Leiðir til að lækka lyfjaverð

Reglulega fer umræðan um hátt lyfjaverð á Íslandi á flug og nú fer hún fram í Kastljósi Sjónvarpsins. Auðvitað þurfum við að beita öllum tiltækum leiðum til að lækka lyfjaverð en satt best að segja verð ég að viðurkenna að ég er ekki mjög spenntur fyrir endurvakningu á Lyfjaverslun ríkisins eins og heyrst hefur í umræðunni. Ég tel aðrar leiðir vera mögulegar til að lækka lyfjaverð á Íslandi.
Landfræðilega skipting á lyfjamarkaðinum
Ég hef áður bent á þessum vef á sérkennilega skiptingu lyfsölukeðja á lyfjamarkaðinum. Í þeirri grein hvatti ég Samkeppniseftirlitið til að rannsaka smásölumarkaðinn en tvær lyfsölukeðjur hafa allt að 85% af smásölumarkaðinum (sjá http://www.agustolafur.is/default.asp?news_id=6269).

Þar kom m.a. fram að annar lyfjarisinn rekur öll apótekin á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi og á Austurlandi. Hinn risinn rekur hins vegar nánast öll apótekin á Suðurlandi og við Eyjafjörðinn. Framkvæmdastjóri annars fyrirtækisins hefur sagt að hér sé um að ræða algjöra tilviljun.

Lyfjamarkaðurinn veltir milljörðum króna árlega en það er talið að Íslendingar kaupi lyf fyrir um 15 milljarða króna. Þótt að lítill fjöldi þáttakenda á markaði þurfi ekki endilega að þýða minni samkeppni þá hefur samþjöppun á þessum markaði verið gríðarlega mikil síðan lyfsalan var gefin frjáls árið 1996. Hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir almenning og það þarf því að vera fyrir ofan allan vafa að virk samkeppni ríki á þessum markaði eins og lög gera kröfu um. Með því að stuðla að aukinni samkeppni á smásölumarkaði lyfja ætti lyfjaverð að nást niður.

Fjölga samheitalyfjum og samhliða innflutning á lyfjum
En það eru til fleiri leiðir til að lækka lyfjaverð. Ein þessara leiða er að auka vægi samheitalyfja og samhliða innfluttra lyfja. Hlutfall samheitalyfja af heildarmarkaðinum Íslandi er minna en á hinum Norðurlöndunum og þau eru dýrari hérlendis en þar. Samhliða innflutningur lyfja byggist á flutningi sömu lyfja og eru fyrir á markaðinum en frá ódýrari markaðssvæðum. Eins og oft áður er það Evrópulöggjöfin góða sem gerir þetta kleift. Hins vegar hefur slíkur innflutningur ekki verið í eins miklum mæli og vonir stóðu til þegar lyfjalögunum var breytt síðast fyrir nokkrum misserum.
Einfalda regluverk og draga úr ýmsum kröfum
Einnig mætti án efa einfalda regluverkið í kringum lyf, t.d. skráningarreglur þeirra, og reyna að lækka skráningarkostnað þeirra. Þá mætti skoða hvort ekki væri hægt að aflétta kvöðinni um íslenskar merkingar séu lyfin meðhöndluð af heilbrigðisstarfsmönnum inn á stofnunum. Síðan ætti að endurskoða hinar ýmsu óþarfa kröfur sem eru lagðar á lyfsala en t.d. þurfa ætíð tveir lyfasalar að starfa í sama apótekinu
Afnema vaskinn?
Alltaf er hægt að bæta klínískar leiðbeiningar í lyfjamálum og gefa ætti í æ meiri mæli út lyfjalista og hafa virkt eftirlit með lyfjaávísun lækna. Greiðsluþátttökukerfi ríkisins ætti svo sannarlega að koma til skoðunar þegar kemur að leiðum til að lækka lyfjaverð. Sums staðar eru enginn virðisaukaskattur á lyfjum, s.s. í Svíþjóð, og ríkisvaldið ætti að íhuga þá leið sé því alvara með því að lækka lyfjaverð.
Niðurgreiða sálfræðiþjónustu
Að lokum má nefna enn eina leiðin til að ná niður lyfjakostnaði landans en það er að hefja niðurgreiðslu á þjónustu sálfræðinga. Slíkt myndi án efa draga úr notkun á dýrum þunglyndislyfjum en notkun Íslendinga á slíkum lyfjum hefur aukist mikið undanfarin ár. Samhliða slíkri niðurgreiðslu á að auka áherslu á iðjuþjálfun og hreyfingu til að sporna gegn lyfjanotkun. Þetta á ekki síst við eldri borgara sem eru stór notendahópur á lyfjum.
Það er því ljóst að ýmsar leiðir eru færar til að ná niður lyfjaverði á Íslandi án þess að hafinn verði ríkisrekstur á lyfjamarkaðinum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 144237

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband