Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Góð stemmning á kosningaskrifstofunni

Það gefur manni óneitanlega aukinn kraft í baráttunni þessa síðustu daga að hafa gott fólk í kringum sig sem leggur á sig mikla og óeigingjarna vinnu. Undanfarna daga hefur verið í nógu að snúast hér í Síðumúlanum við að hringja í flokksfélaga en einnig við ýmis önnur tilfallandi verkefni. Þá er gott að eiga góða að og það hefur verið virkilega gaman að koma hingað á kvöldin og hitta þá fyrir fólk sem er allt að vinna að sameiginlegu markmiði. Hér ríkir mikill baráttuhugur. Fyrir áhugasama er hægt að geta þess að við erum í kosningamiðstöðinni öll kvöld núna. Stemmningin er fín og alltaf heitt á könnunni. Við erum í Síðumúla 13.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna

Í dag birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu þar sem ég fjalla um þann mikilvæga vetur sem framundan er hjá Samfylkingunni. Hér má sjá hana: Samfylkingin gengur nú inn í einn mikilvægasta vetur í sögu flokksins. Við þurfum að halda vel á spilunum til að ná því höfuðmarkmiði okkar að fella ríkisstjórnina, þannig að hér taki við ríkisstjórn jafnaðarmanna.
Við verðum að koma frá þeirri ríkisstjórn sem hefur sett Ísland á lista viljugra þjóða. Þjóða sem vildu ráðast inn í Írak. Við verðum að koma frá ríkisstjórn sem hefur hundsað hagsmuni öryrkja og aldraðra. Við eigum að fella ríkisstjórn sem neitar að takast á við grundvallarmál eins og kynbundinn launamun og kynbundið ofbeldi. En er þess í stað staðföst í þeirri stefnu að lækka skatta á þau 10% þjóðarinnar sem hæstar hafa tekjurnar, samhliða því sem skattbyrði allra hinna hefur aukist jafnt og þétt. Og við verðum að koma frá ríkisstjórn sem fjársveltir menntakerfið og misbýður náttúrunni. Umhverfismál eru eitt veigamesta hagsmunamál þjóðarinnar sem varðar alla okkar framtíð og það gengur ekki að umhverfismál víki eilíflega fyrir hagsmunum iðnaðarráðuneytisins.
Við eigum að tala skýrt um hvers konar samfélag við viljum. Samfélag þar sem allir fá að njóta sín og enginn er skilinn eftir. En til að geta aukið við velferðina þurfum við traustan efnahag. Efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar hefur hvorki verið traust né hefur hún leitt af sér aukna velferð. Efnhagsstjórn og velferðarstjórn okkar jafnaðarmanna mun hins vegar tvinnast saman. Hjá okkur ríkir skilningur á því að forsenda velferðarstjórnar eru traustur efnahagur.
Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi hef ég einsett mér að tala máli almennings í landinu, þannig að hagsmunir venjulegs fólks verði aftur settir á dagskrá í íslenskum stjórnmálum, t.d með því að beina sjónum að alltof háu verðlagi hérlendis, hvort sem litið er til lyfja, matvæla, húsnæðis eða peninga í formi verðbólguskatts sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Samfylkingin er flokkur almannahagsmuna.

Fullt út úr dyrum á fundi með eldri borgurum

Yfir hundrað manns mættu á spjallfund minn um málefni eldri borgara á Kaffi Reykjavík í dag. Stemmningin var virkilega góð, en að sama skapi ljóst að mörg brýn úrlausnarefni bíða þess að ný ríkisstjórn jafnaðarmanna taki við völdum. Ólafur Ólafsson formaður landssambands eldri borgara hélt ágætt erindi og að því loknu fór ég yfir helstu áherslumál mín sem snerta eldri borgara. Ólafur benti réttilega á að skattbyrði eldri borgara hefur aukist og að kaupmáttur þeirra tekjulægstu hefur hækkað mun minna en þeirra sem eru með meðaltekjur svo ekki sé talað um þá tekjuhæstu.

Að því loknu fengu gestir sér kaffi og bakkelsi undir ljúfum söng og bröndurum Ragga Bjarna við undirspil Þorgeirs Ástvaldssonar. Eyrún Magnúsdóttir, blaðamaður, stýrði fundinum af miklum myndarskap.

Sá mikli fjöldi eldri borgara sem mætti á kaffifundinn endurspeglar að mínu mati þá miklu þörf sem er fyrir því að taka málefni eldri borgara föstum tökum, enda hefur ríkisstjórnin því miður ekki séð ástæðu til að hafa hagsmuni þessa hóps í huga. Við sjáum staðfestingu á því nánast daglega í fjölmiðlum landsins.

Myndir af fundinum má sjá í myndadálkinum hér á síðunni innan tíðar.

Opinn fundur um málefni eldri borgara með Ragga Bjarna!

Ég boða til opins spjallfundar um málefni eldri borgara sunnudaginn 5. nóvember kl.15 á Kaffi Reykjavík, Vesturgötu 2. Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir og formaður félags eldri borgara ávarpar gesti, Eyrún Magnúsdóttir sjónvarpskona stýrir umræðum og þeir Ragnar Bjarnason og Þorgeir Ástvaldsson flytja nokkur létt lög. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti – allir velkomnir.

Lagði fram frumvarp sem kæmi að notum við meðferð hlerunarmálanna

Í gær lagði ég ásamt félögum í þingflokki Samfylkingarinnar fram frumvarp um óháðar rannsóknarnefndir. Það er að mínu mati mikil þörf fyrir úrræði sem þetta í íslenskum rétti og sú þörf hefur komið berlega í ljós í umræðum um hlerunarmálin svokölluðu. Slík úrræði má finna í flestum nágrannaríkjum okkar. Reglulega koma upp mál í íslensku samfélagi sem eru þess eðlis að þau kalla á einhvers konar rannsókn. Meðal mála sem má nefna auk hlerunarmálanna, eru aðdragandinn að stuðningi íslenskra stjórnvalda við Íraksstríðið, einkavæðing bankanna, fangaflugið, Baugsmálið, meðferð á meðlimum Falun Gong hérlendis o.fl.
Írakstríðið, fangaflug og einkavæðing bankanna
Með frumvarpinu er verið að leggja til nýtt og haldgott úrræði sem ætti að leiða til opnara samfélags og fela í sér að umdeild mál verði rannsökuð af óháðri rannsóknarnefnd. Það blasir sömuleiðis við hversu kjánalegt það er að ætla að ákveða málsmeðferð í tengslum við tiltekin mál og það býður hættunni heim á að ólík mál fái mismunandi meðferð, eftir því sem valdhöfum þóknast á hverjum tíma. Þess vegna er að mínu mati mjög brýnt að búa til raunhæfa leið til að fara með faglegum og málefnalegum hætti yfir grundvallarmál sem varða almannahagsmuni og kunna að koma upp og þarf að fá botn í.
Rannsóknarnefnd í Hafskipsmálinu 1985
Í frumvarpi mínu er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði skipun nefndarinnar en að Hæstiréttur velji nefndarmenn. Þannig var hátturinn hafður á þegar lög voru sett um rannsóknarnefnd í Hafskipsmálinu árið 1985. Í frumvarpinu eru sömuleiðis nákvæmar málsmeðferðarreglur, m.a. um skýrslutökur, vitnaskyldu og réttarstöðu aðila.
Frumvarpið í heild sinni má sjá á http://www.althingi.is/altext/133/s/0324.html

Aukin skattbyrði kvenna

Í dag birtust tvær mismunandi greinar eftir mig í blöðunum. Önnur greinin var um nauðganir og hin um aukna skattbyrði á konum. Einnig var konan mín, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir með hefðbundna Bakþanka sem hún skrifar aðra hverju viku á baksíðu Fréttablaðsins. Greinin um skattbyrði kvenna birtist hér fyrir neðan. ,,Launarmunur kynjanna hefur ekkert breyst í heil 12 ár samkvæmt athyglisverðri könnun sem unnin var fyrir Félagsmálaráðuneytið. Það er með ólíkindum að ekki skuli hafa tekist að þoka neitt við launamuninum þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur farið fram. Fæðingarorlofslöggjöfin sem við bundum svo miklar vonir við að myndu hafa jákvæð áhrif á þróun launa, virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri, þ.e. hvað varðar launaþróun. Vitaskuld voru lög um fæðingar- og foreldraorlof mjög af hinu góða, þó að þau hafi, að minnsta kosti enn sem komið er, haft lítil áhrif á kynbundinn launamun.
Ábyrgðin liggur hjá atvinnurekanda
Ábyrgð stjórnvalda er nokkur og það er vitaskuld einnig á ábyrgð atvinnurekenda að mismuna ekki launþegum á grundvelli kynferðis. Stundum heyrist það sjónarmið að konur biðji bara um lægri laun en karlar, en ábyrgðin liggur auðvitað alfarið hjá þeim sem greiða launin, enda er það svo að launþegar vita oft ekki hver kjör vinnufélaganna vegna launaleyndar. Launasamningar eru því oft á tíðum samningar þar sem annar aðilinn hefur mun meiri vitneskju um það hver eru eðlileg og sanngjörn kjör. Og það er auðvitað sá sem greiðir launin.
Skattastefnan kemur niður á konum
Athyglisverðar greinar Stefáns Ólafssonar prófessors þar sem hann hefur með skilmerkilegum hætti sýnt fram á aukna skattbyrði þeirra sem lægstar hafa tekjurnar má einnig setja í samhengi við stöðu kvenna. Það er því miður staðreynd að konur eru að jafnaði með lægri laun en karlar og það er einnig staðreynd að konur eru fleiri en karlar í hópi þeirra sem lægst hafa launin. Í því samhengi má halda fram að skattastefna ríkisstjórnarinnar komi harkalega niður á konum, því hún hefur óbeint haft þau áhrif að þyngja skattbyrði kvenna. Það er mikilvægt að hafa það að leiðarljósi í allri umræðu að staða kynjanna er ólík og stefna sem í eðli sínu virðist kynhlutlaus getur komið með ólíkum hætti niður á kynjunum.
Hér er komið dæmi um það, en sú stefna ríkisstjórnarinnar að þyngja skattbyrði á launalægstu hópanna kemur með áþreifanlegum hætti niður á konum."

Davíð bankar í Geir

Ummæli Davíðs Oddssonar við vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær voru mjög athyglisverð. Það var einkum tvennt sem vakti athygli mína. Í fyrsta lagi virtist hann gefa mjög lítið fyrir hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Hann var raunar nokkuð beinskeyttur um þetta atriði og taldi að ríkisstjórnin hefði dregið úr framkvæmdum of snemma. Í þessum ummælum mátti lesa hörð skot Davíðs Oddssonar á hagstjórnarhæfileika Geirs H. Haarde. Og nú er fjármálaráðherrann búinn að blanda sér í umræðuna og mótmælir orðum Seðlabankastjórans með máttlausum hætti.

Í öðru lagi varaði Seðlabankastjórinn og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokks við að lækka skatt á þessum tímapunkti þegar þensla ríkir. Þarna er forsætisráðherrann fyrrverandi skemmtilega ósamkvæmur sjálfum sér, því þegar seðlabankastjórinn var forsætisráðherra svaraði hann því jafnan til þegar bent var á ókosti þess að lækka skatta á þenslutímum að almenningi væri best treystandi til að fara með fjármuni sína. Í öðru embætti hefur sami maður allt aðra skoðun.

Það er reyndar allt að því fyndið til þess að hugsa að seðlabankastjórinn sé kominn í þá sérstöku aðstöðu að gagnrýna nú tímasetningar á skattalækkunum sem hann sjálfur studdi þegar hann var í stjórnmálum.

Það heyrist svo hvíslað að sennilega sé seðlabankastjórinn sé með þessu að nota kærkomið tækifæri til að banka duglega í Geir Haarde forsætisráðherra og framgöngu hans og hans manna í prófkjörinu um síðustu helgi.

Bandaríkin kjósa

Nú styttist í bandarísku þingkosningarnar og að vanda virðist ýmislegt vera í gangi. Hefðbundnar neikvæðar auglýsingar svokallaðra stuðningshópa tröllríða nú bandarískum fjölmiðlum. Og frambjóðendurnir keppast við að afneita þessum auglýsingum með mistrúverðugum hætti. Mestu smáatriði virðast einnig ná miklu flugi í baráttunni, hvort sem það er slappur brandari hjá John Kerry eða dónalegir tölvupóstar dómgreindarlítils þingmanns. Útlit er fyrir að ótrúlega klaufsk ummæli Kerry muni hafa alvarlegar af afleiðingar í för með sér. Það er margt sem kæmi spánskt fyrir sjónir ef það væri sett í íslenskt samhengi og má þar t.d. nefna heit°kosningamál eins og fóstureyðingar, byssulöggjöf, stofnfrumurannsóknir, framhjáhöld frambjóðenda o.s.frv.
Maður á mann
Hins vegar er einnig sumt líkt með kosningum hvort sem þær eiga sér stað í Bandaríkjunum eða á Íslandi. Í síðustu forsetakosningum var ég staddur í Boston sem er heimabær John Kerry. Þar heimsótti ég kosningaskrifstofu hans þar sem baráttan var á fullum krafti. Það sem kom mér einna mest á óvart við kosningavinnuna þar var að meira að segja bandarísku forsetakosningar snúast um maður-á-mann taktík. Það er að segja að símtöl fólks til vini, ættingja, nágranna og vinnufélaga voru talin lykillinn að góðum sigri að sögn kosningasérfræðinganna á staðnum. Ef slík vinna skilar árangri í Bandaríkjunum þá getur fólk rétt svo ímyndað sér hvað árangri slík vinna skilar hér á landi.
Farsi og sjarmi
Það er alltaf viss sjarmi við bandarísku kosningarnar. Bandarísku spjallþættirnir um kosningarnar eru hrein unun að horfa á og jafnast á við góðan skemmtiþátt. Kappræðurnar er þrúgnar spennu og fjölmiðlaumfjöllunin verður oft farsakennt. Þetta er skemmtilegur tími fyrir kosningafíkla eins og flestir stjórnmálamenn eru. Síðan má hiklaust mæla með þeim kvikmyndum sem fjalla um kosningaumhverfið þar í landi. Má þar nefna Election og Primary Colors þótt þær sé afskaplega ólíkar.

22.000 undirskriftir til stuðnings fyrningarfrumvarps

Ég hef nú lagt í fjórða sinn lagafrumvarp um afnám fyrningarfresta vegna kynferðisbrota gegn börnum. Um 22.000 manns hafa skrifað undir áskorun þess efnis að samþykkja beri frumvarpið. Slíkur stuðningur er nánast fordæmalaus í sögu þingisins. Þessi fjöldi er farinn að nálgast þann fjölda sem mótmælti fjölmiðlafrumvarpinu hérna um árið. En þrátt fyrir að þetta sé í fjórða sinn sem frumvarpið er lagt fram og mikinn stuðning hefur þingheimur ekki enn fengið tækifæri til að taka afstöðu til málsins, þar sem það hefur aldrei fengist til umræðu á þinginu.
Nú liggur sömuleiðis fyrir frumvarp dómsmálaráðherra sem gerir almennt ráð fyrir 4 ára lengingu á fyrningarfrestum. Með slíkri breytingu næðist fram mikilvægur áfangasigur sem ber að fagna. Ég og félagar mínir í Samfylkingunni teljum hins vegar að stíga eigi skrefið til fulls og afnema fyrningafresti. Sé litið til þess hvenær þolendur leita sér aðstoðar, t.d.hjá Stígamótum, kemur í ljós að rúmlega 40% eru 30 ára eða eldri. Samkvæmt núgildandi lögum eru hins vegar öll kynferðisbrot gegn börnum fyrnd við 29 ára aldur þolanda. Með samþykkt á frumvarpi dómsmálaráðherra verða öll kynferðisbrot gegn börnum fyrnd við 33 ára aldur þolands. Því verður enn hætta á sýknudómum vegna fyrningar þrátt fyrir að jafnvel játning liggi fyrir.
Mikilvægt er að halda því til haga, að nú þegar eru til ófyrnanleg brot í íslenskum rétti, s.s. manndráp, mannrán, ítrekuð rán, landráð o.s.frv. Kynferðisbrot gegn börnum eiga heima í þessum flokki ófyrnanlegra afbrota að mínu mati. Enn er hægt að skrifa undir áskorun um að samþykkja beri þetta frumvarp á www.blattafram.is.
Hægt er að nálgast frumvarpið í heild sinni á http://www.althingi.is/altext/133/s/0304.html,

« Fyrri síða

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband