Þingmenn á Hrauninu

Allsherjarnefnd Alþingis heimsótti Litla-Hraun fyrir helgi. Heimsókin var afar fróðleg og er ljóst að starfsfólkið þar er að vinna gott starf við erfiðar aðstæður. Reyndar gekk erfiðlega fyrir þingmenn að komast þaðan þar sem rútan sem flutti hina háttvirtu þingnefnd festist á bílastæðinu við Litla-Hraun. En með samstilltu átaki löggjafarvalds og yfirmanna fangelsismála tókst að koma þingmannsrútunni út í frelsið.

En að efni máls, þá er ljóst að fangelsismál hafa því miður ekki verið mjög ofarlega á dagskrá íslenskra stjórnmála. Þessi málaflokkur er þó hluti af þeim grunnskyldum sem sérhvert stjórnvald ber að sinna.

Þrátt fyrir það er ýmislegt ógert í fangelsismálum þjóðarinnar. Má þar nefna frekari uppbygging á fangelsisbyggingum, bætt meðferðarúrræði fyrir fanga, aukna möguleika á menntun og vinnu hjá föngum, betri kjör fangavarða, bætt heimsóknaraðstaða, aukinn stuðningur eftir að afplánun lýkur og svona mætti lengi telja áfram.

Hins vegar hefur margt jákvætt gerst undanfarin misseri í fangelsismálum sem vert er að gefa gaum að. Talsverð breyting til batnaðar varð þegar Valtýr Sigurðsson tók við Fangelsismálastofnun fyrir nokkrum árum. En nú er Valtýr horfinn á aðrar slóðir sem nýr ríkissaksóknari og er óhætt að binda miklar vonir við starf hans þar. Það var sömuleiðis mikið fagnaðarefni þegar tilkynnt var að Margrét Frímannsdóttir myndi taka við stjórnartaumum á Litla-Hrauni. Margrét var einn af fáum þingmönnum sem lét sig fangelsismál varða og hefur mikla þekkingu á málaflokknum.

Þá hefur núverandi dómsmálaráðherra staðið fyrir mörgu jákvæðum aðgerðum í fangelsismálum. Og fyrir helgi skilaði síðan nefnd menntamálaráðherra skýrslu um að auka bæri áherslu á menntun fanga sem hlýtur að segja sig sjálft að sé nauðsynlegt. En síðast en ekki síst hafa fangarnir sjálfir lagt mikið að mörkum í að benda á það sem betur má fara. Það var mikilvægt fyrir okkur í allsherjarnefnd Alþingis að heyra athugasemdir fanganna milliliðalaust frá þeim sjálfum.

En betur má ef duga skal. Dómar virðast hafa þyngst undanfarin misseri og það eykur að sjálfsögðu álagið á starfsfólk og kerfið. Sömuleiðis hefur notkun á samfélagsþjónustu aukist jafnt og þétt að undanförnu en ein af afleiðingum þess er auðvitað sú að hlutfall þeirra sem þurfa að sitja inni og eru sekir um alvarlegri glæpi er hærra en áður.

Það hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðum með fangelsisvist að einstaklingurinn komi ekki verri út eftir að afplánun lýkur heldur en hann var þegar hann hóf afplánunina. Það er því hagsmunamál okkar allra að þessi málaflokkur fái þá athygli og fjármagn sem hann þarf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Já ég tek undir að þessi málaflokkur má ekki lengur vera afskiptur. Allra hagur hlýtur að vera að menn komi mögulega skárri þarna út aftur.

Margréti Frímannsdóttur fagna ég í þetta embætti, fáir þingmenn hafa haft meiri áhuga á málaflokknum en einmitt hún.

Takk fyrir góðan pistil

Ragnheiður , 20.1.2008 kl. 15:07

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Ágúst Ólafur,

það er rétt hjá þér að margt er ógert og margt hefur verið vel gert í fangelsismálum á Íslandi. Ég fagnaði því þegar Margrét Frímannsdóttir tók við embætti á Litla-Hrauni og er þess fullviss að hún mun vinna þannig að öllum sé sómi að, innan veggja fangelsins og utan.

Ég tek undir þá skoðun þína að markmiðið með refsivist hljóti að vera að menn komi þaðan betri menn. Lykilatriði þar er að ungir afbrotamenn komist í viðeigandi vistun en lendi ekki innanum harðsvíraða afbrotamenn sem eru fúsir að kenna þeim margt annað en það sem þeir þurfa á að halda.

Ríkisstjórnin fær því heillaóskir frá mér og von um að hæfilegu fjármagni verði veitt til fangelsa á Íslandi og að þeir sem þar stjórna fari með það fé þannig að það sé öllum til hagsbóta.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 20.1.2008 kl. 19:44

3 Smámynd: Calvín

Þingmenn ættu að skoða vel hugmyndir frjálshyggjumanna eins og Milton Friedmans varðandi refsingar og fangelsismál sem eru í anda Þjóðveldistíma Íslendinga. Refsing við hæfi sem refsar réttum aðilum. Í dag er í raun verið að refsa skattgreiðendum með of þungum dómum (og kostnaðarsömum fyrir þjóðfélagið) sem einfaldlega þýðir að skattbyrði okkar verður meiri. Þannig er okkur "refsað" vegna glæpa sem aðrir hafa framið.

Calvín, 20.1.2008 kl. 19:49

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fyrirsögnin er eitt það notalegasta sem ég hef séð hér á þessum samskiptamiðli.

Árni Gunnarsson, 20.1.2008 kl. 21:50

5 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Fregnir af miklum fíknefnavanda innan vegjja fangelsis vekja mína athygli. Er kannski ástæða til að reka sérstakt fanelsi fyrir fanga sem ekki eru háðir fíkniefnum. Það yrði hugsanlega minni minni stofnun en hin?

Jón Halldór Guðmundsson, 21.1.2008 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband