Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
29.11.2007 | 15:06
Baráttan gegn barnaníðingum
Hér fyrir neðan má lesa grein sem birtist í 24 stundum í dag.
Nú stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi en heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi eru án efa algengustu mannréttindabrotin á Íslandi í dag.
Í því sambandi er fróðlegt að rifja upp nýlegan dóm í svokölluðu Kompásmáli en þar voru þrír menn sýknaðir af ákæru um tilraun til kynferðisafbrots eftir að þeir höfðu nálgast einstakling sem þeir töldu vera 13 ára stúlku á netinu í kynferðislegum tilgangi. Dómurinn taldi að netsamskiptin gætu ekki talist vera sönnun um ásetning þeirra til að fremja kynferðisafbrot þótt þeir hefðu mætt á umræddan fundarstað. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Hér var til umræðu hvort tilraunaákvæði hegningarlaga hefði dugað til að ná yfir svokallaða nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi. Samkvæmt héraðsdómnum virðist svo ekki vera.
Sé vafi þá
Fyrir stuttu tók ég þetta mál upp á Alþingi og var dómsmálaráðherra frekar jákvæður í garð hugsanlegra lagabreytinga en hann vildi þó bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar.
Ég tel hins vegar að alveg burtséð frá hugsanlegri niðurstöðu Hæstaréttar þurfum við að breyta lögunum þar sem að niðurstaða dómstóls liggur fyrir sem staðfestir að hægt sé að túlka núgildandi lög á þann veg sem héraðsdómstóllinn gerir. Það býður síðan hættunni á fleiri sýknudómum fyrir svipaða verknaði heim.
Við ættum því fara þá leið sem aðrar þjóðir hafa farið, s.s. Bretar, Norðmenn og Svíar, að gera nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi refsiverða í sjálfu sér. Þá þurfum við ekki að vera háð mati dómstólanna á tilraunaákvæði, sem getur að sjálfsögðu alltaf verið matskennt. Sé einhver vafi á að núverandi lagaákvæði nái ekki utan um slíkt athæfi ber okkur að bregðast við því.
Vantar tálbeitur í lögin
Í Kompásmálinu reyndi einnig á notkun tálbeitna. Talið var að ekki hefði verið heimilt að nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi eins og var gert í þessu máli enda samræmdist það ekki þeim reglum sem gilda um notkun lögreglu á tálbeitum við rannsókn mála. Jafnframt var talið að vafi léki á því hvort heimilt hafi verið að byggja rannsóknina á gögnum Kompáss.
Þessi niðurstaða dómstólsins um þessa tilteknu notkun fjölmiðils á tálbeitum er hugsanlega rökrétt í ljósi núverandi laga. Málið vekur þó spurningar upp um hvort við ættum ekki að huga að lagabreytingum um heimildir lögreglu til að beita tálbeitum.
Mér finnst rökrétt að íslenska lögreglan fái svipaðar lagaheimildir í baráttu sinni gegn barnaníðingum og aðrar þjóðir hafa, t.d. Danir.
Ég er einnig sannfærður um að lagaheimildir lögreglu til að beita tálbeitum gegn barnaníðingum myndu fæla hugsanlega gerendur frá þessu athæfi. Með því einu væri mikið unnið.
Alvarlegustu brotin orðin ófyrnanleg
Undanfarin ár höfum við tekið mörg jákvæð skref í þessum málaflokki. Ég vil sérstaklega taka fram að nú eru alvarleg kynferðisafbrot gegn börnum ófyrnanleg en Ísland er líklega eina landið í heiminum sem hefur þessi brot ófyrnanleg.
Á hverju ári síðasta kjörtímabils lagði ég fram frumvarp á Alþingi þess efnis. Og loks á síðasta degi þingsins á síðasta kjörtímabili voru þessi brot gerð ófyrnanleg.
Aðrar jákvæðar breytingar hafa einnig náðst undanfarin misseri og má þar nefna að nú höfum við sett eins árs lágmarksrefsingu fyrir alvarlegustu kynferðisafbrotin gegn börnum og hækkað kynferðislegan lágmarksaldur. Þá er búið setja í lögin refsiþyngingarástæðu fyrir heimilisofbeldi og breyta nauðgunarákvæðinu þannig að nú tekur það t.d. til rænulausra einstaklinga.
En baráttan gegn kynbundnu ofbeldi heldur áfram og margt er enn ógert. Að mínu mati er þessi málaflokkur miklu mikilvægari en margt annað sem fyrirfinnst í íslenskri pólitík. Hagsmunirnir gerast ekki meiri.
25.11.2007 | 16:06
Falleg bók Hrafns Jökulssonar
Á þessum árstíma sekkur landinn sér í jólabókaflóðið af fullum krafti. Af nógu er að taka og er í raun umhugsunarverður sá fjöldi verka sem íslenskir rithöfundar gefa út fyrir sérhver jól. Og það er okkar hinna að lesa yfir herlegheitin.
Ein af þeim bókum sem stendur upp úr á þessu ári bókin hans Hrafn Jökulssonar, Þar sem vegurinn endar. Í bókinni fléttar Hrafn frásagnir af lífi sínu og er yndislegt að sökkva sér í bókina. Sú frásögn sem hafði einna mest áhrif á mig ber titililinn Hún Jóna mín, þar sem Hrafn segir frá örlögum vinkonu sinnar sem lést 31 árs í fangelsi í Kópavogi, en í fangelsi var hún komin vegna vangoldinna umferðarlagasekta.
Stíll Hrafns er látlaus og þægilegur. Í einum kaflanum vitnar Hrafn til góðra ummæla Guðmundar svaramanns eftir hjónavígslu Hrafns og Elínar Öglu þar sem Guðmundur sagði: Svo þýðir ekkert fyrir þig að koma með nýja á næsta ári. Þú ert lukkunnar pamfíll, Krummi minn. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vona að Hrafn gefi sér tíma til þess að skrifa meira og vona svo sannarlega að hann komi með nýja bók á næsta ári. Hann er einfaldlega of góður penni til þess að láta það vera.
15.11.2007 | 14:19
Umræðan á þinginu um tálbeitur og nettæling
Í gær var umræða á Alþingi um tvær fyrirspurnir frá mér til dómsmálaráðherra. Fyrri fyrirspurnin laut að nettælingu og sú seinni að tálbeitum. Í stuttu máli má segja að dómsmálaráðherra hafi tekið vel í að skoða lagabreytingar sem lúta að nettælingu en hann vildi hins vegar bíða eftir niðurstöðu Hæstarréttar í svokölluðu Kompássmáli.
Varðandi tálbeiturnar þá greindi okkur meira á en ráðherrann taldi að núverandi fyrirkomulag væri ágætt en hann sagði þó að allsherjarnefndin ætti að skoða þessi mál eins og önnur þegar við fáum svokallaða sakamálafrumvarp inn í nefndina.
Hér fyrir neðan má sjá hluta af fyrirspurnum mínum til ráðherrans. Fyrst er það tálbeitufyrirspurnin og síðan nettælingin:
Í umræddu Kompásmáli sýknaði héraðsdómur þrjá menn, m.a. á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi eins og var gert í þessu máli enda samræmdist það ekki þeim reglum sem gilda um notkun lögreglu á tálbeitum við rannsókn mála. Jafnframt var talið að vafi léki á því hvort að heimilt hafi verið að byggja rannsóknina á gögnum Kompás.
Þessi niðurstaða dómstólsins um þessa tilteknu notkun fjölmiðla á tálbeitum er kannski rökrétt í ljósi núverandi laga. En málið vekur þó spurningar um hvort við ættum ekki að huga að lagabreytingum um tálbeitur.
Það er oft talað um tvenns konar tálbeitur, virkar og óvirkar tálbeitur. Óvirk tálbeita kemur fram sem eins konar agn í gildru sem sett er á svið, t.d. til að hafa hendur í hári árásarmanns. Er almennt talið heimilt að nota óvirka tálbeitu án þess að tiltekinn maður sé grunaður.
Virk tálbeita kemur hins vegar ekki fram sem fórnarlamb, heldur sem þátttakandi í broti aðalmanns sem aðgerð beinist gegn. Ef tálbeita kallar fram brot sem ætla má að hefði ekki verið framið nema fyrir tilstilli hennar er hugsanlega komið út fyrir mörk lögmætra aðgerða í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu.
Umræðan um tálbeitur hefur aðallega verið bundin við fíkniefnamál. Hins vegar tel ég að lögregla ætti sérstök úrræði í baráttunni gegn barnaníðingum. Í okkar löggjöf er víða tekið sérstakt tillit til barna með sérákvæðum.
Ég er einnig sannfærður að lagaheimildir lögreglu til að beita tálbeitum gegn barnaníðingum myndi fæla hugsanlega gerendur frá þessu athæfi. Með því einu væri mikið unnið.
Danir hafa sett lagareglur um notkun á tálbeitum við rannsóknir sakamála. Þar er einungis heimilt að nota lögreglumenn sem tálbeitu og skilyrði er að brotið varði a.m.k. 6 ára fangelsi. Mér finnst því rökrétt að íslenska lögreglan fái svipaðar lagaheimildir í baráttu sinni gegn barnaníðingum. Þetta er breyttur heimur og við verðum að horfast í augun á raunveruleikanum.
Kjarni málsins er sá, að með því að heimila lögreglunni notkun á tálbeitum í þessum tiltekna málaflokki værum við að auka réttarvernd barna til muna.
Og hér kemur fyrirspurnin sem lýtur að nettælingu
Nú fyrir stuttu sýknaði Héraðsdómur 3menn af ákæru um tilraun til kynferðisbrots eftir að þeir höfðu nálgast einstakling á netinu í kynferðislegum tilgangi sem þeir töldu vera 13 ára stúlku. Dómurinn taldi að netsamskipti sakborninganna við þáttargerðarmennina sem höfðu lagt þetta mál upp gæti ekki talist vera sönnun um ásetning þeirra til að fremja kynferðisbrot þótt þeir hefðu mætt á fund stúlku sem þeir töldu vera 13 ára.
Hér er til umræðu hvort tilraunarákvæði hegningarlaga dugi til að ná yfir svokallaða nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi. Samkvæmt Héraðsdóminum virðist svo ekki vera.
Í þessu máli var um að ræða brot sem er ekki fullframið en það var spurning hvort tilraun til refsiverðs verknaðs hafi verið um að ræða en tilraun til refsiverðs athæfis er einnig refsivert í sjálfu sér. Fræðimenn hafa talið að íslensk og dönsk lög gangi lengra en löggjöf annarra ríkja í því að heimila refsiábyrgð fyrir undibúningsathafnir, jafnvel þótt fjarlægar séu. En fræðimenn hafa einnig sagt að undirbúningsathöfn sem refsiverð tilraun getur verið t.d. tæling fórnarlambs á brotavettvang.
En ef dómstólar landsins telja að það sé ekki hægt að sakfella fyrir nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi á grundvelli tilraunarákvæðis hegningarlaganna þá þurfum við að endurskoða lögin. Aðrar þjóðir hafa sett í lög sérstakt refsiákvæði um nettælingu og má þar nefna Bretland, Noreg og Svíþjóð. Þá hafa þessi mál einnig verið rætt á danska þinginu.
Þann 5. júlí sl. skrifar hæstvirtur dómsmálaráðherra í Morgunblaðið: Telji dómstólar unnt að refsa fyrir nettælingu á grundvelli þessa ákvæðis almennra hegningarlaga, má segja, að í íslenskum lögum sé að finna refsivernd gegn þessu ógnvekjandi athæfi gegn börnum. Komi í ljós, að dómstólar telji lagaheimildir til refsingar ekki fyrir hendi, er nauðsynlegt að bregðast við með nýju lagaákvæði og má þá líta bæði til Bretlands og Noregs.
Hér má því segja að dómstóll í Kompásmálinu hafi komist að þeirri niðurstöðu að lagaheimildir til refsingar séu ekki fyrir hendi og því þurfum við að huga að lagabreytingum.
Ég geri mér grein fyrir því að það er búið að áfrýja málinu en burtséð frá hugsanlegri niðurstöðu Hæstaréttar þá liggur engu að síður fyrir niðurstaða dómstóls í málinu sem staðfestir að hægt sé að túlka núgildandi lögin á þann veg sem héraðsdómstólinn gerir, sem hugsanlega býður hættuna heim á fleiri sýknudómum fyrir svipaða verknaði.
14.11.2007 | 08:24
Löggan og tálbeitur
Í dag mun ég leggja tvær fyrirspurnir á Alþingi til dómsmálaráðherra. Sú fyrri lýtur að svokallaðri nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi en eftir sýknudóminn í Kompásmálinu er vafi um hvort slíkt sé refsivert samkvæmt núgildandi lögum eða hvort það þurfi að gera slíkt athæfi refsivert í sjálfu sér.
Seinni fyrirspurnin mín er tengd þessum málum en hún er um hvort tryggja eigi lögreglunni heimildir í lögum til að beita tálbeitum í baráttu sinni gegn barnaníðingum.
Að mínu mati snúast þessar fyrirspurnir um stór grundvallaratriði og verður spennandi að heyra í dag viðbrögð ráðherrans og annarra þingmanna til þessara álitamála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.11.2007 | 10:42
Lækkum verðlagið
Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur sett neytendamálin á oddinn. Í raun er þetta í fyrsta skipti sem neytendamálin fá þann sess sem þau eiga skilið í íslenskum stjórnmálum. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar neytendavænn. Þá hefur viðskiptaráðherra kynnt umfangsmiklar umbætur á sviði neytendamála.
Við munum ryðja í burtu samkeppnishindrunum, s.s. uppgreiðslugjaldi og stimpilgjaldi. Við munum stuðla að lægra verðlagi til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndum, meðal annars með lækkun tolla og afnámi vörugjalda.
Við munum setja lög um greiðsluaðlögun til að skapa leið til að létta oft á tíðum óyfirstíganlega skuldabyrði fólks og setja skýrari reglur um réttarstöðu ábyrgðamanna fjárskuldbindinga til að draga úr vægi sjálfskuldarábyrgða. Sett verða innheimtulög sem takmarka álagðan innheimtukostnað og til stendur að endurskoða lög um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðar. Við munum einnig efla Samkeppniseftirlitið og Neytendasamtökin og styrkja neytendaréttinn til muna.
Þá ætlar ríkisstjórnin að auka tannvernd barna með gjaldfrjálsu eftirliti og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna og veita nemendum í framhaldsskólum stuðning til kaupa á námsgögnum. Og nú þegar eru hafnar aðgerðir sem eiga að stuðla að lækkuðu lyfjaverði.
Af þessari upptalningu sést glögglega á hvaða leið þessi ríkisstjórn er. Undirliggjandi er skilningur á því að kjarabarátta nútímans snýst ekki eingöngu um hærri laun heldur einnig um að verðlag verði lægra og kjörin betri. Neytendamálin snerta allan almenning og umbætur á því sviði koma öllum til góða.
Það á ekki að vera náttúrulögmál að verðlag sé allt annað og miklu hærra en annars staðar í kringum okkur. Ísland á ekki að þurfa að vera okursamfélag. Stjórnarmeirihlutinn gerir sér grein fyrir því og af þeirri ástæðu verður ráðist í umfangsmiklar breytingar sem munu koma almenningi í landinu til góða.
8.11.2007 | 11:50
Hvað er það mikilvægasta í heiminum?
Stjórnmál eru skemmtilegur starfvettvangur. Það eru forréttindi að vinna við hugmyndir og með fólki. Það eru sömuleiðis forréttindi að geta unnið við áhugamál sitt eins og margir í stjórnmálum eru að gera. Það skiptir miklu máli að fólk hafi gaman að vinnunni sinni, þó það væri ekki nema vegna þess að fólk ver svo stórum hluta lífs síns í vinnunni.
Eitt sinn spurði mig spakur maður hvað ég teldi að væri það mikilvægasta sem sérhver maður á. Mitt fyrsta svar var heilsan. Þá svaraði þessi íslenski vitringur að það væru til margir einstaklingar sem væru gjörsamlega heilsulausir en lifðu samt gjöfulu og frjóu lífi.
Mitt næsta svar var að fjölskyldan hlyti að vera það mikilvægasta. En þá benti þessi vitri maður mér á að það væru fjölmargir einstaklingar sem ættu enga fjölskyldu en væru að engu síður afar hamingjusamir.
Þá stóð ég á gati og kallaði eftir svarinu.
Þá sagði hann mér að það mikilvægasta sem nokkur einstaklingur á sé tíminn. Tíminn er takmarkaður og hann fæst aldrei aftur, tíminn er forsenda tilveru okkar og án hans væri ekkert hægt. Þetta fannst mér vera fullkomlega rökrétt. Þessi maður lagði síðan áherslu á að við ættum að virða tíma hvers annars. Við eigum ekki að taka tíma frá fólki að óþörfu.
Þetta fannst mér vera vel mælt orð. Þess vegna er fullkomlega rökrétt að krefjast þess að vinnan manns sé bæði skemmtileg og gefandi. Stór hluti af okkar takmörkuðustu auðlind, tímanum, fer í vinnuna. Þess vegna eru það forréttindi að fá að vinna við það sem maður hefur gaman að. Og um leið og vinnan verður leiðinleg þá á maður að hafa kjark og þor til að skipta um starfsvettvang. Og sem betur fer eru valmöguleikar fólks orðnir miklu fleiri og fjölbreytilegri en áður þekktist.
Það sem mér finnst einna skemmtilegast við það að vinna við stjórnmál er einmitt sú hugmyndavinna sem er á bak við starfið. Eins og allir stjórnmálamenn eflaust þá tel ég mig vera í pólitík vegna hugsjóna og hugmynda.
Það er þessi grundvallarspurning, sem sérhver stjórnmálamaður og í raun sérhver borgari þarf að spyrja sjálfan sig, um að hvernig við gerum samfélag okkar enn betra.
7.11.2007 | 15:34
Fljúgandi þingmenn og heimatilbúnar sprengjur
Þingnefndir Alþingis fara nokkrum sinnum á hverjum vetri í heimsóknir til stofnana sem heyra undir viðkomandi nefndir. Yfirleitt eru þetta fróðlegir fundir enda fá alþingismenn betri yfirsýn yfir þá starfsemi sem nefndirnar fjalla að jafnan um.
En sumar heimsóknir eru betri en aðrar. Og ég vona að ég sé ekki að hallmæla neinni stofnun þegar ég segi að heimsókn allsherjarnefndar Alþingis í vikunni til Landhelgisgæslunnar hafi staðið upp úr þennan veturinn.
Það vildi svo til að háttvirtum þingmönnum í nefndinni var boðið í ógleymanlega þyrluferð með þessum hetjum lands og sjávar. Flogið var yfir borgina og yfir Hellisheiðavirkjun sem virtist úr þessari hæð vera frekar stórkallaleg framkvæmd með mikilli röraflækju. Upplifunin af flugi með þyrlu er gjörólík því sem maður kynnist í flugvél.
Í þessari heimsókn kynntumst við einnig hvernig heimatilbúnar sprengjur líta út sem eru nú talsvert frábrugðnar því sem við sjáum í bíómyndum. Hugmyndaflugið er engum takmörkum sett þegar kemur að gerð slíkra morðtóla. Þá heimsóttum við einnig varðskipið Ægi og fengum fína kynningu á nýju varðskipi sem er væntanlegt til landsins í náinni framtíð.
Þetta var sem sagt heimsókn sem undirritaður gleymir seint.
1.11.2007 | 10:21
Breytum landbúnaðarkerfinu
Nýlega komu fram upplýsingar um að stuðningur íslenskra stjórnvalda við íslenskan landbúnað sé sá mesti sem til þekkist í heiminum. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi en engu síður kallar þessi nýja skýrsla OECD á umræðu um þetta mikilvæga mál.
Landbúnaður er mikilvægur þáttur í íslensku samfélagi. Hins vegar er ég sannfærður um að staða bænda gæti verið mun betri en hún er í dag. Í talverðan tíma hefur skort á bæði langtímasýn í landbúnaði og vilja til að efla íslenskan landbúnað til lengri tíma. Núverandi kerfi lýsir gríðarlegri vantrú á bændum og setur óeðlilegar hömlur á stéttina. Kerfið kemur sömuleiðis í veg fyrir nýliðun og að íslenskir bændur geti nýtt sér þá hlutfallslegu yfirburði sem þeir vissulega hafa. Bændur eru einfaldlega bundnir á klafa opinberrar verðstýringar, miðstýrðs ríkisbúskaps og opinberrar framleiðslustýringar.
Mesta styrkjakerfið, hæsta matvælaverðið og bág staða bænda, gott kerfi?
Á sama tíma og núverandi kerfi í landbúnaði hefur eitt hæsta styrkjahlutfall í heiminum eru bændur ein fátækasta stétt landsins og íslenskir neytendur greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Kerfið er því rangt og óskynsamlegt að mínu mati. Það sér allt fólk sem það vill sjá.
Niðurstaða fjölmargra úttekta um hátt matvælaverð hefur verið sú að aðalorsök hins geysiháa matvælaverðs á Íslandi eru innflutningstollar. Þar kemur einnig fram að mismunandi ríkidæmi þjóða útskýri ekki þennan mikla verðmun enda sumar af samanburðarþjóðunum ríkari en Íslendingar og með meiri kaupmátt en mun lægra matvælaverð. Þá er einnig vert að minnast þess að fjölmargir staðir innan einstaka ríkja eru talsvert lengra frá matvælaframleiðendum heldur en Ísland er og því útskýrir flutningskostnaður ekki þennan mikla mun.
Samkvæmt tölum OECD er beinn og óbeinn kostnaður við hið íslenska landbúnaðarkerfi um 15 milljarðar króna á ári en til að setja þessa tölu í samhengi mætti reka alla íslensku framhaldsskólana eða öll hjúkrunarheimili landsins fyrir svipaða upphæð. Þrátt fyrir þetta er staða íslenskra bænda bágborin.
Rangt hjá formanni Bændasamtakanna
Stuðningur Íslands við landbúnað skiptist aðallega í tvennt, um helmingur skýrist af beinum framleiðslustyrkjum og um helmingur skýrist af innflutningstollum sem veita innlendri framleiðslu vernd fyrir innflutningi. Innflutningsverndin er að sjálfsögðu styrkur enda gerir hún það að verkum að verðið á landbúnaðarvörum getur haldist hærra en ella, fyrir utan þá staðreynd að val neytenda er skert til mikilla muna.
Það er því ekki rétt hjá formanni Bændasamtakanna að segja að það eigi ekki að taka innflutningsverndina með í reikninginn. Það er alls staðar annars staðar gert og það er einfaldlega rétt að gera það.
Vinnum okkur frá kerfinu
Íslensk stjórnvöld þurfa að fara að vinna sig frá núverandi kerfi með markvissum hætti með eðlilegum aðlögunartíma fyrir bændur. Það er því mikilvægt að tekið sé ríkt tillit sé tekið til bænda í þessu sambandi. Ég er ekki að tala fyrir einhverjum sársaukafullum byltingum heldur einungis að við förum að fikra okkur frá kerfi sem er hvorki bændum né neytendum í hag.
Við þurfum að hefja nýja sókn í landbúnaði og atvinnuháttum í dreifbýli. Við þurfum að auka frelsi í landbúnaði og matvælaframleiðslu með öflugum stuðningi við atvinnulíf á landsbyggð, bæði nýjar og eldri búgreinar. Það á því að treysta bændum fyrir nýsköpun og arðsömum rekstri. Og þá á að leyfa íslenskum bændum að keppa sín á milli.
Afnám tolla jók söluna!
Við eigum að styðja og styrkja landbúnaðinn með sanngjörnum og öflugum hætti, m.a. þannig að framleiðslutengdar greiðslur þróist til grænna greiðslna og byggðastuðnings í ríkari mæli en nú er. Það er fróðlegt að vita til þess að nánast allur stuðningur í Evrópu er nú bundinn ákvæðum um verndun landkosta. Með þessu er ESB að leita leiða til að tryggja áframhaldandi stuðning við bændur og dreifbýli, en á öðrum forsendum en áður var, forsendum náttúruverndar, sjálfbærrar þróunar og ekki síst í þágu byggðamála.
Við eigum að lækka innflutningstolla á landbúnaðarvörur í áföngum og vinna það í nánu samráði við samtök bænda. Þá er ekki eðlilegt að íslenskur landbúnaður þurfi að vera bundinn strangari reglum um slátrun og meðferð matvæla en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Og auðvitað eiga samkeppnislög að gilda um landbúnaðinn eins og annað. En síðastnefndi punkturinn undirstrikar vitleysuna sem er við lýði í þessu kerfi. Ég minni á að þegar tollar voru afnumdir af tómötum, agúrkum og paprikum jókst salan á innlendri framleiðslu!
Aukum hlutdeild bóndans
Ágallar núverandi kerfis birtast best í því að bóndinn fær skammarlega lágan hluta af útsöluverði vöru sinnar, í vissum tilvikum einungis 2040%, á sama tíma og neytendur borga alltof hátt verð fyrir vöruna. Öllum ætti að vera ljóst að í slíku kerfi er alvarlegur brestur.
Kerfið þarf, að mínu mati, að tryggja að bóndinn fái mun hærra hlutfall af útsöluverðinu en hann gerir nú og jafnframt að hann geti keppt á markaði í krafti þeirra yfirburða sem gæði íslenskrar framleiðslu veita.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Málin mín á Alþingi
- Afnám fyrningar í kynferðisafbrotum gegn börnum
- Óháðar rannsóknarnefndir
- Lögfesting Barnasáttmála
- Löggjöf um heimilisofbeldi
- Auglýsingar heilbrigðisstétta
- Sérdeild fyrir unga fanga
- Vernd heimildarmanna fjölmiðla
- Líffæragjafir í ökuskírteinum einstaklinga
- Rannsaka þunglyndi eldri borgara
- Sendiráð ESB á Íslandi
- Mistök í heilbrigðiskerfinu
- Fleiri þingmál
Eldri færslur
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004
- September 2004
- Ágúst 2004
- Júlí 2004
- Júní 2004
- Maí 2004
- Apríl 2004
- Mars 2004
- Febrúar 2004
- Janúar 2004
- Desember 2003
- Nóvember 2003
- Október 2003
- September 2003
- Ágúst 2003
- Júlí 2003
- Júní 2003
- Maí 2003
- Apríl 2003
- Mars 2003
- Febrúar 2003
- Janúar 2003
- Nóvember 2002
- Október 2002
Af mbl.is
Póstlisti
Skráðu netfang þitt hér að neðan.
Fólk
- - -
-
Litla fjölskyldan
Breiðfylking jafnaðarmanna
Mikilvægar stofnanir
Hagfræðin
-
Joseph Stiglitz
-
John Kay
-
Paul Krugman
-
Þorvaldur Gylfason
-
Ásgeir Jónsson
-
Tímaritið Economist
-
Seðlabanki Íslands
-
Rannsóknarmiðstöð um efnahagsmál
-
Ríkiskassinn
-
Hagstofan
Lögfræðin
Atvinnulífið
-
Alþýðusambandið
-
Viðskiptaráð Íslands
-
Samtök atvinnulífsins
-
Samtök iðnaðarins
-
Félag kvenna í atvinnurekstri
-
Samtök sprotafyrirtækja
-
Félag íslenskra stórkaupmanna
-
Samtök verslunar og þjónustu
-
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins
-
Impra nýsköpunarmiðstöð
Evrópusamstarf
Hjartans mál
Bloggvinir
- almapalma
- andri
- husmodirivesturbaenum
- arnalara
- ahi
- gusti-kr-ingur
- alfheidur
- arniarna
- asarich
- astan
- heilbrigd-skynsemi
- baldurkr
- bardurih
- kaffi
- bjarnihardar
- masterbenedict
- bleikaeldingin
- salkaforlag
- bryndisfridgeirs
- calvin
- charliekart
- rustikus
- dagga
- deiglan
- dofri
- egill75
- egillg
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- ernafr
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- vinursolons
- ea
- fanney
- arnaeinars
- gesturgudjonsson
- gislihjalmar
- grumpa
- gudni-is
- gudbjorgim
- gudfinnur
- mosi
- gummiogragga
- orri
- gudridur
- gudrunmagnea
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- coke
- gunnlaugurstefan
- gylfigisla
- holi
- hallurg
- handtoskuserian
- smali
- hannesjonsson
- hhbe
- haukurn
- heidistrand
- heidathord
- latur
- hlf
- tofraljos
- hildajana
- hildurhelgas
- hinrik
- kjarninn
- hlekkur
- hrafnhildurolof
- hrannarb
- hreinsi
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hoskuldur
- hoskisaem
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- jara
- iagustsson
- ingo
- id
- jensgud
- jenni-1001
- joik7
- johannst
- skallinn
- joneinar
- joningic
- joninaros
- drhook
- jonthorolafsson
- juliaemm
- julli
- juliusvalsson
- komment
- killerjoe
- hjolaferd
- kjoneden
- kiddirokk
- kristjanmoller
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- presleifur
- korntop
- matti-matt
- mortenl
- olimikka
- omarminn
- pallieinars
- pallkvaran
- pallijoh
- palmig
- robertb
- salvor
- xsnv
- fjola
- sigfus
- siggikaiser
- sigurjonsigurdsson
- stebbifr
- fletcher
- steindorgretar
- ses
- pandora
- kosningar
- svanurmd
- svenni
- saethorhelgi
- sollikalli
- thelmaasdisar
- tidarandinn
- tommi
- unnar96
- sverdkottur
- valdisa
- overmaster
- valgerdurhalldorsdottir
- valsarinn
- vefritid
- vestfirdir
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- steinibriem
- skrifa
- thordistinna
- thorirallajoa