Stóriðja er ekki framtíðin

Hér má finna viðtal við mig sem birtist nýlega á hinu nýja vefsetri www.samfylking.is.

"Í viðtali við samfylking.is segir Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar að stóriðja er ekki framtíðin. Ágúst Ólafur sem er 28 ára var kjörinn á þing fyrir tæpum þremur árum, hann er yngsti þingmaður Samfylkingarinnar, og framinn hefur verið skjótur, því Ágúst Ólafur er varaformaður flokksins.

- Hvað hefur helst komið þér á óvart í stjórnmálunum?
Þingmennskan hefur reynst enn skemmtilegri en ég bjóst við, þetta er afar fjölbreytt starf sem bæði fylgja kostir og gallar. Flokksvinnan er opnara samfélag en ég bjóst við. Það er því auðvelt fyrir duglegt og áhugsamt fólk að láta til sín taka og hef einna mest gaman af þessum hluta starfsins, það er að vinna með fólki í flokknum og sjá og skynja hvað það er sem brennur á fólki. Ég er einnig mjög þakklátur fyrir traustið sem kjósendur og flokksmenn sýnt mér. Þingheimurinn er hins vegar lítill heimur og menn þurfa að gæta sín á að einangrast ekki inni í honum. Mér kom sömuleiðis á óvart hversu öflug hagsmunasamtök eru hér á landi, þau hafa mikið að segja um lagasetninguna.
- Of mikil áhrif?
Það kemur án efa fyrir. Fjölbreytni þessara hagsmunasamtaka er mikil, þetta er allt frá reiðum rjúpnaskyttum yfir í félög stórkaupmanna og lækna. Starfsemi þessara mörgu aðila er eðlileg og af hinu góða. Auðvitað eiga hagsmunasamtök að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, til þess eru þau. Það er líka mikilvægt að grundvallarbreytingar séu gerðar í sem mestri sátt við þá aðila sem hafa hagsmuni að gæta í viðkomandi máli. En maður þarf þó að vera meðvitaður stöðu þessara aðila og greina að almannahagsmuni og sérhagsmuni. Ég vil hafa almannahagsmuni og heildarhagsmuni að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku og ég lít á mig sem þingmann allrar þjóðarinnar en ekki tiltekins hóps eða svæðis.
- Er kjördæmaskipanin vandamál?
Hún getur verið það. Sumum finnst að landsbyggðarþingmenn einbeiti sér um of að staðbundnum hagsmunum. Þingmennskan er í reynd tvennskonar ólík störf – það að vera þingmaður hér á höfuðborgarsvæðinu og að vera landsbyggðarþingmaður. Verkefni þessara þingmanna geta verið æði ólíkt. Við öll berum ábyrgð á því að reyna að brjóta niður múra þannig að traust ríki milli höfuðborgar og landsbyggðar og að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi. Þingmenn eiga allir að líta á sig sem þingmenn allrar þjóðarinnar.
- Telurðu líklegt að landið verði eitt kjördæmi á komandi árum eins og jafnaðarmenn hafi barist fyrir í áratugi?
Ég vona það og það næst í gegn ef menn fara nú að framkvæma það sem þeir hafa boðað. Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa studd baráttuna um að gera landið að einu kjördæmi. Þar sem stjórnarskráin er nú í endurskoðun þá blasir við einstakt tækifæri til gera landið að einu kjördæmi hafi menn kjark til þess. Stjórnmálin myndu án efa batna yrði landið gert að einu kjördæmi – almannahagsmunir yrðu hafðir að leiðarljósi og langtímahugsun kæmist að, t.d. í samgöngumálum þar sem þess er nokkuð vant. Sömuleiðis yrði jöfnun atkvæðaréttarins mikilvægt spor í átt að réttlæti og jafnræði.
- Þú varst formaður ungra jafnaðarmanna 2001 til 2003 og náðir að fylkja ungu fólki um Samfylkinguna í síðustu kosningum. Nú sýna kannanir að Samfylkingin stendur ekki mjög vel í þessum aldurshópi, hvað er til ráða?
Rannsóknir sýna að í alþingiskosningunum árið 2003 var Samfylkingin stærsti flokkurinn meðal ungs fólks. Við þurfum stöðugt að hafa það að leiðarljósi að ná til ungs fólks og höfða til þess. Við eigum því að hlúa vel að ungliðahreyfingunni og tefla meðal annars fram ungu fólki. Ein ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn höfðar síður til kvenna er sú að konur hafa verið hlunnfarnar í Sjálfstæðisflokknum og þetta skynja kjósendur. Málefni ungs fjölskyldufólks eru mér mjög hugleikin, svo sem menntamál, húsnæðismál og umhverfis- og alþjóðamálum. Ef við sköpum ekki aðlaðandi samfélag þá missum við einfaldlega ungt fólk úr landi. Ungt fólk hefur úr svo miklu að velja og aðstæður hér heima verða að vera samkeppnishæfar við það besta sem þekkist erlendis.
- Þú nefnir umhverfismál – þar hefur Samfylkingin kannski ekki verið mjög áberandi til þessa?
Sem betur fer eru umhverfismál ekki lengur á jaðri umræðunnar. Þetta er t.d. málaflokkur sem brennur mjög á ungu fólki. Umhverfismálin snúast um framtíðarsýn og þá ekki síst í samhengi við atvinnumálin. Samfylkingin styður skynsamlega nýtingu auðlinda. Samfylkingin er ekki kredduflokkur og styður stóriðju, séu ákveðin skilyrði uppfyllt. Þessi skilyrði eru m.a. þau að verkefnið sé efnahagslega hagkvæmt og skynsamlegt. Í öðru lagi að það hafi ekki umtalsverð skaðleg áhrif á umhverfið og í þriðja lagi ef það skýtur stoðum undir atvinnulíf á viðkomandi svæði. Að mínu mati þurfa þessi þrjú skilyrði öll að vera uppfyllt.
Samfylkingin vill því að farið sé í víðtækt hagsmunamat áður en hlaupið er til í stóriðjuframkvæmdir. Er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni? Ríkisstjórnin hefur hins vegar stutt stóriðju í blindni og réttlætt hana með veikum rökum. Stóriðja er ekki góð eða vond í sjálfu sér, við verðum að taka ábyrga afstöðu í hverju tilviki - en í mínum huga er alveg ljóst að framtíðin liggur ekki í stóriðju. Framtíðin liggur í hátækniiðnaði og þekkingarsamfélagi.
- Hvers vegna á ungt fólk að styðja Samfylkinguna?
Svarið við því er einfalt. Flokkurinn talar máli ungs fólks. Samfylkingin treystir ungu fólki til forystu og leggur áherslu á hagsmunamál þeirra. Samfylkingin setur málefni ungs fólks einfaldlega í forgang. Verkefnin blasa við, það hefur aldrei verið eins dýrt að eignast húsnæði, menntakerfið er fjársvelt, skattbyrði ungs fólks hefur stórlega aukist undanfarin ár, skuldir ungra einstaklinga hafa aldrei verið eins háar og matvælaverðið er í hæstu hæðum vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.
- Ágúst, þið hjónin eigið 2 ungar dætur, 3 ára og tæplega 1 árs, hvernig er að vera þingmaður og varaformaður flokks með tvö börn á leikskólaaldri. Líf og fjör á heimilinu?
Þetta gengur vel almennt séð, enda er ég mjög heppinn með kvonfang. Kona mín Þorbjörg Gunnlaugsdóttir hefur nefnilega líka mikinn áhuga á stjórnmálum og hefur stutt mig mikið. Það hefur líka sína kosti að vera í þessum sporum, það gefur manni auðvitað líka heilmikla innsýn í marga mikilvæga málaflokka, sem snúa að fjölskyldum og ég verð að viðurkenna að jafnréttis- og fjölskyldumál skipta mig meiru máli nú þegar ég á sjálfur tvær dætur.
Ég hef t.d. lengi furðað mig á skorti á leiksvæðum fyrir börn í miðborginni, þar sem foreldrar gætu t.d. setið á kaffihúsi og hitt aðra foreldra, meðan börnin leika sér í öruggu leikumhverfi. Maður sér t.d. hve afþreyingin er fjölbreytt í Kaupmannahöfn þar sem Nýhöfnin, lystigarðarnir og Tívólíið bjóða upp á mikla möguleika. Við eigum að hugsa stórt þegar kemur að fjölskyldu- og borgarmálum.
En þingstarfið er auðvitað ekki fjölskylduvænt og ég játa að það þarf að færa fórnir til þess að þetta gangi upp. Oftast ríkir óvissa um það, hvenær starfsdegi lýkur niður á þingi og kvöld- og helgarfundir eru óhentugir öllu fjölskyldufólki. Kosturinn við starfið er þó að það er ákveðinn sveigjanleiki. Enginn skipar þingmanni að skrifa greinar, fara út á land og á ráðstefnur, vinna þingmál eða að hafa samband við kjósendur - en það er skynsamlegt að gera það.
- Hvernig líst þér á kosningabaráttuna framundan?
Ég er mjög bjartsýnn, það er mikill baráttuhugur í okkar röðum. Mikið og gott innra starf hefur verið unnið og við stöndum vel að vígi. Við höfum nýverið að teflt fram feiknasterkum listum um allt land s.s. í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Árborg og Akureyri. Þegar leikgleðin ræður ríkjum þá er allt hægt! Við erum hungruð í sigur og það er sú tilfinning sem skilar árangri. Samfylkingin mun koma sterk út úr kosningunum."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband