Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Ný undirstöðuatvinnugrein Íslands

Hér fyrir fyrir neðan má lesa grein sem birtist í Mogganum nýlega, um bisnesslífið, bankana og innrásina sem vantar.

"Ég tel að Ísland hafi eignast nýja undirstöðuatvinnugrein. Hér á ég við fjármálageirann. Hlutdeild fjármálafyrirtækja til landsframleiðslu, þ.e. verðmætasköpunarinnar, árið 2006 nam um 9,3% sem er talsvert meira en hlutdeild sjávarútvegsins sem var um 5,9% sama ár. Þetta er hæsta hlutfall sem þekkist á Norðurlöndunum og er hlutdeild íslenska fjármálageirans að nálgast sum sterkustu fjármálaríki heims eins og Bandaríkin og Bretland.

Í fyrsta skipti í Íslandssögunni vinna líklega fleiri núna í fjármálageiranum en í sjávarútvegi. Fjármálalífið stóð undir einum þriðja hluta þess hagvaxtar sem hefur verið undanfarin ár.

Fjölbreytilegra atvinnulíf en áður
Umfang bankastarfseminnar hefur gjörbreytt starfsmöguleikum Íslendinga. Fjármálafyrirtæki hafa fjölgað tækifærum fyrir ungt fólk en tæplega 8.000 manns vinna nú hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum og sífellt bætist við. Sérhvert samfélag er í samkeppni við önnur samfélög um hæfa einstaklinga og því er mikilvægt að góðir kostir séu einnig í boði hér heima fyrir menntað fólk.

Bankarnir  bjóða upp á störf sem fela í sér ótal tækifæri fyrir almenning og þessi störf eru ekki lengur einskorðuð við Ísland heldur er starfvettvangurinn heimurinn allur. Hin öfluga útrás er meira og minna leidd af fólki sem hefur metnað og skynbragð á tækifæri.

Bankarnir hafa breytt íslensku atvinnulífi mikið hvað varðar fjölbreytni starfa, en í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga störfin í þekkingariðnaði og hátækni.

Á íslenskum vinnumarkaði starfa um 160 þúsund manns en hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis starfa nú um 200.000 manns, langflestir útlendingar. Þetta er ótrúleg breyting á tiltölulega fáum árum.

Stjórnarskrá atvinnulífsins
Stjórnvöld eiga að hlúa vel að viðskiptalífinu þannig að það fái að vaxa og blómstra. Það gerum við með því að búa þeim vinveitt umhverfi og góð vaxtarskilyrði.

Sömuleiðis er skynsamlegt að efla eftirlitstofnanir, s.s. embætti saksóknara efnahagsbrota, fjármálaeftirlit og samkeppniseftirlitið. Öflugt eftirlit með viðskiptum er lykillinn að trausti og trúverðugleika. Traust og trúverðugleiki er þungamiðja viðskiptalífsins.

Ég hef hrifist mjög af afstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna sem hefur kallað samkeppnislög stjórnarskrá atvinnulífsins. Það finnst mér rétt nálgun og það er engin ástæða fyrir atvinnulífið að óttast samkeppnisyfirvöld eða öflugt eftirlit.  Hagsmunir neytenda af öflugu eftirliti eru að sama skapi augljósir. Öflug samkeppni er kjarabarátta nútímans.

Innrás óskast
Staðreyndin er sú að það eru mörg tækifæri og spennandi möguleikar í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Framsókn og útrás íslenskra banka er farin að vekja gríðarlega athygli og umfram það sem við Íslendingar hér heima gerum okkur oft grein fyrir.

En þótt útrásin gangi vel þá lætur innrásin standa á sér. Það er hlutverk okkar allra að skapa þær aðstæður að erlend fyrirtæki sjái kosti í því að starfa á Íslandi svo að tækifærunum fjölgi enn frekar og verðlag lækki."


Baráttan gegn fíkniefnum

Það var átakanlegt að lesa minningargrein föðurs sem missti dóttur sína nýlega vegna fíkniefna. Ég vil byrja að votta viðkomandi fjölskyldu samúð mína og benda á að það þarf mikið hugrekki til að koma fram með slíka frásögn. Ég gleymi því ekki þegar ég hlustaði á Njörð P. Njarðvík síðastliðinn vetur segja frá raunum fjölskyldu sinnar vegna fíkniefnanotkunar sonar hans. Mér var það minnistætt þegar Njörður sagði að einstaklingurinn á ekki líf sitt einn og neysla væri ekki einkamál fíkilsins.

Ég vil taka undir alvarleika þessara mála en við erum að tapa mörgum mannslífum á ári í fíkniefnadjöfulinn. Margar fjölskyldur á Íslandi eru í sárum vegna þessa.

Það er alveg ljóst að við þurfum að ná betri tökum á þessu vandamáli. Margt er hægt að gera og mig langar að nefna nokkur atriði til umhugsunar en þetta er langt í frá tæmandi upptalning á nauðsynlegum aðgerðum.

Í fyrsta lagi þarf að hlusta á þá sem þekkja hvað best þetta vandmál, bæði á sérfræðingana en ekki síst á þá einstaklinga og fjölskyldur sem hafa lent í þessum vítahring.

Í öðru lagi þarf að vera hægt að taka heilstætt á málaflokknum í stjórnkerfinu. Nú skiptist málaflokkurinn á milli þriggja ráðuneyta sem getur skapað vandræði og óskilvirkni.

Í þriðja lagi þurfa meðferðarúrræðin að vera markviss og koma þeim að gagni sem á þeim þurfa að halda. Stórbæta þarf meðferðarúrræði innan fangelsanna.

Í fjórða lagi þurfum við að átta okkur á því að það getur verið þýðingarlítið að fangelsa sjúklinga eins og fíklar eru. Ég hef lagt fram þingmál á Alþingi um að dómururm verði heimilað að dæma einstaklinga til samfélagsþjónustu en Ísland er eina Evrópuríkið sem leyfir það ekki. Slíkt úrræði gæti gagnast ungu einstaklingum sérstaklega þar sem síendurteknir skilorðsbundnir dómar hafa e.t.v. lítil varnaðaráhrif.

Í fimmta lagi þurfum við að bæta löggæsluna. Við verðum að ná til sölumanna eiturlyfja og þeirra sem skipuleggja þennan heim. Og þá þurfum við að ná til handrukkaranna sem halda mörgum fjölskyldum í gíslingu. Handrukkarar eru þjóðarmein sem allt of hljótt er um í okkar samfélagi. Við eigum ekki að líða slíka háttsemi og við eigum ekki að líða hótanir gagnvart vitnum og þolendum.

Því þarf lögreglan nauðsynleg úrræði til að bregðast við þessari vá. Danska lögreglan náði talsverðum árangri þegar hún fór að elta peningana og ágóðann hjá fíkniefnasölunum. Ef til vill þarf að gera auðveldara fyrir yfirvöld að komast að uppruna peninganna. Við ættum að skoða hvort það þurfi lagabreytingar hvað þetta varðar. Notkun á tálbeitum þarf einnig að koma til umræðu.

Að lokum skiptir fræðslan miklu máli. Bæði fræðsla innan skólakerfisins og tómstundahreyfinganna en þó tel ég að fræðslan á milli unglinganna sjálfra geti skipt sköpum.


10 ár og 2 mánuðir

Dagurinn í dag er sögulegur í Bretlandi. Tony Blair mun segja af sér sem forsætisráðherra Breta eftir 10 ár og 2 mánuði í þeim stól. Tony Blair stóð fyrir mörgu jákvæðu í breskum stjórnmálum. Hann átti sömuleiðis ríkan þátt í að stuðla að friði á Norður-Írlandi en þó held ég að efnahagslegur uppgangur á svæðinu og fjölgun í millistéttinni hafi einnig átt sinn þátt í því.

Blair breytti ásýnd jafnaðarstefnunnar með svokallaðri þriðju leið. Ég tel að þriðja leiðin lifi enn góðu lífi og sé grundvöllur að frjálslyndri jafnaðarstefnu þar sem markaðslögmálin og velferðin haldast í hendur. Einn af hugmyndafræðingum þriðju leiðarinnar er Anthony Giddens og ég man vel eftir að hafa sótt fyrirlestur hans þegar hann kom til Íslands fyrir nokkrum árum.

Helstu mistök Blair voru að sjálfsögðu stuðningur hans við innrásina í Írak og mun sú staðreynd ætíð vera skuggi á valdatíð hans. Sömuleiðis eru þau skref sem Tony Blair tók varðandi aukið eftirlit með almenningi umhugsunarverð.

Eftirmaður Blairs er Skotinn Gordon Brown. En einhvern veginn finnst mér Gordon Brown ekki vera alveg eins mikill pólitískur karakter og Blair var og er, svo ég segi nú ekki meira.

Leiðtogi Íhaldsmanna, David Cameron, hefur undanfarin misseri leikið mjög taktíska leiki. Hann hefur viljandi farið inn á þau svið sem tilheyra venjulega ekki hægri flokkum og má þar nefna umhverfismál og ýmar velferðaráherslur.

En ég tel að það geti jafnvel verið auðveldara, pólitískt séð, fyrir hægri mann að fara lengra til vinstri en það sem vinstri maður getur gert og og að sama skapi geti það verið auðveldara fyrir vinstri mann að fara lengra til hægri en hægri mann.

En burtséð frá því það tel ég að næstu þingkosningar í Bretlandi geti orðið Verkamannaflokknum erfiðar.


mbl.is Brown tekur við embætti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúski kar-amba

Á morgun munum við hjónin fara til Pétursborgar í Rússlandi. Tilhlökkunin er mikil en það er ekki þrautalaust að komast til hins ágæta Rússlands. Ég hef aldrei kynnst öðru eins veseni við að komast í annað land, og þó hef ég verið nokkuð duglegur að ferðast um heiminn.

Skriffinnskan og bullið í kringum vegabréfsáritunina var með ólíkindum. Það var eins og þeir kærðu sig ekkert um að fá túrista í landið. Síðan fer maður að spá í tilganginum með þessu öllu saman. Þessar upplýsingar verða aldrei notaðar, heldur settar einhvers staðar inn í skáp djúpt innan veggja Kremlar.

Ég er nokkuð sannfærður um að tími vegabréfsáritana er löngu liðinn enda sést það vel að þau lönd sem hafa sleppt þessu rugli sín á milli eru ekki sérstaklega verr stödd en önnur.

En Pétursborg mun án efa standa undir sínu enda margt að sjá í þessari borg sem margir segja vera þá einu fallegustu í heimi.


Fimm sinnum fleiri

Embætti saksóknara efnahagsbrota er gríðarlega mikilvægt embætti. Öflugt eftirlit með viðskiptum er lykillinn að trausti og trúverðugleika. Og traust og trúverðugleiki er það sem skiptir máli í viðskiptum. Það er mjög áhugavert að vita til þess að fimm sinnum fleiri starfsmenn starfa á Fiskistofu en hjá embætti saksóknara efnahagsbrota. Og að það er svipaður starfsmannafjöldi hjá hinni ágætu Fiskistofu og er til samans hjá Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og Skattrannsóknarstjóra.

Ég tel því að það þurfi svo sannarlega að efla embætti saksóknara efnahagsbrota. Þessi málaflokkur er sífellt að verða fyrirferðameiri og málin að verða flóknari. Þá er alveg ljóst að það þarf að gera embættinu kleift að auka málshraðann.

Við verðum að sýna það í verki að við meinum eitthvað með því þegar við segjum að við viljum hafa hér öflugt eftirlit, hvort sem litið er til efnahagsbrota, samkeppnisbrota eða annarra brota á markaðinum.


Allur pakkinn tekinn

Fjölskyldan hélt þjóðhátíðardaginn hátíðlegan í gær. Rölt var niður í miðbæ upp úr hádegi og vorum við að furða okkur á því hvað það virtust vera fáir í bænum. Það átti svo sannarlega eftir að breytast. Aldrei þessu vant lék veðrið við höfuðborgarbúa en í minningunni er alltaf vont veður á 17. júní. Kannski er eitthvað til í þessu með hlýnun loftslags.

Annars var allur pakkinn tekinn hjá fjölskyldunni. Blöðrur, candy floss, hoppkastalar og pylsur. Allt á sínum stað og allir sáttir. Sem fyrr vöktu Skoppa og Skrítla mikla lukku en systurnar höfðu litla þolinmæði fyrir hinum breska fjöllistarmanni, The Mighty Gareth. En það kom ekki að sök enda nóg að gera í miðbænum þennan daginn.

Það væri nú gaman ef svona mannlíf væri í miðbænum að staðaldri.  Alltaf finnst mér það frekar sorglegt hvað Hljómskálagarðurinn er illa nýttur af höfuðborgarbúum. Það hefur lengi verið rætt um að setja kaffihús í garðinn. Mér finnst það mjög spennandi hugmynd enda vantar þennan indæla garð, umfram allt, mannlíf. Borgarbúar virðast þurfa ástæðu til að fara í Hljómskálagarðinn. Og ef ég svara fyrir sjálfan mig þá er ég sannfærður um að maður myndi fara oftar í Hljómskálagarðinn ef þar væri huggulegt kaffihús og síðan almennilegt leiksvæði fyrir börn.


Hvalkjöt og Írak

Í gær var mér boðið á fund í bandaríska sendiráðinu ásamt níu öðrum með Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Við vorum aðeins tvö úr pólitíkinni en Ragnheiður Elín Árnadóttir, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðismanna, var þarna einnig. Annars voru þarna Þór Whitehead, sagnfræðingur og Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskólans og síðan nokkrir fréttamenn.

Það var einstakt tækifæri að fá að ræða málin milliliðalaust við svo háttsettan mann í bandarísku stjórnkerfi. Talsvert var rætt um brotthvarf Bandaríkjamanna frá Íslandi og málefni Írak. Samskipti við Rússland og framboð Íslands í Öryggisráð S.þ. bar einnig á góma og staðan í Kosovo sem Burns taldi að yrði sjálfstætt ríki innan tíðar.

Ég nýtti tækifærið og spurði kappann um Guantanamó og hvort hann væri ósammála fyrrverandi yfirmanni sínum, Colin Powell, um að það ætti að loka fangelsinu. Burns sýndi sína diplómatísku hæfni og svaraði því vel fyrir sinn hatt.

Um kvöldið var mér síðan boðið í kvöldverð með sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og sendiherra Svíþjóðar á Íslandi ásamt þýskum yfirmanni EES-mála hjá Evrópusambandinu. Þar ræddum við vítt og breitt um Evrópumálin og margt gagnlegt kom í ljós.

Annars var Þjóðverjinn yfir sig hneykslaður yfir því að hægt væri að fá höfrungakjöt á veitingastaðnum og til að stríða honum aðeins var ég eini við borðið sem fékk mér hvalkjöt. Það bragðaðist vel.


mbl.is Nicholas Burns fagnar framboði Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndi og umbætur í landbúnaðarmálum

Eitt það mikilvægasta sem við náðum í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar lýtur að landbúnaðarmálum. Þar segir að það skuli endurskoða landbúnaðarkerfið m.a. með það fyrir augum að auka frelsi og lækka verð til neytenda. Þá er mikilvægt að hafa í huga að í stjórnarsáttmálanum stendur einnig eftirfarandi: “Mikilvægt er að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni.“

Þetta eru gríðarleg mikilvæg markmið sem má alls ekki gera lítið úr. Íslendingar eru búnir að rífast um landbúnaðarkerfið á Íslandi í áratugi. Nú er hins vegar komin fram ný ríkisstjórn sem kennir sig bæði við frjálslyndi og umbætur. Það gengur því ekki að standa vörð um núverandi kerfi sem er skattgreiðendum, neytendum og bændum óhagstætt.

Og það er ekki málefninu til framdráttar að mála hugsanlegar umbætur þeim litum að þær muni „rústa landbúnaðinum“ eins og iðulega heyrist í þessari umræðu.

Þessi ríkisstjórn hefur skuldbundið sig til að auka frelsi í landbúnaðarkerfinu og lækka matvælaverðið. Ég ætlast til að hún standi við þau orð.


Að venjast nýjum meirihluta

Í dag mun sumarþinginu hugsanlega ljúka. Þetta er búið að vera stutt en snarpt þing. Það eru annars heilmikil viðbrigði að venjast þessum nýja meirihluta á þingi. Samfylkingin er búin að vera í stjórnarandstöðu síðan hún var stofnuð fyrir um 7 árum. En fyrstu skref Samfylkingarinnar í ríkisstjórn lofa þó góðu og er aðgerðaráætlun um málefni barna skýrasta dæmið um það.

Það mun þó taka tíma að venjast því að sjá suma af Framsóknarmönnunum sitja út í þingsal eins og hverja aðra þingmenn. Sumir þeirra voru búnir að vera í ríkisstjórn í mörg ár. Ég bjóst alltaf við að Guðni myndi sækja um áheyrnaraðild að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndinni en svo virðist sem hann hafi ekki gert það. Kannski er það of stórt stökk að fara úr ráðherrastól og yfir í að vera áheyrnarfulltrúi án atkvæðisréttar í viðkomandi þingnefnd.

Mér finnst stjórnarandstaðan annars eiga frekar erfitt með að ná vopnum sínum. Það er nettur vælutónn í þeirra málflutningi og skýrustu dæmin um það voru ræða Steingríms Joð um stefnuræðu forsætisráðherra og umkvartanir Guðna yfir illsku fjölmiðlanna.

Sumir af nýju þingmönnum stjórnarandstöðunnar byrja þó vel. Vil ég sérstaklega í því sambandi nefna Katrínu Jakobsdóttur og Höskuld Þórhallsson. Bjarni Harðarson á einnig sína góðu spretti og frændi minn Jón Magnússon sömuleiðis.

En á næstu þremur mánuðum munu þingmenn án efa safna heilmiklum kröftum og undirbúa sig vel fyrir átök næsta vetrar. Þetta verður heilmikið fjör.


mbl.is Sér fyrir endann á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera þingmenn þegar þing er ekki að störfum?

Ég hef tekið eftir því að fólk veltir því stundum fyrir sér í hverju starf okkar þingmannanna felst þegar að sjálft þingið er ekki að störfum. Og það er auðvitað eðlilegt. Stór hluti af þingmannstarfinu er að hitta það fólk sem þess óskar. Þannig að mjög stór hluti af daglegum verkefnum okkar eru fundir af ýmsu tagi, með ýmsum hagsmunaaðilum, samtökum og svo auðvitað almenningi. Ég hef haft þá reglu að hitta alla þá sem óska eftir fundi.

Í gær hitti ég t.d. fulltrúa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF). Þeir voru komnir hingað í þeim erindagjörðum að fræðast um efnahagsstöðuna á Íslandi í þeim tilgangi að skila af sér skýrslu um málið. Fundurinn var afar fróðlegur fundur fyrir mig og áhugavert að heyra sjónarmið fulltrúa IMF og geta spjallað milliliðalaust við hann.

Þetta er jafnframt efni sem ég hef brennandi áhuga. Mér sýnist sem að staðan á Íslandi geti verið nokkuð erfið næstu misserin og þurfa allir aðilar markaðarins að vanda sig mikið, ekki síst ríkisvaldið.

Í síðustu viku hitti ég fulltrúa frá Dresdner Kleinwort Investment Bank sem voru að leita eftir upplýsingum um viðskiptalífið hér á landi. Sá fundur var ekki síður gagnlegur og fróðlegur og í máli þeirra kom m.a. fram mikill áhugi á íslensku viðskiptalífi og þeim tækifærum sem hér felast.

Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef leyft mér að kalla fjármálageirann hinn nýja höfuðatvinnuveg þjóðarinnar.


Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband