Stærri en Adidas og Carlsberg

Í gær var ríkissjónvarpið með frétt um sterka stöðu fjármálafyrirtækjanna hér á landi. Af því tilefni endurbirti ég hér grein sem ég birti í Blaðinu á þriðjudaginn einmitt um þetta efni. Í þessari grein (og í annarri svipaðri sem ég birti í Mogganum fyrir nokkrum vikum) hafði ég m.a. ályktað að starfsmenn fjármálafyrirtækja væru orðnir fleiri en starfsmenn sjávarútvegsins. Það held ég að verði að teljast vera allnokkur tíðindi. En hér fyrir neðan má allavega finna greinina.

Sterk staða fjármálafyrirtækjanna

Nýlegar fréttir af hagnaði fjármálafyrirtækja eru áhugaverðar fyrir margra hluta sakir.  Hagnaðurinn er slíkur að erfitt er að fanga tölurnar. Þannig var hagnaður Kaupþings á fyrri hluta þessa árs um 47 milljarðar króna en til samanburðar mætti nefna að kostnaður við að reka Landspítalann er um 32 milljarðar og um 12 milljarða kostar að reka alla framhaldsskóla landsins á ári.

Stærri en Adidas og Carlsberg
Kaupþing er orðið stærra fyrirtæki heldur en heimsþekkt fyrirtæki á borð við íþróttaframleiðandinn Adidas og bjórframleiðandann Carlsberg. Þrír stærstu bankarnir hér á landi, Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn eru allir á lista yfir 1.200 stærstu fyrirtæki heims.

Ég hef leyft mér að álykta að Ísland hafi eignast nýja undirstöðuatvinnugrein sem er fjármálageirinn. Hlutdeild fjármálafyrirtækja til landsframleiðslu, þ.e. verðmætasköpunarinnar, nam um 9,3% á síðsasta ári sem er t.d. talsvert meira en hlutdeild sjávarútvegsins sem nam um 5,9% sama ár. Samanburðurinn sýnir glögglega að fjármálageirinn er íslensku þjóðinni afar mikilvægur.
Þetta er hæsta hlutfall á Norðurlöndunum og er hlutdeild íslenska fjármálageirans að nálgast sum sterkustu fjármálaríki heims, eins og Bandaríkin og Bretland.

Auknar skatttekjur afleiðing af velgengi bankanna
Í fyrsta skipti í Íslandssögunni vinna líklega fleiri núna í fjármálageiranum en í sjávarútvegi eða um 8.000 manns. Þetta eru störf sem langflest voru ekki til í íslensku atvinnulífi fyrir örfáum árum síðan.
Það er margt jákvætt samfara þessari miklu uppbyggingu íslensks fjármálalífs. Skatttekjur hins opinbera aukast með vaxandi stærð og hagnaði þessara fyrirtækja og þannig er unnt að styrkja mennta- og velferðarkerfið sem því nemur.

Uppbygging fjármálageirans hefur einnig leitt af sér að starfsmöguleikar Íslendinga hafa gjörbreyst og tækifærum ungs menntafólks til að starfa innanlands fjölgað allnokkuð.

Fjölbreytilegri atvinnumarkaður
Bankarnir  bjóða upp á störf sem fela í sér ótal tækifæri fyrir almenning og þessi störf eru ekki lengur einskorðuð við Ísland heldur er starfvettvangurinn heimurinn allur.

Bankarnir hafa breytt íslensku atvinnulífi nokkuð hvað varðar fjölbreytni starfa, en í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga nýleg störf í þekkingariðnaði og hátækni. Það er mikilvægt fyrir lítið land eins og Ísland þar sem margt ungt fólk sækir sér menntun erlendis, að atvinnumarkaðurinn sé aðlaðandi til þess að tryggja að menntafólkið skili sér heim að loknu námi.

Á íslenskum vinnumarkaði starfa nú um 160 þúsund manns en hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis starfa alls um 200.000 manns, langflestir útlendingar. Þetta er mikil breyting á tiltölulega fáum árum.

Staðreyndin er sú að það eru mörg tækifæri og spennandi möguleikar í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Útrás íslenskra banka er farin að vekja gríðarlega athygli og umfram það sem við Íslendingar hér heima gerum okkur oft grein fyrir. Og það er mikilvægt að stjórnvöld hafi skilning á þessu og stuðli að vænlegu starfsumhverfi fyrirtækja með sanngjörnu og hagstæðu starfsumhverfi fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra.

Erlend innrás verði markmið
Það eru líkast til ekki áhöld um það að útrás okkar Íslendinga gangi framar vonum. Næstu skref eru að mínu mati þau að stuðla að erlendri innrás fyrirtækja í íslenskt atvinnulíf.  Það er umhugsunarvert hversu fá erlend fyrirtæki hafa fest sig í sessi hér á landi. Skráning Century Aluminum á First North Iceland markaðinn í sumar var ánægjulegt skref en félagið er eina bandaríska fyrirtækið sem er skráð í kauphöll OMX á Íslandi.

Það er hlutverk okkar að skapa þær aðstæður að erlend fyrirtæki sjái kosti í því að starfa á Íslandi svo að tækifærunum fjölgi enn frekar, samkeppni aukist og verðlag lækki.

Það er baráttumál jafnaðarmanna um allan heim að auka tekjur og starfsmöguleika fólksins í landinu. Með því að hlúa vel að viðskiptalífinu er unnið að þessu markmiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 144271

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband