Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Baráttan gegn nauðgunum

Ég fór í Ísland í bítið í dag til þess að ræða um átak sem væntanlega fer fram nú í lok nóvember. Að því stendur hópur fólks sem er ósáttur við dæmdar refsingar í kynferðisbrotamálum. Með mér í viðtalinu var Kristín Ingvadóttir sem hefur sagt sína sögu í fjölmiðlum af mikilli hreinskilni og hugrekki. Mér finnst skipta miklu máli að þessi mál séu rædd opinskátt. Og mér finnst ekki síður mikilvægt að þau séu rædd frá sem flestum sjónarhornum. Auðvitað þurfa refsingar fyrir þessi brot að þyngjast. Núverandi dómar særa réttlætiskennd þjóðarinnar og eru ekki í samræmi við alvarleika afbrotanna.

Refsingar eru því stór þáttur og geta haft talsverð varnaðaráhrif. En það eru önnur atriði sem skipta ekki síður miklu máli. Það er að mínu mati að fleiri mál sem eru kærð fái efnislega meðferð í kerfinu - en í dag er það því miður þannig að mjög mörg falla niður í kerfinu og fleiri en í öðrum brotaflokkum. Það er einnig mikilvægt að kerfið sé þannig uppbyggt að þolendur þessara brota sjái einhvern tilgang í að kæra brotið.
70 nauðganir tilkynntar á ári
Allar nauðganir eru alvarlegar en rannsóknir hafa sýnt að konur eru líklegri til að kæra ef gerandinn er ókunnugur og ef mikið líkamlegt ofbeldi er samfara nauðguninni. Núna eru um 70 nauðganir tilkynntar til lögreglu á ári sem þýðir meira en ein nauðgun á viku. Hinar tilkynntu nauðganir eru einungis hluti af þeim nauðgunum sem eiga sér stað.

Mestu máli skiptir þó að við reynum einfaldlega að fækka og koma í veg fyrir kynferðisbrot. Það held ég að við gerum fyrst og síðast með því að ná til gerenda og opna augu þeirra fyrir þeim skaða sem valdið er með kynferðisbrotum. Það er auðvitað helsta markmiðið með umræðunni að þessum brotum fækki.

Lækkum skatta á eldri borgara

Ég birti grein í Fréttablaðinu í dag um eitt stærsta kosningamálið að mínu mati. Hér á ég að sjálfsögðu við kjaramál eldri borgara sem munu vera æ meira í forgrunni á næstu mánuðum. Hér má lesa greinina: "Við eigum að lækka skatta á lífeyristekjur niður í 10%. Það myndi þýða verulega kjarabót fyrir alla eldri borgara og ekki vera svo kostnaðarsamt fyrir hið opinbera. Ég lagði fram fyrirspurn á Alþingi um kostnað við þessa hugmynd og í svari við henni kom í ljós að þessi aðgerð kostar hið opinbera um 3,3 milljarða króna. Þetta er ekki mikið í ljósi þess að ríkisvaldið veltir um 370 milljörðum króna á ári.
Ég tók einnig upp á Alþingi hvort unnt væri að hafa sérstök skattleysismörk fyrir eldri borgara sem hafa nú þegar lagt ríkulegan skerf í uppbyggingu samfélagsins. Þá kom í ljós að væri farin sú leið að hækka skattleysismörk fyrir eldri borgara eldri en 70 ára upp í 150.000 kr. á mánuði kostaði það ríkissjóð um 5 milljarða króna.
Með því að skattleggja lífeyristekjur sem fjármagnstekjur í 10% skattþrepi í stað þess að skattleggja þær í 37% skattþrepi tekjuskattsins yrðu sveitarfélögin fyrir talsverðu tekjutapi þar sem þau fá hluta af tekjuskattinum en ekki krónu af fjármagnstekjuskattinum.
Við ættum þó ekki að drepa þessa hugmynd í fæðingu vegna þessa því það væri forsenda fyrir þessari aðgerð að ríkisvaldið taki allan þennan kostnað á sig en ekki sveitarfélögin. Það ætti að vera auðvelt ákvörðun væri ríkisvaldinu einhver alvara með því að færa raunverulegar kjarabætur til eldri borgara.
Síðan eigum við að hækka frítekjumarkið, draga úr skerðingarhlutföllum og afnema tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka eldri borgara. Það er því af nógu að taka þegar kemur að þessum málaflokki. Ég hef trú á því að málefni eldri borgara verði stærsta kosningamálið næsta vor. Og það er gott að svo verði. Metnaðarleysi og sinnuleysi ríkisstjórnarflokkanna í þessum málaflokki er því miður staðreynd. Við verðum að fara að forgangsraða í þágu eldri borgara.

Prófkjörsvertíðin hafin

Það er spennandi tímar í pólitíkinni núna og prófkjör haldin um allt land. Hin mikla þátttaka í prófkjörum Samfylkingarinnar eru að mínu mati hraustleikamerki og vitnisburður um það að fólk býst við miklu af okkur í vor. Sem stendur eru fjölmiðlamenn og almenningur mest við hugann við prófkjör Sjálfstæðisflokks í borginni sem fór fram í gær. Þar virtust nokkuð hörð átök eiga sér stað - og spurning hvaða afleiðingar það hefur fyrir flokkinn að Björn Bjarnason skyldi bíða ósigur. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að stuðningsmenn hans bregðast við úrslitunum og hvort að mönnum takist að græða sárin. Sennilega flækir það málin nokkuð að svo virðist sem átökin séu ekki eingöngu af pólitískum toga, heldur jafnvel persónulegum.
Fljótt á litið virðist staða formannsins sterkari eftir prófkjörið. Einn af hans helstu bandamönnum mun skipa efsta sæti á öðrum hvorum listanum í Reykjavík. Það er ástæða til að óska Guðlaugi Þór Þórðarsyni til hamingju með glæsilegan sigur. Hér virðist stiginn fram framtíðarleiðtogi.
Guðfinna Bjarnadóttir náði sömuleiðis frábærum árangri og hún er að mínu mati sigurvegarinn í þessu prófkjöri. Hún bauð sig fram í 3. sæti og náði því 4. og er ofar á blaði en Illugi Gunnarsson, Pétur Blöndal, ungu þingmennirnir og Ásta Möller. Árangur Guðfinnu gæti bent til þess að hún hafi notið góðvildar þeirra sem leggja línurnar í flokknum. Illugi Gunnarsson nær jafnframt fínum árangri og stimplar sig sterkt inn með góðri kosningu.
En það eru ekki bara Sjálfstæðismenn sem eiga spennandi prófkjör í vændum. Í gær fór fram prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi en úrslit munu liggja fyrir í kvöld. Um næstu helgi fer svo fram annað og mjög spennnandi prófkjör í Suðvesturkjördæmi þar sem að kjósendur standa frammi fyrir því að þurfa að velja á milli nokkurra mjög góðra einstaklinga.
Ég hef opnað kosningaskrifstofu í Síðumúla 13 þar sem ég ver drjúgum tíma. Við fjölskyldan fórum þá leið að útbúa þar lítið barnahorn svo við gætum verið þar sem mest saman og stelpurnar hefðu eitthvað til þess að dunda sér við á staðnum. Og það hefur gengið prýðilega. Prófkjör okkar Samfylkingarinnar fer fram 11. nóvember, þannig að enn er nokkuð í það. Frambjóðendur eru hins vegar langflestir byrjaðir í kosningabaráttu og spennandi stemmning eftir því.

Í hvalveiðum kristallast vanhugsuð atvinnustefna stjórnvalda

Það er ástæða til að taka undir með Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair, þar sem hann segir hvalveiðar vanhugsaðar. Sennilega er það einmitt kjarni málsins, að raunveruleg hugsun er ekki að baki þeirri ákvörðun að hefja hvalveiðar á ný. Ekkert tillit er tekið til annarra sjónarmiða sem þó vega mun þyngra en hagsmunirnir af því að hefja aftur veiðar. Það er barnaskapur að neita að taka tillit til þess hvaða áhrif veiðarnar hafa á ímynd okkar erlendis. Það er lykilatriði þegar ákvarðanir eru teknar í stjórnmálum að vega og meta hagsmuni og reyna að vera réttu megin við það sem mönnum þykir sanngjarnt og eðlilegt. Hér blasir einfaldlega við að verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og að auki er verið að stefna miklum hagsmunum í hættu til langframa.
Það getur tekið langan tíma að endurreisa traust almennings á fyrirtækjum bíði það hnekki. Það er ábyrgðarhluverk stjórnvalda að stefna þeirra geri íslensku atvinnulífi ekki erfiðara fyrir í alþjóðlegri samkeppni. Veiðarnar koma sér illa fyrir íslenska ferðaþjónustu og mögulega íslensk útrásarfyrirtæki.
Það er mikilvægt að menn þekki það þegar að atvinnustefna stjórnvalda er mótuð, hverju einstaka greinar skila til landsframleiðslunnar, en nokkur misskilningur er ríkjandi í umræðunni um framlag atvinnugreinanna. Frumframleiðslugreinar eins og landbúnaður og sjávarútvegur skila núna minna en 8% til landsframleiðslunnar en þessi hlutdeild var tæp 20% fyrir 20 árum. Breytingarnar sem eiga sér stað eru örar en það breytir því ekki að stjórnvöld verða að taka mið af því hver þróunin er við mótun framtíðaratvinnustefnu. Framlag menningar til landsframleiðslunnar er t.d. um 4% en hlutdeild sjávarútvegs er 6,8%. Þessi litli munur kemur án efa mörgum á óvart. Hlutur landbúnaðar af landsframleiðslunni er talsvert minni eða um 1,4%
Gamaldags hugsun ríkjandi hjá stjórnvöldum
Ferðaþjónustan er stöðugt að sækja í sig veðrið og hér liggja möguleikarnir. Þeir liggja einfaldlega ekki í því að veiða hvali, sem enginn vill kaupa en hafa í ofanálag þær afleiðingar í för með sér að veikja undirstöður annarra atvinnugreina sem eiga möguleika á miklum vexti – sé rétt að málum staðið.
Það er mikilvægt að geta horft til framtíðar þegar atvinnustefna þjóðarinnar er mótuð. Það eru margir spennandi möguleikar en það gildir að hafa næmi fyrir þeim og kjarkinn til þess að berjast fyrir þeim. Ríkisstjórn er föst í gamaldags hugsun og virðist vilja lítið annað en álver, virkjanir og nú síðast hvalveiðar. Þetta er að mínu mati hins vegar röng stefna.

Óhugnanlegar nauðganir í miðborginni

Fréttirnar af þremur nauðgunum í Reykjavík að undanförnu vekja svo sannarlega óhug. Það hefur ekki verið mikið um slíkar götuárásir hér í borg fram til þessa og mjög brýnt að koma í veg fyrir að slíkar árásir geti átt sér stað. Það er algjörlega óverjandi og óþolandi að konur geti ekki gengið óhultar um götur og að kynferðisafbrotamenn geti komist upp með slík brot. Ég er reyndar á þeirri skoðun að allar nauðganir séu jafnslæmar og það má velta því upp hvers vegna ekki er brugðist við öllum nauðgunum á sama hátt. Hér hefur almenningsálitið sennilega mikið að segja og það er t.d. þekkt staðreynd að konur kæra einhverra hluta vegna frekar nauðganir þegar þær eru framdar af ókunnugum mönnum. Staðreyndin er þó sú að flestar nauðganir eru framdar af mönnum sem eru kunnugir þolandanum.
Það er mikilvægt að borgaryfirvöld og lögregla vinni saman í þessu máli og það á auðvitað að vera algjör forgangsmál að taka á þessum brotum, handsama hina seku og stuðla að því að slík brot geti ekki átt sér stað í miðborginni. Ég er ánægður með viðbrögð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra og það er mikilvægt að hann sýni að honum sé alvara með því að koma í veg fyrir þessi brot.

Að sama skapi minnir þetta á að það er nauðsynlegt að skoða kerfið í heild sinni, skipulag borgarinnar, ákærutölur lögreglu, sakfellingu í dómstólum og kanna hvað við getum gert til þess að senda þau skilaboð út í samfélagið að kynferðisbrot eru ekki liðin hér á landi. Þar kemur líka til kasta stjórnmálanna. Kynferðisbrot, sem oftast bita á konum og börnum, hafa ekki vigtað nógu þungt í stjórnmálum fram til þess og bæði löggjöfin og dómstólarnir verið nokkuð íhaldssamir þegar kemur að þessum málaflokki. Því þarf að breyta.

Einföld leið til lausnar á erfiðum málum

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið í dag sem fjallaði um nauðsynina á nýju úrræði í okkar samfélagi þegar kemur að erfiðum málum. Greinina má lesa hér fyrir neðan. "Reglulega koma upp mál í íslensku samfélagi sem eru þessu eðlis að þau kalla á einhvers konar rannsókn eða úttekt á opinberum vettvangi. Meðal mála sem má nefna er einkavæðing bankanna, aðdragandinn að stuðningi íslenskra stjórnvalda við Íraksstríðið, fangaflugið, Landsímamálið, Baugsmálið, meðferð á meðlimum Falun Gong hérlendis ofl. Umræðan um meintar hleranir yfirvalda er af svipuðum toga og nú greinir menn á um það hvernig eigi að taka á málinu. Svo virðist sem stjórn og stjórnarandstaða séu almennt sammála um það að upplýsa eigi málið. Hins vegar eru áhöld um leiðir í því sambandi. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir óháðri rannsóknarnefnd í þeim anda sem Norðmenn komu á þegar þeir gerðu upp sambærilega mál, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur alfarið hafnað þeirri leið.

Hleranamálið á það sammerkt með framangreindum málum að hafa hleypt íslensku samfélagi upp í háaloft. Fyrir vikið virðist engin eiginleg niðurstaða í sjónmáli. Eftir standa hins vegar stórar og mikilvægar spurningar sem varða almenning miklu að fá upplýst um. Í íslenskum rétti hefur sárlega vantað sértæk úrræði til að taka á málum sem þessum, enda er langt í frá að sátt ríki um málsmeðferðina, eins og æskilegt væri.

Frumvarp um rannsóknarnefndir lagt fram
Vegna þessa úrræðaleysis lagði ég fram frumvarp um óháðar rannsóknarnefndir á Alþingi á síðasta ári, en í íslenskum rétti er ekki gert ráð fyrir skipun óháðra rannsóknarnefnda sem rannsakað geta mál sem varða almannahag. Hugmyndafræðin að baki frumvarpinu er einfaldlega sú að þessi úrræði séu fyrir hendi þegar mál af þessum toga koma upp, þannig að menn séu ekki að smíða úrræði þá og þegar málin koma upp, sem býður þeirri hættu heim að menn velja sér málsmeðferð sem hentar valdhöfum í hvert sinn.
Í frumvarpinu eru nákvæmar málsmeðferðarreglur m.a. um skýrslutökur, vitnaskyldu, réttarstöðu aðila og hvenær heimilt yrði að skorast undan því að svara spurningum nefndarinnar. Einnig er tekið á þeim upplýsingum sem njóta verndar upplýsingalaga. Er frumvarpið byggt á erlendri fyrirmynd, enda er víða í nágrannaríkjum okkar að finna lög um óháðar rannsóknarnefndir. Það er í sjálfu sér óeðlilegt að ekki sé að finna slíkt úrræði í íslenskum rétti.

Hlutverk slíkra nefnda er ekki að rannsaka og dæma í málum, enda er það hlutverk framkvæmdarvalds og dómsvalds. Rannsóknarnefnd er fyrst og fremst ætlað að skoða tiltekna atburðarás eða athöfn, leita skýringa og jafnvel að koma með tillögur til úrbóta þar sem eitthvað hefur farið úrskeiðis. Í kjölfarið geta vaknað spurningar um ábyrgð einstaklinga eða eftir atvikum, embættismanna.

Frumkvæði að skipun rannsóknarnefndar kæmi frá Alþingi en Hæstiréttur myndi velja og tilnefna nefndarmennina. Í Hafskipsmálinu frá árinu 1985 var þessi hátturinn hafður á. Ekki er gert ráð fyrir að alþingismenn sitji í nefndinni.
Tryggjum rétt heimildarmanna
Í samhengi við hleranamálið má ennfremur rifja upp annað frumvarp sem ég lagði fram í fyrra og gæti reynt á í þessum sambandi. Það er frumvarp sem lýtur að því að auka vernd heimildarmanna fjölmiðla til muna og heimila opinberum starfsmönnum að víkja frá þagnarskyldu vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Með samþykkt frumvarpsins yrði komið fram tækifæri til þess að upplýsa um mál sem varða almannahag, án þess að heimildarmaður gerist um leið brotlegur við lög.

Frumvarpið tryggir sömuleiðis bótarétt heimildarmanna verði þeir fyrir tjóni vegna uppsagnar eða annarra aðgerða af hálfu vinnuveitanda, í kjölfar þess að hafa látið í té upplýsingar sem varða ríka almannahagsmuni. Þessi úrræði geta vel átt við þá einstaklinga sem í dag telja sig hafa vitneskju um ólögmætar hleranir en leggja ekki í að koma fram opinberlega af ótta við afleiðingarnar. Það er einfaldlega ósanngjarnt að ætlast til þess að venjulegir launþegar taki slíka áhættu, eingöngu til þess að koma fram upplýsingum á framfæri.

Ég mun leggja þessi tvö frumvörp aftur fram á yfirstandandi þingi og það er mín trú að með samþykkt þeirra séu komnar fram forsendur til þess að leysa erfið mál á farsælan hátt, almenningi til góða."

Góð stemmning við opnun kosningaskrifstofunnar

Á föstudaginn opnaði ég formlega kosningaskrifstofu mína, sem er til húsa að Síðumúla 13. Ég var mjög ánægður með þann fjölda sem mætti - en þarna voru samakomin vel á annað hundrað manns - og ekki síður þá góðu stemmningu sem myndaðist. Ég er afskaplega þakklátur fyrir þann stuðning sem þarna birtist og held bjartsýnn af stað í kosningabaráttuna sem framundan er. Margrét Frímannsdóttir, sem réttilega er nefnd ljósmóðir Samfylkingarinnar, og Jón Baldvin Hannibalsson fluttu tölu. Það er auðvitað ekki ónýtt að láta þessa tvo miklu stjórnmálaforingja lesa manni pistilinn. Bæði tvö eru góðir ræðumenn og undantekningarlaust ánægjulegt og fróðlegt að hlusta á þau. Mér þótti mjög vænt um þeirra orð í minn garð. Við nutum þess síðan að fá að hlusta á skemmtilegan söng Margrétar Sigurðardóttur söngkonu við undirleik Björns Thoroddsen. Hægt er að sjá myndir af opnunni hér í hliðardálki.
Nú er kosningabaráttan komin á fullt skrið og frambjóðendur allir búnir að gefa upp í hvaða sæti þeir stefna. Ég býð mig fram í 4. sæti, sem er 2. sætið í öðru hvoru kjördæminu. Ég er svo lánsamur að njóta liðsinnis breiðs hóps í þessari vinnu og það gerir kosningabaráttuna vitaskuld enn skemmtilegri. Við verðum í kosningamiðstöðinni öll kvöld næstu vikurnar og þangað eru stuðningsmenn auðvitað hjartanlega velkomnir til þess að hitta okkur og leggja hönd á plóg.


Kominn í framboð

Nú hef ég tilkynnt að ég muni sækjast eftir 4. sætinu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem er jafnframt 2. sætið í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Af því tilefni birti ég hér fyrir neðan fréttatilkynninguna um framboðið: "Ágúst Ólafur var kjörinn á þing í alþingiskosningunum 2003 og var kosinn varaformaður Samfylkingarinnar árið 2005. Ágúst Ólafur er með háskólapróf í lögfræði og hagfræði frá Háskóla Íslands. Ágúst Ólafur er í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, allsherjarnefnd og er varamaður í utanríkismálanefnd og hefur einnig verið í heilbrigðis- og trygginganefnd. Þá situr hann í sérnefnd um stjórnarskrármál.

Ágúst Ólafur hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna. Hann var í stjórn þingflokksins, er nú í stjórn Samtaka jafnaðarmanna í atvinnurekstri og er einnig tengiliður þingflokksins við 60+, félags eldri borgara í Samfylkingunni.

Ágúst Ólafur hefur flutt fjölmörg mál á Alþingi undanfarin ár. Má þar nefna afnám fyrningar á kynferðisbrotum gagnvart börnum, aukna vernd heimildarmanna fjölmiðla, lengingu fæðingaorlofs, frumvarp um óháðar rannsóknarnefndir, gjaldfrjálsan leikskóla og lög gegn heimilisofbeldi.

Helstu áherslumál Ágústs Ólafs í prófkjörinu eru lækkun skatta á lífeyristekjur eldri borgara í 10%, aukin fjárfesting í menntun, málefni barna og kvenna og lækkað verð á matvælum.

Ágúst Ólafur er kvæntur Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur lögfræðingi og eiga þau tvær dætur, Elísabetu Unu 4 ára og Kristrúnu 1 árs. Ágúst Ólafur opnar kosningaskrifstofu sína í Síðumúla 13 föstudaginn 20. okt. kl. 17:30."


Er ákvörðunin um hvalveiðar smjörklípuaðferð?

Það var athyglisvert að fylgjast með því hvernig ríkisstjórninni tókst að vinda ofan af stöðugt óþægilegri umræðu um hleranir með því að fara að ræða hvalveiðar. Á þinginu voru bæði sjávarútvegsnefnd og utanríkismálanefnd Alþingis kallaðar saman í skyndingu, til þess að ræða mál sem hefur haft litla sem enga pólitíska þýðingu um nokkurra ára skeið. Hins vegar má treysta því að þegar rætt er um hvalveiðar þá skipa menn sér strax í andstæða fylkingar og því hægt að gera ráð fyrir því að fulltrúar ferðaþjónustunnar taki hugmyndinni illa en fulltrúar Hvals hf. fagni henni.
Sjávarútvegsráðherrann var í kvöld mættur í Kastljósið til þess að fara nú yfir málið, án þess að nokkuð kalli sérstaklega á þessa umræðu. Erlendir ferðamenn voru teknir tali og beðnir um álit sitt á því hvort þeir gætu hugsað sér að koma til Íslands ef hvalveiðar hæfust á ný. En það er nú sennilegast tilgangurinn með þessari umræðu. Á meðan að Einar K. Guðfinnsson situr í Kastljósinu og ræðir hvalveiðar er að minnsta kosti aðeins búið að kæla niður í hlerunarmálinu sem var orðið ríkisstjórninni verulega óþægilegt. Allt finnst mér þetta lykta af smjörklípuaðferðinni sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti þjóðina um að hann hefði haft sérstakt dálæti á í forsætisráðherratíð sinni. Þá dunda menn sér við eitthvað annað og umræðan fer aðeins af sporinu.

Tækifæri í ellefu ár

Í orði kveðnu taka flestir undir mikilvægi menntunar og að hana beri að setja í forgang. En er í raun einhugur um þetta markmið?
Þegar litið er til þess hvaða sess menntamál skipa þarf fyrst að gera greinarmun á því menntakerfi sem sveitarfélögin reka í gegnum grunnskólana annars vegar og hins vegar því sem ríkið rekur í gegnum framhaldsskólana og háskólana. Framlög sveitarfélaga í grunnskólana eru með því hæsta sem þekkist í heiminum og mikilvægt er að halda þeim góða árangri til haga. Jafnaðarmenn hafa leitt uppbyggingu flestra grunnskóla landsins með auknum fjárfestingum undanfarinn áratug, ekki síst í Reykjavík og í Hafnarfirði.

Sé hins vegar litið til fjárfestinga ríkisins í skólastigin sem hún rekur, þ.e. framhalds- og háskólana, kemur aftur á móti í ljós að Ísland er fyrir neðan meðaltal OECD þjóðanna. Skólagjöld við Háskóla Íslands hafa verið hækkuð jafnt og þétt og Háskólabókasafnið býr við lakan kost.

Sömuleiðis gerist nú í fyrsta sinn að nemendur geta ekki treyst því að komast í þá skóla sem þeir kjósa. Sú fjármagnsaukning sem hefur fengist í Háskóla Íslands undanfarin ár hefur ekki haldið í við fjölgun nemenda.
Stúdentar við Háskóla Íslands standa nú fyrir svokölluðum meðmælum með menntun sem m.a. felast í því að koma háskólamenntun á stefnuskrár flokkanna fyrir komandi kosningar. Þetta er gott og þarft framtak.

En ástæða er til að benda á að ríkisstjórnin hefur haft undanfarin 11 ár til að koma fram með metnaðarfyllri áform í menntamálum. Árangur ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið sem skyldi sérstaklega varðandi háskólana og ekki er unnt að halda því fram að menntamál hafi verið í forgangi hjá ríkisstjórninni.

Samhliða blasir árangur jafnaðarmanna við hvað varðar grunnskólastigið. Samfylkingin hefur á þingi lagt fram metnaðarfull þingmál sem gera ráð fyrir stórauknum fjárfestingum í menntamál. Með þeim verður unnt að ná fram markmiðum háskólastúdenta um þekkingarþjóðfélag, nýsköpun og jafnrétti til náms.

Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband