Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gefum líffærin og björgum lífum

Undanfarna daga hefur verið umræða um líffæragjafir í Bretlandi. Þar stendur víst til að gera ráð fyrir ætluðu samþykki sjúklinga. Það þyrfti því að taka sérstaklega fram ef viðkomandi kærir sig ekki um að gefa líffæri sín eftir andlát sitt. Að mínu mati er þessi leið svo sannarlega þess virði að skoða. Það er alveg ljóst að við þurfum að fjölga líffæragjöfum bæði hér á landi og út í hinum stóra heimi.

En vegna þessarar umræðu langar mig til að minna á þingmál sem ég lagði fram á Alþingi fyrir nokkrum misserum um að upplýsingar um líffæragjafir kæmu fram í ökuskírteinum einstaklinga.

Við vitum að á Íslandi eru líffæragjafir fátíðari en annars staðar á Norðurlöndunum. Hér á landi fara helmingi fleiri einstaklingar árlega á biðlista eftir líffærum en þeir sem fá líffæri. Á Vesturlöndum deyja nú fleiri sjúklingar sem bíða líffæragjafar en þeir sem fá líffæri. Það er því mjög mikilvægt að fjölga íslenskum líffæragjöfum en hver líffæragjöf getur bjargað allt að sex mannslífum. Fram til ársins 1991 gátu Íslendingar einungis þegið líffæri frá öðrum þjóðum en ekki lagt þau til sjálfir samkvæmt lögum.

Því er nauðsynlegt að upplýsingar um vilja til líffæragjafa verði sem aðgengilegastar. Vandfundin er betri leið en að notast við upplýsingar á ökuskírteini viðkomandi og er það t.d. gert í Bandaríkjunum. Skráning þessara upplýsinga á ökuskírteinum er einnig heppileg þar sem það eru oft látnir ökumenn sem koma til greina sem líffæragjafar.

Með því að áskilja slíka skráningu á ökuskírteini þarf fólk að ákveða hvort það kærir sig um að gefa líffæri. Hér á landi hafna ættingjar líffæragjöf ættmenna sinna í um 40% tilvika en á Spáni er þetta hlutfall helmingi lægra. Það er því ástæða að auðvelda upplýsingargjöf viðkomandi einstaklings hvort hann kæri sig um að gefa líffæri sín eða ekki.


Hvernig rættust spárnar?

Eins og alþjóð veit þá er nú mikill órói á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þessi órói endurspeglar e.t.v. tvennt. Hið fyrra er að hér, eins og annars staðar, gildir lögmálið um það sem fer upp hlýtur að einhvern tímann að koma niður. Og hið seinna er að nú er íslenskur fjármálamarkaður í miklu meira samræmi við það sem þekkist á alþjóðlegum mörkuðum sem eru einnig að ganga í gegnum talsverðar sveiflur og óvissu.

En við svona ástand er hin svokallaða hjarðhegðun fljót að segja til sín. Því þótt hlutabréfamarkaðir séu nú á niðurleið stendur sú staðreynd áfram óhögguð að íslensk fyrirtæki eru upp til hópa ágætlega rekin.

Annars er mjög áhugavert að velta því fyrir sér hvernig greiningardeildir bankanna höfðu spáð að árið 2007 myndi líta út.

Í fyrstu spá Glitnis á síðasta ári var gert ráð fyrir að 21% hækkun yrði á úrvalsvísitölunni á árinu 2007. Landsbankinn spáði þá 18% hækkun en taldi möguleika á 20-25% hækkun og Kaupþing spáði 25% hækkun úrvalsvísitölunnar.

Um mitt síðasta ár spáðu síðan Glitnir og Kaupþing 45% hækkun á árinu 2007 en Landsbankinn 37%.

Svo um haustið gerðu bæði Glitnir og Landsbankinn ráð fyrir um 35% hækkun og Kaupþing spáði að 33% hækkun yrði á úrvalsvísitöluna á árinu 2007.

En þegar árið 2007 var loks gert upp kom í ljós að úrvalsvísitalan hafði lækkað um 1,4%.

Það er spurning hvort Völvan hefði getað gert betur en greiningardeildirnar.


Söngur og pólitík

Í gærkvöldi fór ég á stórtónleika sænsku söngkonunnar Karolu í Grafarvogskirkju. Tónleikarnir voru yndislegir en söngkonan eyddi talsverðum tíma í að spjalla við tónleikagesti um trúna og boðskapinn sem var auðvitað fróðlegt. Eins og flestir vita er Karola heimsfræg í Svíþjóð enda þekkt Júróvisjónstjarna.

Grafarvogskirkja hentaði ágætlega fyrir svona tónleikahald en reyndar hjálpaði til að söngkonan góða var dugleg að rölta út í salinn þannig að við sem sátum á aftari bekkjunum gátum ekki einungis heyrt í henni heldur jafnvel séð dívuna um tíma.

Annars finnst mér Grafarvogskirkja vera afskaplega falleg kirkja, sérstaklega að innan og er altarismyndin stórfengleg. Svo veit ég að séra Vigfús þykir hafa staðið sig gríðarlega vel í starfi enda einstaklega geðþekkur maður.

Tónleikarnir í gær voru því kærkomin upplifun. En þótt þinginu hafi lokið fyrir viku er alltaf eitthvað um fundi áfram þótt þessi vika hafi auðvitað verið rólegri en þær á undan. Ég held að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks geti vel unað við sitt þetta fyrsta haustþing.

Búið er að ákveða stórfelldar kjarabætur fyrir eldri borgara og öryrkja. Nýjir tónar hafa  heyrst í umhverfismálum og utanríkissmálum. Ákvarðanir um miklar samgönguúrbætur liggja fyrir og metnaðarfull lagafrumvörp á sviði skólamála hafa verið lögð fram. Þá hafa neytendamálin verið sett í forgang og eftirlitsstofnanir styrktar til muna. Málefni barna hafa sömuleiðis verið sett á oddinn og jafnréttismálin náð langþráðu flugi m.a. með jafnréttisfrumvarpinu sem var afgreitt út úr nefnd rétt fyrir jól.

En verkið er rétt að byrja og margt er enn ógert.


Les ritstjóri DV ekki eigið blað?

Aftur neyðist ég til að leiðrétta misskilning hjá ritstjóra DV, Sigurjóni M. Egilssyni. Í leiðara blaðsins í gær dregur ritstjórinn fram rangfærslur, um málflutning minn í viðtali við DV deginum áður, um hvort olíuverð eigi að tilheyra vísitölu neysluverðs.

Segir ritstjórinn að mér finnist að lán íslenskra heimila ættu að hækka vegna hækkandi olíuverðs og að ég vilji „tryggja lánveitendum tak á skuldurum" og „ekkert sé gefandi fyrir skýringar þingmannsins".

En förum aðeins yfir þetta því það er eins og ritstjórinn hafi ekki lesið eigið blað.
 
Hvað var sagt í viðtalinu og hvað var ekki sagt?
Í viðtalinu við mig í DV í gær lýsti ég skoðun minni þess efnis, að ég teldi að olíuverðið ætti að vera hluti af vísitölu neysluverðs. Orðrétt segi ég: „Notkun olíu er hluti af neyslu landsmanna og þessi vísitala er notuð til þess að mæla hvernig við eyðum okkar peningum" Síðan segi ég að „breytingar á olíuverði hafi áhrif á vexti og verðbólgu komi til vegna hinnar sérstöku verðtryggingar sem notast sé við hér á landi" og „það er í rauninni verðbólgan sem er okkar helsti óvinur…".

En hvernig neysluvísitalan er mæld annars vegar og hins vegar áhrif verðtryggingar á lán, eru í raun óskyldir hlutir.

Ég hlýt að geta gert þá kröfu til ritstjóra DV að þekkja muninn á vísitölu og verðtryggingu. Vísitalan mælir einfaldlega neyslu en verðtryggingin er m.a. sérstök ákvörðun lánastofnana til að tryggja sig fyrir verðbólgunni.
 
Að hengja bakara fyrir smið
Menn geta verið ósáttir við verðtrygginguna, eins og ritstjóri DV augljóslega er, en hvernig dettur mönnum í hug að lausnin gegn verðtryggingu sé fólgin í að taka út ákveðna neysluþætti úr neysluvísitölunni!

Það er tengingin milli lána og vísitölu sem ætti að vera fókusinn hjá ritstjóranum en ekki hvernig vísitalan er reiknuð.

Formaður Neytendasamtakanna, sem einnig var í þessu sama viðtali, var í raun sammála mér og segir að það sé „ svo annar handleggur að tengja lánin við vísitöluna" og hann segir einnig að „vísitala neysluverðs verður helst af öllu að fá að halda áfram að mæla raunverulegt verðlag".
 
Misskilningurinn um stimpilgjöldin
Einnig er með ólíkindum sú ályktun ritstjórans að fyrst ég telji að olíukostnaður eigi að vera hluti af vísitölu þá hljóti ég að vera orðinn stuðningsmaður stimpilgjalda!

Eins og ritstjóranum ætti að vera kunnugt hefur Samfylkingin, með Margréti Frímannsdóttur í broddi fylkingar, lagt fram í mörg ár frumvarp þess efnis að stimpilgjöld yrðu afnumin. Ég hef ætíð stutt það frumvarp. Þá ætti ég ekki heldur að þurfa að minna ritstjóranum á þá staðreynd að afnám stimpilgjalda er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.
 
Hvorki rétt né sanngjarnt
Að mínu mati er því ritstjóri þessa ágæta blaðs aftur í skógaferð með málflutning sinn því hann er hvorki réttur né sanngjarn. 


Verkin tala

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur ákveðið að tveir hópar skulu vera settir í forgang íslenskra stjórnmála. Sá fyrri eru börnin og sá seinni eru eldri borgararnir. Ef stjórnarsáttmálinn er lesinn kemur þetta skýrt í ljós. Eitt fyrsta verk þessa meirihluta var að samþykkja í sumar sérstaka aðgerðaráætlun fyrir börn. Þar er komið inn á mýmörg atriði, s.s. lengingu fæðingarorlofs, styttingu biðlista, hækkun barnabóta, frekari niðurgreiðslur á tannviðgerðum barna, stuðning við námsgagnakostnað o.s.frv.

Og síðan í fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar sem voru samþykkt nýlega koma áherslurnar enn betur í ljós. Búið er að lögfesta gríðarlega kjarabætur fyrir eldri borgara og öryrkja. Má þar nefna afnám skerðingar bóta vegna tekna maka, hækkun frítekjumarks atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum, hækkun dagpeninga aldraðra og afnám á skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignasparnaðar.

Þá hefur verið ákveðið að grípa til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta en þær hafa komið mörgum afar illa þegar bakreikningurinn berst.

Af öðru sem hægt er að minnast á er að fjármagn til heimahjúkrunar mun þrefaldast á þremur árum. Fjárframlög til samkeppniseftirlitsins aukast um 30% á milli ára og yfir 60% á tveimur árum. Fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins aukast um 52% á milli ára og til Umboðsmanns Alþingis um meira en 20%. Fjárveitingar til þróunarmála, Mannréttindaskrifstofu, samgöngubóta og ýmissa félagasamtaka hafa sömuleiðis verið auknar talsvert.

En að þessu sögðu má ekki gleyma því að fjárlögin rekin með 40 milljarða króna afgangi og er árið í ár rekið með um 80 milljarða króna afgangi. Svona tölur hafa fyrri ríkisstjórnir ekki sýnt.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er því ríkisstjórn sem lætur verkin tala.


Baráttan gegn barnaníðingum

Hér fyrir neðan má lesa grein sem birtist í 24 stundum í dag.

Nú stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi en heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi eru án efa algengustu mannréttindabrotin á Íslandi í dag.

Í því sambandi er fróðlegt að rifja upp nýlegan dóm í svokölluðu Kompásmáli en þar voru þrír menn sýknaðir af ákæru um tilraun til kynferðisafbrots eftir að þeir höfðu nálgast einstakling sem þeir töldu vera 13 ára stúlku á netinu í kynferðislegum tilgangi. Dómurinn taldi að netsamskiptin gætu ekki talist vera sönnun um ásetning þeirra til að fremja kynferðisafbrot þótt þeir hefðu mætt á umræddan fundarstað. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Hér var til umræðu hvort tilraunaákvæði hegningarlaga hefði dugað til að ná yfir svokallaða nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi. Samkvæmt héraðsdómnum virðist svo ekki vera.

Sé vafi þá…
Fyrir stuttu tók ég þetta mál upp á Alþingi og var dómsmálaráðherra frekar jákvæður í garð hugsanlegra lagabreytinga en hann vildi þó bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar.

Ég tel hins vegar að alveg burtséð frá hugsanlegri niðurstöðu Hæstaréttar þurfum við að breyta lögunum þar sem að niðurstaða dómstóls liggur fyrir sem staðfestir að hægt sé að túlka núgildandi lög á þann veg sem héraðsdómstóllinn gerir. Það býður síðan hættunni á fleiri sýknudómum fyrir svipaða verknaði heim.

Við ættum því fara þá leið sem aðrar þjóðir hafa farið, s.s. Bretar, Norðmenn og Svíar, að gera nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi refsiverða í sjálfu sér. Þá þurfum við ekki að vera háð mati dómstólanna á tilraunaákvæði, sem getur að sjálfsögðu alltaf verið matskennt. Sé einhver vafi á að núverandi lagaákvæði nái ekki utan um slíkt athæfi ber okkur að bregðast við því.

Vantar tálbeitur í lögin
Í Kompásmálinu reyndi einnig á notkun tálbeitna. Talið var að ekki hefði verið heimilt að nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi eins og var gert í þessu máli enda samræmdist það ekki þeim reglum sem gilda um notkun lögreglu á tálbeitum við rannsókn mála. Jafnframt var talið að vafi léki á því hvort heimilt hafi verið að byggja rannsóknina á gögnum Kompáss.

Þessi niðurstaða dómstólsins um þessa tilteknu notkun fjölmiðils á tálbeitum er hugsanlega rökrétt í ljósi núverandi laga. Málið vekur þó spurningar upp um hvort við ættum ekki að huga að lagabreytingum um heimildir lögreglu til að beita tálbeitum.

Mér finnst rökrétt að íslenska lögreglan fái svipaðar lagaheimildir í baráttu sinni gegn barnaníðingum og aðrar þjóðir hafa, t.d. Danir.

Ég er einnig sannfærður um að lagaheimildir lögreglu til að beita tálbeitum gegn barnaníðingum myndu fæla hugsanlega gerendur frá þessu athæfi. Með því einu væri mikið unnið.

Alvarlegustu brotin orðin ófyrnanleg
Undanfarin ár höfum við tekið mörg jákvæð skref í þessum málaflokki. Ég vil sérstaklega taka fram að nú eru alvarleg kynferðisafbrot gegn börnum ófyrnanleg en Ísland er líklega eina landið í heiminum sem hefur þessi brot ófyrnanleg.

Á hverju ári síðasta kjörtímabils lagði ég fram frumvarp á Alþingi þess efnis. Og loks á síðasta degi þingsins á síðasta kjörtímabili voru þessi brot gerð ófyrnanleg.

Aðrar jákvæðar breytingar hafa einnig náðst undanfarin misseri og má þar nefna að nú höfum við sett eins árs lágmarksrefsingu fyrir alvarlegustu kynferðisafbrotin gegn börnum og hækkað kynferðislegan lágmarksaldur. Þá er búið setja í lögin refsiþyngingarástæðu fyrir heimilisofbeldi og breyta nauðgunarákvæðinu þannig að nú tekur það t.d. til rænulausra einstaklinga.

En baráttan gegn kynbundnu ofbeldi heldur áfram og margt er enn ógert. Að mínu mati er þessi málaflokkur miklu mikilvægari en margt annað sem fyrirfinnst í íslenskri pólitík. Hagsmunirnir gerast ekki meiri.


Falleg bók Hrafns Jökulssonar

Á þessum árstíma sekkur landinn sér í jólabókaflóðið af fullum krafti. Af nógu er að taka og er í raun umhugsunarverður sá fjöldi verka sem íslenskir rithöfundar gefa út fyrir sérhver jól. Og það er okkar hinna að lesa yfir herlegheitin.

Ein af þeim bókum sem stendur upp úr á þessu ári bókin hans Hrafn Jökulssonar, Þar sem vegurinn endar. Í bókinni fléttar Hrafn frásagnir af lífi sínu og er yndislegt að sökkva sér í bókina. Sú frásögn sem hafði einna mest áhrif á mig ber titililinn Hún Jóna mín, þar sem Hrafn segir frá örlögum vinkonu sinnar sem lést 31 árs í fangelsi í Kópavogi, en í fangelsi var hún komin vegna vangoldinna umferðarlagasekta.

Stíll Hrafns er látlaus og þægilegur. Í einum kaflanum vitnar Hrafn til góðra ummæla Guðmundar svaramanns eftir hjónavígslu Hrafns og Elínar Öglu þar sem Guðmundur sagði: “Svo þýðir ekkert fyrir þig að koma með nýja á næsta ári. Þú ert lukkunnar pamfíll, Krummi minn”. Ég ætla hins vegar að  leyfa mér að vona að Hrafn gefi sér tíma til þess að skrifa meira og vona svo sannarlega að hann komi með nýja bók á næsta ári. Hann er einfaldlega of góður penni til þess að láta það vera.


Umræðan á þinginu um tálbeitur og nettæling

Í gær var umræða á Alþingi um tvær fyrirspurnir frá mér til dómsmálaráðherra. Fyrri fyrirspurnin laut að nettælingu og sú seinni að tálbeitum. Í stuttu máli má segja að dómsmálaráðherra hafi tekið vel í að skoða lagabreytingar sem lúta að nettælingu en hann vildi hins vegar bíða eftir niðurstöðu Hæstarréttar í svokölluðu Kompássmáli.

Varðandi tálbeiturnar þá greindi okkur meira á en ráðherrann taldi að núverandi fyrirkomulag væri ágætt en hann sagði þó að allsherjarnefndin ætti að skoða þessi mál eins og önnur þegar við fáum svokallaða sakamálafrumvarp inn í nefndina.

Hér fyrir neðan má sjá hluta af fyrirspurnum mínum til ráðherrans. Fyrst er það tálbeitufyrirspurnin og síðan nettælingin:

Í umræddu Kompásmáli sýknaði héraðsdómur þrjá menn, m.a. á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi eins og var gert í þessu máli enda samræmdist það ekki þeim reglum sem gilda um notkun lögreglu á tálbeitum við rannsókn mála. Jafnframt var talið að vafi léki á því hvort að heimilt hafi verið að byggja rannsóknina á gögnum Kompás.

Þessi niðurstaða dómstólsins um þessa tilteknu notkun fjölmiðla á tálbeitum er kannski rökrétt í ljósi núverandi laga. En málið vekur þó spurningar um hvort við ættum ekki að huga að lagabreytingum um tálbeitur.

Það er oft talað um tvenns konar tálbeitur, virkar og óvirkar tálbeitur. Óvirk tálbeita kemur fram sem eins konar agn í gildru sem sett er á svið, t.d. til að hafa hendur í hári árásarmanns. Er almennt talið heimilt að nota óvirka tálbeitu án þess að tiltekinn maður sé grunaður.

Virk tálbeita kemur hins vegar ekki fram sem fórnarlamb, heldur sem þátttakandi í broti aðalmanns sem aðgerð beinist gegn. Ef tálbeita kallar fram brot sem ætla má að hefði ekki verið framið nema fyrir tilstilli hennar er hugsanlega komið út fyrir mörk lögmætra aðgerða í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu.

Umræðan um tálbeitur hefur aðallega verið bundin við fíkniefnamál. Hins vegar tel ég að lögregla ætti sérstök úrræði í baráttunni gegn barnaníðingum. Í okkar löggjöf er víða tekið sérstakt tillit til barna með sérákvæðum.

Ég er einnig sannfærður að lagaheimildir lögreglu til að beita tálbeitum gegn barnaníðingum myndi fæla hugsanlega gerendur frá þessu athæfi. Með því einu væri mikið unnið.

Danir hafa sett lagareglur um notkun á tálbeitum við rannsóknir sakamála. Þar er einungis heimilt að nota lögreglumenn sem tálbeitu og skilyrði er að brotið varði a.m.k. 6 ára fangelsi.  Mér finnst því rökrétt að íslenska lögreglan fái svipaðar lagaheimildir í baráttu sinni gegn barnaníðingum. Þetta er breyttur heimur og við verðum að horfast í augun á raunveruleikanum.

Kjarni málsins er sá, að með því að heimila lögreglunni notkun á tálbeitum í þessum tiltekna málaflokki værum við að auka réttarvernd barna til muna.


Og hér kemur fyrirspurnin sem lýtur að nettælingu

Nú fyrir stuttu sýknaði Héraðsdómur 3menn af ákæru um tilraun til kynferðisbrots eftir að þeir höfðu nálgast einstakling á netinu í kynferðislegum tilgangi sem þeir töldu vera 13 ára stúlku. Dómurinn taldi að netsamskipti sakborninganna við þáttargerðarmennina sem höfðu lagt þetta mál upp gæti ekki talist vera sönnun um ásetning þeirra til að fremja kynferðisbrot þótt þeir hefðu mætt á fund stúlku sem þeir töldu vera 13 ára.

Hér er til umræðu hvort tilraunarákvæði hegningarlaga dugi til að ná yfir svokallaða nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi. Samkvæmt Héraðsdóminum virðist svo ekki vera.

Í þessu máli var um að ræða brot sem er ekki fullframið en það var spurning hvort tilraun til refsiverðs verknaðs hafi verið um að ræða en tilraun til refsiverðs athæfis er einnig refsivert í sjálfu sér. Fræðimenn hafa talið að íslensk og dönsk lög gangi lengra en löggjöf annarra ríkja í því að heimila refsiábyrgð fyrir undibúningsathafnir, jafnvel þótt fjarlægar séu. En fræðimenn hafa einnig sagt að undirbúningsathöfn sem refsiverð tilraun getur verið t.d. tæling fórnarlambs á brotavettvang.

En ef dómstólar landsins telja að það sé ekki hægt að sakfella fyrir nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi á grundvelli tilraunarákvæðis hegningarlaganna þá þurfum við að endurskoða lögin. Aðrar þjóðir hafa sett í lög sérstakt refsiákvæði um nettælingu og má þar nefna Bretland, Noreg og Svíþjóð. Þá hafa þessi mál einnig verið rætt á danska þinginu.

Þann 5. júlí sl. skrifar hæstvirtur dómsmálaráðherra í Morgunblaðið: „Telji dómstólar unnt að refsa fyrir nettælingu á grundvelli þessa ákvæðis almennra hegningarlaga, má segja, að í íslenskum lögum sé að finna refsivernd gegn þessu ógnvekjandi athæfi gegn börnum. Komi í ljós, að dómstólar telji lagaheimildir til refsingar ekki fyrir hendi, er nauðsynlegt að bregðast við með nýju lagaákvæði og má þá líta bæði til Bretlands og Noregs.“

Hér má því segja að dómstóll í Kompásmálinu hafi komist að þeirri niðurstöðu að lagaheimildir til refsingar séu ekki fyrir hendi og því þurfum við að huga að lagabreytingum.

Ég geri mér grein fyrir því að það er búið að áfrýja málinu en burtséð frá hugsanlegri niðurstöðu Hæstaréttar þá liggur engu að síður fyrir niðurstaða dómstóls í málinu sem staðfestir að hægt sé að túlka núgildandi lögin á þann veg sem héraðsdómstólinn gerir, sem hugsanlega býður hættuna heim á fleiri sýknudómum fyrir svipaða verknaði.


Löggan og tálbeitur

Í dag mun ég leggja tvær fyrirspurnir á Alþingi til dómsmálaráðherra. Sú fyrri lýtur að svokallaðri nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi en eftir sýknudóminn í Kompásmálinu er vafi um hvort slíkt sé refsivert samkvæmt núgildandi lögum eða hvort það þurfi að gera slíkt athæfi refsivert í sjálfu sér.

Seinni fyrirspurnin mín er tengd þessum málum en hún er um hvort tryggja eigi lögreglunni heimildir í lögum til að beita tálbeitum í baráttu sinni gegn barnaníðingum.

Að mínu mati snúast þessar fyrirspurnir um stór grundvallaratriði og verður spennandi að heyra í dag viðbrögð ráðherrans og annarra þingmanna til þessara álitamála.


Lækkum verðlagið

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur sett neytendamálin á oddinn. Í raun er þetta í fyrsta skipti sem neytendamálin fá þann sess sem þau eiga skilið í íslenskum stjórnmálum. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar neytendavænn. Þá hefur viðskiptaráðherra kynnt umfangsmiklar umbætur á sviði neytendamála.

Við munum ryðja í burtu samkeppnishindrunum, s.s. uppgreiðslugjaldi og stimpilgjaldi. Við munum stuðla að lægra verðlagi til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndum, meðal annars með lækkun tolla og afnámi vörugjalda.

Við munum setja lög um greiðsluaðlögun til að skapa leið til að létta oft á tíðum óyfirstíganlega skuldabyrði fólks og setja skýrari reglur um réttarstöðu ábyrgðamanna fjárskuldbindinga til að draga úr vægi sjálfskuldarábyrgða. Sett verða innheimtulög sem takmarka álagðan innheimtukostnað og til stendur að endurskoða lög um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðar. Við munum einnig efla Samkeppniseftirlitið og Neytendasamtökin og styrkja neytendaréttinn til muna.

Þá ætlar ríkisstjórnin að auka tannvernd barna með gjaldfrjálsu eftirliti og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna og veita nemendum í framhaldsskólum stuðning til kaupa á námsgögnum. Og nú þegar eru hafnar aðgerðir sem eiga að stuðla að lækkuðu lyfjaverði.

Af þessari upptalningu sést glögglega á hvaða leið þessi ríkisstjórn er. Undirliggjandi er skilningur á því að kjarabarátta nútímans snýst ekki eingöngu um hærri laun heldur einnig um að verðlag verði lægra og kjörin betri. Neytendamálin snerta allan almenning og umbætur á því sviði koma öllum til góða.

Það á ekki að vera náttúrulögmál að verðlag sé allt annað og miklu hærra en annars staðar í kringum okkur. Ísland á ekki að þurfa að vera okursamfélag. Stjórnarmeirihlutinn gerir sér grein fyrir því og af þeirri ástæðu verður ráðist í umfangsmiklar breytingar sem munu koma almenningi í landinu til góða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband