Amerískar bollur, Johnny Depp og Guffi

Fjölskyldan heimsótti mekka skemmtanaiðnarins í gær, sjálft Disney landið. Ég verð að viðurkenna að ég var farinn að kvíða talsvert fyrir þessari heimsókn. Væntingar ungviðsins voru orðnar gríðarlegar og maður veit vel hvernig spennan getur farið með 5 ára stelpur. En við vorum mætt í garðinn þegar að hann opnaði rétt rúmlega níu og lögðum í bílastæði  Mínu músar, númer 35-39. Síðan var lagt í hann, vopnað vatnsbrúsum og myndavélum.

Í öllum ferðabókum er mælt með að maður mæti snemma á staðinn. Við tókum eftir að allir höfðu lesið sömu ferðabækurnar og strax um morguninn var allt fullt af íturvöxnum heimamönnum, margir hverjir í rafknúnum kerrum sem ferja amerískar bollur á milli staða.

Traffíkin var gríðarleg á heitasta tíma dagsins. Málið er að mæta seinnipartinn þegar fjölskyldufriðurinn er löngu úti hjá flestum, liðið er búið að gefast upp og sólin búin að draga sig í hlé.

Að sjálfsögðu var margt að sjá og miklar raðir. Við heimsóttum m.a. sjóræningjalandið þar sem sú eldri var við það að brotna, leist satt best að segja ekki á Johnny Depp sem sjóræningja. Svo var farið í safarí siglingu þar sem "alvöru" mannætur voru til sýnis. Það vakti upp heilmargar spurningar sem þurfti að svara. Við heimsóttum hús Mínu og Mikka og fórum inn í tréið hans Bangsimons og stelpurnar klifruðu í tréhúsum. Horft var á risavaxna skrúðgöngu en Bandaríkjamenn eru að sögn mjög hrifnir af góðri skrúðgöngu og státar hver einasti bær í USA af að minnsta kosti einni slíkri yfir árið.

Toppurinn var þó þegar það mátti knúsa og kyssa sjálfan Bangsimon. Reyndar neyddist Bagsímon og félagi hans Tígri til að taka sér pásu á 10 mínúta fresti sökum hita en það hlýtur að vera erfitt að vera bangsi í 36 gráðu hita. Og það var svo sannarlega erfitt að vera Íslendingur í 36 gráðu hita.

Hitinn var í þeim mæli að orð eins og bráðnun lýsa honum hvað best. Við reyndum að labba reglulega í gegnum loftkældar verslunum sem voru eins og vin í eyðimörkinni. Í eitt sinn ákvað litla fjölskyldan að kaupa nokkra minjagripi og boli. Eftir að kortinu hafði verið rennt í gegn kom í ljós að reikningurinn var heldur hærri en aðgangseyrinn sem ekki var ókeypis heldur. En hægt er að hugga sér við það að dollarinn er hagstæður.

Skilaboðin í Disney landinu mikla voru öll þau sömu. "Draumar þínir geta ræst". Sjálfur bandaríski draumurinn birtist þarna með glimmeri og glysi. Konan sagði mér einu sinni að ein skýringin á hærri glæpatíðni í Bandaríkjunum væri sögð sú að fólk er alið upp í þeirri trú að að allt sé mögulegt ef menn trúa því bara, að draumurinn geti orðið að veruleika, hafi menn bara nennuna og viljann til þess. En svo þegar að fólk upplifir að tækifærin eru ekki jöfn vegna skorts á öflugu velferðar- og menntakerfi sé ein birtingarmynd af gremjunni og vonbrigðunum afbrot. Fólk upplifir kerfið sem ósanngjarnt, að það sé vitlaust gefið í samfélaginu.

Aftur á móti væri staðan önnur í öðrum löndum á borð við Indland þar sem fólk er alið upp í því að það tilheyri sinni stétt og því hefði það ekki slíkar væntingar og upplifði þar af leiðandi ekki sambærileg vonbrigði eða gremju. Fátækt og afbrot væru því ekki endilega fylgifiskar heldur hafi það meira með væntingar að gera.

En ferðin í Disney gekk ljómandi vel og allir skemmtu sér konunglega þótt pirringurinn hafi aðeins sýnt sig í lokin hjá þeirri eldri. Enda hver yrði ekki svolítið pirraður og þreyttur eftir að hafa varið 8 klukkustundum í heimsókn hjá Andrési önd og Guffa í 36 gráðu hita? Hér sofnuðu að minnsta kosti tvær sælar litlar stelpur í gærkvöldi og sú yngri tveggja ára gömul spurði að því þegar hún var við það að sofna hvort við færum aftur á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Hjálmar

Allt stórt í henni Ameríku Ágúst ...

Gaman að heyra að fjölskyldan er að skemmta sér og njótið vel.

Kær kveðja,

 Gísli Hjálmar

Gísli Hjálmar , 12.7.2007 kl. 17:24

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Skemmtileg ferðalýsing, sem stundum hljómar reyndar eins og hrein martröð, a.m.k. fyrir foreldrana, en hvað gerir maður ekki fyrir blessuð börnin. Ég þykist viss um mínar dömur 5 ára og 1 1/2 árs hefðu gaman af öllum þessum hamagangi.

Guðmundur Örn Jónsson, 12.7.2007 kl. 22:58

3 Smámynd: Jens Sigurðsson

Sagði ferðahandbókin góða ekkert um hitastigið á Flórídaskaga í júlí og ágúst?

Mæli með að fjölskyldan heimsæki Hooters veitingastaðinn, fínar bollur þar! 

Hilsen til allra, hafið það sem náðugast í fríinu.

Jens Sigurðsson, 13.7.2007 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband