Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Mikilvægt skref tekið í velferðarmálum

Eins og ég hef ítrekað skrifað á þessa síðu hafa stjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, tekið mörg jákvæð skref í velferðarmálum. Og nú var síðan enn eitt skrefið tekið þegar lífeyrisþegum var tryggð ákveðin lágmarksframfærslu á mánuði. Hagsmunaaðilar hafa lengi beðið eftir slíkri tryggingu og Samfylkingin lagði slíkt ítrekað til þegar hún var í stjórnarandstöðu.

Kannski finnst mörgum að 150.000 kr. lágmarksfærsla ekki há upphæð en fólk verður að hafa í huga að hækkunin nemur um 19% á síðastliðnum 9 mánuðum. Og eftir breytinguna hafa lágmarkstekjur lífeyrisþega ekki verið hærri í 13 ár.  Lágmarksframfærslutrygging hjóna verður 256.000 krónur á mánuði í stað 224.000 króna áður.

Lágmarksframfærslutryggingin hækkar árlega á sama hátt og bætur almannatrygginga og verður næsta hækkun 1. janúar 2009. Skal hækkunin taka mið af launaþróun en jafnframt skal tryggt að hækkunin sé aldrei minni en nemur hækkun neysluvísitölu. Hún er sem sagt verðtryggð sem verður nú að teljast ansi mikilvægt á tímum verðbólgu.

Þeir sem njóta mests ávinnings af þessari breytingu eru öryrkjar sem hafa lága aldurstengda örorkuuppbót. Áætlað er að tekjur rúmlega 750 örorkulífeyrisþega muni hækka um 10.000 krónur eða meira á mánuði. Hækkun til þeirra getur að hámarki numið um 16.000 krónum á mánuði.


mbl.is Lágmarksframfærslutrygging hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta kvöldið?

Einhvern veginn fannst mér hún ekki nægjanlega traustvekjandi fullyrðingin sem ég heyrði í fréttunum í dag að „flestir“ eðlisfræðingar væru sammála um að heimurinn myndi ekki farast á morgun vegna öreindatilraunarinnar í Sviss. Sé einhver vafi þá tel ég heimurinn ætti að njóta hans.

Þessi staða setur líka öll átökin á þinginu í dag og í kvöld í sérstakt ljós. Kannski hefði maður bara átt að vera heim í kvöld með sínum nánustu. En í staðinn eyði ég hugsanlega síðasta kvöldi mínu á jörðinni með Álfheiði Ingadóttur, Steingrími Joð og Jóni Bjarnasyni.


Að hitta naglann á höfuðið

Mikið var Jónas H. Haralz, fyrrverandi bankastjóri, kjarnyrtur í Silfri Egils. Hann hitti naglann á höfuðið þegar kom að Evrópumálunum þar sem hann leiddi fram hið augljósa að það sé tómt mál að þrátta um hugsanlega ESB aðild án þess að hafa staðreyndir málsins algjörlega á hreinu. Það myndi ekki gerast fyrr en í aðildarviðræðum, fyrst þá gæti íslenska þjóðin vitað með vissi hverjir kostirnir eru.

Hann nálgaðist málum að mér fannst með mjög skynsamlegum hætti og lagði á það áherslu að hann væri í sjálfu sér ekki tala fyrir aðild, heldur fyrir aðildarviðræðum. En jafnframt fannst mér áhugavert að sjá hann velta því upp hverju aðildarþjóðir myndu svara yrðu þær spurðar að því hvort þær hefðu samið af sér fullveldi. Því fer auðvitað víðsfjarri að þjóðirnar svari því játandi og ég er því fyllilega sammála að vel má halda því fram að í aðild felist jafnvel aukið fullveldi, fullgild þátttaka í alþjóðlegu samfélagi.
 
Þá var fróðlegt að heyra Jónas fjalla um efnahagsmálin en þekking hans á því sviðinu óumdeild. Hann talaði mannamál og sagði að samhæfingu og samræmingu milli ríkis og Seðlabanka hafi lengi skort. Undir það er hægt að taka.

Annars leiddi þetta viðtal huga minn að þeirri staðreynd hversu sjaldgæft er að fjölmiðlar leita til eldri kynslóða þegar kemur að álitsgjöf á þjóðmálum. Manni finnst eins og viðmælendur í erlendum fjölmiðlum séu oft eldri en hér heima og með góðu viðtali Egils Helgasonar við Jónas sást glögglega að yfirsýn og mikil þekking viðmælandans skein í gegn.

Í erlendum fjölmiðlum tekur maður einnig eftir að fjölmiðlafólkið sjálft er mun eldra en við þekkjum hér á landi og hugsanlega á það sinn þátt í þessari stöðu.  Auðvitað er heilmikill fengur og viska á meðal þeirra sem eldri eru og það er synd að það fær ekki oftar að njóta sín.


Merkilegt

Það er velþekkt þumalputtaregla að gjaldeyrisvaraforðinn eigi að duga fyrir innflutningi 3 mánaða. Slíkur innflutningur hefur numið um 100 milljörðum króna.

Þess vegna er það mjög athyglisvert að sé litið til gjaldeyrisviðbúnaðarins, eins og það er kallað, þá dugar hann núna fyrir 15 mánaða innflutningi. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á þessari staðreynd.


mbl.is Viðskiptahallinn ástæðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir okkar vs. þjóðnýting og einangrunarhyggja VG

Þessar vikurnar eru efnahagsmálin eðlilega í brennidepli. Það eru augljóslega blikur framundan og erfiðleikar. Í þessari umræðu er sumum tíðrætt um meint aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.  Förum aðeins yfir þetta „aðgerðarleysi“ stjórnvalda.

1. Gjaldeyrisviðbúnaður Seðlabankans hefur fimmfaldast á innan við tveimur árum. Hann er núna hlutfallslega stærri af landsframleiðslu en þekkist hjá nágrannaríkjunum.

2. Stimpilgjöld fyrir fyrstu kaupendur afnumin.

3. Tugmilljarða útgáfa ríkisskuldabréfa.

4. Stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að lækka skatta á einstaklinga með 20.000 kr. hækkun á skattleysismörkum fyrir utan verðlagshækkanir á kjörtímabilinu.

5. Fyrirtækjaskattar verða lækkaðar niður í 15%.

6. Sérstök löggjöf um sérvarin skuldabréf sett.

7. Staða sparisjóða styrkt þegar þeir fengu heimild til að kaupa bankaútibú án þess að þurfa að hlutafélagavæða sig fyrst sem hafði verið skilyrði samkvæmt þágildandi lagaákvæði.

8. Heimild til að taka 500 milljarða kr. lán fengið hjá Alþingi.

9. Margvíslegar aðgerðir á húsnæðismarkaði gerðar sem stuðla að auknum viðskiptum og draga úr verðlækkun á fasteignamarkaði. Þetta veitti m.a. fjármálafyrirtækjum möguleika á að koma húsbréfum sínum í verð og bæta þannig lausafjárstöðu sína. Fundir haldnir milli ríkis og aðila vinnumarkaðarins.

10. Innheimtulög sett í fyrsta skiptið.

11. Reglur settar um takmarkanir á álagningu uppgreiðslugjalda og er nú óheimilt að innheimta svonefndan FIT-kostnað sem er kostnaður vegna óheimils yfirdráttar nema slík gjaldtaka eigi sér stoð í samningi.

12. Breytingar á samkeppnislögum samþykktar þannig að nú geta fyrirtæki í samrunahugleiðingum sent inn svokallaða styttri tilkynningu til samkeppniseftirlitsins. Veltumörkin gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru að sameinast voru einnig hækkuð en þó setti viðskiptanefndin sérstakan varnagla í lögin sem heimilar samkeppniseftirlitinu að fjalla um samruna sem eru undir hinum almennum veltumörkum.

13. Ný heildarlög um verðbréfaviðskipti og kauphallir voru afgreidd þegar hin svokallaða MiFID-tilskipun var innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin er gríðarlega mikilvæg enda tryggir hún íslenskum fjármálafyrirtækjum sama umhverfi og evrópsk fjármálafyrirtæki búa við.

14. Frumvarp er varðar uppgjör innlends hlutafjár sem er skráð í erlendri mynt samþykkt.

15. Seðlabankinn hefur rýmkað reglur um veð og farið í samstarf við ESB um varnir gegn fjármálaóstöðugleika.

Þá minni ég á að fjárlög þessa árs voru afgreidd með um 40 milljarða króna afgangi sem er auðvitað mjög jákvætt þegar harðnar í ári. Þrátt fyrir það fór um helmingi meira fé í samgöngumál í ár en í fyrra en slíkt skiptir miklu máli þegar dregur úr verkefnum einkaaðila. Þá varð 17% aukning á fjármunum í menntun og rannsóknir á milli ára og treystir það að sjálfsögðu undirstöður samfélagsins.

Eins og má sjá á þessari upptalningu þá er heilmikið sem stjórnarflokkarnir hafa gert undanfarið ár til að bregðast við ástandinu. Þetta staðfestir í raun Greining Glitnis nýlega eins og má sjá hér undir fyrirsögninni "aðgerðarleysi orðum aukið"

En séu kjósendur enn ósáttir þá bið ég þá um að hugleiða hvort hinn valkosturinn í stjórnmálunum  sé betri þegar kemur að stjórn efnahagsmála þar sem framlag Vinstri grænna virðist helst vera þjóðnýting bankanna  (sjá bls. 6) og uppsögn EES-samningsins.


Mikilvæg yfirlýsing í ESB-málinu

Það er afar gagnlegt að fá yfirlýsingu spænska utanríkisráðherrans um að evruupptöku án aðildar að ESB sé útilokuð. Svipað hefur þó heyrst frá embættismönnum ESB en sumir hér á landi hafa svarað slíku með þeim orðum að slíkt yrði ætíð ákveðið á hinum pólitíska vettvangi en ekki hjá embættismönnum.

Nú er hins vegar kominn fram þungvigtarstjórnmálamaður sem talar nokkuð skýrt í þessum efnum og í raun staðfestir hann það sem manni sjálfum grunaði.

En eins og forsætisráðherra sagði fyrr í sumar þá mun tvíhöfða Evrópunefndin að sjálfsögðu ræða þessa evru-leið við forsvarsmenn Evrópusambandsins þegar hún heldur út til Brussel þann 22. september. 

Mér finnst skipta miklu máli að við fáum botn í þetta mál sem fyrst svo við getum haldið umræðunni áfram. Það er engum í hag að ræða ákveðna leið mánuðum saman sem hugsanlega er síðan algjörlega óraunhæf.

Að lokum er það einnig sérstaklega ánægjulegt að utanríkisráðherrann spænski staðfestir nú, það sem maður er búinn að segja og skrifa í mörg ár, að það sé ekkert að óttast fyrir íslenskan sjávarútveg þegar inn í ESB er komið. Við þurfum að komast upp úr þessu fari hræðsluáróðurs og misskilnings þegar kemur að sjávarútvegsstefnu ESB.


mbl.is ESB-aðild forsenda evruupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband