Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2006

Varhugaverð tilraunastarfsemi ríkisstjórnarinnar

Eitt af fyrstu verkum nýs heilbrigðisráðherra var að koma á tvöföldu kerfi í heilbrigðisþjónustunni, eitt fyrir efnameiri og annað fyrir efnaminni. Þegar hjartalæknar sögðu sig frá samningi við Tryggingastofnun ríkisins brást heilbrigðisráðherra við með því að setja á fót afar sérkennilega útgáfu af tilvísankerfi sem bitnar helst á sjúklingum og skattgreiðendum.

Samkvæmt kerfinu getur sjúklingur eingöngu fengið niðurgreiðslu ríkisins á heilbrigðisþjónustu hjartalækna leiti hann til heilsugæslulæknis áður en hann fer til hjartalæknis. Ólíkt öðrum hugmyndum sem hafa heyrst í gegnum árin um tilvísanakerfi er hér um að ræða samningslausa lækna sem munu búa við frjálsa gjaldskrá. Þetta nýja fyrirkomulag ríkisstjórnarflokkanna í heilbrigðismálum hefur því marga galla.
Sjúklingum mismunað eftir efnahag
Í fyrsta lagi mismunar þetta kerfi sjúklingum eftir efnahag og skerðir aðgengi þeirra að nauðsynlegri þjónustu hjartalækna. Efnameiri sjúklingar geta nú farið beint til hjartalæknis og fengið þjónustu strax með því að greiða sjálfir fyrir hana fullu verði. Þar sem hjartalæknar eru samningslausir hafa þeir frjálsa gjaldskrá og geta því rukkað það verð sem þeir kjósa. Því er ekkert sem kemur í veg fyrir að efnameiri sjúklingar geti verið teknir fram fyrir í röðinni á kostnað hinna efnaminni.

Sömuleiðis er hætta á svipuð staða skapist og ríkir um tannlæknaþjónustu. Þar höfum við tvenns konar gjaldskrár, annars vegar svokallaða ráðherragjaldskrá sem er sú niðurgreiðsla sem ráðherra er tilbúinn að veita í málaflokkinn, og hins vegar hin raunverulega gjaldskrá, sem læknirinn rukkar eftir. Mismuninn, sem getur aukist með tímanum, greiða síðan sjúklingar.
Aukinn kostnaður og óhagræði fyrir sjúklinga
Í öðru lagi eykur þetta nýja fyrirkomulag kostnað og óhagræði fyrir þorra sjúklinga og sérstaklega þá efnaminni. Almenningur þarf að fara fyrst til heilsugæslulæknis til að fá tilvísun á hjartalækni, síðan til hjartalæknisins og loks til Tryggingastofnunar ríkisins til að fá hlut ríkisins greiddan.

Hefji sjúklingur leiðangur sinn hjá öðrum sérfræðilækni verður hann að fara á fjóra staði þar sem aðrir sérfræðilæknar en heimilislæknar mega ekki vísa sínum sjúklingum á hjartalækni. Hinum efnameiri nægir aftur á móti að fara á einn stað. Fyrir einstakling sem ekki eiga bíl getur þetta þýtt að taka þarf sex til átta leigubíla til að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og niðurgreiðslu. Það þarf ekki að hugsa slíkt ferðlag mikið til þess að átta sig á ótrúlegum óþægingum og ónauðsynlegum kostnaði sem fylgir þessu fyrirkomulagi.
Heildarkostnaður hins opinbera eykst
Í þriðja lagi má ætla að kerfið verði mun stjórnlausara áður og heildarkostnaður hins opinbera mun vafalítið aukast.. Á meðan stuðst var við samningaleiðina gat ráðherra ákveðið þá heildarupphæð sem átti að fara í niðurgreiðslu þjónustunnar. Afsláttarkjör mynduðust síðan þegar búið var að veita ákveðið mikið af þjónustunni.

Eftirspurn eftir hjartalæknum er vitaskuld óbreytt þrátt fyrir nýtt kerfi heilbrigðisráðherrans og niðurstaðan sú að ríkið greiðir sinn hlut fyrir þá þjónustu sem hjartasjúklingar leita sér, svo fremi sem þeir fái tilvísun frá heilsugæslunni. Heildarupphæðin á árinu getur því orðið töluvert hærri fyrir hið opinbera en sá kostnaður sem fylgt hefði samningaleiðinni.

Þetta nýja kerfi mun tvímælalaust auka kostnað og tvítekningu í kerfinu. Ákveðnar rannsóknir og hluti viðtala verða nú framkvæmdar fyrst hjá heilsugæslulæknum og svo aftur hjá hjartalæknum þegar þangað er komið.
Aðeins heilsugæslulæknar mega vísa til hjartalækna
Í fjórða lagi er einungis gert ráð fyrir að heilsugæslulæknir geti vísað á hjartalækna. Hins vegar eru fjölmargir aðrir sérfræðilæknar sem hafa getu, þekkingu og þörf til að vísa sjúklingum til hjartalæknis, t.d. lungna-, tauga-, öldrunar-, lyf- og svæfingalæknar. Forsvarsmaður Læknafélags Reykjavíkur hefur bent á að með því að takmarka rétt lækna til að vísa sjúklingum til hjartalækna sé verið verið að skerða hluta af lækningaleyfi sérfræðilækna.

Jafnframt er ekki gert ráð fyrir neinu samningssambandi milli læknanna og hins opinbera og því eru ýmsar samningsskyldur lækna gagnvart hinu opinbera ekki fyrir hendi. Samningsbundinn læknir getur t.d. ekki rukkað sjúkling um hvaða upphæð sem er eigi niðurgreiðsla hins opinbera að vera fyrir hendi. Samningslaus læknir getur hins vegar gert það. Samningsbundinn læknir hefur sömuleiðis verið bundinn ákveðnum kröfum um eftirlit og upplýsingagjöf til Tryggingastofnunar, ásamt öðrum skyldum.
Einnig er vert að benda á að þetta kerfi mun draga úr samningshvatanum. Síðan kerfið var sett á fót hefur enginn samningafundur verið haldinn á milli hjartalækna og samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins.
Varhugavert fordæmi
Einna varhugaverðast er þó að þetta fyrirkomulag mun skapa fordæmi fyrir aðrar sérfræðistéttir. Hjartalæknar voru samningsbundnir þegar ríkjandi ástand skapaðist en kusu að segja sig frá þeim samningi. Með því að festa þetta kerfi í sessi er verið að bjóða þeirri hættu heim að aðrar sérfræðilæknastéttir fari sömu leið þegar þeirra einingamarki er náð í haust.
Niðurstaðan verður þá dýrara kerfi og fjöldi sérfræðilækna sem hafa engar samningskyldur gagnvart hinu opinbera og verða með frjálsa gjaldskrá með þeim afleiðingum að hægt er að rukkað hvaða verð sem er og þar af leiðandi þjónað sjúklingum í samræmi við efnahag.
Aðrar leiðir færar
Sérfræðilæknar hafa áður sagt sig af samningi við Tryggingastofnun. Slíkum deilum hefur hins vegar ætíð lokið með samningum og hefur greiðsluréttur almennings síðan verið tryggður með reglugerð ráðherra. Það er óskiljanlegt að nýr heilbrigðisráðherra skuli ekki reyna samningsleiðina til þrautar eins og fyrirrennarar hans hafa allir gert. Í stað þess ákveða ríkisstjórnarflokkarnir að fara í vanhugsaða tilraunastarfsemi með almannatryggingakerfið sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og erfitt getur reynst að snúa við.

Forsvarsmenn sjúklinga hjá Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga, og SÍBS, ásamt Félagi eldri borgara í Reykjavík og formanni félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hafa allir talið að þetta nýja fyrirkomulag ríkisstjórnarflokkanna leiði til tvöfalds kerfis í heilbrigðiskerfinu sem mismuni eftir efnahag.

Ríkisstjórnin er með þessu að festa í sessi kerfi sem mismunar almenningi og eykur heildarkostnaðinn fyrir hið opinbera og þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Ríkisstjórnin heldur uppi háu matvælaverði

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa aldrei haft áhuga á því að lækka matvælaverð á Íslandi. Samfylkingin hefur ítrekað flutt tillögur á Alþingi sem lækka matarkostnað sem skilar sér beint í vasa almennings svo um munar. Þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins hafa hins vegar alltaf fellt þessar tillögur.

Margar nefndir hafa verið skipaðar og fjölmargar tillögur liggja fyrir. Það vantar ekki tillögurnar en það vantar pólitískan vilja til að framkvæma þær tillögur. Og núna hefur enn ein nefndin skilað af sér, þar sem Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri sýnir á greinargóðan hátt hversu kostnaðarsamt þetta kerfi er fyrir fólkið í landinu.

Brýnt hagsmunamál fyrir almenning í landinu
Matvælaverð á Íslandi er um 50% hærra en hjá ESB-löndunum. Einungis tvö Evrópuríki hafa hærri virðisaukaskatt á matvæli en Ísland og sum þeirra hafa engan virðisaukaskatt á matvælum. Tolla- og vörugjaldakerfi ríkisstjórnarinnar er með því dýrasta í heimi og takmarkanir á innflutningi eru miklar.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa tafið þetta brýna hagsmunamál í marga áratugi en eins og í öðrum málaflokkum munu þeir spila einhverju út korteri fyrir kosningar til að stinga dúsu upp í kjósendur.
Eitt hæsta matvælaverð í heimi
Núverandi ríkisstjórn lætur íslenskar fjölskyldur greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Hvenær er fólki nóg boðið? Almenningur á ekki að sætta sig við þessa kjaraskerðingu ríkisstjórnarinnar. Af hverju sættir sérhver íslensk fjölskylda sig við það að greiða tugi þúsunda á mánuði meira fyrir matvæli en hún þyrfti?

Úrræðin til að lækka matvælaverð hafa lengi verið ljós. Það þarf að fella niður vörugjöld og tolla, lækka matarskattinn, auka samkeppniseftirlit og draga úr innflutningshömlum. Þessar leiðir vill ríkisstjórn ekki fara heldur veltir hún kostnaðinum yfir á almenning í landinu.

Í þessu máli þarf pólitíska forystu og pólitískt hugrekki. Samfylkingin er reiðubúinn til að gera það sem þarf til að lækka matarverð og bæta með því kjör landsmanna.

Ríkisstjórnin svíkur landsbyggðina

Pólitísk umræða snýst oft um landsbyggðina annars vegar og höfuðborgarsvæðið hins vegar. Það væri mikið framfararskref ef hægt væri að tala um landið sem eina heild og hætta að egna þessum svæðum saman gegn hvoru öðru eins og oft vill verða í dægurþrasinu.

Fólk út á landsbyggðinni á að hafa sömu tækifæri og fólk á höfuðborgarsvæðinu og öfugt. Við eigum að skapa samfélag þar sem val og fjölbreytileiki í búsetu er tryggður. Stjórnmálamenn eiga að skapa þannig umhverfi að eðlilegt atvinnulíf geti þrifist út um allt land. Ég vil halda öllu landinu í byggð og vil að fólk geti búið áfram í sínum bæjarfélögum og notið fjölbreytilegs mannlífs og menningar.

Jöfnum tækifæri til menntunar út á landi
Það er ekki verið að biðja um forréttindi fyrir landsbyggðarfólk heldur sömu réttindi og aðrir hafa. Það er verið að biðja um að jafna lífskjörin í þessu landi okkar sem svo sannarlega þörf er á. Lítum t.d. á menntamál sem eru án ef besta byggðastefna sem völ er á. Fólk utan höfuðborgarsvæðisins hefur ekki sömu möguleika og Reykvíkingar á menntun. Og það sem meira er að fjölskyldur þurfa að greiða mun hærra verð fyrir nám barna sinna en fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu.

Ein af opinberum aðgerðum sem hægt væri að ráðast í er að jafna námskostnað á milli fólks sem býr á landsbyggðinni og fólks sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Við eigum sömuleiðis að tryggja frekari valmöguleika á framhaldskóla- og háskólamenntun út á landi.

Enn á landsbyggðin að blæða
En lítið bólar á raunverulegri byggðastefnu. Á meðan slíkt situr á hakanum hjá ríkisstjórninni heyrum við af fyrirætlunum um að fresta, enn á ný, úrbótum í samgöngumálum landsbyggðarinnar. Úrbótum sem er búið er að marglofa. Og margsvíkja.

Fyrirhugaðar vegabætur úti á landi eru hvorki orsök verðbólgunnar né munu þær auka hana. Það eru aðrar aðgerðir og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem eru orsök verðbólgunnar sem núverandi forsætisráðherra ber mesta ábyrgð þar á.

Nýr verðbólguskattur ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin hefur innleitt nýjan verðbólguskatt sem íslenska þjóðin greiðir nú. Þessi verðbólguskattur ríkisstjórnarinnar er ein mesta kjaraskerðing sem þessi ríkisstjórn hefur náð í gegn gagnvart almenningi.

Ríkistjórnin eru gjaldþrota í byggðamálum. Það þarf nýja hugsun og nýtt fólk við stjórnvölinn til að hægt sé að gera það sem þarf.

Hin langveika ríkisstjórn

Stundum getur maður furðað sig á stjórnmálamönnum og ákvörðunum þeirra. Ein af þessum furðulegu ákvörðunum ríkisstjórnarflokkanna snertir langveik börn. Auðvitað eiga málefni langveikra barna að vera í forgangi. Það segir sig bara sjálft. En það er eins og sú hugsun sé ekki til staðar hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum.
Sum börn fá styrk en önnur ekki
Núverið fékk ríkisstjórnin samþykkt frumvarp sem mismunar fjölskyldum langveikra barna gróflega. Foreldrar langveikra barna sem fengu greiningu fyrir síðustu áramót fá engar greiðslur samkvæmt nýju lögunum. Sömuleiðis eru þær greiðslur sem þó fengust samþykktar áfangaskiptar langt fram í tímann í stað þess að láta þær komast til framkvæmda strax. Í þriðja lagi eru greiðslurnar sjálfar skammarlega lágar en þær eru lægri en atvinnuleysibætur.
Tillögur Samfylkingarinnar felldar
Ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögur Samfylkingarinnar um að greiðslurnar yrðu 80% af launum viðkomandi eins og finna má í fæðingarorlofskerfinu. Nær hefði verið að fara þá leið, sem er í anda greiðslna sem greiddar eru í fæðingarorlofi.-Þessar sjálfsögðu breytingar sem Samfylkingin lagði til voru allar felldar af þingmönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Þessar breytingar voru í sjálfu sér ekki kostnaðarsamar og ættu að vera fullkomlega eðlilegar í hugum allra. Því miður virðist það þó ekki vera svo.

Don´t cry for me Argentina

Fyrir stuttu skrapp ég á hörkuleik á HM. Um var að ræða leik Þýsklands og Argentínu sem haldinn var í Berlín. Það var í raun ekki hægt að ímynda sér betri leik og fyrir keppnina hefði ég veðjað á að þessi tvö lið myndu keppa um titilinn. Berlín skartaði sínu fegursta þennan dag og mikil stemmning var í borginni.
Þriðjungur íslensku þjóðarinnar
Þegar komið var á völlinn iðaði allt af lífi en fyrir utan völlinn var sannkallaður þjóðhátíðarbragur. Fjölmörg sölutjöld voru ásamt veitingastöðum og fólk lá í grasinu og hafði það gott. Inn á sjálfum leikvanginum nötraði allt andrúmloftið. 72.000 manns voru á vellinum en það er eins og þriðjungurinn af íslensku þjóðinni. Á meðan voru 720.000 manns við Brandenburg-hliðið í miðborg Berlínar en það er rúmlega tvöfaldur fjöldi íslensku þjóðarinnar. Við þetta sögufræga hlið horfði ég síðan á hina leikina sem voru þessa helgi í því vinalegu fjölmenningarsamfélagi sem þarna var.
Leikurinn í Berlín var hins vegar góður og endaði hann í vítaspyrnukeppni sem Þjóðverjarnir unnu, sem var sérstaklega ánægjulegt. Í lestinni heim sungu Þjóðverjarnir hástöfum " Don´t cry for me Argentina " við lítinn fögnuð þeirra Argentínubúa sem þar voru.

Leiðir til að lækka lyfjaverð

Reglulega fer umræðan um hátt lyfjaverð á Íslandi á flug og nú fer hún fram í Kastljósi Sjónvarpsins. Auðvitað þurfum við að beita öllum tiltækum leiðum til að lækka lyfjaverð en satt best að segja verð ég að viðurkenna að ég er ekki mjög spenntur fyrir endurvakningu á Lyfjaverslun ríkisins eins og heyrst hefur í umræðunni. Ég tel aðrar leiðir vera mögulegar til að lækka lyfjaverð á Íslandi.
Landfræðilega skipting á lyfjamarkaðinum
Ég hef áður bent á þessum vef á sérkennilega skiptingu lyfsölukeðja á lyfjamarkaðinum. Í þeirri grein hvatti ég Samkeppniseftirlitið til að rannsaka smásölumarkaðinn en tvær lyfsölukeðjur hafa allt að 85% af smásölumarkaðinum (sjá http://www.agustolafur.is/default.asp?news_id=6269).

Þar kom m.a. fram að annar lyfjarisinn rekur öll apótekin á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi og á Austurlandi. Hinn risinn rekur hins vegar nánast öll apótekin á Suðurlandi og við Eyjafjörðinn. Framkvæmdastjóri annars fyrirtækisins hefur sagt að hér sé um að ræða algjöra tilviljun.

Lyfjamarkaðurinn veltir milljörðum króna árlega en það er talið að Íslendingar kaupi lyf fyrir um 15 milljarða króna. Þótt að lítill fjöldi þáttakenda á markaði þurfi ekki endilega að þýða minni samkeppni þá hefur samþjöppun á þessum markaði verið gríðarlega mikil síðan lyfsalan var gefin frjáls árið 1996. Hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir almenning og það þarf því að vera fyrir ofan allan vafa að virk samkeppni ríki á þessum markaði eins og lög gera kröfu um. Með því að stuðla að aukinni samkeppni á smásölumarkaði lyfja ætti lyfjaverð að nást niður.

Fjölga samheitalyfjum og samhliða innflutning á lyfjum
En það eru til fleiri leiðir til að lækka lyfjaverð. Ein þessara leiða er að auka vægi samheitalyfja og samhliða innfluttra lyfja. Hlutfall samheitalyfja af heildarmarkaðinum Íslandi er minna en á hinum Norðurlöndunum og þau eru dýrari hérlendis en þar. Samhliða innflutningur lyfja byggist á flutningi sömu lyfja og eru fyrir á markaðinum en frá ódýrari markaðssvæðum. Eins og oft áður er það Evrópulöggjöfin góða sem gerir þetta kleift. Hins vegar hefur slíkur innflutningur ekki verið í eins miklum mæli og vonir stóðu til þegar lyfjalögunum var breytt síðast fyrir nokkrum misserum.
Einfalda regluverk og draga úr ýmsum kröfum
Einnig mætti án efa einfalda regluverkið í kringum lyf, t.d. skráningarreglur þeirra, og reyna að lækka skráningarkostnað þeirra. Þá mætti skoða hvort ekki væri hægt að aflétta kvöðinni um íslenskar merkingar séu lyfin meðhöndluð af heilbrigðisstarfsmönnum inn á stofnunum. Síðan ætti að endurskoða hinar ýmsu óþarfa kröfur sem eru lagðar á lyfsala en t.d. þurfa ætíð tveir lyfasalar að starfa í sama apótekinu
Afnema vaskinn?
Alltaf er hægt að bæta klínískar leiðbeiningar í lyfjamálum og gefa ætti í æ meiri mæli út lyfjalista og hafa virkt eftirlit með lyfjaávísun lækna. Greiðsluþátttökukerfi ríkisins ætti svo sannarlega að koma til skoðunar þegar kemur að leiðum til að lækka lyfjaverð. Sums staðar eru enginn virðisaukaskattur á lyfjum, s.s. í Svíþjóð, og ríkisvaldið ætti að íhuga þá leið sé því alvara með því að lækka lyfjaverð.
Niðurgreiða sálfræðiþjónustu
Að lokum má nefna enn eina leiðin til að ná niður lyfjakostnaði landans en það er að hefja niðurgreiðslu á þjónustu sálfræðinga. Slíkt myndi án efa draga úr notkun á dýrum þunglyndislyfjum en notkun Íslendinga á slíkum lyfjum hefur aukist mikið undanfarin ár. Samhliða slíkri niðurgreiðslu á að auka áherslu á iðjuþjálfun og hreyfingu til að sporna gegn lyfjanotkun. Þetta á ekki síst við eldri borgara sem eru stór notendahópur á lyfjum.
Það er því ljóst að ýmsar leiðir eru færar til að ná niður lyfjaverði á Íslandi án þess að hafinn verði ríkisrekstur á lyfjamarkaðinum.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband