8.7.2007 | 13:05
Að gefnu tilefni
Hér fyrir neðan má finna grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag vegna greinar dómsmálaráðherra um vernd barna gegn nettælingu og friðhelgi einkalífs. Til frekari upplýsinga er ég búinn að bæta inn tilvísunum á vefinn þar sem það á við.
Að gefnu tilefni
Aftur neyðist ég til að leiðrétta rangar söguskýringar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Í grein um vernd barna gegn nettælingu sem birtist í Morgunblaðinu 5. júlí segir dómsmálaráðherra:
"Hér varð töluverð andstaða á alþingi fyrir nokkrum misserum, þegar við Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, stóðum að tillögu um að auðvelda miðlun og geymslu á svonefndum IP-tölum, en með þeim er unnt að rekja tölvusamskipti. Vorum við sakaðir um, að vilja ganga um of á friðhelgi einstaklinga með tillögum okkar og var Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, þar fremstur í flokki meðal þingmanna."
Ég verð að viðurkenna að þessi málflutningur Björns kemur mér mjög á óvart, enda er þessi fullyrðing hans röng. Þetta er beinlínis rangt hjá dómsmálaráðherra. Ef lesendur kæra sig um að skoða feril þessa máls á Alþingisvefnum má sjá að ég var ekki einn af þeim 13 þingmönnum sem tóku þátt í umræðu þessa frumvarps og undir nefndarálit stjórnarandstöðunnar um frumvarpið rituðu Bryndís Hlöðversdóttir, Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson og Guðjón A. Kristjánsson. Það er því rangt að segja að ég hafi verið "fremstur í flokki meðal þingmanna" í andstöðu við þetta mál.
Víðtæk andstaða
Hins vegar ber að líta til þess að þessi tillaga naut ekki stuðnings neins úr þáverandi stjórnarandstöðu og þar á meðal ekki míns. Þar að auki má nefna að tveir stjórnarliðar studdu ekki umrætt ákvæði, og þar á meðal var einn þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Þá verður einnig að geta þess að Persónuvernd lagðist gegn samþykkt þessa ákvæðis í frumvarpinu. Það gerðu Samtök atvinnulífsins einnig ásamt Og Vodafone sem taldi þetta ákvæði fela í sér "alvarlega takmörkun á friðhelgi einkalífs", og sömuleiðis Síminn sem efaðist um að það stæðist stjórnarskrá. Víðtæk andstaða var því við tillöguna.
Þurfti dómsúrskurð áður
Ákvæðið í frumvarpinu sem efasemdir voru um, lýtur að því hvort það eigi að vera heimilt að nálgast IP-tölur án dómsúrskurðar. Með IP tölum er unnt að segja til um hvar viðkomandi rétthafi hefur borið niður á Internetinu, að því gefnu að vitað sé um á hvaða stundu fjarskipti fóru fram. Fyrir samþykkt þessa frumvarps var dómsúrskurður skilyrði fyrir slíkri afhendingu.
Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að hafa í huga að það var enginn ágreningur um að mikilvægt geti verið fyrir lögreglu að hafa þessar upplýsingar, heldur snerist álitaefnið um það, hvort að réttlætanlegt væri að lögregla fengi slíkar upplýsingar án þess að hafa fyrir því heimild dómstóla.
Ég bendi að því er þetta álitaefni varðar, á rökstuðning minnihluta samgöngunefndar en þar segir m.a.: "Þá bendir minni hlutinn á að bið eftir dómsúrskurði skaðar á engan hátt rannsóknarhagsmuni, þar sem IP-tölur eru skráðar og aðgengilegar og hið sama á við um leyninúmerin."
Hvaða skref hafa verið tekin?
Ég hef gagnrýnt skref stjórnvalda sem ég tel að gangi of langt í því að skerða persónuvernd einstaklinga og lagðist þannig gegn frumvarpi dómsmálaráðherra um að heimila símhleraranir án dómsúrskurðar en það ákvæði varð sem betur fer ekki að lögum.
Ég tel einnig að svokölluð 24 ára regla í útlendingalögum, sem samþykkt var á Alþingi að tillögu Björns, ganga of langt og var mótfallinn skerðingu á réttindum borgaranna á gjafsókn sem Björn stóð fyrir með lagasetningu. Þá hef ég ásamt öðrum spurst fyrir um í þinginu um greiningardeild Ríkislögreglustjóra en fengið fá svör frá dómsmálaráðherranum.
Baráttan gegn kynferðislegu ofbeldi
Kynferðislegt ofbeldi er grafalvarlegt vandamál og ég hef á liðnum árum tekið virkan þátt í umræðu um þetta mál, innan Alþingis og utan þess. Í fjögur ár lagði ég fram frumvarp um afnám fyrningarfrests í kynferðisbrotum gegn börnum. Ég hef einnig lagt fram þingmál sem gerir ráð fyrir sérstöku lagaákvæði sem tæki á heimilisofbeldi en slíkt vantar enn í íslenska löggjöf.
Ég hef sömuleiðis talið ástæðu til að endurskoða kynferðisbrotakafla hegningarlaganna í heild sinni, sem var gert og er það vel. Ég hef ítrekað talað um frekari aðgerðir gegn kynferðislegu ofbeldi, vændi og mansali.
Og ég hef einmitt sagt í ræðum á Alþingi að mér finnst að yfirvöld ættu að ganga lengra í baráttu sinni gegn kynferðisbrotamönnum og hef t.d. nefnt notkun á tálbeitum í því sambandi.
Dómsmálaráðherra á villigötum
Af þessari ástæðu kemur það mér nokkuð á óvart að dómsmálaráðherra skuli leggja lykkju á leið sína til að nefna mig í grein þar sem hann fjallar um fund norrænna dómsmálaráðhera þar sem umræðuefnið var málefni tengd vernd barna og efni refsireglna í því skyni.
Og ég hlýt að gera alvarlegar athugasemdir við málflutning þess efnis að þeir sem að vilji standa vörð um grundvallarmannréttindi á borð við friðhelgi einkalífs geti af þeirri ástæðu ekki talist heilir í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, sér í lagi þegar slíkt kemur frá löglærðum manni eins og dómsmálaráðherra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.7.2007 | 12:05
Dvölin á Flórída
Bandaríkin eru furðulegt land. Eins og klisjan segir þá er allt stórt í Bandaríkjunum. Fólkið, maturinn, bílarnir, búðirnar, rigningin, skordýrin. Allt í yfirstærð. XXL. Nú er fjölskyldan stödd á Flórída og unir sér bara vel.
Reyndar er ekki hægt að komast spönn frá rassi án þess að nota þarfasta þjóninn. Annars er merkilegt að keyra hér um. Alls staðar má finna veitingastaði og bílaumboð en hvergi fólk og íbúðahús. Kannski er það allt falið í frumskóginum sem liggur hér allt um kring.
Næturhljóðin hér eru ótrúleg. Þetta er hinn mesti hávaði og liggur við að börnin þurfi að hylja eyrun. Eflaust fengitími hjá froskunum eða einhvers konar partý.
Ok, við fáum þá Flórída
Flórída er 150.000 km2 að stærð á meðan litla Ísland er 100.000 km2. Íbúar Flórída eru um 15 milljónir en Flórída fær þó svipaðan fjölda ferðamanna á hverju ári og New York og París fá samanlagt. Disney trekkir víst að.
Árið 1783 afhentu Englendingar Flórída til Spánverja en fengu í staðinn Bahamaeyjar. Verður nú að teljast vera frekar slappur díll fyrir Tjallana. En síðan var það árið 1821 sem Bandaríkin fengu Flórída frá Spáni vegna þess að Spánn skuldaði þeim pening. Strax þá voru Bandaríkjamenn orðnir að kapitílistum dauðans. Heilu fylkin gengu skiptum.
Kókaín og appelsínur
En hér er ekki bara túrismi. 3/4 af appelsínu- og sítrónuframleiðslu Bandaríkjanna er í Flórída. Sömuleiðis er talið að fjórðungur af öllum kókaíninnflutningi til Bandaríkjanna fari í gegnum Miami. Sem sagt fjölbreytilegir atvinnuvegir.
Sá að íbúar Flórída borga engan tekuskatt. Las þetta reyndar í danskri ferðabók þannig hugsanlega hefur túlkun mín eitthvað misfarist. Líklega. Annars eru ferðabækurnar Turen gar til... bestu ferðabækur sem ég hef rekist á. Mæli með þeim.
5 plastpokar fundust
Mér finnst Bandaríkin miklu hreinlegri en flest lönd í Evrópu. Allir vegakantar eru vel slegnir og ekkert fjúkandi rusl eða yfirkeyrð fauna.
Hér er vel hugsað um þá sem eiga peninga. En þótt neytandinn sé í draumaríkinu þá fékk maður reality sjokk í gær. Í fréttunum var sagt frá því að kona hefði fundist. Hún var reyndar í 5 mismunandi plastpokum. Fólkið í viðkomandi hverfi var afskaplega hissa á þessum fundi þar sem hér byggi svo gott fólk...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.6.2007 | 11:04
Ný undirstöðuatvinnugrein Íslands
Hér fyrir fyrir neðan má lesa grein sem birtist í Mogganum nýlega, um bisnesslífið, bankana og innrásina sem vantar.
"Ég tel að Ísland hafi eignast nýja undirstöðuatvinnugrein. Hér á ég við fjármálageirann. Hlutdeild fjármálafyrirtækja til landsframleiðslu, þ.e. verðmætasköpunarinnar, árið 2006 nam um 9,3% sem er talsvert meira en hlutdeild sjávarútvegsins sem var um 5,9% sama ár. Þetta er hæsta hlutfall sem þekkist á Norðurlöndunum og er hlutdeild íslenska fjármálageirans að nálgast sum sterkustu fjármálaríki heims eins og Bandaríkin og Bretland.
Í fyrsta skipti í Íslandssögunni vinna líklega fleiri núna í fjármálageiranum en í sjávarútvegi. Fjármálalífið stóð undir einum þriðja hluta þess hagvaxtar sem hefur verið undanfarin ár.
Fjölbreytilegra atvinnulíf en áður
Umfang bankastarfseminnar hefur gjörbreytt starfsmöguleikum Íslendinga. Fjármálafyrirtæki hafa fjölgað tækifærum fyrir ungt fólk en tæplega 8.000 manns vinna nú hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum og sífellt bætist við. Sérhvert samfélag er í samkeppni við önnur samfélög um hæfa einstaklinga og því er mikilvægt að góðir kostir séu einnig í boði hér heima fyrir menntað fólk.
Bankarnir bjóða upp á störf sem fela í sér ótal tækifæri fyrir almenning og þessi störf eru ekki lengur einskorðuð við Ísland heldur er starfvettvangurinn heimurinn allur. Hin öfluga útrás er meira og minna leidd af fólki sem hefur metnað og skynbragð á tækifæri.
Bankarnir hafa breytt íslensku atvinnulífi mikið hvað varðar fjölbreytni starfa, en í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga störfin í þekkingariðnaði og hátækni.
Á íslenskum vinnumarkaði starfa um 160 þúsund manns en hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis starfa nú um 200.000 manns, langflestir útlendingar. Þetta er ótrúleg breyting á tiltölulega fáum árum.
Stjórnarskrá atvinnulífsins
Stjórnvöld eiga að hlúa vel að viðskiptalífinu þannig að það fái að vaxa og blómstra. Það gerum við með því að búa þeim vinveitt umhverfi og góð vaxtarskilyrði.
Sömuleiðis er skynsamlegt að efla eftirlitstofnanir, s.s. embætti saksóknara efnahagsbrota, fjármálaeftirlit og samkeppniseftirlitið. Öflugt eftirlit með viðskiptum er lykillinn að trausti og trúverðugleika. Traust og trúverðugleiki er þungamiðja viðskiptalífsins.
Ég hef hrifist mjög af afstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna sem hefur kallað samkeppnislög stjórnarskrá atvinnulífsins. Það finnst mér rétt nálgun og það er engin ástæða fyrir atvinnulífið að óttast samkeppnisyfirvöld eða öflugt eftirlit. Hagsmunir neytenda af öflugu eftirliti eru að sama skapi augljósir. Öflug samkeppni er kjarabarátta nútímans.
Innrás óskast
Staðreyndin er sú að það eru mörg tækifæri og spennandi möguleikar í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Framsókn og útrás íslenskra banka er farin að vekja gríðarlega athygli og umfram það sem við Íslendingar hér heima gerum okkur oft grein fyrir.
En þótt útrásin gangi vel þá lætur innrásin standa á sér. Það er hlutverk okkar allra að skapa þær aðstæður að erlend fyrirtæki sjái kosti í því að starfa á Íslandi svo að tækifærunum fjölgi enn frekar og verðlag lækki."
28.6.2007 | 12:14
Baráttan gegn fíkniefnum
Það var átakanlegt að lesa minningargrein föðurs sem missti dóttur sína nýlega vegna fíkniefna. Ég vil byrja að votta viðkomandi fjölskyldu samúð mína og benda á að það þarf mikið hugrekki til að koma fram með slíka frásögn. Ég gleymi því ekki þegar ég hlustaði á Njörð P. Njarðvík síðastliðinn vetur segja frá raunum fjölskyldu sinnar vegna fíkniefnanotkunar sonar hans. Mér var það minnistætt þegar Njörður sagði að einstaklingurinn á ekki líf sitt einn og neysla væri ekki einkamál fíkilsins.
Ég vil taka undir alvarleika þessara mála en við erum að tapa mörgum mannslífum á ári í fíkniefnadjöfulinn. Margar fjölskyldur á Íslandi eru í sárum vegna þessa.
Það er alveg ljóst að við þurfum að ná betri tökum á þessu vandamáli. Margt er hægt að gera og mig langar að nefna nokkur atriði til umhugsunar en þetta er langt í frá tæmandi upptalning á nauðsynlegum aðgerðum.
Í fyrsta lagi þarf að hlusta á þá sem þekkja hvað best þetta vandmál, bæði á sérfræðingana en ekki síst á þá einstaklinga og fjölskyldur sem hafa lent í þessum vítahring.
Í öðru lagi þarf að vera hægt að taka heilstætt á málaflokknum í stjórnkerfinu. Nú skiptist málaflokkurinn á milli þriggja ráðuneyta sem getur skapað vandræði og óskilvirkni.
Í þriðja lagi þurfa meðferðarúrræðin að vera markviss og koma þeim að gagni sem á þeim þurfa að halda. Stórbæta þarf meðferðarúrræði innan fangelsanna.
Í fjórða lagi þurfum við að átta okkur á því að það getur verið þýðingarlítið að fangelsa sjúklinga eins og fíklar eru. Ég hef lagt fram þingmál á Alþingi um að dómururm verði heimilað að dæma einstaklinga til samfélagsþjónustu en Ísland er eina Evrópuríkið sem leyfir það ekki. Slíkt úrræði gæti gagnast ungu einstaklingum sérstaklega þar sem síendurteknir skilorðsbundnir dómar hafa e.t.v. lítil varnaðaráhrif.
Í fimmta lagi þurfum við að bæta löggæsluna. Við verðum að ná til sölumanna eiturlyfja og þeirra sem skipuleggja þennan heim. Og þá þurfum við að ná til handrukkaranna sem halda mörgum fjölskyldum í gíslingu. Handrukkarar eru þjóðarmein sem allt of hljótt er um í okkar samfélagi. Við eigum ekki að líða slíka háttsemi og við eigum ekki að líða hótanir gagnvart vitnum og þolendum.
Því þarf lögreglan nauðsynleg úrræði til að bregðast við þessari vá. Danska lögreglan náði talsverðum árangri þegar hún fór að elta peningana og ágóðann hjá fíkniefnasölunum. Ef til vill þarf að gera auðveldara fyrir yfirvöld að komast að uppruna peninganna. Við ættum að skoða hvort það þurfi lagabreytingar hvað þetta varðar. Notkun á tálbeitum þarf einnig að koma til umræðu.
Að lokum skiptir fræðslan miklu máli. Bæði fræðsla innan skólakerfisins og tómstundahreyfinganna en þó tel ég að fræðslan á milli unglinganna sjálfra geti skipt sköpum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.6.2007 | 11:23
10 ár og 2 mánuðir
Dagurinn í dag er sögulegur í Bretlandi. Tony Blair mun segja af sér sem forsætisráðherra Breta eftir 10 ár og 2 mánuði í þeim stól. Tony Blair stóð fyrir mörgu jákvæðu í breskum stjórnmálum. Hann átti sömuleiðis ríkan þátt í að stuðla að friði á Norður-Írlandi en þó held ég að efnahagslegur uppgangur á svæðinu og fjölgun í millistéttinni hafi einnig átt sinn þátt í því.
Blair breytti ásýnd jafnaðarstefnunnar með svokallaðri þriðju leið. Ég tel að þriðja leiðin lifi enn góðu lífi og sé grundvöllur að frjálslyndri jafnaðarstefnu þar sem markaðslögmálin og velferðin haldast í hendur. Einn af hugmyndafræðingum þriðju leiðarinnar er Anthony Giddens og ég man vel eftir að hafa sótt fyrirlestur hans þegar hann kom til Íslands fyrir nokkrum árum.
Helstu mistök Blair voru að sjálfsögðu stuðningur hans við innrásina í Írak og mun sú staðreynd ætíð vera skuggi á valdatíð hans. Sömuleiðis eru þau skref sem Tony Blair tók varðandi aukið eftirlit með almenningi umhugsunarverð.
Eftirmaður Blairs er Skotinn Gordon Brown. En einhvern veginn finnst mér Gordon Brown ekki vera alveg eins mikill pólitískur karakter og Blair var og er, svo ég segi nú ekki meira.
Leiðtogi Íhaldsmanna, David Cameron, hefur undanfarin misseri leikið mjög taktíska leiki. Hann hefur viljandi farið inn á þau svið sem tilheyra venjulega ekki hægri flokkum og má þar nefna umhverfismál og ýmar velferðaráherslur.
En ég tel að það geti jafnvel verið auðveldara, pólitískt séð, fyrir hægri mann að fara lengra til vinstri en það sem vinstri maður getur gert og og að sama skapi geti það verið auðveldara fyrir vinstri mann að fara lengra til hægri en hægri mann.
En burtséð frá því það tel ég að næstu þingkosningar í Bretlandi geti orðið Verkamannaflokknum erfiðar.
Brown tekur við embætti forsætisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.6.2007 | 10:49
Rúski kar-amba
Á morgun munum við hjónin fara til Pétursborgar í Rússlandi. Tilhlökkunin er mikil en það er ekki þrautalaust að komast til hins ágæta Rússlands. Ég hef aldrei kynnst öðru eins veseni við að komast í annað land, og þó hef ég verið nokkuð duglegur að ferðast um heiminn.
Skriffinnskan og bullið í kringum vegabréfsáritunina var með ólíkindum. Það var eins og þeir kærðu sig ekkert um að fá túrista í landið. Síðan fer maður að spá í tilganginum með þessu öllu saman. Þessar upplýsingar verða aldrei notaðar, heldur settar einhvers staðar inn í skáp djúpt innan veggja Kremlar.
Ég er nokkuð sannfærður um að tími vegabréfsáritana er löngu liðinn enda sést það vel að þau lönd sem hafa sleppt þessu rugli sín á milli eru ekki sérstaklega verr stödd en önnur.
En Pétursborg mun án efa standa undir sínu enda margt að sjá í þessari borg sem margir segja vera þá einu fallegustu í heimi.
19.6.2007 | 09:53
Fimm sinnum fleiri
Embætti saksóknara efnahagsbrota er gríðarlega mikilvægt embætti. Öflugt eftirlit með viðskiptum er lykillinn að trausti og trúverðugleika. Og traust og trúverðugleiki er það sem skiptir máli í viðskiptum. Það er mjög áhugavert að vita til þess að fimm sinnum fleiri starfsmenn starfa á Fiskistofu en hjá embætti saksóknara efnahagsbrota. Og að það er svipaður starfsmannafjöldi hjá hinni ágætu Fiskistofu og er til samans hjá Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og Skattrannsóknarstjóra.
Ég tel því að það þurfi svo sannarlega að efla embætti saksóknara efnahagsbrota. Þessi málaflokkur er sífellt að verða fyrirferðameiri og málin að verða flóknari. Þá er alveg ljóst að það þarf að gera embættinu kleift að auka málshraðann.
Við verðum að sýna það í verki að við meinum eitthvað með því þegar við segjum að við viljum hafa hér öflugt eftirlit, hvort sem litið er til efnahagsbrota, samkeppnisbrota eða annarra brota á markaðinum.
18.6.2007 | 13:12
Allur pakkinn tekinn
Fjölskyldan hélt þjóðhátíðardaginn hátíðlegan í gær. Rölt var niður í miðbæ upp úr hádegi og vorum við að furða okkur á því hvað það virtust vera fáir í bænum. Það átti svo sannarlega eftir að breytast. Aldrei þessu vant lék veðrið við höfuðborgarbúa en í minningunni er alltaf vont veður á 17. júní. Kannski er eitthvað til í þessu með hlýnun loftslags.
Annars var allur pakkinn tekinn hjá fjölskyldunni. Blöðrur, candy floss, hoppkastalar og pylsur. Allt á sínum stað og allir sáttir. Sem fyrr vöktu Skoppa og Skrítla mikla lukku en systurnar höfðu litla þolinmæði fyrir hinum breska fjöllistarmanni, The Mighty Gareth. En það kom ekki að sök enda nóg að gera í miðbænum þennan daginn.
Það væri nú gaman ef svona mannlíf væri í miðbænum að staðaldri. Alltaf finnst mér það frekar sorglegt hvað Hljómskálagarðurinn er illa nýttur af höfuðborgarbúum. Það hefur lengi verið rætt um að setja kaffihús í garðinn. Mér finnst það mjög spennandi hugmynd enda vantar þennan indæla garð, umfram allt, mannlíf. Borgarbúar virðast þurfa ástæðu til að fara í Hljómskálagarðinn. Og ef ég svara fyrir sjálfan mig þá er ég sannfærður um að maður myndi fara oftar í Hljómskálagarðinn ef þar væri huggulegt kaffihús og síðan almennilegt leiksvæði fyrir börn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2007 | 10:21
Hvalkjöt og Írak
Í gær var mér boðið á fund í bandaríska sendiráðinu ásamt níu öðrum með Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Við vorum aðeins tvö úr pólitíkinni en Ragnheiður Elín Árnadóttir, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðismanna, var þarna einnig. Annars voru þarna Þór Whitehead, sagnfræðingur og Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskólans og síðan nokkrir fréttamenn.
Það var einstakt tækifæri að fá að ræða málin milliliðalaust við svo háttsettan mann í bandarísku stjórnkerfi. Talsvert var rætt um brotthvarf Bandaríkjamanna frá Íslandi og málefni Írak. Samskipti við Rússland og framboð Íslands í Öryggisráð S.þ. bar einnig á góma og staðan í Kosovo sem Burns taldi að yrði sjálfstætt ríki innan tíðar.
Ég nýtti tækifærið og spurði kappann um Guantanamó og hvort hann væri ósammála fyrrverandi yfirmanni sínum, Colin Powell, um að það ætti að loka fangelsinu. Burns sýndi sína diplómatísku hæfni og svaraði því vel fyrir sinn hatt.
Um kvöldið var mér síðan boðið í kvöldverð með sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og sendiherra Svíþjóðar á Íslandi ásamt þýskum yfirmanni EES-mála hjá Evrópusambandinu. Þar ræddum við vítt og breitt um Evrópumálin og margt gagnlegt kom í ljós.
Annars var Þjóðverjinn yfir sig hneykslaður yfir því að hægt væri að fá höfrungakjöt á veitingastaðnum og til að stríða honum aðeins var ég eini við borðið sem fékk mér hvalkjöt. Það bragðaðist vel.
Nicholas Burns fagnar framboði Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.6.2007 | 08:21
Frjálslyndi og umbætur í landbúnaðarmálum
Eitt það mikilvægasta sem við náðum í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar lýtur að landbúnaðarmálum. Þar segir að það skuli endurskoða landbúnaðarkerfið m.a. með það fyrir augum að auka frelsi og lækka verð til neytenda. Þá er mikilvægt að hafa í huga að í stjórnarsáttmálanum stendur einnig eftirfarandi: Mikilvægt er að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni.
Þetta eru gríðarleg mikilvæg markmið sem má alls ekki gera lítið úr. Íslendingar eru búnir að rífast um landbúnaðarkerfið á Íslandi í áratugi. Nú er hins vegar komin fram ný ríkisstjórn sem kennir sig bæði við frjálslyndi og umbætur. Það gengur því ekki að standa vörð um núverandi kerfi sem er skattgreiðendum, neytendum og bændum óhagstætt.
Og það er ekki málefninu til framdráttar að mála hugsanlegar umbætur þeim litum að þær muni rústa landbúnaðinum eins og iðulega heyrist í þessari umræðu.
Þessi ríkisstjórn hefur skuldbundið sig til að auka frelsi í landbúnaðarkerfinu og lækka matvælaverðið. Ég ætlast til að hún standi við þau orð.
13.6.2007 | 10:08
Að venjast nýjum meirihluta
Í dag mun sumarþinginu hugsanlega ljúka. Þetta er búið að vera stutt en snarpt þing. Það eru annars heilmikil viðbrigði að venjast þessum nýja meirihluta á þingi. Samfylkingin er búin að vera í stjórnarandstöðu síðan hún var stofnuð fyrir um 7 árum. En fyrstu skref Samfylkingarinnar í ríkisstjórn lofa þó góðu og er aðgerðaráætlun um málefni barna skýrasta dæmið um það.
Það mun þó taka tíma að venjast því að sjá suma af Framsóknarmönnunum sitja út í þingsal eins og hverja aðra þingmenn. Sumir þeirra voru búnir að vera í ríkisstjórn í mörg ár. Ég bjóst alltaf við að Guðni myndi sækja um áheyrnaraðild að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndinni en svo virðist sem hann hafi ekki gert það. Kannski er það of stórt stökk að fara úr ráðherrastól og yfir í að vera áheyrnarfulltrúi án atkvæðisréttar í viðkomandi þingnefnd.
Mér finnst stjórnarandstaðan annars eiga frekar erfitt með að ná vopnum sínum. Það er nettur vælutónn í þeirra málflutningi og skýrustu dæmin um það voru ræða Steingríms Joð um stefnuræðu forsætisráðherra og umkvartanir Guðna yfir illsku fjölmiðlanna.
Sumir af nýju þingmönnum stjórnarandstöðunnar byrja þó vel. Vil ég sérstaklega í því sambandi nefna Katrínu Jakobsdóttur og Höskuld Þórhallsson. Bjarni Harðarson á einnig sína góðu spretti og frændi minn Jón Magnússon sömuleiðis.
En á næstu þremur mánuðum munu þingmenn án efa safna heilmiklum kröftum og undirbúa sig vel fyrir átök næsta vetrar. Þetta verður heilmikið fjör.
Sér fyrir endann á þinginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2007 | 09:55
Hvað gera þingmenn þegar þing er ekki að störfum?
Ég hef tekið eftir því að fólk veltir því stundum fyrir sér í hverju starf okkar þingmannanna felst þegar að sjálft þingið er ekki að störfum. Og það er auðvitað eðlilegt. Stór hluti af þingmannstarfinu er að hitta það fólk sem þess óskar. Þannig að mjög stór hluti af daglegum verkefnum okkar eru fundir af ýmsu tagi, með ýmsum hagsmunaaðilum, samtökum og svo auðvitað almenningi. Ég hef haft þá reglu að hitta alla þá sem óska eftir fundi.
Í gær hitti ég t.d. fulltrúa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF). Þeir voru komnir hingað í þeim erindagjörðum að fræðast um efnahagsstöðuna á Íslandi í þeim tilgangi að skila af sér skýrslu um málið. Fundurinn var afar fróðlegur fundur fyrir mig og áhugavert að heyra sjónarmið fulltrúa IMF og geta spjallað milliliðalaust við hann.
Þetta er jafnframt efni sem ég hef brennandi áhuga. Mér sýnist sem að staðan á Íslandi geti verið nokkuð erfið næstu misserin og þurfa allir aðilar markaðarins að vanda sig mikið, ekki síst ríkisvaldið.
Í síðustu viku hitti ég fulltrúa frá Dresdner Kleinwort Investment Bank sem voru að leita eftir upplýsingum um viðskiptalífið hér á landi. Sá fundur var ekki síður gagnlegur og fróðlegur og í máli þeirra kom m.a. fram mikill áhugi á íslensku viðskiptalífi og þeim tækifærum sem hér felast.
Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef leyft mér að kalla fjármálageirann hinn nýja höfuðatvinnuveg þjóðarinnar.
10.6.2007 | 22:24
Framsókn á tímamótum
Valgerður Sverrisdóttir var í dag kosin varaformaður Framsóknarflokksins og ég vil byrja á að óska henni til hamingju með það. Valgerður er kjarnakvendi sem hefur marga fjöruna sopið. Hún hefur sýnt það í tvennum kosningum að hún skilar sínu. Framsóknarflokkurinn hefur fengið sína bestu útkomu í hennar kjördæmi í síðustu tveimur kosningum. Og það segir sitt um stöðu hennar.
Formaður flokksins, Guðni Ágústsson, verður seint álitinn týpískur stjórnmálaleiðtogi. Í má raun segja að hans helstu gallar séu um leið hans helstu kostir. Guðni hefur þann eiginleika að virðast í senn íhaldssamur og óútreiknanlegur. Hugmyndafræði hans er hrein og bein og hefur sterka skírskotun til þjóðernistilfinningu margra Íslendinga. Hann þykir sniðugur og orðheppinn en er að sama skapi ekki tekinn alvarlega af öllum. Reynsla mín af Guðna er að hann er heill og kemur eins fram við alla. Guðni er eins hvort sem hann er í ræðustól, í viðtali eða bara í mötuneyti okkar þingmanna. Hann er viðkunnanlegur karl.
Framsóknarflokkurinn stendur á tímamótum. Tveir af reyndustu þingmönnum flokksins hafa nú tekið við stjórnvölinn. Engu að síður virðast ýmsir telja að Guðni verði aðeins biðleikur. Og athyglisvert viðtal við Finn Ingólfsson í Viðskiptablaðinu rennir stoðum undir þá kenningu.
Margir líta til Sivjar enda hefur hún sýnt að hún hefur metnað til að verða formaður og fékk ágæta kosningu þegar að Jón Sigurðsson var kjörinn formaður. Það er hins vegar spurning hvernig fjögur ár í stjórnarandstöðu fara með hana. Nafn Björns Inga er nefnt en maður heyrir það meðal Framsóknarmanna að hann er umdeildur. Hann geldur þess kannski að hafa verið aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar og í jáarmi flokksins þegar að síga fór á ógæfuhliðina. Hann er kannski of tengdur Halldóri til þess að teljast fýsilegur kostur. Hann er hins vegar leiðtogi Framsóknarmanna í borginni og formaður Borgarráðs þrátt fyrir að hafa halað inn heilum 6% í kosningunum. Það má hins vegar ekki að vanmeta Björn Inga sem að sögn kunnugra hefur óslökkvandi löngun til að verða næsti formaður Framsóknarflokksins.
Metnaður hans er mikill og því brostu ýmsir þegar að hann lýsti því yfir eftir alþingiskosningarnar að best væri fyrir Framsóknarflokkinn að safna vopnum sínum í stjórnarandstöðu og endurheimta traust kjósenda. Sennilega hefur þessi afstaða hans haft eitthvað með það að gera að leiðin að formannsstólnum varð mun greiðari eftir að Jón Sigurðsson sagði af sér, sem var óhjákvæmilegt að gera fyrst að flokkurinn fór ekki í ríkisstjórn. Í það minnsta hvarflaði það ekki að Birni Inga eftir borgarstjórnarkosningarnar að sitja í minnihluta jafnvel þó að 94% borgarbúa hefðu ekki séð ástæðu til að styðja Framsóknarflokkinn þá.
Ég hef hins vegar alltaf haft mikla trú á ritara flokksins, Sæunni Stefánsdóttur. Sæunn var með mér í stjórn Framtíðarinnar í MR þegar ég var forseti nemendafélagsins fyrir hartnær 10 árum en þá taldi ég reyndar að hún væri krati. Þegar Sæunn settist á þing fyrir Halldór Ásgrímsson fannst mér hún strax standa sig afburðavel. Hún hefur varið flokkinn sinn á erfiðum stundum og var alltaf vel undirbúin og málefnaleg. Þrátt fyrir að Sæunn hafi núna dottið af þingi vona ég að við munum sjá meira af Sæunni í pólitíkinni. Og það eru aðrir framtíðarmenn, til dæmis nýr þingmaður Höskuldur Þórhallsson lögfræðingur sem ég býst fastlega við að muni mæta sterkur leiks.
8.6.2007 | 21:10
Ekki nauðsynlegt að vera alltaf sammála
Ég hélt ræðu í dag á ráðstefnu á vegum Kvenréttindafélags Íslands um vændi, virðingu og jafnrétti. Yfirskrift ráðstefnunnar var ,,A Place for Prostitution? Gender Equality and Respect in Modern Societies og var því ráðstefnan haldin á ensku. Mér finnst það alltaf svolítið sérstakt að halda ræðu á ensku og svara spurningum á erlendri tungu. Að sjálfsögðu er orðaforðinn takmarkaðri á erlendri tungu jafnvel þó að enskan sé auðvitað mun auðveldari en mörg önnur mál.
Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni voru Rosy Weiss frá Austurríki sem er forseti International Alliance of Women (IAW), Marit Kvemme frá Noregi sem er ráðgjafi menntamála og situr í stjórn Women´s Front of Norway, Network Against Trafficking in Women og FOKUS (Forum for Women and Development) og loks Rachael Lorna Johnstone frá Skotlandi sem er lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Fundarstjóri var Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Inntakið í ræðu minni var að kynjajafnrétti og vændi fara ekki saman. Þá dró ég fram að í mínum huga er vændi ofbeldi sem okkur ber að fordæma og vinna gegn með öllum tiltækum leiðum. Eitt mikilvægasta skerfið í þeirri baráttu er að gera kaup á vændi refsivert. Með því sendum við þau mikilvægu skilaboð að það sé ekki rétt að kaupa líkama fólks með þeim hætti sem vændi er. Sömuleiðis er ég sannfærður um að það hefði áhrif á eftirspurnina og þar af leiðandi á framboðið. Ég rakti fjölmörg önnur rök fyrir því að gera kaupin refsiverð, enda verð ég sannfærðari um þessa leið því meira sem ég velti henni fyrir mér.
Heilmiklar umræður spunnust um þetta efni og voru ekki allir fyrirlesarar sammála, enda er það auðvitað ekki markmiðið að allir séu sammála um leiðir. Eðli málsins samkvæmt sækja þingmenn ráðstefnur og fundi nokkuð reglulega, ýmist sem áhorfendur eða sem þátttakendur. Og ég verð að segja að fundir þar sem settur er saman einsleitur hópur af ræðumönnum sem allir nálgast viðfangsefnið út frá sama sjónarhorni gefa manni lítið og eru eðlilega lítt til þess fallnir að víkka sjóndeildarhringinn. Að þessu leyti lukkaðist ráðstefnan í dag vel og reyndar var mjög ánægður með efnistök og skipulag á þessari ráðstefnu og ekki síður að vera í hópi með jafnáhugaverðum ræðumönnum og þarna voru staddir í dag.
7.6.2007 | 22:34
Öflug samkeppni er kjarabarátta nútímans
Í morgun var ég kosinn formaður viðskiptanefndar Alþingis. Fyrir mig er þetta draumanefndaformennskan, enda fjallar þessi nefnd m.a. um bankana, fjármálageirann, samkeppnislög og neytendamál. Undir þessu er hinn nýji höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar.
Framsókn og útrás íslenskra banka er farin að vekja gríðarlega athygli og kannski umfram það sem við Íslendingar hér heima gerum okkur grein fyrir. Það er auðvitað mjög sérstakt að fyrirtæki frá jafn fámennri þjóð sé að hasla sér völl svo víða um heim. Það er ekki síður sérstakt hvað þessi útrás hefur tekið skamman tíma, þessi árangur hefur náðst á undraðverðum tíma. Einhverjir tala um hin íslenska þjóðarsál hjálpi í þessu umhverfi. Íslendingar séu meira fyrir það að taka ákvarðanir en að ræða um það að taka ákvarðarnir.
Ótrúleg tækifæri
Staðreyndin er sú að það eru ótrúlega mikil tækifæri og spennandi möguleikar í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Og það skiptir gríðarlega miklu máli að stjórnvöld hlúi vel að viðskiptalífinu þannig að það fái að vaxa og blómstra. Það gerum við með því að búa þeim vinveitt umhverfi og góð vaxtarskilyrði.
Ég er hins vegar einn af þeim sem tel að hagsmunir neytenda og t.d. íslenskra banka eigi að geta farið saman. Og að neytendur eigi líka að njóta ágóðans af því hversu vel hefur gengið. Öflug samkeppni er og á að vera kjarabarátta nútímans
Eðlileg verðmyndun á öllum sviðum samfélagsins
Það er ánægjulegt að geta bent á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að við viljum ,,að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni." Þá munu ríkisstjórnarflokkarnir efla bæði samkeppniseftirlit og fjármálaeftirlit og tryggja að íslensk fyrirtæki búi við bestu samkeppnis- og rekstrarskilyrði sem völ er á.
Skortur á hreyfanleika viðskiptavina
Samkeppniseftirlitið hefur gagnrýnt skort á hreyfanleika viðskiptavina bankanna og nefndi sérstaklega stimpilgjaldið í því sambandi. Það er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að afnema stimpilgjaldið sem er risavaxið skref til kjarabóta og eykur hreyfanleika svo sannarlega.
Ég hef einnig talið æskilegast að uppgreiðslugjöld bankanna lækki og að lántöku- og innheimtugjöld séu helst ekki hærri en sem nemur kostnaði bankanna.
Það þarf hins vegar að hafa í huga að samkeppnin getur verið mjög mismunandi eftir sviðum og má þar nefna samkeppnina um fyrirtækin, almenning, gjaldeyrisviðskiptin, skuldabréfin og ekki síst um íbúðalánin. Á sumum þessara sviða er mikil samkeppni og á öðrum minni. Síðast í gær fékk ég símtal frá einum bankanna um að ég ætti að bera saman viðskiptakjör mín og þau sem sá banki bauð og helst flytja mín viðskipti til þeirra.
Stjórnarskrá atvinnulífsins
Við, neytendurnir, eigum að bera kjör saman. Það er auðvitað eðlilegt að neytendur séu kröfuharðir og það er beinlínis hlutverk þeirra að vera á tánum og krefjast bestu mögulegu kjara.
Svo má ekki gleyma því að samkeppnisyfirvöld hafa sjálf ýmis konar úrræði. Þau geta brugðist við telji þau að markaðsráðandi staða sé misnotuð. Þau geta einnig brugðist við ef samkeppniseftirlitið telur að einhvers konar samningar eða samþykktir séu á milli fyrirtækja sem koma í veg fyrir samkeppni eða takmarka hana.
Ég hreifst mjög af afstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna í þessum efnum sem ég kynnti mér lítillega þegar ég vann að kandidatsritgerð minni í lögfræði sem var á sviði samkeppnisréttar. Samkeppnislög voru þar nefnd stjórnarskrá atvinnulífsins. Það finnst mér rétt nálgun og það á ekki að vera nein ástæða fyrir atvinnulífið að óttast samkeppnisyfirvöld.
7.6.2007 | 09:54
Viðtalið sem birtist í Blaðinu á laugardaginn síðasta
Hér fyrir neðan birtist viðtal Blaðsins við mig sem birtist á laugardaginn.
6.6.2007 | 15:22
Hægt að selja börn og konur aftur og aftur
Ég og frúin höfum undanfarin tvö kvöld verið föst fyrir framan skjáinn og horft á framhaldsmynd mánaðarins á Stöð 2. Það eru ár og dagar síðan við höfum horft á slíkar gæðamyndir sem eru víst ætíð sýndar í tveimur hlutum og sitthvorum megin við gjalddaga áskriftar.
Nútímaþrælahald
En hvað um það. Efni framhaldsmyndar þessa mánaðar var um mansal. Dregnar voru upp skelfilegar aðstæður þolenda mansals, hvort sem þeir voru börn á Fillipseyjum eða austur-evrópskar stúlkur í leit að betra lífi. Bent var á að mansal væri ört vaxandi vandi um allan heim enda væri hægt að selja börn og konur aftur og aftur á sama tíma og grammið af eiturlyfjum væri bara hægt að selja einu sinni.
Mansal er nútímaþrælahald sem við verðum öll að berjast gegn. Það þarf ekki síst að vinna gegn eftirspurninni sem kallar því miður á æ meira framboð. Mikilvægt er að hafa í huga að mansal er hin hliðin á vændi. Þetta tvennt helst í hendur.
5 baráttur að tapast
Það hefur alltaf verið mér minnistætt þegar ég las einhvers staðar að maðurinn væri að tapa 5 baráttum. Baráttan gegn fíkniefnum, baráttan gegn ólöglegri vopnasölu, baráttan gegn peningaþvætti, baráttan gegn broti á höfundarétti og síðast en ekki síst baráttan gegn mansali sem er hvað ógeðfelldast af þessu öllu saman.
Það er oft vandratað í heimi hér. Mér hefði ekki komið það í hug en það sem þurfti til að heimsbyggðin áttaði sig á mikilvægi líffæragjafar var greinilega plat-raunveruleikaþáttur. Þátturinn sem sýndur var í hollensku sjónvarpi hefur vakið heimsathygli og firringin sem virðist einkenna nútímann gerði það að verkum að fólk var tilbúið að trúa því að þetta væri raunverulegt.
En það er eins með þennan mikilvæga málstað eins og svo marga aðra að það er ekki auðvelt að vekja athygli á honum. Ég vona að þessi plat-uppákoma í Hollandi verði til þess að líffæragjöf komist almennilega í umræðuna hér á landi. Þó að líffæragjöf sé í sumum tilfellum viðkvæmt mál þá er það einnig sterkur punktur sem fram kom í viðtali við lækni einn í fréttum Sjónvarps að þeir sem eru tilbúnir að taka við líffærum annarra ættu að vera sjálfir tilbúnir að láta sín líffæri þegar svo ber undir.
Ég hef tvívegis lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að upplýsingar um vilja til líffæragjafa komi fram í ökuskírteininu hjá fólki. Fyrir mörgum er þetta einfalt mál og ég er sannfærður um að það yrði mikli aukning á framboði af líffærum sem bjargað gætu óteljandi mannslífum ef þetta yrði gert mögulegt. Það er einfaldlega of hár þröskuldur fyrir fólk að þurfa að sækja um og bera á sér sérstakt skírteini um að þeir séu líffæragjafar.
Þetta er ekki flokkspólitískt mál frekar en fyrningarmálið. Þetta er bara skynsamleg og eðlileg leið til að draga úr þjáningu og gefa fleirum kost á góðu lífi.
4.6.2007 | 16:19
Bestu árin
Þeir eru margir sem halda því fram að menntaskólaárin séu bestu ár ævinnar. Á laugardagskvöld hitti ég marga góða vini og félaga úr Menntaskólanum í Reykjavík þegar við hittumst í tilefni af því að 10 ár voru liðin frá útskrift úr skólanum. Og það var ótrúlega skemmtilegt að hitta aftur bekkjarfélagana úr náttúrufræðideildarbekknum en suma þeirra hafði ég ekki hitt í mörg ár. Það var ekki síður skemmtilegt að heyra hvað fólk er að fást við. Eðli málsins samkvæmt eru þeir nokkrir læknarnir og verkfræðingarnir í bekknum og nokkrir sem enn eru erlendis í námi. Bekkurinn hefur líka verið nokkuð iðinn þegar kemur að barneignum.
Í upphafi kvöldsins voru höfð mörg orð um það hvað fólk hafði lítið breyst og við vorum eiginlega öll á því að bekkjarfélagarnir væri eins eftir öll þessi ár. En eftir að myndband var sýnt úr útskriftarferð árgangsins mátti glögglega sjá að sú fullyrðing átti ekki alveg við rök að styðjast. Þar mátti sjá fríðan en mjög barnalegan hóp, sem þó stóð sennilega í þeirri trú að mannskapurinn væri ekkert minna en rígfullorðinn. Áratug seinna hafa margir aðeins bætt á sig, fengið velmegunarvömb og einhverjir teknir að grána.
Baldvin Þór Bergsson fréttamaður á Ríkissjónvarpinu var ræðumaður kvöldsins og rifjaði upp góðar stundir úr MR. Ræða hans var góð og niðurstaða hans var einmitt sú að árin í Menntaskólanum væru líkast til með þeim skemmtilegri á ævinni.
Ég kunni alltaf vel við mig í MR. Mér finnst skólinn sjarmerandi og þær eru skemmtilegar hefðirnar sem þar lifa góðu lífi. Dætur okkar Þorbjargar hafa fengið mátulega hlutlaust uppeldi og Elísabet Una eldri dóttir okkar, sem nýlega er orðin 5 ára, sagði við okkur foreldrana um daginn: Áður en maður byrjar í Háskólanum, þá fer maður í MR.
2.6.2007 | 15:04
Blaðið í dag
Í helgarblaði Blaðsins sem kom út í dag er viðtal við mig. Þar fer ég m.a. yfir atburði undanfarinna daga ásamt forgangsröðuninni í pólitíkinni, hinu rætna umtali, fjölskyldumálunum og því sem mér finnst að pólitík eigi að snúast um.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Málin mín á Alþingi
- Afnám fyrningar í kynferðisafbrotum gegn börnum
- Óháðar rannsóknarnefndir
- Lögfesting Barnasáttmála
- Löggjöf um heimilisofbeldi
- Auglýsingar heilbrigðisstétta
- Sérdeild fyrir unga fanga
- Vernd heimildarmanna fjölmiðla
- Líffæragjafir í ökuskírteinum einstaklinga
- Rannsaka þunglyndi eldri borgara
- Sendiráð ESB á Íslandi
- Mistök í heilbrigðiskerfinu
- Fleiri þingmál
Eldri færslur
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004
- September 2004
- Ágúst 2004
- Júlí 2004
- Júní 2004
- Maí 2004
- Apríl 2004
- Mars 2004
- Febrúar 2004
- Janúar 2004
- Desember 2003
- Nóvember 2003
- Október 2003
- September 2003
- Ágúst 2003
- Júlí 2003
- Júní 2003
- Maí 2003
- Apríl 2003
- Mars 2003
- Febrúar 2003
- Janúar 2003
- Nóvember 2002
- Október 2002
Af mbl.is
Póstlisti
Skráðu netfang þitt hér að neðan.
Fólk
- - -
-
Litla fjölskyldan
Breiðfylking jafnaðarmanna
Mikilvægar stofnanir
Hagfræðin
-
Joseph Stiglitz
-
John Kay
-
Paul Krugman
-
Þorvaldur Gylfason
-
Ásgeir Jónsson
-
Tímaritið Economist
-
Seðlabanki Íslands
-
Rannsóknarmiðstöð um efnahagsmál
-
Ríkiskassinn
-
Hagstofan
Lögfræðin
Atvinnulífið
-
Alþýðusambandið
-
Viðskiptaráð Íslands
-
Samtök atvinnulífsins
-
Samtök iðnaðarins
-
Félag kvenna í atvinnurekstri
-
Samtök sprotafyrirtækja
-
Félag íslenskra stórkaupmanna
-
Samtök verslunar og þjónustu
-
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins
-
Impra nýsköpunarmiðstöð
Evrópusamstarf
Hjartans mál
Bloggvinir
- almapalma
- andri
- husmodirivesturbaenum
- arnalara
- ahi
- gusti-kr-ingur
- alfheidur
- arniarna
- asarich
- astan
- heilbrigd-skynsemi
- baldurkr
- bardurih
- kaffi
- bjarnihardar
- masterbenedict
- bleikaeldingin
- salkaforlag
- bryndisfridgeirs
- calvin
- charliekart
- rustikus
- dagga
- deiglan
- dofri
- egill75
- egillg
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- ernafr
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- vinursolons
- ea
- fanney
- arnaeinars
- gesturgudjonsson
- gislihjalmar
- grumpa
- gudni-is
- gudbjorgim
- gudfinnur
- mosi
- gummiogragga
- orri
- gudridur
- gudrunmagnea
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- coke
- gunnlaugurstefan
- gylfigisla
- holi
- hallurg
- handtoskuserian
- smali
- hannesjonsson
- hhbe
- haukurn
- heidistrand
- heidathord
- latur
- hlf
- tofraljos
- hildajana
- hildurhelgas
- hinrik
- kjarninn
- hlekkur
- hrafnhildurolof
- hrannarb
- hreinsi
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hoskuldur
- hoskisaem
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- jara
- iagustsson
- ingo
- id
- jensgud
- jenni-1001
- joik7
- johannst
- skallinn
- joneinar
- joningic
- joninaros
- drhook
- jonthorolafsson
- juliaemm
- julli
- juliusvalsson
- komment
- killerjoe
- hjolaferd
- kjoneden
- kiddirokk
- kristjanmoller
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- presleifur
- korntop
- matti-matt
- mortenl
- olimikka
- omarminn
- pallieinars
- pallkvaran
- pallijoh
- palmig
- robertb
- salvor
- xsnv
- fjola
- sigfus
- siggikaiser
- sigurjonsigurdsson
- stebbifr
- fletcher
- steindorgretar
- ses
- pandora
- kosningar
- svanurmd
- svenni
- saethorhelgi
- sollikalli
- thelmaasdisar
- tidarandinn
- tommi
- unnar96
- sverdkottur
- valdisa
- overmaster
- valgerdurhalldorsdottir
- valsarinn
- vefritid
- vestfirdir
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- steinibriem
- skrifa
- thordistinna
- thorirallajoa