Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Breiðholtið, Reykjanesbær og Akureyri

Það er ástæða til að óska Akureyringum til hamingju með áfangann. 17.000. Akureyringurinn er fæddur. En 17.000 Akureyringar er heilmikið og 12.100 íbúar Reykjanesbæjar sömuleiðis en sú staðreynd er vel auglýst á þar til gerðu skilti við Reykjanesbrautina.

En það er einnig fróðlegt að velta því fyrir sér að það eru hverfi í Reykjavík sem eru talsvert fjölmennari en þessi stóru bæjarfélög. T.d. búa um 21.000 manns í Breiðholtinu. Það eru fleiri en búa á öllu Eyjafjarðarsvæðinu og meira en helmingi fleiri en búa á öllum Vestfjörðum. Það búa einnig um 20.000 manns í Grafarvoginum og þar eru um 16 leikskólar.

Þessar staðreyndir eru hins vegar ekki mjög sýnilegar þegar kemur að landsmálapólitíkinni og umræðunni.

En Akureyri má vel við una og hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem öflugur valkostur við höfuðborgarsvæðið. Þar blómstrar fjölskrúðugt mannlíf í sátt við háskóla, leikhús, kvikmyndahús, veitingastaði, verslanir og fjölbreytt atvinnulíf. Að auki held ég að það sé samdóma álit flestra Íslendinga að Akureyri er með fallegri bæjum hér á landi. Akureyri er einnig einn af fáum kaupstöðum á landinu sem geta státað sig af einhverju sem mætti kalla miðbæ en af einhverjum ástæðum geta furðufá íslensk bæjarfélög gert það.


mbl.is Akureyringar orðnir ríflega 17.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti Ísland ekki að vera áfengislaust ef hátt verðlag á koma í veg fyrir neyslu þess?

Ég fagna þeirri umræðu sem nú er um áfengisverð. Þetta er viðkvæmt mál en löngu tímabært að hægt sé að ræða málið af yfirvegun. Við verðum að líta gagnrýnum augum á stöðu mála eins og hún er í dag. Íslendingar búa við eitt hæsta áfengisverð í heimi, háan áfengiskaupaaldur, takmarkað aðgengi að áfengi í gegnum sérstakar ríkisverslanir og bann við áfengisauglýsingum. Öll þessi skref hafa verið tekin með það að leiðarljósi að þau vinni gegn misnotkun á áfengi. Hins vegar sýnir reynslan okkur það að Íslendingar fara síst betur með áfengi en aðrar þjóðir og í raun þvert á móti. Eftir stendur að stefnan skilar ekki árangri.

Þeir sem að halda því fram að það sé ábyrgðarlaust að tala um lægra áfengisverð verða að geta svarað því hvaða tilgangi hátt áfengisverð þjónar og hvort að þeim tilgangi sé náð með hinu geysiháa verði.

Ef menn vilja nota verðlag til þess að stýra neyslu landans þá blasir það auðvitað við öllum þeim sem sjá vilja að verðlagið hefur ekki gert það á Íslandi. Og það blasir að sama skapi við að í öðrum löndum þar sem verðið er mun lægra er neysla ekki verri. Því þarf að rökstyðja hátt verð með öðrum rökum. Verð sem neyslustýringartæki eru einfaldlega ekki tæk rök í þessari umræðu.

Það er því rík ástæða til að endurskoða stefnu í áfengismálum. Og ég er mjög ánægður með að skynja að forystumenn flestra stjórnmálaflokka hafa tekið undir þessi sjónarmið. Það gera Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri  Grænna og einnig Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins.

Fjölmörg þingmál hafa verið lögð fram á Alþingi sem lúta að nauðsynlegum breytingum í þessum málaflokki. Eitt þessarra þingmála lýtur að lækkun áfengiskaupaaldurs niður í 18 ár en fyrsti flutningsmaður þess máls er núverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Meðflutningsmenn eru þrír aðrir ráðherrar, Einar K., Björgvin G. og Þórunn Sveinbjarnar, og þingmenn úr öllum þingflokkum Alþingis, m.a. úr VG. 

Það hefur einnig verið lagt fram þingmál sem gerir ráð fyrir afnáms einkasölu ÁTVR á léttvíni og bjór og lækkun áfengisgjaldsins. Fyrsti flutningmaður þess frumvarps er núverandi heilbrigðisráðherra,  Guðlaugur Þór Þórðarson, en með honum eru 13 aðrir þingmenn úr þremur flokkum.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að áfengisverðið sé allt of hátt. Opinber neyslustýring í gegnum verðlag virkar ekki, hvort sem litið er til áfengis eða gosdrykkja eða annarra neysluvara. Ef hátt verðlag ætti að koma í veg fyrir neyslu þá ætti Ísland bæði að vera áfengis- og gosdrykkjalaust. Veruleikinn eru hins vegar allt annar. 

Auðvitað eigum við að sporna gegn ofneyslu áfengis. Um það eru allir sammála. En okkur deilir e.t.v. um leiðirnar. Ég tel að öflugar forvarnir séu lykillinn í slíkri baráttu en ekki úreld bönn sem augsýnilega skila ekki tilætluðum árangri.


Varðhundar sérhagsmuna og íhaldssemi

Enn og ný fáum við staðfestingu á því að Íslendingar greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnarnar er að mínu viti endurskoðun á landbúnaðarkerfinu, m.a. með það fyrir augum að auka frelsi og lækka verð til neytenda. Þetta markmið kemur nokkuð skýrt fram í stjórnaráttmálanum. Ég er ánægður með þetta markmið okkar og einnig þá fullyrðingu að mikilvægt sé að "heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni." 
 
Kerfið er bændum óhagstætt
Það er mikilvægt að þessar breytingar séu gerðar þannig að þær verði ekki á kostnað bænda og ég trúi því að vel sé hægt að ná fram góðum breytingum án þess að svo þurfi að verða.  Það er hægt að styðja bændur með öðrum hætti en nú er gert. Og flestir held ég að séu sammála því að íslenskar landbúnaðarvörur eru afbragðs góðar. Ég held að það sé einnig mikilvægt að forðast það í umræðunni að leggja málið upp þannig að bændur og neytendur þurfi að vera andstæðir pólar.
 
Það er að sama skapi mikilvægt að menn geri sé grein fyrir því að núgildandi kerfi er bændum ekki sérstaklega hliðhollt og ég leyfi mér að fullyrða að það sé bændum beinlínis óhagstætt. Bændur hafa sjálfir sagt að þeir fái um 20-40% af búðarverði sinnar eigin vöru. Þetta er auðvitað einn besti vitnisburðurinn fyrir því að við þurfum að endurskoða landbúnaðarkerfið í átt að auknu frjálsræði og aukinnar samkeppni. Hlutdeild bænda í ágóða af framleiðslu landbúnaðarvöru er of lítil.

Samherjarnir Framsókn og VG
Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn eru fullkomnir samherjar í andstöðu sinni við breytingar í þessum efnum. Þessir flokkar vilja ekki stuðla að lægra matvælaverði með breyttu landbúnaðarkerfi. Þessir flokkar vilja ekki afnema tolla og vörugjöld. Þeir vilja ekki heldur að samkeppnislög gildi um landbúnaðinn. Og þessir flokkar virðast ekki treysta bændum fyrir auknu frjálsræði.

Málflutningur þeirra hefur verið sá að allar breytingar muni ganga af íslenskum landbúnaði dauðum, þurrka út landsbyggðina, að það þurfi að lækka laun til að ná lægra matvælaverði í gegn eða það sé svo dýrt að flytja mat til landsins o.s.frv. En hlægilegustu rökin sem hafa heyrst úr þessari átt eru þau að íslenskur almenningur vilji einfaldlega borga svona hátt verð fyrir matinn.

Í þessu máli bregðast þessir varðhundar sérhagsmuna og íhaldssemi því ekki.  En varðhundarnir þurfa þá svara því hvers vegna það er gott að halda úti kerfi sem hefur í för með sér að neytendur greiða hæsta matvælaverð í heimi og að skattgreiðendur greiða fyrir eitt mesta styrkjakerfi í heimi, á sama tíma og að hlutur bændur er ekki sérstaklega góður. Það græðir enginn á núgildandi stefnu í landbúnaðarmálum.

Tollar eru tímaskekkja og vörugjöld eru vitleysa
Við skulum muna að það eru til þjóðir þar sem launakostnaður er hærri en á Íslandi og eru ríkari en við en þar sem matvælaverðið er engu að síður mun lægra en hjá okkur. Munum einnig að það eru margir staðir í heiminum sem eru lengra í burtu frá helstu matarframleiðendum en Ísland og tekst samt að hafa lægra matvælaverð en er á Íslandi. Og munum að hátt verð á landbúnaðarvörum og öðrum tolluðum vörum veldur því að aðrar vörur eru dýrari en ella, m.a. vegna svokallaðra staðkvæmdaráhrifa. Samkeppni er bæði neytendum og vel reknum fyrirtækjum í hag.

Það er samdóma niðurstaða flestra athugana að stóra málið til að lækka matvælaverð á Íslandi er að afnema tolla. Eitt sinn heyrði ég slagorð frá kandídata í prófkjöri sem var á þá leið að "Tollar eru tímaskekkja". Ég vil taka undir þetta og bæta við að "Vörugjöld eru vitleysa".

Breytt stuðningskerfi við íslenskan landbúnað, kerfi sem er bæði bændum og neytendum í hag er brýnt hagsmunamál.


mbl.is Matvæli dýrust á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amerískar bollur, Johnny Depp og Guffi

Fjölskyldan heimsótti mekka skemmtanaiðnarins í gær, sjálft Disney landið. Ég verð að viðurkenna að ég var farinn að kvíða talsvert fyrir þessari heimsókn. Væntingar ungviðsins voru orðnar gríðarlegar og maður veit vel hvernig spennan getur farið með 5 ára stelpur. En við vorum mætt í garðinn þegar að hann opnaði rétt rúmlega níu og lögðum í bílastæði  Mínu músar, númer 35-39. Síðan var lagt í hann, vopnað vatnsbrúsum og myndavélum.

Í öllum ferðabókum er mælt með að maður mæti snemma á staðinn. Við tókum eftir að allir höfðu lesið sömu ferðabækurnar og strax um morguninn var allt fullt af íturvöxnum heimamönnum, margir hverjir í rafknúnum kerrum sem ferja amerískar bollur á milli staða.

Traffíkin var gríðarleg á heitasta tíma dagsins. Málið er að mæta seinnipartinn þegar fjölskyldufriðurinn er löngu úti hjá flestum, liðið er búið að gefast upp og sólin búin að draga sig í hlé.

Að sjálfsögðu var margt að sjá og miklar raðir. Við heimsóttum m.a. sjóræningjalandið þar sem sú eldri var við það að brotna, leist satt best að segja ekki á Johnny Depp sem sjóræningja. Svo var farið í safarí siglingu þar sem "alvöru" mannætur voru til sýnis. Það vakti upp heilmargar spurningar sem þurfti að svara. Við heimsóttum hús Mínu og Mikka og fórum inn í tréið hans Bangsimons og stelpurnar klifruðu í tréhúsum. Horft var á risavaxna skrúðgöngu en Bandaríkjamenn eru að sögn mjög hrifnir af góðri skrúðgöngu og státar hver einasti bær í USA af að minnsta kosti einni slíkri yfir árið.

Toppurinn var þó þegar það mátti knúsa og kyssa sjálfan Bangsimon. Reyndar neyddist Bagsímon og félagi hans Tígri til að taka sér pásu á 10 mínúta fresti sökum hita en það hlýtur að vera erfitt að vera bangsi í 36 gráðu hita. Og það var svo sannarlega erfitt að vera Íslendingur í 36 gráðu hita.

Hitinn var í þeim mæli að orð eins og bráðnun lýsa honum hvað best. Við reyndum að labba reglulega í gegnum loftkældar verslunum sem voru eins og vin í eyðimörkinni. Í eitt sinn ákvað litla fjölskyldan að kaupa nokkra minjagripi og boli. Eftir að kortinu hafði verið rennt í gegn kom í ljós að reikningurinn var heldur hærri en aðgangseyrinn sem ekki var ókeypis heldur. En hægt er að hugga sér við það að dollarinn er hagstæður.

Skilaboðin í Disney landinu mikla voru öll þau sömu. "Draumar þínir geta ræst". Sjálfur bandaríski draumurinn birtist þarna með glimmeri og glysi. Konan sagði mér einu sinni að ein skýringin á hærri glæpatíðni í Bandaríkjunum væri sögð sú að fólk er alið upp í þeirri trú að að allt sé mögulegt ef menn trúa því bara, að draumurinn geti orðið að veruleika, hafi menn bara nennuna og viljann til þess. En svo þegar að fólk upplifir að tækifærin eru ekki jöfn vegna skorts á öflugu velferðar- og menntakerfi sé ein birtingarmynd af gremjunni og vonbrigðunum afbrot. Fólk upplifir kerfið sem ósanngjarnt, að það sé vitlaust gefið í samfélaginu.

Aftur á móti væri staðan önnur í öðrum löndum á borð við Indland þar sem fólk er alið upp í því að það tilheyri sinni stétt og því hefði það ekki slíkar væntingar og upplifði þar af leiðandi ekki sambærileg vonbrigði eða gremju. Fátækt og afbrot væru því ekki endilega fylgifiskar heldur hafi það meira með væntingar að gera.

En ferðin í Disney gekk ljómandi vel og allir skemmtu sér konunglega þótt pirringurinn hafi aðeins sýnt sig í lokin hjá þeirri eldri. Enda hver yrði ekki svolítið pirraður og þreyttur eftir að hafa varið 8 klukkustundum í heimsókn hjá Andrési önd og Guffa í 36 gráðu hita? Hér sofnuðu að minnsta kosti tvær sælar litlar stelpur í gærkvöldi og sú yngri tveggja ára gömul spurði að því þegar hún var við það að sofna hvort við færum aftur á morgun.


Að gefnu tilefni

Hér fyrir neðan má finna grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag vegna greinar dómsmálaráðherra um vernd barna gegn nettælingu og friðhelgi einkalífs. Til frekari upplýsinga er ég búinn að bæta inn tilvísunum á vefinn þar sem það á við.

Að gefnu tilefni

Aftur neyðist ég til að leiðrétta rangar söguskýringar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Í grein um vernd barna gegn nettælingu sem birtist í Morgunblaðinu 5. júlí segir dómsmálaráðherra:

"Hér varð töluverð andstaða á alþingi fyrir nokkrum misserum, þegar við Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, stóðum að tillögu um að auðvelda miðlun og geymslu á svonefndum IP-tölum, en með þeim er unnt að rekja tölvusamskipti. Vorum við sakaðir um, að vilja ganga um of á friðhelgi einstaklinga með tillögum okkar og var Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, þar fremstur í flokki meðal þingmanna."

Ég verð að viðurkenna að þessi málflutningur Björns kemur mér mjög á óvart, enda er þessi fullyrðing hans röng. Þetta er beinlínis rangt hjá dómsmálaráðherra. Ef lesendur kæra sig um að skoða feril þessa máls á Alþingisvefnum má sjá að ég var ekki einn af þeim 13 þingmönnum sem tóku þátt í umræðu þessa frumvarps og undir nefndarálit stjórnarandstöðunnar um frumvarpið rituðu Bryndís Hlöðversdóttir, Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson og Guðjón A. Kristjánsson. Það er því rangt að segja að ég hafi verið "fremstur í flokki meðal þingmanna" í andstöðu við þetta mál.

Víðtæk andstaða
Hins vegar ber að líta til þess að þessi tillaga naut ekki stuðnings neins úr þáverandi stjórnarandstöðu og þar á meðal ekki míns. Þar að auki má nefna að tveir stjórnarliðar studdu ekki umrætt ákvæði, og þar á meðal var einn þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Þá verður einnig að geta þess að Persónuvernd lagðist gegn samþykkt þessa ákvæðis í frumvarpinu. Það gerðu Samtök atvinnulífsins einnig ásamt Og Vodafone sem taldi þetta ákvæði fela í sér "alvarlega takmörkun á friðhelgi einkalífs", og sömuleiðis Síminn sem efaðist um að það stæðist stjórnarskrá. Víðtæk andstaða var því við tillöguna.

Þurfti dómsúrskurð áður
Ákvæðið í frumvarpinu sem efasemdir voru um, lýtur að því hvort það eigi að vera heimilt að nálgast IP-tölur án dómsúrskurðar. Með IP tölum er unnt að segja til um hvar viðkomandi rétthafi hefur borið niður á Internetinu, að því gefnu að vitað sé um á hvaða stundu fjarskipti fóru fram. Fyrir samþykkt þessa frumvarps var dómsúrskurður skilyrði fyrir slíkri afhendingu.

Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að hafa í huga að það var enginn ágreningur um að mikilvægt geti verið fyrir lögreglu að hafa þessar upplýsingar, heldur snerist álitaefnið um það, hvort að réttlætanlegt væri að lögregla fengi slíkar upplýsingar án þess að hafa fyrir því heimild dómstóla.

Ég bendi að því er þetta álitaefni varðar, á rökstuðning minnihluta samgöngunefndar en þar segir m.a.: "Þá bendir minni hlutinn á að bið eftir dómsúrskurði skaðar á engan hátt rannsóknarhagsmuni, þar sem IP-tölur eru skráðar og aðgengilegar og hið sama á við  um leyninúmerin."

Hvaða skref hafa verið tekin?
Ég hef gagnrýnt skref stjórnvalda sem ég tel að gangi of langt í því að skerða persónuvernd einstaklinga og lagðist þannig gegn frumvarpi dómsmálaráðherra um að heimila símhleraranir án dómsúrskurðar en það ákvæði varð sem betur fer ekki að lögum.

Ég tel einnig að svokölluð 24 ára regla í útlendingalögum, sem samþykkt var á Alþingi að tillögu Björns, ganga of langt og var mótfallinn skerðingu á réttindum borgaranna á gjafsókn sem Björn stóð fyrir með lagasetningu. Þá hef ég ásamt öðrum spurst fyrir um í þinginu um greiningardeild Ríkislögreglustjóra en fengið fá svör frá dómsmálaráðherranum.

Baráttan gegn kynferðislegu ofbeldi
Kynferðislegt ofbeldi er grafalvarlegt vandamál og ég hef á liðnum árum tekið virkan þátt í umræðu um þetta mál, innan Alþingis og utan þess. Í fjögur ár lagði ég fram frumvarp um afnám fyrningarfrests í kynferðisbrotum gegn börnum. Ég hef einnig lagt fram þingmál sem gerir ráð fyrir sérstöku lagaákvæði sem tæki á heimilisofbeldi en slíkt vantar enn í íslenska löggjöf. 

Ég hef sömuleiðis talið ástæðu til að endurskoða kynferðisbrotakafla hegningarlaganna í heild sinni, sem var gert og er það vel. Ég hef ítrekað talað um frekari aðgerðir gegn kynferðislegu ofbeldi, vændi og mansali.

Og ég hef einmitt sagt í ræðum á Alþingi að mér finnst að yfirvöld ættu að ganga lengra í baráttu sinni gegn kynferðisbrotamönnum og hef t.d. nefnt notkun á tálbeitum í því sambandi.

Dómsmálaráðherra á villigötum
Af þessari ástæðu kemur það mér nokkuð á óvart að dómsmálaráðherra skuli leggja lykkju á leið sína til að nefna mig í grein þar sem hann fjallar um fund norrænna dómsmálaráðhera þar sem umræðuefnið var málefni tengd vernd barna og efni refsireglna í því skyni.

Og ég hlýt að gera alvarlegar athugasemdir við málflutning þess efnis að þeir sem að vilji standa vörð um grundvallarmannréttindi á borð við friðhelgi einkalífs geti af þeirri ástæðu ekki talist heilir í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, sér í lagi þegar slíkt kemur frá löglærðum manni eins og dómsmálaráðherra.


Dvölin á Flórída

Bandaríkin eru furðulegt land. Eins og klisjan segir þá er allt stórt í Bandaríkjunum. Fólkið, maturinn, bílarnir, búðirnar, rigningin, skordýrin. Allt í yfirstærð. XXL. Nú er fjölskyldan stödd á Flórída og unir sér bara vel.

Reyndar er ekki hægt að komast spönn frá rassi án þess að nota þarfasta þjóninn. Annars er merkilegt að keyra hér um. Alls staðar má finna veitingastaði og bílaumboð en hvergi fólk og íbúðahús. Kannski er það allt falið í frumskóginum sem liggur hér allt um kring.

Næturhljóðin hér eru ótrúleg. Þetta er hinn mesti hávaði og liggur við að börnin þurfi að hylja eyrun. Eflaust fengitími hjá froskunum eða einhvers konar partý.

Ok, við fáum þá Flórída 
Flórída er 150.000 km2 að stærð á meðan litla Ísland er 100.000 km2. Íbúar Flórída eru um 15 milljónir en Flórída fær þó svipaðan fjölda ferðamanna á hverju ári og New York og París fá samanlagt. Disney trekkir víst að.

Árið 1783 afhentu Englendingar Flórída til Spánverja en fengu í staðinn Bahamaeyjar. Verður nú að teljast vera frekar slappur díll fyrir Tjallana. En síðan var það árið 1821 sem Bandaríkin fengu Flórída frá Spáni vegna þess að Spánn skuldaði þeim pening. Strax þá voru Bandaríkjamenn orðnir að kapitílistum dauðans. Heilu fylkin gengu skiptum.

Kókaín og appelsínur 
En hér er ekki bara túrismi. 3/4 af appelsínu- og sítrónuframleiðslu Bandaríkjanna er í Flórída. Sömuleiðis er talið að fjórðungur af öllum kókaíninnflutningi til Bandaríkjanna fari í gegnum Miami. Sem sagt fjölbreytilegir atvinnuvegir.

Sá að íbúar Flórída borga engan tekuskatt. Las þetta reyndar í danskri ferðabók þannig hugsanlega hefur túlkun mín eitthvað misfarist. Líklega. Annars eru ferðabækurnar Turen gar til... bestu ferðabækur sem ég hef rekist á. Mæli með þeim.

5 plastpokar fundust 
Mér finnst Bandaríkin miklu hreinlegri en flest lönd í Evrópu. Allir vegakantar eru vel slegnir og ekkert fjúkandi rusl eða yfirkeyrð fauna.

Hér er vel hugsað um þá sem eiga peninga. En þótt neytandinn sé í draumaríkinu þá fékk maður reality sjokk í gær. Í fréttunum var sagt frá því að kona hefði fundist. Hún var reyndar í 5 mismunandi plastpokum. Fólkið í viðkomandi hverfi var afskaplega hissa á þessum fundi þar sem hér byggi svo gott fólk...


Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband