Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Staksteinar

steinarÞað er nú ekki oft sem við í Samfylkingunni getum fagnað skrifum Staksteina Morgunblaðsins. En við getum þó gert það í þetta sinn. Mér finnst það hreint út sagt ágætt að þessi munur sem er á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í matvælamálinu komi fram. En auðvitað eru snertifletir á milli flokkana t.d. í mennta-, velferðar- og umhverfismálum. En á öðrum sviðum getur verið talsverður munur. Matvæla- og landbúnaðarmálin eru eitt af þeim.

Þetta eru tveir mismunandi flokkar eftir allt saman. En það er kannski eitthvað sem ekki er hægt að segja um ríkisstjórnarflokkana sem keppast við að benda á að þeir séu í raun sami flokkurinn með sömu skoðunina á öllum málum.


Evrópa víða á dagskrá

ThjodminjaÉg vek athygli á þessum fyrirlestrum sem ungir fræðimenn flytja á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og hefjast núna klukkan 13:00 í dag í Þjóðminjasafninu.

Ég hefði sjálfur gjarnan viljað komast en þarna munu meðal annars vera flutt erindi með yfirskriftirnar: "Þjóðarstolt eða samrunaþrá? Almenningsálit á Íslandi og Evrópusambandsaðild" og "Undirliggjandi hugmyndir í íslenskum hafréttarmálum og neikvæðri afstöðu ráðamanna til sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins"  

Dagskráin nefnist "Dagur ungra fræðimanna" og munu alls 6 ungir fræðimenn kynna niðustöður rannsókna sinna á Evrópummálum.

Ástæða þess að ég missi af þessari áhugaverðu dagskrá er sú að ég er að fara annan mikilvægan fund sem tengist þessum málaflokki, nánar tiltekið í Evrópunefndinni sem forsætisráðherra skipaði árið 2004.

Þar er ég annar fulltrúi Samfylkingarinnar en hinn er Össur Skarphéðinsson. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er formaður nefndarinnar.

Skipunarbréf nefndarinnar skilgreinir hlutverk hennar svona:

Helstu hlutverk nefndarinnar eru m.a. að kanna framkvæmd EES-samningsins, hvort og þá hvers konar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu, hvað aðild myndi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið og hverjir væru kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland. Auk þess sem skilgreind verði staða Íslands miðað við hina nýsamþykktu stjórnarskrá ESB. Þá verði á vettvangi nefndarinnar rædd þau álitaefni önnur að því er tengsl Íslands og Evrópusambandsins varða og nefndin telur til þess fallin að skýra stöðu Íslands sérstaklega í þessu samhengi.

Eins og sést þá hittir viðfangsefnið vel á umræðurnar eins og þær hafa verið á Íslandi  undanfarin misseri um Evruna o.fl. og ég á von á því að nefndin skili af sér fljótlega. Það verður spennandi að sjá hvort að niðurstöðurnar endurspegli þá breytingu sem er að verða í samfélaginu og atvinnulífinu á afstöðunni til Evrópusamstarfsins og sem ég hef skynjað svo sterkt undanfarið.


Sykurskattur á sykurlaust tyggjó

útsalaÉg var í Kastljósinu í kvöld með félaga mínum Ögmundi Jónassyni. Ég kann mjög vel við Ögmund og hann er fylginn sér, það vantar ekki. Í þetta sinn tókumst við á um hvort opinber neyslustýring í gegnum verðlag virki. Við Ögmundur getum vel verið sammála um markmiðið um að draga eigi úr neyslu á ,,óhollum” vörum og að það þurfi að bregðast við offitu barna. En okkur deilir svo sannarlega á um leiðina að því markmiði.

Ég hef litla trú á opinberri neyslustýringu. Í dag höfum við eina hæstu sykurskatta í heimi á gos en hins vegar er neyslan með því mesta sem gerist. Heimsmarkaðsverð á sykri hefur tvöfaldast á undanförnum misserum. En það hefur ekki slegið á neysluna. Þannig að þessi aðferðarfræði Ögmundar er ekki að virka.

Af hverju kostar sódavatnið jafnmikið og kókið? 
Þetta kerfi er sömuleiðis mjög tilviljanakennt og jafnvel galið. T.d. er sykurskattur lagður á sykurlaust tyggjó en enginn sykurskattur er á sæta mjólkurdrykkir sem geta verið uppfyllir af sykri. Og ef neyslustýring er markmiðið, af hverju ekki hafa kolvetniskatt eða skatt á feitt kjöt eða skyndibita o.s.frv.?

kalkúnnmaturÞað er viðurkennt að hátt verð á gosi hefur áhrif til hækkunar á aðra drykki sem eru á sama markaði en eru ekki skattlagðir sérstaklega. Þetta sést t.d. að hálfur lítri af sódavatni kostar svipað og hálfur lítri af kóki þótt sykurskatturinn sé einungis á kókinu. Þannig ef við lækkum verðið á gosinu þá mun verðið á vatninu einnig lækka.

Stutt í forsjárhyggjuna
Ég held að það sé betra að styðjast við fræðslu og forvarnir í þessu máli heldur en boð og bönn og skatta og álögur. Við eigum að treysta fólki en það getur verði ansi stutt hjá VG að telja sig vita betur en aðrir og hafa vit fyrir þjóðinni. Þetta er bæði gamalsdagsviðhorf og þetta virkar ekki.

En Vinstri grænir mega þó eiga það að þeir eru samkvæmir sjálfum sér í þessu máli enda aldrei lagt áherslu á lækkun matvælaverðs á Íslandi.

barbapapaÞað er hins vegar annað en Sjálfstæðisþingmennirnir, sem trúa ekki á neyslustýringu, en kusu samt gegn afnámi vörugjalda í haust og síðan Sjálfstæðisþingmennirnir, sem trúa á neyslustýringu, en kusu samt með lækkun á virðisaukaskatti á svokölluðum óhollum vörum í haust.

Bandamenn Samfylkingarinnar 
En Samfylkingin ætlar áfram að berjast fyrir lækkuðu matvælaverðið á Íslandi. Og hér í þessu máli á Samfylkingin bandamenn eins og Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og hagstofustjórann sem gerði matvælaskýrsluna miklu.

Ég er einnig sannfærður að við eigum öfluga bandamenn á meðal kjósenda sem eru komnir með nóg af því að þurfa greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi.


Hvernig er að vinna á Alþingi?

AlþingishusAlþingi hefur lengi þótt vera furðulegur vinnustaður. Störfin þar eru undir smásjá fjölmiðla og þjóðarinnar. Almenningsálitið er sveiflukennt og lýtur oft svipuðum lögmálum og kenningin um fiðrildið í Kína sem veldur stormi í Kansas. Einnig verður maður fljótt var við það að stór hluti af þessu lífi fyrir marga snýst um að komast í fjölmiðla þann daginn. Líf stjórnmálamannsins ræðst oft í fjölmiðlum og oft er þetta baráttan um mínúturnar fimmtán.

Sveigjanleiki 
Alþingi kemur þó fyrir mínar sjónir sem sveigjanlegur og skemmtilegur vinnustaður þar sem þú ert meira og minna þinn eigin húsbóndi. Þú ræður nokkurn veginn hvað þú gerir og hversu mikið af því. Sumir þingmenn eru nótt sem nýtan dag upp á skrifstofu að vinna að þingmálum, ræðum og greinum á meðan aðrir sjást ekki einu sinni í atkvæðagreiðslum. Alþingisalur

Annars má segja um störf þingsins að þau séu frekar í föstum skorðum en ólíkt mörgum öðrum þjóðþingum þá getur hvaða þingmaður sem er barið í borðið og fengið orðið. Slíkt fyrirkomulag er ekki hjá fjölmennari þjóðþingum, eins og gefur að skilja. Oft þurfa nýjir þingmenn erlendis að sitja nánast allt kjörtímabilið án þess að fá tækifæri til að fara upp í ræðustól.

Þessi réttur íslenskra þingmanna er því sérstakur og mikilvægur. Í 2. og 3. umræðu um hvert lagafrumvarp hefur hver þingmaður ótakmarkaðan ræðutíma sem getur boðið upp ótakmörkuð leiðindi.

Heimsins merkilegasta mál 
Þingmenn gleyma því við og við að venjulegt fólk hefur kannski um margt merkilegra að hugsa en rifrildi í þingsal. Stundum koma mál sem allur þingheimur stendur á öndinni yfir og manni sjálfum finnst það merkilegasta í heimi. Svo kemur í ljós að almenningur hefur e.t.v. engan áhuga á látalætunum.

Fundarformið á Alþingi er þó yfirleitt skemmtilegt og bíður upp á fjörugar umræður. Rétturinn til að veita ,,andsvör" við ræður annarra þingmanna er talsvert notaður en þá hefur maður tvisvar sinnum 2 mínútur til að hjóla í viðkomandi.

Þingmenn tappa af 
Einnig er liðurinn ,,um störf þingsins" eins og hann heitir í þingsköpum talsvert notaður en þá grípa þingmenn orðið áður en gengið er til dagskrár í upphafi dags og ræða um hvaðeina í 2 mínútur í senn og teknar eru max 20 mínútur í alla umræðuna. Þessi liður er alls ekki bundin við störf þingsins eins og mætti halda. Það hefur verið skilningur þingflokka og forseta Alþingis að þessi liður í þingsköpum skuli í raun vera notaður fyrir almennar stjórnmálaumræður. Svona til að tappa af þingmönnum.

Þá eru svokallaðar ,,utandagskrárumræður" talsvert notaður en þá er rætt um fyrirfram ákveðin efni og fá allir flokkar að senda tvo fulltrúa í umræðuna með tveggja mínúta ræðutíma hver.

Þeir fréttapunktar sem birtast iðulega í fjölmiðlum koma venjulega úr slíkum umræðum utandagsskrár eða umræðum um störf þingsins. Og þetta vita þingmenn og nota því þessi úrræði hvað mest.


Allir vilja vinna í banka

peningarÉg er einn af þeim sem skynja bankana sem ótrúlegan spennandi starfsvettvang, ekki það að ég sé á leiðinni úr pólitík al a Árni Magnússon. En ég sé vel hvað bönkunum hefur tekist að fjölgað tækifærum fyrir ungt fólk og það er mjög jákvæð þróun. Hvert samfélag er í samkeppni við önnur samfélög um hæfustu einstaklinga sína og því er mikilvægt að valkostirnir séu einnig hérna heima fyrir ungt menntað fólk.

Ég tók eftir því að margir sem voru með mér í lagadeild Háskólans og viðskipta- og hagfræðideildinni stefndu leynt og ljóst að starfi innan bankanna. Þetta var fólk sem fannst bankarnir vera spennandi starfsvettvangur, sem þeir eru.

Bankarnir eru með vel launuð störf sem fela í sér ótal tækifæri fyrir fólk af öllum aldri. Þessi störf eru ekki lengur einskorðuð við Ísland heldur er starfvettvangurinn heimurinn allur. Hin öfluga útrás er meira og minna leidd af ungu fólki sem hefur gríðarlegan metnað.

Áður fyrr voru möguleikarnir miklu takmarkaðri fyrir fjölmargar stéttir í þessu landi. En bankarnir hafa m.a. gjörbreytt þessu ásamt mörgum öðrum fyrirtækjum, sem eru ekki síst á sviði þekkingariðnaðarins og hátækninnar.


Flip-flop flokkurinn

flip flopÉg ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég sá forsíðu Moggans í morgun. Það var búið að gera Sjálfstæðisfálkann grænan! Fyrst hélt ég að hér væri á ferðinni eitthvað klúður með prentunina. En ó nei, fálkinn var orðinn grænn. Ég man að í síðustu borgarstjórnarkosningum var fálkinn orðinn bleikur. Það er með ólíkindum hvað Sjálfstæðisflokkurinn er mikill flip-flop flokkur ef fólk hefur áhuga á að huga að því.

Blár, svo bleikur og nú grænn 
Hversu trúverðugt er það þegar Sjálfstæðisflokkurinn segist vera orðinn grænn flokkur eftir allt sem er á undan gengið í stóriðjumálunum?

Hversu trúverðugt er það þegar Sjálfstæðisflokkurinn segist vera orðinn bleikur flokkur eftir allt sem er á undan gengið í jafnréttismálum? Má þar nefna ítrekuð brot ráðherra flokksins á jafnréttislögum við stöðuveitingar, 18-4 úrslitin árið 2003 (þ.e. 4 þingkonur og móti 18 körlum), engan árangur í baráttunni gegn kynbundum launamun á valdatímanum samkvæmt þeirra eigin skýrslu o.s.frv.

Segja eitt og gera annað 
Önnur dæmi er tal Sjálfstæðismanna um frelsi í landbúnaðarmálum í gegnum áratuginn en á sama tíma hafa þeir samþykkt 20 milljarða króna sauðfjársamning og 27 milljarða króna mjólkursamning.

Svo má nefna það þegar Sjálfstæðisþingmenn kusu beinlínis gegn tillögum á þinginu um að fella niður öll vörugjöld af matvælum, lækka virðisaukaskatt á lyfjum og hækka frítekjumark eldri borgara þrátt fyrir að þeir hafi iðulega sagt að þeir styðji þessi mál.

Já, Sjálfstæðisflokkurinn er mesti flip-flop flokkur Íslandssögunnar og dæmin sanna það. Þetta er nefnilega ekki bilun í prentuninni heldur í umbrotinu.


Leynivinir þingmanna

gjöf2Allir þingmenn eiga sér leynivin þessa dagana (og þá á ég ekki við hefðbundna fjárhagslega bakhjarla þingmanna). Ég er hér að tala um alvöru leynivin á þingi sem á að gleðja annan þingmann með einhverjum hætti. Það er Samfés sem eru samtök félagsmiðstöðva sem stendur fyrir þessum leik á meðal þingmanna.  Ég hef hins vegar heyrt að sumir þingmenn hafa verið tregir til þátttöku í ljósi þess hvaða leynivin þeim var úthlutað. Svona getur pólitíkin stundum verið.

Leynivinur minn er hins vegar búinn að vera gjöfull. En um daginn kom ég inn á skrifstofu mína og fann fallega innpakkaða rauðvínsflösku. Og í dag mátti ég finna glæsilegan tepoka og einhverja gasalega flotta tegræju í hólfinu mínu í Alþingishúsinu.

En sá sem ég á að gleðja er í háttvirtri landbúnaðarnefnd og í því ljósi ákvað ég að senda á skrifstofu hans rammíslenska osta. Reyndar komst ég áðan að því að þessi leynivinur minn verður erlendis í viku þannig að ostarnir á skrifborðinu hans ættu bara að batna á meðan.

Annars verður tilkynnt um leynivin minn og fleiri þingmanna í Kastljósi í kvöld. Spennan í samfélaginu hlýtur að vera orðin gríðarleg.


Ísland er eina ríkið í Evrópu sem heimilar ekki dómstólum að ...

fangelsiÉg lagði fram á Alþingi í gær splunkunýtt þingmál sem veitir dómstólum heimild til að dæma einstaklinga til samfélagsþjónustu. Mér finnst þetta vera afar stórt og þarft mál enda er Ísland eina ríkið í Evrópu sem heimilar ekki dómstólum að dæma einstakling til samfélagsþjónustu.

Hér á landi er nefnilega stofnun á vegum stjórnvalda, Fangelsismálastofnun, sem fer með þetta úrræði. En það hafa komið hafa fram efasemdir, m.a. frá dómstólaráði, um hvort þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Samfélagsþjónusta er viðurlög í eðli sínu sem á að vera á forræði dómstóla en ekki stjórnvalds. Þetta er því spurning um hvorki meira né minna en sjálfa þrískiptingu ríkisvaldsins.

Hentugt fyrir unga afbrotamenn
En annar kostur við að færa samfélagsþjónustuúrræðið til dómstólanna er að þá gætu þeir dæmt einstakling í vægari úrræði en fangelsi. Þetta hefði því jákvæð áhrif á unga afbrotamenn. Að sama skapi gæti komið til þess að dómstólar dæmi mann til samfélagsþjónustu sem ella hefði fengið skilorðsbundna refsingu. dómari

Dregið úr alvarleika ölvunaraksturs
Þá vil ég einnig benda á að í framkvæmd er samfélagsþjónusta talsvert notuð í óskilorðsbundnum dómum vegna ölvunaraksturs. Það er umhugsunarefni hvort það sé rétt þróun í ljósi þeirra dómvenju að ölvunarakstur orsaki fangelsisdóm. Með því að beita samfélagsþjónustu við ölvunarbroti hefur Fangelsismálastofnun bæði dregið úr varnaðaráhrifum laga og þeim fordæmum sem dómstólar hafa ákveðið þegar kemur að ölvunarakstri. Slíkt á að vera á forræði dómstóla en ekki stjórnvalds.

Flýgur í gegn?
Að lokum upplýsi ég lesendur mína að samfélagsþjónusta felur í sér tímabundið ólaunað starf í þágu samfélagsins, svo sem líknar- eða félagsstarf.  Síðan samfélagsþjónusta hófst hér á landi árið 1995 hafa um 1.700 manns gegnt samfélagsþjónustu.

Og eins og öll mál frá stjórnarandstöðunni þá á ég að sjálfsögðu von á að þetta mál fljúgi í gegnum þingið.


Á ég að gæta bróður míns?

AlthingishusEinstök samstaða hefur myndast á milli allra stjórnamálaflokka á Íslandi. Það er mjög sjaldgæft að allir þingflokkar landsins taki sig saman og álykti sameiginlega. Það gerðist hins vegar í morgun þegar þingflokkarnir ákváðu að senda frá sér sameiginlega ályktun gegn klámráðstefnunni. Og nú er komið á daginn að búið er að blása af ráðstefnuna og er það vel.

Auðvitað á okkur ekki að vera sama ef klámframleiðendur ætla að koma til landsins til að ræða viðskiptatækifæri sín á milli. Klám er ólöglegt á Íslandi og allt sæmilega upplýst fólk veit af eymdinni og kúgunni sem er á bak við klámiðnaðinn.

Það er lífseig þjóðsaga að telja að fólk sé í klámi og jafnvel í vændi af fúsum og frjálsum vilja. Og um það snýst þetta, að ráðast gegn misnotkun á fólk og eymd þess. Þess vegna létu allir stjórnmálaflokkar landsins í sér heyra um málið. Við erum í stjórnmálum til að gæta bræður okkar og systur.

Það væri óskandi að fleiri mál gætu uppskorið jafn þverpólitíska samstöðu og þetta mál.


"Framsæknasti flokkur á Íslandi í dag"

samfylkingasólNú liggur fyrir hverjir verða í framboði fyrir minn blessaða flokk í borginni. Listarnir voru kynntir í gærkvöldi og flugu þeir í gegn athugasemdalaust á fundinum. Það er sérstaklega gaman að sjá hversu mikið af ungu fólki er á listanum. Samfylkingin hefur alltaf treyst ungu fólki vel og hin öfluga ungliðahreyfing flokksins, Ungir jafnaðarmenn með formann sinn Magnús Má Guðmundsson í broddi fylkingar, á fjölmarga fulltrúa á listanum.

Sömuleiðis er ánægjulegt að sjá hvað atvinnulífið á marga fulltrúa á listanum. Má þar nefna Reyni Harðarson, stofnanda CCP og frumkvöðull, en þessi stofnandi Framtíðarlandsins og fyrrverandi Sjálfstæðismaður, sagði nýverið að Samfylkingin væri framsæknasti flokkurinn á Íslandi í dag. Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og formaður kvenna í atvinnurekstri, er þarna sömuleiðis og G. Ágúst Pétursson, viðskiptaráðgjafi, Rúnar Geirmundsson, framkvæmdastjóri, Helga Rakel Guðrúnardóttir, stjórnarformaður og margir fleiri.

Menningin á sína málsvara á listanum. Sólveig Arnarsdóttir, leikkona, Ragnheiður Gröndal, söngkona, Lárus Ýmir Óskarsson, leikstjóri, Halldór Guðmundsson, rithöfundur o.s.frv.

Meira að segja er Forseti Alþýðusambands Íslands á listanum enda iðulega ágætur samhljómur milli Samfylkingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar. Þetta er því breiður og góður listi þar sem jafnræði ríkir á milli kynja,  kynslóða og starfsstétta.

Nú er bara að hefja baráttuna á fullu og taka stjórnina þann 12. maí svo fólk geti farið að búa í bæði betra og ódýrara Íslandi.


Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband