Góðar undirstöður í fjármálalífinu

Það skiptir íslenskt hagkerfi miklu máli að íslensku bönkunum farnist vel. En nú er ljóst að blikur eru á lofti í fjármálalífi þjóðarinnar. Ég hef áður ritað á þessum vettvangi að ég telji að Íslendingar hafi eignast nýjan undirstöðuatvinnugrein sem er fjármálageirinn. Framlag fjármálageirans til verðmætasköpunarinnar í samfélaginu er núna meira en samanlagt framlag sjávarútvegs, landbúnaðar og álframleiðslu.

Þess vegna er hið síhækkandi skuldatryggingarálag á íslensku bankana áhyggjuefni en það svarar til þess að vextir hafi verið hækkaðir allverulega á íslenska atvinnustarfsemi.

Fimm Landspítalar fyrir hagnaðinn
En í þessu umróti alþjóðlegs samdráttar megum við ekki gleyma því að undirstöðurnar eru tryggar. Íslensku bankarnir eru vel reknir en hagnaður þeirra fjögurra stærstu var í fyrra um 155 milljarðar króna. Þessi fjárhæð er fimmfaldur árlegur rekstrarkostnaður Landspítalans.

Heildareignir bankanna voru í árslok um 12.000 milljarðar króna sem er um tíföld landsframleiðslan. Eignir bankanna eru meira en 20 sinnum hærri en það sem íslenska ríkið veltir. Þessar tölur sýnar vel styrkleika íslenska bankakerfisins.

Íslenskt hagkerfi er einnig á traustum grunni. Ísland er sjötta ríkasta þjóð í heimi. Við erum með eitt besta lífeyrissjóðskerfi í heimi. Ríkissjóður er gott sem skuldlaus og afgangur á ríkissjóði í fyrra var um 80 milljarðar. Samkvæmt fjárlögum ársins í ár á afgangurinn að vera 40 milljarðar. Við höfum aldrei áður séð slíkar tölur í ríkisfjármálum þjóðarinnar.

Lækkun skatta
Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru hins vegar mjög meðvituð um að staðan getur verið viðkvæm. Nýlegir kjarasamningar voru þó afar jákvæð skref í átt að meiri stöðugleika og jöfnuði í samfélaginu. Aðgerðir stjórnarflokkanna í tengslum við kjarasamningana eru mikilvæg aðgerð í efnahagsmálum og á að stuðla að meiri bjartsýni á fjármálamarkaðinum.

Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar felast m.a. í því að lækka skatta á fyrirtæki, afnema stimpilgjöld fyrir fyrstu kaupendur og koma á fót sérstöku húsnæðissparnaðarkerfi fyrir ungt fólk. Endurskoðun á vörugjöldum og tollum er einnig mikilvægt skref til að auka verslunarfrelsi. Viðskiptanefnd þingsins er sömuleiðis nýbúin að afgreiða frá sér frumvarp um sérvarin skuldabréf sem mæta vel þörfum viðskiptalífsins.

Gerum Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð
Þá hefur ríkisstjórnin gefið út að hún muni stuðla að bættri upplýsingagjöf og betri ímynd íslenska hagkerfisins á erlendri grund. Slík vinna skilaði talsverðum árangri síðast þegar það var gert. 

Ég tel rétt að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks einhendi sér í gerð tillagna að Ísland verði að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Markmiðið á að vera að gera Ísland samkeppnishæfasta samfélagi í heimi en á því hagnast bæði fólk og fyrirtæki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sæll Ágúst Ólafur.

Varstu nokkuð búinn að gleyma að útskýra fyrir mér í hverju "stórfelldar kjarabætur" til handa elli- og örorkulaunþegum eru fólgnar sem þú skrifaðir um fyrir mjög mörgum vikum síðan?

Eins og þú kannski manst hef ég oft innt þig útskýringa. 

Það átti kannski enginn að taka mark á þér? 

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.2.2008 kl. 13:13

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Auðvitað er alþýðumaðurinn ekki svaraverður.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.2.2008 kl. 14:25

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

"Ég tel rétt að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks einhendi sér í gerð tillagna að Ísland verði að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Markmiðið á að vera að gera Ísland samkeppnishæfasta samfélagi í heimi en á því hagnast bæði fólk og fyrirtæki."

Þessar tillögur eru til. Halldór Ásgrímsson stóð fyrir því, svo ekki freistast til að skreyta þig með stolnum fjöðrum.

Gestur Guðjónsson, 26.2.2008 kl. 15:01

4 Smámynd: Ágúst Ólafur Ágústsson

Mér er það bæði ljúft og skylt að svara Heimi um kjarabætur til eldri borgara og öryrkja. En ég hélt satt best að segja að hann hefði lesið það hefur verið skrifað um þessi mál hér á síðunni sem og annars staðar.

Það sem hefur verið ákveðið í þessum málaflokki er eftirfarandi:

1. Skerðing tryggingabóta vegna tekna maka afnumin

2. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga að fullu afnumin.

3. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67-70 ára hækkað í 100 þúsund krónur á mánuði

4. Dregið verður úr of- og vangreiðslum tryggingabóta

5. Vasapeningar vistmanna á stofnunum hækkaðir um 30%

6. Ellilífeyrisþegar verði tryggt að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði.

7. Aðgerðir sem skila öryrkjum sambærilegum ávinningi verða undirbúnar í tengslum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu.

8. Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignasparnaðar afnumin

Þá get ég einnig nefnt aðrar jákvæðar aðgerðir í kjaramálum sem þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að ráðast í:

1. Skattleysismörkin hækkuð um 20.000 krónur fyrir utan verðlagshækkanir

2. Skerðingarmörk barnabóta hækkuð um 50%

3. Hámark húsaleigubóta hækkað um 50%

4. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta hækkuð um 35%

5. Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur

6. Lágmarksframfærsluviðmið sett í almannatryggingarkerfinu

7. Komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti fyrir 35 ára og yngri

8. Námslánakerfið verður yfirfarið með aukið jafnræði að markmiði.

9. Skattar á fyrirtæki lækkaðir

10. Atvinnuleysisbætur verða tryggðar hækkun

11. Framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu aukin

Af öðrum verkum ríkisstjórnarinnar get ég einnig nefnt eftirfarandi:

1. Stórbætt kerfi fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra

2. Breytt tekjuviðmið í fæðingarorlofslögunum

3. Afnám 24 ára reglunnar í útlendingalögunum

4. Þreföldun á fjármagni í heimahjúkrun á þremur árum

5. Afnám komugjalda á heilsugæslu fyrir börn

6. 50% aukning á fjármagni í Fjármálaeftirlitið á milli ára

7. 60% aukning á fjármagni í Samkeppniseftirlitið á 2 árum

8. 25% aukning á fjármagni í Umboðsmann Alþingis á milli ára

9. Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggð á fjárlögum

10. Tæplega helmingsaukning á fjármagni til samgöngumála milli ára

11. 40 milljarða króna afgangur af ríkissjóði samkvæmt fyrstu fjárlögunum sem Samfylkingin á aðild að.

Þótt ég segi sjálfur frá þá er þetta ekki slæmur listi eftir einungis tæpt ár við stjórnvölinn.

Bestu kveðjur,
Ágúst Ólafur 

Ágúst Ólafur Ágústsson, 27.2.2008 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband