Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Vestrænar beljur

Það væri óskandi að Doha-viðræðurnar gætu leitt til afnám hafta og tolla í heiminum. Ein skilvirkasta leið þróunarlanda úr þeirri fátækt sem þau búa við er að þessu ríki fái aðgang að mörkuðum hinna ríku. Það að hver vestræn kú fái hærri fjárhagslega styrki en sem nemur meðallaunum bóndans sunnan Sahara segir allt sem segja þarf. Hér þurfa almannahagsmunir að ríkja og sérhagsmunir að víkja.

Afnám hafta og tolla er líka stórt neytendamál hér á landi. Kerfi sem býður upp á eitt hæsta matvælaverð í heimi á sama tíma og hér er við lýði eitt mesta styrkjakerfi sem til þekkist og bændastétt sem býr við bág kjör er kerfi sem ber að varpa fyrir róða.

Hér á landi er til fjöldinn allur af fólki sem nær ekki endum saman. Hagsmunir einstæðu móðurinnar í Breiðholti sem hefur ekki efni á að kaupa í matinn trompar aðra hagsmuni. Þeir hagsmunir eru ekki í forgrunni í málflutningi Vinstri grænna eða Framsóknarmanna eins má vel heyra.

Auðvitað veit ég að fólk hefur atvinnu af íslenskum landbúnaði og því er ég ekki að tala um kollsteypu gagnvart bændum. Við þurfum hins vegar að hafa stuðninginn óframleiðslutengdan og í formi svokallaðra grænna styrkja. Íslenskir bændur eiga ekki að óttast erlenda samkeppni. Þeir eiga að fagna henni og þeir eiga að fagna auknu frelsi á sínu sviði. Það á almenningur einnig að gera.


mbl.is Tvöfalt meiri innflutningur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of rík, of sterk og síðan er það frjálslyndið

Það er fróðlegt að vera í Bandaríkjunum og fylgjast með umfjöllun þarlendra fjölmiðla af  forsetakosningunum. Þrátt fyrir nánast stöðuga umræðu á fréttastöðvunum um Obama og McCain er maður litlu nær um málefnin sem liggja að baki framboðunum. Ég veit hins vegar þeim mun meira um eiginkonur þeirra og allt um það hvað Jesse Jackson sagði um tiltekna aðgerð sem hann vildi framkvæma á Obama. Þetta sagði hann að vísu í þeirri trú að hann væri ekki í upptöku.

Kjarni umræðunnar, eða gagnrýninnar á eiginkonunum, lýtur að því að Michelle Obama þykir vera of sterkur karakter og Cindy McCain of rík. Michelle hefur verið gagnrýnd fyrir ákveðin ummæli en um Cindy hefur gagnrýnin fyrst og fremst lotið að því að eiginmaður hennar kunni að vera háður auðæfum og rekstri um of, verði hann forseti.

Um málefnin er hins vegar ekki fjallað nema í miklum upphrópunarstíl og virðist sem tvö lykilmálefni séu í raun það sem allt snýst um. Hátt bensínsverð, sem á íslenskan mælikvarða myndi teljast vera algjört útsöluverð, og svo Írak. Annað kemst ekki að, enda þurfa stjörnunar og ástarmál Lindsey Lohan að fá sinn stað í kvöldfréttunum, sem og umræðuþáttunum sem á eftir fylgja.               

Helv. frjálslyndið
Úvarp Saga Bandaríkjannna, Fox News, er í essinu sínu þessa mánuðina með Bill O´Reilly í fararbroddi. Þar er skotið hart á alla demókrata/umhverfisverndarsinna/femínista/Clinton. Ekkert er þó verra en að vera liberal á Fox. Það er versta skammayrðið í orðabókinni. Æra óvinarins er markvisst vegin og því lengra sem menn ganga í því hefur bein áhrif á það hversu oft álitsgjafinn birtist á skjánum.

Bush forseti sést ekkert í fjölmiðlum og virðist Bush vera hættur, áður en hann hættir. Hann sést ekkert og Repúblikanar nefna síðustu 8 árin lítið sem ekkert í umræðunni um kosningarnar. Það kristallar kannski hvernig hvaða augum menn líta árangurinn í forsetatíð Bush.

Rósastríðið 2007
Þrátt fyrir takmarkaða umfjöllun um raunveruleg stefnumál er fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig Bandaríkjamenn haga sér í kosningabaráttu. Ég var í Boston fyrir fjórum árum þegar síðasta kosningabarátta stóð sem hæst. Þá var lögð mikil áhersla á persónulega nálgun gagnvart kjósendum. Frambjóðandinn sjálfur reyndi að hitta sem flesta sjálfur og persónulegar hringingar og rölt sjálfboðaliða heim til fólks var áberandi hluti af kosningabaráttunni. Þetta er að mínu viti skynsamleg og góð leið - og í raun ótrúlegt að hún skuli skipa stóran sess í Bandaríkjunum. Auglýsingaflóðið er þó ólýsanlegt og þær auglýsingar sem hér sjást eru mjög ólíkar því sem við þekkjum heima.

Þessari aðferðafræði um að komast sem næst kjósendum er engu að síður beitt í stórum ríkjum og þá hlutum við að geta gert það á Íslandi. Og þetta gerðum við í Samfylkingunni í síðustu Alþingiskosningum og vildum einmitt nálgast kjósendur sem mest og heyra þeirra sjónarmið. Við vildum ekki bara tala, heldur hlusta á það sem fólk hafði að segja okkur um þau mál sem helst brunnu á þeim. Við ákváðum því að ganga hús úr húsi með bæklinga og rós og ég fann það, og hef heyrt það bæði hjá frambjóðendum flokksins sem og kjósendum, að þessi leið hafi verið mjög góð fyrir alla. Við fengum tækifæri til þess að hlusta á kjósendur, maður á mann og kjósendur tækifæri á því að ræða málin við frambjóðendur flokksins.

Vinna kannski repúblikanar? 
Ég held að það sé beinlínis nauðsynlegt fyrir Bandaríkin að demókratar vinni forsetaembættið. Ég er hins vegar ekki jafnviss um að sú verði raunin og margir. Enn er langt í kosningar og það hefur sýnst sig að repúblikanar kunna að setja fram sín sjónarmið með sannfærandi hætti. Þeir beita jafnframt óspart því ráði að rægja andstæðinginn eins og varð raunin með John Kerry. Stríðshetja varð að föðurlandssvikara. Enn hefur Obama nokkra yfirburði en mér hefur sýnst sem að forskotið sé þannig að það sé ekki óyfirstíganlegt og að McCain sé heldur að sækja í sig veðrið.


Forleikur að Evrópusambandsaðild

Hugmynd Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um samningsbundna upptöku evrunnar er góðra gjalda verð. Björn sýnir með þessu frumkvæði í Evrópuumræðu innan Sjálfstæðisflokksins. Öllu máli skiptir að horfa til framtíðar þegar kemur að tengslum Íslands við Evrópusambandið.

Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar mun ræða hugmynd Björns Bjarnasonar. Forsætisráðherra hefur m.a. vísað þessari hugmynd til nefndarinnar. Eitt af meginhlutverkum Evrópuvaktarinnar er að kanna gaumgæfilega hvernig hagsmunum Íslendinga verður best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu. Og hugmynd Björns fellur vitaskuld undir það hlutverk vaktarinnar.

Verður rætt í Brussel
Evrópuvaktin mun einnig ræða leið Björns Bjarnasonar við forsvarsmenn Evrópusambandsins þegar við höldum til Brussel í september. Sjálfur hef ég hins vegar verulegar efasemdir um að þessi kostur teljist tækur, en hins vegar verður að fá endanlegt svar um þetta atriði eins og önnur.

Ég er hins vegar sammála orðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hingað til hefur afstaða Evrópusambandsins verið nokkuð afdráttarlaus og í sjálfu sér þarf ekki að koma á óvart að sambandinu hugnist lítt að þjóðir taki evruna upp bakdyramegin - hvort sem það er gert einhliða eða tvíhliða.

Þrýstingurinn stöðugt að aukast
Á endanum veltur þetta einfaldlega á því hvort að pólitískur vilji standi til þess að fara þessa leið hjá ESB. Er pólitískur vilji hjá Evrópusambandinu fyrir því að semja á þessum nótum við Íslendinga? Hvaða hag hefur ESB af því að semja með þeim hætti? Og er pólitískur vilji hjá Íslendingum að fara þennan millileik?

Í mínum huga er þessi hugmynd Björns Bjarnasonar millileikur. Ég spái því að þrýstingur frá samtökum atvinnurekenda sem og verkalýðshreyfingunni verði enn þyngri á næstu mánuðum og misserum og í sjálfu sér er það athyglisvert að þrýstingurinn á ESB aðild er stöðugt að aukast. Núverandi ástand er ekki boðlegt fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.

Hagsmunamatið býður upp á opnun
Það er ekkert launungarmál að stjórnarflokkarnir vilja fara mismunandi leiðir í Evrópumálunum. En þó þarf að minnast þess að í Sjálfstæðisflokknum hefur spurningin um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu verið sögð snúast hagsmunamat. Nú kann að vera að þetta mat á hagsmunum sé að breytast.

Þessi nálgun felur jafnframt í sér leið til að nálgast Evrópusambandsspurninguna á nýjan hátt, kalli hagsmunir Íslands á það. Hugmynd Björns Bjarnasonar birtist því mér sem forleikur að fullri aðild að Evrópusambandinu.

Náttröllin láta í sér heyra
Það vakti athygli mína að spurningin í íslenskum stjórnmálum lýtur ekki aðeins að því hvort hagsmunum Íslendinga sé best borgið með því að ganga í ESB eða standa utan þess. Vinstri græn kynna til leiks þriðju leiðina og af henni má ráða að flokkurinn er að festast í hlutverki nátttröllsins í íslenskri pólitík. Ögmundur Jónasson benti nýverið á þá leið að Ísland færi einfaldlega úr EES-samstarfinu. Með þessu útspili sínu sagði Ögmundur í Kastljósinu í gærkvöldi að hann ,,vildi dýpka umræðuna” og ,,fara nær skynseminni”. 

Þessi hugmynd Ögmundar getur þó hvorki talist skynsöm né djúp. Það vita allir sem eitthvað þekkja til þeirra kosta sem EES-samningurinn hafði í för með sér, með innri markaðinum og fjórfrelsinu, sem hefur haft grundvallarþýðingu fyrir atvinnulíf sem og íslensk heimili.

Vandséð er að greina kosti samfara þessari leið og læt ég Vinstri Grænum eftir að reifa þau sjónarmið. 


Hvað höfum við gert?

Samfylkingin hefur nú verið í ríkisstjórn í liðlega eitt ár. Árið hefur verið viðburðaríkt og þrátt fyrir að efnahagsástand sé nokkuð erfitt hefur mörg jákvæð mál náð fram að ganga þetta fyrsta starfsár ríkisstjórnarinnar. Eftir stendur vitaskuld að margt er eftir og auðvitað verða efnahagsmálin í forgrunni á komandi mánuðum.

Ég ætla að leyfa mér að birta hér stutta samantekt  (sem einnig birtist í 24 stundum) á þeim fjölmörgu verkefnum sem nú þegar hafa komið til framkvæmda eða ákveðið hefur verið að ráðast í. Að sama skapi er ástæða til að geta þess að neðangreindur listi er engan veginn tæmandi, eðli málsins samkvæmt.

• Bætt stuðningskerfi fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra

• 17% hækkun á fjárframlögum til menntunar og rannsókna milli ára

• Þreföldun á fjármagni í heimahjúkrun á þremur árum

• Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur íbúðahúsnæðis

• Fyrsta aðgerðaráætlunin fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt

• Skattleysismörk verða hækkuð um 20.000 kr á kjörtímabilinu ofan á verðlagshækkanir

• Skerðing bóta vegna tekna maka afnumin

• Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna séreignasparnaðar afnumin

• Lífeyrisgreiðslur hækkaðar um 9 milljarða króna á heilu ári og jafngildir það u.þ.b. 17% hækkun lífeyris, miðað við síðasta ár

• Hækkun greiðslna til lífeyrisþega sem hafa hvað verst kjör um 24.000 kr. á mánuði

•  Afnám tekjutengingar vegna launatekna þeirra sem eru 70 ára og eldri og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað í 100.000 kr.

• 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega

• Aldurstengd örorkuuppbót hækkuð

• 60% aukning á fjármagni til Samkeppniseftirlitsins á 2 árum

• 50% aukning á fjármagni til Fjármálaeftirlitsins milli ára

• 25% aukning á fjármagni til Umboðsmanns Alþingis milli ára

• Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggð á fjárlögum

• Tæplega helmings aukning á fjármagni til samgöngumála milli ára

• Ný jafnréttislög sett og aðgerðir gegn kynbundnum launamun hafnar

• Ný orkulög sett þar sem opinbert eignahald er tryggt á auðlindunum

• Vinna hafin við rammáætlun um umhverfisvernd og öllum umsóknum um ný rannsóknarleyfi vísað frá á meðan

• Skerðingarmörk barnabóta hækkuð um 50%

• Hámark húsaleigubóta hækkað um 50%

• Eignaskerðingarmörk vaxtabóta hækkuð um 35%

• 24 ára reglan þurrkuð út úr útlendingalögunum

• Íbúðalán Íbúðalánasjóðs miðast nú við markaðsvirði en ekki brunabótamat

• Stóraukið frumkvæði á alþjóðavettvangi og aukið fjármagn í þróunarmál

• Trúfélögum heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra

• Einhleypum konum heimilað að fara í tæknifrjóvgun

• Fyrstu innheimtulögin sett

• Stjórnarráðinu og þingskaparlögunum breytt með róttækum hætti

Eins og má sjá á þessari upptalningu hefur ríkisstjórnin nú þegar komið fjölmörgum málum til leiða. Það er hins vegar augljóst að málefni eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna eru í forgangi hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Fjárfestingar í innviðum samfélagsins s.s. í samgöngu- og menntamálum hafa verið tryggðar ásamt í nauðsynlegum eftirlitsstofnunum. Þá hafa jafnréttismál verið sett á oddinn ásamt hagsmunamálum neytenda en það var löngu tímabært.

Verk hinnar frjálslyndu umbótastjórnar tala sínu máli.


Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband