Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað er það mikilvægasta í heiminum?

Stjórnmál eru skemmtilegur starfvettvangur. Það eru forréttindi að vinna við hugmyndir og með fólki. Það eru sömuleiðis forréttindi að geta unnið við áhugamál sitt eins og margir í stjórnmálum eru að gera. Það skiptir miklu máli að fólk hafi gaman að vinnunni sinni, þó það væri ekki nema vegna þess að fólk ver svo stórum hluta lífs síns í vinnunni.

Eitt sinn spurði mig spakur maður hvað ég teldi að væri það mikilvægasta sem sérhver maður á. Mitt fyrsta svar var heilsan. Þá svaraði þessi íslenski vitringur að það væru til margir einstaklingar sem væru gjörsamlega heilsulausir en lifðu samt gjöfulu og frjóu lífi.

Mitt næsta svar var að fjölskyldan hlyti að vera það mikilvægasta. En þá benti þessi vitri maður mér á að það væru fjölmargir einstaklingar sem ættu enga fjölskyldu en væru að engu síður afar hamingjusamir.

Þá stóð ég á gati og kallaði eftir svarinu.

Þá sagði hann mér að það mikilvægasta sem nokkur einstaklingur á sé tíminn. Tíminn er takmarkaður og hann fæst aldrei aftur, tíminn er forsenda tilveru okkar og án hans væri ekkert hægt. Þetta fannst mér vera fullkomlega rökrétt. Þessi maður lagði síðan áherslu á að við ættum að virða tíma hvers annars. Við eigum ekki að taka tíma frá fólki að óþörfu.

Þetta fannst mér vera vel mælt orð. Þess vegna er fullkomlega rökrétt að krefjast þess að vinnan manns sé bæði skemmtileg og gefandi. Stór hluti af okkar takmörkuðustu auðlind, tímanum, fer í vinnuna. Þess vegna eru það forréttindi að fá að vinna við það sem maður hefur gaman að. Og um leið og vinnan verður leiðinleg þá á maður að hafa kjark og þor til að skipta um starfsvettvang. Og sem betur fer eru valmöguleikar fólks orðnir miklu fleiri og fjölbreytilegri en áður þekktist.

Það sem mér finnst einna skemmtilegast við það að vinna við stjórnmál er einmitt sú hugmyndavinna sem er á bak við starfið. Eins og allir stjórnmálamenn eflaust þá tel ég mig vera í pólitík vegna hugsjóna og hugmynda.

Það er þessi grundvallarspurning, sem sérhver stjórnmálamaður og í raun sérhver borgari þarf að spyrja sjálfan sig, um að hvernig við gerum samfélag okkar enn betra.


Fljúgandi þingmenn og heimatilbúnar sprengjur

Þingnefndir Alþingis fara nokkrum sinnum á hverjum vetri í heimsóknir til stofnana sem heyra undir viðkomandi nefndir. Yfirleitt eru þetta fróðlegir fundir enda fá alþingismenn betri yfirsýn yfir þá starfsemi sem nefndirnar fjalla að jafnan um.

En sumar heimsóknir eru betri en aðrar. Og ég vona að ég sé ekki að hallmæla neinni stofnun þegar ég segi að heimsókn allsherjarnefndar Alþingis í vikunni til Landhelgisgæslunnar hafi staðið upp úr þennan veturinn.

Það vildi svo til að háttvirtum þingmönnum í nefndinni var boðið í ógleymanlega þyrluferð með þessum hetjum lands og sjávar. Flogið var yfir borgina og yfir Hellisheiðavirkjun sem virtist úr þessari hæð vera frekar stórkallaleg framkvæmd með mikilli röraflækju. Upplifunin af flugi með þyrlu er gjörólík því sem maður kynnist í flugvél.

Í þessari heimsókn kynntumst við einnig hvernig heimatilbúnar sprengjur líta út sem eru nú talsvert frábrugðnar því sem við sjáum í bíómyndum. Hugmyndaflugið er engum takmörkum sett þegar kemur að gerð slíkra morðtóla. Þá heimsóttum við einnig varðskipið Ægi og fengum fína kynningu á nýju varðskipi sem er væntanlegt til landsins í náinni framtíð.

Þetta var sem sagt heimsókn sem undirritaður gleymir seint.


Breytum landbúnaðarkerfinu

Nýlega komu fram upplýsingar um að stuðningur íslenskra stjórnvalda við íslenskan landbúnað sé sá mesti sem til þekkist í heiminum. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi en engu síður kallar þessi nýja skýrsla OECD á umræðu um þetta mikilvæga mál. 

Landbúnaður er mikilvægur þáttur í íslensku samfélagi. Hins vegar er ég sannfærður um að staða bænda gæti verið mun betri en hún er í dag. Í talverðan tíma hefur skort á bæði langtímasýn í landbúnaði og vilja til að efla íslenskan landbúnað til lengri tíma. Núverandi kerfi lýsir gríðarlegri vantrú á bændum og setur óeðlilegar hömlur á stéttina. Kerfið kemur sömuleiðis í veg fyrir nýliðun og að íslenskir bændur geti nýtt sér þá hlutfallslegu yfirburði sem þeir vissulega hafa. Bændur eru einfaldlega bundnir á klafa opinberrar verðstýringar, miðstýrðs ríkisbúskaps og opinberrar framleiðslustýringar.

Mesta styrkjakerfið, hæsta matvælaverðið og bág staða bænda, gott kerfi? 
Á sama tíma og núverandi kerfi í landbúnaði hefur eitt hæsta styrkjahlutfall í heiminum eru bændur ein fátækasta stétt landsins og íslenskir neytendur greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Kerfið er því rangt og óskynsamlegt að mínu mati. Það sér allt fólk sem það vill sjá.

Niðurstaða fjölmargra úttekta um hátt matvælaverð hefur verið sú að aðalorsök hins geysiháa matvælaverðs á Íslandi eru innflutningstollar. Þar kemur einnig fram að mismunandi ríkidæmi þjóða útskýri ekki þennan mikla verðmun enda sumar af samanburðarþjóðunum ríkari en Íslendingar og með meiri kaupmátt en mun lægra matvælaverð. Þá er einnig vert að minnast þess að fjölmargir staðir innan einstaka ríkja eru talsvert lengra frá matvælaframleiðendum heldur en Ísland er og því útskýrir flutningskostnaður ekki þennan mikla mun.

Samkvæmt tölum OECD er beinn og óbeinn kostnaður við hið íslenska landbúnaðarkerfi um 15 milljarðar króna á ári en til að setja þessa tölu í samhengi mætti  reka alla íslensku framhaldsskólana eða öll hjúkrunarheimili landsins fyrir svipaða upphæð. Þrátt fyrir þetta er staða íslenskra bænda bágborin.

Rangt hjá formanni Bændasamtakanna 
Stuðningur Íslands við landbúnað skiptist aðallega í tvennt, um helmingur skýrist af beinum framleiðslustyrkjum og um helmingur skýrist af innflutningstollum sem veita innlendri framleiðslu vernd fyrir innflutningi. Innflutningsverndin er að sjálfsögðu styrkur enda gerir hún það að verkum að verðið á landbúnaðarvörum getur haldist hærra en ella, fyrir utan þá staðreynd að val neytenda er skert til mikilla muna.

Það er því ekki rétt hjá formanni Bændasamtakanna að segja að það eigi ekki að taka innflutningsverndina með í reikninginn. Það er alls staðar annars staðar gert og það er einfaldlega rétt að gera það.

Vinnum okkur frá kerfinu
Íslensk stjórnvöld þurfa að fara að vinna sig frá núverandi kerfi með markvissum hætti með eðlilegum aðlögunartíma fyrir bændur. Það er því mikilvægt að tekið sé ríkt tillit sé tekið til bænda í þessu sambandi. Ég er ekki að tala fyrir einhverjum sársaukafullum byltingum heldur einungis að við förum að fikra okkur frá kerfi sem er hvorki bændum né neytendum í hag.

Við þurfum að hefja nýja sókn í landbúnaði og atvinnuháttum í dreifbýli. Við þurfum að auka frelsi í landbúnaði og matvælaframleiðslu með öflugum stuðningi við atvinnulíf á landsbyggð, bæði nýjar og eldri búgreinar. Það á því að treysta bændum fyrir nýsköpun og arðsömum rekstri. Og þá á að leyfa íslenskum bændum að keppa sín á milli.

Afnám tolla jók söluna!
Við eigum að styðja og styrkja landbúnaðinn með sanngjörnum og öflugum hætti, m.a. þannig að framleiðslutengdar greiðslur þróist til grænna greiðslna og byggðastuðnings í ríkari mæli en nú er.  Það er fróðlegt að vita til þess að nánast allur stuðningur í Evrópu er nú bundinn ákvæðum um verndun landkosta. Með þessu er ESB að leita leiða til að tryggja áframhaldandi stuðning við bændur og dreifbýli, en á öðrum forsendum en áður var, forsendum náttúruverndar, sjálfbærrar þróunar og ekki síst í þágu byggðamála.

Við eigum að lækka innflutningstolla á landbúnaðarvörur í áföngum og vinna það í nánu samráði við samtök bænda. Þá er ekki eðlilegt að íslenskur landbúnaður þurfi að vera bundinn strangari reglum um slátrun og meðferð matvæla en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Og auðvitað eiga samkeppnislög að gilda um landbúnaðinn eins og annað. En síðastnefndi punkturinn undirstrikar vitleysuna sem er við lýði í þessu kerfi. Ég minni á að þegar tollar voru afnumdir af tómötum, agúrkum og paprikum jókst salan á innlendri framleiðslu!

Aukum hlutdeild bóndans 
Ágallar núverandi kerfis birtast best í því að bóndinn fær skammarlega lágan hluta af útsöluverði vöru sinnar, í vissum tilvikum einungis 20–40%, á sama tíma og neytendur borga alltof hátt verð fyrir vöruna. Öllum ætti að vera ljóst að í slíku kerfi er alvarlegur brestur.

Kerfið þarf, að mínu mati, að tryggja að bóndinn fái mun hærra hlutfall af útsöluverðinu en hann gerir nú og jafnframt að hann geti keppt á markaði í krafti þeirra yfirburða sem gæði íslenskrar framleiðslu veita.


Akureyri og Ísafjörður - Bournemouth og Genf

Staða Samfylkingarinnar hefur gjörbreyst undanfarið misseri. Fyrir hálfu ári var flokkurinn í stjórnarandstöðu á þingi og í minnihluta í borgarstjórn. Nú er Samfylkingin í ríkisstjórn og í meirihluta borgarstjórnar með borgarstjórnarstólinn í sínum höndum. Reyndar er það mjög ánægjulegt að vita til þess að Samfylkingin er ekki einungis í ríkisstjórn heldur einnig í meirihluta í þremur af fjórum stærstu sveitarfélögum landsins.

Þegar svo er þarf að halda vel á spöðunum þegar kemur að flokkstarfinu. Í sumar og haust hef ég verið í góðu sambandi við marga flokksfélaga og farið í þó nokkuð margar ferðir út á land.

Undanfarna daga og vikur hef ég sérstaklega verið á faraldsfæti. Um helgina var ég gestur á aðalfundi Samfylkingarinnar á Akranesi en þar sem m.a. var kosin ný stjórn með Hrönn Ríkarðsdóttur í fararbroddi.

Á mánudaginn fór ég síðan á félagsfund Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og ræddi um pólitík vetrarins. Það er alltaf góð tilfinning að koma í höfuðvígi jafnaðarmanna á Íslandi þar sem Samfylkingin er í hreinum meirihluta í bæjarstjórn.

Á morgun mun ég síðan funda með okkar fólki á Akureyri. Og í lok mánaðarins mun ég síðan fara á ný til Ísafjarðar og kenna í stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar sem þar verður haldinn. Þá eru fleiri heimsóknir í pípunum s.s. í Skagafjörðinn, Reykjanesbæ og Austurland.

Fyrir utan þessar ferðir innanlands sótti ég einnig í síðustu viku fund Alþjóðaþingmannsambandsins í Genf en ég er varaformaður Íslandsdeildarinnar. Þessir fundir eru afar áhugaverðir en það er eitthvað merkilegt við það að sitja fundi þar sem fulltrúar frá um 150 þjóðþingum ræða saman. Sumum þjóðum þarna eigum við fátt sameiginlegt með og má þar nefna nokkrar þjóðir Afríku og Arabíu. Eitthvað kom það mér spánskt fyrir sjónir að sjá „þing“ Saudi Arabíu eiga þarna fulltrúa en eins og flestir vita þá er ekkert lýðræðislegt þing í því landi heldur einungis vettvangur ráðgjafa sem kóngur sjálfur velur inn á.

Þá var ég um síðustu mánaðarmót fulltrúi Samfylkingarinnar ásamt Skúla Helgasyni framkvæmdastjóra flokksins, á landsfundi breska Verkamannaflokksins sem haldinn var í Bournemouth. Þetta var risavaxin samkoma þar sem allt að 10.000 manns tóku þátt í viðburðum fundarins.

Gordon Brown átti fína spretti á landsfundinum og lagði formaðurinn áherslu á kröftuga sókn í menntamálum og heilbrigðismálum en höfðaði að öðru leyti til kjósenda annarra flokka að fylkja sér um þau grunngildi frelsis, jöfnuðar og sanngirni. En um leið lagði hann áherslu á bresk gildi og aukið öryggi borgarana. Það vakti eftirtekt mína að formaðurinn minnist sérstaklega á málefni sem snerta einstaklinga með beinum hætti og heyrast ekki oft í formannsræðu af þessu tagi. Má þar nefna baráttuna gegn brjóstakrabbameini og gegn einelti í skólum og vinnustöðum.

Annars fór talsvert mikið fyrir fyrstu bræðrunum sem eru í bresku ríkisstjórninni í mjög langan tíma, þeim David Miliband, utanríkisráðherra og Ed Miliband sem er nokkurs konar ráðherra stefnumótunar. Þeir voru mjög vinsælir framsögumenn á hinum og þessum fundum sem voru haldnir í tengslum við landsfundinn.


Þingið komið saman á ný

Nú er þingið loksins komið saman. Stemmningin í þinghúsinu minnir um margt á fyrsta skóladaginn en það mun án efa taka einhvern tíma að venjast nýjum andlitum í þingsalnum. Talsverð endurnýjun átti sér stað í síðustu kosningum og t.d. eru allmargir sterkir sveitastjórnarmenn nú komnir á þing.

Nú hefur Samfylkingin átt sæti í ríkisstjórn í rúma fjóra mánuði. Strax má sjá ýmis merki þess. Má þar nefna aðgerðaráætlunin fyrir börn, baráttuna gegn biðlistunum, neytendamálin, bætta stöðu langveikra barna, aðgerðir gegn kynbundnum launamun, endurskoðun húsnæðismála, bættar samgöngur, varðstöðuna um auðlindir þjóðarinnar o.s.frv.

Þá koma margvíslegar áherslur fram í nýkynntu fjárlagafrumvarpi. Útgjöld til velferðar- og menntamála eru aukin talsvert. Auðvitað mun taka tíma að ná fram baráttumálum Samfylkingarinnar en við erum bara rétt að byrja. 

Ég er annars nú þegar búinn að leggja fram mitt fyrsta þingmál á þessum vetri en það lýtur að lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lögfesting sáttmálans yrði talsverð réttarbót fyrir íslensk börn og hefði gríðarlegt gildi að mínu mati.

Aðildarríki samningsins s.s. Ísland eru einungis skuldbundin barnasáttmálanum samkvæmt þjóðarrétti en ekki að landsrétti. Því þarf að lögfesta alþjóðalega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi.

Að mínu mati á slíkur grundvallarsáttmáli að vera lögfestur hér á landi með sama hætti og Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögfestur. Við það fengið barnasáttmálinn aukið vægi þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins yrðu að taka mið af honum sem sett lög. Noregur lögfesti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2003.

Einnig er lagt til í þingmálinu að íslensk löggjöf verði aðlöguð að barnasáttmálanum. Samkvæmt barnasáttmálanum ber t.d. að aðskilja unga fanga frá fullorðnum föngum en hér á landi er það ekki gert.

Friðhelgi einkalífs barna og sjálfsákvörðunarrétt þeirra í lögum þyrfti ennfremur að tryggja betur í barnalögum, barnaverndarlögum og lögum um réttindi sjúklinga. Þá þyrfti að tryggja í lög að rætt sé við yngri börn en nú er gert í umgengis- og barnaverndarmálum og rétt þeirra í grunnskólalögum um að láta í ljós skoðanir sínar. Sömuleiðis ætti réttur barnsins til að þekkja foreldra sína að vera tryggður í lögum og skoða hvort það eigi við ættleidd börn og í sæðisgjöfum.

Í sambandi við lögfestingu á Barnasáttmálnum þarf að skoða sérstaklega stöðu barna sem glíma við langvarandi veikindi, fötlun, geðsjúkdóm, fátækt og barna nýbúa í íslenskum lögum.  

Þingmálið í heild sinni má sjá hér.


Hvað meina ég með tvítyngdri stjórnsýslu?

Hvatning mín í Morgunblaðsgrein sem birtist um helgina um að stjórnsýslan ætti að vera tvítyngd hefur vakið mikil viðbrögð sem búast mátti  við. Það gætir þó nokkurs misskilnings um hvað það nákvæmlega er sem ég var að leggja til og er mér því bæði ljúft og skylt að útskýra málið betur.

Grein mín í Morgunblaðinu snerist einungis um fjármálageirann og hvernig hægt væri að laða að fleiri erlenda fjárfesta til Íslands. En ein af hugmyndunum sem fram hafa komið, til að ýta undir fjárfestingar á Íslandi, er tvítyngd stjórnsýsla.

Hvernig gerum við þetta?
Hvað þýðir þetta í raun? Hér á ég við það eitt að stjórnsýslan sem lýtur að erlendum fjárfestum verði þeim aðgengileg á enskri tungu og að íslensk lög og reglur verði þýdd á ensku og gerð aðgengileg á netinu. Sömuleiðis þýðir þetta að eftirlitsstofnanir s.s. Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið, sem stuðla eiga að trausti erlendra fjárfesta á íslensku viðskiptaumhverfi, verði í stakk búnar til að svara erindum á ensku hratt og vel og birti niðurstöður sínar jafnframt einnig á því tungumáli.

Ég tel að með aukinni alþjóðavæðingu sé það einfaldlega afar mikilvægt samkeppnismál fyrir íslenskt samfélag að stjórnvöld auki gagnsæi stjórnkerfisins gagnvart erlendum aðilum. Því miður er það svo að skortur á þekkingu á íslenskum markaði hindrar mörg erlend fyrirtæki í að koma hingað.

Nútímaleg stjórnsýsla
Íslenskir neytendur hafa lengi furðað sig á því af hverju erlendir bankar komi ekki hingað og bjóði þjónustu sína í samkeppni við íslenska banka. Hvað er hægt að gera í því máli? Þessi leið sem ég er að leggja til er leið sem fjölmargar aðrar þjóðir hafa farið með góðum árangri. Hvort sem það lýtur að bættum hag íslenskra neytenda með lækkun vöruverðs, eða til að stuðla að áframhaldandi fjölgun hálaunastarfa s.s. í fjármálageiranum, þá er tvítyngd stjórnsýsla lykilatriði.

Lítil erlend fjárfesting á Íslandi
Erlend fjárfesting hefur verið skammarlega lítil á Íslandi á undanförnum árum og ég hef sett það sem eitt af mínum meginmarkmiðum þann tíma sem ég verð formaður viðskiptanefndar Alþingis að bæta þar úr og að búa hér til gott samfélag, með einföldu og aðgengilegu regluverki sem laðar að sér erlent fjármagn og stuðlar þannig að auknum tækifærum fyrir Íslendinga.

Ekki tvö ríkistungumál - hlúð að íslensku máli
Að endingu vil ég ítreka það að auðvitað var ég ekki að leggja til að tungumál ríkisins verði í framtíðinni tvö. Að sjálfsögðu verður íslenskan áfram hið opinbera tungumál íslenskrar stjórnsýslu og þýðing á nokkrum lagabálkum yfir á ensku breytir engu þar um. Við munum að sjálfsögðu hlúa áfram vel að tungumálinu okkar, hér eftir sem hingað til. Íslensk tunga er stór þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar og verður áfram óþrjótandi uppspretta hugmynda og menningar.


Gagnlegur fundur með Solana

Í byrjun vikunnar heimsótti ég fyrirheitna landið, ef svo mætti segja. En þá fór ég með utanríkisráðherra til Brussel þar sem fjölmargir embættismenn Evrópusambandsins og íslensku utanríkissþjónustunnar voru sóttir heim. Þetta var mjög fróðleg ferð en það er nokkuð ljóst að Evrópusambandið fylgist vel með því sem er að gerast á Íslandi og er vel inni í þeim málum sem skipta okkur máli.

Við áttum áhugaverða fundi með fjölmörgum framkvæmdastjórum framkvæmdastjórnar ESB en þeir starfa sem hálfgerðir ráðherrar Evrópusambandsins. Fundurinn með Javier Solana, sem er æðsti embættismaður Evrópusambandsins í utanríkismálum, var mjög gagnlegur en þar voru stóru línurnar í alþjóðamálum ræddar meðal annars ástandið í  Mið-Austurlöndum.

Ferðin var einnig nýtt til að heimsækja höfuðstöðvar Nató sem einnig eru í Brussel. Nató hefur verið að ganga í gegnum talsvert umbreytingarskeið að undanförnu og skiptir miklu máli að Íslendingar fylgist vel því sem er að gerast á þeim vettvangi.

Ég oft sagt að ég telji að Ísland eigi fjölmörg sóknarfæri í alþjóðamálum og mér finnst nýr utanríkisráðherra hafa sýnt mikinn dugnað í embætti en hún hefur nú þegar ekki aðeins heimsótt Evrópusambandið og Nató heldur einnig Afríkusambandið og Mið-Austurlönd og er á leiðinni til Sameinuðu þjóðanna.


Bákn báknanna?

Í nýju fréttabréfi fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg má finna margt fróðlegt. M.a. er farið yfir nokkrar staðreyndir og goðsagnir um fjármál Evrópusambandsins en oft berast fréttir af ótrúlegu bákni sem ESB á að vera.

Einu sinni var ég með þann samanburð um að fleiri starfsmenn unnu undir breska umhverfisráðuneytinu heldur en vinna hjá Evrópusambandinu. Og ef ESB væri stofnun á Íslandi værum við að tala stofnun með um 20 starfsmenn og það væri með svipaða veltu og Sjúkrahúsið á Selfossi. E.t.v. er þessi samanburður orðinn úreltur.

En í fréttabréfinu kemur allavega fram að allar stofnanir ESB kosta um 5,5% af heildarfjárlögum ESB. Sömuleiðis kemur fram að fjárlög ESB ná einungis yfir um 0,94% af heildartekjum aðildarríkjanna og hefur þetta hlutfall farið lækkandi undanfarin ár. Annars má lesa meira um þessa punkta og fleiri hér.


Frumkvæði ráðherra Samfylkingarinnar

Ég vil fagna sérstaklega frumkvæði tveggja ráðherra Samfylkingarinnar á þeirra málefnasviði sem birtist alþjóð í dag.

Í fyrsta lagi tilkynnti Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, í dag að nú verði ráðist í skipulagt átak gegn fyrirtækjum sem hafa óskráða starfsmenn á sínum snærum. Þetta er mikilvægt prinsipmál sem hefur talsverða þýðingu fyrir atvinnulífið og starfsfólk.

Í öðru ákvað Jóhanna og fjármálaráðherra að skipa þrjá starfshópa til að fylgja eftir markmiðum er fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er megináhersla lögð á að unnið verði markvisst gegn kynbundnum launamun og að endurmat fari fram á kjörum kvenna hjá hinu opinbera. Þetta eru sömuleiðis gríðarlega mikilvæg markmið sem hafa verið rauður þráður í málflutningi okkar um árabil.

Í þriðja lagi hefur Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, ákveðið að skipa nefnd til að endurskoða lagaumhverfi erlendra fjárfestinga hér á landi. Að mínu mati er slíkt löngu tímabært enda margt sérkennilegt og forneskjulegt á þeim vettvangi.


Breiðholtið er best

Þar sem ég hef talsverðar taugar til Breiðholtsins langar mig að plögga aðeins fyrir Breiðholtdeginum sem er í dag. Fjölskylduskemmtunin hefst kl. 17 í dag á ÍR svæðinu og ég hvet alla til að kíkja. Dagskrána má sjá hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband