Bloggfærslur mánaðarins, desember 2005

Ósanngjörn skattastefna ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur í valdatíð sinni verið iðin við að halda því fram að skattastefna þeirra feli í sér skattalækkanir. Stjórnarliðar vilja minna ræða um það hvernig lægri skattar skila sér til almennings og hvað mismunandi hópar samfélagsins bera úr býtum. Þetta er hins vegar lykilatriði í skattapólitík, þ.e. hvernig lægri skattar koma til framkvæmda og hver markmiðin að baki þeim eru.
Staðreyndin er sú að millitekjufólk, oft á tíðum ungt fjölskyldufólk, og láglaunafólk finnur ekki mikið fyrir lægri skattheimtu ríkisins. Skattalækkunum ríkisstjórnarinnar er einfaldlega ekki beint að þessu fólki.

Lægri skattar skila sér hins vegar duglega til hinna efnameiri. Þessar lækkanir eru svo kostaðar með skerðingu á ýmsum greiðslum sem millitekju – og láglaunafólki munar um. Það gleymist stundum í umræðu um skattamál að lægri skattar þýða minni tekjur ríkissins. Umfangsmiklar skattalækkanir hljóta því að einhverju marki að bitna á þjónustu ríkisins.
Barnabætur hafa lækkað
Ríkisstjórnin hefur t.d. skert barnabætur um rúma 10 milljarða króna þar sem að viðmiðunarfjárhæðir hafa ekki fylgt verðlagsþróun og einnig vegna tekjutengingar á barnabótum. Fjölskuldufólk fékk hærri barnabætur árið 1995 en það fær nú, auk þess sem að fleiri einstaklingar fengu þessar bætur greiddar þá en nú. Nú fá aðeins um 11,3% foreldra óskertar barnabætur. Sé litið til hjóna er þessi tala jafnvel enn lægri. Aðeins 3% hjóna fá óskertar barnabætur.

Hækkun barnabóta á undanfarið, sem kemur reyndar ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 2007, nær því ekki að hækka þær til jafns við það sem þær voru fyrir aðgerðir þessarar ríkisstjórnar. Reyndar nemur hækkunin aðeins um fjórðungi af þeirri upphæð sem barnafólk hefur misst undanfarinn áratug. Þetta sést á því að ef raungildi barnabóta hefði haldist óbreytt frá því sem það var þegar ríkisstjórnin tók við völdum 1995 hefði fjölskyldufólk fengið um 10 milljörðum meira í sinn hlut en það hefur fengið.
Markmið barnabóta hlýtur að vera að létta undir með fólki sem er að stofna fjölskyldur og með tímabundið þungar fjárhagsskuldbindingar. Nú er hins vegar svo komið að mikill minnihluti fjölskyldufólks fær óskertar barnabætur, en það er varla í samræmi við markmiðið um að fjölskyldur landsins fái fjárhagslega aðstoð á þeim tíma þegar að útgjöld heimila eru hærri en á öðrum tímabilum ævinnar.
Hjón greiða hærra hlutfall tekna í tekjuskatt
Hin rétta mynd í skattamálum er önnur en ríkisstjórnin vill sýna. Skattbyrði einstaklinga hefur aukist á Íslandi. Skattbyrðin hefur aukist mest hérlendis af öllum ríkjum OECD frá 1990 fyrir utan eitt land, Grikkland. Yfirgnæfandi meirihluti hjóna og sambúðarfólks (95%) og 75% einstaklinga greiðir hærra hlutfall tekna sinna í tekjuskatt en það gerði 1995. Ástæðan er sú að jafnvel þó að skattprósentan sé lægri þá dugar það ekki til, þar sem skattfrelsismörkin hafa ekki fylgt þróun launa eða verðlaugs. Niðurstaðan er að fólk borgar skatt af stærri hluta launa sinna en það gerði áður.

Það er einfaldlega rangt að aukin skattbyrði sé tilkomin vegna aukins kaupmáttar og launahækkana eins og oft heyrist úr herbúðum stjórnarinnar. Enda hefur aukning kaupmáttar ekki alltaf haft í för með sér sjálfkrafa þyngingu á skattbyrði. Það gerðist fyrst eftir að rofin voru tengsl persónuafsláttar og vísitölu árið 1995. Þá fór skattbyrðin að haldast í hendur við launahækkanir, vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.
Slæmar afleiðingar skattastefnu ríkisstjórnarinnar
Þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðað munu kosta ríkissjóð 39 milljarða á þremur árum. Lítill hluti þessara lækkana fer til millitekju – og láglaunafólks. Eftir þrjú ár þá hafa skattalækkanirnar í för með sér 22 milljarða króna kostnað á ríkissjóð á ári.

Fyrirhugaðar tekjuskattslækkanir ríkisstjórnarinnar í ár færa grunnskólakennara með meðallaun u.þ.b 1.900 kr. í skattalækkun á þessu ári sem nægir rúmlega fyrir einum bleyjupakka á mánuði. Einstaklingur með milljón á mánuði fá hins vegar um 23.000 kr. í skattalækkun mánaðarlega eða eina utanlandsferð í hverjum mánuði. Það væri miklu réttlátara að lækka matarskattinn fyrir sömu fjárhæð en það myndi koma öllum til góða, ekki síst millistéttinni.

Það er hins vegar óumdeilt að ákveðnir hópar í samfélaginu hafa borið lægri skatta úr býtum, það er segja þeir sem mestar hafa tekjur. Millitekju – og láglaunafólk hefur ekki notið góðs af þessum skattalækkunum. Þetta fólk fær hins vegar að súpa seyðið af afleiðingum skattalækkana í formi skertra barnabóta, hækkandi komugjalda í heilbrigðiskerfinu, auk þess sem að tryggingargjöld eru hærri en áður, vaxtabætur hafa skerst, lyfjakostnaður aukist og ýmis þjónustugjöld hafa hækkað.

Hin rétta mynd af skattalækkunum ríkisstjórnarinnar er sú að skattbyrði einstaklinga hefur aukist og áður óþekkt skattheimta á láglaunafólk, og meira að segja bótaþega, er orðin að veruleika.

Rafræn sjúkraskrá verði að veruleika

Það er hægt að ræða, og deila, endalaust um heilbrigðismál á Íslands enda mjög víðtækur málaflokkur sem tekur til sín stærstan hluta ríkisútgjalda. Hins vegar er eitt mál sem nánast allir í heilbrigðiskerfinu eru sammála um. Það er um nauðsyn þess á að koma á rafrænni sjúkraskrá. Rafræn sjúkraskrá hefur verið nefnd stærsta hagsmunamál íslensks heilbrigðiskerfis.

Kostir rafrænnar sjúkraskrár eru ótvíræðir. Slík skrá eykur öryggi sjúklinga til muna, dregur úr tvíverknaði, tryggir upplýsingaflæði og stuðlar að skilvirkni og sparnaði.

Sjúklingar fengju með henni betri þjónustu og læknar hefðu aðgang að betri upplýsingum á einum stað. Rafræn og samræmd sjúkraskrá er mikilvægt öryggisatriði ásamt því að auðvelda alla vinnslu og varðveislu upplýsinga. Rafræn sjúkraskrá myndi því borga sig upp á skömmum tíma, m.a. vegna fækkun mistaka og aukinnar hagkvæmni.
Ljúkum við verkið
Tryggja verður nægjanlegt fjármagn í gerð slíkrar rafrænnar sjúkraskrár í þágu alls heilbrigðiskerfisins, jafnt á sjúkrastofnunum sem og á heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum. Sömuleiðis þarf að tryggja samtengingu rafrænna kerfa í heilbrigðiskerfinu í heild sinni.

Ákveðin skref hafa verið tekin í þessa átt en nú er tími til kominn til að spýta í lófana hvað þetta varðar. Fjölmargir þingmenn og fagaðilar hafa ítrekað kallað eftir gerð rafrænnar sjúkraskrár. Nágrannaþjóðir okkar eru komnar talsvert á undan okkur að þessu leyti.

Rafræn sjúkraskrá er vitaskuld stórt og dýrt verkefni upp á 1-2 milljarða króna sem myndi hins vegar margborga sig á mjög skömmum tíma. Leggjumst öll á eitt og fjárfestum í okkar eigin öryggi með rafrænni sjúkraskrá og rafrænu upplýsingaflæði.

Raunveruleg forgangsröðun ríkisstjórnarinnar

Nú í dag voru fjárlögin samþykkt á Alþingi. Samkvæmt lögunum verður 19,6 milljarða króna tekjuafgangur á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Það hefur að vísu ekki vantað að fjárlög ríkisstjórnarinnar boði ríflegan tekjuafgang. Reyndin hefur hins vegar verið sú að afgangurinn er ekki fyrir hendi þegar reikningurinn er gerður endanlega upp. Þá er myndin önnur og ekki jafn glæsileg. Ef skoðuð eru árin 2000-2004 þá var þar gert ráð fyrir um 82 milljarða króna afgangi í fjárlögum, en niðurstaðan varð aftur á móti 8 milljarða króna halli.

Það er sömuleiðis venjan að allar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar, hver og ein einasta, séu felldar. Gildir þá einu hvers efnis tillögurnar eru. Ríkisstjórnin sá ekki ástæðu til að bæta ráð sitt í ár og öðru sinni gerðist það að Mannréttindaskrifstofa Íslands fékk ekki neina eyrnamerkta upphæð til þess að halda rekstri skrifstofunnar áfram. Felld var tillaga stjórnarandstöðunnar um að leggja Mannréttindaskrifstofu Íslands sambærilegt fé og hún hafði áður en hún fór að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir vafasöm frumvörp s.s útlendingafrumvarpið og hlerunarfrumvarpið.

Skref tilbaka í fjárframlögum til Háskóla Íslands
Sömuleiðis felldu stjórnarliðar viðbótarfjárframlag til háskólanna en skólunum hefur sárlega vantað aukið fjármagn. Samkvæmt blaðagrein menntamálaráðherra hefur það viðbótarfjármagn sem hefur runnið til Háskóla Íslands ekki einu sinni dugað fyrir þeirri fjölgun sem hefur orðið á nemendum á sama tíma. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD er Ísland í 17.-21. sæti af 30 ríkjum OECD þegar útgjöld til háskólana er skoðað. Engu að síður var samstaða um það meðal ríkisstjórnarflokkanna að fella tillögu stjórnarandstöðunnar um nauðsynlegt viðbótarframlag til háskóla landsins.

Háskólinn á Akureyri hefur neyðst til að loka deildum hjá sér í vetur vegna fjárskorts. Bjargvættur Háskólans á Akureyri, Birkir Jón Jónsson, fór mikinn í fjölmiðlum í síðustu viku þegar hann sagðist ætla að redda Háskólanum á Akureyri fjármagni. Í dag greiddi hann svo atkvæði gegn auknum fjárframlögum til Háskólans á Akureyri.

Ekki vilji til að setja fjármagn í fleiri hjúkrunarrými
Það hefur varla farið framhjá mönnum að málefni aldraða eru því miður í miklum ólestri. Þriðji hver eldri borgari í landinu lifir á 110.000 krónum á mánuði eða minna. Aðbúnaður eldri borgara er víða óásættanlegur. Á fjórða hundrað einstaklinga eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. Þrátt fyrir þessa stöðu greiddu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn atkvæði gegn tillögu stjórnarandstöðunnar um aukið fjármagn til að fjölga hjúkrunarrýmum. Þessi afstaða kristillar að mínu mati afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa málaflokks. Velferðarmálin eru svo sannarlega ekki ofarlega á lista, eins og dæmin sanna því miður aftur og aftur.

Ábyrgar og ígrundaðar tillögur Samfylkingar
Samfylkingin hefur farið þá leið að setja fram tekju – eða niðurskurðartillögur fram með öllum tillögum sem hafa í för með sér útgjaldaaukningu. Tillögur Samfylkingarinnar eru í senn ábyrgar og raunsæjar, þar sem farið er ígrundað yfir málin. Tillögur okkar gera jafnvel ráð fyrir meiri afgangi af fjárlögum en samkvæmt fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Það sýnir að vel er hægt að sinna t.d. mennta- og velferðarmálum á sómasamlegan hátt án þess að það þurfi að hafa í för með sér versnandi stöðu ríkissjóðs. Það er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem er röng. Það sést glögglega á því að meirihlutinn fellir ábyrgar tillögur Samfylkingarinnar í velferðar – og menntamálum kinnroðalaust.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband