Hvað var samþykkt á landsfundi Samfylkingarinnar?

Landsfundur Samfylkingarinnar lauk um helgina. Margvísleg málefnavinna var unnin á landsfundinum og var stefnan mótuð til tveggja ára. Mig langar að draga fram nokkra stefnupunkta og setja þá í samhengi við hina flokkana. Samfylkingin vill m.a.:

1. Fella niður tolla af matvælum í áföngum í samráði við hagsmunaaðila. Samfylkingin er eini flokkurinn á þingi sem hefur lagt þetta til.

2. Afnema stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa. Samfylkingin hefur í mörg ár lagt slíkt frumvarp fram en Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa aldrei viljað samþykkja það.

3. Afnema vörugjöld af matvælum. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur skildu eftir meira en helming vörugjaldanna. Vinstri grænir eru á móti niðurfellingu þessara vörugjalda.

4. Skapa hagstætt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í fjármálaþjónustu sem standist fyllilega samkeppni við það sem best gerist í öðrum löndum. Vinstri grænir hafa lagt til hækkun á fjármagnstekjuskatti.

5. Lækka virðisaukaskatt af lyfjum úr 24,5% í 7%. Samfylkingin lagði þessa tillögu fram fyrir jól og bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur kusu gegn þessari tillögu.

6. Hefja áratug hátækninnar með samræmdum aðgerðum í þágu þekkingariðnaðarins. Tillögur Samfylkingarinnar um þekkingariðnaðinn lentu í þremur efstu sætunum á Sprotaþingi þegar allir flokkarnir voru beðnir að leggja fram þrjár tillögur.

7. Fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu 4 árum.

8. Hverfa frá miðstýringu í landbúnaði, auka frelsi bænda til þróunar,fullvinnslu og markaðsetningu matvæla og skapa ný tækifæri til atvinnuþróunar. Hér hefur Samfylkingin sem fyrr sérstöðu á alla hina flokkana t.d. Vinstri græna sem hafa ítrekað varið þetta gamla landbúnaðarkerfi sem er bæði neytendum og bændum í óhag.

9. Að ríkið minnki kynbundinn launamun um helming á næsta kjörtímabili. Markmiðið verður að útrýma honum að fullu. Á sama tíma og Ingibjörg Sólrún minnkaði kynbundinn launamun um helming í borginni minnkaði ríkisstjórnin kynbundinn launamun ekki um krónu.

10. Afnema launaleynd.

11. Gera kaup á vændi refsivert. Það vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki.

12. Tryggja rétt samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Þessu treystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sér ekki að gera á þingi þrátt fyrir vilja Samfylkingarinnar.

13. Byggja 300-400 ný hjúkrunarrými á næstu átján mánuðum. Bygging og rekstur hjúkrunarrýma er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hér hefur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur gjörsamlega mistekist.

14. Lækka skatta á lífeyrissjóðsgreiðslum úr 35,72% í 10%. Er mikið réttætismál enda er langstærsti hluti lífeyrissjóðsgreiðslna sparnaður. Þetta yrði stórfellt kjarabót fyrir marga eldri borgara. Þriðji hver eldri borgari lifir undir fátæktarmörkum.

15. Hækka frítekjumark vegna tekna aldraðra í 100.000. kr. á mánuði. Það gildi jafnt um lífeyrissjóðs- og atvinnutekjur. Leið ríkisstjórnarinnar gerir einungis ráð fyrir 25.000 kr. frítekjumarki sem eingöngu miðar við atvinnutekjur. Stóra kjarabótin felst í að láta frítekjumarkið ná einnig til lífeyrissjóðstekna.

16. Bæta tannvernd barna m.a. með ókeypis eftirliti. Um 8.500 börn hafa ekki farið til tannlæknis í 3 ár. Það gerist á vakt þessarar ríkisstjórnar.

17. Lengja fæðingarorlofið í eitt ár og tryggja börnum einstæðra foreldra sama rétt og öðrum börnum til samvista við foreldra.

18. Tryggja að öll börn geti tekið þátt í íþrótta-, tómstunda- og félagsstarfi, sem og listnámi. Þetta var eitt af því fyrsta sem Samfylkingin gerði þegar hún komst til valda í Hafnarfirði. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra er barnafátækt er helmingi meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

19. Tryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla.

20. Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum. Samfylkingin er eini flokkurinn sem lofar þessu. Er svona t.d. í Danmörku.

21. Breyta 30% námslána í styrk að loknu námi. Samfylkingin hefur lagt þetta á þingi en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki viljað samþykkja það.

22.  Afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Samfylkingin hefur lagt þetta á þingi en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki viljað samþykkja það.

23. Greiða námslán út mánaðarlega. Samfylkingin hefur lagt þetta á þingi en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki viljað samþykkja það.

24. Setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá. Þetta vildu Sjálfstæðismenn ekki í stjórnarskrárnefndinni.

25. Taka Ísland af lista hinna vígfúsu þjóða.

26. Að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og hefji aðildarviðræður. Samfylkingin er eini flokkurinn á Íslandi sem hefur þessa stefnu en allir helstu meginstjórnmálaflokkar Evrópu hafa haft það á stefnuskrá sinni að vera aðilar að Evrópusambandinu.

27. Efna til náins samstarfs milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála sem myndað geti þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum. Tryggja jafnvægi og ábyrgð í hagkerfinu sem er forsenda þess að vextir og verðbólga lækki til muna og gengisstöðugleiki aukist. Því almenningur þarf að borga reikninginn fyrir síendurtekin hagstjónarmistök ríkisstjórnarinnar með verðbólguskatti. Nánast hver einasta greiningardeild, innlend og erlend, hefur álitið ríkisstjórnina hafa gert þessi hagstjórnarmistök. Það er því ekki bara Samfylkingin sem heldur þessu fram.

28. Koma á ábyrgri fjármálastjórn hjá ríkinu, endurskoða skipulag við gerð fjárlaga og eftirlit með framkvæmd þeirra. Fjárlög ríkisstjórnarinnar árin 2000-2004 gerðu ráð fyrir 82 milljarða króna afgangi af ríkissjóði en þegar reikningurinn var gerður upp kom í ljós 8 milljarða króna halli. Skekkjan þessi ár var því upp á 90 milljarða króna. Ofsalega fín fjármálastjórn hjá Geir Haarde eða hitt þó heldur.

29. Ákvarðanir um stórvirkjanir og tengdar framkvæmdir verði teknar með tilliti til umhverfissjónarmiða og jafnvægis í efnahagsmálum.

30. Tryggja sjálfstæði Seðlabankans og hverfa frá pólitískum ráðningum í embætti Seðlabankastjóra. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa stundað þennan ósóma allt fram á síðasta dag.


Óttalega finnst mér valið vera augljóst þann 12. maí ef þessi listi og samanburður er skoðaður.

Að lokum langar að mig að benda á að kosningavíxlar ríkisstjórnarflokkanna eru talsvert dýrari en áherslur Samfylkingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Flott hjá ykkur.  Þarna má finna margt sem kemur láglaunafólki til góða.  Mér finnst samt alltaf vanta hjá ykkur að tala skýrar til láglaunafólks um kjör lþeirra.  Þið talið til öryrkja og aldraða sem er gott og gilt en láglaunafólkið, verkafólkið er skilið eftir.  Þess vegna kjósa þeir VG , þ.e.a.s. þeir sem endalaust kjósa sjálfstæðisflokkinn.  Hvað með verðtygginguna? hvað með húsnæði fyrir láglaunafólk, þessu sleppið þið alveg.  Hvers vegna? Geturðu komið þessu til skila til Ingibjargar fyrir mig

Þórdís Bára Hannesdóttir, 17.4.2007 kl. 11:51

2 Smámynd: Hammurabi

Þó Hammurabi sé langt frá því að vera samfylkingarmaður, verður hann að taka að ofan fyrir ykkur með þessum stefnumálum ykkar. Þarna er á ferðinni skynsamar yfirlýsingar (sérstaklega í ljósi þeirra fyrirvara sem Ingibjörg gaf í Silfrinu síðastliðinn sunnudag). Það er gott að sjá að hér á landi er á ferðinni jarðbundinn og raunsær vinstri-flokkur. 

Til hamingju með heilbrigða skynsemi, og marktæk kosninga "loforð". 

Hammurabi, 17.4.2007 kl. 13:54

3 identicon

Sæll Ágúst, 

Ég er hjartanlega sammála þér, þessi listi hjá ykkur er glæsilegur. Það alversta við þessa lista hjá öllum flokkunum er að það sem á þeim er kemst af mjög litlu leiti til framkvæmda. Listarnir keppast við að setja fram kosningaloforð sem því miður verða aldrei neitt annað en það.

 Ég er viss um sá listi sem fyrst setur fram loforð sem raunverulega verður hægt að standa við myndi fá atkvæði fjölmargra. Ég fyrir mitt leiti mun ekki kjósa þar sem mér gengur ekki vel að átta mig á hver þeirra er að "plata" mig minnst með "væntum" sviknum loforðum.

Baldvin (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 16:35

4 identicon

Kom aðeins við á þessum landsfundi, fannst undarlegt andrúmsloft þarna. Meðvirknislegt, hausinn í sandinn, andrúmsloft.

Ekki var að sjá að fundarmenn áttuðu sig á hrapalegu gengi flokksins og haldið var áfram að stefna að stöðvun atvinnuuppbyggingar í landinu.

Mest gaman var þó að sjá muninn á því hvað þingmenn flokksins eru mikið minna fyrir að heilsa fólki og þekkja það en var í aðdraganda prófkosninganna þegar barist var um fækkandi þingsæti.

Ljóst er að vægi harðlínumanna í flokknum er að aukast, frjálslyndir jafnaðarmenn úr gamla Alþýðuflokknum eru líttáberandi í starfinu en þeim mun meira fer fyrir Alþýðubandalagsmönnum og þá einkum þeim er aldrei náðu fram þar í flokki. Þá eru einkenni Kvennalistans mjög sterk.

Enda má glögglega sjá þess merki á stefnu, eða kannski hringlanda og stefnuleysi Samfylkingarinnar. Eina sem verulega er hamrað á er feminísataumræðan sem aldrei mun skila flokknum neinu.

Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 01:16

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

1. Samfylkingin er eini flokkurinn sem vill ganga af landbúnaðinum dauðum. Efast um að þetta standist samkeppnislög, þar sem íslenskur landbúnaður væri að keppa við niðurgreidd innflutt matvæli. Krötunum hefur verið illa við íslenskan landbúnað eftir að Krýsuvíkurtilraun Hafnarfjarðarkratanna fór út um þúfur.

2.  Skattalækkanir eru vandmeðfarnar, eins og allir vita. Framsókn telur rétta tímann til að huga að þessu máli vera núna, enda ætti það að auka samkeppni á bankamarkaði.

3. Sjá 1.

4. Samhljóða Framsókn (kannski fengið að láni, en það er bara gott mál) 

5. Samhljóða Framsókn. Menn vonuðust til að ná meiri árangri gagnvart lyfsölum og því er þetta skref nú eðlilegt.
6. Framlög til nýsköpunar hafa margfaldast á síðustu árum. Auðlindafrumvarpið sem Samfylkingin stóð í vegi fyrir að yrði samþykkt gerði ráð fyrir að gjaldið rynni til nýsköpunar.
7. Í sama anda og stefna Framsóknar.
8. Usss, sjá 1
9. Framsóknarráðherrar hafa lagt fram góðar tillögur í þessum efnum, sérstaklega þá síðustu um launavottun fyrirtækja.
10. í samræmi við frumvarp félagsmálaráðherra

11. Gott mál.
12. Framsóknarflokkurinn kom á algerum jafnréttindum samkynhneigðra í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Talið var rétt að taka tillit til óska Þjóðkirkjunnar, sem mikill meirihluti þjóðarinnar er hluti af, um að bíða með frekari breytingar.
13. Bygging þessara rýma er öll komin í farveg og framkvæmd.
14. Þeir eldri borgarar sem lifa undir fátækramörkum fá fæstir greiðslur úr lífeyrissjóði. Því munu þessi útgjöld ekki koma þeim til góða. Aftur á móti er rétt að skoða að skattleggja þann hluta greiðslnanna sem er ávöxtun eins og fjármagnstekjur.
15. Hækka frítekjumark vegna tekna aldraðra í 100.000. kr. á mánuði. Það gildi jafnt um lífeyrissjóðs- og atvinnutekjur. Leið ríkisstjórnarinnar gerir einungis ráð fyrir 25.000 kr. frítekjumarki sem eingöngu miðar við atvinnutekjur. Stóra kjarabótin felst í að láta frítekjumarkið ná einnig til lífeyrissjóðstekna.
16. Þetta er fengið að láni frá Framsóknarályktunum
17. Lengingin er sammála Framsókn, en það er því miður erfitt að réttlæta þetta með einstæðu foreldrana. Það er svo mikið svindlað á hjúskaparstöðu, að þetta myndi því líklegast vinna gegn tilgangi laganna..
18. Vonandi er komin þjóðarsátt um þetta mál. Hafnarfjarðarkrötunum ber þökk.
19. Framsókn hefur staðið vörð um þetta mál.
20. Skiptibókamarkaðurinn kemur að miklu leiti í stað þessa. Hættan er sú að fólk fari ver með bækurnar, ef það á þær ekki.
21. Framsókn vill fara þá leið að breyta hluta lánsins í styrk, ljúki fólk námi á réttum tíma.
22.  Samningar náðust við bankana um að hægt væri að kaupa ábyrgð hjá þeim. Hálfur sigur, ekki fullur. Mundu hver er stjórnarformaður LÍN.
23. Þetta gengur ekki ef tengja á lánin námsframvindu. Annars gæti fólk lent í því að þurfa að endurgreiða.
24. Rétt
25. Bull. Ísland getur ekki breytt fréttatilkynningu Hvíta Hússins. Aftur á móti voru forsendurnar fyrir Azoreyjayfirlýsingunni, sem reyndar innihélt marga góða hluti, ótengdum Írak, rangar og sá trúnaðarbrestur sem orðið hefur við USA hefur íhaldið ekki vilja horfast í augu við.
26. Framsókn er komin lang lengst í að þroska þessa umræðu. Hefur einn flokka mótað samningsmarkmið, sem fara á eftir, þegar og ef við getum sótt um og við teljum hagsmunum okkar betur borgið innan en utan.
27. Sjá hér
28. Þetta hefur reyndar snarlagast í tíð hans, en má verulega bæta.
29. Þetta er þegar gert í dag.
30. Stolið úr ályktunum Framsóknar. Hvað hafa margir kratar farið af Alþingi í sendiherrastöður?
”Að lokum langar að mig að benda á að kosningavíxlar ríkisstjórnarflokkanna eru talsvert dýrari en áherslur Samfylkingarinnar. “ Á hverju byggir þú þessa síðustu fullyrðingu? Vonandi ertu betur að þér um kostnaðinn en Kristrún Heimisdóttir.

Gestur Guðjónsson, 18.4.2007 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband