Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Að vilja sigra, keppa og skapa

Mér finnst margt merkilegt við hagfræðikenningar Austurríkismannsins, Joseph A. Schumpeter (1883-1950). Hugmyndir Schumpeter fólust fyrst og fremst í mikilvægi frumkvöðla og tækniframfara fyrir hið lifandi hagkerfi. Einnig lagði Schumpeter áherslu á nýjar leiðir í hagkerfinu og endurnýjun viðskiptahátta og atvinnugreina. Kenningar Schumpeter urðu fyrst þekktar meðal almennings þegar þær voru settar í samhengi við hið svokallaða nýja hagkerfi.

Skapandi niðurbrot
Hjá Schumpeter er frumkvöðullinn lykilmaður í þróun efnahagslífisins. Frumkvöðullinn stuðlar að ójafnvægi sem felst í breytingum í hagkerfinu. Í raun hafnaði Schumpeter hugmyndinni um jafnvægi hagkerfisins, þess í stað talaði hann um síbreytilegt ójafnvægi (dynamic disequilibrium). Hann taldi að frumkvöðlar stæðu fyrir nýjungum sem leystu út svokallaða skapandi niðurbrot (creative destruction) sem þvingaði aðila markaðarins til að aðlagast eða deyja út.

Skapandi niðurbrot er hugtak sem Schumpeter bjó til og með því er átt þá orku sem lætur kapítalismann eða markaðsbúskapinn hreyfast áfram. Sá sem knýr orkuna áfram er frumkvöðullinn. Schumpeter taldi að frumkvöðull ætti draum og hefði vilja til að finna sitt eigið konungsdæmi og hefði vilja til að sigra, keppa og skapa.

Kyrrstæður kapítalismi er þversögn
Schumpeter taldi að ferli skapandi niðurbrots breytti hagkerfinu innan frá og braut eldri skipan hagkerfisins niður með nýrri. Hann bætti því við að ferlið myndi valda vexti í efnahagslífinu, enda væri kyrrstæður kapítalisimi þversögn í sjálfum sér.

Schumpeter fjallaði einnig um áhrif skattalaga og ríkisútgjalda á hegðun einstaklinga. Hann skoðaði hvort skattlagning hefði áhrif á framfarir í efnahagslífinu og hvata einstakinga. Hann vissi að skattar geta haft letjandi áhrif á einstaklinga og vildi því lága skatta til að efla frumkvöðlahegðun. Sveigjanleiki á vinnumarkaði er nauðsynlegur og frumkvöðlar og fjárfestar þurfa að vera reiðbúnir að taka áhættu í því umhverfi sem yfirvöld skapa.

Nýja hagkerfið
Þegar rætt er um nýja hagkerfið er Joseph Schumpeter oft nefndur. Áherslur Schumpeter virðast eiga merkilega vel við þá þróun sem hefur orðið undanfarin 15 ár. Nýja hagkerfið er fráhvarf frá iðnaðarsamfélaginu til upplýsingarsamfélagsins. Þar er frumkvæði oft á tíðum verðmætara en reynsla, og upplýsingar eru verðmætari en peningar.

Þetta á mjög vel við hugmyndir Schumpeter sem taldi nýjungagirni frumkvöðla mikilvægasta aflið í hagkerfinu. Hann taldi það mun mikilvægara að fá góða viðskiptahugmynd heldur en að hafa mikið vinnuafl, land eða fjármagn og hann brýndi fyrir mönnum að þeir ættu að leggja fé í rannsóknir og þróun til að stuðla að tækniframförum.


Hver verður mannréttindabarátta framtíðarinnar?

Friðhelgi einkalífs og persónuvernd eru ein mikilvægustu réttindi sem hægt er að hugsa sér. Auðvitað eru ýmis önnur réttindi einnig afar mikilvæg s.s. rétturinn til öruggs samfélags. Oft takast sjónarmiðin að baki þessara réttinda á. Hér fyrir neðan má finna grein eftir mig sem birtist í nýútkomnu afmælisriti Persónuverndar en nú eru 25 ár liðin síðan fyrsta löggjöfin um meðferð persónuupplýsinga var sett.:

"Mannréttindaumræða framtíðarinnar mun að verulegu leyti snúast um persónuréttindi og friðhelgi einkalífsins. Tæknin mun enn frekar auðvelda yfirvöldum, einstaklingum og fyrirtækjum að fylgjast með borgurunum. Frekari skráning á háttsemi og rafræn slóð hegðunar gerir enn meira eftirlit en nú er reyndin að möguleika.

Mörgum grundvallarspurningum þarf að svara í þessu sambandi og því má halda fram með rökum að þungamiðjan liggi í því hvar mörkin milli persónuréttinda annars vegar og hins vegar aukins eftirlits, betri verndar eða jafnvel betri þjónustu eigi að vera. Því sannarlega fylgja aukinni tækni ekki aðeins hættur heldur einnig mikil tækifæri.

Viðskiptalífið virðist vera orðið meðvitað um tækifærin sem í tækninni felast.  Kaup á vörum á Netinu gera fyrirtækjum kleift að skrá kaup neytenda með markvissum hætti og markaðssetja aðrar vörur gagnvart viðkomandi kaupanda. Það getur verið hentugt fyrir neytendur að þiggja sértækar upplýsingar um vörur sem eru á þeirra áhugasviði. Önnur hlið á skráningum sem þessum er svo sú staðreynd að fyrirtæki eru sum hver farin að fylgjast með starfsfólki og jafnvel vakta það með aðstoð tækninnar.

Þegar óttinn tekur völdin
Í þessu felast hins vegar ekki einungis tækifæri fyrir fyrirtæki og atvinnulíf heldur einnig stjórnvöld. Eftir árásina á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 hafa fjölmörg vestræn ríki tekið verulega varhugaverð skref sem þrengja með einum eða öðrum hætti að persónuréttindum þegna sinna.

Það virðist enda vera svo að stuðningur við mannréttindi minnki mjög þegar að óttinn tekur völdin og stjórnvöld hafa mörg hver þrengt að mannréttindum borgaranna með stuðningi og samþykki almennings. Aðgerðir sem þessar eru ætíð réttlættar með tilvísun í almannahagsmuni.

Hryðjuverkaógnin og hættan af skipulagðri glæpastarfsemi er nánast undantekningarlaust sögð gera að verkum að nauðsynlegt hafi verið að þrengja að rétti borgaranna.

Sagan sýnir að ríki hafa alltaf brotið rétt á þegnum sínum með þessum réttlætingum og oft á tíðum hefur því fylgt góður hugur. Í því felst ekki síst hættan, að það er ekki svo að unnt sé að halda því fram að stjórnvöldum gangi illt til í öllum tilvikum. Nálgunin er jafnvel á þá leið að í reynd sé verið að auka mannréttindi fólks með því að stuðla að betra öryggi þeirra.

Hvað hafa íslensk stjórnvöld gert?
Íslensk stjórnvöld eru vissulega engin undantekning í þessu sambandi og nýleg dæmi benda til þess að umræðan um hryðjuverkaógn hefur haft nokkur áhrif hér á landi. Full ástæða er til að vera meðvitaður um það við hvaða aðstæður stjórnvöldum hættir til að veitast að mannréttindum þegnanna og aftur er ástæða til að árétta að oft á tíðum er það gert af góðum hug. 

Greiningardeild lögreglu rannsakar áður en afbrot er framið
Stjórnvöld settu nýlega á fót svokallaða greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Þessi greiningardeild á m.a. að rannsaka afbrot áður en þau eru framin með svokölluðu áhættumati og forvarnarvinnu. Þegar málið var til umræðu hjá Alþingi fengust litlar upplýsingar um það hvernig slík vinna ætti að fara fram og eftir hvaða aðferðarfræði hin nýja deild myndi starfa.
 
Í frumvarpinu með áðurnefndum lagabreytingum voru einnig boðaðar auknar heimildir til handa lögreglu til að sinna þessari vinnu og sagði  m.a: ,,Lagaákvæði um greiningardeild tryggja að þannig sé um hnúta búið hér að þeir sem falið er að gæta öryggis borgaranna hafi sambærilegar lögheimildir og starfsbræður þeirra erlendis til að sinna störfum sínum.“

Eftir stendur hins vegar að ekki hefur reynst unnt að fá svör við því hvers konar heimildar eru boðaðar eða til hvaða erlendra starfsbræðra er vísað. Það eru vitaskuld grundvallarspurningar sem snerta mikilsverða hagsmuni á borð við persónuréttindi og friðhelgi einkalífs.

Falun Gong
Fleiri dæmi má nefna sem lúta að þessu umfjöllunarefni. Stjórnvöld gengu að mati margra alltof langt á réttindi borgaranna þegar félagsmenn í Falun Gong ætluðu að koma til landsins. Margvíslegar takmarkanir voru settar á ferða- og fundafrelsi einstaklinga.

Aðgerðir stjórnvalda voru allar réttlættar með tilvísun í almannahagsmuni en forsendur þess verða að teljast hæpnar í því tilviki.

Frumvarp um símhleranir án dómsúrskurðar
Lagt var fram frumvarp sem fól í sér heimildir til símhlerana án dómsúrskurðar en efast má um að slíkar heimildir samrýmist þeim hugmyndum sem liggja að baki friðhelgi einkalífs og öðrum persónuréttindum.

Frumvarpið var hins vegar ekki samþykkt en því var m.a. haldið fram að samþykkt þess myndi stuðla að betri árangri í baráttunni við glæpastarfsemi. 

Afhending IP-tölu án dómsúrskurðar
Stjórnvöldum hafa hins vegar farið þá leið að heimila afhendingu á  á svokölluðum IP-tölu úr tölvum án þess að fyrir liggi dómsúrskurður. IP-tala þjónar þeim tilgangi að segja til um staðsetningu tölvu.

Áður hafði dómsúrskurður verið forsenda þess að unnt var að fá slíkar upplýsingar afhentar.

Skerðingar í útlendingalögunum
Nýlegar breytingar á útlendingalögum hafa einnig vakið upp spurningar um persónuréttindi einstaklinga.

Má þar nefna hinar svokölluðu 24 ára reglu og 66 ára reglu en þessar reglur koma í veg fyrir að fjölskyldumeðlimir sem eru á tilteknum aldri geti sameinast á grundvelli hjúskapar- eða fjölskyldutengsla.

Eftirlit með stjórnvöldum mikilvægt
Í þessu sambandi mæðir vitaskuld mjög á þá aðila sem bærir eru til þess að fylgjast með aðgerðum stjórnvalda.

Persónuvernd hefur ítrekað gert athugasemdir við frumvörp sem koma frá stjórnvöldum. Póst- og fjarskiptastofnun ákvað að gefa út leiðbeinandi reglur um þær ráðstafanir sem hún telur eðlilegt að fjarskiptafyrirtækin geri til að tryggja öryggi upplýsinga og þjónustu í almennum fjarskiptanetum.

Er þetta gert með vísan til þessa lögboðna hlutverks stofnunarinnar að gæta hagsmuna almennings, með því að vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs og tryggja að heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið.

Ástæða til að staldra við
Það er mínu mati ástæða til að staldra við, enda er afar mikilvægt að stjórnvöld, fyrirtæki og viðskiptalíf, sem og almennir borgarar, séu meðvitaðir um mikilvægi þeirra réttinda sem eru í húfi.
 
Á hvaða leið eru íslensk stjórnvöld í þessum efnum? Friðhelgi einkalífs er meðal mikilvægustu grundvallarmannréttinda.

Við megum ekki skilyrðislaust samþykkja skerðingu á mannréttindum, þó að þær röksemdir sem liggi til grundvallar skerðingu þeirra kunni að hljóma sannfærandi. Óttinn er ekki góður vegvísir í þessum efnum, frekar en öðrum. Frelsið fer sjaldnast í einu vetfangi heldur skerðist það hægt.

Það er hárfín lína á milli aukinnar verndar annars vegar og hins vegar skerðingar á persónufrelsi. Og mannréttindabarátta framtíðar mun sennilega verða háð um það hvar réttlætanlegt er að draga mörkin í því sambandi. "


Stærri en Adidas og Carlsberg

Í gær var ríkissjónvarpið með frétt um sterka stöðu fjármálafyrirtækjanna hér á landi. Af því tilefni endurbirti ég hér grein sem ég birti í Blaðinu á þriðjudaginn einmitt um þetta efni. Í þessari grein (og í annarri svipaðri sem ég birti í Mogganum fyrir nokkrum vikum) hafði ég m.a. ályktað að starfsmenn fjármálafyrirtækja væru orðnir fleiri en starfsmenn sjávarútvegsins. Það held ég að verði að teljast vera allnokkur tíðindi. En hér fyrir neðan má allavega finna greinina.

Sterk staða fjármálafyrirtækjanna

Nýlegar fréttir af hagnaði fjármálafyrirtækja eru áhugaverðar fyrir margra hluta sakir.  Hagnaðurinn er slíkur að erfitt er að fanga tölurnar. Þannig var hagnaður Kaupþings á fyrri hluta þessa árs um 47 milljarðar króna en til samanburðar mætti nefna að kostnaður við að reka Landspítalann er um 32 milljarðar og um 12 milljarða kostar að reka alla framhaldsskóla landsins á ári.

Stærri en Adidas og Carlsberg
Kaupþing er orðið stærra fyrirtæki heldur en heimsþekkt fyrirtæki á borð við íþróttaframleiðandinn Adidas og bjórframleiðandann Carlsberg. Þrír stærstu bankarnir hér á landi, Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn eru allir á lista yfir 1.200 stærstu fyrirtæki heims.

Ég hef leyft mér að álykta að Ísland hafi eignast nýja undirstöðuatvinnugrein sem er fjármálageirinn. Hlutdeild fjármálafyrirtækja til landsframleiðslu, þ.e. verðmætasköpunarinnar, nam um 9,3% á síðsasta ári sem er t.d. talsvert meira en hlutdeild sjávarútvegsins sem nam um 5,9% sama ár. Samanburðurinn sýnir glögglega að fjármálageirinn er íslensku þjóðinni afar mikilvægur.
Þetta er hæsta hlutfall á Norðurlöndunum og er hlutdeild íslenska fjármálageirans að nálgast sum sterkustu fjármálaríki heims, eins og Bandaríkin og Bretland.

Auknar skatttekjur afleiðing af velgengi bankanna
Í fyrsta skipti í Íslandssögunni vinna líklega fleiri núna í fjármálageiranum en í sjávarútvegi eða um 8.000 manns. Þetta eru störf sem langflest voru ekki til í íslensku atvinnulífi fyrir örfáum árum síðan.
Það er margt jákvætt samfara þessari miklu uppbyggingu íslensks fjármálalífs. Skatttekjur hins opinbera aukast með vaxandi stærð og hagnaði þessara fyrirtækja og þannig er unnt að styrkja mennta- og velferðarkerfið sem því nemur.

Uppbygging fjármálageirans hefur einnig leitt af sér að starfsmöguleikar Íslendinga hafa gjörbreyst og tækifærum ungs menntafólks til að starfa innanlands fjölgað allnokkuð.

Fjölbreytilegri atvinnumarkaður
Bankarnir  bjóða upp á störf sem fela í sér ótal tækifæri fyrir almenning og þessi störf eru ekki lengur einskorðuð við Ísland heldur er starfvettvangurinn heimurinn allur.

Bankarnir hafa breytt íslensku atvinnulífi nokkuð hvað varðar fjölbreytni starfa, en í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga nýleg störf í þekkingariðnaði og hátækni. Það er mikilvægt fyrir lítið land eins og Ísland þar sem margt ungt fólk sækir sér menntun erlendis, að atvinnumarkaðurinn sé aðlaðandi til þess að tryggja að menntafólkið skili sér heim að loknu námi.

Á íslenskum vinnumarkaði starfa nú um 160 þúsund manns en hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis starfa alls um 200.000 manns, langflestir útlendingar. Þetta er mikil breyting á tiltölulega fáum árum.

Staðreyndin er sú að það eru mörg tækifæri og spennandi möguleikar í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Útrás íslenskra banka er farin að vekja gríðarlega athygli og umfram það sem við Íslendingar hér heima gerum okkur oft grein fyrir. Og það er mikilvægt að stjórnvöld hafi skilning á þessu og stuðli að vænlegu starfsumhverfi fyrirtækja með sanngjörnu og hagstæðu starfsumhverfi fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra.

Erlend innrás verði markmið
Það eru líkast til ekki áhöld um það að útrás okkar Íslendinga gangi framar vonum. Næstu skref eru að mínu mati þau að stuðla að erlendri innrás fyrirtækja í íslenskt atvinnulíf.  Það er umhugsunarvert hversu fá erlend fyrirtæki hafa fest sig í sessi hér á landi. Skráning Century Aluminum á First North Iceland markaðinn í sumar var ánægjulegt skref en félagið er eina bandaríska fyrirtækið sem er skráð í kauphöll OMX á Íslandi.

Það er hlutverk okkar að skapa þær aðstæður að erlend fyrirtæki sjái kosti í því að starfa á Íslandi svo að tækifærunum fjölgi enn frekar, samkeppni aukist og verðlag lækki.

Það er baráttumál jafnaðarmanna um allan heim að auka tekjur og starfsmöguleika fólksins í landinu. Með því að hlúa vel að viðskiptalífinu er unnið að þessu markmiði.


Siðferði er hornsteinn mannlegra samskipta

Eitthvað er maður latari við að blogga að sumri til en á öðrum tíma. Vegna þessa birti ég hér grein mína sem birtist í nýútkomnu blaði útskriftarnema Háskólans á Bifröst um viðskiptasiðferði.  

"Siðferði er einn af mikilvægustu þáttum mannlegs samfélags og það skiptir ekki máli hvort sé litið til viðskipta, stjórnmála, menningar eða almennt til mannlegra samskipta. Siðferði þarf ætíð að vera í forgrunni. Siðferði eru hluti af leikreglum og í viðskiptalífinu skipta leikreglur öllu máli.

Þá á ég bæði við hinar skrifuðu leikreglur sem birtast í lögum og reglugerðum og hinar óskrifuðu sem byggjast á hefðum og jafnvel væntingum. Siðferði myndast oft á löngum tíma og venjur eiga stóran þátt í að mynda siðferði, sérstaklega viðskiptasiðferði.

Að dæma sig úr leik
Ég tel að það ríki ágætis viðskiptasiðferði á Íslandi enda er fólk fljótt að dæma sig úr leik ef það gerist brotlegt við siðferðisreglur markaðarins og samfélagsins. Orðspor er eitt það dýrmætasta sem nokkur einstaklingur eða fyrirtæki á og orðspor byggist fyrst og fremst á áliti annarra á fyrri verkum viðkomandi.

Auðvitað er eflaust hægt að finna dæmi um þar sem gildar siðferðisreglur og –venjur hafa verið brotnar í íslensku viðskiptalífi. Landlægur klíkuskapur er enn við lýði í viðskiptalífinu eins og er því miður enn í stjórnmálunum.

En vegna þessa skiptir svo miklu máli að ákvarðanir séu teknar með þeim hætti að þær séu rökstuddar og þoli dagsins ljós. Það á bæði við innan viðskiptanna og stjórnmálanna.

Stór hluti af siðferðilegri hegðun er að sýna samkvæmni. Athafnir, orð og jafnvel hugsanir viðkomandi einstaklings mega ekki rekast á. Það er einnig hluti af siðferði að láta eitt yfir alla ganga og þar á meðal sjálfan þig. Okkur ber að leyfa öðrum að gera það sama og okkur finnst siðferðilega verjandi að við gerum sjálf.

"Whistle-blowers"
Starfsmaður í viðskiptalífinu getur auðveldlega lent í siðferðilegri klemmu á milli trúnaðar við fyrirtæki sitt annars vegar og almannahagsmuna hins vegar. Hér á ég sérstaklega við svokallaða heimildarmenn eða "whistle-blowers".

Hér stangast á tvö grundvallarsjónarmið, annars vegar hollusta við fyrirtækið og virðing við undirritaðan trúnaðarsamning og hins vegar réttur og/eða skylda til uppljóstrunar. Flestir eru sammála um að ríkar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til að hægt sé að réttlæta brot á samningi um trúnað. Til að uppljóstrun geti talist vera siðferðislega verjandi og þar með leyfileg þurfa fjölmörg skilyrði að vera uppfyllt.

Upplýsingarnar þurfa m.a. að eiga erindi við almenning t.d. ef tiltekin vara eða hegðun fyrirtækis veldur starfsmönnum eða almenningi alvarlegum skaða. Þá þurfa þær að varða almannahagsmuni. Sumir telja að til að uppljóstrun sé siðferðilega réttlætanlega þurfi viðkomandi starfsmaður að hafa látið í ljós hinar siðferðilegu áhyggjur sínar innan hinna formlegu leiða fyrirtækisins.

Við þurfum að huga að þessari stöðu en í nágrannalöndunum er löggjöf sem tekur til heimildarmanna og uppljóstrara í viðskiptalífinu sem auðvitað gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðislegu samfélagi, en hérlendis er engin slík löggjöf.

Einangrað, snautt, andstyggilegt, ofbeldisfullt og stutt líf
Það geta því verið margar hliðar á viðskiptasiðferði en grundvöllurinn á bak við það eru hin klassísku markmið um jafnræði og sanngirni. Það eru þau fýsilegu markmið sem bæði einstaklingum og fyrirtækjum ber ætíð að stefna að.  Án jafnræðis og sanngirnis er hætt við að við líf mannanna verði í anda þess sem Thomas Hobbes lýsti sem ,,einangrað, snautt, andstyggilegt, ofbeldisfullt og stutt”."


« Fyrri síða

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband