Siðferði er hornsteinn mannlegra samskipta

Eitthvað er maður latari við að blogga að sumri til en á öðrum tíma. Vegna þessa birti ég hér grein mína sem birtist í nýútkomnu blaði útskriftarnema Háskólans á Bifröst um viðskiptasiðferði.  

"Siðferði er einn af mikilvægustu þáttum mannlegs samfélags og það skiptir ekki máli hvort sé litið til viðskipta, stjórnmála, menningar eða almennt til mannlegra samskipta. Siðferði þarf ætíð að vera í forgrunni. Siðferði eru hluti af leikreglum og í viðskiptalífinu skipta leikreglur öllu máli.

Þá á ég bæði við hinar skrifuðu leikreglur sem birtast í lögum og reglugerðum og hinar óskrifuðu sem byggjast á hefðum og jafnvel væntingum. Siðferði myndast oft á löngum tíma og venjur eiga stóran þátt í að mynda siðferði, sérstaklega viðskiptasiðferði.

Að dæma sig úr leik
Ég tel að það ríki ágætis viðskiptasiðferði á Íslandi enda er fólk fljótt að dæma sig úr leik ef það gerist brotlegt við siðferðisreglur markaðarins og samfélagsins. Orðspor er eitt það dýrmætasta sem nokkur einstaklingur eða fyrirtæki á og orðspor byggist fyrst og fremst á áliti annarra á fyrri verkum viðkomandi.

Auðvitað er eflaust hægt að finna dæmi um þar sem gildar siðferðisreglur og –venjur hafa verið brotnar í íslensku viðskiptalífi. Landlægur klíkuskapur er enn við lýði í viðskiptalífinu eins og er því miður enn í stjórnmálunum.

En vegna þessa skiptir svo miklu máli að ákvarðanir séu teknar með þeim hætti að þær séu rökstuddar og þoli dagsins ljós. Það á bæði við innan viðskiptanna og stjórnmálanna.

Stór hluti af siðferðilegri hegðun er að sýna samkvæmni. Athafnir, orð og jafnvel hugsanir viðkomandi einstaklings mega ekki rekast á. Það er einnig hluti af siðferði að láta eitt yfir alla ganga og þar á meðal sjálfan þig. Okkur ber að leyfa öðrum að gera það sama og okkur finnst siðferðilega verjandi að við gerum sjálf.

"Whistle-blowers"
Starfsmaður í viðskiptalífinu getur auðveldlega lent í siðferðilegri klemmu á milli trúnaðar við fyrirtæki sitt annars vegar og almannahagsmuna hins vegar. Hér á ég sérstaklega við svokallaða heimildarmenn eða "whistle-blowers".

Hér stangast á tvö grundvallarsjónarmið, annars vegar hollusta við fyrirtækið og virðing við undirritaðan trúnaðarsamning og hins vegar réttur og/eða skylda til uppljóstrunar. Flestir eru sammála um að ríkar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til að hægt sé að réttlæta brot á samningi um trúnað. Til að uppljóstrun geti talist vera siðferðislega verjandi og þar með leyfileg þurfa fjölmörg skilyrði að vera uppfyllt.

Upplýsingarnar þurfa m.a. að eiga erindi við almenning t.d. ef tiltekin vara eða hegðun fyrirtækis veldur starfsmönnum eða almenningi alvarlegum skaða. Þá þurfa þær að varða almannahagsmuni. Sumir telja að til að uppljóstrun sé siðferðilega réttlætanlega þurfi viðkomandi starfsmaður að hafa látið í ljós hinar siðferðilegu áhyggjur sínar innan hinna formlegu leiða fyrirtækisins.

Við þurfum að huga að þessari stöðu en í nágrannalöndunum er löggjöf sem tekur til heimildarmanna og uppljóstrara í viðskiptalífinu sem auðvitað gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðislegu samfélagi, en hérlendis er engin slík löggjöf.

Einangrað, snautt, andstyggilegt, ofbeldisfullt og stutt líf
Það geta því verið margar hliðar á viðskiptasiðferði en grundvöllurinn á bak við það eru hin klassísku markmið um jafnræði og sanngirni. Það eru þau fýsilegu markmið sem bæði einstaklingum og fyrirtækjum ber ætíð að stefna að.  Án jafnræðis og sanngirnis er hætt við að við líf mannanna verði í anda þess sem Thomas Hobbes lýsti sem ,,einangrað, snautt, andstyggilegt, ofbeldisfullt og stutt”."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hinar mannlegu eindir eru við völd hér í Mannheimum.

Við erum breyskir og föllum tíðum í freistni, knúðir áfram af hinum stóru syndum, sem nefndar eru Höfuðsyndir, hvar Græðgin er afar sterk og elur á tíðum af sér ,,systur sína" Lygina.

EF Hákarlarnir væru menn, myndu þeir sannfæra sílin og aðra fiska um, að þeim væri best að synda uppí gin þeirra, hvar þeir gætu næðis notið.

Þetta virðist mér stundum vera sannara en ég vildi fyrst vera láta, þá ég las svipaða sögu í þýskukennslu í MR.  Bingó blessaður lagði nú ekkert útaf þessari sögu annað en, að láta menn standa klára á sögnum, reglulegum og óreglulegum, sem þar komu fyrir.

Eftirlit og ný nálgun á mönnun eftirlitsstofnana gæti komið að gangi, því ef menn eiga eitthvað ,,á hættu" verða þeir varkárari.  Sjaldnast er það sjálfsprottið og af íhygli um eigin eindir.

Þjóðverjar og Ameríkaninn kaupa stundum skúrkana sjálfa til að fylgjast með sínum líkum, þar sem þeir þekkja trikkin.

Annars bið ég þig eiga gott síðsumar og bendi á, að óvíða er eins fallegt á síðsumarskvöldum en fyrir Vestan og ekki spillir, að blessuð Aðalbláberin eru nú óðum að þroskast.

Þér væri ekkert nema hollt, að kíkja á fyrrum heimaslóðir hans afa þíns, Einars og rabba við lífskúnstnera í beitingaskúrunum og smiðjunum.

Mér hefur verið frekar hlýtt til þíns fólks.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 1.8.2007 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband