Af hverju inn í ESB?

Það er þekkt staðreynd að stjórnarflokkarnir hafa ólíka stefnu um aðild Íslands að Evrópusambandinu enda eru þetta tveir ólíkir flokkar. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ætlar hins vegar ekki að skila auðu í Evrópumálunum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur því sett á laggirnar nefnd um þróun Evrópumála. Þessa nefnd leiðum við Illugi Gunnarsson en í nefndinni sitja einnig fulltrúar stjórnmálaflokka, ASÍ, BSRB, SA og Viðskiptaráðs Íslands.

Verkefni Evrópuvaktarinnar
Markmið nefndarinnar er í fyrsta lagi að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar frá mars 2007 um aukna hagsmunagæslu tengdri Evrópustarfi. Í öðru lagi á hún að framkvæma nánari athugun á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu, á grunni niðurstaðna Evrópunefndar. Í þriðja lagi mun nefndin fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga.

Samfylkingin hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslendinga er betur borgið innan ESB frekar en utan. Að mínu mati er það að sama skapi engin tilviljun að nánast allir þjóðir Evrópu eru annaðhvort aðilar að ESB eða hafa sótt um aðild.

Kostir aðildar
Í stuttu máli mætti segja að helstu kostirnir við aðild eru aukin áhrif, lægra matvælaverð, aukinn stöðugleiki, lægri vextir, sanngjarnara landbúnaðarkerfi, auknar erlendar fjárfestingar, minni gengisáhætta og gengissveiflur, lægri skólagjöld erlendis, minni viðskiptakostnaður og bætt félagsleg réttindi. Ekki má gleyma að Íslendingar eru evrópsk þjóð sem á heima í samfélagi annarra Evrópuþjóða.

Nú þurfum við að taka yfir stóran hluta af lykillöggjöf ESB án þess að hafa neitt um löggjöfina að segja. Um daginn var okkur í viðskiptanefnd Alþingis sagt af embættismönnum að við gætum ekki breytt frumvarpi sem var til meðferðar hjá nefndinni nema hugsanlega heiti laganna. Ekki er þetta beysið fyrir eina elstu lýðræðisþjóð í heimi.

Og varðandi meint áhrifaleysi Íslendinga innan ESB sýnir reynslan að smáríkjum hefur vegnað vel innan ESB. Í þessu sambandi minni ég á að þingmenn Evrópuþingsins skipa sér í hópa eftir stjórnmálaskoðunum en ekki eftir þjóðerni. Þessi staðreynd hefur allnokkra þýðingu.

New York og Nebraska
Efnahagslegir kostir aðildar ættu einnig að vera ljósir. ESB er stærsta viðskiptablokk í heimi og um 70% af utanríkisviðskiptum Íslands eru við ríki ESB og EES.

Fróðlegt er að hagþróun þeirra ríkja ESB sem bjuggu við ólíkari hagsveiflu en þá sem mátti finna hjá meginþorra ESB-ríkjanna hefur ekki farið úr böndunum við upptöku evrunnar. Vitaskuld hafa hagsveiflur verið mismunandi á milli svæða þótt þau hafi notað sama gjaldmiðil. Hagsveiflan er ekki heldur sú sama í New York og Nebraska sem þó nota bæði dollarinn. Það er ekki einu sinni sama hagsveiflan í Reykjavík og Raufarhöfn.

En hafi fólk hins vegar áhyggjur af sjálfstæði þjóðarinnar við það að vera aðilar að ESB þá varpa ég fram þeirri spurningu hvort fólk telji að Danir, Frakkar eða Írar séu ekki sjálfstæðar þjóðir en þessar þjóðir hafa verið heillengi í ESB?

Hvað með sjávarútveginn?
Margir nefna sjávarútvegsstefnu sem röksemd gegn aðild. Í því sambandi verður að hafa þá grundvallarstaðreynd í huga að sjávarútvegsstefna ESB byggist á veiðireynslu og þar sem ekkert ríkja ESB hefur veitt svo neinu munar í íslenskri landhelgi undanfarna tvo áratugi hafa ríki Evrópusambandsins engan rétt til að veiða í íslenskri lögsögu. Skilyrði um veiðireynslu er Íslendingum sannarlega ekki óhagstætt.

Um fjárfestingar útlendinga má hins vegar velta því fyrir sér hvort það sé svo slæmt að fá erlent fjármagn inn í íslenskan sjávarútveg þegar unnt er að tryggja, samkvæmt niðurstöðum Evrópudómstólsins, að fyrirtækin hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við það svæði sem reiðir sig á veiðarnar. Sumir telja það betra að fá erlent fjármagn í formi hlutafjár í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki heldur en erlent lánsfé.

Breytum stjórnarskránni
Það er grundvallarafstaða Samfylkingarinnar að Ísland eigi að sýna metnað í samskiptum við önnur ríki. Í því felst meðal annars að taka fullan þátt í Evrópusamstarfinu. En óháð hugsanlegri aðild að ESB þá er hins vegar tímabært að huga að breytingu á stjórnarskránni hvað varðar valdaframsal.

Enn er staðan sú í íslenskum stjórnmálum að ekki er samstaða um aðild að Evrópusambandsaðild en ég hef þá trú að þetta kunni að breytast, fyrr en síðar. Mikilvægast af öllu er þó sú staðreynd að það verður íslenska þjóðin sem mun hafa síðasta orðið þegar kemur hugsanlegri aðild Íslands að ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ágúst, við höfum EKKERT þangað inn að sækja og ef döngur væri í þér ættir þú frekar að fara að dæmum föður þíns og krefjast úrsagnar og frelsis frá EES en hefja tvíhliða viðræður við Kalmarsambandið hið nýja og halda okkar fullveldi gersamlega óskertu.

Með virðingu fyrir afa þínum og afar mörgum frændum þínum.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 2.5.2008 kl. 10:19

2 identicon

Dropinn holar steininn. Þegar Styrmir hættir þá kvarnast stór steinn úr mótstöðubjarginu. En fyrir innskotann hér að ofan og marga aðra er þetta trúarbrögð ekki rökræða. kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 10:36

3 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

"trúarbrögð ekki rökræða" Það er nefninlega málið. Mig vantar ennþá útskýringar á því hvernig matvælaverð lækkar allskyndilega við það eitt að ganga í ESB án þess að fjöldagjaldþrot verði í Íslenskum matvælaiðnaði? Hvernig lánastofnanir geta lækkað vexti og hætt að innheimta verðbætur, sem hefur hingað til verið forsenda fyrir útlánum? Hvernig verð á almennum aðföngum og þjónustu getur lækkað án þess að laun á almennum markaði lækki umtalsvert? En þar sem þetta eru ekki rökræður þá geri ég svo sem ekki ráð fyrir svari.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 2.5.2008 kl. 11:58

4 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Góð grein Ágúst. Nafni minn Jónas Yngvi kallar eftir svörum við nokkrum spurningum, sem ég skal reyna að koma með. Í fyrsta lagi mun mataverð lækka við ESB inngöngu þar sem verndartollar og innflutningshöft verða felldir niður, en á móti munum við ganga inn í styrkjakerfi Evrópusambandsins sem þýðir að bændur munu halda vinnu sinni (þó að það sé óljóst hvort svína og kjúklingabændur muni standast samkeppni - ef þeir gera það ekki þá sýnir það bara að þjóðfélagið mun spara á því að fá ódýrara innflutt hvítt kjöt). Þetta er reynd leið, því flest Evrópuríkin hafa gengið í gegnum það að ganga í sambandið, og þetta reynist mjög vel.

.

Lánastofnarnir munu losna við gengisáhættuna sem fylgir útlánum með því að evra verður tekin upp hér á Íslandi, sem þýðir að í raun getum við Íslendingar tekið lán í "erlendri mynt" á lágum vöxtum og það mun ekki þurfa neinar verðbætur til að verja lánveitendum frá gengissveiflum. Þetta hefði t.d. sparað íslenskum heimilum hundruði þúsunda um síðastliðin mánaðarmót. Verðtryggingin á íbúðarlánum er aðeins til vegna þeirrar óvssu sem lítill gjaldmiðill skapar.

.

Verð á aðföngum og þjónustu getur lækkað án þess að laun lækki, rétt eins og laun geta hækkað án þess að vöruverð og þjónusta hækkar - sem kallast kaupmáttaraukning. Til þess að þetta geti gerst þarf að eiga sér stað hagræðing; eins og t.d. að breyta úreldu landbúnaðarkerfi, hætta að nota kostnaðasama örmynt eða koma böndum á verðbólguþróun. Með Evrópusambandsaðild munum við gera allt þetta, og því mun kaupmáttaaukning vera veruleg fyrir Íslensk heimili - í rauninni ein mesta kjarabót sem íslensk heimili eiga völ á.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 2.5.2008 kl. 13:05

5 Smámynd: Ingólfur

Sæll Ágúst, 

Ég verð eiginlega að taka undir með Jónasi Yngva að þetta minnir meira á trúarbrögð en rökræðu.

Þú ert t.d. með millifyrirsögnina Kostir aðildar í þessari grein en enga um Ókosti aðildar. Þú nefnir þó örfá af ókostunum en miðað við boðskap þinn að þá er helst að heyra að í raun séu þeir kostir.

Varðandi kostina að þá held ég að þeir séu stórlega ofmetnir.

Auknu áhrifin eru m.a. 4 þingmenn á Evrópuþinginu eða ca hálft prósent þingmannanna. Þetta hálfa prósent skiptist síðan inn í hinar ýmsu fylkingar í stað þess að vinna saman að hagsmunum Íslands.

Ástæða þess að matvælaverð muni lækka við inngöngu er vegna niðurfellingu tolla. Það er hins vegar eins og þið hafið gleymt því að við stjórnum sjálf tollunum (ennþá allavega) og getum bæði fellt þá niður einhliða eða með tvíhliðatollasamningum við ESB.

Þig eigið hins vegar eftir að útskýra hvernig þið ætlið að tryggja að landbúnaðurinn lifi þetta af, sérstaklega lambakjötsframleiðslan sem flestir eru sammála að sé einstök hér á landi, og hvernig þið ætlið að tryggja matvælaöryggi landsins. Þ.e.a.s. að á Íslandi verði áfram grundvallar matvælaframleiðsla.

Svo er lækkunin sem mundi nást stórkostlega ofmetin því flestir ESB sinnar gefa í skyn að eftir inngöngu verði verðið hér hið sama og meðalverð í ESB.

Þeir hafa hins vegar ekki getað skýrt hvers vegna verðlag hérna, á vörum sem bera enga tolla, er 50-60% hærra en í Danmörku, þar sem virðisaukaskatturinn er sá sami.

En ef þú ert með svörin við þessu öllu að þá ætti Samfylkingin auðvitað að vera löngu komin fram með frumvarp um niðurfellingu þessara tolla, svo við fáum þennan ávinning strax, í stað þess að þurfa að bíða eftir ESB aðild.

Varðandi kostina fyrir efnahagslífsins, að þá byggjast þeir allir á því að taka upp Evru, eða einhvern annan gjaldmiðil.

Hins vegar fær enginn að taka upp Evru nema að hafa stöðugleika í efnahagslífinu sínu.

Þess vegna mæli ég með að þið farið að vinna í því í stað þess bara að tala um ESB.

Ef síðan þið teljið rétt að skipta á íslensku krónunni og þeim ávinningi sem fæst með stöðugri gjaldmiðli (ásamt göllunum auðvitað líka) að þá skuluð þið í alvöru leita að samningum við ESB um upptöku eða tengingu við Evruna, t.d. með sama hætti og Danir, eða þá athuga í alvöru hvaða aðra gjaldmiðla við gætum fengið aðgang af.

Þið segið að sjávarútvegurinn sé ekki í neinni hættu vegna þess að þó formlegt yfirráð færist til ESB að, samkvæmt núverandi úthlutunarreglum, ræður veiðireynslan því hverjir fá kvóta.

Þið gleymið því hins vegar, viljandi eða óviljandi, að Sambandsríkið ESB er í sífelldri þróun og það er ekkert gefið að núverandi reglur haldist óbreyttar.

Ef ESB ákvæði nú að stokka upp á nýtt fiskveiðikvótana að þá er ekkert sem okkar hálfa prósent geti gert til þess að stöðva það.

Og talandi um stjórnarskrárbreytingar, hvernig væri nú að þið festuð það í stjórnarskrána að auðlindir landsins séu eign íslensku þjóðarinnar, áður en þið opnið fyrir fullveldisframsal í stjórnarskránni?

Mér sýnist það því miður að Samfylkingin hafi núna sest niður í hægindastólinn og bíði bara eftir að allt fari til fjandans í efnahagsmálum, til þess að nýta sér ástandið til að afla fylgis við ESB aðild. Svei!

Ingólfur, 2.5.2008 kl. 14:12

6 Smámynd: Ólafur B. Jónsson

Algerlega sammála Ingólfi Harra.  Það vantar bara á að samfylkingin vilji gerast fylki í Bandaríkjunum.

Ólafur B. Jónsson, 2.5.2008 kl. 15:55

7 Smámynd: Friðrik Hjörleifsson

Það eina sem mér finnst komast nálægt trúarbrögðum í allri þessari umræðu er þessi gamla tugga um fullveldið okkar.  Fyrir það fyrsta er varla handfylli af raunverulega fullvalda ríkjum í heiminum, þ.e.a.s. ríki sem geta tekið ákvarðanir út frá sínum eigin hagsmunum án þess að taka mið af hagsmunum annarra og áhrifaríkari þjóða.

 Míkróríki á borð við ísland eiga nákvæmlega engan möguleika á neinu sem heitir fullveldi, sérstaklega ef þau standa utan öflugra bandalaga.  NATO aðild er t.d. stórt skref í átt fullveldi fyrir mörg ríki, rétt eins og aðild að ESB mundi vera skref í átt að fullveldi Íslands, en ekki frá því, þar er misskilningurinn.

Þakka góða grein Ágúst 

Friðrik Hjörleifsson, 2.5.2008 kl. 20:07

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Friðrik reynir hér á hlægilegan hátt að endurskilgreina "fullveldi", en hvers vegna hyggjast ESB-sinnar breyta stjórnarskránni til þess að unnt verði að framsala fullveldisréttindum okkar til stofnana í Brussel? Hvers vegna nema fyrir þá sök, að með þau fulælæveldisréttindi, sem við nú höfum, erum við ekki tæk í þetta yfirþjóðabandalag, stórríkið ESB.

Kem aftur til að segja meira, ef þetta innlegg mitt tollir hér inni. 

Jón Valur Jensson, 2.5.2008 kl. 20:40

9 Smámynd: Ingólfur

Fullveldið er engin gömul tugga heldur eitthvað sem mikið var lagt á sig til þess að öðlast.

Það er hinsvegar ekkert að samvinnu þjóða á jafnréttisgrundvelli, og fyrir þjóðir sem hafa mjög áþekka hagsmuni er auðveldara að réttlæta sameiginlegt fullveldi.

En fyrir okkur sem erum á margan hátt með gjörólíka hagsmuni en stóru Evrópuþjóðirnar að þá er það bara ekki réttlætanleg að færa valdið til undir meirihlutaákvarðanir á Evrópuþinginu.

Utan ESB aðildar getum við einmitt nýtt bæði fullveldi okkar sem sjálfstæð þjóð til samninga við hvern sem er og sveinleikan sem við höfum vegna smæð okkar.

En eftir aðild þá þurfa allir samningar við aðra að fara í gegnum Brussel og erfiðara verður að skapa séraðstæður til þess að laða að ýmsa erlenda starfsemi.

Það er einmitt eitt af því sem felst í fullveldinu í dag. Rétturinn til þess að semja sjálf við erlenda aðila.

Ingólfur, 2.5.2008 kl. 21:18

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fyrir utan að Ágúst Ólafur telur gott "að fá erlent fjármagn í formi hlutafjár í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki," komast hans pósitífu meðmæli með ESB-innlimun í vefgrein hans í rauninni öll fyrir í eftirfarandi málslið:

  • "Í stuttu máli mætti segja að helstu kostirnir við aðild eru aukin áhrif, lægra matvælaverð, aukinn stöðugleiki, lægri vextir, sanngjarnara landbúnaðarkerfi, auknar erlendar fjárfestingar, minni gengisáhætta og gengissveiflur, lægri skólagjöld erlendis, minni viðskiptakostnaður og bætt félagsleg réttindi. Ekki má gleyma að Íslendingar eru evrópsk þjóð sem á heima í samfélagi annarra Evrópuþjóða."

Í öfugri röð:

  1. Erum við ekki nú þegar "evrópsk þjóð", sem hefur haft og hefur enn ærin samskipti við aðrar þjóðir á meginlandinu, og er einhver þörf á innlimun til að halda því áfram?
  2. Bætt félagsleg réttindi? Sem sé að við eigum að taka við ÖLLUM lagapakka ESB, ekki bara þeim u.þ.b. 6%, sem við höfum gert? En er það Alþingi okkar um megn að setja sín eigin lög um bætt félagsleg réttindi? Er þetta traust þingmannsins til innlendra samfélagskrafta og kollega hans á þingi? Og erum við virkilega svo aftarlega á merinni í félagslegum réttindum meðal þjóða heims, að það virkilega kalli á það "valdaframsal", sem Ágúst Ólafur leggur til undir lok greinarinnar ("... þá er hins vegar tímabært að huga að breytingu á stjórnarskránni hvað varðar valdaframsal")?
  3. "... minni viðskiptakostnaður ..." fyrir hverja? Jú, ýmis fyrirtæki, en það felur ekki í sér, að það verði nokkurn tímann jafnódýrt að flytja vörur til þessarar fámennu eyjar í úthafi eins og milli landa á meginlandinu.
  4. "... lægri skólagjöld erlendis," því neita ég ekki, en hvað er það hjá því geysimikla framlagi, sem ísl. ríkið yrði að gjalda árlega beint í yfirríkiskistu ESB?
  5. "... minni gengisáhætta og gengissveiflur," þetta siglir þægilega auðveldlega hjá því að minnast á það, í hve gífurleg vandræði sterk og nánast ósveigjanleg evra gæti komið atvinnuvegum okkar. Nú þegar veldur hún Spánverjum, Ítölum og Írum vandræðum, en jafnvel þýzkum útflutningsgreinum líka: lágur dollar og há evra fela í sér hrun útflutnings þaðan til Bandaríkjanna, eins helzta markaðar Þýzkalands, en er hins vegar að sama skapi vítamínsprauta fyrir útflutningsiðnað USA.
  6. "... auknar erlendar fjárfestingar," er þetta loforð, Ágúst Ólafur? Kannski í okkar sjávarútvegi – á hann kannski að fást á tombóluverði, þegar við Íslendingar höfum hvort sem er misst okkar einkaréttindi og einkahlut í þessu, rétt eins og Möltumenn og Slóvenar?
  7. "... sanngjarnara landbúnaðarkerfi," – áttu við hrun ísl. landbúnaðar og umbreytingu stoltra, sjálfstæðra bænda í bónbjargarstétt? Gleymdu því þá ekki, að styrkirnir eru ekki um alla framtíð. Og verður landið byggilegt, ef bændur missa bú sín?
  8. "... lægri vextir," – vissulega mikilvægt, en af hverju ekki að setja lög sem banna okurvexti? Ég stæði með þér í því.
  9. "... aukinn stöðugleiki" ??? Bara að það þýði ekki stöðnun! Spánverjarnir komust langt á mikilli innspýtingu ESB-fjármuna þangað til bænda o.fl., en nú hefur verið dregið afar mikið úr þeim styrkjum og landið að komast í vanræði.
  10. "... lægra matvælaverð"? Hversu lágt? Lofarðu meðal-ESB-matarverði hér? Hvernig geturðu það, þegar sum löndin eru með ávexti sem vaxa á trjánum og þrjár uppskerur á ári? Hvernig ætlarðu að spara okkur aðflutningsgjöldin? Það verður að miða við NV-Evrópu, ekki allt ESB, í matarverði, og þá er samanburðurinn ekki nærri eins óhagstæður okkur og margir vilja vera láta
  11. "Í stuttu máli mætti segja að helstu kostirnir við aðild eru aukin áhrif ..." (o.s.frv.). Aukin áhrif?! Að fá hálft prósent atkvæða? Segðu mér annan betri, Ágúst Ólafur Ágústsson!

Ef þetta voru rök þín, sýnast mér þau fánýt og fráleitt að láta tælast af þessu –– og svo er að skoða gagnrökin!

Jón Valur Jensson, 2.5.2008 kl. 21:22

11 Smámynd: Víðir Benediktsson

Það fer ESB sinnum ekki vel að tala um trúarbrögð hérna. Megnið af þeim rökum sem þeir nota getum við framkvæmt upp á eigin spýtur s.s.tolla og aðflutningsgjöld. Hitt er rétt að með aðild verðum við neydd til að gera þetta svona og höfum ekkert val. Matvælaverð???? Held að íslenskir kaupmenn haldi áfram að verðleggja vöru í samræmi við það sem fólk er tilbúið að borga fyrir hvort sem við erum í ESB eða ekki. Varðandi sjávarútveginn þá er ekkert gefið í þeim efnum og bara ábyrgðaleysi að tala svo frjálslega um hann eins og gert hefur verið af hálfu ESB sinna. Mæli með því að fólk spari stórar yfirlýsingar þar til svör hafa fengist við þeim spurningum sem brenna á fólki. Þá fyrst getum við ákveðið hvort okkur er betur borgið þarna inni eður ei.

Víðir Benediktsson, 2.5.2008 kl. 23:07

12 Smámynd: Sævar Helgason

Ef við hefðum ekki verið með EES samningin síðustu 15 árin - hver væru kjör þessarar þjóðar nú ?  Það er til lítis að vera með fullveldi og eiga tæpast fyrir salti í grautinn- eða er það ?

Með EES samningnum létum við af hendi mjög stóra sneið af fullveldi okkar. Okkur láðist í flýtinum að gera lögboðna stjórnarskrárbreytingu fyrir gerningin.  Að fullklára málið núna og  gerast fullgildir aðilar og að myntbandalagingu- er miklu minna fullveldismál en það fyrra.

Bara einhenda okkur í verkið- strax.   Fullveldið fór með EES og þess sakna engir núna- Allir vildu þá Lilju kveðið hafa

Sævar Helgason, 2.5.2008 kl. 23:11

13 Smámynd: Víðir Benediktsson

Skelfileg tilhugsun að vera ekki í ESS Ætli megnið af þjóðinni væri ekki hungurmorða og þeir eftirlifandi með skyrbjúg og hor svona rétt eins og svisslendingar sem hvorki eru í ESS eða ESB

Víðir Benediktsson, 2.5.2008 kl. 23:25

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott hjá þér, Víðir!

Sævar, fullveldið er ekkert farið með EES – við höfum ekki samþykkt nema um 6% af lögum og reglugerðum ESB, og það er misjafnt eftir EES-löndunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein, hvað hvert þeirra samþykkir; og sum lögin eru ekki samþykkt nema með vissum undanþáguákvæðum (eins og nú er – m.a.s. eftir á – leitað eftir í sambandi við vökulög bílstjóra).

Engin þjóð fleygir frá sér með fullu viti fullveldi sínu. Nýfundlendingar gerðu það raunar, en sáu mikið eftir því. ESB-sinnar virðast hins vegar reiðubúnir að spila rússneska rúllettu með lífshagsmuni okkar – í fánýtri von um lægra matarverð og betra klink í lófum! En rúllettan er í því fólgin, að menn vita í raun ekki, hvaða ráðstafanir ESB muni þókknast að gera í sjávarútvegsmálum okkar, en bandalagið áskilur sér rétt til að endurskoða stefnuna reglulega––og þar fengjum við þá engu um ráðið. Gætum að vísu gengið úr bandalaginu, eins og málsvarar þess benda á, en slík útganga væri þá orðin geysierfið eftir algera samtvinnan okkar við það um margra ára skeið.

Allur minnir þessi atgangur á ljóð Jóns Helgasonar, handritafræðings og prófessors í Kaupmannahöfn, Sú þjóð ...:

  • Sú þjóð sem löngum átti´ ekki´ í sig brauð
  • en einatt bar þó reisn í fátækt sinni,
  • skal efnum búin orðin þvílíkt gauð
  • er öðrum bjóði sig að fótaskinni.

Og síðar:

  • Sú þjóð sem dottar dáðlaus, viljasljó,
  • og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,
  • skal fyrr en varir hremmd í harða kló.
  • Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja!

Þetta gætu verið miklu nauðsynlegri varygðarorð á 21. öld en þau reyndust á þeirri tuttugustu.

Jón Valur Jensson, 3.5.2008 kl. 00:42

15 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ég tek undir með Jóni Val, og bæti við að í svona alvarlegu máli  þurfum við að horfa til næstu 20 ára, en ekki á skammtímahagsmuni. hver verður staða aðildarríkja ESB eftir 10 -20 ár?  Mun ríkja friður í Evrópu eða styrjaldir? Við þurfum ekki annað en að horfa  til aukinna áhrifa Rússlands og sterkrar tengingar þeirra við Íran  til að efast um það að friður ríki áfram. Nú er mikið rætt um her ESB megum við íslendingar vænta þess að á okkur hvíli  herskylda vegna ESB aðildar?  Er það framtíðardraumur Samfylkingarinnar að fórna íslenskum þegnum til varnar aðildaríkja ESB? 

Guðrún Sæmundsdóttir, 3.5.2008 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband