Varhugaverð tilraunastarfsemi ríkisstjórnarinnar

Eitt af fyrstu verkum nýs heilbrigðisráðherra var að koma á tvöföldu kerfi í heilbrigðisþjónustunni, eitt fyrir efnameiri og annað fyrir efnaminni. Þegar hjartalæknar sögðu sig frá samningi við Tryggingastofnun ríkisins brást heilbrigðisráðherra við með því að setja á fót afar sérkennilega útgáfu af tilvísankerfi sem bitnar helst á sjúklingum og skattgreiðendum.

Samkvæmt kerfinu getur sjúklingur eingöngu fengið niðurgreiðslu ríkisins á heilbrigðisþjónustu hjartalækna leiti hann til heilsugæslulæknis áður en hann fer til hjartalæknis. Ólíkt öðrum hugmyndum sem hafa heyrst í gegnum árin um tilvísanakerfi er hér um að ræða samningslausa lækna sem munu búa við frjálsa gjaldskrá. Þetta nýja fyrirkomulag ríkisstjórnarflokkanna í heilbrigðismálum hefur því marga galla.
Sjúklingum mismunað eftir efnahag
Í fyrsta lagi mismunar þetta kerfi sjúklingum eftir efnahag og skerðir aðgengi þeirra að nauðsynlegri þjónustu hjartalækna. Efnameiri sjúklingar geta nú farið beint til hjartalæknis og fengið þjónustu strax með því að greiða sjálfir fyrir hana fullu verði. Þar sem hjartalæknar eru samningslausir hafa þeir frjálsa gjaldskrá og geta því rukkað það verð sem þeir kjósa. Því er ekkert sem kemur í veg fyrir að efnameiri sjúklingar geti verið teknir fram fyrir í röðinni á kostnað hinna efnaminni.

Sömuleiðis er hætta á svipuð staða skapist og ríkir um tannlæknaþjónustu. Þar höfum við tvenns konar gjaldskrár, annars vegar svokallaða ráðherragjaldskrá sem er sú niðurgreiðsla sem ráðherra er tilbúinn að veita í málaflokkinn, og hins vegar hin raunverulega gjaldskrá, sem læknirinn rukkar eftir. Mismuninn, sem getur aukist með tímanum, greiða síðan sjúklingar.
Aukinn kostnaður og óhagræði fyrir sjúklinga
Í öðru lagi eykur þetta nýja fyrirkomulag kostnað og óhagræði fyrir þorra sjúklinga og sérstaklega þá efnaminni. Almenningur þarf að fara fyrst til heilsugæslulæknis til að fá tilvísun á hjartalækni, síðan til hjartalæknisins og loks til Tryggingastofnunar ríkisins til að fá hlut ríkisins greiddan.

Hefji sjúklingur leiðangur sinn hjá öðrum sérfræðilækni verður hann að fara á fjóra staði þar sem aðrir sérfræðilæknar en heimilislæknar mega ekki vísa sínum sjúklingum á hjartalækni. Hinum efnameiri nægir aftur á móti að fara á einn stað. Fyrir einstakling sem ekki eiga bíl getur þetta þýtt að taka þarf sex til átta leigubíla til að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og niðurgreiðslu. Það þarf ekki að hugsa slíkt ferðlag mikið til þess að átta sig á ótrúlegum óþægingum og ónauðsynlegum kostnaði sem fylgir þessu fyrirkomulagi.
Heildarkostnaður hins opinbera eykst
Í þriðja lagi má ætla að kerfið verði mun stjórnlausara áður og heildarkostnaður hins opinbera mun vafalítið aukast.. Á meðan stuðst var við samningaleiðina gat ráðherra ákveðið þá heildarupphæð sem átti að fara í niðurgreiðslu þjónustunnar. Afsláttarkjör mynduðust síðan þegar búið var að veita ákveðið mikið af þjónustunni.

Eftirspurn eftir hjartalæknum er vitaskuld óbreytt þrátt fyrir nýtt kerfi heilbrigðisráðherrans og niðurstaðan sú að ríkið greiðir sinn hlut fyrir þá þjónustu sem hjartasjúklingar leita sér, svo fremi sem þeir fái tilvísun frá heilsugæslunni. Heildarupphæðin á árinu getur því orðið töluvert hærri fyrir hið opinbera en sá kostnaður sem fylgt hefði samningaleiðinni.

Þetta nýja kerfi mun tvímælalaust auka kostnað og tvítekningu í kerfinu. Ákveðnar rannsóknir og hluti viðtala verða nú framkvæmdar fyrst hjá heilsugæslulæknum og svo aftur hjá hjartalæknum þegar þangað er komið.
Aðeins heilsugæslulæknar mega vísa til hjartalækna
Í fjórða lagi er einungis gert ráð fyrir að heilsugæslulæknir geti vísað á hjartalækna. Hins vegar eru fjölmargir aðrir sérfræðilæknar sem hafa getu, þekkingu og þörf til að vísa sjúklingum til hjartalæknis, t.d. lungna-, tauga-, öldrunar-, lyf- og svæfingalæknar. Forsvarsmaður Læknafélags Reykjavíkur hefur bent á að með því að takmarka rétt lækna til að vísa sjúklingum til hjartalækna sé verið verið að skerða hluta af lækningaleyfi sérfræðilækna.

Jafnframt er ekki gert ráð fyrir neinu samningssambandi milli læknanna og hins opinbera og því eru ýmsar samningsskyldur lækna gagnvart hinu opinbera ekki fyrir hendi. Samningsbundinn læknir getur t.d. ekki rukkað sjúkling um hvaða upphæð sem er eigi niðurgreiðsla hins opinbera að vera fyrir hendi. Samningslaus læknir getur hins vegar gert það. Samningsbundinn læknir hefur sömuleiðis verið bundinn ákveðnum kröfum um eftirlit og upplýsingagjöf til Tryggingastofnunar, ásamt öðrum skyldum.
Einnig er vert að benda á að þetta kerfi mun draga úr samningshvatanum. Síðan kerfið var sett á fót hefur enginn samningafundur verið haldinn á milli hjartalækna og samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins.
Varhugavert fordæmi
Einna varhugaverðast er þó að þetta fyrirkomulag mun skapa fordæmi fyrir aðrar sérfræðistéttir. Hjartalæknar voru samningsbundnir þegar ríkjandi ástand skapaðist en kusu að segja sig frá þeim samningi. Með því að festa þetta kerfi í sessi er verið að bjóða þeirri hættu heim að aðrar sérfræðilæknastéttir fari sömu leið þegar þeirra einingamarki er náð í haust.
Niðurstaðan verður þá dýrara kerfi og fjöldi sérfræðilækna sem hafa engar samningskyldur gagnvart hinu opinbera og verða með frjálsa gjaldskrá með þeim afleiðingum að hægt er að rukkað hvaða verð sem er og þar af leiðandi þjónað sjúklingum í samræmi við efnahag.
Aðrar leiðir færar
Sérfræðilæknar hafa áður sagt sig af samningi við Tryggingastofnun. Slíkum deilum hefur hins vegar ætíð lokið með samningum og hefur greiðsluréttur almennings síðan verið tryggður með reglugerð ráðherra. Það er óskiljanlegt að nýr heilbrigðisráðherra skuli ekki reyna samningsleiðina til þrautar eins og fyrirrennarar hans hafa allir gert. Í stað þess ákveða ríkisstjórnarflokkarnir að fara í vanhugsaða tilraunastarfsemi með almannatryggingakerfið sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og erfitt getur reynst að snúa við.

Forsvarsmenn sjúklinga hjá Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga, og SÍBS, ásamt Félagi eldri borgara í Reykjavík og formanni félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hafa allir talið að þetta nýja fyrirkomulag ríkisstjórnarflokkanna leiði til tvöfalds kerfis í heilbrigðiskerfinu sem mismuni eftir efnahag.

Ríkisstjórnin er með þessu að festa í sessi kerfi sem mismunar almenningi og eykur heildarkostnaðinn fyrir hið opinbera og þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband