Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Of vægir dómar en þó jákvæð þróun

Nýfallinn héraðsdómur fyrir nauðgun á barnapíu er merki um að nauðungardómar séu að þyngjast eilítið. Slíkt er fagnaðarefni í sjálfu sér þótt flestum finnist dómar fyrir kynferðisbrot enn vera allt of lágir. Dómar fyrir kynferðisbrot hafa í gegnum tíðina verið of vægir á Íslandi en það að nauðgunardómar séu að þyngjast hægt og bítandi er jákvæð þróun.

Löggjafinn hefur sent þau skilaboð til dómstólana að nauðgun er mjög alvarlegur glæpur, svo alvarlegur að hann getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Dómstólum ber að virða þann vilja löggjafarvaldsins. Auðvitað veit ég að þungir dómar eru ekki einhver allsherjarlausn en dómarnir þurfa að vera sanngjarnir og réttlátir.

Að mínu mati þarf ekki einungis að vera samræmi á milli dóma fyrir sömu brot heldur þarf einnig að vera eitthvert samræmi á þyngd dóma milli brotaflokka. Slíkt samræmi er ekki fyrir hendi. Nægir að líta til hinna þungu fíkniefnadóma annars vegar og hins vegar á dómana fyrir kynferðisbrot. Þessi dómaframkvæmd er ekki í samræmi við réttlætiskennd almennings.

Undanfarin ár höfum við tekið mörg jákvæð skref í þessum málaflokki. Skilgreiningin á nauðgun hefur m.a. verið víkkuð út þannig að nú er ofbeldi eða hótun ekki lengur skilyrði fyrir því að hægt sé að telja verknaðinn vera nauðgun. Þá telst það nú vera nauðgun að þröngva vilja sínum gagnvart rænulausum einstaklingi.

Í umræddum héraðsdómi er sérstaklega talað um að brotið hafi verið gegn sjálfsákvörðunarrétti, athafnafrelsi og friðhelgi stúlkunnar sem verður að teljast vera frekar ný og jákvæð nálgun hjá íslenskum dómstóli. Við eigum að líta á nauðganir sem mjög alvarleg brot á kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins.

Þessi mál snúast hins vegar ekki einungis um lög og dóma. Það þarf einnig að fjölga þeim málum sem fara í gegnum kerfið og tryggja fræðslu og skilvirkan stuðning við þolendur kynferðislegs ofbeldis. Að mínu mati er þessi málaflokkur miklu mikilvægari en margt annað.


Listi yfir nokkur verk ríkisstjórnarinnar

Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hverju ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á tæpu ári hefur áorkað eða ákveðið að gera. Neðangreindur listi ætti að gefa einhverja hugmynd um það en auðvitað er svona listi ekki tæmandi og enn er margt ógert.  

1.    Skattleysismörkin hækkuð um 20.000 krónur fyrir utan verðlagshækkanir

2.    Skerðing tryggingabóta vegna tekna maka afnumin

3.    Afnám 24 ára reglunnar í útlendingalögunum

4.    Afnám komugjalda á heilsugæslu fyrir börn

5.    Skerðingarmörk barnabóta hækkuð um 50%

6.    Hámark húsaleigubóta hækkað um 50%

7.    Eignaskerðingarmörk vaxtabóta hækkuð um 35%

8.    Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur

9.    Stórbætt kerfi fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra

10.  Breytt tekjuviðmið í fæðingarorlofslögunum

11.  Ný jafnréttislög sett

12.  Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt

13.  Húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti fyrir 35 ára og yngri

14.  Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga að fullu afnumin.

15.  Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67-70 ára hækkað í 100 þúsund krónur á mánuði

16.  Dregið verður úr of- og vangreiðslum tryggingabóta

17.  Vasapeningar vistmanna á stofnunum hækkaðir um 30%

18.   Ellilífeyrisþegar verði tryggt að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði

19.  Aðgerðir sem skila öryrkjum sambærilegum ávinningi verða undirbúnar í tengslum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu.

20.  Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignasparnaðar afnumin

21.   Námslánakerfið verður yfirfarið með aukið jafnræði að markmiði

22.  Skattar á fyrirtæki lækkaðir

23.  Atvinnuleysisbætur verða tryggðar hækkun

24.  Framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu aukin

25.  Þreföldun á fjármagni í heimahjúkrun á þremur árum

26.  Skoðað hvort lágmarksframfærsluviðmið verði sett í almannatryggingarkerfið

27.  50% aukning á fjármagni í Fjármálaeftirlitið á milli ára

28.  60% aukning á fjármagni í Samkeppniseftirlitið á 2 árum

29.  25% aukning á fjármagni í Umboðsmann Alþingis á milli ára

30.  Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggð á fjárlögum

31.  Aðgerðir gegn kynbundnum launamun boðaðar

32.  Ýtt undir nýja atvinnulífið m.a. með umhverfisvænum en orkufrekum iðnaði

33.  Hafin vinna við rammaætlun um umhverfisvernd

34.  Tæplega helmingsaukning á fjármagni til samgöngumála milli ára

35.  40 milljarða króna afgangur af ríkissjóði af fyrstu fjárlögunum sem Samfylkingin á aðild að.


Góðar undirstöður í fjármálalífinu

Það skiptir íslenskt hagkerfi miklu máli að íslensku bönkunum farnist vel. En nú er ljóst að blikur eru á lofti í fjármálalífi þjóðarinnar. Ég hef áður ritað á þessum vettvangi að ég telji að Íslendingar hafi eignast nýjan undirstöðuatvinnugrein sem er fjármálageirinn. Framlag fjármálageirans til verðmætasköpunarinnar í samfélaginu er núna meira en samanlagt framlag sjávarútvegs, landbúnaðar og álframleiðslu.

Þess vegna er hið síhækkandi skuldatryggingarálag á íslensku bankana áhyggjuefni en það svarar til þess að vextir hafi verið hækkaðir allverulega á íslenska atvinnustarfsemi.

Fimm Landspítalar fyrir hagnaðinn
En í þessu umróti alþjóðlegs samdráttar megum við ekki gleyma því að undirstöðurnar eru tryggar. Íslensku bankarnir eru vel reknir en hagnaður þeirra fjögurra stærstu var í fyrra um 155 milljarðar króna. Þessi fjárhæð er fimmfaldur árlegur rekstrarkostnaður Landspítalans.

Heildareignir bankanna voru í árslok um 12.000 milljarðar króna sem er um tíföld landsframleiðslan. Eignir bankanna eru meira en 20 sinnum hærri en það sem íslenska ríkið veltir. Þessar tölur sýnar vel styrkleika íslenska bankakerfisins.

Íslenskt hagkerfi er einnig á traustum grunni. Ísland er sjötta ríkasta þjóð í heimi. Við erum með eitt besta lífeyrissjóðskerfi í heimi. Ríkissjóður er gott sem skuldlaus og afgangur á ríkissjóði í fyrra var um 80 milljarðar. Samkvæmt fjárlögum ársins í ár á afgangurinn að vera 40 milljarðar. Við höfum aldrei áður séð slíkar tölur í ríkisfjármálum þjóðarinnar.

Lækkun skatta
Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru hins vegar mjög meðvituð um að staðan getur verið viðkvæm. Nýlegir kjarasamningar voru þó afar jákvæð skref í átt að meiri stöðugleika og jöfnuði í samfélaginu. Aðgerðir stjórnarflokkanna í tengslum við kjarasamningana eru mikilvæg aðgerð í efnahagsmálum og á að stuðla að meiri bjartsýni á fjármálamarkaðinum.

Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar felast m.a. í því að lækka skatta á fyrirtæki, afnema stimpilgjöld fyrir fyrstu kaupendur og koma á fót sérstöku húsnæðissparnaðarkerfi fyrir ungt fólk. Endurskoðun á vörugjöldum og tollum er einnig mikilvægt skref til að auka verslunarfrelsi. Viðskiptanefnd þingsins er sömuleiðis nýbúin að afgreiða frá sér frumvarp um sérvarin skuldabréf sem mæta vel þörfum viðskiptalífsins.

Gerum Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð
Þá hefur ríkisstjórnin gefið út að hún muni stuðla að bættri upplýsingagjöf og betri ímynd íslenska hagkerfisins á erlendri grund. Slík vinna skilaði talsverðum árangri síðast þegar það var gert. 

Ég tel rétt að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks einhendi sér í gerð tillagna að Ísland verði að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Markmiðið á að vera að gera Ísland samkeppnishæfasta samfélagi í heimi en á því hagnast bæði fólk og fyrirtæki.


Hvað fela aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sér?

Það er ástæða til að fagna undirritun á kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekkert eins mikilvægt fyrir almenning í landinu og einmitt stöðugleiki og lág verðbólga. Þessir kjarasamningar munu vonandi eiga sinn þátt í endurheimta jafnvægi og jöfnuð hér á landi. Einn af forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar sagði nýlega: „Aldrei hafa lægstu laun verið hækkuð jafnmikið“.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga eru sömuleiðis afar mikilvægar þótt þær standi í mínum huga sem sjálfstæðar pólitískar aðgerðir sem auka lífskjör í landinu til muna. Þessar aðgerðir gagnast öllum landsmönnum en þó miðast þær fyrst og fremst að fólki með meðaltekjur í landinu, barnafólki og ungum einstaklingum.

Hækkun skattleysismarka og stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur
Ríkisstjórnin mun verja um 20.000 milljónum kr. í þessar aðgerðir og því sambandi hafa nokkur atriði meginþýðingu.

Fyrst ber að nefna að skattleysismörkin verða hækkuð um 20.000 krónur fyrir utan verðlagshækkanir. Þetta er eitt þýðingarmesta atriðið. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50% sem mun hafa mikil áhrif til góðs fyrir fjölskyldufólk í landinu. Hámark húsaleigubóta verður hækkað um 50%.

Stimpilgjöld verða afnumin fyrir fyrstu kaupendur sem mun hafa mikið að segja, enda eru þessi gjöld fyrstu kaupendum oft þungur baggi. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35% og námslánakerfið verður yfirfarið með aukið jafnræði að markmiði.
 
Lágmarksframfærsluviðmið sett
Lengi hefur verið kallað ef því að sett verði  lágmarksviðmið í framfærslu í almannatryggingarkerfinu og nú verður hafist handa við þá vinnu. Þá verður komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti fyrir 35 ára og yngri til að hvetja til sparnaðar hjá fyrstu kaupendum.

Þá verða skattar á fyrirtæki lækkaðir, atvinnuleysisbætur verða tryggðar hækkun og framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu aukin.

Lækkað verðlag
Að mínu viti snýst kjarabarátta ekki einungis um að hækka laun. Ekki er síður mikilvægt að bæta kjör almennings með því að hafa jákvæð áhrif á verðlag og það er mínu viti afar mikilvægt að stjórnvöld hafi þessa hlið kjarabaráttunnar einnig að markmiði.

Nú er kastljósinu beint að vöruverði í landinu og verða vörugjöld og tollar sérstaklega skoðuð í því sambandi. 

Einnig eldri borgarar og öryrkjar
Fyrir jól kynnti ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks umfangsmiklar kjarabætur fyrir eldri borgara og öryrkja. Þá var m.a. ákveðið að afnema skerðingu bóta vegna tekna maka, hækka frítekjumark og draga úr of- og vangreiðslum bóta.

Almannahagsmunir eru í öndvegi hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Sú staðreynd að tveir sterkir flokkar hafi tekið saman höndum hefur leitt af sér möguleika til þess að taka stóra málaflokka, sem oft á tíðum eru taldir þungir, til endurskoðunar. 


Okurbúllan Ísland

Enn á ný fáum við fréttir að Ísland er okurbúlla. Nýjar upplýsingar frá Hagstofu Íslands sýna samanburð á landsframleiðslu og verðlagi í ríkjum Evrópu. Ísland er í sjötta sæti hvað varðar landsframleiðslu en er með hæsta verðlagið.

Svona samanburður á verðlagi annars vegar og landsframleiðslu hins vegar er talinn geta gefið ágætar vísbendingar um lífskjörin. Í þessum samanburði kemur Ísland ekki sérlega vel út, miðað við nágrannalöndin, og þetta staðfestir að verðlagið hér á landi er óþarflega hátt.

Ég hef ítrekað talað fyrir því að eitt stærsta baráttumál almennings í þessu landi er lægra verðlag. Neytendamálin eru fyrst núna, hjá þessari ríkisstjórn, að nálgast þann sess sem þau eiga skilið. Hér þurfa almannahagsmunir að ríkja og sérhagsmunir að víkja.


mbl.is Matur og drykkur 64% dýrari en í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu mörg börn fara ekki til tannlæknis?

Auðvitað er það alvarlegt ef börn fara ekki til tannlæknis. Og auðvitað er það svolítið sérkennilegt að munnurinn sé undanskilinn hinu opinbera heilbrigðiskerfi þegar kemur að fullorðnu fólki. Fyrir nokkru lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi um hversu mörg börn fara ekki til tannlæknis. Þetta var mjög áhugaverð spurning að mínu mati og á vel við núna þegar heilmikil umræða er í gangi um tannheilsu íslenskra barna.

Svörin voru mjög áhugaverð.

Þar kom m.a. í ljós að 8.500 börn á aldrinum 3-17 ára höfðu ekki farið til tannlæknis í 3 ár.

Einnig kom í ljós að um 2.000 börn á aldrinum 6-17 höfðu ekki farið til tannlæknis í 5 ár.

Þá höfðu um 800 börn á aldrinum 9-17 ekki farið til tannlæknis í 7 ár. Þetta er langur tími án þess að hafa farið til tannlæknis.

Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessum tölum en ein af þeim hlýtur að vera efnahagur fjölskyldunnar. Ljóst er að hið opinbera greiðir aðeins hluta af þeim kostnaði sem fjölskyldur verða fyrir þegar barn fer til tannlæknis.

Við verðum því að gera það ódýrara fyrir fjölskyldur að fara með börn sín til tannlæknis. Það er því sérstakt fagnaðarefni að kosningaloforð Samfylkingarinnar um auknar niðurgreiðslur í tannvernd barna hafi bæði ratað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í samþykkta aðgerðaráætlun fyrir börn og ungmenni.


mbl.is Fleiri þriggja ára börn til tannlæknis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband