Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Hvað meina ég með tvítyngdri stjórnsýslu?

Hvatning mín í Morgunblaðsgrein sem birtist um helgina um að stjórnsýslan ætti að vera tvítyngd hefur vakið mikil viðbrögð sem búast mátti  við. Það gætir þó nokkurs misskilnings um hvað það nákvæmlega er sem ég var að leggja til og er mér því bæði ljúft og skylt að útskýra málið betur.

Grein mín í Morgunblaðinu snerist einungis um fjármálageirann og hvernig hægt væri að laða að fleiri erlenda fjárfesta til Íslands. En ein af hugmyndunum sem fram hafa komið, til að ýta undir fjárfestingar á Íslandi, er tvítyngd stjórnsýsla.

Hvernig gerum við þetta?
Hvað þýðir þetta í raun? Hér á ég við það eitt að stjórnsýslan sem lýtur að erlendum fjárfestum verði þeim aðgengileg á enskri tungu og að íslensk lög og reglur verði þýdd á ensku og gerð aðgengileg á netinu. Sömuleiðis þýðir þetta að eftirlitsstofnanir s.s. Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið, sem stuðla eiga að trausti erlendra fjárfesta á íslensku viðskiptaumhverfi, verði í stakk búnar til að svara erindum á ensku hratt og vel og birti niðurstöður sínar jafnframt einnig á því tungumáli.

Ég tel að með aukinni alþjóðavæðingu sé það einfaldlega afar mikilvægt samkeppnismál fyrir íslenskt samfélag að stjórnvöld auki gagnsæi stjórnkerfisins gagnvart erlendum aðilum. Því miður er það svo að skortur á þekkingu á íslenskum markaði hindrar mörg erlend fyrirtæki í að koma hingað.

Nútímaleg stjórnsýsla
Íslenskir neytendur hafa lengi furðað sig á því af hverju erlendir bankar komi ekki hingað og bjóði þjónustu sína í samkeppni við íslenska banka. Hvað er hægt að gera í því máli? Þessi leið sem ég er að leggja til er leið sem fjölmargar aðrar þjóðir hafa farið með góðum árangri. Hvort sem það lýtur að bættum hag íslenskra neytenda með lækkun vöruverðs, eða til að stuðla að áframhaldandi fjölgun hálaunastarfa s.s. í fjármálageiranum, þá er tvítyngd stjórnsýsla lykilatriði.

Lítil erlend fjárfesting á Íslandi
Erlend fjárfesting hefur verið skammarlega lítil á Íslandi á undanförnum árum og ég hef sett það sem eitt af mínum meginmarkmiðum þann tíma sem ég verð formaður viðskiptanefndar Alþingis að bæta þar úr og að búa hér til gott samfélag, með einföldu og aðgengilegu regluverki sem laðar að sér erlent fjármagn og stuðlar þannig að auknum tækifærum fyrir Íslendinga.

Ekki tvö ríkistungumál - hlúð að íslensku máli
Að endingu vil ég ítreka það að auðvitað var ég ekki að leggja til að tungumál ríkisins verði í framtíðinni tvö. Að sjálfsögðu verður íslenskan áfram hið opinbera tungumál íslenskrar stjórnsýslu og þýðing á nokkrum lagabálkum yfir á ensku breytir engu þar um. Við munum að sjálfsögðu hlúa áfram vel að tungumálinu okkar, hér eftir sem hingað til. Íslensk tunga er stór þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar og verður áfram óþrjótandi uppspretta hugmynda og menningar.


Gagnlegur fundur með Solana

Í byrjun vikunnar heimsótti ég fyrirheitna landið, ef svo mætti segja. En þá fór ég með utanríkisráðherra til Brussel þar sem fjölmargir embættismenn Evrópusambandsins og íslensku utanríkissþjónustunnar voru sóttir heim. Þetta var mjög fróðleg ferð en það er nokkuð ljóst að Evrópusambandið fylgist vel með því sem er að gerast á Íslandi og er vel inni í þeim málum sem skipta okkur máli.

Við áttum áhugaverða fundi með fjölmörgum framkvæmdastjórum framkvæmdastjórnar ESB en þeir starfa sem hálfgerðir ráðherrar Evrópusambandsins. Fundurinn með Javier Solana, sem er æðsti embættismaður Evrópusambandsins í utanríkismálum, var mjög gagnlegur en þar voru stóru línurnar í alþjóðamálum ræddar meðal annars ástandið í  Mið-Austurlöndum.

Ferðin var einnig nýtt til að heimsækja höfuðstöðvar Nató sem einnig eru í Brussel. Nató hefur verið að ganga í gegnum talsvert umbreytingarskeið að undanförnu og skiptir miklu máli að Íslendingar fylgist vel því sem er að gerast á þeim vettvangi.

Ég oft sagt að ég telji að Ísland eigi fjölmörg sóknarfæri í alþjóðamálum og mér finnst nýr utanríkisráðherra hafa sýnt mikinn dugnað í embætti en hún hefur nú þegar ekki aðeins heimsótt Evrópusambandið og Nató heldur einnig Afríkusambandið og Mið-Austurlönd og er á leiðinni til Sameinuðu þjóðanna.


Bákn báknanna?

Í nýju fréttabréfi fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg má finna margt fróðlegt. M.a. er farið yfir nokkrar staðreyndir og goðsagnir um fjármál Evrópusambandsins en oft berast fréttir af ótrúlegu bákni sem ESB á að vera.

Einu sinni var ég með þann samanburð um að fleiri starfsmenn unnu undir breska umhverfisráðuneytinu heldur en vinna hjá Evrópusambandinu. Og ef ESB væri stofnun á Íslandi værum við að tala stofnun með um 20 starfsmenn og það væri með svipaða veltu og Sjúkrahúsið á Selfossi. E.t.v. er þessi samanburður orðinn úreltur.

En í fréttabréfinu kemur allavega fram að allar stofnanir ESB kosta um 5,5% af heildarfjárlögum ESB. Sömuleiðis kemur fram að fjárlög ESB ná einungis yfir um 0,94% af heildartekjum aðildarríkjanna og hefur þetta hlutfall farið lækkandi undanfarin ár. Annars má lesa meira um þessa punkta og fleiri hér.


Frumkvæði ráðherra Samfylkingarinnar

Ég vil fagna sérstaklega frumkvæði tveggja ráðherra Samfylkingarinnar á þeirra málefnasviði sem birtist alþjóð í dag.

Í fyrsta lagi tilkynnti Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, í dag að nú verði ráðist í skipulagt átak gegn fyrirtækjum sem hafa óskráða starfsmenn á sínum snærum. Þetta er mikilvægt prinsipmál sem hefur talsverða þýðingu fyrir atvinnulífið og starfsfólk.

Í öðru ákvað Jóhanna og fjármálaráðherra að skipa þrjá starfshópa til að fylgja eftir markmiðum er fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er megináhersla lögð á að unnið verði markvisst gegn kynbundnum launamun og að endurmat fari fram á kjörum kvenna hjá hinu opinbera. Þetta eru sömuleiðis gríðarlega mikilvæg markmið sem hafa verið rauður þráður í málflutningi okkar um árabil.

Í þriðja lagi hefur Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, ákveðið að skipa nefnd til að endurskoða lagaumhverfi erlendra fjárfestinga hér á landi. Að mínu mati er slíkt löngu tímabært enda margt sérkennilegt og forneskjulegt á þeim vettvangi.


Breiðholtið er best

Þar sem ég hef talsverðar taugar til Breiðholtsins langar mig að plögga aðeins fyrir Breiðholtdeginum sem er í dag. Fjölskylduskemmtunin hefst kl. 17 í dag á ÍR svæðinu og ég hvet alla til að kíkja. Dagskrána má sjá hér.


Útrás til Japans?

Í vikunni tók viðskiptanefnd Alþingis á móti japönskum þingmönnum. Mikill vilji var hjá Japönunum að efla samskipti þjóðanna á sviði viðskipta- og bankamála. Samband Íslendinga og Japana á sviði sjávarútvegs hefur í marga áratugi verið farsælt og gjöfult. Ef til vill væri hægt að útvíkka þetta samband svo það myndi einnig ná til nýju undirstöðuatvinnugreinar Íslands, fjármálageirans. Okkar sókndjörfu útrásarbankar ættu því endilega að skoða japanska markaðinn sem er einn sá stærsti í heiminum.

En talandi um banka þá hitti ég einnig í vikunni nokkra norræna þingmenn í Stykkishólmi. Þeir höfðu talsverðan áhuga á því sem íslensku bankarnir voru að gera í þeirra löndum. Það er augljóst að umtalið á hinum Norðurlöndunum um íslensku bankana er talsvert. Þó mátti skynja efasemdir í tón hinna skandinavísku þingmanna um hvort íslensku bankarnir gætu staðið undir þessu öllu saman. Þannig að enn er verk að vinna við að kynna erlendis hinnar réttu forsendur á bak við útrásina.


Ritstjóri DV í skógarferð

Mér finnst DV vera ágætis blað og þær breytingar sem hafa verið gerðar á undanförnum mánuðum lukkast vel. Í morgun tók ég því eftir leiðaraskrifum ritstjórans, Sigurjóns M. Egilssonar, um meint kjarkleysi þingmanna Samfylkingarinnar.

Ritstjórinn má alveg hafa þá skoðun fyrir mér. Ritstjórinn heldur því fram að Samfylkingin sé á hraðleið til Framsóknar eins og hann orðar það og dregur sérstaklega fram í leiðara sínum útvarpsviðtal sem var við mig í gærmorgun. Reyndar vísar ritstjórinn ekki á nein orðrétt ummæli heldur er um að ræða mat hans og bollaleggingar á ummælum mínum.

Segir ritstjórinn að ég hafi ekki haft “kjark til að gagnrýna skandalinn vegna Grímseyjarferjunnar”. En á hverju byggir þetta mat ritstjórans?

Í viðtali sagði ég orðrétt: “Nei, ég hef alltaf litið þetta mál mjög alvarlegum augum og ég fagna því að bæði fjárlaganefnd og samgöngunefnd Alþingis hafi verið að skoða þetta mál.”

Og svo:
“Hér hefur augljóslega eitthvað farið úrskeiðis og þetta bréf sem að Bjarni hefur undir höndum það bara skoðast í því samhengi. Við þurfum að fara aðeins yfir þetta og athuga hvað hefur farið úrskeiðis.

“Eins og ég segi, það þýðir ekkert að neita því að hér er eitthvað að og það er líka alvarlegt hvernig eða óheppilegt hvernig túlkun Ríkisendurskoðunar og fjárlagaráðuneytisins eru svona ólíkar á meðhöndlun peninga úr ríkissjóði þannig að þetta er allt sem þarf að koma til skoðunar og það er verið að gera það á réttum vettvangi.”

Og síðan tekur Bjarni Harðarson, viðmælandi minn í viðtalinu, undir þessa nálgun mína þar sem hann segir m.a.:

“Það er mjög mikilvægt að þetta verði skoðað, eins og þú segir Ágúst, ofan í kjölinn og það er rétt, sú vinna er í gang.”

Guð forði okkur frá frekar gögnum
Þá álítur ritstjórinn það vera sérstaklega gagnrýnisvert í leiðaranum að ég vilji öll gögn á borðið áður en ég segði meira. Hingað til hefur það talist til kosta að menn viti hvað þeir eru að tala um þegar þeir tjá sig. Og það væri kannski ekki úr vegi að ritstjóri DV hefði það í huga þegar að hann fjallar um mál.

Ég á ekki að þurfa að minna ritstjórann á að umfjöllun um Grímseyjarferjuna er ekki lokið og eru m.a. tvær þingnefndir að skoða málið og kalla eftir upplýsingum.

Ritstjórinn gagnrýnir einnig ummæli mín í þættinum um lyfjaverð og dregur fram sama gagnrýnispunkt og um Grímseyjarferjuna og gefur til kynna að það sé fullkomlega óeðlilegt að ég vilji öll gögn á borðið í því máli.

Síðan dregur hann fram að ég telji það vera “vont fyrir lyfjakeðjur að sitja undir gagnrýni”.

Í fyrsta lagi sagði ég þetta aldrei.

Í öðru lagi sér ritstjórinn ekki ástæðu til að draga fram önnur ummælin mín í þættinum enda þjónar það kannski ekki tilgangi hans í þessum leiðara.

Förum því yfir ummælin mín orðrétt en í viðtalinu var ég spurður að því hvort ég telji ástandið á lyfjamarkaðinum sé eðilegt:

 “Nei, ég held að við þurfum að ná að lækka lyfjaverð og það eru margir þættir sem að spila þarna inn í. Samkeppni eða skortur á samkeppni á smásölumarkaðnum er eitt af því sem þarf að koma til skoðunar.”

“Við sjáum að það eru tvær stórar keðjur sem að ráða nánast öllum lyfjamarkaðnum en það er líka umhugsunarvert að það er ákveðin skipting á svæðum milli þessara fyrirtækja. Ég ætla ekki að sitja hér og fullyrða að það sé eitthvað óeðlilegt en mér finnst að það eigi að skoða því skipting á svona markaðssvæðum er auðvitað brot á samkeppnislögum.”

“Það þarf bara að skoða þetta í eitt skipti fyrir öll. Það er líka ótækt fyrir viðkomandi lyfjafyrirtæki að sitja undir svona tortryggni um að hér sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni.“

“En síðan eigum við að huga að öðrum breytingum sem hugsanlega munu lækka lyfjaverð. Varðandi t.d. kröfuna um að það þurfi að íslenskumerkja hvern einasta lyfjapakka, líka sem er notaður af fagmönnum inni á stofnunum. Það eru kröfur um að í öllum aptótekum þurfi að vera einn lyfsali alltaf, síðast þegar að ég vissi að minnsta kosti. Vaskurinn er ennþá of hár á lyfjum og svona mætti lengi telja þannig að það eru ákveðnar leiðir sem við ættum að fara til að lækka lyfjaverð því að lyf eru auðvitað ekki eins og hver önnur vara eins og allir vita.”
...

“Við þurfum líka að skoða hvort að lögin séu nógu hentug fyrir þennan svokallaða samhliða innflutning. Það hefur ekki gengið alveg nógu vel, að mati þeirra sem til þekkja, að fá fleiri lyf frá ódýrari svæðum eins og kannski má sjá annars staðar á Norðurlöndunum.”

“Þetta er stórt mál finnst mér, neytendamál og heilbrigðismál.”

Hvorki sanngjörn né rétt mynd
Ég hafna þess vegna með öllu að ég hafi sýnt eitthvert kjarkleysi í umræðu um þessi mál. Ég hef núna í þrjár vikur í röð farið í viðtöl með þremur mismunandi stjórnarandstæðingum þar sem komið var inn á mál Grímseyjarferjunnar og hef ég aldrei forðast þá umræðu.

Ég hef sömuleiðis oft og iðulega gagnrýnt hátt lyfjaverð á Íslandi og nú síðast í grein sem birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst sl. eða fyrir einungis tveimur vikum. Þá hef ég lagt fram tillögur á Alþingi um lækkun lyfjaverðs og ég held að ég hafi fjallað um hátt lyfjaverð í nánast öllum fjölmiðlum landsins. Fyrir nokkrum misserum hvatti ég samkeppnisyfirvöld til að skoða lyfjamarkaðinn en samkvæmt fréttum er sú athugun nú loksins hafin.

Sú mynd sem ritstjóri DV dregur fram af viðtalinu er því hvorki sanngjörn né rétt enda fjallar hann hvorki um heildarsamhengi ummælanna né sér hann ástæðu til að hafa rétt eftir mér. Hann hefur eflaust treyst því að fjölmargir lesendur hans hafi ekki heyrt viðtalið sem hann gerir að umtalsefni. Við það hlýt ég að gera athugasemdir.


Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband