Um breytt útlendingalög

Útlendingamálin hafa stundum verið umdeild hér á landi og voru t.d. talsverðar deilur um breytingar á útlendingalögum á síðasta kjörtímabili. Eitt af síðustu verkum þingsins í vor var hins vegar að samþykkja mikilvægar breytingar á útlendingalögunum.

Í fyrsta lagi heyrir hin svokallaða 24 ára regla sögunni til. Þannig að nú hefur 24 ára aldursmarkið verið fellt úr skilgreiningu ákvæðisins á nánasta aðstandanda sem á rétt á dvalarleyfi. Verður að telja það til tíðinda enda óvenjuumdeild lagaregla þegar hún var sett.

Ofbeldi í samböndum
Í öðru lagi eru sett inn þau nýmæli að unnt verður að taka tillit til þess þegar ákvörðun er tekin um endurnýjun dvalarleyfis hvort að erlendur aðili eða barn hans hafi mátt búa við ofbeldi af hálfu innlends maka.

Miðar þessi breyting að því að fólk sem skilur vegna ofbeldis lendi ekki í því að þurfa að yfirgefa landið þrátt fyrir að forsendur leyfisins hafi brostið vegna slita á hjúskap eða sambúð. Það sjónarmið sem býr að baki þessari breytingu er að ekki skuli þvinga erlent fólk til að vera áfram í ofbeldisfullri sambúð. Það er því sérstakt fagnaðarefni að allsherjarnefnd Alþingis hafi lagt til að slíkt ákvæði yrði sett í löggjöfina.

Staða námsmanna bætt
Í þriðja lagi fá námsmenn aukið svigrúm þegar kemur að fyrstu endurnýjun dvalarleyfis en við mat á viðunandi námsárangri verður nú miðað við að útlendingur hafi a.m.k. lokið 50% af fullu námi í stað 75%. Er þannig komið til móts við þá erlendu nema sem kunna af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með að fóta sig í náminu á fyrstu mánuðunum við nýjar aðstæður.

Í fjórða lagi er tekið tillit til ungmenna sem koma hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir 18 ára aldur. Við 18 ára aldur standa þau frammi fyrir því að þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu þar sem ungmennið telst þá ekki lengur barn í skilningi laga. Hins vegar eru sanngirnisrök fyrir því að heimila erlendu ungmenni sem dvelur hér á landi að sýna fram á framfærslu með aðstoð foreldris. Því mun fólk nú getað endurnýjað dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, enda þótt þau teljist ekki til nánustu aðstandenda eftir að 18 ára aldursmarki er náð.

Stoð í baráttunni gegn heimilisofbeldi og mansali
Í fimmta lagi voru sett þau nýmæli að útlendingur fær ekki útgefið dvalarleyfi á grundvelli aðstandaleyfis ef fyrir liggur að væntanlegur maki hans hefur fengið dóm fyrir t.d. kynferðisbrot eða líkamsmeiðingar.

Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að vera stoð í baráttunni gegn mansali og heimilisofbeldi. Reynslan hefur sýnt að í sumum tilvikum verða útlendingar, sem hingað koma, t.d. sem makar, að þolendum ofbeldis og misnotkunar á heimili.

Þessu tengt verður stjórnvaldi einnig heimilt að óska eftir umsögn lögreglu til að afla upplýsinga um sakaferil gestgjafa þegar metið er hvort viðkomandi fái vegabréfsáritun. Sem dæmi um upplýsingar sem hér hafa þýðingu eru upplýsingar um dæmda refsingu í ofbeldis- eða kynferðisbrotamálum, kærur til lögreglu fyrir heimilisofbeldi, nálgunarbann o.fl. Ljóst er að fleiri upplýsingar kunna að hafa þýðingu en einungis upplýsingar um dæmda refsingu sem fram koma á sakavottorði. Útlendingastofnun getur einnig búið yfir upplýsingum úr eigin tölvukerfi sem hafa þýðingu við afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritun, t.d. þar sem gestgjafi hefur átt erlendan maka og hjúskap hefur verið slitið vegna ofbeldis í garð makans.

Á hinn bóginn er ljóst að slík synjun getur í einstökum tilvikum verið mjög íþyngjandi í samanburði við þá hættu sem er á ferðum og því er heimild til að meta hvert tilvik fyrir sig.

Tillit tekið til bótagreiðslna
Í sjötta lagi verður nú hægt við endurnýjun dvalarleyfis að taka tillit til þess að hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð og útlendingur því tímabundið þegið fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu laganna að það séu aðeins þeir útlendingar sem fengið hafa búsetuleyfi sem hér geta dvalist án tryggrar framfærslu.

Leyfið á nafn útlendingsins
Í sjöunda lagi er einnig vert að minnast á frumvarp frá Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, sem varð einnig að lögum á síðustu dögum þingsins, en það er um atvinnuréttindi útlendinga. Í því frumvarpi er tekið skýrt fram að atvinnuleyfi útlendings er nú gefið út á nafn útlendingsins eftir að hann er kominn til landsins og er útlendingurinn handhafi leyfisins.

Lögunum hefur því nú verið breytt frá þeirri reglu að atvinnurekandi sæki um og fái útgefið atvinnuleyfi þar sem atvinnuleyfi er nú gefið út á nafn útlendings. Þannig er atvinnurekandinn ekki eiginlegur umsækjandi um leyfið eins og verið hefur. Þessa breyting verður að telja mikilvæga réttarbót.

Það er því ljóst að nýtt þing hefur gert fjölmargar jákvæðar breytingar á útlendingalögum. Samstaða dómsmálaráðherra og þingmanna allsherjarnefndar var mikil og hafði sú samvinna grundvallarþýðingu um að þessar breytingar gætu orðið að lögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Toshiki Toma

Sæll, ágæti Ágúst.
Já, þetta er jákvæð þróun í málum útlendinga, þótt það hafi tekið rosalega langan tíma að komast í rétta braut.
Allt sem er nefnt hér er atriði sem við vorum að benda á frá langt síðan.
En samt er þetta góðar fréttir.

Toshiki Toma, 18.6.2008 kl. 16:23

2 Smámynd: Gísli Hjálmar

Bara gott mál ...

Gísli Hjálmar , 18.6.2008 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband