Eyja en ekki eyland

Flestir kannast við slagorðið „Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð“. Það hljómar vel en enn sem komið er það einungis framtíðarsýn. Fjölmargt þarf að gera ef takast á að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Við þurfum að bæta löggjöfina enn frekar og gera fjármálafyrirtækjum kleift að sameinast sem og sparisjóðunum, einfalda regluverk, liðka fyrir erlendum fjárfestingum, auka kennslu í skattarétti og eignaumsýslu og setja á fót formlegan samstarfsvettvang milli stjórnvalda og fjármálageirans svo eitthvað sé nefnt.

Tryggja þarf að sambærilegar reglur gildi í viðskiptalífinu hér á landi og gilda erlendis. Það er lykilatriði að fjárfestar og fyrirtæki geti gengið að sama viðskiptaumhverfinu vísu. Sérstaða í þessum efnum er ekki góð. Fyrirtæki eru að mörgu leyti eins og börn sem þurfa festu og öryggi en samhliða því sveigjanleika. Með aðild Íslands að Evrópusambandinu yrðum við hluti af stærstu viðskiptablokk heims sem allir þekkja ásamt því að hafa gjaldgengan gjaldmiðil.

Þetta snýst ekki bara um skattana
Undanfarin ár hefur áherslan verið á lága skattprósentu fyrirtækja. Það er að sönnu æskilegt markmið en það er ýmislegt annað sem skiptir fyrirtækin máli. Eitt af því eru samskipti fyrirtækja við eftirlitsstofnanir.

Vegna smæðar okkar höfum við einstakt tækifæri til að vera fremst í flokki þegar kemur að málshraða, minna skrifræði og skilvirkri stjórnsýslu. Til að ná þessu markmiði þarf að gera enn betur við viðkomandi eftirlitsstofnanir. Staðan hér á landi er talsvert betri en víðast annars staðar en ég er sannfærður að unnt er að gera enn betur.

Aftur örlítið um tvítyngda stjórnsýslu
Fyrir nokkrum mánuðum tók ég í blaðagrein undir þá hugmynd að við ættum að stefna að því að gera íslensku stjórnsýsluna tvítyngda sem lið í því að gera Ísland meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Viðbrögðin voru nokkur og ýmsir gengur svo langt að ætla mér það að gera Ísland tvítyngt. Var jafnvel talað um aðför að íslenskri tungu, menningu og þjóð.

Hugmyndin byggir á því að  vanþekking á íslenskum markaði komi í veg fyrir að mörg erlend fyrirtæki komi hingað. Hluti þess vanda sem íslensk fyrirtæki glíma nú við, sem margir hafa nefnt ímyndarvanda, stafar að ég held af vanþekkingu og ónægum upplýsingum um stöðu íslensks viðskiptalífs.

Hér á ég því við það eitt að sá hluti stjórnsýslunnar sem snýr að erlendum fjárfestum verði einnig aðgengilegur á enskri tungu. Eftirlitsstofnanir verði jafnframt í stakk búnar til að svara erindum á ensku og birti niðurstöður sínar einnig á því tungumáli. Þetta er leið sem fjölmargar þjóðir hafa farið með góðum árangri.

Ástæða er til að árétta það sérstaklega að með þessari hugmynd er ekki verið  að leggja til að tungumál ríkisins verði í framtíðinni tvö eða að enska og íslenska verði jafnrétthá sem stjórnsýslumál. Því fer víðsfjarri og markmiðið með þessu væri aðeins að auðvelda erlendum aðilum aðgengi að grundvallarupplýsingum um íslenskt viðskiptalíf og að íslenskum eftirlitsstofnunum.

Verk stjórnarflokkanna
Unnið hefur verið að því af fullum þunga að sníða viðskiptalöggjöf að þörfum atvinnulífsins í vetur.  Sett hefur verið sérstök löggjöf um sérvarin skuldabréf. Lögum um atvinnuréttindi útlendinga hefur verið breytt á þann hátt að auðveldara verður að fá erlenda sérfræðinga til landsins. Þá verður skattprósenta fyrirtækja lækkuð niður í 15% og sparisjóðum hefur verið veitt heimild til að kaupa bankaútibú án þess að þurfa að breyta sér í hlutafélag en það var skilyrði eldri laga.

Viðskiptanefnd Alþingis hefur einnig afgreitt ný heildarlög um verðbréfaviðskipti og kauphallir þegar hin svokallaða MiFID-tilskipun var innleidd í íslenskan rétt. Frumvarp er varðar uppgjör innlends hlutafjár sem er skráð í erlendri mynt varð sömuleiðis að lögum í vetur. Fjárframlög til Fjármálaeftirlitsins hækkuðu um 50% á milli ára og fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins um 60% á tveimur árum. Loks var afnumin skattskylda vegna söluhagnaðar hlutabréfa.

Tækifærið er til staðar 
Tækifærin fyrir litla þjóð á að verða að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, sem byggist á vel menntuðu og launuðu fólki, eru ótrúleg. Í því sambandi má benda á Lúxemborg og Írland, en það var sannarlega ekki augljóst á sínum tíma að þessar þjóðir yrðu slíkar miðstöðvar. Þótt við búum á eyju, ætti markmiðið að vera það að forðast að vera eyland í  í fjármálum og viðskiptum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Athyglisverður pistill hjá þér ágúst og ýmislegt sem þar má taka undir. En ef markmiðið er að hér verði m.a. skilvirk og lítt íþyngjandi stjórnsýsla og lág skattaprósenta, ekki sízt á fyrirtæki, þá er deginum ljósara að það á ekki samleið með aðild að Evrópusambandinu.

Hjörtur J. Guðmundsson, 9.8.2008 kl. 18:44

2 Smámynd: Sævar Helgason

Góður og upplýsandi pistill, Ágúst.  Ef vel er á málum haldið þá virðast möguleikar okkar mjög góðir - að laða að erlend fyrirtæki og fjármagn.

Írum og Luxemborg hefur tekist mjög vel til- er bæði ríkin ekki í ESB ? 

Enginn alvörubragur verður á þessum þætti fyrr en við ákveðum og göngum að fullu í ESB og fáum aðild að evru myntbandalaginu . Núverandi peninga og efnahagsumhverfi er okkur verra en ónýtt...

Sævar Helgason, 9.8.2008 kl. 20:18

3 Smámynd: Árni Bjorn Gudjonsson

Voðalegt bull er þetta. Eru þessir menn frá öðrum hnöttum.

Eða voru þeir að fæðsat í gær.

Kveðja Vilmore

Árni Bjorn Gudjonsson, 9.8.2008 kl. 21:47

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Írland og Luxemburg eru vissulega í Evrópusambandinu en það er hins vegar t.d. Sviss ekki. Það hefur kannski ekki hentað Ágústi að nefna önnur ríki en þau sem eru innan sambandsins og með evruna.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.8.2008 kl. 13:19

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það má annars minna á að Írar eru um þessar mundir að glíma við miklar efnahagsþrengingar sem einkum eru raktar til evrunnar. Og sama er að segja um fleiri aðildarríki Evrópusambandsins s.s. Spán.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.8.2008 kl. 13:20

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég vil benda á að allar tölur um hagvöxt í stórhertogadæminu Luxemburg eru háðar þeim annmarka að þjóðarframleiðsla mikils fjölda einstaklinga sem vinna í en búa ekki Lúxemburg er talin til þjóðartekna án þess að hausafjöldi þeirra sé talinn með í íbúatölum Lúxemburg. Þetta kemur skýrt fram í uppgjörum á tölulegum upplýsingum frá Eurostat. Þetta er svipað og ef þjóðhagsreikningar Íslands fengju leyfi til að telja tekjur viðskiptavina Íslenskra banka erlendis til þjóðartekna Íslands. Þá myndi hallinn á current accunt íslenskra þjóðhagsreikninga eðlilega líta mun betur út.

En Lúxemburg varð samt ekki fyrir valinu þegar bæði Google og Yahoo fluttu evrópuaðalstöðvar sínar til Sviss núna fyrr á árinu. En Sviss er auðvitað er ekki með í Evrópusambandinu og munu aldrei verða. Þeir eru ekki kjánar.

Svo já: Ísland gæti fetað í fótspor Sviss og boðið lága skatta og veitt sérstakar skattaívilnanir til erlendra fyrirtækja sem vilja flytja t.d. aðalstöðvar til Ísland:

Auglýsing

Get the global view from Iceland

Move your European, US and Asia headquarters to Iceland, get flexible tax rebates in the start-up and low future taxation benefits. Buy 4 flats and get one penthouse flat with a view for free. Enjoy the low energy bills in Iceland and take your server park with you. Enjoy the benefits of being located outside the European Union. International banking services.

All applications to be sent to: Ministry of Taxation and Competitive Globalization Strategy at Breiðgötu 5

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 10.8.2008 kl. 17:38

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þess má einnig geta að Google og Yahoo fluttu evrópuaðalstöðvar sínar einmitt frá ESB-London og til Sviss.

Gunnar Rögnvaldsson, 10.8.2008 kl. 17:55

8 Smámynd: Gísli Hjálmar

Það er spurning, Ágúst, hvort þú ættir ekki fyrst að kynna fyrir okkur smáborgurunum hvað felst í hugtakinu "alþjóðleg fjármálamiðstöð".

Er það eitthvað system þar sem bissnessmenn geta stundað peningaþvætti og þessháttar viðskipti - eða?

Mér finnst það nefnilega oft gleymast að við erum einungis 300.000 manna þjóðfélag sem er tiltölulega nýskriðið úr (nánast) sjálfþurftarbúskap yfir í þessa svokölluðu alþjóðamenningu.

Með bestu kveðju, GHs

Gísli Hjálmar , 11.8.2008 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband