Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Samfylkingin sigrar víða

Samfylkingin vann góða kosningasigra um allt land. Sé litið til fjögurra fjölmennustu sveitarfélaganna þá var Samfylkingin sá flokkur sem fjölgaði sveitastjórnarfulltrúm sínum mest. Flokkurinn eykur fylgi sitt um tæpan fimmtung í þeim sveitarfélögum þar sem flokkurinn bauð fram í eigin nafni nú og fyrir fjórum árum.
Flokkurinn vann stórsigur í Hafnarfirði og styrkti hreinan meirihluta sinn þar til muna. Samfylkingin vann einnig góða sigra í Kópavogi, Akureyri, Ölfusi, Skagafirði og víðar. Samfylkingin er jafnvel stærsti stjórnmálaflokkurinn sums staðar og má þar nefna Sandgerði, Grindavík og Hafnarfjörð.
Í þessum kosningum bauð Samfylkingin fram í eigin nafni á mun fleiri stöðum en síðast eða í 17 sveitarfélögum. Þar sem Samfylkingin bauð fram í eigin nafni gekk flokknum almennt séð vel.
Staðan í Reykjavík
Samfylkingin fær 4 borgarfulltrúa í Reykjavík, sem er það sama og hann hefur núna. Samkvæmt kosningaúrslitunum hefði næsti borgarfulltrúi sem hefði komist inn í borgarstjórn verið fulltrúi Samfylkingarinnar og hann hefði fellt sjöunda mann Sjálfstæðimanna en ekki fyrsta mann Framsóknar. Það vantaði því ekki mikið upp á að Samfylkingin fengi 5 borgarfulltrúa og Sjálfstæðisflokkurinn 6 fulltrúa.
Vinstri grænir fá tvo borgarfulltrúa sem verður að teljast vera í samræmi við væntingar og alls ekki meira umfram það. Ef VG hefði fengið einn borgarfulltrúa hefði það verið tap fyrir VG þannig að 2 borgarfulltrúar getur varla talist vera stórsigur fyrir flokkinn.
Frjálslyndir eru með einn borgarfulltrúa núna og fengu einn fulltrúa í kosningum helgarinnar. Engin breyting þar. Framsóknarflokkurinn geldur hins vegar afhroð í borginni eins og víðast annars staðar. Fyrsti maður Framsóknar rétt sleppur inn í borgarstjórn og er Framsókn því eini flokkurinn sem tapar manni í borginni frá því sem nú er.
Næstversta útkoma Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Sjálfstæðismenn í Reykjavík fengu sína næstverstu útkomu í sögu Reykjavíkur. Aðeins munaði 300 atkvæðum frá hinu sögulega afhroði flokksins þegar Björn Bjarnason skipaði efsta sæti framboðslista flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk nú talsvert minna fylgi en það sem fyrrum Reykjavíkurlistaflokkarnir fengu. Og gamla kenning Sjálfstæðismanna um að ástæðan fyrir minnihluta þeirra í borginni væri samstarf Reykjavíkurlistaflokkana í einu framboði féll svo sannarlega um helgina. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einfaldlega tapað meira en þriðja hverjum kjósanda sínum í borginni á síðustu 12 árum.
Sömuleiðis voru það mikil tíðindi að meirihluti Sjálfstæðismanna á Akureyri skuli vera fallinn ásamt meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, Bolungarvík, Garði, Vesturbyggð og á Álftanesi.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar einnig fylgi í Hafnarfirði, á Akureyri, á Dalvík, í Skagafirði, á Blönduósi, í Snæfellsbæ, á Fljótsdalshéraði, í Grindavík og á Hornafirði. Sjálfstæðisflokkurinn fékk einnig lakari útkomu en því sem hafði verði spáð í Kópavogi og Árborg.

Æsispennandi kosninganótt í vændum

Frá því Alþingi var sent heim fyrir þremur vikum hef ég nýtt tímann nokkuð vel og heimsótt fjölmörg framboð Samfylkingarinnar um allt land. Það er augljóst að kosningarnar á laugardaginn verða víðast hvar mjög spennandi, ekki síst hér í Reykjavík.
Það hefur verið mjög gaman að taka þátt í kosningabaráttunni í Reykjavík, hvort sem litið er á vinnstaðaheimsóknir, hringingar, fundi eða að fylgjast með uppátækjum Ungra jafnaðarmanna sem hafa svo sannarlega staðið við sitt í þessum slag.
Baráttan í Reykjavík
Í Reykjavík er tekist á um grundvallaratriði, eins og alls staðar annars staðar á landinu. Það skiptir miklu máli að Samfylkingin í Reykjavík fái góða kosningu á laugardaginn og má nefna nokkur málefni því til stuðnings.

Samfylkingin vill gjaldfrjálsan leikskóla en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað hafnað gjaldfrjálsum leikskóla. Sjálfur spurði ég Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálráðherra, á Alþingi um afstöðu hennar til gjaldfrjáls leikskóla og hún svarði því mjög skýrt að það væru að hennar mati engar forsendur til þess að hafa hann gjaldfrjálsan. Samfylkingin vill stórauka þjónustu við eldri borgara en eftir áratugastjórn Sjálfstæðisflokksins á málefnum eldri borgara má finna sviðna jörð í málaflokkunum.
Samfylkingin í Reykjavík hefur sömuleiðis lagt áherslu á stuðning við öflugt menningarstarf sem Ungir sjálfstæðismenn hafa algjörlega hafnað í sínum ályktunum. Þá hefur Samfylkingin í Reykjavík lofað mikilli fjölgun á stúdentaíbúðum og því að setja Miklabraut í stokk. Þetta eru allt málefni sem skipta Reykvíkinga miklu máli.
Á fundum um landið
Annars er tekist mikið á um allt land og það er gaman að geta fengið baráttuna beint í æð með því að heimsækja framboðin víða um land.

Ég átti góðan fund með félögum mínum á Akureyri í blíðskaparveðri. Samfylkingin á Akureyri er á mikilli uppleið og er hópurinn þar þéttur og hefur unnið sína vinnu gríðarlega vel. Þá heimsótti ég Húsavík og ríkir bjartsýni hjá Samfylkingarfólki. Samfylkingin í Eyjafjarðarsveit býður fram í fyrsta skipti og var áhugavert að hitta hana á heimavelli.
Það var sömuleiðis gaman að taka þátt í fjölskylduhátíð Samfylkingarinnar í Árborg um daginn en þar mætti fjölmenni ásamt Bangsímon sem var kannski nokkuð óhefðbundinn í útliti, svo mjög að Elísabet 4 ára dóttir mín sá ástæðu til að gera athugasemd við útlit bangsa, en tók hann svo í sátt þegar hann hóf að spila á gítar fyrir börnin. Samfylkingin í Sandgerði tók einnig vel á móti okkur fjölskyldunni og er mikill hugur í okkar fólki þar.
Samfylkingin á Akranesi hélt fjölmennan fund sem ég heimsótti ásamt Ingibjörgu Sólrúnu og Jóni Baldvini þar sem þau héldu dúndurræður yfir fólkinu. Ég hef einnig kíkt á flokksfélaga í Hafnarfirði, í Kópavogi, í Reykjanesbæ, á Seltjarnarnesi, og í Garðabæ og Grindavík. Alls staðar má finna sameiginlegan samhljóm meðal Samfylkingarfólks og mikinn sigurvilja. Samfylkingin býður fram með ákveðin grunngildi að leiðarljósi, að allir geti verið með í samfélaginu og að öllum gefist tækifæri á að njóta sín.
Við Þorbjörg kona mín höfðum svo stefnt á að fara til Ísafjarðar á þriðjudaginn og mættum á flugvöllinn þegar tilkynnt var að flugið félli niður vegna snjókomu! Við því hefði maður ekki búist 23. maí. Það hefur annars ekki margt minnt á að maímánuður er að renna sitt síðasta skeið ef það væri ekki fyrir kosningarnar.
Það skiptir máli hverjir stjórna
Alls staðar þar sem ég kem, eða hjá þeim oddvitum flokksins sem ég heyri í, má skynja mikla bjartsýni og sjálfstraust. Samfylkingin kemur hreint til dyra með skýr stefnumál og þarf hvorki að fela fyrri stefnu né verk.
Samfylkingin hefur sýnt að henni er treystandi til góðra verka. Það var Samfylkingarfólk í Reykjavík sem hækkaði laun lægstu stétta og minnkaði kynbundinn launamun um helming. Það var Samfylkingarfólk í Hafnarfirði sem hóf niðurgreiðslu á íþrótta- og tómstundastarfi barna. Það var Samfylkingarfólk í Árborg sem setti lýðræðismálin og íbúaþing á oddinn. Og það var Samfylkingin á Akranesi sem lyfti grettistaki í grunnskólamálum bæjarfélagsins. Það skiptir því máli hverjir stjórna.
En nú er þetta í höndunum á fólkinu. Það er vonandi að þjóðin kjósi rétt á laugardaginn svo Íslendingar búi við samfélög frelsis, jafnréttis og bræðralags um allt land.

Frumvarp um rannsóknarnefndir liggur nú fyrir

Það er hreint með ólíkindum að stjórnvöld hafi huganlega stundað pólitískar símhleranir hjá þingmönnum og fjölmiðlum. Auðvitað þarf að rannsaka slíkar fullyrðingar í kjölinn.

Í þessu sambandi er vert að rifja upp að fyrir hálfu ári lagði ég fram á Alþingi sérstakt lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir óháðum rannsóknanefndum. Í þessu frumvarpi eru lagðar til sérstakar málsmeðferðareglur og væri því svona rannsóknarnefnd, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, tilvalin í að skoða hvort pólitískar símhleranir hafi átt sér stað á tíma kalda stríðsins.
Alþingi með frumvarpið í hálft ár
Í íslenskum rétti er ekki gert ráð fyrir skipun almennra rannsóknarnefnda sem rannsakað geta mál sem varða mikilvæg mál eða stjórnvaldsathafnir er varða almannahag. Þetta frumvarp bætir úr því úr því og væri því nýtt úrræði í samfélagi. Víða í nágrannaríkjum okkar er að finna lög um óháðar rannsóknarnefndir.

Hlutverk slíkra nefnda er ekki að rannsaka og dæma í málum enda er slíkt hlutverk framkvæmdarvalds og dómsvalds. Þeim er ætlað að skoða tiltekna atburðarás eða athöfn, leita skýringa og jafnvel að koma með tillögur til úrbóta þar sem eitthvað hefur farið úrskeiðis. Í kjölfarið geta vaknað spurningar um ábyrgð einstaklinga eða eftir atvikum embættismanna. Sömuleiðis getur slík rannsókn eytt tortryggni og endurreist trúverðugleika viðkomandi aðila eða aðgerða.

Nýtt úrræði.
Samkvæmt frumvarpinu væri rannsóknarnefndinni heimilt að kalla til sín einstaklinga til upplýsingagjafar og væri skylt að verða við því kalli. Sömuleiðis væri skylt að afhenda rannsóknarnefnd öll gögn og upplýsingar sem hún telur nauðsynleg við rannsókn máls.
Frumkvæði að skipun rannsóknarnefndar kæmi frá Alþingi en Hæstiréttur velur og tilnefnir nefndarmennina. Gert er ráð fyrir að ýmsir sérfræðingar geti sitið í slíkri nefnd en rannsóknarnefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar gerir einungis ráð fyrir að þingmenn siti í slíkri nefnd.

Með þessu frumvarpi var því lagt til nýtt úrræði sem ætti að leiða til opnara samfélags og felur í sér að umdeild mál verði rannsökuð af óháðri rannsóknarnefnd. Hægt er að nálgast frumvarpið í heild sinni á http://www.althingi.is/altext/132/s/0428.html.
Greiningardeild Björns Bjarna
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp dómsmálaráðherra sem gerir ráð fyrir stofnun sérstakrar greiningardeildar hjá Ríkislögreglustjóra. Slík greiningardeild mun m.a. hafa það hlutverk að stunda fyrirbyggjandi eftirlit með meintu landráði og óvinum ríkisins. Við umræðu þessa máls hafa komið fram ýmsar efasemdir um slíka starfsemi. Þessar nýju upplýsingar um hugsanlega símhleranir hjá pólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar sýna að þessar efasemdir eiga rétt á sér.

Kosningar í aðsigi

Nú er kosningabaráttan til sveitastjórna að ná hámarki. Undanfarið hef ég verið að tala við oddvita og kosningastjóra Samfylkingarinnar um landið allt um. Mikil bjartsýni og leikgleði ræður ríkjum hjá Samfylkingarfólki og flokkurinn er svo sannarlega reiðubúinn.
Hafnfirðingar kunna þetta
Á mánudaginn fór ég á fjölmennan fund Samfylkingarinnar í Hafnarfirði þar sem frambjóðendur og stefnumál voru kynnt. Þetta var mjög góður fundur og það er ljóst að Hafnfirðingarnir kunna þetta. Stefnupakkinn er flottur og raunsær. Samfylkingin hefur haldið vel um stjórnartaumana í Hafnarfirði undanfarin fjögur ár enda verið með hreinan meirihluta þar.
Samfylkingin í Hafnarfirði hefur t.d. verið brautryðjandi í niðurgreiðslu tómstundastarfs fyrir börn. Slík aðgerð gefur öllum börnum jöfn tækifæri til sömu félagslegra þátttöku í samfélaginu og dregur án efa úr einangrun og jafnvel einelti.
Nýtt blóð í Kópavog
Síðustu helgi fór ég til félaganna í Kópavogi en þar eru virkilega spennandi hlutir að gerast. Ég er sannfærður um að Samfylkingin í Kópavogi mun uppskera ríkulega þegar talið verður upp úr kjörkössunum eftir rúmar tvær vikur. Samfylkingin teflir fram mjög sterkum lista í Kópavogi þar sem fersleiki og reynsla fara saman.
Það er löngu tímabært að Kópavogur fái nýtt blóð á bæjarstjórnarskrifstofuna. Og það verður bara að viðurkennast að nýr oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, Guðríður Arnardóttir, er talsvert meira spennandi en oddvitar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins eru.
Sjálfstæðismenn í deilum við íbúa Seltjarnarness
Ég var við opnun kosningaskrifstofu Neslistans á Seltjarnarnesi sem hefur unnið ötullega undanfarin ár. Á Seltjarnarnesi eru miklir möguleikar á að ná fram löngu tímabærum breytingum. Ég ber sérstakar taugar til Neslistans. Ég starfaði sjálfur fyrir framboðið fyrir nokkrum árum síðan. Ég ólst upp á Nesinu og veit hvaða möguleikar eru þar fyrir hendi. Möguleikar sem ekki hafa verið nýttir af meirihluta Sjálfstæðismanna. Guðrún Helga Brynleifsdóttir lögmaður og hagfræðingur – og tengdamóðir mín – er oddviti listans.
Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesinu, Jónmundur Guðmarsson, hefur klúðrað hverju stórmálinu á fætur öðru á sínu fyrsta kjörtímabili. Á kjörtímabilinu lentu hann m.a. í miklum deilum við kennara og foreldra vegna valdhroka og frekju. Bæjarstjórinn lenti einnig upp á kant við íbúa bæjarins í skipulagsmálum þar sem tekist var á um grundvallaatriði. Í því máli hrökklaðist bæjarstjórinn út í horn.
Þá er skemmst að minnast þess að sá fáheyrði atburður átti sér stað í síðasta prófkjöri Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesinu að sitjandi bæjarstjóri fékk mótframboð frá sínum eigin bæjarfulltrúa. Það er því ljóst að óánægjan með bæjarstjórann á Seltjarnarnesinu liggur ekki einungis hjá bæjarbúum heldur einnig innan hans eigin flokks. Nesbúar skynja að Jónmundur er enginn Sigurgeir. Þegar litið er á kjörtímabilið sést að það hefur einkennst að deildum við bæjarbúa, í veigamiklum málum svo sem í skólamálum og skipulagsmálum. Ég hef þá trú að kjósendur vilji önnur vinnubrögð en þau sem bæjarstjórinn hefur sýnt.
Haldið norður á land um helgina
Á næstu dögum mun ég reyna að heimsækja sem flesta af okkar félögum um allt land. Á morgun mun ég fara til Akureyrar en þá verða stefnumál framboðsins m.a. kynnt. Fundurinn er haldinn kl. 11 í Skipagötu 2 og eru allir velkomnir. Þá mun ég halda til Húsavíkur og ræða um sveitastjórnarmál hefst sá fundur kl. 14 í Garðarstræti 15.

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar gjaldfrjálsum leikskóla

Eitt mikilvægasta málefni þessara borgarstjórnarkosninga er loforð Samfylkingarinnar um gjaldfrjálsan leikskóla. Í leikskólamálum endurspeglast sá grundvallarmunur sem er á hugmyndafræði Samfylkingarinnar annars vegar og Sjálfstæðisflokksins hins vegar.

Samfylkingin vill gjaldfrjálsan leikskóla líkt og grunnskólinn er, enda er leikskólinn fyrsta skólastigið og eðlilegt að hann sé börnum gjaldfrjáls eins og grunnskólinn.
Gjaldfrelsi eða afsláttur?
Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar áframhaldandi skólagjöld á þessu fyrsta skólastigi og vill eingöngu lækkun á þessum skólagjöldum leikskólabarna. Sú leið færir foreldrum hins vegar talsvert minni kjarabót. Því fer fjarri að tillögur flokkanna tveggja séu jafn verðmætar fyrir almenning. Leið Sjálfstæðisflokksins skilar barnafólki mun minni kjarabót, enda er aðeins um að ræða afslátt en ekki gjaldfrelsi líkt og Samfylkingin boðar.

Í umræðu um stefnu flokkanna í leikskólamálum er eins og þessar tvær tillögur færi almenningi jafnmikla kjarabót. Raunveruleikinn er hins vegar sá að það er himinn og haf á milli þessarar kosningaloforða.
Forysta Sjálfstæðisflokks andvíg gjaldfrjálsum leikskóla
Vert er að rifja upp afstöðu menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, til gjaldfrjáls leiksskóla. Ég ræddi gjaldfrjálsan leikskóla á Alþingi fyrir tveimur árum síðan og spurði menntamálaráðherra að því hvort hún teldi þá leið koma til greina. Ráðherrann hafnaði ráðherrann gjaldfrjálum leiksskóla með þeim orðum að það væru “engar efnahagslegar forsendur fyrir því að gera leikskólann gjaldfrjálsan.”

Stefna Sjálfstæðisflokks er sú að hafna gjaldfrjálsum leikskóla í þessum kosningum og ekkert útlit er fyrir að breyting verði á þeirri stefnu í bráð.

Hvað kosta skattabreytingar fyrir eldri borgara?

Þessa dagana er mikil umræða um kjör eldri borgara og hafa verið háværar kröfur frá hagsmunaaðilum að breyta skattlagningu á tekjum eldri borgara. Það er því heppilegt að fjármálaráðherra hefur nú svarað fyrirspurn minni á Alþingi um skattlagningu lífeyrisgreiðslna og skattleysismörk 70 ára og eldri.
Tekjur frá lífeyrissjóðum
Sé rýnt í svarið kemur í ljós að yrðu lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum til 70 ára og eldri skattlagðar með fjármagnstekjuskatti í 10% þrepi, í stað tekjuskatti, yrði tekjutap ríkissjóðs um 900 milljón kr. og tekjutap sveitarfélaga um 2,4 milljarð kr. Svona skattalagabreytingu hefur Félag eldri borgara m.a. lagt áherslu á að verði gerð.

Væru greiðslur úr lífeyrissjóðum hins vegar skattfrjálsar fyrir 70 ára og eldri myndi það kosta ríkissjóð um 2,3 milljarð kr. og sveitarfélögin um 2,4 milljarð kr.
Tekjur frá Tryggingarstofnun ríkissins
Væri vilji til að breyta skattlagningu lífeyristekjum frá Tryggingarstofnun ríkisins til 70 ára og eldri kemur í ljós skattlagning þeirra sem fjármagnstekjur í 10% þrepi, í stað tekjuskatt, myndu tekjur ríkissjóðs lækka um 200 milljón kr. og tekjur sveitarfélagana 2,1 milljarð kr.

En ef þessar tekjur yrðu skattfrjálsar fyrir 70 ára og eldri myndi það kosta ríkissjóð 1,1 milljarð kr. og sveitarfélögin 2,1 milljarð kr. Öryrki sem einungis lifir af lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins var skattfrjáls frá 1988 til 1996, en hefur síðan þá greitt sívaxandi skatta af hámarkslífeyrinum, líkt og eldri borgarar.

Í svarinu kemur fram að ekki var hægt að greina skattskyldar lífeyrisgreiðslur Tryggingarstofnunar eftir tegundum. Þess vegna yrði það ódýrara fyrir hið opinbera ef skattlagningu hluta þeirra s.s. grunnlífeyrisins, yrði eingöngu breytt.
Skattleysismörk 70 ára eða eldri breytt
Ég kallaði einnig eftir áhrifum á tekjur hins opinbera ef skattleysismörk 70 ára og eldri yrðu breytt enda er ljóst að skattleysismörk hafa setið eftir í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ef skattleysismörk 70 ára og eldri yrðu 100.000 kr., þá lækka tekjur hins opinbera um 3 milljarða kr. En ef skattleysismörkin yrðu 120.000 kr. þá kostar það hið opinbera rúma 4 milljarða kr. og 150.000 kr. skattleysismörk fyrir eldri borgara kosta um 5 milljarða kr. Væru skattleysismörkin hins vegar 180.000 kr. þá kostar það hið opinbera 5,5, milljarða kr.

Álagning almenns tekjuskatts og útsvars á 70 ára og eldri nam alls 6.616 millj. kr. árið 2005.
Bæta þyrfti tekjutap sveitarfélaga
Það er mikilvægt í umræðunni um þessi mál að hafa á hreinu hvað hugsanlegar skattabreytingar kosta fyrir hið opinbera. Sömuleiðis er ljóst að ef ráðist yrði í svona skattabreytingar breytingar þá er ljóst að tekjutap sveitarfélaganna þyrfti að bæta með einhverjum hætti.

Hægt er að nálgast svarið í heild sinni á http://www.althingi.is/altext/132/s/1245.html

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband