Hverjir gæta frelsisins?

stóri bróðirMér finnst það alltaf jafnfyndið þegar Sjálstæðismönnum verður tíðrætt um frelsið, sérstaklega rétt fyrir kosningar. Mér finnst það fyndið því mér finnst það vera gríðarleg öfugmæli að álíta Sjálfstæðisflokkinn vera málsvara frelsisins.

Tökum nokkur dæmi til útskýringar.

1. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, lagði fram frumvarp sem hefði heimilað símhleranir án dómsúrskurðar sem hefði gróflega brotið á friðhelgi einkalífsins og önnur mannréttindaákvæði.

2. Sjálfstæðismenn lögðu fram og samþykktu mjög afturhaldsöm útlendingalög sem skertu frelsi til muna. Má þar nefna 24 ára regluna, 66 ára regluna og hina öfugu sönnunarbyrði sem þar er við lýði.

3. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins beitti öllum tiltækum leiðum til að hindra komu Falun Gong til landsins. Settar voru upp fangabúðir í Njarðvík, fólk flokkað niður í Leifstöð á grundvelli kynþáttar og stuðst var við svarta lista frá kínversku leyniþjónustunni.

4. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú heimilað að hægt sé að krefjast IP-tölu úr tölvum án dómsúrskurðar.

5. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins Björn Bjarnason, skerti rétt borgara til að fá gjafsókn einmitt í þeim málum sem snúa að ríkinu s.s. í mannréttindamálum, læknamistökum, umhverfismálum o.s.frv.auga

6. Sjálfstæðismenn börðust hatramlega fyrir einum mest íþyngjandi fjölmiðlalögum sem hefðu þekkst í Vestrænum heimi. Lögleiða átti m.a. skerðingu á prentfrelsi.

7. Sjálfstæðismenn á þingi styðja opinbera neyslustýringu. Þeir kusu beinlínis gegn tillögum Samfylkingarinnar um afnema vörugjöld af öllum matvælum, líka af hinum meintu óhollum vörum, með þeim rökum að það þyrfti að stýra neyslu fólksins í gegnum skattlagningu.

8. Ríkisútgjöldin hafa aukist um tæpa 160 milljarða króna frá árinu 1995. Ríkissjóður er því 73% dýrari í rekstri nú en árið 1995. Ekki hefur þjónustan batnað um 73% á sama tíma.

9. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa réttlætt á þingi skilyrðislausa lífsýnatöku atvinnurekaenda úr starfsfólki (sbr. http://www.althingi.is/altext/130/04/l01133301.sgml)

10. Sjálfstæðismenn sjá afnám launaleyndar allt til foráttu en hvað er launaleynd? Launaleynd er þegar atvinnurekandi getur bannað viðkomandi að segja öðrum frá laununum sínum. Þannig að afnám launaleyndar er því frelsi, frelsi til að tjá sig sem Sjálfstæðismenn vilja hefta.

11. Eftir tæplega tveggja áratuga setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn búum við enn við einkasölu ríkisins á áfengi.

12. Enn er ríkisfjölmiðillinn á auglýsingamarkaði sem þrengir mikið að einkaframtakinu á þessum markaði og hindrar innkomu nýrra aðila á markaðinn. Röksemdir fyrir tilvist ríkisfjölmiðils eiga ekki við tilvist ríkisfjölmiðils á auglýsingamarkaði. Sjálfstæðismenn hafa ítrekað sagt að þeir vilji hafa ríkisfjölmiðilinn á auglýsingamarkaðinum.

13. Hið aukna frjálsræði í viðskiptalífinu einskorðast nánast eingöngu við þau svið sem EES-samningurinn tekur til. Þ.e.a.s. íslensk stjórnvöld hafa ,,neyðst” til að opna landið og auka frjálsræði í málaflokkum EES. Slíkt hefur ekki gerst á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur ekki til.

14. Frelsi hefur lítið sem ekkert aukist í landbúnaðarkerfinu í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Fyrir viku samþykktu Sjálfstæðisþingmenn 20 milljarða kr. sauðfjársamning og fyrir 3 árum samþykktu þeir 30 milljarða kr. mjólkursamning. Samfylkingin var eini flokkurinn á þingi sem lagði til að samkeppnislög myndu gilda um landbúnaðarkerfið og Samfylkingin er eini flokkurinn á þingi sem hefur sagst vilja fella niður innflutningshöft og tolla.

15. Frelsi hefur lítið sem ekkert aukist í sjávarútvegskerfinu í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og enn eru höft á erlendum fjárfestingum o.s.frv.

16. Skattbyrði, þ.e.a.s. sá hluti af tekjunum þínum sem þú greiðir í skatta, hefur aukist hjá öllum tekjuhópum nema hjá þeim sem eru í topp 10% tekjuskalans.

17. Árið áður en þessi ríkisstjórn tók við völdum 1995 voru skatttekjur hins opinbera  32% af landsframleiðslu en voru í fyrra orðnar um 41%. Þessi aukning er sú mesta af öllum OECD ríkjunum. Íslensk stjórnvöld undir forystu Sjálfstæðisflokksins eru því þau stjórnvöld sem hafa aukið skattbyrðina mest.

18. Árið 1990 sem er árið áður en Sjálfstæðisflokkurinn tók við fjármálaráðuneytinu, var skatthlutfall hins opinbera á Íslandi um 3% undir meðaltalinu í OECD. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn var tekinn við ríkisbúskapnum og farinn að sýna sitt rétta andlit kom önnur staða upp. Í stað þess að vera undir meðaltalinu í OECD um rúm 3% þegar kemur að skattpíningu var Ísland komið yfir meðaltalið um tæp 3%. Viðsnúningurinn varð alger. Og ríkisstjórn aukinnar skattbyrði varð að veruleika. Það er umhugsunarvert að hér sé við völd ríkisstjórn sem sættir sig einfaldlega við það að taka æ stærri hlut af kökunni, sem í þokkabót er mun stærri en kakan var.
TAXES
19. Að lokum langar mig að nefna af gefnu tilefni að það voru einnig þingmenn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem voru á móti lögleiðingu bjórsins. Sjálfstæðismenn eru því ekkert lausir við þá sögu frekar en aðrir flokkar.

En hvað gera jafnaðarmenn?
Að endingu langar mig að nefna nokkur dæmi um verk jafnaðarmanna þegar kemur að frelsinu því þegar Ísland hefur stokkið í frjálsræðisátt hafa jafnaðarmenn átt frumkvæðið að því.

Nefnum fyrsta dæmið. Viðreisnin en þar léku jafnaðarmenn, með Gylfa Þ. Gíslason viðskiptaráðherra í fararbroddi, lykilhlutverk. Viðreisnin jók viðskiptafrelsi til muna og kom Íslandi í 20. öldina.

Annað dæmið er þegar gjaldeyrisviðskipti voru gerð frjáls en það var gert á tíma síðustu vinstri stjórnar.

Þriðja dæmið var þegar EES-samningurinn var gerður en þar voru jafnaðarmenn potturinn og pannan í bæði aðdragandanum og í viðræðunum sjálfum. Sjálfstæðismenn voru til að byrja með á móti EES-samningnum. alt8-uflokksrósin

Þetta eru þrjú góð dæmi sem sýna vilja jafnaðarmanna til að auka frelsi fólks og fyrirtækja. Þetta eru einnig þrjú góð dæmi sem stórjuku frelsi og frjálsræði í íslensku samfélagi. Mörg önnur minni dæmi má nefna s.s. frjáls opnunartími veitingastaða sem var ákveðinn í borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar.

Jöfn og frjáls
En við jafnaðarmenn tölum ekki einungis um frelsi fjármagnsins heldur einnig frelsi fólksins og frelsi frá fátækt. Fátækur maður er ekki frjáls. En eftir valdatíma þessarar ríkisstjórnar má finna 4.300 börn og 10.000 eldri borgara sem lifa undir fátæktarmörkum. Það er því mikið verk að vinna fyrir frjálslynda jafnaðarmenn og ykkur sem eru jöfn og frjáls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er alveg skelfilegt að sjá hvað sjálfstæðismenn eru að fjarlægjast frjálshyggjuna. Ég hef oftast kosið x-D vegna þeirrar hugsjónar en hryllir við að þurfa að kjósa aðra flokka eins og samfylklinguna vegna þessara frávika sjálfstæðisflokksins. Ástæðan liggur kannski í því sem þú segir í lok greinarinnar, frelsi frá fátækt. Hvernig veitir maður öðrum frelsi frá fátækt? Á að beita aðra frelsisskerðingu til að frelsa fátæklinginn, minnka þannig þjóðarkökuna og senda alla í sömu spor, eða? Hvað ætlið þið að gera, hef bara aldrei heyrt neinar gáfulegar aðferðir. Hef reyndar fengið nasasjón af stjórnarháttum samfylkingarinnar í borginni, en eins og einhver mætur maður sagði, það væri búið að gera samfylkinguna gjaldþrota ef hún væri persóna eftir veru hennar í borginni. Má vera að ég hafi rangt fyrir mér, ég tel mig hafa kynnt mér málin ágætlega og ykkur hefur einfaldlega ekki tekist að sannfæra mig né aðra að þið getið með nokkru móti stýrt efnahagnum skynsamlega. En að frelsa einn hóp með því að hneppa annan í ánauð er heimskulegt. Eða hvernig skal það gert?

nerdumdigitalis (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 16:30

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Frábær samantekt hjá þér. Þetta heyrir maður alltof oft að þeir séu talsmenn frelsi. Þetta er íhald og ekkert annað.

Tómas Þóroddsson, 22.3.2007 kl. 17:53

3 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Frábær grein! Skyldulesning fyrir alla stuttbuxnadrengi landsins. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 22.3.2007 kl. 17:57

4 identicon

Merkilegt að þú skulir nefna viðreisnina, ég veit ekki betur en að það hafi verið stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Og með Gylfa kallinn þá var það hann úr röðum stjórnarliða sem kom því í gegn, að lokað var fyrir möguleika Reykvíkinga til að sjá Keflarvíkursjónvarpið á sínum tíma. Hvar er frelsi fólksins til að velja þar?

Óskar (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 18:51

5 identicon

Mundu það drengurinn minn að menn eru dæmdir af verkum sínum.  Eins og staðan er í dag þá hefur þú nákvæmlega engu áorkað í íslenskum stjórnmálum.  Hvernig væri að reyna að öðlast virðingu með málefnalegum málflutningi.  Ég skora á þig að prófa það því það hefur engan drepið hingað til. 

Skúli (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 22:10

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

4-5 atriði sem ég gæti husanlega kvittað fyrir. Sumt af þessu af þessu er líka málamiðlunargjörningar því Sjálfst.fl. er ekki einn í meirihluta.  Rest er ýmist bull eða túlkunaratriði hjá þér Ágúst.

Hálf hlægilegt að sjá þig nefna bjórinn og ríkisútvarpið. Hefurðu enga sómatilfinningu? En það er kannski þægilegt fyrir ykkur hjá Samfó að yngra fólk skuli þurfa að leggjast í sagnfræðigrúsk til að sjá uppruna hvers og eins ykkar og eðli. Skítlegt eru þó ekki mín orð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.3.2007 kl. 23:20

7 identicon

Jú jú maður getur verið sammála ýmsu sem þú telur upp gegn Sjálfstæðisflokknum,sem hann hefur komið á og eða stefnir að en mér finnst nú Ísland vera að nálgast það sem kallast LÖGREGLURÍKI á ofsahraða undanfarin ár,það eru reglur og lög sem hefta okkur allsstaðar nú orðið.....líkjumst Ameríska þjóðfélaginu full mikið orðið fyrir minn smekk,ómanneskjuleg lög þar og refsigleðin í hámarki hjá þeim. Verst hvað við étum mikið af þessu upp eftir þeim..En úrþví þú mynntist á frelsisskerðingu hjá Sjálfstæðisflokknum,þá langar mig svona að gamni mínu að rifja upp fyrir þér hvað þér fannst um komu hópsins sem ætlaði að halda ráðstefnu hér og skoða landið...Klámráðstefnan margfræga........ekki voru þau velkominn hingað bara vegna þess að þér líkaði ekki við hvað þau störfuðu,flokkast þetta ekki undir frelsisskerðingu?????......fólk má ekki koma hingað og ferðast um landið af því þér(og fleirum)líkaði ekki við hvað þau störfuðu.Vildi bara svona rifja þetta upp vegna umræðunnar á frelsisskerðingu almennt.Heldur þú virkilega að margir hafi losnað úr ánauð klámframleiðanda eða að margir af þeim sem ætluð að koma hingað hafi fengið sér annað starf vegna þess að þeim var meinað að koma hingað?  Datt þetta bara si sona í hug!

Júlíus Már Baldursson (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 01:27

8 identicon

Ég kýs og mun kjósa sjálfstæðisflokkinn en ber þó virðingu fyrir mörgu sem Samfylkingin/Kratar hefur lagt áherslu á.  Gallinn er bara sá að ykkur skortir, að mínu áliti, trúverðuga leiðtoga.  Oft virkað á mig og marga aðra sem of miklir popúlistar - og síðan stuðningur ykkar við EB aðild.

Annars myndi ég líklega kjósa ykkur.

Kalli (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 08:42

9 Smámynd: Guðfinnur Sveinsson

Frábær grein og skemmtileg lesning! 

Takk fyrir mig,

- Guffi 

Guðfinnur Sveinsson, 24.3.2007 kl. 01:06

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Arndís: Landsvirkjun fer í þessar framkvæmdir að undangengnum arðsemisútreikningum. Niðurstöður úr þeim útreikningum er að framkvæmdin er arðbær. Mikill meirihluti Alþingis samþykkti framkvæmdirnar. Líka meirihluti stjórnarandstöðunnar. Andstæðingar framkvæmdanna draga arðsemina í efa, þó aðallega VG. Þorsteinn Siglaugsson hagfr. og rekstrarráðgjafi kom með "sína" útreikninga og varð sér til skammar. Notaðist við fabúleraðar forsendur til að fá niðurstöður sem hentuðu. M.a. að álverð færi lækkandi á næstu árum af því að í nokkur ár á undan hafði það verið raunin. Niðurstöður Þorsteins eru vistaðar á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands. (hvar annarsstaðar?) LV reiknaði með lítilsháttar hækkunum í arðsemisútreikningum sínum en raunin er umtalsverðar hækkanir, sem gerir arðsemina enn meiri en reiknað var með. Hvorki framkvæmdirnar á Kárahnjúkum né á Reyðarfirði eru fjármagnaðar úr Ríkissjóði og taka þ.a.l. ekkert úr framkvæmdasjóði almennings.

Ég hef oft séð svona fullyrðingar Arndís eins og í athugasemd þinni hér að ofan. Þú segir á bloggsíðu þinni að þú sért rökræðufíkill. Varla svalarðu físn þinni með þessu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.3.2007 kl. 15:05

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég svara þessum 19 liðum hér að ofan í "Frelsið er Yndislegt" hjá Ágústi Ólafi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.3.2007 kl. 15:08

12 identicon

Skemmtileg samantekt og í fljótu bragði erfitt að hrekja hana. Það er líka gaman að því að atriðin þrjú í lokin var eftir því sem ég kemst næst öll undirbúin af stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í þó atriði #2 hafi komið til framkvæmda hjá vinstri stjórn. Þar að auki held ég að auðvelt gæti reynst að setja saman jákvæðan lista sem væri mun lengri en þinn listi. En það er samt gaman að sjá frjálshyggjumenn komast til áhrifa annars staðar en í Sjálfstæðisflokknum. Ef þú heldur áfram á sömu braut gæti Samfylkingin kannski einhvern tíma orðið raunverulegur valkostur fyrir frjálshyggjumenn en til þess þarf flokkurinn að losna við Ingibjörgu Sólrúnu. 

Gísli BB (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 21:07

13 identicon

Það er lítið mál að benda á gallana hjá öðrum, ekki það að ég sé sammála þér í einu og öllu í upptalningu þinni hér að ofan. En hvað ætlar þú og þinn flokkur að gera til þess að bæta stöðu Íslands? Hverju má ég búast við af þér og þínum flokki ef þið komist í ríkisstjórn?

Óskar nafnleyndar (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 21:49

14 identicon

Hvernig væri að _reyna_ að upphefja eigin málflutning og skoðanir í stað þess að þurfa rakka niður alla aðra ?

Merkilegt hvað þetta einkennir, sérstaklega, samfylkinguna.

Siggi (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 04:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband