Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað eigum við að kjósa um?

kjosaNýjasta könnun Capacent sýnir að Samfylkingin í Reykjavík suður hefur bætt við sig tveimur prósentustigum frá síðustu könnun. Hið sama var uppi á teningnum í vikunni áður en þá bætti flokkurinn einnig við sig um 2%. Af þessum tveimur könnunum virðist sem að viðsnúningur sé að verða á fylginu. Fylgið Samfylkingarinnar hefur því aukist um 4,3% á tveim vikum.

Það er í samræmi við þá tilfinningu sem við höfum fengið undanfarna daga og vikur þegar við höfum verið að hitta fólk og kynna áherslur okkar. Nú fer aukin harka að færast í kosningabaráttuna með umræðuþáttum og aukinni umfjöllun fjölmiðla.

Nú kynna flokkarnir hver af öðrum stefnumál sín. Og ég get ekki annað en nefnt það aftur hvað það er broslegt að fylgjast með stjórnarflokkunum nánast taka hamskiptum, því báðir flokkarnir virðast nú orðnir að mjúkum félagshyggjuflokkum. En auðvitað á ekki síður að dæma stjórnmálaflokka af fyrri verkum – en ekki aðeins loforðum til framtíðar.

Og þegar ríkisstjórnin er dæmd af verkum sínum er auðvitað ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að velferðarmálin séu ofarlega á forgangslista.

Það staðfesta 400 manna biðlistar aldraðra og hin fjölmörgu eldri hjón sem eru aðskilin á ævikvöldi sínu vegna skorts á búsetuúrræðum. Og það staðfestir barnafátæktin sem er helmingi meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og telur rúmlega fjögur þúsund íslensk börn og það staðfestir sú staðreynd að ríkisstjórnin skerti barnabætur um 10 milljarða krónur. Eldri borgarar 2

En það ekki bara að kjósa um velferðarmálin heldur einnig um stefnu í alþjóðamálum – um það hvort stuðningur ríkisstjórnarinnar við árásina í Írak var réttlætanleg.

Það á kjósa um það hvernig farið er með veitingarvald – hvort að fólk sé sátt við skipanir þessarar ríkisstjórnar í Hæstarétt. Og hvernig valdinu var beitt í Falun Gong.

Það á að kjósa um virðingu fyrir lögum landsins, hvort það sé eðlilegt að dómsmálaráðherra lýsi því yfir að jafnréttislög séu barn síns tíma eftir að hann hefur verið álitinn brotlegur við þau.

Það á að kjósa um það hvort við viljum ríkisstjórn sem beitir sér fyrir sértækum lögum sem beindust að einu fyrirtæki á borð við fjölmiðlalögin. Eða ríkisstjórn sem hindrar eðlilega sameiningu hjóna vegna þess að annar aðilinn er undir 24 ára aldri og af erlendu bergi brotinn. 

Það á að kjósa um hvort við viljum áfram ríkisstjórn sem heldur uppi einu hæsta matvælaverði í heimi, einu hæsta vaxtastigi í heimi, einu hæsta lyfjaverði í heimi og einu hæsta húsnæðisverði sem nokkur íslensk kynslóð hefur búið við.


Hversu langan tíma þarf Framsókn?

Mikið er skrýtið að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn sem er búinn að vera stöðugt í ríkisstjórn síðan árið 1971, að 4 árum undanskildum, skuli alltaf tefla sig fram sem hálfgerðum stjórnarandstöðuflokki í kosningum sem ætlar að gera hitt og þetta, laga og bæta.

Er þetta lið ekki búið að fá næg tækifæri til þess? Maður hefði haldið að síðustu 35 ár hefðu verið nægur tími.


Ljúft páskafrí

ári-Við fjölskyldan höfum átt notalegt páskafrí sem hefur einkennst af rólegheitum og mikilli samveru með stórfjölskyldunni. Við ákváðum að vera heima í bænum í fríinu og höfum þess í stað farið í barnaafmæli, í grillveislu á Seltjarnarnesinu í mígandi rigningu og nú í dag er stefnan tekin á kalkún hjá tengdaforeldrunum. Það er mikið tilhlökkunarefni enda eru tengdaforeldrarnir mikilir matgæðingar og listakokkar.

Dagurinn hófst hins vegar á því að dæturnar, sem er 4 og 2 ára, vöknuðu rétt fyrir klukkan sjö til að leita að páskaeggjum sem foreldrarnir höfðu falið í íbúðinni. Síðan höfum við maulað súkkulaði sem er nú kannski ekki alveg til fyrirmyndar en tilheyrir páskunum.

Jól og páskar hafa fengið meiri þýðingu eftir að börnin komu til sögunnar, maður upplifir þessar hátíðir sterkar með tvær litlar stelpur á heimilinu sem ráða varla við sig af spenningi. Það sama á reyndar við um afmælin, þeim er fagnað ógurlega og eldri dóttirin liggur iðulega andvaka af æsingi þegar að afmæli eru í nánd – og virðist þá litlu skipta hver það er.

Fríið þessa síðustu daga er hins vegar lognið á undan storminum. Kosningabaráttan er komin á fullt skrið.   Stemmningin í okkar herbúðum er ljómandi fín og ég verð að segja að það skiptir ótrúlega miklu máli. Kannanir hafa ekki verið alveg eins og við viljum hafa þær. En hitt skiptir þó miklu máli að sjá að tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi. Ríkisstjórnin mælist aftur og aftur fallin. Fólk vill sjá breytingar. Það liggur sömuleiðis fyrir að mjög margir eiga eftir að taka afstöðu og að það gera menn á síðustu metrunum. Þetta upplifðum við í síðustu baráttu. Við gengum sterk og samhent inn í baráttuna.

Síðustu daga hafa kannanir bent til þess að okkar mikla vinna undanfarnar vikur sé að skila sér. Fylgi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæminu sýnir að við höfum bætt við okkur einum þingmanni og Lára Stefánsdóttir er að mælast inni sem er sérstakt fagnaðarefni. samfylkingasól

En það virðist enn vera talsvert rót á fylginu og því þýðir ekkert annað en að halda áfram að hitta fólk og kynna hina frábæru stefnu Samfylkingarinnar og má þar nefna Unga Ísland, Fagra Ísland, Nýja atvinnulífið, Lífsgæði eldri borgara og neytendastefnu okkar sem gefur okkur mikla sérstöðu.


7-0

Jæja, aðalatriðið er að vera með og að styrkja góð málefni í leiðinni. En fjölmiðlungarnir tóku okkur víst naumlega með 7 marka forskot. Reyndar voru þeir að keyra einhverjum helköttuðum íþróttafréttamönnum og útvarpsmönnum sem fáir kunnu deili á. Við stóðum okkur þó ágætlega en öldungurinn í hópnum okkar, Ellert B. Schram fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn (67), blés varla úr nös á meðan við hinir vorum að deyja á vellinum.

En fjölmiðlarnir höfðu þetta og því er ástæða til að óska þeim til hamingju. En rosalega er líkaminn minn feginn að þetta gerist ekki aftur fyrr en eftir 4 ár.


Einungis hægt að sjá í dag

Í dag gerist stórviðburður sem enginn má láta framhjá sér fara. Þetta er örugglega eina tækifærið sem verður næstu 4 árin til að líta svona atburð augum. Því er um að gera að mæta. Ég er auðvitað að tala um pressuleik frambjóðenda og fjölmiðlafólks. Leikurinn verður haldinn í dag, laugardag, í Egilshöll kl. 15. Allir velkomnir og andvirði miðasölu rennur í góð málefni (Umhyggja, Blátt áfram og CP–samtökin).

Ég mun víst taka þátt í þessum herlegheitum ásamt félögum mínum. Ég hef reyndar ekki spilað bolta í nokkur ár. Reyndar var ég nokkuð liðtækur hér árum áður með stórfélaginu Gróttu United. Þar spilaði ég frá 5. flokki og þar til ég hætti þessu sprikli í 2. flokki. Tvisvar á mínum ferli hlotnaðist mér bikarinn ,,Mestu framfarir”.  Skiljanlega var ég mjög stoltur af þessari viðurkenningu en svo fékk ég þá skýringu að þessi bikar færi iðulega til þess aðila sem hefði verið í hvað versta formi af öllum í upphafi sumars. En bikar er þó bikar.

Hvet ykkur allavega til að mæta í dag.

 


Verkefni næstu ríkisstjórnar

peningar a treSeðlabankinn hefur nýlega sent frá sér þjóðhagsspá þar sem dregin er upp frekar dökk mynd. Meðal annars er gert ráð fyrir halla á opinberum rekstri á næsta ári, samdrætti og auknu atvinnuleysi . En það sem meira er að fjármálaráðuneytið gerir sjálft ráð fyrir halla hjá hinu opinbera á næsta ári. Það skiptir miklu máli að hafa þetta í huga þegar ný ríkisstjórn tekur við eftir 38 daga. Sú stjórn þarf því að taka til eftir óstjórn þessarar ríkisstjórnar.

Ég hef ítrekað skrifað um hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar og vil ég benda á nokkrar greinar sem hafa verið birtar í Morgunblaðinu. Má þar nefna greinina ,,Hvað varð um stöðugleikann?" sem birtist þann 17. febrúar sl., greinina ,,Falleinkunn í stjórn efnahagsmála" sem birtist 5. september sl., greinina ,,Almenningur geldur fyrir mistök ríkisstjórnarinnar" frá 28. ágúst sl. og loks greinina ,,Fjórar þjóðsögur" sem birtist 30. mars 2006.

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, skrifar í dag annars mjög fína grein um stöðuna í efnahagsmálum í Markaðinn í dag í Fréttablaðinu. Þar segir hún m.a.:

,,Staðan er því sú að Seðlabankinn spáir samdrætti og atvinnuleysi, í umhverfi þar sem ríkið örvar hagvöxt „big time" en Seðlabankinn dregur úr hagvexti með háum stýrivöxtum. Í mínum augum lítur dæmið þannig út að stýrivöxtum sé beitt til að ryðja veg fyrir athafnasama stjórnmálamenn. Er það virkilega ætlunin?"

Og síðan vísar hún í rit Seðlabankans sem segir orðrétt: „Samdrátttur er í raun óhjákvæmilegur og bein afleiðing af ofþenslu fyrri ára."

Það sem dæmin og hver einasta greiningardeild, bæði innlend og erlend, segja ásamt Seðlabankanum sjálfum, staðfestir það að þegar á hólminn er komið þá ræður Sjálfstæðisflokkurinn ekki við stjórn efnahagsmála. Fáir geta neitað því geti fólk einblínt á staðreyndirnar í stað flokkshagsmuna.


Hverju ætla Frjálslyndir að stjórna?

Nú er talsverð umræða um áherslur Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum en Frjálslyndir hafa sagt að þeir ætli sér að stjórna hverjir komi til landsins frá EES-ríkjunum út af einhverjum undanþágum sem þeir telja sig lesa úr EES-samningnum. Af því tilefni birti ég hér brot úr mjög fróðlegum pistli sem Árni Páll Árnason, lögmaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar, birti á heimasíðu sinni.

Þar segir Árni:

"Staðreyndin er sú að engin slík undanþága er fyrir hendi. Hin almenna regla 28. gr. EES-samningsins er að frelsi launþega til flutninga skuli vera tryggt í aðildarríkjunum og að í því felist afnám allrar mismununar milli launþega „sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum“.

Í 112. gr. samningsins eru almenn ákvæði um öryggisráðstafanir, sem ætlað er að gera samningsaðilum kleift að bregðast við því ef upp koma „alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum“. Slíkar öryggisráðstafanir „skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu“ segir ennfremur í greininni.

Í 113. gr. er mælt fyrir um að unnt sé að grípa til þessara ráðstafana að höfðu samráði við aðra samningsaðila og í henni felst samningsskylda um að leita samkomulags við aðra samningsaðila um viðeigandi viðbrögð.

 Í 114. gr. segir að ef „öryggisráðstöfun, sem samningsaðili hefur gripið til, veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt samningi þessum getur hver hinna samningsaðilanna gripið til jafn umfangsmikilla jöfnunarráðstafana gagnvart fyrrnefndum samningsaðila og bráðnauðsynlegar eru til að jafna umrætt misvægi.“

Yfirlýsing Íslands
Í tengslum við samningsgerðina lýstu íslensk stjórnvöld þeirri túlkun sinni að Ísland gæti nýtt þessar heimildir ef af framkvæmd samningsins myndi leiða „alvarlega röskun jafnvægis á vinnumarkaði vegna meiri háttar flutninga starfsfólks sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum“.

Þessi yfirlýsing er hins vegar einhliða yfirlýsing Íslands, sem bindur ekki hendur viðsemjenda okkar. Og jafnvel þótt hún gerði það eru skilyrði hennar ekki uppfyllt. Það hefur ekki orðið „alvarleg röskun jafnvægis á vinnumarkaði“. Þvert á móti: Vinnumarkaðurinn er í jafnvægi því atvinnuleysi er ekkert.

Engin undanþága
Það er öllum læsum mönnum ljóst að í þessum ákvæðum felst engin „undanþága .. sem samið var um í EES-samningnum, varðandi innflutning verkafólks“ eins og segir í auglýsingu Frjálslynda flokksins. Við getum gripið til aðgerða til að verjast alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum, en við þurfum að bera þær aðgerðir undir viðsemjendur okkar og eiga við þá samstarf um þær. Ef þær hafa mikil áhrif, mega þeir beita samsvarandi aðgerðum gagnvart okkur. Með öðrum orðum: Ef við beitum þessu ákvæði til að takmarka innflutning verkafólks verðum við að takmarka innflutning frá öllum aðildarríkjunum og þau geta þá takmarkað heimildir okkar til að nýta okkur frjálsa för til launavinnu eða náms í aðildarríkjunum.

Ef við förum þá leið að takmarka innflutning erlends vinnuafls eiga viðsemjendur okkar samningsbundinn rétt til að beita sams konar aðgerðum gagnvart Íslendingum sem nú eru að störfum eða við nám í Evrópusambandsríkjunum. Viljum við það?"


Þetta ætti að vera stærsta kosningamálið

Barn me- hattEf stjórnmál ættu að snúast um eitthvað eitt framar öðru þá ætti það að vera börnin. Mér finnst að málefni barna eigi að vera eitt stærsta kosningamálið. Þar eru stærstu hagsmunirnir á ferð.

Á meðan um 5.000 börn eru undir fátæktarmörkum, á meðan barnafátækt er tvöfalt meiri hér en á hinum Norðurlöndunum, á meðan 8.500 börn hafa ekki farið til tannlæknis á þremur árum, á meðan um 4.000 tilkynningar berast árlega til Barnaverndarstofu og á meðan ríkisstjórnin er búin að skerða barnabætur samanlagt um 11 milljarða kr þá er eitthvað að.

Þess vegna hefur Samfylkingin lagt fram ítarlega aðgerðaáætlun um hið unga Ísland.

Þar kemur m.a. fram að Samfylkingin vill:

1. Stytta vinnuvikuna í samráði við aðila vinnumarkaðarins

2. Fría tannvernd og afsláttarkort vegna tannviðgerða barna

3. Koma á sólarhringsaðstoð og ráðgjöf við unga fíkniefnaneytendur og börn með bráð geðræn vandamál

4. Ókeypis námsbækur í framhaldsskólum

5. Lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði í áföngum og breyta reglum þannig viðmiðunartími við útreikninga orlofs verði styttur og að orlofið nýtist einstæðum foreldrum að fullubarbapapa

6. Hækka barnabætur og vaxtabætur

7. Tryggja gjaldfrjálsa menntaleið í gegnum leik- og grunnskóla

8. Tryggja að öll börn geti tekið þátt í íþrótta-, tómstunda- og félagsstarfi

9. Að börn innflytjenda fái sömu tækifæri og þjónustu og íslensk börn, m.a. með stóraukinni áherslu á íslenskukennslu og stuðning í skólum

Annars má lesa um allar tillögurnar hér.


Að óttast ekki eigin þjóð

Kosningin í Hafnarfirði er mikill sigur fyrir lýðræðið. Þátttakan staðfestir að það er hárrétt aðferðarfræði hjá Samfylkingunni að gera íbúum kleift að kjósa með beinum hætti um mikilvæg málefni. Samfylkingin hefur beitt sér fyrir auknu beinu lýðræði og ég er sannfærður um að kosningar af þessu tagi eru framtíðarmúsík í íslenskum stjórnmálum.

Ég held að fólk kunni að meta þessa nálgun og að það er bjargföst trú mín að stórar samfélagslegar spurningar eigi að leggja í dóm kjósenda. Kosningin í Hafnarfirði fellur tvímælalaust þar undir. Þar tókust á tvö andstæð sjónarmið og mér hefur virst sem að kosningabaráttan hafi verið heiðarleg og málefnaleg. Gríðarlega mikil kosningaþátttaka sýnir ennfremur að þetta er málefni sem bæjarbúar hafa miklar skoðanir á og vilja hafa áhrif á það hver niðurstaðan verður. Lýðræðið fékk hér einfaldlega að hafa sinn gang.

Ingibjörg Sólrún fór þessa leið sem borgarstjóri þegar hún beitti sér fyrir því að borgarbúar gætu kosið um framtíð flugvallarins. Þingmenn Samfylkingarinnar með Jóhönnu Sigurðardóttur í fararbroddi hafa ár eftir ár lagt fram þingmál um rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslna. Okkar fulltrúar í stjórnarskrárnefnd, Össur Skarphéðinsson og Kristrún Heimisdóttur, hafa jafnframt lagt mikla áherslu á að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá  en við litlar undirtektir stjórnarflokkanna.

Okkar fólk í Árborg hefur verið frumkvöðlar í íbúaþingum hér á landi sem fjölmörg önnur sveitarfélög hafa síðan tekið upp. Og nú síðast var það hreinn meirihluti Samfylkingarfólks í Hafnarfirði sem ákvað að fara þá leið að leyfa íbúum bæjarins að ákveða hvort leyfa skyldi stækkun álversins í Staumsvík.

Samfylkingin óttast ekki að færa völdin til kjósenda. Við treystum lýðræðinu. 


mbl.is Fleiri andvígir álveri en fylgjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er búið að gerast undanfarin ár?

myndavelÉg verð að viðurkenna að hugmyndir Björns Bjarnasonar um 240 manna launað heimavarnarlið slá mig ekki vel. Ég hef oft vakið máls á því að við þurfum að velta því fyrir okkur á hvaða leið erum við eiginlega. Í vetur stofnaði Björn Bjarnason greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Þessi greiningardeild á m.a. að rannsaka glæpi áður en þeir eru framdir með svokölluðu áhættumati og forvarnarvinnu en í meðförum þingsins fengust ekki upplýsingar hvernig þessi vinna ætti að vera unnin. Í frumvarpinu voru síðan boðar auknar heimildir til lögreglu til að sinna þessari vinnu.

Á aðeins þremur árum hefur dómsmálaráðherra þrefaldað fjölda sérsveitarmanna og aukið fjárframlög til Ríkislögreglustjóra um meira en 30%.

Það er ekki heldur svo langt síðan þessi sami ráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi sem hefði heimilað símhleranir án dómsúrskurðar sem hefði án efa brotið gróflega á mörgum meginreglum persónuréttinda og mannréttinda. En þessum sömu stjórnvöldum tókst hins vegar að heimila að afhending á svokölluðum IP-tölu úr tölvum gæti verið án dómsúrskurðar en IP-tala er notuð til að tilgreina staðsetningu tölvu. Áður fyrr þurfti dómsúrskurð til að fá þessar upplýsingar.stori brodir

Og er fólk búið að gleyma Falun Gong og aðgerðum stjórnvalda í því máli? Eða símhlerunum stjórnvalda á pólitískum andstæðingum á tímum kalda stríðsins?

Það er því rík ástæða til að vera á varðbergi. Við skulum ekki gleyma því að skerðing á persónuréttindum er iðulega réttlætt með fögrum orðum. Frelsið fer sjaldnast í einu vetfangi heldur skerðist það hægt og rólega. Þessar aðgerðir eru ætíð stuttar með tilvísun í almannahagsmuni og hugsanlega hættu. Við megum því alls ekki verða blind á réttlætingarnar, því þær eru alltaf settar í fallegan búning.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 144687

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband