Hvernig rættust spárnar?

Eins og alþjóð veit þá er nú mikill órói á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þessi órói endurspeglar e.t.v. tvennt. Hið fyrra er að hér, eins og annars staðar, gildir lögmálið um það sem fer upp hlýtur að einhvern tímann að koma niður. Og hið seinna er að nú er íslenskur fjármálamarkaður í miklu meira samræmi við það sem þekkist á alþjóðlegum mörkuðum sem eru einnig að ganga í gegnum talsverðar sveiflur og óvissu.

En við svona ástand er hin svokallaða hjarðhegðun fljót að segja til sín. Því þótt hlutabréfamarkaðir séu nú á niðurleið stendur sú staðreynd áfram óhögguð að íslensk fyrirtæki eru upp til hópa ágætlega rekin.

Annars er mjög áhugavert að velta því fyrir sér hvernig greiningardeildir bankanna höfðu spáð að árið 2007 myndi líta út.

Í fyrstu spá Glitnis á síðasta ári var gert ráð fyrir að 21% hækkun yrði á úrvalsvísitölunni á árinu 2007. Landsbankinn spáði þá 18% hækkun en taldi möguleika á 20-25% hækkun og Kaupþing spáði 25% hækkun úrvalsvísitölunnar.

Um mitt síðasta ár spáðu síðan Glitnir og Kaupþing 45% hækkun á árinu 2007 en Landsbankinn 37%.

Svo um haustið gerðu bæði Glitnir og Landsbankinn ráð fyrir um 35% hækkun og Kaupþing spáði að 33% hækkun yrði á úrvalsvísitöluna á árinu 2007.

En þegar árið 2007 var loks gert upp kom í ljós að úrvalsvísitalan hafði lækkað um 1,4%.

Það er spurning hvort Völvan hefði getað gert betur en greiningardeildirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Velkominn á síður bloggsins á nýju ári.

Hefur þú ekki haft góðan tíma til að vinna að svari við ítrekaðri spurningu minni? 

Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.1.2008 kl. 13:35

2 Smámynd: Steinn Hafliðason

Allt sem fer niður kemur aftur upp

Steinn Hafliðason, 8.1.2008 kl. 14:48

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Allt sem fer upp, kemur aftur niður.    Ég held allavega að fréttamennirnir á fjölmiðlunum ættu á þessu nýja ári að fá sér einhverja aðra viðmælendur en fólkið í greiningardeildum bankanna þegar þessi mál verða tekin til umfjöllunar.  Það er auðvitað ekki sniðugt að vera stöðugt að spyrja þá sem eru alltaf í því að tala hlutina upp úr raunveruleikanum.  

Þórir Kjartansson, 8.1.2008 kl. 15:51

4 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Ég bendi bara á það sem ég var að geðillskast áðan á blogginu mínu.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 8.1.2008 kl. 21:31

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gleðilegt ár Ágúst Ólafur.

Mæltu manna heilastur - lýðskrumið sem hefur viðgengist í kringum hlutabréfamarkaðinn er ótrúleg endileysa, hreint út sagt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.1.2008 kl. 22:26

6 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Ágúst Ólafur og gleðilegt nýtt ár.

Tek undir með Ólínu hér að ofan, lýðskrumið er ótrúlegt en bankarnir, þingmenn og jafnvel almenningur hefði alveg mátt vita að þessum ógurlegu hækkunum hlyti að ljúka á einum tíma eða öðrum.  Það er ómögulegt að spá, hvort heldur fyrir mig, völvuna eða greiningardeildir bankanna, um hvort hlutabréf muni hækka á þessu nýbyrjaða ári eða ekki. Eitthvað segir mér þó að það verði lengra í það en greiningardeildirnar telja.

Af því að ég er svo skemmtilega spámannlega vaxin og er hvorki eins og pera eða stundaglas í laginu þá spái ég því að hlutabréf muni ekki hækka fyrr en eftir að kjarasamningar eru í höfn. Það er því eins gott fyrir samningsaðila og ríkisstjórn að halda vel á spöðunum og koma í veg fyrir að kjarasamningar dragist úr hömlu. Það er ekki gott fyrir neinn.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 8.1.2008 kl. 22:51

7 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Hún Dharma er frekar geðill. Enda kannski búinn að tapa svo miklu á þessu alheimsgjaldþroti heimsfrjálshyggjunnar að hún kemur ekki fram undir nafni.

En það er greinilegt að þá finnum við ekki marga sem hafa vit á þessum málum. Bara starfsmenn þessara tveggja Verðbréfasjóða.

Það hefur allavega sannast á málflutningi allra hinna í þessum bransa að þeir féllu á prófinu.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 9.1.2008 kl. 13:25

8 Smámynd: Steinn Hafliðason

Sveiflur á mörkuðum er eðlilegt fyrirbæri. Markaðurinn hækkar og lækkar eins og öldurnar í sjónum og því ekkert óeðlilegt að það komi öldudalur í kjölfarið á hárri öldu.

Það sem er að gerast núna er hins vegar mjög alvarlegur hlutur sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna (of langt mál að skýra það út hér). Þeir atburðir eiga ekkert með hækkun á íslenskum hlutabréfum að gera, þetta er fyrirbæri sem er í gangi út um allan heim og sér ekki fyrir endann á.

Þetta á ekkert skylt við lýðskrum eða að standa sig í starfi. Þó að einhverjir tveir sjóðir hafi veðjað á þetta eru alltaf til aðilar sem veðja á rangan hest. Þetta gæti því alveg eins verið algjör tilviljun heldur en færni.

Það sem er að keyra þetta niður núna eru væntingar um lítinn og jafnvel neikvæðan hagvöxt og múgæsing um að allt sé að fara til fjandans. Það á hvorki skylt við lýðskrum, óheiðarleg vinnubrögð eða lélega frammistöðu greiningaraðila.

Að lokum mun markaðurinn róast og þá sjá menn að mörg fyrirtæki eru mjög undirverðlögð og næsta alda hækkana fer af stað.

Steinn Hafliðason, 9.1.2008 kl. 14:49

9 Smámynd: Gísli Hjálmar

Ég óska þér og þínum gleðilegs árs og friðar. Með þökk fyrir liðið.

Já, það hlaut að koma að því að eitthvað gæfi eftir. Þetta gat ekki gengið endalaust.

Gísli Hjálmar , 9.1.2008 kl. 19:34

10 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mjög áhugaverð umræða hér.  Tel hugsanlegt að hræðalan við hrun og kreppu geti valdið kreppu, ef bankarnir grípa til of mikils aðhalds í útlánum.

Annars bætir það úr skák ef ráðgjafar mæla með hlutafjárkaupum. Það gæti fleytt okkur upp úr lægðinni. 

Jón Halldór Guðmundsson, 12.1.2008 kl. 02:35

11 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ágúst Ólafur

Þetta er athyglisvert en eftir því sem ég hef fengið útskýrt hjá fjármálasérfræðingi sem stendur mér nærri, er ómögulegt að spá um þessa hluti með vissu og ef að vel gekk áður er ekki ástæða til að spá slæmu gengi.  Hins vegar hlýtur það alltaf að vera ábyrgðarhluti í öllu svona að aðvara fólk um að spárnar geti brugðist gjörsamlega.  Skorti slíkar aðvaranir er frekar hægt að gagnrýna það en spárnar sjálfar.

Takk fyrir síðast  - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 13.1.2008 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband