Faxlýðræði

Sífellt fleiri þungavigtaraðilar í samfélaginu eru orðnir jákvæðir gagnvart Evrópusambandsaðild. Forysta verkalýðshreyfingar og lykilsamtaka atvinnurekanda vilja láta reyna á aðild. Sömuleiðis sjálf þjóðin ef marka má skoðanakannanir.

Þrátt fyrir það hefur aðeins Samfylkingin viljað aðild en aðrir flokkar virðast sumir enn ekki vita almennilega hvert eigi að stefna og aðrir eru gallharðir andstæðingar aðildar. Og á meðan svo er eru litlar líkur að Ísland leggi inn umsókn.

Efnahagslegu rökin ljós
Þegar Svíar stóðu frammi fyrir upptöku evrunnar fyrir nokkrum árum studdi nánast öll verkalýðshreyfingin sem og samtök atvinnurekenda upptöku hennar. Um 92% forstjóra fyrirtækja í sænsku kauphöllinni studdu upptöku og það gerðu ennig formenn stjórnamálaflokka sem nutu stuðnings um 80% þjóðarinnar.

Af þessum hagsmunaðilum má sjá að sterk efnahagsleg rök hlutu að hafa verið fyrir evrunni. Hins vegar kom á daginn að sænska þjóðin var ekki reiðubúin til þess að styðja upptöku evrunnar og vitanlega hafði hún lokaorðið. 

Hér á landi má einnig segja að efnahagsleg rök fyrir aðild Íslands að ESB og myntbandalaginu séu flestum ljós. En það virðist hins vegar vera meiri dýpt á bak við röksemdirnar gegn aðild sem eru byggðar á grundvelli fullveldis, tillfinninga og þjóðernis. Það þarf því að skoða þær röksemdir mun betur en það þarf að gerast í ljósi núverandi ástands.

EES samningurinn gæfuspor
Það eru flestir sammála um að EES-samningurinn hafi verið Íslendingum mikið gæfuspor og fáir vilja varpa honum fyrir róða, nema e.t.v. Vinstri grænir. Með samningnum varð Ísland hluti af innri markaði Evrópusambandsins þar sem frelsi fólks, fjármagns, vöru og þjónustu á milli landa var tryggt. Vegna þessa erum við skuldbundin til að hafa stóra hluta af okkar lykillöggjöf eins og Evrópusambandið vill hafa hana.

Það er hins vegar ekki einungis viðskipta-, fjármála-, samkeppnis- og atvinnulöggjöfin sem kemur af faxi frá Brussel heldur þurfa margskonar önnur lög okkar einnig að uppfylla skilyrði ESB. Má þar nefna t.d. reglur á sviði umhverfisverndar, sveitastjórnar, fjarskipta, matvælaöryggis og  persónuverndar.

Á fundi viðskiptanefndar þingsins heyrðum við á máli embættismanna sem komu fyrir nefndina að ekki væri unnt að breyta öðru en heiti laganna við afgreiðslu tiltekins frumvarps á Alþingi. Ekki var það beysið fyrir eina elstu lýðræðisþjóð í heimi.

Áhrif á lög og dóma
EES-aðildin hefur einnig haft þau áhrif að við höfum samþykkt að breyta íslenskum lögum þannig að þau uppfylli evrópska löggjöf. Yfirleitt hafa þær breytingar verið til bóta og í sjálfu sér ekki komið upp stór vandamál þessu samfara.

Þá hefur EES-samningurinn sömuleiðis haft margvísleg áhrif á dómsvaldið sem ekki voru séð fyrir. Þann 16. desember 1999 féll tímamótadómur, Erlu Maríu dómurinn, í Hæstarétti Íslands þar sem íslenska ríkið var álitið skaðabótaskylt vegna þess að íslensk löggjöf reyndist ekki vera í samræmi við tilskipun frá ESB, þrátt fyrir að EES-samningurinn segði ekkert um slíkan rétt til bóta.

Að sitja við borðið
Á meðan við erum fyrir utan ESB höfum við engin áhrif á þær reglur sem við þurfum að innleiða. Innan ESB hefðum við hins vegar slík áhrif. Þrátt fyrir fullyrðingar um annað sýnir reynslan að smáríkjum vegnar vel innan ESB. Sitji maður undirbúinn við borðið er hlustað á mann, og það á við um ESB eins og annað.

Og í þessu sambandi skiptir nokkru að þingmenn Evrópuþingsins skipa sér í hópa eftir stjórnmálaskoðunum en ekki eftir þjóðerni. Þessi staðreynd hefur allnokkra þýðingu og er því ekki rétt að segja að 5-6 íslenskir Evrópuþingmenn muni sitja áhrifalausir út í horni.

Hvað fengist með aðild?
Með aðild Íslands að Evrópusambandinu fengjum við fullan aðgang að pólitískri og efnahagslegri stefnumótun sambandsins. Með EES samningnum höfum við ekki aðgang að stefnumótuninni, sem er veigamikill galli.

Með inngöngu í ESB fengist einnig fullur aðgangur að myntbandalaginu, tollfrelsinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, utanríkis- og öryggismálum, byggðamálum og hlutdeild í fjárlögum sambandsins. Einnig tækjum við þátt í Evrópuþinginu, leiðtogaráðinu, ráðherraráðinu, framkvæmdastjórninni, Evrópudómstólnum og að fjölda sérfræðistofnana.

Auðvitað er engin ástæða til að gera lítið úr andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu sem byggist á tilfinningum eða þjóðerniskennd. En einmitt að teknu tilliti til þjóðerniskenndar og vægis Íslands sem fullvalda ríkis getur núverandi ástanda og staða Íslands, varla talist ásættanleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Helvíti held ég nú, að lítið yrði nú tekið mark á okkar mönnum við það borð EFTIR að við hefðum afsalað okkur nánast öllu, sem forfeður okkar unnu inn að nýju.

Það er með okkur, líkt og fögur mey þarf að varast, að fagurgali manna er ljúfur en þegar fallerast hafur verið, eru launin oft rýr.

Mey skal að morgni lofa en dag að kveldi.

Ein er með þetta lið í ESB, ég treysti þeim ekki kvint.

Vil gera tvíhliða samning við það Krtabölvaða Kerfi líkt og Svissararnir gerðu an að öðrum kosti segja þeim að fara vel og koma ekki aftur að Eyri.

Miðbæjaríhaldið 

Bjarni Kjartansson, 14.8.2008 kl. 13:51

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Innan Evrópusambandsins hefðum við engin áhrif enda vægi aðildarríkja miðað við höfðatölu. Þannig hefðum við í bezta falli 5 fulltrúa á Evrópusambandsþinginu af 785 eins og staðan er í dag, 6 af 750 ef Stjórnarskrá Evrópusambandsins verður nauðgað upp á íbúa aðildarríkjanna. Og þeir kæmu ekki einu sinni frá sama framboði hér heima. Meira um "áhrif" Íslands innan Evrópusambandsins hér.

Kannski Ágúst ætli að fjölga þjóðinni í einhverja tugi milljóna á stuttum tíma. Þó er spurning hvort það hefði nokkuð að segja. Ekki er t.d. hlustað á Spánverja og Íra núna þegar þeir eru að upplifa efnahagslegt helvíti vegna evrunnar. Þessi færsla Ágústar felur þannig í raun miklu frekar í sér rök fyrir því að segja upp EES-samningnum en nokkurn tímann ganga í Evrópusambandið :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.8.2008 kl. 17:44

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Og þjóðleg afstaða (eða þjóðerniskennd) byggist á því að vilja standa vörð um hagsmuni þjóðar sinnar. Ég skil stuðning Ágústar við Evrópusambandsaðild betur ef hann telur eitthvað vera að því.

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.8.2008 kl. 17:47

4 identicon

 Ágúst minn - ég er ekki samþykk Evrópuaðild! 

Ása (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 22:07

5 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Ég er samþykkur Evrópuaðild.

Guðjón H Finnbogason, 19.8.2008 kl. 19:39

6 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Jah maður spyr sig : Hvað á að gera ???? Hvað er rétt og hvað er rangt ?

Erna Friðriksdóttir, 20.8.2008 kl. 12:21

7 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Það hlýtur hver maður að sjá að aðild að Evrópusambandinu er hagfelld fyrir íslendinga að öllu leyti.

Það er skrýtið að heyra þá sem vilja efla atvinnulífið í einu orðinu vera á móti því að auka möguleika flestra íslenskra fyrirtækja í hinu orðinu.

Efld ferðaþjónusta, arðbærari sjávarútvegur, ný tækifæri fyrir landbúnaðinn. Þetta eru kostir.

Ef við viljum áfram eiga helst þann kost að selja ódýrari (niðurgreidda?) orku til stóriðju, þá skiptir þetta kannski ekki svo miklu máli.

Jón Halldór Guðmundsson, 22.8.2008 kl. 10:01

8 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Mér finnst í raun ekki skipta máli hvað hver og einn vill í þessu sambandi, heldur að við viljum meina að við búum í lýðræðis ríki, það eru margir í þjóðfélaginu sem vilja aðild og því sjálfsagt að láta þjóðina ákveða þetta. Þá getur hver og einn sagt sitt.

Að mótherjar aðildar séu að berjast á móti því að möguleikarnir séu kannaðir, er ekkert annað en frekja og yfirgangur. Þegar farið verur að greiða atkvæði um aðild eða ekki, er eðlilegt að þeir berjist á móti, en að berjast á móti því að þeir sem eru þeim ósammála fái að nota sinn kostningarétt, það er bara til að grafa undan lýðræðinu.

Ásta Kristín Norrman, 25.8.2008 kl. 07:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband