Æsispennandi kosninganótt í vændum

Frá því Alþingi var sent heim fyrir þremur vikum hef ég nýtt tímann nokkuð vel og heimsótt fjölmörg framboð Samfylkingarinnar um allt land. Það er augljóst að kosningarnar á laugardaginn verða víðast hvar mjög spennandi, ekki síst hér í Reykjavík.
Það hefur verið mjög gaman að taka þátt í kosningabaráttunni í Reykjavík, hvort sem litið er á vinnstaðaheimsóknir, hringingar, fundi eða að fylgjast með uppátækjum Ungra jafnaðarmanna sem hafa svo sannarlega staðið við sitt í þessum slag.
Baráttan í Reykjavík
Í Reykjavík er tekist á um grundvallaratriði, eins og alls staðar annars staðar á landinu. Það skiptir miklu máli að Samfylkingin í Reykjavík fái góða kosningu á laugardaginn og má nefna nokkur málefni því til stuðnings.

Samfylkingin vill gjaldfrjálsan leikskóla en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað hafnað gjaldfrjálsum leikskóla. Sjálfur spurði ég Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálráðherra, á Alþingi um afstöðu hennar til gjaldfrjáls leikskóla og hún svarði því mjög skýrt að það væru að hennar mati engar forsendur til þess að hafa hann gjaldfrjálsan. Samfylkingin vill stórauka þjónustu við eldri borgara en eftir áratugastjórn Sjálfstæðisflokksins á málefnum eldri borgara má finna sviðna jörð í málaflokkunum.
Samfylkingin í Reykjavík hefur sömuleiðis lagt áherslu á stuðning við öflugt menningarstarf sem Ungir sjálfstæðismenn hafa algjörlega hafnað í sínum ályktunum. Þá hefur Samfylkingin í Reykjavík lofað mikilli fjölgun á stúdentaíbúðum og því að setja Miklabraut í stokk. Þetta eru allt málefni sem skipta Reykvíkinga miklu máli.
Á fundum um landið
Annars er tekist mikið á um allt land og það er gaman að geta fengið baráttuna beint í æð með því að heimsækja framboðin víða um land.

Ég átti góðan fund með félögum mínum á Akureyri í blíðskaparveðri. Samfylkingin á Akureyri er á mikilli uppleið og er hópurinn þar þéttur og hefur unnið sína vinnu gríðarlega vel. Þá heimsótti ég Húsavík og ríkir bjartsýni hjá Samfylkingarfólki. Samfylkingin í Eyjafjarðarsveit býður fram í fyrsta skipti og var áhugavert að hitta hana á heimavelli.
Það var sömuleiðis gaman að taka þátt í fjölskylduhátíð Samfylkingarinnar í Árborg um daginn en þar mætti fjölmenni ásamt Bangsímon sem var kannski nokkuð óhefðbundinn í útliti, svo mjög að Elísabet 4 ára dóttir mín sá ástæðu til að gera athugasemd við útlit bangsa, en tók hann svo í sátt þegar hann hóf að spila á gítar fyrir börnin. Samfylkingin í Sandgerði tók einnig vel á móti okkur fjölskyldunni og er mikill hugur í okkar fólki þar.
Samfylkingin á Akranesi hélt fjölmennan fund sem ég heimsótti ásamt Ingibjörgu Sólrúnu og Jóni Baldvini þar sem þau héldu dúndurræður yfir fólkinu. Ég hef einnig kíkt á flokksfélaga í Hafnarfirði, í Kópavogi, í Reykjanesbæ, á Seltjarnarnesi, og í Garðabæ og Grindavík. Alls staðar má finna sameiginlegan samhljóm meðal Samfylkingarfólks og mikinn sigurvilja. Samfylkingin býður fram með ákveðin grunngildi að leiðarljósi, að allir geti verið með í samfélaginu og að öllum gefist tækifæri á að njóta sín.
Við Þorbjörg kona mín höfðum svo stefnt á að fara til Ísafjarðar á þriðjudaginn og mættum á flugvöllinn þegar tilkynnt var að flugið félli niður vegna snjókomu! Við því hefði maður ekki búist 23. maí. Það hefur annars ekki margt minnt á að maímánuður er að renna sitt síðasta skeið ef það væri ekki fyrir kosningarnar.
Það skiptir máli hverjir stjórna
Alls staðar þar sem ég kem, eða hjá þeim oddvitum flokksins sem ég heyri í, má skynja mikla bjartsýni og sjálfstraust. Samfylkingin kemur hreint til dyra með skýr stefnumál og þarf hvorki að fela fyrri stefnu né verk.
Samfylkingin hefur sýnt að henni er treystandi til góðra verka. Það var Samfylkingarfólk í Reykjavík sem hækkaði laun lægstu stétta og minnkaði kynbundinn launamun um helming. Það var Samfylkingarfólk í Hafnarfirði sem hóf niðurgreiðslu á íþrótta- og tómstundastarfi barna. Það var Samfylkingarfólk í Árborg sem setti lýðræðismálin og íbúaþing á oddinn. Og það var Samfylkingin á Akranesi sem lyfti grettistaki í grunnskólamálum bæjarfélagsins. Það skiptir því máli hverjir stjórna.
En nú er þetta í höndunum á fólkinu. Það er vonandi að þjóðin kjósi rétt á laugardaginn svo Íslendingar búi við samfélög frelsis, jafnréttis og bræðralags um allt land.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband