Aukin skattbyrði kvenna

Í dag birtust tvær mismunandi greinar eftir mig í blöðunum. Önnur greinin var um nauðganir og hin um aukna skattbyrði á konum. Einnig var konan mín, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir með hefðbundna Bakþanka sem hún skrifar aðra hverju viku á baksíðu Fréttablaðsins. Greinin um skattbyrði kvenna birtist hér fyrir neðan. ,,Launarmunur kynjanna hefur ekkert breyst í heil 12 ár samkvæmt athyglisverðri könnun sem unnin var fyrir Félagsmálaráðuneytið. Það er með ólíkindum að ekki skuli hafa tekist að þoka neitt við launamuninum þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur farið fram. Fæðingarorlofslöggjöfin sem við bundum svo miklar vonir við að myndu hafa jákvæð áhrif á þróun launa, virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri, þ.e. hvað varðar launaþróun. Vitaskuld voru lög um fæðingar- og foreldraorlof mjög af hinu góða, þó að þau hafi, að minnsta kosti enn sem komið er, haft lítil áhrif á kynbundinn launamun.
Ábyrgðin liggur hjá atvinnurekanda
Ábyrgð stjórnvalda er nokkur og það er vitaskuld einnig á ábyrgð atvinnurekenda að mismuna ekki launþegum á grundvelli kynferðis. Stundum heyrist það sjónarmið að konur biðji bara um lægri laun en karlar, en ábyrgðin liggur auðvitað alfarið hjá þeim sem greiða launin, enda er það svo að launþegar vita oft ekki hver kjör vinnufélaganna vegna launaleyndar. Launasamningar eru því oft á tíðum samningar þar sem annar aðilinn hefur mun meiri vitneskju um það hver eru eðlileg og sanngjörn kjör. Og það er auðvitað sá sem greiðir launin.
Skattastefnan kemur niður á konum
Athyglisverðar greinar Stefáns Ólafssonar prófessors þar sem hann hefur með skilmerkilegum hætti sýnt fram á aukna skattbyrði þeirra sem lægstar hafa tekjurnar má einnig setja í samhengi við stöðu kvenna. Það er því miður staðreynd að konur eru að jafnaði með lægri laun en karlar og það er einnig staðreynd að konur eru fleiri en karlar í hópi þeirra sem lægst hafa launin. Í því samhengi má halda fram að skattastefna ríkisstjórnarinnar komi harkalega niður á konum, því hún hefur óbeint haft þau áhrif að þyngja skattbyrði kvenna. Það er mikilvægt að hafa það að leiðarljósi í allri umræðu að staða kynjanna er ólík og stefna sem í eðli sínu virðist kynhlutlaus getur komið með ólíkum hætti niður á kynjunum.
Hér er komið dæmi um það, en sú stefna ríkisstjórnarinnar að þyngja skattbyrði á launalægstu hópanna kemur með áþreifanlegum hætti niður á konum."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 144263

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband