Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hvað var samþykkt á landsfundi Samfylkingarinnar?

Landsfundur Samfylkingarinnar lauk um helgina. Margvísleg málefnavinna var unnin á landsfundinum og var stefnan mótuð til tveggja ára. Mig langar að draga fram nokkra stefnupunkta og setja þá í samhengi við hina flokkana. Samfylkingin vill m.a.:

1. Fella niður tolla af matvælum í áföngum í samráði við hagsmunaaðila. Samfylkingin er eini flokkurinn á þingi sem hefur lagt þetta til.

2. Afnema stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa. Samfylkingin hefur í mörg ár lagt slíkt frumvarp fram en Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa aldrei viljað samþykkja það.

3. Afnema vörugjöld af matvælum. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur skildu eftir meira en helming vörugjaldanna. Vinstri grænir eru á móti niðurfellingu þessara vörugjalda.

4. Skapa hagstætt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í fjármálaþjónustu sem standist fyllilega samkeppni við það sem best gerist í öðrum löndum. Vinstri grænir hafa lagt til hækkun á fjármagnstekjuskatti.

5. Lækka virðisaukaskatt af lyfjum úr 24,5% í 7%. Samfylkingin lagði þessa tillögu fram fyrir jól og bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur kusu gegn þessari tillögu.

6. Hefja áratug hátækninnar með samræmdum aðgerðum í þágu þekkingariðnaðarins. Tillögur Samfylkingarinnar um þekkingariðnaðinn lentu í þremur efstu sætunum á Sprotaþingi þegar allir flokkarnir voru beðnir að leggja fram þrjár tillögur.

7. Fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu 4 árum.

8. Hverfa frá miðstýringu í landbúnaði, auka frelsi bænda til þróunar,fullvinnslu og markaðsetningu matvæla og skapa ný tækifæri til atvinnuþróunar. Hér hefur Samfylkingin sem fyrr sérstöðu á alla hina flokkana t.d. Vinstri græna sem hafa ítrekað varið þetta gamla landbúnaðarkerfi sem er bæði neytendum og bændum í óhag.

9. Að ríkið minnki kynbundinn launamun um helming á næsta kjörtímabili. Markmiðið verður að útrýma honum að fullu. Á sama tíma og Ingibjörg Sólrún minnkaði kynbundinn launamun um helming í borginni minnkaði ríkisstjórnin kynbundinn launamun ekki um krónu.

10. Afnema launaleynd.

11. Gera kaup á vændi refsivert. Það vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki.

12. Tryggja rétt samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Þessu treystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sér ekki að gera á þingi þrátt fyrir vilja Samfylkingarinnar.

13. Byggja 300-400 ný hjúkrunarrými á næstu átján mánuðum. Bygging og rekstur hjúkrunarrýma er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hér hefur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur gjörsamlega mistekist.

14. Lækka skatta á lífeyrissjóðsgreiðslum úr 35,72% í 10%. Er mikið réttætismál enda er langstærsti hluti lífeyrissjóðsgreiðslna sparnaður. Þetta yrði stórfellt kjarabót fyrir marga eldri borgara. Þriðji hver eldri borgari lifir undir fátæktarmörkum.

15. Hækka frítekjumark vegna tekna aldraðra í 100.000. kr. á mánuði. Það gildi jafnt um lífeyrissjóðs- og atvinnutekjur. Leið ríkisstjórnarinnar gerir einungis ráð fyrir 25.000 kr. frítekjumarki sem eingöngu miðar við atvinnutekjur. Stóra kjarabótin felst í að láta frítekjumarkið ná einnig til lífeyrissjóðstekna.

16. Bæta tannvernd barna m.a. með ókeypis eftirliti. Um 8.500 börn hafa ekki farið til tannlæknis í 3 ár. Það gerist á vakt þessarar ríkisstjórnar.

17. Lengja fæðingarorlofið í eitt ár og tryggja börnum einstæðra foreldra sama rétt og öðrum börnum til samvista við foreldra.

18. Tryggja að öll börn geti tekið þátt í íþrótta-, tómstunda- og félagsstarfi, sem og listnámi. Þetta var eitt af því fyrsta sem Samfylkingin gerði þegar hún komst til valda í Hafnarfirði. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra er barnafátækt er helmingi meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

19. Tryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla.

20. Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum. Samfylkingin er eini flokkurinn sem lofar þessu. Er svona t.d. í Danmörku.

21. Breyta 30% námslána í styrk að loknu námi. Samfylkingin hefur lagt þetta á þingi en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki viljað samþykkja það.

22.  Afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Samfylkingin hefur lagt þetta á þingi en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki viljað samþykkja það.

23. Greiða námslán út mánaðarlega. Samfylkingin hefur lagt þetta á þingi en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki viljað samþykkja það.

24. Setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá. Þetta vildu Sjálfstæðismenn ekki í stjórnarskrárnefndinni.

25. Taka Ísland af lista hinna vígfúsu þjóða.

26. Að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og hefji aðildarviðræður. Samfylkingin er eini flokkurinn á Íslandi sem hefur þessa stefnu en allir helstu meginstjórnmálaflokkar Evrópu hafa haft það á stefnuskrá sinni að vera aðilar að Evrópusambandinu.

27. Efna til náins samstarfs milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála sem myndað geti þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum. Tryggja jafnvægi og ábyrgð í hagkerfinu sem er forsenda þess að vextir og verðbólga lækki til muna og gengisstöðugleiki aukist. Því almenningur þarf að borga reikninginn fyrir síendurtekin hagstjónarmistök ríkisstjórnarinnar með verðbólguskatti. Nánast hver einasta greiningardeild, innlend og erlend, hefur álitið ríkisstjórnina hafa gert þessi hagstjórnarmistök. Það er því ekki bara Samfylkingin sem heldur þessu fram.

28. Koma á ábyrgri fjármálastjórn hjá ríkinu, endurskoða skipulag við gerð fjárlaga og eftirlit með framkvæmd þeirra. Fjárlög ríkisstjórnarinnar árin 2000-2004 gerðu ráð fyrir 82 milljarða króna afgangi af ríkissjóði en þegar reikningurinn var gerður upp kom í ljós 8 milljarða króna halli. Skekkjan þessi ár var því upp á 90 milljarða króna. Ofsalega fín fjármálastjórn hjá Geir Haarde eða hitt þó heldur.

29. Ákvarðanir um stórvirkjanir og tengdar framkvæmdir verði teknar með tilliti til umhverfissjónarmiða og jafnvægis í efnahagsmálum.

30. Tryggja sjálfstæði Seðlabankans og hverfa frá pólitískum ráðningum í embætti Seðlabankastjóra. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa stundað þennan ósóma allt fram á síðasta dag.


Óttalega finnst mér valið vera augljóst þann 12. maí ef þessi listi og samanburður er skoðaður.

Að lokum langar að mig að benda á að kosningavíxlar ríkisstjórnarflokkanna eru talsvert dýrari en áherslur Samfylkingarinnar.


Geta karlar líka verið forsetar?

Það var hreint út sagt ótrúlegt að vera á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. Um 1.300 manns í Egilshöll, baráttuandinn sveif yfir vötnum og góð pólitík rædd.

Ingibjörg Sólrún dró vel fram stefnumál hins eina sanna jafnaðarflokks Íslands þar sem áherslan var m.a. lögð á stórbætt kjör eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna, raunverulegt jafnrétti milli kynjanna og byggða landsins ásamt áherslum á þekkingariðnaðinn og fagra og unga Ísland. Þetta eru málin sem skipta máli. Og þetta eru áhersluatriðin sem Samfylkingin hefur sérstöðu í.

En það var einnig ótrúlega eftirminnilegt að sjá þær á sviðinu, Ingibjörgu Sólrúnu með Monu Sahlin formanni sænska jafnaðarmannaflokksins og Helle Thorning-Schmidt formanni danska jafnaðarmannaflokksins.

Mér finnst skipta miklu máli að þrír formenn jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum séu konur og það sem meira er að þessar þrjár konur geta allar orðið forsætisráðherrar innan skamms ef kjósendur vilja það. Kyn skiptir nefnilega máli.

Ég gleymi því ekki þegar 4 ára dóttir mín spurði hvort karlar gætu líka verið forsetar á vinnustað pabba. Fyrirmyndir og sýnileiki kvenna í valdastöðum er því ómetanlegur fyrir svo margar.


mbl.is „Það þarf konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundur í óskilum

Samfylk-logo-IIIÍ dag hefst landsfundur Samfylkingarinnar í Egilshöll og verður mikið um að vera. Við fáum þungavigtargesti á landsfundinn. Mona Sahlin, formaður sænska jafnaðarmannaflokksins og Helle Thorning-Schmidt, formaður danska jafnaðarmannaflokksins munu ávarpa fundinn við setningu hans kl. 16 í dag.

Allt áhugafólk um stjórnmál er hvatt til að mæta og hlusta á þessa öflugu stjórnmálaleiðtoga.

Annars hefst málefnastarfið kl. 13 í dag og eru landsfundarfulltrúar hvattir til að taka þátt í því. Sveitastjórnarráð Samfylkingarinnar heldur sinn fund á landsfundinum ásamt 60+ og Kvennahreyfingunni. Ungliðarnir verða sömuleiðis áberandi á fundinum.

Fjölmargir spennandi frummælendur verða á landsfundinum. Má þar nefna Þórólf Árnason forstjóra SKÝRR, Svöfu Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík, Bjarna Ármannsson forstjóra Glitnis, Einar Kárason rithöfund, Dagný Ósk Aradóttur formann Stúdentaráðs, Viðar Hreinsson, forstöðumann ReykjavíkurAkademíunnar og Amal Tamimi, fræðslufulltrúa Alþjóðahúss.

En það verður ekki bara pólitík á landsfundinum heldur einnig skemmtanir og fjör. Hundur í óskilum, Baggalútur og Sprengjuhöllin munu spila. Þá munu Fóstbræður og Sigrún Hjálmtýsdóttir syngja. Síðan verður haldið lokahóf á laugardagskvöldinu á Grand Hótel þar sem Jafnaðarmannabandið Suðsuðvestur mun m.a. troða upp.

Sem fyrr tek ég fram að fólk þarf ekki að vera skráðir landsfundarfulltrúar eða flokksfélagar til að geta mætt á landsfundinn og fylgst með. Hvet því fólk til að kíkja upp í Egilshöll í dag og á morgun.


Hið rétta um hagvöxtinn

fólk í sól"Fullyrt er að hvergi í Evrópu sé meiri hagvöxtur en á Íslandi og atvinnuleysi með því minnsta sem þekkist. Í framhaldi af því er dregin sú ályktun að lítill hagvöxtur og mikið atvinnuleysi sé ESB og evrunni að kenna. Gangi Íslendingar í ESB og taki upp evru bíði okkar ekkert annað en lítill hagvöxtur og atvinnuleysi að evrópskri fyrirmynd. Þetta er alrangt.

Það er rétt að hagvöxtur á Íslandi hefur verið þokkalegur síðustu ár. En þegar leiðrétt er fyrir svokölluðu kaupmáttarjafnvægi og hagvöxtur á Íslandi settur í alþjóðlegt samhengi er árangur okkar í besta falli sæmilegur. Þetta kom t.m.a. fram í máli Michaels Porter sem var heimsókn hér landi sl. haust. Ríki eins og Spánn, Írland og flest lönd í Austur-Evrópu standa sig betur en við. Nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndum ná svipuðum árangri og við að meðaltali en hagvöxturinn hér er mun sveiflukenndari en þar. Þetta þýðir að samkeppnishæfni okkar er minni en þeirra."

Þetta segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins m.a. í mjög góðri grein sem birtist á vef samtakanna. Ennfremur segir Bjarni m.a.:

"Við þurfum m.ö.o. að vinna miklu meira en flestir aðrir til að halda uppi landsframleiðslunni og góðum lífskjörum í landinu. Ríki eins og Frakkland, Þýskaland og Ítalía, þar sem efnahagslífið er í rúst að mati andstæðinga ESB hér á landi, ná betri efnahagsárangri á þennan mælikvarða en við. Skyldi þetta hafa eitthvað með aðild þessara landa að ESB að gera? Reyndar eru smáríki, sem nota evru, ofarlega á þessum lista til dæmis Írland, Belgía og Lúxemborg sem trónir á toppnum."


Nýmæli í íslenskri pólitík

peningar a treÍ morgun var ég fundarstjóri á afar fjölmennum fundi Samfylkingarinnar um efnahagsmál. Tilefnið var að faglegur starfshópur á vegum Samfylkingarinnar var að skila af sér ítarlegri og fróðlegri greinargerð um stöðu efnahagsmála. Þar er einnig greint frá þeim mistökum sem hafa valdið hér ofþenslu og ójafnvægi síðustu ára og lagðar eru til nokkrar skynsamar aðgerðir í hagstjórninni.

Það var mjög gaman að taka þátt í þessari vinnu en ýmsir sérfræðingar komu að gerð þessa rits sem verður að teljast vera nýmæli í íslenskri pólitík.

Ritstjóri og formaður Hagráðsins, eins og við köllum það, er Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, ráðherra og seðlabankastjóri.

Það er mikill akkur fyrir stjórnmálaflokk að hafa aðgang að framúrskarandi sérfræðingum á sviði hagstjórnar.

Við í Samfylkingunni vitum að efnahagsmál eru dauðans alvara og það er grundvallaratriði að hér sé stunduð skynsamlega hagstjórn. Á það hefur mjög vantað enda gætu lífskjör allra verið enn betri en þau eru núna ef ekki hefði komið til hagstjórnarmistaka hins opinbera.

Hér fyrir neðan má finna nokkur stikkorð frá Jóni Sigurðssyni sem notuð voru til að kynna ritið góða en þau eru langt frá því tæmandi:

  • Íslenska hagkerfið í miklu ójafnvægi
  • Viðskiptahalli aldrei meiri
  • Afar háir vextir, óstöðugt gengi
  • Verðbólgan 2-3 falt meiri en verðbólgumarkmið
  • Stefnir í halla á ríkissjóði á næsta ári
  • Hættumerki á alþjóðlegum fjármálamarkaði
  • Ennfremur þarf að bæta fyrir vanrækslusyndir á sviði félagsmála og kjarajöfnunar
  • Samstillingu vantar í hagstjórnina
  • Nýtt og betra vinnulag þarf við hagstjórnina
  • Bæta fjárlagagerð og eftirlit með framkvæmd
  • Stefna að þjóðarsátt um efnahags- og félagsmál
  • Peningamálastjórn með verðbólgumarkmiði, fljótandi gengi og stýrivöxtum ekki gefið góða raun
  • Verðbólgumarkmið hafa ekki náðst
  • Stýrivextir Seðlabanka 14,25% - aldrei hærri
  • Vaxtamunur milli Íslands og helstu markaðslanda -aldrei meiri
  • Gengi krónunnar hefur sveiflast afar mikið
  • Evru-aðild sem markmið gæti verið kjölfesta fyrir hagstjórnina
  • Tekjuafgangur og lækkun ríkisskulda vegna tekna af ofþenslu og eignasölu, fremur en vegna árangurs í útgjaldastjórn
  • OECD og IMF gagnrýna skattalækkun og útgjaldaauka ríkisins 2006 og 2007
  • Halli á ríkissjóði framundan
  • Hagstjórn hafi áhrif á tímasetningu og umfang stórframkvæmda með tilliti til þjóðarhags og umhverfis
  • Árin 1995-2006 jókst hlutur ríkisins í vaxandi þjóðartekjum - úr 32% í 41%
  • Hlutfall skatta hjá fólki með lágar og miðlungstekjur hefur hækkað
  • Ójöfnuður í skiptingu ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist
  • Kjör lífeyrisþega og barnafjölskyldna hafa dregist aftur úr
  • Heildarendurskoðun þarf á skattkerfi og lífeyriskerfi
  • Sanngjarnari niðurjöfnun skatta nauðsyn - án þess að skattar í heild hækki
  • Létta skattbyrði fólks með lágar tekjur
  • Samræma skatta af fjármagnstekjum og lífeyri
  • Þarf að borga sig fyrir lífeyrisþega að afla tekna
  • Sérstakt átak til að bæta aðbúnað og umönnun aldraðra og öryrkja
  • Bæta kjör barnafjölskyldna og hækka barnabætur
  • Markmiðið að útrýma fátækt á Íslandi
  • Fákeppni, háir óbeinir skattar á innflutning og hár fjármagnskostnaður halda uppi háu verðlagi
  • Stuðlum að samkeppni með opnun markaða í alþjóðlegu samstarfi
  • Skerpum framkvæmd samkeppnislaga
  • Samkeppnislög nái til allra atvinnugreina
  • Landbúnaðarkerfið með miðstýringu á framleiðslu og verðmyndun veldur miklu um hátt matvælaverð
  • Framleiðslustyrkir landbúnaðar binda allt of mikið fé á fjárlögum
  • OECD mælir með verulegri lækkun framleiðslustyrkja til landbúnaðar
  • Hverfum frá framleiðslutengdum styrkjum, ofurtollum og sköttum á innflutta matvöru - í samstarfi við bændur
  • Aðlögun að nýjum framleiðsluháttum með öflugum stuðningi við starfsmenntun og stofnun nýrra fyrirtækja
  • Framleiðslustyrkir landbúnaðar binda allt of mikið fé á fjárlögum
  • OECD mælir með verulegri lækkun framleiðslustyrkja til landbúnaðar
  • Hverfum frá framleiðslutengdum styrkjum, ofurtollum og sköttum á innflutta matvöru - í samstarfi við bændur
  • Aðlögun að nýjum framleiðsluháttum með öflugum stuðningi við starfsmenntun og stofnun nýrra fyrirtækja
  • Viðskiptafrelsi mikilvæg forsenda framfara
  • Aðild að ESB vænleg leið til þess að brjótast út úr stöðnuðu landbúnaðarkerfi
  • Íslenskir bændur fengju öflugan stuðning úr sjóðum ESB ef til aðildar kæmi
  • ESB aðild fylgdi mikil lækkun matvælaverðs og aukin samkeppni neytendum til hagsbóta

mbl.is Hagstjórnarvandi næstu ríkisstjórnar verður ærinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eigum við að kjósa um?

kjosaNýjasta könnun Capacent sýnir að Samfylkingin í Reykjavík suður hefur bætt við sig tveimur prósentustigum frá síðustu könnun. Hið sama var uppi á teningnum í vikunni áður en þá bætti flokkurinn einnig við sig um 2%. Af þessum tveimur könnunum virðist sem að viðsnúningur sé að verða á fylginu. Fylgið Samfylkingarinnar hefur því aukist um 4,3% á tveim vikum.

Það er í samræmi við þá tilfinningu sem við höfum fengið undanfarna daga og vikur þegar við höfum verið að hitta fólk og kynna áherslur okkar. Nú fer aukin harka að færast í kosningabaráttuna með umræðuþáttum og aukinni umfjöllun fjölmiðla.

Nú kynna flokkarnir hver af öðrum stefnumál sín. Og ég get ekki annað en nefnt það aftur hvað það er broslegt að fylgjast með stjórnarflokkunum nánast taka hamskiptum, því báðir flokkarnir virðast nú orðnir að mjúkum félagshyggjuflokkum. En auðvitað á ekki síður að dæma stjórnmálaflokka af fyrri verkum – en ekki aðeins loforðum til framtíðar.

Og þegar ríkisstjórnin er dæmd af verkum sínum er auðvitað ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að velferðarmálin séu ofarlega á forgangslista.

Það staðfesta 400 manna biðlistar aldraðra og hin fjölmörgu eldri hjón sem eru aðskilin á ævikvöldi sínu vegna skorts á búsetuúrræðum. Og það staðfestir barnafátæktin sem er helmingi meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og telur rúmlega fjögur þúsund íslensk börn og það staðfestir sú staðreynd að ríkisstjórnin skerti barnabætur um 10 milljarða krónur. Eldri borgarar 2

En það ekki bara að kjósa um velferðarmálin heldur einnig um stefnu í alþjóðamálum – um það hvort stuðningur ríkisstjórnarinnar við árásina í Írak var réttlætanleg.

Það á kjósa um það hvernig farið er með veitingarvald – hvort að fólk sé sátt við skipanir þessarar ríkisstjórnar í Hæstarétt. Og hvernig valdinu var beitt í Falun Gong.

Það á að kjósa um virðingu fyrir lögum landsins, hvort það sé eðlilegt að dómsmálaráðherra lýsi því yfir að jafnréttislög séu barn síns tíma eftir að hann hefur verið álitinn brotlegur við þau.

Það á að kjósa um það hvort við viljum ríkisstjórn sem beitir sér fyrir sértækum lögum sem beindust að einu fyrirtæki á borð við fjölmiðlalögin. Eða ríkisstjórn sem hindrar eðlilega sameiningu hjóna vegna þess að annar aðilinn er undir 24 ára aldri og af erlendu bergi brotinn. 

Það á að kjósa um hvort við viljum áfram ríkisstjórn sem heldur uppi einu hæsta matvælaverði í heimi, einu hæsta vaxtastigi í heimi, einu hæsta lyfjaverði í heimi og einu hæsta húsnæðisverði sem nokkur íslensk kynslóð hefur búið við.


Hversu langan tíma þarf Framsókn?

Mikið er skrýtið að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn sem er búinn að vera stöðugt í ríkisstjórn síðan árið 1971, að 4 árum undanskildum, skuli alltaf tefla sig fram sem hálfgerðum stjórnarandstöðuflokki í kosningum sem ætlar að gera hitt og þetta, laga og bæta.

Er þetta lið ekki búið að fá næg tækifæri til þess? Maður hefði haldið að síðustu 35 ár hefðu verið nægur tími.


Ljúft páskafrí

ári-Við fjölskyldan höfum átt notalegt páskafrí sem hefur einkennst af rólegheitum og mikilli samveru með stórfjölskyldunni. Við ákváðum að vera heima í bænum í fríinu og höfum þess í stað farið í barnaafmæli, í grillveislu á Seltjarnarnesinu í mígandi rigningu og nú í dag er stefnan tekin á kalkún hjá tengdaforeldrunum. Það er mikið tilhlökkunarefni enda eru tengdaforeldrarnir mikilir matgæðingar og listakokkar.

Dagurinn hófst hins vegar á því að dæturnar, sem er 4 og 2 ára, vöknuðu rétt fyrir klukkan sjö til að leita að páskaeggjum sem foreldrarnir höfðu falið í íbúðinni. Síðan höfum við maulað súkkulaði sem er nú kannski ekki alveg til fyrirmyndar en tilheyrir páskunum.

Jól og páskar hafa fengið meiri þýðingu eftir að börnin komu til sögunnar, maður upplifir þessar hátíðir sterkar með tvær litlar stelpur á heimilinu sem ráða varla við sig af spenningi. Það sama á reyndar við um afmælin, þeim er fagnað ógurlega og eldri dóttirin liggur iðulega andvaka af æsingi þegar að afmæli eru í nánd – og virðist þá litlu skipta hver það er.

Fríið þessa síðustu daga er hins vegar lognið á undan storminum. Kosningabaráttan er komin á fullt skrið.   Stemmningin í okkar herbúðum er ljómandi fín og ég verð að segja að það skiptir ótrúlega miklu máli. Kannanir hafa ekki verið alveg eins og við viljum hafa þær. En hitt skiptir þó miklu máli að sjá að tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi. Ríkisstjórnin mælist aftur og aftur fallin. Fólk vill sjá breytingar. Það liggur sömuleiðis fyrir að mjög margir eiga eftir að taka afstöðu og að það gera menn á síðustu metrunum. Þetta upplifðum við í síðustu baráttu. Við gengum sterk og samhent inn í baráttuna.

Síðustu daga hafa kannanir bent til þess að okkar mikla vinna undanfarnar vikur sé að skila sér. Fylgi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæminu sýnir að við höfum bætt við okkur einum þingmanni og Lára Stefánsdóttir er að mælast inni sem er sérstakt fagnaðarefni. samfylkingasól

En það virðist enn vera talsvert rót á fylginu og því þýðir ekkert annað en að halda áfram að hitta fólk og kynna hina frábæru stefnu Samfylkingarinnar og má þar nefna Unga Ísland, Fagra Ísland, Nýja atvinnulífið, Lífsgæði eldri borgara og neytendastefnu okkar sem gefur okkur mikla sérstöðu.


7-0

Jæja, aðalatriðið er að vera með og að styrkja góð málefni í leiðinni. En fjölmiðlungarnir tóku okkur víst naumlega með 7 marka forskot. Reyndar voru þeir að keyra einhverjum helköttuðum íþróttafréttamönnum og útvarpsmönnum sem fáir kunnu deili á. Við stóðum okkur þó ágætlega en öldungurinn í hópnum okkar, Ellert B. Schram fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn (67), blés varla úr nös á meðan við hinir vorum að deyja á vellinum.

En fjölmiðlarnir höfðu þetta og því er ástæða til að óska þeim til hamingju. En rosalega er líkaminn minn feginn að þetta gerist ekki aftur fyrr en eftir 4 ár.


Einungis hægt að sjá í dag

Í dag gerist stórviðburður sem enginn má láta framhjá sér fara. Þetta er örugglega eina tækifærið sem verður næstu 4 árin til að líta svona atburð augum. Því er um að gera að mæta. Ég er auðvitað að tala um pressuleik frambjóðenda og fjölmiðlafólks. Leikurinn verður haldinn í dag, laugardag, í Egilshöll kl. 15. Allir velkomnir og andvirði miðasölu rennur í góð málefni (Umhyggja, Blátt áfram og CP–samtökin).

Ég mun víst taka þátt í þessum herlegheitum ásamt félögum mínum. Ég hef reyndar ekki spilað bolta í nokkur ár. Reyndar var ég nokkuð liðtækur hér árum áður með stórfélaginu Gróttu United. Þar spilaði ég frá 5. flokki og þar til ég hætti þessu sprikli í 2. flokki. Tvisvar á mínum ferli hlotnaðist mér bikarinn ,,Mestu framfarir”.  Skiljanlega var ég mjög stoltur af þessari viðurkenningu en svo fékk ég þá skýringu að þessi bikar færi iðulega til þess aðila sem hefði verið í hvað versta formi af öllum í upphafi sumars. En bikar er þó bikar.

Hvet ykkur allavega til að mæta í dag.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband