Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Klám, Guðni, evran og Halifax

SamkeppniJæja, nú er ég búinn að vera á Moggablogginu í eina viku og líkar vel. Um 2.700 heimsóknir hafa verið á þessu tímabili og ég mjakast hægt og rólega upp hinn sívinsæla vinsældalista. Annars finnst mér nokkuð gaman að blogga enda setur maður sig í allt aðrar stellingar við það en þegar grein eða ræða er skrifuð. Ég reyni að setja inn 2 færslur á dag en það verður bara að koma í ljós hvort það helst til lengdar.

Viðfangsefnið á þessum fyrstu dögum hefur verið fjölbreytilegt og má þar nefna Breiðavíkurmálið, þingmannstarfið, Guðni Ágústsson, klámið, skattar, kostnaður við barnsfæðingar, evran, West Wing og síðast en ekki síst Halifax en í þeim pistli móðgaði ég víst einhverja.

En ég vil allavega þakka þeim sem hingað hafa ratað og sérstaklega þakka þeim sem hafa fyrir því að kvitta fyrir sig í athugasemdakerfinu.


Næst samstaða allra flokka í dag gegn klámráðstefnunni?

StjornarskraÉg tók þátt í pallborði í morgun um kynbundið ofbeldi. Fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna voru þarna og vorum við spurð spjörunum úr. Meðal spurninga var hvort við myndum beita okkur í þingflokkum okkar fyrir svipaðri ályktun og borgarstjórn samþykkti einróma í gær um fordæmingu á klámráðstefnunni. Allir fulltrúar flokkanna svöruðu þessari spurningu játandi í morgun.

Í dag kl. 16 eru haldnir þingflokksfundir hjá öllum flokkunum og það er vonandi að þingflokkarnir geti sammælst um ályktun gegn þessari ráðstefnu. Það væru heilmiklar fréttir ef það tækist. En þar sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins var einn fulltrúanna sem svaraði játandi í morgun er ég bjartsýnn að eitthvað verði úr þessu.

Annars var þetta fjölmenn og góð ráðstefna en það er ljóst að heilmargt þarf að gera í þessum málaflokki. En ég hef hins vegar tekið eftir því að sumum í samfélaginu finnst þessi umræða ekki nógu merkileg fyrir pólitíkina og tala um tilfinningaklám og þess háttar. Slíkt lið er gjörsamlega firrt ef það telur að baráttan fyrir lagabreytingum gegn kynbundnu ofbeldi eigi ekki erindi í pólitík. Stjórnmál eiga einmitt að snúast um þetta því hagsmunirnir gerast ekki stærri.


Kosningabarátta sem segir sex

sjonvarpÞað er einn sjónvarpsþáttur sem hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér.

Þetta er kannski ekki sérlega frumlegt val hjá mér, verandi stjórnmálamaður maður sjálfur, en minn uppáhalds sjónvarpssþáttur er The West Wing eða Vesturálman eins hann heitir upp á ástkæra ylhýra.

Eins og flestir lesendur sjálfsagt vita þá eru þetta dramaþættir um bandarísk stjórnmál. Og það er jafnan mikill hasar hjá mínum mönnum í USA. Reyndar verð ég að viðurkenna að sumt fer fyrir ofan garð og neðan hjá mér sem gerist í þessum þáttum. Sögupersónurnar eru allar svo klárar og orðheppnar að það talar helst ofan í hvert annað og iðulega í hálfkveðnum vísum. En þetta heldur manni engu að síður föstum og það er gaman að þykjast skilja hugarheim bandarískra spindoktora og harðsvíruðu lobbyhópanna sem þar ráða ríkjum.

Ég hef tekið eftir því að þegar ég tek ástfóstri við eitthvert sjónvarpsefni þá finnst mér best að horfa á nokkra þætti í röð. Má segja að maður leggist á beit.

Eftir að ég lauk við sjöttu seríu Vesturálmunnar í síðustu viku hef ég nú með harðfylgi náð að redda mér sjöundu seríu. Þannig að nú sitjum við hjónin upp í sófa kvöld eftir kvöld og horfum á lokaævintýri Josiah Bartlet og félaga í Hvíta húsinu. Spennan er mikil og iðulega er bætt við einum þætti til viðbótar, allt þar til svefntíminn hefur orðið fyrir svo óafturkræfri skerðingu að næsti dagur verður með eindæmum erfiður. Það er líka enginn miskunn með að vakna á morgnanna. Hér á Framnesveginum er maður vakinn stundvíslega kl. 6:14 af lítilli rauðhærðri hnátu sem er alveg slétt sama um kosningabaráttu þá, sem persónurnar sem leiknar eru af Alan Alda og Jimmy Smits, há á kvöldin á sjónvarpsskjánum.


Hvernig fer nefndarstarf Alþingis fram?

AlthingishusIðulega heyrist í umræðunni að stór hluti af vinnu þingmannsins fari fram í nefndum þingsins. En hvernig fer nefndarstarf Alþingis eiginleg fram? Hér á eftir má lesa mína upplifun á þessu starfi.

Til að byrja með er rétt að benda á að flestar nefndir funda einu sinni í viku, tvo klukkutíma í senn. Stuttu fyrir þinghlé, fyrir jól eða fyrir vorið, raskast þetta þó og nefndir funda þá eftir þörfum. Fjárlaganefndin er nokkuð sérstök þar sem hún fundar daglega allt haustið en síðan tekur hún það frekar rólega eftir jól þegar fjárlögin hafa verið samþykkt.

Ruslakista þingnefnda
Auðvitað er mismikið að gera í nefndunum. Sumar nefndir funda nánast aldrei en aðrar nýta fundartíma sína til hins ítrasta. Þær nefndir sem ég er í, efnahags- og viðskiptanefnd og allsherjarnefnd, eru frekar duglegar að funda enda spanna þær mjög vítt svið. Reyndar er allsherjarnefndin nokkurs konar ruslakista sem fær öll þau mál sem passa ekki í neinar af hinum nefndunum. Má hér nefna eftirlaunafrumvarpið og fjölmiðlafrumvarpið. Í þessum tveimur málum var mikið um kvöldfundi eins og gefur að skilja.

skjaldamerkiVinnulagið er venjulega þannig að eftir að ráðherra hefur mælt fyrir málinu í þingsal fer það til viðkomandi nefndar. Þar er málið sent til umsagnar til helstu hagsmunaaðila sem senda inn skriflegar athugasemdir við þingmálið. Síðan eru hagsmunaaðilarnir kallaðir á fund nefndarinnar þar sem þeir fara munnlega yfir sínar umsagnir. Oft má sjá að viðkomandi hagsmunaaðili er að farast af stressi við að koma á fund þingnefndar, sem er kannski skiljanlegt til að byrja með. 

Galdurinn á bak við breytingartillögu 
Ég hef séð að það getur skipt sköpum að viðkomandi hagsmunaðili geri sína umsögn vel og á sannfærandi hátt. Sumir hagsmunaaðilar eru þannig að það er alltaf hægt að treysta á mjög vönduð vinnubrögð en aðrir eru alveg út að aka. Auðvitað eykur það líkurnar á að frumvarpið breytist í takt við vilja viðkomandi hagsmunaaðila ef röksemdirnar eru settar fram á sannfærandi máta, talandi ekki um ef umsögnin inniheldur konkret breytingartillögur sem uppfyllz lagatæknilegar kröfur. Þannig að vel gerð umsögn getur verið gullsígildi fyrir viðkomandi lobbyhóp.

Flestir þingmenn eru í fleiri en einni nefnd. Reglan hjá Samfylkingunni er að hver þingmaður er í 2 nefndum en þingmenn Framsóknarflokks og hinna stjórnarandstöðuflokkanna eru fleiri nefndum þar sem þeir eru svo fáir.

Tryggð við frumvarps-babyið 
Andrúmsloftið innan nefndanna getur verið afskaplega afslappað og þar ræða þingmenn af hreinskilni sín á milli. Reyndar verður maður fljótt vart við ákveðið tregðulögmál hjá stjórnarþingmönnum, og kannski sérstaklega hjá embættismönnum sem iðulega hafa samið frumvarpið, þegar kemur að hugsanlegum breytingum. Það er eins og stjórnarþingmenn leggi ekki í miklar breytingar á frumvarpi sem ráðherrann vill sjá að fari í gegn. Þetta er hluti af þessu ráðherraræði sem við búum við.

Annars er nefndarstarfið skemmtilegur hluti af þingstarfinu þótt það sé ekki stærsti hluti þess eins og blasir við.


Draumur Guðna

HROSSÞað var upplýsandi að heyra Guðna Ágústsson segja í kvöldfréttum að vegaáætlun Alþingis væri “draumur inn í framtíðina” þegar hann var að réttlæta svikin kosningaloforð í samgöngumálum. Ég held að landbúnaðarráðherrann hafi einmitt hitt naglann á höfuðið með þessu orðalagi. Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar á nefnilega ósköp lítið skylt við raunveruleikann.

Kannski er þetta augljóst þegar sést að samkvæmt samgönguáætlun á að verja 380 milljörðum kr. á 12 árum. Bara á næsta ári á að verja 32 milljörðum kr. í vegamál en það er hærri upphæð heldur en það sem Landsspítalinn kostar og svipuð þeirri sem við verjum í verkefni félagsmálaráðuneytisins.

Það hefur lengi verið bent á að samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst samansafn af sviknum og margnýttum kosningaloforðum. Þetta eru sömu vegaspottarnir og sömu undirskriftirnar ár eftir ár. Má þar nefna Suðurstrandarveg í því sambandi en það er framkvæmdin sem Guðni var beðinn að útskýra þegar hann áttaði sig á því að kosningaloforð ríkisstjórnarinnar væri bara draumur. Kannski vaknar Guðni þann 13. maí sem áheyrnarfulltrúi í landbúnaðarnefnd Alþingis?


Gray power

Eldri borgarar teiknimyndStundum snúast stjórnmál um það sem þau eiga í raun og veru að snúast um. En það gerist ekki nógu oft. Stjórnmál eiga nefnilega að snúast um fólk. En ekki endilega um hvaða fólk sem er heldur fyrst og fremst um það fólk sem brotið er á með einhverjum hætti eða hefur verið skilið eftir í samfélaginu. Einn af þessum hópum eru eldri borgarar. Ég verð alltaf jafnhissa á sinnuleysi stjórnvalda á málefnum þessa fólks. Aðgerðir í þágu gamla fólksins eru bæði réttar og skynsamlegar fyrir alla aðila, líka fyrir stjórnmálamennina. 

Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa undir fátæktarmörkum. Þriðji hver! Þetta er ekki lítill hópur. Þá berast ítrekað fréttir af eldri hjónum sem hafa verið aðskilin vegna skorts á búsetuúrræðum. Maður kemst ekki hjá því að verða nokkuð reiður að heyra af slíku.

Samfylkingin hefur alltaf sett málefni eldri borgara á oddinn. Fyrsta þingmálið okkar í haust og fyrri ár hefur iðulega verið um kjaraaukningu fyrir eldra fólkið í landinu. Þessi mál okkar eru hins vegar ætíð svæfð í nefndum eða beinlínis kosið gegn þeim.

Þessa dagana heldur Samfylkingin fjölmargra baráttufundi um allt land um málefni eldri borgara. Þar kynnum við okkar áherslur í þessum mikilvæga málaflokki. Þetta er atriði sem munu stórbæta kjör flestra eldri borgara. Má þar nefna stórfellda skattalækkun á lífeyrissjóðsþega, 100.000 kr. frítekjumark fyrir bæði atvinnu- og lífeyristekjur, hækkun lífeyris og stórátak í búsetumálum þessa hóps.

Það er kominn tími á eitthvað gerist í þessum málaflokki. En á meðan áhugi allra hinna stjórnmálaflokkanna á þingi einskorðast frekar við sauðfé þessa dagana er borin von að eitthvað gerist nema Samfylkingin komist til valda.


Mörg Breiðavíkurmál

sólseturÁ föstudaginn fór ég á minn hefðbundna fund hjá Rótarýklúbbi Seltjarnarness. Fundurinn er kannski ekki svo hefðbundinn hjá mér þar sem ég hef ekki verið allt of duglegur að mæta þrátt fyrir mætingaskyldu. Siv Friðleifsdóttir er líka í þessum sama klúbbi en þar sem hún hefur iðulega rúmlega 100% mætingu gengur afsökun mín um pólitískar annir ekki alveg upp.

Þegar ég var tekinn í klúbbinn fyrir um tveimur árum var mér sagt að ég væri einn yngsti félaginn á landinu. Og það var nokkuð sérkennilegt til að byrja með að fara að stunda fundi sem foreldrar vina minna af Nesinu sækja aðallega. En félagsskapurinn er skemmtilegur og svo sjá félagar um að útvega gesti á fundinn sem halda erindi á fundunum.

Og á föstudaginn var komið að mér að útvega ræðumann. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, var svo almennilegur að taka þetta að sér fyrir mig. Hann talaði um um Breiðavíkurmálið. Mjög sláandi var að heyra Braga lýsa ástandinu og tíðarandanum. Að sama skapi var það mjög sjokkerandi að heyra Braga fullyrða að Breiðavíkurheimilið hafi einungis verið eitt af mörgum heimilum þar sem ofbeldi af einhverju tagi viðgekkst.

Bragi og einn félagi í klúbbnum sögðu meðal annars frá því að þeir hefðu átt ættingja á Breiðavíkurheimilinu sem síðan frömdu sjálfsvíg. Það er því ljóst að margir eiga enn um sárt að binda eftir dvölina þar eða eftir að hafa átt ættingja sem þarna voru vistaðir.


Ný skoðun tveimur mánuðum síðar

kosningakassiNú segir Valgerður Sverrisdóttir að hún vilji afnema vörugjöld af öllum matvælum. Þetta er svolítið sérkennileg yfirlýsing, sérstaklega í ljósi þess að varla eru liðnir tveir mánuðir síðan hún felldi slíka tillögu á Alþingi. Samfylkingin lagði, einn stjórnmálaflokka, fram tillögu um að fella niður öll vörugjöld af matvælum en ekki skilja eftir meirihluta vörugjaldanna eins og ríkisstjórnarflokkarnir gerðu.

Hver einasti Framsóknarmaður og hver einasti Sjálfstæðismaður á Alþingi (líka þeir sem hafa sagt að þeir vilji afnema vörugjöld eins og P. Blöndal og fleiri skoðanabræður hans í yngri kantinum) hikaði ekki við að fella þessa tillögu sem nánast allir hagsmunaðilar, s.s. Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Félag stórkaupmanna, Samtök atvinnulífsins, studdu.

En nú er víst komið annað hljóð í strokkinn, þótt einungis tveir mánuðir eru liðnir síðan þetta fólk sýndi viljann sinn í verki á Alþingi. Heldur þetta lið að kjósendur átti sig ekki á svona tvískinnungi og tækifærimennsku?


Hvað er málið með Halifax?

jordinHvað er málið með Halifax? Á hverju einasta vori fer Icelandair mikinn og auglýsir ferðir sínar. Þar efst á blaði blasir ætíð við ferð til Halifax. Lagst er í talsverða auglýsingaherferð um að nú þurfi landinn að skella sér til Halifax. En hvað er málið með Halifax? Og hverjir fara eiginlega til Halifax? En í raun og veru er stóra spurningin í þessu sambandi, af hverju er fólk að fara til Halifax?

"Elskan, ég er búinn að kaupa ferð til útlanda. Það er Halifax."


Hversu margir eru í tíu prósenti?

nullFátæktarumræðan er Sjálfstæðisflokknum mjög erfið enda á hún að vera þeim flokki erfið. Hún var það einnig fyrir 4 árum, sérstaklega þegar niðurstöður Hörpu Njáls, komust í umræðuna. Nýlega kom út skýrsla forsætisráðherra um fátækt meðal íslenskra barna. Niðurstaðan var 5.000 fátæk börn. Hagstofan gaf einnig út fyrir stuttu samantekt sem sýndi að 10% þjóðinni lifir undir lágmarks framfærlumörkum.

Sumir Sjálfstæðismenn hafa hins vegar talað um þessi 10% eins og þau sé eitthvað jákvætt og þetta sé nú ekki svo mikið o.s.frv. En hvað þýðir að 10% af þjóðinni lifir undir fátæktarmörkum? Það þýðir að 30.000 Íslendingar lifa undir fátæktarmörkum. Þessar tölur eru hreint út sagt ótrúlegar hjá 6. ríkustu þjóð í heimi. 

Ríkisstjórnarflokkarnir beita óspart prósentum þegar þeir vilja fegra eitthvað. Þetta nota þeir hvort sem litið er til skattamála, verðlags, lífeyris, og nú til fátæktar. Það vill gleymast að fólk lifir á krónum en ekki prósentum. Og að bak við hvert prósentustig er venjulegt fólk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband