Of rík, of sterk og síðan er það frjálslyndið

Það er fróðlegt að vera í Bandaríkjunum og fylgjast með umfjöllun þarlendra fjölmiðla af  forsetakosningunum. Þrátt fyrir nánast stöðuga umræðu á fréttastöðvunum um Obama og McCain er maður litlu nær um málefnin sem liggja að baki framboðunum. Ég veit hins vegar þeim mun meira um eiginkonur þeirra og allt um það hvað Jesse Jackson sagði um tiltekna aðgerð sem hann vildi framkvæma á Obama. Þetta sagði hann að vísu í þeirri trú að hann væri ekki í upptöku.

Kjarni umræðunnar, eða gagnrýninnar á eiginkonunum, lýtur að því að Michelle Obama þykir vera of sterkur karakter og Cindy McCain of rík. Michelle hefur verið gagnrýnd fyrir ákveðin ummæli en um Cindy hefur gagnrýnin fyrst og fremst lotið að því að eiginmaður hennar kunni að vera háður auðæfum og rekstri um of, verði hann forseti.

Um málefnin er hins vegar ekki fjallað nema í miklum upphrópunarstíl og virðist sem tvö lykilmálefni séu í raun það sem allt snýst um. Hátt bensínsverð, sem á íslenskan mælikvarða myndi teljast vera algjört útsöluverð, og svo Írak. Annað kemst ekki að, enda þurfa stjörnunar og ástarmál Lindsey Lohan að fá sinn stað í kvöldfréttunum, sem og umræðuþáttunum sem á eftir fylgja.               

Helv. frjálslyndið
Úvarp Saga Bandaríkjannna, Fox News, er í essinu sínu þessa mánuðina með Bill O´Reilly í fararbroddi. Þar er skotið hart á alla demókrata/umhverfisverndarsinna/femínista/Clinton. Ekkert er þó verra en að vera liberal á Fox. Það er versta skammayrðið í orðabókinni. Æra óvinarins er markvisst vegin og því lengra sem menn ganga í því hefur bein áhrif á það hversu oft álitsgjafinn birtist á skjánum.

Bush forseti sést ekkert í fjölmiðlum og virðist Bush vera hættur, áður en hann hættir. Hann sést ekkert og Repúblikanar nefna síðustu 8 árin lítið sem ekkert í umræðunni um kosningarnar. Það kristallar kannski hvernig hvaða augum menn líta árangurinn í forsetatíð Bush.

Rósastríðið 2007
Þrátt fyrir takmarkaða umfjöllun um raunveruleg stefnumál er fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig Bandaríkjamenn haga sér í kosningabaráttu. Ég var í Boston fyrir fjórum árum þegar síðasta kosningabarátta stóð sem hæst. Þá var lögð mikil áhersla á persónulega nálgun gagnvart kjósendum. Frambjóðandinn sjálfur reyndi að hitta sem flesta sjálfur og persónulegar hringingar og rölt sjálfboðaliða heim til fólks var áberandi hluti af kosningabaráttunni. Þetta er að mínu viti skynsamleg og góð leið - og í raun ótrúlegt að hún skuli skipa stóran sess í Bandaríkjunum. Auglýsingaflóðið er þó ólýsanlegt og þær auglýsingar sem hér sjást eru mjög ólíkar því sem við þekkjum heima.

Þessari aðferðafræði um að komast sem næst kjósendum er engu að síður beitt í stórum ríkjum og þá hlutum við að geta gert það á Íslandi. Og þetta gerðum við í Samfylkingunni í síðustu Alþingiskosningum og vildum einmitt nálgast kjósendur sem mest og heyra þeirra sjónarmið. Við vildum ekki bara tala, heldur hlusta á það sem fólk hafði að segja okkur um þau mál sem helst brunnu á þeim. Við ákváðum því að ganga hús úr húsi með bæklinga og rós og ég fann það, og hef heyrt það bæði hjá frambjóðendum flokksins sem og kjósendum, að þessi leið hafi verið mjög góð fyrir alla. Við fengum tækifæri til þess að hlusta á kjósendur, maður á mann og kjósendur tækifæri á því að ræða málin við frambjóðendur flokksins.

Vinna kannski repúblikanar? 
Ég held að það sé beinlínis nauðsynlegt fyrir Bandaríkin að demókratar vinni forsetaembættið. Ég er hins vegar ekki jafnviss um að sú verði raunin og margir. Enn er langt í kosningar og það hefur sýnst sig að repúblikanar kunna að setja fram sín sjónarmið með sannfærandi hætti. Þeir beita jafnframt óspart því ráði að rægja andstæðinginn eins og varð raunin með John Kerry. Stríðshetja varð að föðurlandssvikara. Enn hefur Obama nokkra yfirburði en mér hefur sýnst sem að forskotið sé þannig að það sé ekki óyfirstíganlegt og að McCain sé heldur að sækja í sig veðrið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Heimsins vegna og friðarins vegna verða Demokratar að vinna. Demokratar eru miklu skárri kostur þó hann sé enganveginn fullnægjandi enda lýðræðislitrófið afleitt í Bandaríkjunum. Þar ríkja tveir keimlíkir Stjórnmálaflokkar sem skiptast á að stjórna. Fyrir mér er slíkt uppskrift á afleiddu lýðræði.

Brynjar Jóhannsson, 22.7.2008 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 144237

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband