Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.8.2007 | 10:58
Þegar þér dettur ekkert í hug að blogga um
Þegar ekki fer mikið fyrir góðum hugmyndum að bloggi þá er alltaf traust að blogga um veðrið (reyndar má einnig blogga um sérhverja fréttafærslu á mbl.is sem er víst líklegt til vinsælda eins og dæmið sannar). En veðrið er alltaf vinsælt umræðuefni.
Ég var annars að pæla í því að það er eins og veðurguðirnir hafi verið stilltir inn á þá lífseigu skoðun Íslendinga að eftir verslunarmannahelgina sé sumarið búið og haustið hafið. Reyndar sér maður nokkrar örvæntingarfullar tilraunir sumra félaga manns sem neita að horfast í augun við veruleikann og finnst það vera helber dónaskapur að kveða sumarið í kútinn með þessum hætti.
Mér er allavega búið að vera ískalt síðustu daga en það er kannski leið hinnar íslensku náttúru til að láta landann skipta um gír og fara að vinna á ný.
9.8.2007 | 11:48
Hvenær ertu tilbúinn að eyða helmingi meira?
Ég get tekið undir að mér finnst þessi framtíðarsýn um peningalaust hagkerfi spennandi. Íslenskt samfélag hefur allt að bera til að verða slíkt samféleg. Reyndar sá ég um daginn að samkvæmt bandarískum rannsóknum er neytandinn tilbúinn að kaupa fyrir allt að helmingi hærri upphæð notist hann við kreditkort frekar en peninga.
Þetta rímar ágætlega við besta sparnaðarráðið sem ég hef séð, en fer ekki sjálfur eftir frekar en íslenska þjóðin, en það er að nota frekar peninga en kort. Þetta varpar kannski einhverju ljósi á skuldastöðu íslenskra heimila en eins og alþjóð veit þá erum við ein skuldugasta þjóð í heimi.
Peningalaust hagkerfi eftir 15 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2007 | 12:45
Að vilja sigra, keppa og skapa
Mér finnst margt merkilegt við hagfræðikenningar Austurríkismannsins, Joseph A. Schumpeter (1883-1950). Hugmyndir Schumpeter fólust fyrst og fremst í mikilvægi frumkvöðla og tækniframfara fyrir hið lifandi hagkerfi. Einnig lagði Schumpeter áherslu á nýjar leiðir í hagkerfinu og endurnýjun viðskiptahátta og atvinnugreina. Kenningar Schumpeter urðu fyrst þekktar meðal almennings þegar þær voru settar í samhengi við hið svokallaða nýja hagkerfi.
Skapandi niðurbrot
Hjá Schumpeter er frumkvöðullinn lykilmaður í þróun efnahagslífisins. Frumkvöðullinn stuðlar að ójafnvægi sem felst í breytingum í hagkerfinu. Í raun hafnaði Schumpeter hugmyndinni um jafnvægi hagkerfisins, þess í stað talaði hann um síbreytilegt ójafnvægi (dynamic disequilibrium). Hann taldi að frumkvöðlar stæðu fyrir nýjungum sem leystu út svokallaða skapandi niðurbrot (creative destruction) sem þvingaði aðila markaðarins til að aðlagast eða deyja út.
Skapandi niðurbrot er hugtak sem Schumpeter bjó til og með því er átt þá orku sem lætur kapítalismann eða markaðsbúskapinn hreyfast áfram. Sá sem knýr orkuna áfram er frumkvöðullinn. Schumpeter taldi að frumkvöðull ætti draum og hefði vilja til að finna sitt eigið konungsdæmi og hefði vilja til að sigra, keppa og skapa.
Kyrrstæður kapítalismi er þversögn
Schumpeter taldi að ferli skapandi niðurbrots breytti hagkerfinu innan frá og braut eldri skipan hagkerfisins niður með nýrri. Hann bætti því við að ferlið myndi valda vexti í efnahagslífinu, enda væri kyrrstæður kapítalisimi þversögn í sjálfum sér.
Schumpeter fjallaði einnig um áhrif skattalaga og ríkisútgjalda á hegðun einstaklinga. Hann skoðaði hvort skattlagning hefði áhrif á framfarir í efnahagslífinu og hvata einstakinga. Hann vissi að skattar geta haft letjandi áhrif á einstaklinga og vildi því lága skatta til að efla frumkvöðlahegðun. Sveigjanleiki á vinnumarkaði er nauðsynlegur og frumkvöðlar og fjárfestar þurfa að vera reiðbúnir að taka áhættu í því umhverfi sem yfirvöld skapa.
Nýja hagkerfið
Þegar rætt er um nýja hagkerfið er Joseph Schumpeter oft nefndur. Áherslur Schumpeter virðast eiga merkilega vel við þá þróun sem hefur orðið undanfarin 15 ár. Nýja hagkerfið er fráhvarf frá iðnaðarsamfélaginu til upplýsingarsamfélagsins. Þar er frumkvæði oft á tíðum verðmætara en reynsla, og upplýsingar eru verðmætari en peningar.
Þetta á mjög vel við hugmyndir Schumpeter sem taldi nýjungagirni frumkvöðla mikilvægasta aflið í hagkerfinu. Hann taldi það mun mikilvægara að fá góða viðskiptahugmynd heldur en að hafa mikið vinnuafl, land eða fjármagn og hann brýndi fyrir mönnum að þeir ættu að leggja fé í rannsóknir og þróun til að stuðla að tækniframförum.
3.8.2007 | 10:17
Hver verður mannréttindabarátta framtíðarinnar?
Friðhelgi einkalífs og persónuvernd eru ein mikilvægustu réttindi sem hægt er að hugsa sér. Auðvitað eru ýmis önnur réttindi einnig afar mikilvæg s.s. rétturinn til öruggs samfélags. Oft takast sjónarmiðin að baki þessara réttinda á. Hér fyrir neðan má finna grein eftir mig sem birtist í nýútkomnu afmælisriti Persónuverndar en nú eru 25 ár liðin síðan fyrsta löggjöfin um meðferð persónuupplýsinga var sett.:
"Mannréttindaumræða framtíðarinnar mun að verulegu leyti snúast um persónuréttindi og friðhelgi einkalífsins. Tæknin mun enn frekar auðvelda yfirvöldum, einstaklingum og fyrirtækjum að fylgjast með borgurunum. Frekari skráning á háttsemi og rafræn slóð hegðunar gerir enn meira eftirlit en nú er reyndin að möguleika.
Mörgum grundvallarspurningum þarf að svara í þessu sambandi og því má halda fram með rökum að þungamiðjan liggi í því hvar mörkin milli persónuréttinda annars vegar og hins vegar aukins eftirlits, betri verndar eða jafnvel betri þjónustu eigi að vera. Því sannarlega fylgja aukinni tækni ekki aðeins hættur heldur einnig mikil tækifæri.
Viðskiptalífið virðist vera orðið meðvitað um tækifærin sem í tækninni felast. Kaup á vörum á Netinu gera fyrirtækjum kleift að skrá kaup neytenda með markvissum hætti og markaðssetja aðrar vörur gagnvart viðkomandi kaupanda. Það getur verið hentugt fyrir neytendur að þiggja sértækar upplýsingar um vörur sem eru á þeirra áhugasviði. Önnur hlið á skráningum sem þessum er svo sú staðreynd að fyrirtæki eru sum hver farin að fylgjast með starfsfólki og jafnvel vakta það með aðstoð tækninnar.
Þegar óttinn tekur völdin
Í þessu felast hins vegar ekki einungis tækifæri fyrir fyrirtæki og atvinnulíf heldur einnig stjórnvöld. Eftir árásina á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 hafa fjölmörg vestræn ríki tekið verulega varhugaverð skref sem þrengja með einum eða öðrum hætti að persónuréttindum þegna sinna.
Það virðist enda vera svo að stuðningur við mannréttindi minnki mjög þegar að óttinn tekur völdin og stjórnvöld hafa mörg hver þrengt að mannréttindum borgaranna með stuðningi og samþykki almennings. Aðgerðir sem þessar eru ætíð réttlættar með tilvísun í almannahagsmuni.
Hryðjuverkaógnin og hættan af skipulagðri glæpastarfsemi er nánast undantekningarlaust sögð gera að verkum að nauðsynlegt hafi verið að þrengja að rétti borgaranna.
Sagan sýnir að ríki hafa alltaf brotið rétt á þegnum sínum með þessum réttlætingum og oft á tíðum hefur því fylgt góður hugur. Í því felst ekki síst hættan, að það er ekki svo að unnt sé að halda því fram að stjórnvöldum gangi illt til í öllum tilvikum. Nálgunin er jafnvel á þá leið að í reynd sé verið að auka mannréttindi fólks með því að stuðla að betra öryggi þeirra.
Hvað hafa íslensk stjórnvöld gert?
Íslensk stjórnvöld eru vissulega engin undantekning í þessu sambandi og nýleg dæmi benda til þess að umræðan um hryðjuverkaógn hefur haft nokkur áhrif hér á landi. Full ástæða er til að vera meðvitaður um það við hvaða aðstæður stjórnvöldum hættir til að veitast að mannréttindum þegnanna og aftur er ástæða til að árétta að oft á tíðum er það gert af góðum hug.
Greiningardeild lögreglu rannsakar áður en afbrot er framið
Stjórnvöld settu nýlega á fót svokallaða greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Þessi greiningardeild á m.a. að rannsaka afbrot áður en þau eru framin með svokölluðu áhættumati og forvarnarvinnu. Þegar málið var til umræðu hjá Alþingi fengust litlar upplýsingar um það hvernig slík vinna ætti að fara fram og eftir hvaða aðferðarfræði hin nýja deild myndi starfa.
Í frumvarpinu með áðurnefndum lagabreytingum voru einnig boðaðar auknar heimildir til handa lögreglu til að sinna þessari vinnu og sagði m.a: ,,Lagaákvæði um greiningardeild tryggja að þannig sé um hnúta búið hér að þeir sem falið er að gæta öryggis borgaranna hafi sambærilegar lögheimildir og starfsbræður þeirra erlendis til að sinna störfum sínum.
Eftir stendur hins vegar að ekki hefur reynst unnt að fá svör við því hvers konar heimildar eru boðaðar eða til hvaða erlendra starfsbræðra er vísað. Það eru vitaskuld grundvallarspurningar sem snerta mikilsverða hagsmuni á borð við persónuréttindi og friðhelgi einkalífs.
Falun Gong
Fleiri dæmi má nefna sem lúta að þessu umfjöllunarefni. Stjórnvöld gengu að mati margra alltof langt á réttindi borgaranna þegar félagsmenn í Falun Gong ætluðu að koma til landsins. Margvíslegar takmarkanir voru settar á ferða- og fundafrelsi einstaklinga.
Aðgerðir stjórnvalda voru allar réttlættar með tilvísun í almannahagsmuni en forsendur þess verða að teljast hæpnar í því tilviki.
Frumvarp um símhleranir án dómsúrskurðar
Lagt var fram frumvarp sem fól í sér heimildir til símhlerana án dómsúrskurðar en efast má um að slíkar heimildir samrýmist þeim hugmyndum sem liggja að baki friðhelgi einkalífs og öðrum persónuréttindum.
Frumvarpið var hins vegar ekki samþykkt en því var m.a. haldið fram að samþykkt þess myndi stuðla að betri árangri í baráttunni við glæpastarfsemi.
Afhending IP-tölu án dómsúrskurðar
Stjórnvöldum hafa hins vegar farið þá leið að heimila afhendingu á á svokölluðum IP-tölu úr tölvum án þess að fyrir liggi dómsúrskurður. IP-tala þjónar þeim tilgangi að segja til um staðsetningu tölvu.
Áður hafði dómsúrskurður verið forsenda þess að unnt var að fá slíkar upplýsingar afhentar.
Skerðingar í útlendingalögunum
Nýlegar breytingar á útlendingalögum hafa einnig vakið upp spurningar um persónuréttindi einstaklinga.
Má þar nefna hinar svokölluðu 24 ára reglu og 66 ára reglu en þessar reglur koma í veg fyrir að fjölskyldumeðlimir sem eru á tilteknum aldri geti sameinast á grundvelli hjúskapar- eða fjölskyldutengsla.
Eftirlit með stjórnvöldum mikilvægt
Í þessu sambandi mæðir vitaskuld mjög á þá aðila sem bærir eru til þess að fylgjast með aðgerðum stjórnvalda.
Persónuvernd hefur ítrekað gert athugasemdir við frumvörp sem koma frá stjórnvöldum. Póst- og fjarskiptastofnun ákvað að gefa út leiðbeinandi reglur um þær ráðstafanir sem hún telur eðlilegt að fjarskiptafyrirtækin geri til að tryggja öryggi upplýsinga og þjónustu í almennum fjarskiptanetum.
Er þetta gert með vísan til þessa lögboðna hlutverks stofnunarinnar að gæta hagsmuna almennings, með því að vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs og tryggja að heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið.
Ástæða til að staldra við
Það er mínu mati ástæða til að staldra við, enda er afar mikilvægt að stjórnvöld, fyrirtæki og viðskiptalíf, sem og almennir borgarar, séu meðvitaðir um mikilvægi þeirra réttinda sem eru í húfi.
Á hvaða leið eru íslensk stjórnvöld í þessum efnum? Friðhelgi einkalífs er meðal mikilvægustu grundvallarmannréttinda.
Við megum ekki skilyrðislaust samþykkja skerðingu á mannréttindum, þó að þær röksemdir sem liggi til grundvallar skerðingu þeirra kunni að hljóma sannfærandi. Óttinn er ekki góður vegvísir í þessum efnum, frekar en öðrum. Frelsið fer sjaldnast í einu vetfangi heldur skerðist það hægt.
Það er hárfín lína á milli aukinnar verndar annars vegar og hins vegar skerðingar á persónufrelsi. Og mannréttindabarátta framtíðar mun sennilega verða háð um það hvar réttlætanlegt er að draga mörkin í því sambandi. "
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2007 | 10:19
Stærri en Adidas og Carlsberg
Í gær var ríkissjónvarpið með frétt um sterka stöðu fjármálafyrirtækjanna hér á landi. Af því tilefni endurbirti ég hér grein sem ég birti í Blaðinu á þriðjudaginn einmitt um þetta efni. Í þessari grein (og í annarri svipaðri sem ég birti í Mogganum fyrir nokkrum vikum) hafði ég m.a. ályktað að starfsmenn fjármálafyrirtækja væru orðnir fleiri en starfsmenn sjávarútvegsins. Það held ég að verði að teljast vera allnokkur tíðindi. En hér fyrir neðan má allavega finna greinina.
Sterk staða fjármálafyrirtækjanna
Nýlegar fréttir af hagnaði fjármálafyrirtækja eru áhugaverðar fyrir margra hluta sakir. Hagnaðurinn er slíkur að erfitt er að fanga tölurnar. Þannig var hagnaður Kaupþings á fyrri hluta þessa árs um 47 milljarðar króna en til samanburðar mætti nefna að kostnaður við að reka Landspítalann er um 32 milljarðar og um 12 milljarða kostar að reka alla framhaldsskóla landsins á ári.
Stærri en Adidas og Carlsberg
Kaupþing er orðið stærra fyrirtæki heldur en heimsþekkt fyrirtæki á borð við íþróttaframleiðandinn Adidas og bjórframleiðandann Carlsberg. Þrír stærstu bankarnir hér á landi, Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn eru allir á lista yfir 1.200 stærstu fyrirtæki heims.
Ég hef leyft mér að álykta að Ísland hafi eignast nýja undirstöðuatvinnugrein sem er fjármálageirinn. Hlutdeild fjármálafyrirtækja til landsframleiðslu, þ.e. verðmætasköpunarinnar, nam um 9,3% á síðsasta ári sem er t.d. talsvert meira en hlutdeild sjávarútvegsins sem nam um 5,9% sama ár. Samanburðurinn sýnir glögglega að fjármálageirinn er íslensku þjóðinni afar mikilvægur.
Þetta er hæsta hlutfall á Norðurlöndunum og er hlutdeild íslenska fjármálageirans að nálgast sum sterkustu fjármálaríki heims, eins og Bandaríkin og Bretland.
Auknar skatttekjur afleiðing af velgengi bankanna
Í fyrsta skipti í Íslandssögunni vinna líklega fleiri núna í fjármálageiranum en í sjávarútvegi eða um 8.000 manns. Þetta eru störf sem langflest voru ekki til í íslensku atvinnulífi fyrir örfáum árum síðan.
Það er margt jákvætt samfara þessari miklu uppbyggingu íslensks fjármálalífs. Skatttekjur hins opinbera aukast með vaxandi stærð og hagnaði þessara fyrirtækja og þannig er unnt að styrkja mennta- og velferðarkerfið sem því nemur.
Uppbygging fjármálageirans hefur einnig leitt af sér að starfsmöguleikar Íslendinga hafa gjörbreyst og tækifærum ungs menntafólks til að starfa innanlands fjölgað allnokkuð.
Fjölbreytilegri atvinnumarkaður
Bankarnir bjóða upp á störf sem fela í sér ótal tækifæri fyrir almenning og þessi störf eru ekki lengur einskorðuð við Ísland heldur er starfvettvangurinn heimurinn allur.
Bankarnir hafa breytt íslensku atvinnulífi nokkuð hvað varðar fjölbreytni starfa, en í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga nýleg störf í þekkingariðnaði og hátækni. Það er mikilvægt fyrir lítið land eins og Ísland þar sem margt ungt fólk sækir sér menntun erlendis, að atvinnumarkaðurinn sé aðlaðandi til þess að tryggja að menntafólkið skili sér heim að loknu námi.
Á íslenskum vinnumarkaði starfa nú um 160 þúsund manns en hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis starfa alls um 200.000 manns, langflestir útlendingar. Þetta er mikil breyting á tiltölulega fáum árum.
Staðreyndin er sú að það eru mörg tækifæri og spennandi möguleikar í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Útrás íslenskra banka er farin að vekja gríðarlega athygli og umfram það sem við Íslendingar hér heima gerum okkur oft grein fyrir. Og það er mikilvægt að stjórnvöld hafi skilning á þessu og stuðli að vænlegu starfsumhverfi fyrirtækja með sanngjörnu og hagstæðu starfsumhverfi fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra.
Erlend innrás verði markmið
Það eru líkast til ekki áhöld um það að útrás okkar Íslendinga gangi framar vonum. Næstu skref eru að mínu mati þau að stuðla að erlendri innrás fyrirtækja í íslenskt atvinnulíf. Það er umhugsunarvert hversu fá erlend fyrirtæki hafa fest sig í sessi hér á landi. Skráning Century Aluminum á First North Iceland markaðinn í sumar var ánægjulegt skref en félagið er eina bandaríska fyrirtækið sem er skráð í kauphöll OMX á Íslandi.
Það er hlutverk okkar að skapa þær aðstæður að erlend fyrirtæki sjái kosti í því að starfa á Íslandi svo að tækifærunum fjölgi enn frekar, samkeppni aukist og verðlag lækki.
Það er baráttumál jafnaðarmanna um allan heim að auka tekjur og starfsmöguleika fólksins í landinu. Með því að hlúa vel að viðskiptalífinu er unnið að þessu markmiði.
1.8.2007 | 10:36
Siðferði er hornsteinn mannlegra samskipta
Eitthvað er maður latari við að blogga að sumri til en á öðrum tíma. Vegna þessa birti ég hér grein mína sem birtist í nýútkomnu blaði útskriftarnema Háskólans á Bifröst um viðskiptasiðferði.
"Siðferði er einn af mikilvægustu þáttum mannlegs samfélags og það skiptir ekki máli hvort sé litið til viðskipta, stjórnmála, menningar eða almennt til mannlegra samskipta. Siðferði þarf ætíð að vera í forgrunni. Siðferði eru hluti af leikreglum og í viðskiptalífinu skipta leikreglur öllu máli.
Þá á ég bæði við hinar skrifuðu leikreglur sem birtast í lögum og reglugerðum og hinar óskrifuðu sem byggjast á hefðum og jafnvel væntingum. Siðferði myndast oft á löngum tíma og venjur eiga stóran þátt í að mynda siðferði, sérstaklega viðskiptasiðferði.
Að dæma sig úr leik
Ég tel að það ríki ágætis viðskiptasiðferði á Íslandi enda er fólk fljótt að dæma sig úr leik ef það gerist brotlegt við siðferðisreglur markaðarins og samfélagsins. Orðspor er eitt það dýrmætasta sem nokkur einstaklingur eða fyrirtæki á og orðspor byggist fyrst og fremst á áliti annarra á fyrri verkum viðkomandi.
Auðvitað er eflaust hægt að finna dæmi um þar sem gildar siðferðisreglur og venjur hafa verið brotnar í íslensku viðskiptalífi. Landlægur klíkuskapur er enn við lýði í viðskiptalífinu eins og er því miður enn í stjórnmálunum.
En vegna þessa skiptir svo miklu máli að ákvarðanir séu teknar með þeim hætti að þær séu rökstuddar og þoli dagsins ljós. Það á bæði við innan viðskiptanna og stjórnmálanna.
Stór hluti af siðferðilegri hegðun er að sýna samkvæmni. Athafnir, orð og jafnvel hugsanir viðkomandi einstaklings mega ekki rekast á. Það er einnig hluti af siðferði að láta eitt yfir alla ganga og þar á meðal sjálfan þig. Okkur ber að leyfa öðrum að gera það sama og okkur finnst siðferðilega verjandi að við gerum sjálf.
"Whistle-blowers"
Starfsmaður í viðskiptalífinu getur auðveldlega lent í siðferðilegri klemmu á milli trúnaðar við fyrirtæki sitt annars vegar og almannahagsmuna hins vegar. Hér á ég sérstaklega við svokallaða heimildarmenn eða "whistle-blowers".
Hér stangast á tvö grundvallarsjónarmið, annars vegar hollusta við fyrirtækið og virðing við undirritaðan trúnaðarsamning og hins vegar réttur og/eða skylda til uppljóstrunar. Flestir eru sammála um að ríkar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til að hægt sé að réttlæta brot á samningi um trúnað. Til að uppljóstrun geti talist vera siðferðislega verjandi og þar með leyfileg þurfa fjölmörg skilyrði að vera uppfyllt.
Upplýsingarnar þurfa m.a. að eiga erindi við almenning t.d. ef tiltekin vara eða hegðun fyrirtækis veldur starfsmönnum eða almenningi alvarlegum skaða. Þá þurfa þær að varða almannahagsmuni. Sumir telja að til að uppljóstrun sé siðferðilega réttlætanlega þurfi viðkomandi starfsmaður að hafa látið í ljós hinar siðferðilegu áhyggjur sínar innan hinna formlegu leiða fyrirtækisins.
Við þurfum að huga að þessari stöðu en í nágrannalöndunum er löggjöf sem tekur til heimildarmanna og uppljóstrara í viðskiptalífinu sem auðvitað gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðislegu samfélagi, en hérlendis er engin slík löggjöf.
Einangrað, snautt, andstyggilegt, ofbeldisfullt og stutt líf
Það geta því verið margar hliðar á viðskiptasiðferði en grundvöllurinn á bak við það eru hin klassísku markmið um jafnræði og sanngirni. Það eru þau fýsilegu markmið sem bæði einstaklingum og fyrirtækjum ber ætíð að stefna að. Án jafnræðis og sanngirnis er hætt við að við líf mannanna verði í anda þess sem Thomas Hobbes lýsti sem ,,einangrað, snautt, andstyggilegt, ofbeldisfullt og stutt."
26.7.2007 | 15:49
Breiðholtið, Reykjanesbær og Akureyri
Það er ástæða til að óska Akureyringum til hamingju með áfangann. 17.000. Akureyringurinn er fæddur. En 17.000 Akureyringar er heilmikið og 12.100 íbúar Reykjanesbæjar sömuleiðis en sú staðreynd er vel auglýst á þar til gerðu skilti við Reykjanesbrautina.
En það er einnig fróðlegt að velta því fyrir sér að það eru hverfi í Reykjavík sem eru talsvert fjölmennari en þessi stóru bæjarfélög. T.d. búa um 21.000 manns í Breiðholtinu. Það eru fleiri en búa á öllu Eyjafjarðarsvæðinu og meira en helmingi fleiri en búa á öllum Vestfjörðum. Það búa einnig um 20.000 manns í Grafarvoginum og þar eru um 16 leikskólar.
Þessar staðreyndir eru hins vegar ekki mjög sýnilegar þegar kemur að landsmálapólitíkinni og umræðunni.
En Akureyri má vel við una og hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem öflugur valkostur við höfuðborgarsvæðið. Þar blómstrar fjölskrúðugt mannlíf í sátt við háskóla, leikhús, kvikmyndahús, veitingastaði, verslanir og fjölbreytt atvinnulíf. Að auki held ég að það sé samdóma álit flestra Íslendinga að Akureyri er með fallegri bæjum hér á landi. Akureyri er einnig einn af fáum kaupstöðum á landinu sem geta státað sig af einhverju sem mætti kalla miðbæ en af einhverjum ástæðum geta furðufá íslensk bæjarfélög gert það.
Akureyringar orðnir ríflega 17.000 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.7.2007 | 14:07
Ætti Ísland ekki að vera áfengislaust ef hátt verðlag á koma í veg fyrir neyslu þess?
Ég fagna þeirri umræðu sem nú er um áfengisverð. Þetta er viðkvæmt mál en löngu tímabært að hægt sé að ræða málið af yfirvegun. Við verðum að líta gagnrýnum augum á stöðu mála eins og hún er í dag. Íslendingar búa við eitt hæsta áfengisverð í heimi, háan áfengiskaupaaldur, takmarkað aðgengi að áfengi í gegnum sérstakar ríkisverslanir og bann við áfengisauglýsingum. Öll þessi skref hafa verið tekin með það að leiðarljósi að þau vinni gegn misnotkun á áfengi. Hins vegar sýnir reynslan okkur það að Íslendingar fara síst betur með áfengi en aðrar þjóðir og í raun þvert á móti. Eftir stendur að stefnan skilar ekki árangri.
Þeir sem að halda því fram að það sé ábyrgðarlaust að tala um lægra áfengisverð verða að geta svarað því hvaða tilgangi hátt áfengisverð þjónar og hvort að þeim tilgangi sé náð með hinu geysiháa verði.
Ef menn vilja nota verðlag til þess að stýra neyslu landans þá blasir það auðvitað við öllum þeim sem sjá vilja að verðlagið hefur ekki gert það á Íslandi. Og það blasir að sama skapi við að í öðrum löndum þar sem verðið er mun lægra er neysla ekki verri. Því þarf að rökstyðja hátt verð með öðrum rökum. Verð sem neyslustýringartæki eru einfaldlega ekki tæk rök í þessari umræðu.
Það er því rík ástæða til að endurskoða stefnu í áfengismálum. Og ég er mjög ánægður með að skynja að forystumenn flestra stjórnmálaflokka hafa tekið undir þessi sjónarmið. Það gera Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri Grænna og einnig Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins.
Fjölmörg þingmál hafa verið lögð fram á Alþingi sem lúta að nauðsynlegum breytingum í þessum málaflokki. Eitt þessarra þingmála lýtur að lækkun áfengiskaupaaldurs niður í 18 ár en fyrsti flutningsmaður þess máls er núverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Meðflutningsmenn eru þrír aðrir ráðherrar, Einar K., Björgvin G. og Þórunn Sveinbjarnar, og þingmenn úr öllum þingflokkum Alþingis, m.a. úr VG.
Það hefur einnig verið lagt fram þingmál sem gerir ráð fyrir afnáms einkasölu ÁTVR á léttvíni og bjór og lækkun áfengisgjaldsins. Fyrsti flutningmaður þess frumvarps er núverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, en með honum eru 13 aðrir þingmenn úr þremur flokkum.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að áfengisverðið sé allt of hátt. Opinber neyslustýring í gegnum verðlag virkar ekki, hvort sem litið er til áfengis eða gosdrykkja eða annarra neysluvara. Ef hátt verðlag ætti að koma í veg fyrir neyslu þá ætti Ísland bæði að vera áfengis- og gosdrykkjalaust. Veruleikinn eru hins vegar allt annar.
Auðvitað eigum við að sporna gegn ofneyslu áfengis. Um það eru allir sammála. En okkur deilir e.t.v. um leiðirnar. Ég tel að öflugar forvarnir séu lykillinn í slíkri baráttu en ekki úreld bönn sem augsýnilega skila ekki tilætluðum árangri.
13.7.2007 | 19:38
Varðhundar sérhagsmuna og íhaldssemi
Enn og ný fáum við staðfestingu á því að Íslendingar greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnarnar er að mínu viti endurskoðun á landbúnaðarkerfinu, m.a. með það fyrir augum að auka frelsi og lækka verð til neytenda. Þetta markmið kemur nokkuð skýrt fram í stjórnaráttmálanum. Ég er ánægður með þetta markmið okkar og einnig þá fullyrðingu að mikilvægt sé að "heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni."
Kerfið er bændum óhagstætt
Það er mikilvægt að þessar breytingar séu gerðar þannig að þær verði ekki á kostnað bænda og ég trúi því að vel sé hægt að ná fram góðum breytingum án þess að svo þurfi að verða. Það er hægt að styðja bændur með öðrum hætti en nú er gert. Og flestir held ég að séu sammála því að íslenskar landbúnaðarvörur eru afbragðs góðar. Ég held að það sé einnig mikilvægt að forðast það í umræðunni að leggja málið upp þannig að bændur og neytendur þurfi að vera andstæðir pólar.
Það er að sama skapi mikilvægt að menn geri sé grein fyrir því að núgildandi kerfi er bændum ekki sérstaklega hliðhollt og ég leyfi mér að fullyrða að það sé bændum beinlínis óhagstætt. Bændur hafa sjálfir sagt að þeir fái um 20-40% af búðarverði sinnar eigin vöru. Þetta er auðvitað einn besti vitnisburðurinn fyrir því að við þurfum að endurskoða landbúnaðarkerfið í átt að auknu frjálsræði og aukinnar samkeppni. Hlutdeild bænda í ágóða af framleiðslu landbúnaðarvöru er of lítil.
Samherjarnir Framsókn og VG
Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn eru fullkomnir samherjar í andstöðu sinni við breytingar í þessum efnum. Þessir flokkar vilja ekki stuðla að lægra matvælaverði með breyttu landbúnaðarkerfi. Þessir flokkar vilja ekki afnema tolla og vörugjöld. Þeir vilja ekki heldur að samkeppnislög gildi um landbúnaðinn. Og þessir flokkar virðast ekki treysta bændum fyrir auknu frjálsræði.
Málflutningur þeirra hefur verið sá að allar breytingar muni ganga af íslenskum landbúnaði dauðum, þurrka út landsbyggðina, að það þurfi að lækka laun til að ná lægra matvælaverði í gegn eða það sé svo dýrt að flytja mat til landsins o.s.frv. En hlægilegustu rökin sem hafa heyrst úr þessari átt eru þau að íslenskur almenningur vilji einfaldlega borga svona hátt verð fyrir matinn.
Í þessu máli bregðast þessir varðhundar sérhagsmuna og íhaldssemi því ekki. En varðhundarnir þurfa þá svara því hvers vegna það er gott að halda úti kerfi sem hefur í för með sér að neytendur greiða hæsta matvælaverð í heimi og að skattgreiðendur greiða fyrir eitt mesta styrkjakerfi í heimi, á sama tíma og að hlutur bændur er ekki sérstaklega góður. Það græðir enginn á núgildandi stefnu í landbúnaðarmálum.
Tollar eru tímaskekkja og vörugjöld eru vitleysa
Við skulum muna að það eru til þjóðir þar sem launakostnaður er hærri en á Íslandi og eru ríkari en við en þar sem matvælaverðið er engu að síður mun lægra en hjá okkur. Munum einnig að það eru margir staðir í heiminum sem eru lengra í burtu frá helstu matarframleiðendum en Ísland og tekst samt að hafa lægra matvælaverð en er á Íslandi. Og munum að hátt verð á landbúnaðarvörum og öðrum tolluðum vörum veldur því að aðrar vörur eru dýrari en ella, m.a. vegna svokallaðra staðkvæmdaráhrifa. Samkeppni er bæði neytendum og vel reknum fyrirtækjum í hag.
Það er samdóma niðurstaða flestra athugana að stóra málið til að lækka matvælaverð á Íslandi er að afnema tolla. Eitt sinn heyrði ég slagorð frá kandídata í prófkjöri sem var á þá leið að "Tollar eru tímaskekkja". Ég vil taka undir þetta og bæta við að "Vörugjöld eru vitleysa".
Breytt stuðningskerfi við íslenskan landbúnað, kerfi sem er bæði bændum og neytendum í hag er brýnt hagsmunamál.
Matvæli dýrust á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.7.2007 kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.7.2007 | 13:47
Amerískar bollur, Johnny Depp og Guffi
Fjölskyldan heimsótti mekka skemmtanaiðnarins í gær, sjálft Disney landið. Ég verð að viðurkenna að ég var farinn að kvíða talsvert fyrir þessari heimsókn. Væntingar ungviðsins voru orðnar gríðarlegar og maður veit vel hvernig spennan getur farið með 5 ára stelpur. En við vorum mætt í garðinn þegar að hann opnaði rétt rúmlega níu og lögðum í bílastæði Mínu músar, númer 35-39. Síðan var lagt í hann, vopnað vatnsbrúsum og myndavélum.
Í öllum ferðabókum er mælt með að maður mæti snemma á staðinn. Við tókum eftir að allir höfðu lesið sömu ferðabækurnar og strax um morguninn var allt fullt af íturvöxnum heimamönnum, margir hverjir í rafknúnum kerrum sem ferja amerískar bollur á milli staða.
Traffíkin var gríðarleg á heitasta tíma dagsins. Málið er að mæta seinnipartinn þegar fjölskyldufriðurinn er löngu úti hjá flestum, liðið er búið að gefast upp og sólin búin að draga sig í hlé.
Að sjálfsögðu var margt að sjá og miklar raðir. Við heimsóttum m.a. sjóræningjalandið þar sem sú eldri var við það að brotna, leist satt best að segja ekki á Johnny Depp sem sjóræningja. Svo var farið í safarí siglingu þar sem "alvöru" mannætur voru til sýnis. Það vakti upp heilmargar spurningar sem þurfti að svara. Við heimsóttum hús Mínu og Mikka og fórum inn í tréið hans Bangsimons og stelpurnar klifruðu í tréhúsum. Horft var á risavaxna skrúðgöngu en Bandaríkjamenn eru að sögn mjög hrifnir af góðri skrúðgöngu og státar hver einasti bær í USA af að minnsta kosti einni slíkri yfir árið.
Toppurinn var þó þegar það mátti knúsa og kyssa sjálfan Bangsimon. Reyndar neyddist Bagsímon og félagi hans Tígri til að taka sér pásu á 10 mínúta fresti sökum hita en það hlýtur að vera erfitt að vera bangsi í 36 gráðu hita. Og það var svo sannarlega erfitt að vera Íslendingur í 36 gráðu hita.
Hitinn var í þeim mæli að orð eins og bráðnun lýsa honum hvað best. Við reyndum að labba reglulega í gegnum loftkældar verslunum sem voru eins og vin í eyðimörkinni. Í eitt sinn ákvað litla fjölskyldan að kaupa nokkra minjagripi og boli. Eftir að kortinu hafði verið rennt í gegn kom í ljós að reikningurinn var heldur hærri en aðgangseyrinn sem ekki var ókeypis heldur. En hægt er að hugga sér við það að dollarinn er hagstæður.
Skilaboðin í Disney landinu mikla voru öll þau sömu. "Draumar þínir geta ræst". Sjálfur bandaríski draumurinn birtist þarna með glimmeri og glysi. Konan sagði mér einu sinni að ein skýringin á hærri glæpatíðni í Bandaríkjunum væri sögð sú að fólk er alið upp í þeirri trú að að allt sé mögulegt ef menn trúa því bara, að draumurinn geti orðið að veruleika, hafi menn bara nennuna og viljann til þess. En svo þegar að fólk upplifir að tækifærin eru ekki jöfn vegna skorts á öflugu velferðar- og menntakerfi sé ein birtingarmynd af gremjunni og vonbrigðunum afbrot. Fólk upplifir kerfið sem ósanngjarnt, að það sé vitlaust gefið í samfélaginu.
Aftur á móti væri staðan önnur í öðrum löndum á borð við Indland þar sem fólk er alið upp í því að það tilheyri sinni stétt og því hefði það ekki slíkar væntingar og upplifði þar af leiðandi ekki sambærileg vonbrigði eða gremju. Fátækt og afbrot væru því ekki endilega fylgifiskar heldur hafi það meira með væntingar að gera.
En ferðin í Disney gekk ljómandi vel og allir skemmtu sér konunglega þótt pirringurinn hafi aðeins sýnt sig í lokin hjá þeirri eldri. Enda hver yrði ekki svolítið pirraður og þreyttur eftir að hafa varið 8 klukkustundum í heimsókn hjá Andrési önd og Guffa í 36 gráðu hita? Hér sofnuðu að minnsta kosti tvær sælar litlar stelpur í gærkvöldi og sú yngri tveggja ára gömul spurði að því þegar hún var við það að sofna hvort við færum aftur á morgun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.7.2007 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Málin mín á Alþingi
- Afnám fyrningar í kynferðisafbrotum gegn börnum
- Óháðar rannsóknarnefndir
- Lögfesting Barnasáttmála
- Löggjöf um heimilisofbeldi
- Auglýsingar heilbrigðisstétta
- Sérdeild fyrir unga fanga
- Vernd heimildarmanna fjölmiðla
- Líffæragjafir í ökuskírteinum einstaklinga
- Rannsaka þunglyndi eldri borgara
- Sendiráð ESB á Íslandi
- Mistök í heilbrigðiskerfinu
- Fleiri þingmál
Eldri færslur
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004
- September 2004
- Ágúst 2004
- Júlí 2004
- Júní 2004
- Maí 2004
- Apríl 2004
- Mars 2004
- Febrúar 2004
- Janúar 2004
- Desember 2003
- Nóvember 2003
- Október 2003
- September 2003
- Ágúst 2003
- Júlí 2003
- Júní 2003
- Maí 2003
- Apríl 2003
- Mars 2003
- Febrúar 2003
- Janúar 2003
- Nóvember 2002
- Október 2002
Póstlisti
Skráðu netfang þitt hér að neðan.
Fólk
- - -
-
Litla fjölskyldan
Breiðfylking jafnaðarmanna
Mikilvægar stofnanir
Hagfræðin
-
Joseph Stiglitz
-
John Kay
-
Paul Krugman
-
Þorvaldur Gylfason
-
Ásgeir Jónsson
-
Tímaritið Economist
-
Seðlabanki Íslands
-
Rannsóknarmiðstöð um efnahagsmál
-
Ríkiskassinn
-
Hagstofan
Lögfræðin
Atvinnulífið
-
Alþýðusambandið
-
Viðskiptaráð Íslands
-
Samtök atvinnulífsins
-
Samtök iðnaðarins
-
Félag kvenna í atvinnurekstri
-
Samtök sprotafyrirtækja
-
Félag íslenskra stórkaupmanna
-
Samtök verslunar og þjónustu
-
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins
-
Impra nýsköpunarmiðstöð
Evrópusamstarf
Hjartans mál
Bloggvinir
- almapalma
- andri
- husmodirivesturbaenum
- arnalara
- ahi
- gusti-kr-ingur
- alfheidur
- arniarna
- asarich
- astan
- heilbrigd-skynsemi
- baldurkr
- bardurih
- kaffi
- bjarnihardar
- masterbenedict
- bleikaeldingin
- salkaforlag
- bryndisfridgeirs
- calvin
- charliekart
- rustikus
- dagga
- deiglan
- dofri
- egill75
- egillg
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- ernafr
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- vinursolons
- ea
- fanney
- arnaeinars
- gesturgudjonsson
- gislihjalmar
- grumpa
- gudni-is
- gudbjorgim
- gudfinnur
- mosi
- gummiogragga
- orri
- gudridur
- gudrunmagnea
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- coke
- gunnlaugurstefan
- gylfigisla
- holi
- hallurg
- handtoskuserian
- smali
- hannesjonsson
- hhbe
- haukurn
- heidistrand
- heidathord
- latur
- hlf
- tofraljos
- hildajana
- hildurhelgas
- hinrik
- kjarninn
- hlekkur
- hrafnhildurolof
- hrannarb
- hreinsi
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hoskuldur
- hoskisaem
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- jara
- iagustsson
- ingo
- id
- jensgud
- jenni-1001
- joik7
- johannst
- skallinn
- joneinar
- joningic
- joninaros
- drhook
- jonthorolafsson
- juliaemm
- julli
- juliusvalsson
- komment
- killerjoe
- hjolaferd
- kjoneden
- kiddirokk
- kristjanmoller
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- presleifur
- korntop
- matti-matt
- mortenl
- olimikka
- omarminn
- pallieinars
- pallkvaran
- pallijoh
- palmig
- robertb
- salvor
- xsnv
- fjola
- sigfus
- siggikaiser
- sigurjonsigurdsson
- stebbifr
- fletcher
- steindorgretar
- ses
- pandora
- kosningar
- svanurmd
- svenni
- saethorhelgi
- sollikalli
- thelmaasdisar
- tidarandinn
- tommi
- unnar96
- sverdkottur
- valdisa
- overmaster
- valgerdurhalldorsdottir
- valsarinn
- vefritid
- vestfirdir
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- steinibriem
- skrifa
- thordistinna
- thorirallajoa