluta af þeim kostnaði sem fjölskyldur verða fyrir þegar barn fer til tannlæknis.

Við verðum því að gera það ódýrara fyrir fjölskyldur að fara með börn sín til tannlæknis. Það er því sérstakt fagnaðarefni að kosningaloforð Samfylkingarinnar um auknar niðurgreiðslur í tannvernd barna hafi bæði ratað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í samþykkta aðgerðaráætlun fyrir börn og ungmenni.


mbl.is Fleiri þriggja ára börn til tannlæknis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formennska í tveimur mikilvægum nefndum

Það er stundum sagt að tveir hópar í samfélaginu eigi að vera settir í forgang, börnin og aldraðir. Og í raun kemur slíkt fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það er því mikill heiður og ábyrgð að fá að gegna formennsku í tveimur nefndum sem fjalla einmitt um stöðu þessara mikilvægu hópa.

Fyrri nefndin sem ég gegni formennsku í er samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Verkefni samstarfsnefndar um málefni aldraðra eru að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Þá ber nefndinni að vera félags- og tryggingamálaráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra og að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra. Þessi málaflokkur hefur lengi verið pólitísk bitbein enda verkefnin næg. Það verður því afar spennandi og krefjandi að leiða þessa nefnd.

Seinni nefndin sem ég leiði á að fjalla um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra. Nefndinni verður jafnframt falið að fjalla um réttarstöðu stjúpforeldra og aðstæður þeirra. Meginverkefni nefndarinnar verða að kanna fjárhagslega og félagslega stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og stjúpforeldra, að skipuleggja og vinna að söfnun upplýsinga um þessa hópa foreldra og stöðu þeirra, að fara yfir réttarreglur sem varða hópana og gera tillögur til hlutaðeigandi ráðherra um hugsanlegar úrbætur í málefnum þeirra á grundvelli löggjafar og/eða tiltekinna aðgerða.

Eins og má sjá þá er þetta risavaxið verkefni enda mörg álitaefni hér á ferð. Nú erum við í þessari nefnd búin að hittast tvisvar sinnum en einvalalið situr í þessari nefnd með mér, eins og reyndar í þeirri fyrri.


Dúsu-kallarnir

Atburðarrás síðustu daga í borgarstjórn endurspeglar ekkert annað en nakta valdapólitík þeirra sem stuðluðu að því að sprengja meirihluta Tjarnarkvartettsins. Það segir sína sögu að 74% borgarbúa styðja ekki meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Tölurnar benda til þess að kjósendur Sjálfstæðisflokks séu sömuleiðis margir hverjir ósáttir við þennan ráðahag.
 
Aðdragandinn að slitum 100 daga-meirihlutans var enginn, hvorki pólitískur né persónulegur. Allt önnur staða var uppi þegar að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk fyrr í haust. Það blasir við. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessum veiklaða meirihluta tekst að vinna úr REI–málinu sem beinlínis splundraði borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks fyrir örfáum mánuðum síðan.
 
Það vekur nokkra athygli sem í ljós hefur komið að Sjálfstæðismenn voru í þeirri trú að Margrét Sverrisdóttir væri fylgjandi þessum ráðahag. Það kæmi mér ekki á óvart, miðað við það hvernig meirihlutinn var myndaður, að upp úr dúrnum komi að einhverjir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ekki fengið upplýsingar um það sem í vændum var fyrr en á lokametrunum. Þeir hljóta að vera hugsi um sína stöðu nú.
 
Í dag virðist því miður sem að borgarpólitíkin snúist um lítið annað en dúsur. Borgarstjórnarfundurinn í dag snerist um það eitt af hálfu meirihlutans að skipta niður bitlingum. Þeir Ólafur F. og Vilhjálmur Þ. eru ekki öfundsverðir af því að fara af stað með þetta samstarf, jafn veikt og það er og án stuðnings þorra almennings. Ég spái því að þessi meirihluti muni ekki lifa kjörtímabilið á enda.
 
Annað sem maður hefur heyrt í dag er að fáir virðast leggja trúnað á að Björn Ingi sé í raun hættur í pólitík. Það sé einfaldlega ekki í hans karakter að yfirgefa hið pólitíska sviðsljós. Vísað er til þess að tímasetningin sé heppileg í ljósi þess að nú hafi Tjarnarkvartettinn misst völdin og að fatakaup Björns hefðu ella dregið dilk á eftir sér. Það mál hefði einfaldlega reynst honum mjög erfitt viðureignar. Ákvörðun Björns Inga um að hætta sem borgarfulltrúi muni drepa þeirri umræðu á dreif og beina athyglinni að flokksbróður hans Guðjóni Ólafi sem upphafsmanni fatapókersins.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að meta það en það blasir engu að síður við að það er mikill órói innan Framsóknar sem margir innan flokksins virðast tengja við persónu Björns Inga. Björn Ingi er að sönnu umdeildur maður en mér hefur sýnst sem að þar fari metnaðarfullur og einbeittur stjórnmálamaður.


Skuldar borgarbúum skýringar

Hlutirnir hafa heldur betur breyst hratt í pólitíkinni. Fyrst voru það milljón króna fötin og hnífasettin í Framsókn. Og nú er það nýr meirihluti í höfuðborginni.

Eftir að hafa horft á einn versta blaðamannafund sem haldinn hefur verið norðan Alpafjalla þegar nýr meirihluti var kynntur á Kjarvalsstöðum er ljóst að það er ástæða til að hafa talsverðar áhyggjur af stöðu mála hér í borginni.

Það sér hver maður að hinn nýi meirihluti í borginni er afskaplega veikur og málaefnaskráin þunnur þrettándi þó það sé látið heita að hún snúist um aukið öryggi, betri almenningssamgöngur og bætta velferð. Sömuleiðis er ljóst að Ólafur F. skuldar borgarbúum frekari skýringar á liðhlaupi sínu. Ólíkt því þegar meirihluti D og B sprakk í borginni virðist hér ekki hafa verið neinn aðdragandi að sprengjunni nú og ekki neinar pólitískar deilur eða persónuleg missklíð sem geta útskýrt gjörðir Ólafs F. í þessu máli.

Augljóst er að Ólafur F. var einungis að hugsa um sinn eigin rass þegar þessi ákvörðun var tekin og tók hana að auki án alls samráðs við sína samstarfsfélaga í borginni. Borgarbúar súpa seyðið af þessum farsakenndu hræringum. Þeir missa öflugan meirihluta sem var bæði atkvæðamikill og vinsæll meðal borgarbúa.


Þingmenn á Hrauninu

Allsherjarnefnd Alþingis heimsótti Litla-Hraun fyrir helgi. Heimsókin var afar fróðleg og er ljóst að starfsfólkið þar er að vinna gott starf við erfiðar aðstæður. Reyndar gekk erfiðlega fyrir þingmenn að komast þaðan þar sem rútan sem flutti hina háttvirtu þingnefnd festist á bílastæðinu við Litla-Hraun. En með samstilltu átaki löggjafarvalds og yfirmanna fangelsismála tókst að koma þingmannsrútunni út í frelsið.

En að efni máls, þá er ljóst að fangelsismál hafa því miður ekki verið mjög ofarlega á dagskrá íslenskra stjórnmála. Þessi málaflokkur er þó hluti af þeim grunnskyldum sem sérhvert stjórnvald ber að sinna.

Þrátt fyrir það er ýmislegt ógert í fangelsismálum þjóðarinnar. Má þar nefna frekari uppbygging á fangelsisbyggingum, bætt meðferðarúrræði fyrir fanga, aukna möguleika á menntun og vinnu hjá föngum, betri kjör fangavarða, bætt heimsóknaraðstaða, aukinn stuðningur eftir að afplánun lýkur og svona mætti lengi telja áfram.

Hins vegar hefur margt jákvætt gerst undanfarin misseri í fangelsismálum sem vert er að gefa gaum að. Talsverð breyting til batnaðar varð þegar Valtýr Sigurðsson tók við Fangelsismálastofnun fyrir nokkrum árum. En nú er Valtýr horfinn á aðrar slóðir sem nýr ríkissaksóknari og er óhætt að binda miklar vonir við starf hans þar. Það var sömuleiðis mikið fagnaðarefni þegar tilkynnt var að Margrét Frímannsdóttir myndi taka við stjórnartaumum á Litla-Hrauni. Margrét var einn af fáum þingmönnum sem lét sig fangelsismál varða og hefur mikla þekkingu á málaflokknum.

Þá hefur núverandi dómsmálaráðherra staðið fyrir mörgu jákvæðum aðgerðum í fangelsismálum. Og fyrir helgi skilaði síðan nefnd menntamálaráðherra skýrslu um að auka bæri áherslu á menntun fanga sem hlýtur að segja sig sjálft að sé nauðsynlegt. En síðast en ekki síst hafa fangarnir sjálfir lagt mikið að mörkum í að benda á það sem betur má fara. Það var mikilvægt fyrir okkur í allsherjarnefnd Alþingis að heyra athugasemdir fanganna milliliðalaust frá þeim sjálfum.

En betur má ef duga skal. Dómar virðast hafa þyngst undanfarin misseri og það eykur að sjálfsögðu álagið á starfsfólk og kerfið. Sömuleiðis hefur notkun á samfélagsþjónustu aukist jafnt og þétt að undanförnu en ein af afleiðingum þess er auðvitað sú að hlutfall þeirra sem þurfa að sitja inni og eru sekir um alvarlegri glæpi er hærra en áður.

Það hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðum með fangelsisvist að einstaklingurinn komi ekki verri út eftir að afplánun lýkur heldur en hann var þegar hann hóf afplánunina. Það er því hagsmunamál okkar allra að þessi málaflokkur fái þá athygli og fjármagn sem hann þarf.


Þingið mun hægja á sér

Hinar nýju húsreglur Alþingis eru strax farnar hafa jákvæð áhrif á þingstörfin. Umræðurnar í þingsalnum eru orðnar beinskeyttari og snarpari. Langalokurnar heyra sem betur fer sögunni til og fengum við sýnishorn af því þegar 2. umræða um jafnréttisfrumvarpið var rætt í vikunni. Samkvæmt gömlu lögunum hefði verið ómögulegt að vita hvenær sú umræða lyki í ljósi þess að þingmenn gátu þá talað óendanlega lengi við 2. umræðu lagafrumvarpa.

Þá hefur nýr liður í þingstörfunum litið dagsins ljós sem heitir óundirbúinn fyrirspurnartími og hefur hann strax sannað gildi sitt. Þessi liður verður að jafnaði tvisvar í viku en þá gefst 5 þingmönnum í senn að koma að óundirbúinni fyrirspurn til ráðherranna. Það var gaman að fylgjast með þingmönnum nýta sér þennan lið í vikunni og urðum við vitni að snarpri umræðu um mál líðandi stundar.

En tilgangur með breytingunum á þingsköpunum var einnig að styrkja þingið og frumkvæði þess. Því verður sérstakur liður á dagskránni tvisvar í viku um störf þingsins  en þá er ætlunin að þingmenn beini spjótum sínum að öðrum þingmönnum en ráðherrum s.s. nefndarformönnum og þingflokksformönnum. Það verður fróðlegt að sjá hvort stjórnarþingmenn noti ekki einnig þennan lið til að taka upp einstaka stjórnarandstöðuþingmenn og krefja þá svara um ummæli og gjörðir. En eins og þjóðin veit þá er það venjulega öfugt.

Að lokum langar mig að minnast að breytingu sem fór lítið fyrir í umræðunni þegar frumvarpið var samþykkt rétt fyrir jól. Það er sú lagabreyting að hægt verður að krefjast þess að frumvarp fari aftur til nefndar eftir 2. umræðu. Þetta mun hægja á lagsetningunni og vonandi bæta hana. Sömuleiðis verður þetta án efa óspart notað á síðustu dögum þingsins fyrir sérhvert hlé.


Stóra húsamálið

Þessa dagana er heilmikið rætt um skipulagsmál í borginni. Og sitt sýnist hverjum. Reyndar eru skipulagsmál sá málaflokkur sem ég tel að beri helst á góma þegar fólk vill ræða pólitík á mannamótum. Það er vegna þess að allir hafa skoðun á skipulagsmálum.

Án þess að leggja mat á framtíð þessara tilteknu húsa við Laugaveginn sem nú eru í umræðunni er ljóst að nokkrar leiðir eru uppi. Hægt er rífa húsin og byggja eitthvað algjörlega nýtt á reitnum. Svo er hægt að friða húsin og gera ekkert við þau. Þá er hægt að flytja þessi hús annað og byggja annars konar hús í staðinn. Loks er hægt að leyfa húsunum að vera þarna en byggja þau upp í anda liðinna tíma.

En annars fannst mér viðtal Egils Helgasonar við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi fréttamanns, á sunnudaginn var um þessi mál, vera afskaplega fróðlegt.

Ég hef heyrt af mörgum að útlegging Sigmundar hafi snúið mörgum á sveif með friðun þessara húsa, eða a.m.k. á þá skoðun að nýbyggingar á svæðinu þurfi að lúta ákveðnum kröfum um útlit fyrri tíma.


24 ára reglan út

Það er sérstaklega ánægjulegt að í nýju frumvarpi til útlendingalaga sé gert ráð fyrir að hin svokallaða 24 ára regla fari út. Verði frumvarpið að lögum verður 24 ára aldursmarkið fellt út úr skilgreiningu á maka.

24 ára reglan var afskaplega umdeild eins alþjóð man eftir. En núna hafa stjórnarflokkarnir náð samkomulagi um að reglan sjálf fari út. En hins vegar verður kannað hvort um nauðungar- eða málamyndunarhjónaband sé að ræða þegar um er að ræða hjón undir 24 ára aldri. Sú könnun á reyndar alltaf við samkvæmt lögunum sé rökstuddur grunur um að slíkt sé fyrir hendi.

Með þessu frumvarpi stjórnarflokkanna er því bæði verið að laga útlendingalögin að núverandi framkvæmd og verið að mæta þeim röksemdum að þessi 24 ára regla hafi verið óeðlileg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband