Lögreglustjóra svarað

vændiÞað hefur verið tekist á um það undanfarin ár hvaða leiðir skuli fara í löggjöf um vændi. Ég hef viljað fara sænsku leiðina þar sem sala á vændi er refsilaus en kaupin eru gerð refsiverð. Í Blaðinu í dag er lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, inntur eftir viðbrögðum við þessum skoðunum mínum sem birtust í sama blaði í gær.

Það getur vel verið að lögreglustjórinn sé ósammála mér og öllum kvennahreyfingum landsins um sænsku leiðina og sé hlynntur því að kaup á vændi séu refsilaus. Það er hins vegar afar sérkennileg yfirlýsing af hálfu lögreglustjórans að leiðin sem farin var í vændismálunum hafi ekki verið slæm þar sem breytingar hafi verið gerðar á misneytingarákvæðinu og refsiþyngingarákvæðum!

Bíddu nú við. Þarna er um algerlega ótengd mál að ræða. Hvað kemur gagnrýni á þá leið sem var farin í vændismálunum þeim breytingum við sem gerðar voru á misneytingarákvæðinu og refsiþyngingarákvæðunum? Nákvæmlega ekki neitt.

Það sem ég gagnrýndi
Ég var í áðurnefndu Blaðsviðtali ekki að gagnrýna önnur atriði þessa frumvarps en þau sem snúa að vændismálunum. Gagnrýni mín beindist alls ekki að breytingunum á misneytingarákvæðinu eða refsiþyngingarákvæðunum. Þvert á móti hef ég ítrekað fagnað þeim réttarbótum sem fólust í frumvarpinu en hins vegar sagt að sú leið sem var farin í vændismálunum, um að hafa bæði kaupin og söluna refsilausa, hafi verið slæm. Lögreglustjórinn ákveður hins vegar að svara því ekki efnislega heldur dregur fram óskyldar breytingar sem allir eru sammála um að hafi verið jákvæðar.

Lögreglumennirnir sögðu þetta víst
Varðandi hitt atriðið sem lögreglustjórinn kemur inn á í Blaðinu í dag og lýtur að frásögn minni um að þeir lögreglumenn sem hafi komið fram fyrir vændisnefndina hafi sagt að ef sala á vændi og kaupin væru bæði refsilaus þá myndi það gera lögreglunni erfiðara fyrir að hafa upp á milligönguaðilum..

Það er ósköp einfalt að fara yfir þetta fyrir lögreglustjórann. Ég sat í þessari þverpólitísku nefnd á vegum dómsmálaráðherra um vændismálin sem skilaði skýrslu fyrir ári síðan og lögreglumenninir sem komu fyrir nefndina héldu þessu fram. Áhyggjur þeirra eru mjög lógískar að mínu mati. Ef bæði seljandinn og kaupandinn eru refsilausir þá vantar allan hvata til að starfa með lögreglunni við að finna og saksækja milligönguaðilann. Slíkur hvati væri hins vegar til staðar ef kaupin væru gerð refsiverð í samræmi við sænsku leiðina.

Bara ekki í útlöndum
Að lokum langar mig að nefna misjöfn viðbrögð sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu. Það er ekki svo langt síðan að ákveðinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók vel í erindi um að opinberum starfsmönnum verði bannað kaupa sér kynlíf þegar þeir eru á ferð erlendis. Þingmaðurinn virðist hinsvegar vera tilbúinn að sætta sig við að sömu einstaklingar geti keypt sér kynlíf hér á landi.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er í anda Björns bónda, dóms og fjallkirkju, að lögleiða hér vændi. Þessi lögleysa finnst honum sniðug. Og skattleggur svo herlegheitin. Það er víða matarholan hjá Sjöllunum, enda þótt þeir séu nú voða mikið á móti því að ríkið sé með nefið ofan í hvers manns koppi. En blautur er nebbinn á Bíbí og er kominn hefðarréttur á þá bleytu alla. Ekki datt honum í hug að gera það bara ólöglegt og refsivert að kaupa hér vændi, sem einfaldast og affarasælast var í málinu. Sænskar leiðir eru svo rosalega sossalegar eitthvað, óálandi og óferjandi öllum bjargráðum. Hér falbjóða erlendar dráttarvélar þjónustu sína nánast daglega á einkamálavefjum og kostar drátturinn 25 þúsund kall. Björn bóndi skattheimtumaður og farísei mætir síðan í dyrunum og innheimtir vaskinn, sem færi nú aldrei í vaskinn, og tekjuskattinn: "Ðö VAT is 6125 krónur, þenk jú verí möts for ðis prógramm, end dónt forgett tú pei ðí inkom tax, gúdbæ!"

Í athugasemdum með frumvarpinu um þetta idiótí segir meðal annars:

"Í öðru lagi er það sjónarmið, sem vegur mun þyngra, að þeir sem hafi viðurværi sitt af sölu kynlífs séu í flestum tilvikum illa settir andlega, líkamlega og félagslega. Þeir séu yfirleitt þolendur sjálfir, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar (samkvæmt upplýsingum Stígamóta hafa 65–85% kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi)."

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 10:51

2 identicon

Litið verður til danskra laga þegar kemur að því að heimta skatt af vændi. Með lagabreytingum sem gerðar voru á þingi um helgina varð löglegt að stunda vændi. Því er nauðsynlegt að greiða skatt af slíkri starfsemi. Steinþór Haraldsson, yfirlögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, segir að í Danmörku sé virðisauki af tekjum fólks í vændi um 24 prósent og líklegt að sama stefna verði tekin hér þó enn liggi það ekki ljóst fyrir.

Steinþór bendir á að margt í þessu máli geti verið flókið og bendir á nýlegan danskan dóm þar sem vændiskona fékk hluta af kostnaði við brjóstastækkun endurgreiddan þar sem sýnt þótti að það félli undir rekstrarkostnað.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband